Untitled

Ég byrjaði daginn á því að sækja tónleika hjá leikskólum Ísafjarðarbæjar. Á dagskrá voru ýmis sönglög, þar af a.m.k. tvö eftir Soffíu Vagnsdóttur. Börnin stóðu sig með mikilli prýði. *** Svo mætti ég í vinnuna og hélt fund með Haraldi Jónssyni. Fyrst funduðum við reyndar með Gunnari Jónssyni og Höllu Míu um framtíð fiskeldis á Vestfjörðum. Svo funduðum við Haraldur einir um texta sem ég skrifa fyrir opnun hjá honum í Gallerí Úthverfu á laugardag. Að þeim fundi loknum lauk ég við textann og var að senda honum hann rétt í þessu. *** Nú er ég aftur byrjaður að vinna í leikritinu. Kannski skýst ég bráðum heim og næ í heddfónana mína. Og fæ mér epli.

Untitled

Mikilvæg tilkynning sem kallar á aukafærslu. Ég er enginn sérstakur Harry Potter aðdáandi, og kannski er ég þar með ódómbær, en mér finnst það alls ekki geta verið „quidditch“ nema leikið sé á fljúgandi strákústum. Alveg einsog fílapóló er ekki fílapóló nema það sé leikið á fílum.

Untitled

Ég skrifa eiginlega aldrei neitt í subject-línur í tölvupósti. Ég held að mér finnist það tilgerðarlegt. Eins undarlega og það hljómar. *** Theresa May segir að mannréttindi megi ekki vera nein hindrun í því að grípa hryðjuverkamenn. Því þeir drepa fólk. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé þá þumalputtaregla. Standi nógu mörgum – tugum ef ekki hundruðum á ári – lífshættuleg ógn af einhverju tilteknu þá verði mannréttindalöggjöfinni kippt úr sambandi. *** Það gæti þá til dæmis verið umferðin. Hraðakstur drepur langtum fleiri en hryðjuverkamenn og hann er ekki heldur náttúrufyrirbæri – hann er viljaverk. Lífstíðarfangelsi fyrir ofsaakstur? *** Um fimm þúsund manns drepast árlega í Evrópu úr matareitrun. Börn eru sérstaklega viðkvæm, sem og aldraðir, öryrkjar, fátækir og svo framvegis. Vorir minnstu bræður. Og systur. Við gætum til dæmis tekið upp á því að höggva hendurnar af þeim sem starfa í matvælaiðnaði og gleyma að þvo sér. Eða sleppa því að þvo sér. Skorið á rætur vandans, svo að segja. *** Morðtíðnin í Evrópu er 3 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Ef við miðum við að í Evrópu séu 740 milljónir manns, sem ku láta nærri lagi, eru þá 22.200 manns myrtir í Evrópu árlega. Það þykir að vísu mjög lágt. En af hverju er enginn að gera neitt í þessu? Hvers vegna látum við aumlega mannréttindalöggjöf hindra okkur í að rannsaka og koma í veg fyrir öll þessi morð? Af hverju gefum við ekki lögreglunni óhindraðan aðgang að öllum persónuupplýsingum og leyfum þeim að handtaka alla sem þykja líklegir um hið minnsta ofbeldi? Fæstir morðingjar eru að meiða fólk í fyrsta skipti. Margir þeirra hafa barið konuna sína svo árum skiptir … *** Það er ekkert erfitt að skrifa. En stundum er erfitt að byrja að skrifa. Og maður vill ekki þvinga sig til að skrifa – það skilar ekki góðum árangri. En stundum er maður líka of eftirlátssamur við sjálfan sig í dundinu sem leiðir að skrifunum. *** En ég er kominn í vinnuna. Kominn á skrifstofuna. Og tími til kominn að koma sér að verki. *** Bis später.

Untitled

Ég er á Air Iceland Connect netinu. Það er voða svipað og gamla flugfélagsnetið, nema kannski dálítið nútímalegra. *** Í tengdum fréttum var Apple að hleypa af stokkunum vörunni sem mun endanlega gera út af við íslenskt mál. Homepod kemur að vísu ekki í sölu fyrren í desember og verður fyrst um sinn bara á einhverjum enskum málsvæðum. En samt. Þá ætti maður fljótlega að geta farið að tala ensku við handmálaða Dolce & Gabbana ísskápinn sinn, sem maður kaupir í Costco fyrir peninginn sem maður sparaði á því að kaupa klósettpappírinn í Costco. *** Ég ét aldrei eins mikið og á ferðalögum. Ég held að ostborgarinn sem ég er að bíða eftir sé tólfta máltíð dagsins. *** Það er sjaldgæfur munaður í lífi mínu að komast vestur sama dag og ég kem til landsins. Í kvöld sef ég heima hjá mér þökk sé Air Iceland Connect. Ég er ennþá lasinn. En ég keypti brjóstsykur sem linar hóstann. *** Ég horfði á kvikmyndina Arrival í flugvélinni. Hún málfræðitryllir um vísindamann sem er fenginn til þess að túlka fyrir hóp geimvera. Þrátt fyrir ágætis spretti og áhugavert upplegg þá var hún kannski aðallega dálítið banal. Það er gaman að sjá kvikmynd þar sem tungumálið spilar jafn stóra rullu en það hefði mátt hamra aðeins minna á klisjum og lokin hefðu mátt vera aðeins minna fantastísk. *** Á morgun verð ég vonandi bara í rúminu. *** Ég rakst líka á Friðrik Sólnes, eina af skærustu stjörnum Starafugls, í flugrútunni. Hann var að koma frá Stokkhólmi í stutt borgarkikk. Við ræddum Svíþjóð og Reykjavík og bókmenntir og hemspråk og fleira. Við vorum held ég sammála um að Svíþjóð og Reykjavík séu báðar eins að því leyti að þær hafi mjög gentrifieraða miðju – þar sem allt er hreint og fínt og dýrt, og að einhverju leyti áhugavert og skemmtilegt – en úthverfi sem eru fyrst og fremst misleiðinleg. Það er hugsanlegt samt að ég hafi haldið þessu fram og hann bara nikkað fyrir kurteisis sakir. *** Maður réðst á lögregluþjón við Notre Dame í dag. Með hamri. Og æpti „þetta er fyrir Sýrland“. Það er svona tíu mínútna göngutúr frá hótelinu mínu. Kannski er það samt minna áhugavert en hitt, að þetta skuli komast í heimsfréttirnar. Nú var maðurinn að vísu skotinn og hann hefði áreiðanlega getað meitt einhvern, en samt. Ætli hafi verið sagt frá því í fréttunum í París þegar sveitungi minn í Hnífsdal tók konuna sína í gíslingu um árið? Eða þegar vitleysingurinn í Þorlákshöfn fór um bæinn og hleypti af haglabyssu út í loftið? Og hvað ætli margir hafi ráðist á einhvern með hamri í dag – af 7 milljörðum jarðarbúa?

Untitled

CDG – sennilega leiðinlegasti flugvöllur á jarðríki. *** Það var klukkutími áður en lestin kom til Parísar að tilkynnt var í hátalarakerfinu að röðin á barinn væri uppurinn, sem og reyndar áfengið. En, ef einhvern langaði sem sagt í kók og twix, þá væri tilvalið tækifæri. *** Við tókum Uber frá lestarstöðinni niður á Hotel Bonaparte. Það var fyrsti Uberinn minn og ég hugsa að ég leitist a.m.k. ekki sjálfur eftir að fara aftur með Uber, einfaldlega vegna þess að stéttarfélög leigubílstjóra hafa sett sig upp á móti Uber, og maður á að hlusta á stéttarfélög. Að minnsta kosti ef maður ætlar ekki að kynna sér málin djúpt og innilega, sem stendur ekki til. *** Á Hotel Bonaparte hef ég hins vegar verið oft. Sá sem var á vaktinni í gær var mér ókunnugur en í morgun var mér heilsað einsog gömlum vini. Þetta er lítið hótel, óttaleg hola finnst sumum, en ég kann voða vel við mig þarna og staðsetningin er frábær – alveg við hliðina á Eglise Saint Sulpice og Lúxemburgargarðinum. *** Eftir morgunmat fékk ég mér kaffisopa með vinkonu minni, Marie Fabre, sem er ljóðskáld og bókmenntafræðingur frá Lyon. Hún er í borginni til þess að taka þátt í ljóðabókamessunni, sem hefst á fimmtudag. Við dæstum saman yfir stjórnmálaástandinu og hún tók undir þá hugmynd sem ég hef heyrt annars staðar að stærsta hættan við Macron sé að nýfrjálshyggjan – einkavæðing, niðurskurður, o.s.frv. – kyndi undir óöryggi, óánægju, ójöfnuð og verði til þess að innlendu smælingjastéttirnar sýni erlendum smælingjastéttum meiri fyrirlitningu, því þegar keppt er um leifarnar á botni auðvaldssamfélagsins ríkir einfalt frumskógarlögmál. *** Þannig skiptir frjálslyndi Macrons litlu sem engu máli – ekki frekar en frjálslyndi Obama eða Trudeau – því það er fyrst og fremst hugmyndafræðilegt punt. Jafnrétti fyrir þá sem eiga fyrir því. *** Ég sá fyrir nokkrum mánuðum mynd sem lýsir þessu ágætlega. Hún var af klósettdyrum þar sem stóð: This toilet is for all people, regardless of gender.  Og þar fyrir neðan: Paying customers only.  *** Sá sem á ekki fyrir kaffibolla – eða hundraðkall fyrir klósettafnotin – pissar á endanum bara úti. Og þegar hann hefur pissað nógu oft úti er ekki ósennilegt að hann pissi hreinlega á dyrnar í stjórnarráðinu. Kannski þegar hann er búinn að spara sér nægan pening á því að pissa úti til þess að geta keypt sér nokkra bjóra. *** Þetta er ekki gagnrýni á frjálslyndi eða mikilvægi frjálslyndis – það er einn fótleggur allra réttlátra stjórnmálaskepna. Heldur á takmarkanir eintóms frjálslyndis. Maður hleypur ekki langt á einum fæti. *** Jöfnuður er lykilorðið. Það er sturlað að lifa í samfélagi þar sem við kvörtum varla undan ójöfnuði – og gerum það samt bara í hálfum hljóðum – fyrren hann er orðinn þúsundfaldur. Hvers vegna er ekki tvöfaldur launamunur miklu meiri skandall? Hann er miklu algengari. Eða þrefaldur, fjórfaldur og fimmfaldur. Það er alltof mikið vald fólgið í efnahagslegum kringumstæðum manns til þess að fimmfaldur launamunur sé eitthvað annað en sturlun. Og samt sitjum við föst í að rífast yfir því að atkvæði Vestfirðinga í alþingiskosningum sé veigameira en atkvæði Vesturbæinga og konur séu með 10% lægri laun en karlar, sem er hvorutveggja tittlingaskítur. *** Hér mætti benda á að efnahagslegt vald Vestfirðinga er talsvert minna en Vesturbæinga og launamunur kynjanna er að miklu meira leyti bundinn í launamun stéttanna en launamun innan stéttanna. „Konur“ sem hópur eru með miklu minna en 90% af tekjum karlmanna vegna þess að kvennastéttir eru ekki metnar að verðleikum – sem gengur upp vegna þess að við leyfum „markaðnum“ að ákveða að leikskólakennarastörf séu ómerkilegri en iðnaðarmannastörf. *** En jæja. Ég þarf að kíkja í búðina hérna.

Untitled

Ég er í lest með 3000 rithöfundum og forleggjurum frá Saint-Malo til Parísar. Ef hryðjuverkamennirnir vita af okkur er úti um rentrée literaire – franska haustbókaflóðið. Þá er þetta bara fini. *** Á sama tíma og hryðjuverkamenn stungu sjö manns til bana í Lundúnum brenndu nasistar í Svíþjóð heimili 70 hælisleitenda og 1500 manns tróðu hver annan illa undir í Torino á Ítalíu, þegar flugeldar sprungu á knattspyrnusamkomu og allir misstu stjórn á sér. Nokkrir slösuðust alvarlega, þar á meðal sjö ára gamalt barn. *** Það eru engir sammála um hvað beri að gera, en það eru nokkrir sem eru sammála um að það sé alveg sama hversu mikið verði gert, það verði aldrei nema brotabrot af því sem gera ætti, og það sé allt PC-mafíunni að kenna. *** Spurningunni um hvað megi gera til að koma í veg fyrir að fólk geti drepið hvert annað má samt aldrei svara með: hvað sem er. Við verðum nefnilega að eiga samfélag. *** En hvað ætli yrði gert ef við tækjum bara fótinn alveg af neyðarhemlinum og settum allar frelsishugsjónir til hliðar? Ég meina ofan í að leyfa fólki að drukkna í miðjarðarhafinu, sprengja það í tætlur heima hjá sér, selja öðrum vopn til að sprengja þá sem við nennum ekki að sprengja sjálf og horfa gersamlega framhjá sögulegri skuld okkar við þriðja heiminn, sem við notum einsog þrælakistu? Já og niðurlægja það fólk sem þó gerir sér ferð til „okkar“ og sest „hér“ að? *** Verstu nasistarnir myndu auðvitað bara setja á herlög – loka alla inni, gelda alla sem eru dekkri en Geir Ólafs, banna útlensk hindurvitni, senda alla sem kunna ekki íslensku og/eða kunna hana grunsamlega vel (t.d. að stafsetja rétt) úr landi og restina í lögregluskólann. En þeir eru í minnihluta, meira að segja í nasistaflokkunum. (Ég minni á að nasistaflokkurinn þýski, sem nasistarnir eru nefndir í höfuðið á, var líka til á rófi – þar voru menn misjafnlega „róttækir“ í hugsunarhætti og helförin var ekki lögð fyrir fund fyrren tæpum áratug eftir að þeir náðu fullum völdum í Þýskalandi, lengi vel var þetta bara á „eitthvað verður að gera“ stiginu og „af hverju gerum við ekki meira“ stiginu og „ojojoj hvað þessir gyðingar eru alltaf til mikilla vandræða“ stiginu, með gröfum og súluritum). *** Skástu nasistarnir, og ætli þeir séu ekki fleiri – að minnsta kosti enn, þeir eru fleiri sem bera af sér ofbeldisverk en hvetja bókstaflega til þeirra (þótt útlendingahatarar af alls kyns týpum blandi mikið geði hver við annan). Skástu nasistarnir myndu sennilega frekar setja eins konar flugvélalög en herlög. Þú veist. Það yrði bannað að fara með naglaklippur inn á vinnustaði. Bannað að fara með meira en 100 millilítra af vökva um borð í strætisvagna. Við yrðum að láta gegnumlýsa eigur okkar á leið okkar um heiminn, gangandi eða hjólandi eða akandi. Okkur yrði meinað að fara á klósettið á meðan það væri ókyrrð í fjölmiðlum. Allir þyrftu að byrja daginn á fyrirlestri um helstu öryggisatriði. Og svo framvegis. *** Í Svíþjóð má ekki koma með mat á leikskóla nema hann sé keyptur af fyrirtæki og pakkaður inn í einstaklingspakkningar. Til dæmis ef einhver á afmæli. Þá má ekki koma með heimabakaða köku fyrir deildina. En það má koma með innplastaðar möffins. Vegna þess að maður veit aldrei hver getur verið hryðjuverkamaður. Og hryðjuverkamenn hika ekki við að drepa börn með heimabökuðum kökum, frekar en þeir hika við að drepa túrista með 150 millilítra tannkremstúbum eða stinga þá til bana með naglaþjölum. *** Annars las ég að aktífistar við miðjarðarhafið hafi safnað fleiri tugum milljóna til reksturs skips hvers megin tilgangur er að koma í veg fyrir björgun flóttamanna á áðurnefndu hafi. Þeir hafa farið í nokkrar tilraunaferðir, sem sagt er að hafi tekist vel. Sem þýðir væntanlega að fleira fólk hafi drukknað fyrir þeirra tilverknað. Frá þessu var sagt í fréttum einsog ekkert væri. Það lá við að bent væri á hópfjármögnunarsíður þar sem leggja mætti verkefninu lið. En auðvitað er þetta bara morð. *** Ég las fyrir nokkrum árum um merkilegt mál í Ungverjalandi. Þar hafði gengi nýnasista slátrað ótal sígaunafjölskyldum með sömu aðferð. Fyrst fundu þeir heimili þeirra. Svo vöktuðu þeir það og um nóttina, yfirleitt nálægt miðnætti, köstuðu þeir mólotovkokkteilum í híbýlin – sem voru oftar hús en stundum húsvagnar. Þegar fólkið kom svo út – ef það þá vaknaði og brann ekki bara í hel – sölluðu þeir fjölskylduna niður með vélbyssum. Foreldra með börn sín í fanginu, ömmur og afa og svo framvegis. Lögreglan afgreiddi fjöldann allan af svona málum á sama hátt.  Helvítis sígaunar sem sofna út frá sígarettum, eldavélum, arineldum eða kveikja í sjálfum sér af einskærri heimsku. Case closed.  Það var ekki fyrr en rannsóknarnefnd frá Evrópusambandinu blandaði sér í málið – þegar þetta var orðið fáránlega algengt – að hið sanna kom í ljós. Þá var auðvitað fyrir löngu orðið of seint að finna hina seku. *** Þetta er sirkabát það brjálaðasta sem maður getur hugsað sér. En það vantar ekki mikið upp á til að þetta sé fullkomin myndlíking fyrir Evrópuvirkið – Fortress Europa. Í meira en hundrað ár – og sennilega miklu lengur – hafa Evrópumenn notað efnahagslega og hernaðarlega yfirburði sína til þess að breyta stórum hluta miðausturlanda í brennandi hús. Síðan stöndum við á bremsunni gagnvart þeim sem vilja komast út – sumum leyfum við að drukkna, aðra beinlínis skjótum við, einhverjum borgum við fyrir að snúa aftur í brennandi húsið þar sem við ljúkum við að brenna þá inni. Þeim sem við hleypum inn leyfum við náðarsamlegast að gerast þriðja flokks borgarar, fá þriðja flokks menntun í þriðja flokks hverfum og svo þriðja flokks tekjur. Og svo höstum við á þá og biðjum þá að þakka fyrir sig. *** Og nei, undantekningarnar veita okkur enga fjarvistarsönnun frekar en tilkoma Obama í forsetastól þurrkar út rasismann í Bandaríkjunum. Að til séu innflytjendur sem hafa „spjarað sig“ breytir engu um fátækrahverfin, um vonleysið, mótlætið – að alast upp við að allir fjölmiðlar séu fullir af aðsendum greinum um hvað maður (þ.e.a.s. allir sem líkjast manni, eru í sömu stöðu og maður sjálfur, með skyldan bakgrunn) sé mikið vandamál. *** Og sko. Við þá sem vilja senda hælisleitendur aftur til síns heima – hvort sem það er Albanía, Íran, Sýrland eða Márítanía – segi ég: flyttu þangað sjálfur, ef það er svona sjálfsagt mál. Það er þá eitt laust pláss hér hjá okkur. Sá sem ekki tímir að taka þátt í velferð annarra á ekkert tilkall til velferðar sjálfur. *** Annars hefur mér alltaf þótt merkilegt að óréttlæti svíður ekki síst þá sem verða ekki fyrir því sjálfir heldur standa nálægt því. Þannig var enginn af helstu leiðtogum kommúnista á 20. öld úr verkalýðsstétt nema Stalín. Og stærstur hluti jihadista (utan miðausturlanda) er af annarri kynslóð innflytjenda og margir þeirra eru einmitt undantekningar. Tilfinningin er ekki sú sama og tilfinning hefndarinnar – a.m.k. ekki hefndar fyrir sjálfan sig, heldur meira svona  that could’ve been me . Hefndar fyrir hönd einhvers annars sem líkist manni. Ekki endilega bara þeirra sem lifa í gettóum í Belgíu heldur líka þeirra sem lifa í gettóum í Sýrlandi. Afa og ömmu, frænda og frænku. *** Einfaldasta og ódýrasta aðferðin til þess að draga úr hryðjuverkum er augljós. Fyrst slekkur maður á hernaðarmaskínunni og vopnaframleiðslunni; svo jafnar maður kjör fólks. *** Reiðasta og róttækasta PC-fólkið er líka yfirleitt það fólk sem hefur það best. Hvítt, bandarískt efrimillistéttarfólk í dýrum háskólum. Það eru alveg áreiðanlega ekki gettóbúar sem vilja reka Bill Maher fyrir að … á maður að nota n-orðið þegar maður er að segja frá því? Ég hefði sennilega ekki hikað mikið við það fyrir 15 árum. Þetta – einsog hjá mörgum jihadistum – er reiði-via-samviskubit. *** Ég heyrði á dögunum af skandinavísku tímariti sem heitir Nord. Lógóið var sirka: N

ord Þeir sem ég ræddi við voru sammála um að N-ord væri óheppilegt orð á norrænu tímariti. *** Annars eru vinstrimenn augljóslega ekki einir um að vera viðkvæmir fyrir „gríni“. Bandarískur grínisti, hvers nafn ég man ekki (ég er að skrifa þetta ónettengdur og nenni ekki að gúgla í símanum), sennilega Kathy eitthvað, birti af sér ansi snotra mynd þar sem hún heldur á blóðugu höfðinu á Donald Trump. Og olli að minnsta kosti jafn miklu fjaðrafoki og n-orðatalið í Bill Maher (sem ég er annars alveg sammála um að er svolítill rasisti – en það eru líka bara rosa margir og það er samt ágætt að það séu ekki allir viðstöðulaust að gæta orða sinna). Og sennilega var Kathy, ef hún þá heitir Kathy, líka dálítið ósmekkleg. En það er bara alltílagi. Smekklegheit eru ofmetin. *** Ég kláraði The Sellout eftir Paul Beatty í gær. Hún fjallar um svartan mann í Dickens, Kaliforníu – svartasta bæ í Bandaríkjunum – sem ákveður að taka aftur upp aðskilnaðarstefnu og fer að hengja upp skilti þess efnis víðs vegar um bæinn. Hann tekur líka upp þrælahald. Lógíkin er nokkurn veginn sú, með örlítilli einföldun, að nútímasamfélagið í Bandaríkjunum geri ekki annað en að breiða yfir rasismann sem sé enn alveg jafn mikið til staðar. Þegar búið sé að hengja upp „blacks only“ og „whites only“ skiltin birtist hinar raunverulegu útlínur bandarísks samfélags aftur. *** Línurnar eru auðvitað ekki alveg einsog þær voru þegar skiltin voru tekin niður. Til dæmis bitnar aðskilnaðarstefnan í Dickens ekki síst á þeim fáu hvítu íbúum sem þar búa – það eru hvítu grunnskólakrakkarnir sem þurfa fylgd í skólann. En í stað þess að þeim sé fylgt eftir af þjóðvarðliðinu er þeim fylgt eftir af blaðamönnum og hvítum ungmennum frá öðrum hverfum sem vilja fá eiginhandaráritun. *** Bókin er frábærlega skrifuð. Textinn er leiftrandi af hugmyndaauðgi. Sprúðlar, segir maður það ekki? Hann sprúðlar! *** Ég sat einu sinni í lest með Paul Beatty í Frakklandi. Það var áður en hann vann Man Booker verðlaunin fyrir The Sellout; einhvern tíma í fyrra, snemma í fyrra. Við vorum samferða frá einhverjum frönskum smábæ sem ég man ekki hvað heitir, þar sem við höfðum báðir lesið upp, og til Lyon, þar sem við vorum að fara að spjalla um bækur okkar hvor í sinni bókabúðinni. Við vorum bara tveir á ferðinni í 3-4 tíma og komumst að því á leiðinni að við áttum nokkra sameiginlega vini í bandarísku ljóðasenunni. Ég kunni afar vel við hann og skömmu síðar opnaði ég einhverja bók eftir hann en festist ekki. Ég er voða glaður að hafa gefið því annan séns. *** Í gærkvöldi, þegar ég gat ekki sofnað fyrir hóstunum í sjálfum mér, hóf ég svo að lesa The Slynx eftir Tatjönu Tolstaya. Það er framtíðarsaga sem ég er enn að ná tökum á. Hún gerist í eins konar póst-kjarnorkuslyssamfélagi. Þeir sem lifðu sprenginguna af eldast ekki – en þeir eru mjög fáir – og hinir, sem fæðast eftir sprenginguna, hafa öðlast alls kyns afbrigðileika. Eru með tálkn á hnjánum eða fjörutíu pínulitla fingur eða eitthvað álíka. Hún er skemmtilega skrifuð. *** Ég er sennilega alveg dottinn út úr því að bókablogga. En ég kannski reyni eitthvað. Með þeim fyrirvara þó að það verði ekki að nauð. Síðast gafst ég upp á því strax því mér fannst ég þurfa að vera svo metnaðarfullur og lesa svo mikið og svo skammaðist ég mín þegar ég las ekki nóg og þetta varð einhver ægileg sálarflækja. *** Suma daga er þetta blogg augljóslega langt. En aðra daga verður það styttra. Og það verður aldrei um neitt eitt. *** Ég er annars sárlasinn og hef verið frá því í gærmorgun. Það var varla að ég viðurkenndi það fyrir sjálfum mér fyrren í dag. Sat samt á tveimur panelum – einum stuttum hálftíma panel með fransk-kanadískum höfundi sem heitir Nicolas Dickner (minnir mig), þar sem við kynntum einfaldlega hvor sína bók (ég Heimsku, hann Sex gráður frelsis) og svo eins-og-hálftíma panel með Luis Sepulveda og Martin Caparros frá Argentínu. Um hlutverk rithöfundarins, möguleika bókmennta á að „breyta heiminum“ og byltinguna almennt. *** Við vorum helst ósammála um að mennskan og bókmenntirnar væru óskyldar. Þeim varð báðum tíðrætt um að ef maður vildi berjast fyrir betri heimi gerði maður það „í heiminum“, svo að segja, úti á götu, ekki í bókunum – sem mér fannst hljóma einsog hálf innihaldslaus klisja (ég orðaði það samt kurteislegar). Ég reyndi að gera grein fyrir þeirri skoðun minni að bókmenntirnar væru í heiminum en ekki til hliðar við hann og maður gæti barist fyrir betri heimi í öllu sem maður tæki sér fyrir hendur, gæti verið byltingarsinni við að bursta í sér tennurnar, borða morgunmat, tjalda, elska fjölskylduna sína, starfa á þingi, skipuleggja grasrótarstarf eða skrifa bækur. *** Ekki þar fyrir að ég á ekkert með að segja Sepulveda neitt um neitt um byltingar. Hann sat í fangelsi á tímum Pinochets og var harðkjarnatrotskíisti í Suður Ameríku árum saman. Og sennilega er það algerlega nauðsynlegt fyrir hann að slíta stjórnmálastarfið frá bókmenntastarfinu. Forsendur okkar gagnvart spurningunni gætu varla verið ólíkari. Og við meintum ólíka hluti með svörum okkar. Kannski fannst mér ég bara þurfa að árétta hvar ég stæði. Og gerði það vonandi alveg án þess að haga mér einsog eitthvað merkikerti. *** Ég held ég hafi gleymt að nefna að bókmenntir gætu samt ekki verið áróður. Ekki frekar en bókmenntir geta verið bananar. Það segir í sjálfu sér ekkert um áróðurinn eða bananana að hann eða þeir geti ekki verið bókmenntir – sennilega er góður áróður góður áróður einsog góðir bananar eru góðir bananar og allt í góðu með það. Áróður er bara ekki bókmenntir. *** Bókmenntir eru byltingarsinnað afl til góðs þegar þær eru notaðar til þess að horfast í augu við einhverja mennsku, eitthvað samfélag – tengslin á milli okkar, ástina og hatrið og tungumálið og … ég veit það ekki. Rýna í hnén. Siðferðið. Hárlúsina og flatlúsina. Þær eru aðferð til að skilja heiminn, aðferð til að spyrja heiminn, til þess að gera heiminn flóknari og erfiðari viðfangs. *** En það er fáránlegt að vera svona lasinn á sviði. Maður man varla spurningarnar nógu lengi til að byrja að svara þeim. Og gleymir í miðju svari hvar maður byrjaði. Og svo þegar maður hikar og man það aftur fer maður á hósta og þegar maður er búinn að hósta er það horfið aftur. *** Ég skellti í mig tveimur rauðvínsglösum fyrir seinni panelinn. Annars hefði ég sennilega ekki lifað hann af. Ég hefði bara sofnað. Eða lognast út af með opin augun – augun sokkið inn í höfuðið á mér og ekkert staðið út af meðvitund minni. *** Guð hvað ég er líka lúinn hér og nú. Einhvern veginn of lúinn til að sofa líka. Alveg kolringlaður. Lúinn og búinn og rúinn og snúinn. *** Auk panelsins voru áritanir í tveimur hollum – samanlagt nærri þrír tímar. Ég áritaði einhvern slatta, en þó ekki nándar nærri jafn mikið og sessunautur minn Sepulveda (sem á hundrað bækur á frönsku, þar af nokkra krimma sem rjúka út). Á þessum þremur bókmenntahátíðum sem ég hef heimsótt í Frakklandi síðasta mánuðinn hef ég sennilega áritað bækur fyrir alla  Frakka sem hafa komið til Íslands á síðustu árum eða ætla að fara þangað á næstum vikum, sem samanlagt er sennilega um níu-tíundu hlutar allra Frakka sem á annað borð hafa efni á slíkum fáránlegum munaði. Ég hef ekki einu sinni efni á því sjálfur að fara úr bænum. Kannski að maður ráði við pulsu í Bolungarvík og vonandi plokkfiskloku á Suðureyri ef það er ekki hætt að selja þær eða farið að selja þær með gullflögumylsnu. *** Ég er ógeðslega þreyttur. Það er partí í næsta lestarvagni. 100 franskir rithöfundar öskursyngja Edith Piaf einsog fótboltabullur. Ef að hryðjuverkamennirnir finna okkur vona ég að sprengjan sé í þeim vagni.

Untitled

Norðmennirnir reyndu að drepa mig með því að bera í mig peninga en Frakkarnir fara aðra leið; þeir troða í mig sjávarfangi og hvítvíni og vona að ég lognist út af, en ég gefst aldrei upp, þeir vita ekki að ég er alinn upp í rækjuverksmiðju og um æðar mínar rennur hreinn vínandi. *** Ég byrjaði daginn á panel með tveimur höfundum – annar þeirra var franskur, hinn þýskur, en báðir frönskumælandi. Patrice Favaro og Andreas Eschbach. Við vorum kynntir til leiks sem vísindaskáldsagnahöfundar – Patrice og Andreas báru það af sér, og áttu þó meira tilkall til þess en ég, sem hef skrifað þessa einu bók sem gerist í framtíðinni (og varla þó einu sinni langt í framtíðinni). En ég var ekkert að bæta þriðja neiinu í þennan kór og sé ekki hverju það skiptir heldur. *** Ég er með túlk. Hún túlkar til og frá ensku og er algerlega stórfengleg í sínu fagi. Það er alveg sama hvað ég tala lengi eða kaotískt, hún bara hripar hjá sér einhver skringileg tákn og krummelúr, og á endanum kemur þetta allt út á frönsku – ég skil örlítið í tungumálinu og verð ekki var við að hún gleymi neinu. Það er helst þetta verði skýrara þegar hún er búin að melta það aðeins. *** Ég sagði ekki margt af viti. Ég var þó ánægður með eitthvað – sennilega þá ábendingu að þegar spurt væri um frelsi og tækni (þess var spurt) þá fælist frelsið aldrei í einum tilteknum stað heldur hreyfingu frá einum öfgum til hinna, þegar maður reynir að leysa þá mótsögn sem er fólgin í því að vilja hafa möguleika til alls en ekki verða sjúkur í freistingar. Vilja geta allt og fá allt en vera í friði fyrir öllu samtímis. Ef maður er stöðugt fastur í borgarysnum er frelsið fólgið í að stíga upp á fjallstopp – þar sem er ekkert internet, ekkert símasamband, helst ekkert fólk, bara þögnin og alheimurinn. En ef maður er stöðugt fastur í slíkum aðstæðum – í vonlausum draugabæ, t.d. – er frelsið fólgið í möguleikunum sem borgin býður upp á. *** Þetta má færa yfir á tæknina líka. Maður er aldrei jafn frjáls og daginn sem maður hættir á Facebook, og losnar við allt áreitið, nema þá ef vera skyldi daginn sem maður byrjar aftur á Facebook, og öðlast aftur alger tengsl við gamla vini, kollega og kunnugleg fés. *** En það þýðir ekki að maður sé frjáls í borginni til lengdar. Eða á fjallstoppnum. *** https://kolbrunarskald.tumblr.com/post/161424499624/saint-malo https://assets.tumblr.com/post.js *** Eftir samtalið fór ég á bókamessuna og sat og áritaði bækur í nokkra klukkutíma ásamt Luis Sepulveda og Pascal Dibie. Þangað kom meðal annarra Einar Már Jónsson, fyrrum sagnfræðikennari við Sorbonne háskóla, Megasarbróðir og höfundur frábærra bóka um frjálshyggju, ’68 í Frakklandi og hugmyndafræði samtímans. Hann keypti Heimsku á frönsku handa eiginkonu sinni og fékk áritaða, og hafði svo á orði að hana þyrfti nauðsynlega að kvikmynda (þegar ég fór eitthvað að blaðra um að ég væri að skrifa leikrit). Og ég var eiginlega búinn að gleyma að það var og eða er í bígerð. *** Eftir hádegismat fór ég út að hlaupa meðfram ströndinni. Ég útaðskemmtamérreykti svolítið mikið í Lillehammer og er allur einsog taðreyktur hrefnureður að innan á eftir. Og ferðalúinn og lufsulegur. Og spikfeitur af óþarfa vellystingum. En ströndin er falleg og ég þurfti svo sannarlega á þessu að halda. Gerði líka jóga í morgun, eftir að hafa misst tvo daga úr á ferðalagi.

Untitled

Eitt af því besta við að hitta gamla vini sem maður hefur ekki hitt lengi er að maður á svo mikið af góðum sögum ósögðum, og margar góðar sögur óheyrðar. En svo vex maður líka í sundur og þarf að sýna því skilning – við Karen lentum í því nokkrum sinnum í gærkvöldi, og var kunnuglegt frá síðasta hittingi fyrir sex árum, að stýra inn á einhver pólitísk hættusvæði og bakka: tölum ekki um þetta, látum það bara vera. Ekki svo að skilja að við höfum verið sammála um allt þegar við vorum yngri – en kannski var samtíminn ekki jafn infekteraður þá og nú. *** Tíundi áratugurinn var óttalega saklaus en líka – og kannski einmitt þess vegna – meira um áhyggjulausan kjafthátt. Í minningunni eru meira að segja stríðin og ofbeldið einhvern veginn mörkuð dýpri óraunveruleikatilfinningu. Ég var í Þrándheimi ellefta september; Melli var farinn heim og við Karen bjuggum held ég ein í húsinu við Angelltröveien. Þar var sjónvarpslaust svo við hreiðruðum um okkur í sófanum heima hjá mömmu hennar í nokkra daga. Þegar ég hélt svo áfram til Helsinki tæpum mánuði síðar – daginn sem leiðir skildu í Osló var ráðist inn í Afganistan. *** Veröldin er auðvitað aldrei söm. Það hefur aldrei neitt gerst svo ómerkilegt að veröldin hafi verið söm á eftir. Það er ekki meira ofbeldi í heiminum eftir 11. september – hryðjuverkaógnin í Evrópu er ekki einu sinni meiri, heldur þvert á móti . En óttinn er meiri. 11. september og önnur hryðjuverk síðan hafa að mörgu leyti opnað augu fólks fyrir alvörunni. Það sem við gerðum 11. september – við sem erum alin upp við að finnast við örugg (sem er ekki það sama og að vera það) – var einfaldlega að horfast í augu við dauðann. Dauðinn var hins vegar engin tíðindi í sjálfum sér – hann var alltaf þarna. *** Karen sagði mér að þann 22. júlí – þegar árásirnar voru gerðar í miðborg Osló og á Utöya – hefði hún verið á suður Spáni ásamt kólumbískri vinkonu sinni, sem er alin upp í Medellín. Þegar maður er frá Medellín markast allt samband manns við ofbeldi af því hversu algengt það er – vinkonan spurði hvort Karen þekkti einhvern þarna og þegar í ljós kom að svo var ekki var víst næstum einsog hún registeraði ekki alvöru málsins lengur. Hún vildi bara halda áfram að túristast. *** Í fyrra fór ég nokkrum sinnum til Tyrklands og oftar til Frakklands, einsog árið áður. Í kjölfar hryðjuverkaárása. Viðbrögð heimamanna hefðu ekki getað verið ólíkari. Frakkarnir skrifuðu löng hugulsöm bréf þar sem þeir útlistuðu að það væri alltílagi að vera hræddur, alltílagi að afbóka ferðina ef ég teldi mig ekki óhultan í Frakklandi (ég var ekki einu sinni að fara til Parísar). En Tyrkirnir ypptu ekki einu sinni öxlum þótt árásin þar væri á flugvellinum sem ég flaug um – viku fyrir festival – og hefði verið þriðja árásin á fjórum mánuðum. Enda terrorinn annars konar hluti af daglegu lífi þar. *** Að vísu gerðist það í annarri heimsókn minni til Istanbul að eitt tyrkneska skáldið neitaði að fara með hópnum á Taksimtorg, þegar upp á því var stungið – með hópi af útlendingum sérstaklega. En einhvern veginn sagði hann það líka svona einsog þegar segi fólki að fara sér ekki að voða í Reynisfjöru. *** Maður venst ofbeldi. Það vita allir sem muna eftir því þegar slegist var á böllum. Og þegar maður hefur afvanist því verður fáránlega trámatískt að komast aftur í tæri við það. Að sjá fullorðna fulla karlmenn, vöðvastælta sjómenn, kýla hvor annan af öllu afli í andlitið. Ég ímynda mér að ef það gerðist núorðið myndi hálft ballið þurfa á áfallahjálp á eftir. *** Ég er ægilega þreyttur á þessum ferðalögum, ef satt skal segja. Samt hlakka ég mjög til þess að fara til San Francisco með Nödju í sumar. *** Ég taldi mig hafa séð Knausgård á götu í Lillehammer. En svo kom Stella bókmenntahátíðarstjóri og sagði mér að það væru tveir Knausgård tvífarar í bænum. Svo kannski sá ég bara einhvern tvífara. Annars var hann víst í Reykjavík líka. *** Reyndar hálfleiðist mér hann. En manni þarf ekki að finnast allt skemmtilegt heldur.

Untitled

Lestin. Ekur til Osló. Aka lestir? Keyra þær? *** Mér finnst einsog hljóðeyðandi heddfónarnir mínir séu alveg hættir að eyða hljóði. Einsog þetta var nú stórkostlegt þegar þeir voru nýjir. Ég veit ekki hvað veldur. Ekki þar fyrir að ég er að hlusta á Tom Waits og það þarf ekkert að eyða því hljóði. Burgers and fries and what kind of pies. *** Ég hef sagt það áður: Að hætta á Facebook er næstum einsog að hætta að vera til. Eða fara langt afsíðis. Flytja í sumarbústað úti í sveit. Í afskekktum firði. Eiginlega er þetta mjög grunsamlegt. Hvað ætlar maður eiginlega að gera í þessum firði? Hvers vegna vill maður ekki að það sjáist til manns? Ekki þar fyrir að hér er auðvitað opið – það liggur vegur í fjörðinn, hann er bara fáfarinn. *** Mig langar að segja að ég sé með klofinn huga – ég sé kleyfhugi – en það er sennilega ekki það sem ég á við. Ég á sennilega við að ég glími við einbeitingarskort. Sem er ekkert nýtt. Sennilega er ég með hvínandi athyglisbrest. Mér finnst ég varla virka nema ég sé á þrjú hundruð kílómetra hraða (sennilega er lestin einmitt á þrjú hundruð kílómetra hraða, ég sit hins vegar kyrr). En mér líður einsog heilinn á mér sé á fjórum stöðum samtímis. Fall out of the window with confetti in my hair. *** Kleyfhugi er þýðing á skitsófren. En svo er ástandinu lýst svona í orðabók: kleyf·hugi KK sálfr.
• maður með skapgerð sem einkennist af innhverfu og hlédrægni eða tortryggni og viðkvæmni í mannlegum samskiptum (tengist rengluvexti skv. kenningum Kretschmers)
sbr. hringhugi Mér finnst þetta allt kunnuglegt. Í dag. Ekki alla daga alltaf. En í dag. *** Þetta er svo hringhugi. hring·hugi KK sálfr.
• maður með skapgerð sem sveiflast á milli glaðværðar og hryggðar, eljusemi og doða (tengist riðvexti skv. kenningum Kretschmers) Svona er ég ekki. Ætli þetta sé ekki það kallast á gullaldaríslensku að vera maníódepressífur? Eða jújú, sveiflast milli eljusemi og doða – það kannast ég líka við. *** Annars greini ég mig yfirleitt með allt sem ég les um. Öll stjörnumerkin passa mér vel, ég er týpískur hrútur, vog, meyja, ljón og krabbi. Ég er með öll krabbamein sem ég hef lesið um, alla geðsjúkdómana og ég hef upplifað öll heimsins trámu. Þetta kalla ég að vera empatískur. Meðlíðandi. *** Ég náði að gera mínútu af jóganu mínu í morgun þegar síminn hringdi. Það var móttakan sem vildi láta mig vita að ég hefði átt að tékka út tólf mínútum fyrr. Ég sagðist koma niður eftir fimm og dreif mig í buxurnar og rúllaði upp mottunni. Hugsanlega hefði ég bara getað spurt hvort ég mætti vera í hálftíma í viðbót. En ég veit líka að öll hótelpláss í bænum voru uppbókuð – vinur minn, Dan, sem er ljóðskáld og ritstjóri hjá stærsta forlagi Noregs, þurfti að sofa á sófum á hótelherbergjum annarra, og útgáfustjóri hjá öðru forlagi neyddist til að flytja milli hótelherbergja daglega því það var ekkert eitt herbergi laust tvo daga í röð. Kannski var það hún sem beið eftir að komast í herbergið mitt. *** Nú er lestin bara stopp. Og ég er að hlusta á rosalega skrítið kassagítarskover af Thunder með AC/DC. Þetta er mjög vont. Skipti í Beat It  kover með Yngwie Malmsteen. Líka lélegt. Hann spilar samt mjög hratt. *** Nettengingin í þessari lest er til skammar. Og það í ríkasta landi í heimi! *** Í gær heyrði ég unga menn úr norskri verkalýðsstétt lýsa því hvernig þeir hefðu sem unglingar dýft rúsínubollum í koníak. Til tilbreytingar í fylleríinu. Í mínu ungdæmi drukkum við bara heimalagaðan gambra. Þegar ég nefndi það við þá að þetta væri kannski ekki alveg eðlilegt, þá báru þeir fyrir sig að þetta hefði verið mjög lélegt koníak og ég væri að misskilja. *** Mér finnst algengara og algengara að ég lesi fréttir sem eru bara illa dulbúinn pólitískur áróður. Ég segi einsog ónefndur leiklistargagnrýnandi: Þessu verður að linna! #ACDC

Untitled

Ég slökkti á Facebook. *** Enn í Lillehammer. Í gær var upplestur, garðveisla, heiðursathöfn fyrir fangelsaða rithöfunda, billjard, bjór, pylsur, næturborgari á bensínstöð og æsilegar samræður um allt milli himins og jarðar. *** Rétt bráðum þarf ég að sitja á sviði og svara spurningum. Ég veit ekkert hvað það gæti verið. Ég hef talsvert haft með norskan bókmenntaheim að gera síðustu árin – farið á hátíðir og komið fram og birt texta, skrifaði meðal annars í Klassekampen í nokkur ár – en ég hef ekki gefið út neinar bækur, ekkert verið þýddur nema dót á stangli. Ég á bækur á dönsku og sænsku. Kannski verður spurt um þær. Eða íslenska hestinn. Eða hvernig maður ber fram Eyjafjallajökull. Nei, djók, þetta er ekki þannig hátíð. Það væri frekar hér aðeins sunnar í álfunni. *** Hér er annars viðstöðulaust gluggaveður. Sól og skítkalt. Ég hlakka til að koma til Saint Malo. *** Þegar flugið reddaðist þurfti ég líka að redda mér aukanótt í gistingu. Á morgun fer ég þess vegna til Osló og heimsæki vinkonu mína, Karen, sem ég hef ekki hitt í sennilega 6-7 ár. Það verður gaman.