Heilinn í manni verður undarlega bakaður af svefnleysi og líkaminn einhvern veginn í senn þægilega lúinn og dofinn og sárþjáður. Ég vaknaði klukkan 2 að íslenskum tíma eftir u.þ.b. tveggja tíma svefn og fór út á flugvöll í Basel – frá Saint-Louis, sem er 5 mínútur frá flugvellinum. Svaf í kannski hálftíma í Easyjet síldartunnunni sem flutti mig yfir skýin og fimm mínútur í Reykjavík Excursions Flybus – sem eru ábyggilega þær rútur sem ég hef komið í þar sem minnst er fótapláss. Ég get bókstaflega ekki komið fótleggjunum fyrir. Og samt þrjóskast þeir við að troðfylla rútuna þannig að það er heldur ekki hægt að komast upp með að taka tvö sæti. OG SVO ER EKKI EINSOG ÞETTA SÉ NEITT SÉRLEGA ÓDÝRT. *** Í umræðunni um plastlokin og nauðganirnar finnst mér svolítið vanta – og þetta er nittpikking – að afar mörgum sem fá ógeð í glasið sitt er alls ekki nauðgað. Það þarf sem sagt ekki bara að kenna fólki að nauðga ekki, heldur kenna því að setja ekki ógeð í drykki annarra – jafnvel þótt það telji líklegt að það muni sleppa því að nauðga þegar að því kemur. Eða einhvern veginn klúðra því. Og fyrst við erum farin að tala um varúðarráðstafanir, þá hef ég mjög slæma reynslu af því að stinga úr drykkjum kvenna. Strákar, ekki gera það, ekki einu sinni þótt þær séu með límmiða á glasinu. Maður veit aldrei hvað er í þessu. *** Og þessu tengt, þá hef ég afar litla samúð með því að nasistinn Robert Spencer hafi orðið fyrir eitrun. Það er ljótt af mér, þannig á maður auðvitað ekki að hugsa (og auðvitað er líka ljótt að gera, einsog margir, og draga í efa sögu mannsins – ég hélt að allir væru hættir slíku eftir nauðgunarumræðuna). En ég segi samt einsog pabbi, og sennilega er það líka ljótt: ég hélt að maðurinn nærðist á eitri. Og stundum finnst manni bara ákveðið réttlæti í því að illa sé komið fram við vont fólk. Svona einsog þegar eineltisseggir lenda í því að vera rassskelltir. *** Ég er sem sagt úrvinda. Sit á BSÍ og hlusta á Bubbalögin í kippum og bíð þess að mega fljúga heim til mín. Ég á að fara klukkan 17. Morgunvélin (sem ég hefði ekki náð ef hún hefði farið á réttum tíma; og nú er uppselt í hana) er í athugun klukkan 12. Stærsta hagsmunamál Vestfirðinga – ásamt heilsársvegi milli suður og norðurfjarðanna – er almennilegur flugvöllur sem á er treystandi. Þetta er rugl. *** Fyrir þrítugt kemur meira kaffi, orkudrykkir, sykur, matur, hormónar og/eða sígarettur og áfengi algerlega í staðinn fyrir góðan nætursvefn. Þetta hef ég sannreynt. Eftir þrítugt verður maður bara þreyttur. Svo fær maður höfuðverk. Þá byrjar maður að kvarta, einsog aumingi, og þá er baráttan töpuð. *** Ef fluginu verður aflýst snemma get ég fengið hótelherbergi. Þá fer ég bara að sofa. Annars sit ég hér og vinn a.m.k. fram á hádegi og fer svo og finn mér matarbita niðri í bæ. Og sef heima hjá mér. Það er meira að segja hugsanlegt að ég nái í restina á danssýningu barnanna minna. *** Reykjavík er ekki bara túristabær heldur líka hipsterbær. Hvorutveggja veldur verðhækkunum – eins konar gentrífíeringu á ofurfæðu (miðbær Reykjavíkur var náttúrulega partíbær/svefnbær þar til upp úr aldamótum og að mörgu leyti fínn sem slíkur). Veitingastaðirnir eru góðir en skelfilega tilgerðarlegir. Og dýrir. En góðir. Og ef maður vill ekki tilgerðina er alltaf hægt að borða afar heiðarlegan mat á BSÍ, rómantískasta veitingastað þjóðarinnar. Og sennilega bara rómantískasta stað þjóðarinnar punktur. *** Þetta eru auðvitað ekki fréttir fyrir neinn. *** Stundum finnst mér einsog bloggið sé glatað listform/lífsform. Og stundum skil ég ekki hvers vegna allir eru ekki alltaf að blogga.