Untitled

Ég gleymdi strax setningunni sem átti að opna bloggið í dag. Fyrstu setningu bloggs dagsins. Finnst einsog ég komi þessu ekki óbrengluðu út úr mér. Og hvorutveggja er alveg skiljanlegt, verður mér ljóst þegar ég man skyndilega og óforvarendis hver fyrsta setningin átti að vera: Það er ekki til neitt kaffi á skrifstofunni. Allir skrítnu kaffipokarnir í senseovélina eru á bak og burt. Ég get sjálfum mér um kennt. Ég hef ekki keypt poka í svolítinn tíma. Sem er að hluta til vegna þess að mér finnst þetta andskotans senseokaffi svo vont. Var einmitt að hugsa í gærkvöldi hvort ég ætti ekki að stinga upp á því við kontórsystkini mín að við splæstum saman í almennilega kaffivél – svona gamaldags uppáhellingamaskínu. En nú er enginn á kontórnum og ekkert kaffi. *** Ég hef ímugust á allri „styttingu“ náms. Ekki svo að skilja að mér finnist ekki að fólk megi drífa sig í skóla ef því svo sýnist – en ég held að það sé líka afar mikilvægt að maður gefi sér tíma til að læra. Sennilega væri alveg hægt að klára menntaskólann á hálfu ári ef það væri gert með bootcamp-laginu. En það væri ekki gaman fyrir flesta og maður hefði voða lítinn tíma til að sinna öllu hinu sem fylgir námi – sérstaklega því námi sem á sér stað fyrstu 25-30 ár ævinnar, þegar maður er að finna sjálfan sig og uppgötva heiminn, ákveða hver maður ætlar að vera (í mjög, mjög grófum dráttum) og hvað maður þarf að vera búinn að lesa áður en maður deyr. Ég var sjálfur fimm ár í menntaskóla og þótti það engan veginn nóg. *** Viðtal Piers Morgan við Owl&Fox var að mörgu leyti áhugavert. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið hlutverk fjölmiðlamanna að vera hreinlega jafn leiðinlegir og leiðinlegasti maðurinn heima í sófa. Vera fulltrúi íhaldsins – eða andstöðunnar við málstað viðmælanda – til þess að það samtal geti yfir höfuð átt sér stað. Þannig að karlinn eða kerlingin (eða kynseginfólkið) sem hristir höfuðið að sjónvarpinu og spyr: MÁ ÉG ÞÁ BARA EKKI BREYTA MÉR Í APPELSÍNU? fái einhvers konar svar við fordómum sínum. Ekki veit ég hvort að Piers Morgan er bara þannig karl eða hvort hann leikur bara slíkan í sjónvarpinu, argumentsins vegna, ég sé aldrei þennan þátt, en ég held mér sé fúlasta alvara með að slíkur afkimi geri kannski gagn (hugsanlega líka ógagn, en veröldin er heldur ekki alveg hreinar línur). Hitt er svo aftur valid spurning að hversu miklu leyti maður megi „sjálfskilgreina sig“. Maður er ekki bara sá sem maður upplifir að maður sé, heldur líka sá sem aðrir upplifa að maður sé (og sá sem maður upplifir að þeir upplifi að maður sé o.s.frv. o.s.frv.). Ídentítet er ekki svo einfalt að maður stýri því bara sjálfur – það er viðstöðulaus speglasalur af fordómum og ranghugmyndum, nánd og sannleika, þreifingum og samningaumleitunum. Stundum sjálfskilgreinir fólk sig líka rangt eða í trássi við eitthvað siðferði. Þannig er t.d. í mörgum íhaldsömum kreðsum „rangt“ að skilgreina sig sem verandi af öðru kyni en því sem samræmist kynfærunum sem maður fæddist með. Og, einsog Piers Morgan benti vissulega á, þá er „rangt“ í mörgum líberölum kreðsum að skilgreina sig sem verandi af öðrum kynþætti en sem samræmist þeim húðlit sem maður fæddist með (sjá Rachel Dolezal – eða skáldsöguna Your Face In Mine ). Enn fremur er t.d. rangt – faktúelt – af Lafði Makbeð að skilgreina sig sem saklausa, einsog nóbelsverðlaunahafinn JM Coetzee nefndi einhvern tíma í viðtali og bætti við: Við höfum einfaldlega ekki sjálfdæmi um hver við erum. Sem þýðir svo aftur ekki að við megum ákveða hverjir aðrir eru heldur – maður hefur ekki sjálfdæmi um hver maður er, en maður er samt eitt helsta átorítet í málinu. *** Ég held það sé afar mikilvægt að maður taki skýra ákvörðun um hvað það er sem manni finnst ekki til umræðu. Og maður átti sig á því hvar sú grensa liggur.  Ég held að margir – sérstaklega íhaldssamir fullorðnir karlar, merkilegt nokk – haldi að þeir séu ekki með neina grensu. Það sé allt til umræðu, ekkert yfir strikið, ekkert fáránlegt eða viðbjóðslegt. En það er misskilningur. Sennilega snýst þetta um heimspekilega nálægð við valdið sem ákveður hvað sé innan og utan rammans – því meira sem maður er sammála meginstraumnum (sem er hugsanlega líka meginþorri manna, vel að merkja, ekki bara ríka fólkið sem á fjölmiðlana – en samspil þeirra við meginþorra manna er vissulega flókið) því auðveldar á maður með að ímynda sér að allt sé í raun „uppi á borðinu“. Hins vegar er líka alveg rétt að þeir sem koma að borði meginstraumsins með bænaskjöl sín láta líka svolítið einsog þeir hafi einkarétt á siðferðinu. *** Af hverju höfnum við því annars alltaf sem útúrsnúningi þegar spurt er hvort maður megi skipta um kyn bara af því bara (en ekki af því maður hafi fæðst í röngum líkama) – eða látum einsog kynhneigðir og kynferði geti ekki verið smitandi einsog önnur látalæti mannanna. Ég held til dæmis að gagnkynhneigð og sískynferði sé mjög smitandi. Ég er alveg hvínandi smitaður og hef lært bæði frá unga aldri. En hvernig er þetta hluti af argumentinu – væri ég verri hommi ef ég tæki ákvörðun um það, frekar en ef það væri eitthvað sem ég „fæddist með“? Væri ég verri kona ef ég færi í kynskiptiaðgerð fyrir forvitni sakir? Er ekki eitthvað skrítið við að draga línuna þarna?