Untitled

Ég hef mínar efasemdir um Costco. Bara svo það sé fært til bókar. *** Ég gleymdi að birta færslu gærdagsins. Ég skrifaði hana bara og ýti aldrei á birta. Hún var ópóstuð þar til áðan. Þar er úreldum staðreyndum lýst. Ég mun eiga auðveldari ferð til Parísar fyrir úrræðagæsku og almenna gæsku forlagsins míns, Editions Metailie. *** Gerði jóga aftur í dag. Gærdagurinn var annars ágætur. Við sátum í okkar bókmenntasalon, ég, Birger, Amalie, Dy og Ida og ræddum texta Idu og Amalie. Í dag erum við Dy á dagskrá. Birger stýrir umræðum og prógrami og fær engan lestur, þrátt fyrir að vera fyrsta flokks höfundur. *** Fyrir mína parta eru það Ljóð um fátækt og Ljóð um sýnileika úr Óratorreki sem eru á dagskrá. Svo les ég líka það fyrrnefnda á opnu prógrami í dag. Ég taldi það annars saman í gær og nú eru ljóð úr Óratorreki til á ellefu tungumálum. Og hafa sennilega birst í um það bil 20-25 bókmenntatímaritum og safnritum. Alveg án þess að ég færi í neina herferð með það, vel að merkja, þetta bara æxlaðist svona. En þetta er auðvitað lengri tími en þessi mánuður frá því bókin kom út – þessi ljóð hafa verið á sveimi síðustu fjögur árin eða svo. *** Noregur er einsog hann á að sér að vera. Auðugur og það verða allir mjög vandræðalegir ef maður nefnir það. *** Hér eru annars a.m.k. fjórir aðrir íslenskir karlmenn. Við Sjón vorum samferða hingað, einsog áður segir (og Ása með honum). Ég rakst í gær á Halldór Guðmundsson, landráðamanninn sem nú ætlar að stýra norðmönnum til sigurs í heimsbókmenntunum – Anti-Lars, kalla ég hann. Ég sé á Facebook að Sigurður Fáfnisbani Ólafsson, bókmenntagúrú og verkefnastjóri Norræna hússins, er á svæðinu – hann fór út að hlaupa í morgun. Og svo er Arnar Már Arngrímsson, höfundur Sölvasögu unglings og handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna norðurlandaráðs, á dagskránni, svo hann hlýtur að vera hér einhvers staðar líka. Ekki þar fyrir að það er einhver pest að ganga – það vantar þrjá í bókmenntasalonið okkar. Kannski er hann bara lasinn. *** Vegna þessara veikinda byrjum við seint í dag. Sváfum út. Klukkan er að verða ellefu í skandinavistan.

Untitled

Ég gerði jóga núna á hótelherberginu mínu eftir morgunverð og ætlaði að fara í sturtu þegar ég var búinn. Og rétt þegar ég var að stíga upp í sturtukarið rann það upp fyrir mér. Ég fór í sturtu í nótt. Ég vaknaði, var viss um að það væri kominn dagur, skellti mér í sturtu og ég man ég var mjög ringlaður og átti í mestu vandræðum með að stilla hitann á vatninu. Svo kom ég fram úr, þurrkaði mér og leit á klukkuna sem var 5 að nóttu. Ég fór bara aftur að sofa. *** Einu sinni gerði ég jóga daglega. Ég þarf að taka þann sið upp aftur. *** Ég hef tekið ákvörðun um Frakklandsförina. Ég kaupi mér rútuferð norður til Þrándheims og eyði þar svefnlausri nótt á flugvellinum til að ná 6.00 fluginu til Kaupmannahafnar og fer svo þaðan til Parísar. So be it. Frakkarnir voru alveg vonlausir þegar kom að því að breyta fluginu, gegn gjaldi eður ei, röfluðu bara fram og til baka um að það væri augljóslega mjög flókið, þeir hefðu ofsalega mikið að gera, og þeir vissu ekki hvað þeir ættu til bragðs að taka. Ég hef kannast við að það geti kostað peninga að breyta flugmiðum og sé jafnvel stundum mjög dýrt. En ég hef aldrei áður lent í að sjálf tilhugsunin vaxi mönnum svo yfir höfuð að það reynist ómögulegt. *** Ferðaáætlunin mín er þá sirka svona.

Föstudagur: Lillehammer, sirka 16-17, rúta til Þrándheims sem kemur sirka 23-00.

Nótt á flugvelli.

Þrándheimur: 06.00 – Kaupmannahöfn 07.35

Kaupmannahöfn 08.25 – París 10.20

París CDG 14.49 – Rennes 17.47

Rennes 18.30 – Saint Malo 19.30

Sofa. *** Svona 26-27 tíma ferð. Það versta er eiginlega að þetta eru allt svo stuttir leggir að það er hæpið að ég nái nokkuð að sofa. Það er gott að ég er ekki nema tvítugur og þetta verður því ekkert mál.

Untitled

Raunir mínar halda bara áfram. Eða á þeim finnst a.m.k. engin lausn. Mér gengur ekkert í samningaviðræðum við Frakkana um hvernig sé best að koma mér til Parísar á laugardagsmorguninn. Ég á flug frá Þrándheimi til Kaupmannahafnar og þaðan til Parísar – ég er augljóslega í Lillehammer en ekki Þrándheimi, en gæti reddað mér til Kaupmannahafnar áður en vélin þaðan fer, en vantar mest að fá staðfestingu á að ég geti farið um borð í vélina þar, ef ég var ekki í vélinni frá Þrándheimi. En Frakkarnir svara mér ekki með neinu nema einhverju röfli um að þetta sé mjög, mjög flókið. *** Í ofanálag finn ég ekki matarmiðana mína – eða þeir voru ekki í umslaginu sem ég fékk – og hótelið er bókað einni nótt of lítið. Ég fer á laugardag en hótelið er bara bókað fram á föstudag. *** Við Sjón og Ása hans vorum samferða frá BSÍ; mest samt eiginlega samtíða á Joe & The Juice á Gardermoen. *** Annars eru vinir mínir ekkert komnir til Lillehammer. Þeir koma á morgun. Og samstarfsmenn mínir. Ég er að fara að taka þátt í lokuðum bókmenntasalon hér í einhverju bakherbergi. Ég fékk kål – norska kjötsúpu – í kvöldmat. *** Ég hef alltof miklar áhyggjur af þessum flugmálum.

Untitled

Ég er á Hressó. Hér er skítugt og sjúskað, það er vond lykt á klósettinu og setan er brotin, kaffið bragðast einsog rafgeymasýra, tónlistin er ólýsanlega slæmur teknóviðbjóður og kúnnahópurinn samanstendur af sundurleitum utangarðsmönnum. Ég kann voða vel við þetta. Einsog BSÍ. Hér líður mér einsog ég sé enn í raunveruleikanum. *** Ég veit ekki hvers vegna ég er svona lítið gefinn fyrir fágun og fullkomnun, en það er samt staðreynd. Það hefur ekki bara með gentrifieringu að gera eða veitingastaði – ég kann heldur ekki við bókmenntir sem eru „of vel“ skrifaðar. Eða bíómyndir, sjónvarpsþætti, tónlist, málverk eða aðra myndlist, greinar, fólk o.s.frv. Og það hefur að gera, einsog ég segi, með einhverja óraunveruleikatilfinningu. Einsog það sé lygi ef það er ekki pissufýla á klósettum. Auðvitað veit ég að þetta er ekki rökrétt. Sennilega er betra ef það er hreint og fínt – sennilega er gentrifiering bara framfarir. En það breytir ekki upplifun minni. *** Ég vil ekki bara að textinn sé skítugur – stíllinn hlaupi út undan sér – að mér finnist ég vera staddur í tilraun eða tilgátu sem ekki er víst hvort gangi upp, að við séum að hugsa saman, ég og höfundurinn – heldur vil ég að frásögnin brjóti á sjálfri sér, sé ósamkvæm og að einhverju leyti óskýr, það séu ekki allir endar hnýttir. Það geti allt gerst, framvindan sé ekki bara einsog að telja einn, tveir, þrír. Og ég vil alls ekki ná utan um allt eða hafa skýra hugmynd um það eftir á hvað sagan var „um“. Ég vil að hún veki forvitni mína og sæði hennar spíri í höfði mér, hjarta mér, útlimum, einsog eirðarleysi. *** Ég get notið fullkomnunarinnar sem túristi. Í augnablik og augnablik. Get stigið inn í Bláa lónið – eða út í það, réttara sagt – og fundist það skemmtilegt, eða allavega fyndið. En það þarf að vera skýr útleið. Og mér þarf að finnast ég gestur, utanaðkomandi, aðskotahlutur, að ég renni ekki saman við umhverfið. *** Ég fann fyrst fyrir þessari tilfinningu á Söder Malm í Stokkhólmi árið 2007. Á Medborgarplatsen. Þar voru allir svo fallegir og ungir og heilbrigðir, enginn sjúskaður eða reykingamaður, allir bara eitthvað að drekka soja latté. Í góðu formi með vel snyrt skegg. Ég man líka þegar ég fór inn í verslunarmiðstöðina og gekk inn á grænmetisbar þar sem var fallegasta grænmeti sem ég hef séð. Það var svona rakatæki sem úðaði vatni yfir grænmetið – eða vatnsgufu. Og ég hugsaði að sennilega hefði þetta grænmeti það betra en flest fólk í heiminum. *** Svona staðir – sérstaklega stærri borgir – verða líka svo fljótt að einhverju húsnæðismarkaðarhelvíti. Stokkhólmur, New York, Reykjavík, Helsinki – ótrúlega stór hluti allra samræðna í þessum borgum snúast um það hvernig fólk býr, hvað það borgi, og hvort það sé eitthvað að losna. Þangað hópast listamenn í þeirri trú að þar sé best að skapa – í leit að einhvers konar félagslegu samhengi fyrir list sína – en enda svo flestir á að vinna 60 tíma á viku við eitthvað kjaftæði til þess að hafa efni á leigunni. Og gastrópöbbunum. Sushiinu. Craftbjórunum. *** En svo fíla ég mannfélagið. Ég fíla hús og byggingar. Virkjanir og álver og uppistöðulón þykja mér ekki ljót í sjálfu sér (sem þýðir ekki endilega að ég sé hlynntur þeim). Mér finnst meira að segja umferðin geta verið glæsileg (þótt hún sé sjaldan nógu vel heppnuð; alla jafna of mikill glundroði). Áðan var ég að ganga í gegnum Hljómskálagarðinn þegar það flaug flugvél beint yfir hausinn á mér og ég hugsaði að þetta þætti mér ótrúlega magnað. Beinlínis töff. Mikilfenglegt. Sennilega hefur það líka með afstöðu mína til flugvallarins að gera. Þá staðreynd að ég nota hann. Og kannski að í átökunum milli borgar og landsbyggðar sé flugvöllurinn táknrænt mikilvægur sem eini vettvangurinn þar sem landsbyggðin beinlínis hefur vinninginn. Hvort hann er síðan sjálfur praktískt mikilvægur eða nauðsynlegur er ég ekkert alltof viss um. En ég er sem sagt dálítill gamaldags fútúristi innst inni. *** Ekki alltaf samt. Stundum er ég líka náttúrudýrkandi. Það vex með aldrinum. Ég stend mig oftar og oftar að því að dást að landinu. Það gerði ég aldrei þegar ég var yngri. Þegar ég var tvítugur hefði það þess vegna getað verið ósýnilegt. Ég hefði aldrei gefið mér eina mínútu til að dást að fjalli. Nú dáist ég oft að fjöllum. Og verksmiðjum. Eldiskvíum. Skuttogurum. Trillum. Túnum. Trjám. Mér finnst meira að segja illa malbikaða gatan mín svolítið falleg, með öllum sínum holum og uppfyllingum. *** Ég er sem sagt kominn til Reykjavíkur. Ég á enn eftir að finna út úr því hvernig ég kemst frá Lillehammer til Parísar. Hugsanlega fer bróðurparturinn af launum ferðarinnar í að leysa þetta mál. O jæja.

Untitled

Tvær litlar súrar gúrkur. Einn bragðsterkur tómatur skorinn í báta. Tvær fátækir riddarar – einn með rauðu pestói og annar með einhverju gúrmesinnepi sem ég keypti í Frakklandi um daginn. Sex grænar ólífur. Tveir skinkubitar. Lítill bátur af velskum snowdoniaosti, sem ég hef sennilega bara keypt hér úti í búð (en sver ekki fyrir það). Dálítið af fleur-de-sel. Þrír litlir MS-mozzarella boltar (sem ég keypti ekki og voru alveg jafn mikil vonbrigði og síðast þegar ég smakkaði þá). Ég raðaði þessu öllu mjög snyrtilega á disk og hafði með því nýlagað espresso og ávaxtasafa. Svo hugsaði ég um að taka mynd. Ég ímyndaði mér að ég hefði tekið mynd og deilt henni með ykkur en ákvað svo að eiga þetta bara fyrir sjálfan mig. Nú er það auðvitað um seinan. *** Ég er að fara til Noregs í næstu viku, á bókmenntahátíðina í Lillehammer. Þangað hef ég ekki komið en mér skilst að hún sé stærsta bókmenntahátíð norðurlandanna. Þaðan fer ég svo til Saint Malo í Frakklandi á aðra bókmenntahátíð. Nema hvað ég var að skoða ferðaáætlunina mína og uppgötvaði að ég hafði sagt frökkunum að kaupa miða fyrir mig frá Þrándheimi (!). Ég er með hryllilegt track record í ferðalögum til Frakklands – ég er fastagestur í sendiráðinu í París til að láta redda mér neyðarpassa, sem og hjá konsúlum úti á landi. Ég er alltaf eitthvað að klúðra. Fólkið á forlaginu mínu hlýtur að halda að ég sé hálfviti. Og sennilega hefur það rétt fyrir sér. *** Mér finnst líka og hefur fundist frá því ég vaknaði að ég sé að gleyma einhverju sem ég ætlaði að gera í dag. Sennilega kemur ekki í ljós hvað það er fyrren það er orðið of seint.

Untitled

Ég ætlaði að fara að halda því fram að svona stakir vinnudagar – föstudagar eftir almenna frídaga – væru svo erfiðir, maður kæmist aldrei í gang, en svo mundi ég að ég tók mér ekki frí í gær, nema bara um morguninn og vann lengur fram eftir. Svo það er víst ekki afsökunin. Í dag var ég bara lengi í gang, Aino var lengi í gang og við dóluðum yfir morgunmatnum, svo þurfti ég að fara með bílinn á dekkjaverkstæði, síðan fór ég í ræktina og eftir ræktina var fundur í framkvæmdaráði hljóðvarps Vestfjarða og svo er bara hausinn á mér tómur. *** Í fyrradag skrifaði ég senu sem mér fannst alveg sikk góð. Í sjálfu sér var ég bara að endurskrifa hana – taka prósa og breyta í leikrit – en ég var alveg fáránlega ánægður með það hvernig til tókst. Í gær las ég hana yfir og lagfærði og var ekki alveg jafn sannfærður. Í dag þori ég bara ekki einu sinni að líta á hana. Og ætla ekki að gera það. Ætla bara að halda áfram. *** Ég var að kaupa sumardekk og er að skipta. Miljöfanatíkerum er bent á að ég keyri sama og ekki neitt innanbæjar, ég hjóla – og þegar ég ætlaði að gera þetta um daginn, fyrir 2-3 vikum, var ég líka á leiðinni suður fljúgandi og það var ófærð á heiðum og ég sá fram að þurfa hugsanlega að keyra ef flugi yrði aflýst. Og sló þessu á frest. Svo voru dekkin mín ekki til og ég þurfti að bíða eftir að þau kæmu að sunnan. Þannig að ég er afsakaður. *** Eldhúsið er að verða komið í samt lag. Vantar bara vaskinn. Ég er að reyna að hóa saman í strákadinner á morgun. Það er alveg nýtt konsept á mínu heimili. Nadja er í menntaskólaútskrift. *** Ég er að venjast því að vinna undir risastóru málverki af sjálfum mér. Sennilega er megolómanían bara að vaxa saman við mig – bráðum hætti ég að taka eftir því hvað ég er mikill alfahrútur, allur alltaf að gera mig breiðan og klóra mér í pungnum.

Untitled

Í gær eða fyrradag sá ég mann stinga upp á því á Facebook að ættingjum sjálfsmorðsíslamista, og hugsanlega klerkum þeirra og safnaðarsystkinum, yrði vísað úr landi í refsingaskyni. Það myndi hafa letjandi áhrif. Því auðvitað vilja hryðjuverkamenn ekki skapa kaos og þeir gæta sín alla jafna mjög vel að glæpir þeirra bitni ekki á saklausu fólki, sérstaklega ekki múslimum (langsamlega flest hryðjuverk íslamista eru reyndar framin gegn múslimum, en látum það liggja milli hluta). Svo er það líka bara sanngjarnt. *** Það væri reyndar áhugavert að taka þetta upp á fleiri sviðum. Segjum til dæmis að í stað þess að sekta ríkt fólk fyrir of hraðan akstur – fólk sem munar ekkert um örfáa tíuþúsundkalla af og til – þá sektum við fátæka ættingja þeirra. Og langt leiddir eiturlyfjasjúklingar sem er alveg sama þótt þeim sé stungið inn – hvað með að fangelsa mæður þeirra í staðinn? Væri það ekki líklegt til þess að hrista aðeins upp í dauðvona samviskum fíklana? Og auðvitað bara sanngjarnt að refsa mæðrunum fyrir að ala þá ekki betur upp. *** Ég ætlaði að skrifa eitthvað á Facebook í gærkvöldi en hætti svo við af því það gæti misskilist sem einhvers konar smekkleysi. Sennilega var það þetta: „Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ekkert ykkar sé að drífa sig nóg með lífið. Koma svo. Þetta drepur sig ekki sjálft.“ Það sem sló mig var að einhver gæti haldið að ég væri að hvetja til sjálfsmorð – þetta væri einhver sínísk hæðni (fólk heldur mjög oft að ég sé sínískur og kannski er ég smá sínískur en það er líka von og kærleikur í mér, ég lofa). En þetta var sem sagt rósamálsgagnrýni á styttingu framhaldsskólans og það sem var alltaf kallað „lífsgæðakapphlaupið“ (nú finnst mér einsog enginn hafi notað þetta orð lengi – þótt það hafi aldrei átt betur við en á hipsterískum tímum viðstöðulausrar gentrifieringar). *** Á síðustu helgi bað Aram mig um spinner og varð alveg vitlaus af fýlu þegar hann var ekki til í Hamraborg. Ég fékk að sjá svona hjá einum vini hans og varð mjög forvitinn um tilurð þessa, hvað þetta væri, sá engan augljósan leik þarna. Ímyndaði mér einhvern mann (því karlar gera allt í höfðinu á manni) sem hefði sett þetta saman og hugsað: krakkarnir verða vitlausir í þetta. Sem liggur alls ekki beint við. Áðan gúgglaði ég þessu og komst að því að það var auðvitað kona sem fann þetta upp og það var á tíunda áratugnum, þótt leikfangið hafi ekki náð vinsældum fyrren í ár. Hún fékk innblástur að því að búa til róandi leikfang – þetta er meðal annars hugsað fyrir ofvirk börn – þegar hún sá hóp reiðra palestínskra barna grýta ísraelskan skriðdreka. Og hugsaði: Þessi börn þurfa hugarró. Og þar hafiði það. Spinnerinn var fundinn upp til þess að stöðva uppreisn palestínumanna og sefa reiði þeirra. *** Í fyrradag, þegar verið var að opna Costco, skrifaði ég líka status sem var svona: „Hugur minn er hjá Hennes och Mauritz.“ Hennes og Mauritz eru auðvitað H&M mennirnir – sveitungar mínir frá Västerås, þar sem fyrsta H&M verslunin stendur. Í mörg ár hefur þjóðin haft móðursýkislegan áhuga á þessum lágvörutískuvarningi og mögulegri opnun H&M verslunar á Íslandi. Nú fer hún fljótlega að opna, hafi ég ekki misskilið eitthvað. Og þá kom bara ameríski risinn og stal þrumunni þeirra með bravúr. Það fer sennilega fyrir H&M á Íslandi einsog Subway á Ísafirði – það var barist fyrir opnun Subway árum saman, síðan opnaði staðurinn loksins, allir keyptu sér eina samloku og svo fór hann á hausinn. Nú er tælenskur staður í rýminu, alveg nákvæmlega eins tælenskur staður og í rýminu við hliðina – og gengur betur en Subway, þrátt fyrir það. *** Nema hvað. Ég var auðvitað sakaður um að gera lítið úr atburðunum í Manchester. Af „vonda fólkinu“. Og ég sem hélt að „góða fólkið“ hefði einkarétt á að telja sig triggerað af vafasömu gríni – jafnvel þegar enginn fótur er fyrir því – þannig virkar það líka oftar, a.m.k. fyrir mig, ég fæ reglulega skammir og var m.a.s. nýlega neitað um birtingu ljóðs, sem hafði verið samþykkt, í kanadísku tímariti, af því það væri svo beinskeytt (það var ekkert beinskeytt). *** En svo hvarflar að mér að kannski ímyndar maður sér bara að það sé góða fólkið sem er alltaf hneykslað. Ekki hef ég hugmynd um hvar þessir kanadamenn standa í pólitík – hvort þeim finnst betra að börn drukkni í Miðjarðarhafinu eða að þau verði sprengd í tætlur á popptónleikum. Kannski finnst þeim bæði verra. Eða bæði betra, þótt mér finnist það kannski ólíklegast, yfirleitt vill maður annað hvort eða hvorugt. *** Já, nei nei. Ég er hættur. Von og kærleikur, von og kærleikur. Ég lofa!

Untitled

Smiðurinn hafði boðað komu sína í dag, ofan í efasemdir mínar um að það myndi standast. Í morgun fékk ég skilaboð þess efnis að hann kæmi í dag. Klukkan sex. Með borðplötuna. Væntanlega fer hann svo strax út aftur, enda vinnudeginum lokið. Á morgun er Uppstigningardagur. Í minni bók heitir það að „byrja á föstudag“ en ekki miðvikudag, en ég er náttúrulega frekar smámunasamur að eðlisgerð og gott ef ekki hreinlega ómerkilegur og snúðugur ofan í kaupið. *** Húsið okkar er á Airbnb-markaðnum í júlí og langt fram eftir ágústmánuði. Við verðum í Skandinavistan. En það hreyfist ekki, ekki komin ein bókun, og ég átta mig ekki á því hvort það er þá að koma svona illa upp í leitarvélinni eða hvað það er. Í fyrra bókaðist allt upp á nóinu. Að vísu vorum við þá nokkuð tímanlegri með að setja það inn. Helvítis frestunarárátta alltaf hreint. *** Í gær grillaði ég pæ. Svo grillaði ég poppkorn. Ég veit ekkert hvað ég nenni að grilla í kvöld. Hrísgrjónapotturinn gaf upp öndina fyrir nokkrum dögum. Kannski kaupi ég bara einhvern örbylgjumat. *** Algengt yndislestrarmynstur í lífi mínu er svona. Ég les fyrstu 100 síðurnar í 300 blaðsíðna skáldsögu og finnst hún mjög heillandi, gott ef ekki frábær. Næstu 100 síðurnar halda mér en mér fer þó smám saman finnast ég lesa þetta af skyldurækni. Síðustu 100 síðurnar les ég á hálfu ár, eina síðu í einu, einsog það sé að gera út af við mig að klára þetta fyrirsjáanlega meðalmennskudrasl. Þetta mynstur endurtekur sig með ólíklegustu bækur, fyrst og fremst skáldsögur þó – eftir stóra og litla höfunda, íslenska og erlenda. Og mig er farið að gruna að þetta hafi meira með mig að gera en bækurnar.

Untitled

Fór á nýja tælenska veitingastaðinn í hádeginu – náði ekki hvernig maður stafsetur nafnið, Thai Tawai? Thai Tewai?– og maturinn er svo til alveg eins og á gamla tælenska veitingastaðnum við hliðina, Thai Koon, nema á Thai Teowai (?) er líka salatbar og kjúklingabitar og hann er aðeins ódýrari. Sem er fínt. *** Nema mér finnst þetta samt svolítið einsog einhver myndi reisa annað alþýðuhús á Austurvelli og opna þar nýtt bíó í samkeppni við Dúa og Gróu og sýna sömu myndir á sama tíma nema pínulítið ódýrara og með stærri nammibar. Mér finnst einhvern veginn einsog það hljóti að stefna í að þessir staðir setji hvor annan á hausinn. Kannski er ég bara á móti samkeppni. Plúsinn er að þá myndi sjaldnar myndast biðröð. Eða djúpsteiktu rækjurnar klárast. *** Annars fór ég líka á nýja portúgalska staðinn fyrir viku síðan og hann er fínn – en þar mætti vera opið í hádeginu og einhvern veginn augljósara að það sé opið yfir höfuð, ekki bara svo til dregið fyrir og engir opnunartímar auglýstir. Og örlítið fjölbreyttari matseðill (og kannski portúgalskari). *** Ég á þrjár mjög fínar klæðskerasniðnar skyrtur sem ég keypti mér í Hoi An. Þær eru aðsniðnar og sennilega af einhverri slim-fit tegund. Í vetur hef ég notað tímann í ræktinni á meðan ég er að hætta að svitna eftir hlaupabrettið til þess að „rífa aðeins í tækin“, einsog það er kallað. En nýlega varð ég var við að þessi ósköp hafa orðið til þess að brjóstkassinn á mér hefur stækkað. Ekki mikið en nóg til að skyrturnar mínar fínu passa ekki nógu vel yfir axlirnar á mér lengur. Ég er hættur að rífa í tækin og vona að brjóstkassinn á mér falli bara aftur saman. En ég veit ekki hvort þetta þýðir að ég sé yfir líkamlegan hégóma hafinn – að ég þurfi ekkert að vera vöðvastæltur og fagur – eða hvort þetta þýðir að ég stjórnist af hégómlegu hlutablæti, af því ég vil ekki sleppa hendinni af fallegu skyrtunum mínum. Svona getur lífið verið snúið.

Untitled

Ég bloggaði hvorki á laugardag né sunnudag en þeir dagar teljast heldur ekki með, laugardagur og sunnudagur eru svokallaðir „rauðir dagar“. Rauðir dagar er einmitt heiti á nýrri bók eftir Elis Burrau sem ég verð að eignast. Og heiti á bók eftir Einar Má Guðmundsson, sem ég las fyrir löngu og stenst ekki samanburð við aðrar bækur hans, a.m.k. ekki þær sem ég hef lesið. *** Örlög internetsins eru ótrúlega sorgleg. Að fara frá því að vera einhvers konar villta vestur andans – vettvangur hins óstýrða og fallega kaotíska – yfir í að vera Facebook og Twitter og nokkrir stórir fjölmiðlar. Og skyndilega er félagslíf heimsins í eigu dystópískra stórfyrirtækja sem breiða yfir það siðferði sitt og pólitík. Yfir allri lýðræðislegri umræðu – eða 99% af þeim hluta hennar sem er yfir höfuð aðgengilegur – vakir þingforseti stórfyrirtækis og lemur í bjöllu ef honum mislíkar, sendir menn jafnvel í frí. Og við hjálpum auðvitað til með því að tilkynna alla grunsamlega ósiðferðislega hegðun. *** Ég hef verið að æfa nokkur Angus Young sóló og er kominn með hryllilega blöðru á baugfingur vinstri handar. Hún meiðir mig ekki mikið nema rétt á meðan ég er að spila. *** Mér finnst einsog það hljóti að vera eitthvað að því hvernig ég nota Facebook fyrst ég hef aldrei verið bannaður. Ég þarf að taka mig á. Reyndar er ég að fara í sumarfrí líka. Ekki frá blogginu samt, þessum gullaldarmiðli. *** Á morgun eru níu vikur frá því ég missti eldhúsið. Átta af þessum vikum fóru í að bíða eftir að trésmiðja kláraði að snikka til fyrir okkur borðplötu. Í dag kemur vonandi smiðurinn og gengur frá þessu, eða byrjar að ganga frá þessu. En hann ætlaði að vísu líka að koma á föstudag og líka á laugardag og ég hef ekkert heyrt frá honum þrátt fyrir eftirrekstur. Ef ég skrifa einhvern tíma aftur matreiðslubók (ég skrifa aldrei aftur matreiðslubók) þá verður hún um það hvernig maður bjargar sér með vöfflujárni og hrísgrjónapotti.