Untitled

Ég er í lest með 3000 rithöfundum og forleggjurum frá Saint-Malo til Parísar. Ef hryðjuverkamennirnir vita af okkur er úti um rentrée literaire – franska haustbókaflóðið. Þá er þetta bara fini. *** Á sama tíma og hryðjuverkamenn stungu sjö manns til bana í Lundúnum brenndu nasistar í Svíþjóð heimili 70 hælisleitenda og 1500 manns tróðu hver annan illa undir í Torino á Ítalíu, þegar flugeldar sprungu á knattspyrnusamkomu og allir misstu stjórn á sér. Nokkrir slösuðust alvarlega, þar á meðal sjö ára gamalt barn. *** Það eru engir sammála um hvað beri að gera, en það eru nokkrir sem eru sammála um að það sé alveg sama hversu mikið verði gert, það verði aldrei nema brotabrot af því sem gera ætti, og það sé allt PC-mafíunni að kenna. *** Spurningunni um hvað megi gera til að koma í veg fyrir að fólk geti drepið hvert annað má samt aldrei svara með: hvað sem er. Við verðum nefnilega að eiga samfélag. *** En hvað ætli yrði gert ef við tækjum bara fótinn alveg af neyðarhemlinum og settum allar frelsishugsjónir til hliðar? Ég meina ofan í að leyfa fólki að drukkna í miðjarðarhafinu, sprengja það í tætlur heima hjá sér, selja öðrum vopn til að sprengja þá sem við nennum ekki að sprengja sjálf og horfa gersamlega framhjá sögulegri skuld okkar við þriðja heiminn, sem við notum einsog þrælakistu? Já og niðurlægja það fólk sem þó gerir sér ferð til „okkar“ og sest „hér“ að? *** Verstu nasistarnir myndu auðvitað bara setja á herlög – loka alla inni, gelda alla sem eru dekkri en Geir Ólafs, banna útlensk hindurvitni, senda alla sem kunna ekki íslensku og/eða kunna hana grunsamlega vel (t.d. að stafsetja rétt) úr landi og restina í lögregluskólann. En þeir eru í minnihluta, meira að segja í nasistaflokkunum. (Ég minni á að nasistaflokkurinn þýski, sem nasistarnir eru nefndir í höfuðið á, var líka til á rófi – þar voru menn misjafnlega „róttækir“ í hugsunarhætti og helförin var ekki lögð fyrir fund fyrren tæpum áratug eftir að þeir náðu fullum völdum í Þýskalandi, lengi vel var þetta bara á „eitthvað verður að gera“ stiginu og „af hverju gerum við ekki meira“ stiginu og „ojojoj hvað þessir gyðingar eru alltaf til mikilla vandræða“ stiginu, með gröfum og súluritum). *** Skástu nasistarnir, og ætli þeir séu ekki fleiri – að minnsta kosti enn, þeir eru fleiri sem bera af sér ofbeldisverk en hvetja bókstaflega til þeirra (þótt útlendingahatarar af alls kyns týpum blandi mikið geði hver við annan). Skástu nasistarnir myndu sennilega frekar setja eins konar flugvélalög en herlög. Þú veist. Það yrði bannað að fara með naglaklippur inn á vinnustaði. Bannað að fara með meira en 100 millilítra af vökva um borð í strætisvagna. Við yrðum að láta gegnumlýsa eigur okkar á leið okkar um heiminn, gangandi eða hjólandi eða akandi. Okkur yrði meinað að fara á klósettið á meðan það væri ókyrrð í fjölmiðlum. Allir þyrftu að byrja daginn á fyrirlestri um helstu öryggisatriði. Og svo framvegis. *** Í Svíþjóð má ekki koma með mat á leikskóla nema hann sé keyptur af fyrirtæki og pakkaður inn í einstaklingspakkningar. Til dæmis ef einhver á afmæli. Þá má ekki koma með heimabakaða köku fyrir deildina. En það má koma með innplastaðar möffins. Vegna þess að maður veit aldrei hver getur verið hryðjuverkamaður. Og hryðjuverkamenn hika ekki við að drepa börn með heimabökuðum kökum, frekar en þeir hika við að drepa túrista með 150 millilítra tannkremstúbum eða stinga þá til bana með naglaþjölum. *** Annars las ég að aktífistar við miðjarðarhafið hafi safnað fleiri tugum milljóna til reksturs skips hvers megin tilgangur er að koma í veg fyrir björgun flóttamanna á áðurnefndu hafi. Þeir hafa farið í nokkrar tilraunaferðir, sem sagt er að hafi tekist vel. Sem þýðir væntanlega að fleira fólk hafi drukknað fyrir þeirra tilverknað. Frá þessu var sagt í fréttum einsog ekkert væri. Það lá við að bent væri á hópfjármögnunarsíður þar sem leggja mætti verkefninu lið. En auðvitað er þetta bara morð. *** Ég las fyrir nokkrum árum um merkilegt mál í Ungverjalandi. Þar hafði gengi nýnasista slátrað ótal sígaunafjölskyldum með sömu aðferð. Fyrst fundu þeir heimili þeirra. Svo vöktuðu þeir það og um nóttina, yfirleitt nálægt miðnætti, köstuðu þeir mólotovkokkteilum í híbýlin – sem voru oftar hús en stundum húsvagnar. Þegar fólkið kom svo út – ef það þá vaknaði og brann ekki bara í hel – sölluðu þeir fjölskylduna niður með vélbyssum. Foreldra með börn sín í fanginu, ömmur og afa og svo framvegis. Lögreglan afgreiddi fjöldann allan af svona málum á sama hátt.  Helvítis sígaunar sem sofna út frá sígarettum, eldavélum, arineldum eða kveikja í sjálfum sér af einskærri heimsku. Case closed.  Það var ekki fyrr en rannsóknarnefnd frá Evrópusambandinu blandaði sér í málið – þegar þetta var orðið fáránlega algengt – að hið sanna kom í ljós. Þá var auðvitað fyrir löngu orðið of seint að finna hina seku. *** Þetta er sirkabát það brjálaðasta sem maður getur hugsað sér. En það vantar ekki mikið upp á til að þetta sé fullkomin myndlíking fyrir Evrópuvirkið – Fortress Europa. Í meira en hundrað ár – og sennilega miklu lengur – hafa Evrópumenn notað efnahagslega og hernaðarlega yfirburði sína til þess að breyta stórum hluta miðausturlanda í brennandi hús. Síðan stöndum við á bremsunni gagnvart þeim sem vilja komast út – sumum leyfum við að drukkna, aðra beinlínis skjótum við, einhverjum borgum við fyrir að snúa aftur í brennandi húsið þar sem við ljúkum við að brenna þá inni. Þeim sem við hleypum inn leyfum við náðarsamlegast að gerast þriðja flokks borgarar, fá þriðja flokks menntun í þriðja flokks hverfum og svo þriðja flokks tekjur. Og svo höstum við á þá og biðjum þá að þakka fyrir sig. *** Og nei, undantekningarnar veita okkur enga fjarvistarsönnun frekar en tilkoma Obama í forsetastól þurrkar út rasismann í Bandaríkjunum. Að til séu innflytjendur sem hafa „spjarað sig“ breytir engu um fátækrahverfin, um vonleysið, mótlætið – að alast upp við að allir fjölmiðlar séu fullir af aðsendum greinum um hvað maður (þ.e.a.s. allir sem líkjast manni, eru í sömu stöðu og maður sjálfur, með skyldan bakgrunn) sé mikið vandamál. *** Og sko. Við þá sem vilja senda hælisleitendur aftur til síns heima – hvort sem það er Albanía, Íran, Sýrland eða Márítanía – segi ég: flyttu þangað sjálfur, ef það er svona sjálfsagt mál. Það er þá eitt laust pláss hér hjá okkur. Sá sem ekki tímir að taka þátt í velferð annarra á ekkert tilkall til velferðar sjálfur. *** Annars hefur mér alltaf þótt merkilegt að óréttlæti svíður ekki síst þá sem verða ekki fyrir því sjálfir heldur standa nálægt því. Þannig var enginn af helstu leiðtogum kommúnista á 20. öld úr verkalýðsstétt nema Stalín. Og stærstur hluti jihadista (utan miðausturlanda) er af annarri kynslóð innflytjenda og margir þeirra eru einmitt undantekningar. Tilfinningin er ekki sú sama og tilfinning hefndarinnar – a.m.k. ekki hefndar fyrir sjálfan sig, heldur meira svona  that could’ve been me . Hefndar fyrir hönd einhvers annars sem líkist manni. Ekki endilega bara þeirra sem lifa í gettóum í Belgíu heldur líka þeirra sem lifa í gettóum í Sýrlandi. Afa og ömmu, frænda og frænku. *** Einfaldasta og ódýrasta aðferðin til þess að draga úr hryðjuverkum er augljós. Fyrst slekkur maður á hernaðarmaskínunni og vopnaframleiðslunni; svo jafnar maður kjör fólks. *** Reiðasta og róttækasta PC-fólkið er líka yfirleitt það fólk sem hefur það best. Hvítt, bandarískt efrimillistéttarfólk í dýrum háskólum. Það eru alveg áreiðanlega ekki gettóbúar sem vilja reka Bill Maher fyrir að … á maður að nota n-orðið þegar maður er að segja frá því? Ég hefði sennilega ekki hikað mikið við það fyrir 15 árum. Þetta – einsog hjá mörgum jihadistum – er reiði-via-samviskubit. *** Ég heyrði á dögunum af skandinavísku tímariti sem heitir Nord. Lógóið var sirka: N

ord Þeir sem ég ræddi við voru sammála um að N-ord væri óheppilegt orð á norrænu tímariti. *** Annars eru vinstrimenn augljóslega ekki einir um að vera viðkvæmir fyrir „gríni“. Bandarískur grínisti, hvers nafn ég man ekki (ég er að skrifa þetta ónettengdur og nenni ekki að gúgla í símanum), sennilega Kathy eitthvað, birti af sér ansi snotra mynd þar sem hún heldur á blóðugu höfðinu á Donald Trump. Og olli að minnsta kosti jafn miklu fjaðrafoki og n-orðatalið í Bill Maher (sem ég er annars alveg sammála um að er svolítill rasisti – en það eru líka bara rosa margir og það er samt ágætt að það séu ekki allir viðstöðulaust að gæta orða sinna). Og sennilega var Kathy, ef hún þá heitir Kathy, líka dálítið ósmekkleg. En það er bara alltílagi. Smekklegheit eru ofmetin. *** Ég kláraði The Sellout eftir Paul Beatty í gær. Hún fjallar um svartan mann í Dickens, Kaliforníu – svartasta bæ í Bandaríkjunum – sem ákveður að taka aftur upp aðskilnaðarstefnu og fer að hengja upp skilti þess efnis víðs vegar um bæinn. Hann tekur líka upp þrælahald. Lógíkin er nokkurn veginn sú, með örlítilli einföldun, að nútímasamfélagið í Bandaríkjunum geri ekki annað en að breiða yfir rasismann sem sé enn alveg jafn mikið til staðar. Þegar búið sé að hengja upp „blacks only“ og „whites only“ skiltin birtist hinar raunverulegu útlínur bandarísks samfélags aftur. *** Línurnar eru auðvitað ekki alveg einsog þær voru þegar skiltin voru tekin niður. Til dæmis bitnar aðskilnaðarstefnan í Dickens ekki síst á þeim fáu hvítu íbúum sem þar búa – það eru hvítu grunnskólakrakkarnir sem þurfa fylgd í skólann. En í stað þess að þeim sé fylgt eftir af þjóðvarðliðinu er þeim fylgt eftir af blaðamönnum og hvítum ungmennum frá öðrum hverfum sem vilja fá eiginhandaráritun. *** Bókin er frábærlega skrifuð. Textinn er leiftrandi af hugmyndaauðgi. Sprúðlar, segir maður það ekki? Hann sprúðlar! *** Ég sat einu sinni í lest með Paul Beatty í Frakklandi. Það var áður en hann vann Man Booker verðlaunin fyrir The Sellout; einhvern tíma í fyrra, snemma í fyrra. Við vorum samferða frá einhverjum frönskum smábæ sem ég man ekki hvað heitir, þar sem við höfðum báðir lesið upp, og til Lyon, þar sem við vorum að fara að spjalla um bækur okkar hvor í sinni bókabúðinni. Við vorum bara tveir á ferðinni í 3-4 tíma og komumst að því á leiðinni að við áttum nokkra sameiginlega vini í bandarísku ljóðasenunni. Ég kunni afar vel við hann og skömmu síðar opnaði ég einhverja bók eftir hann en festist ekki. Ég er voða glaður að hafa gefið því annan séns. *** Í gærkvöldi, þegar ég gat ekki sofnað fyrir hóstunum í sjálfum mér, hóf ég svo að lesa The Slynx eftir Tatjönu Tolstaya. Það er framtíðarsaga sem ég er enn að ná tökum á. Hún gerist í eins konar póst-kjarnorkuslyssamfélagi. Þeir sem lifðu sprenginguna af eldast ekki – en þeir eru mjög fáir – og hinir, sem fæðast eftir sprenginguna, hafa öðlast alls kyns afbrigðileika. Eru með tálkn á hnjánum eða fjörutíu pínulitla fingur eða eitthvað álíka. Hún er skemmtilega skrifuð. *** Ég er sennilega alveg dottinn út úr því að bókablogga. En ég kannski reyni eitthvað. Með þeim fyrirvara þó að það verði ekki að nauð. Síðast gafst ég upp á því strax því mér fannst ég þurfa að vera svo metnaðarfullur og lesa svo mikið og svo skammaðist ég mín þegar ég las ekki nóg og þetta varð einhver ægileg sálarflækja. *** Suma daga er þetta blogg augljóslega langt. En aðra daga verður það styttra. Og það verður aldrei um neitt eitt. *** Ég er annars sárlasinn og hef verið frá því í gærmorgun. Það var varla að ég viðurkenndi það fyrir sjálfum mér fyrren í dag. Sat samt á tveimur panelum – einum stuttum hálftíma panel með fransk-kanadískum höfundi sem heitir Nicolas Dickner (minnir mig), þar sem við kynntum einfaldlega hvor sína bók (ég Heimsku, hann Sex gráður frelsis) og svo eins-og-hálftíma panel með Luis Sepulveda og Martin Caparros frá Argentínu. Um hlutverk rithöfundarins, möguleika bókmennta á að „breyta heiminum“ og byltinguna almennt. *** Við vorum helst ósammála um að mennskan og bókmenntirnar væru óskyldar. Þeim varð báðum tíðrætt um að ef maður vildi berjast fyrir betri heimi gerði maður það „í heiminum“, svo að segja, úti á götu, ekki í bókunum – sem mér fannst hljóma einsog hálf innihaldslaus klisja (ég orðaði það samt kurteislegar). Ég reyndi að gera grein fyrir þeirri skoðun minni að bókmenntirnar væru í heiminum en ekki til hliðar við hann og maður gæti barist fyrir betri heimi í öllu sem maður tæki sér fyrir hendur, gæti verið byltingarsinni við að bursta í sér tennurnar, borða morgunmat, tjalda, elska fjölskylduna sína, starfa á þingi, skipuleggja grasrótarstarf eða skrifa bækur. *** Ekki þar fyrir að ég á ekkert með að segja Sepulveda neitt um neitt um byltingar. Hann sat í fangelsi á tímum Pinochets og var harðkjarnatrotskíisti í Suður Ameríku árum saman. Og sennilega er það algerlega nauðsynlegt fyrir hann að slíta stjórnmálastarfið frá bókmenntastarfinu. Forsendur okkar gagnvart spurningunni gætu varla verið ólíkari. Og við meintum ólíka hluti með svörum okkar. Kannski fannst mér ég bara þurfa að árétta hvar ég stæði. Og gerði það vonandi alveg án þess að haga mér einsog eitthvað merkikerti. *** Ég held ég hafi gleymt að nefna að bókmenntir gætu samt ekki verið áróður. Ekki frekar en bókmenntir geta verið bananar. Það segir í sjálfu sér ekkert um áróðurinn eða bananana að hann eða þeir geti ekki verið bókmenntir – sennilega er góður áróður góður áróður einsog góðir bananar eru góðir bananar og allt í góðu með það. Áróður er bara ekki bókmenntir. *** Bókmenntir eru byltingarsinnað afl til góðs þegar þær eru notaðar til þess að horfast í augu við einhverja mennsku, eitthvað samfélag – tengslin á milli okkar, ástina og hatrið og tungumálið og … ég veit það ekki. Rýna í hnén. Siðferðið. Hárlúsina og flatlúsina. Þær eru aðferð til að skilja heiminn, aðferð til að spyrja heiminn, til þess að gera heiminn flóknari og erfiðari viðfangs. *** En það er fáránlegt að vera svona lasinn á sviði. Maður man varla spurningarnar nógu lengi til að byrja að svara þeim. Og gleymir í miðju svari hvar maður byrjaði. Og svo þegar maður hikar og man það aftur fer maður á hósta og þegar maður er búinn að hósta er það horfið aftur. *** Ég skellti í mig tveimur rauðvínsglösum fyrir seinni panelinn. Annars hefði ég sennilega ekki lifað hann af. Ég hefði bara sofnað. Eða lognast út af með opin augun – augun sokkið inn í höfuðið á mér og ekkert staðið út af meðvitund minni. *** Guð hvað ég er líka lúinn hér og nú. Einhvern veginn of lúinn til að sofa líka. Alveg kolringlaður. Lúinn og búinn og rúinn og snúinn. *** Auk panelsins voru áritanir í tveimur hollum – samanlagt nærri þrír tímar. Ég áritaði einhvern slatta, en þó ekki nándar nærri jafn mikið og sessunautur minn Sepulveda (sem á hundrað bækur á frönsku, þar af nokkra krimma sem rjúka út). Á þessum þremur bókmenntahátíðum sem ég hef heimsótt í Frakklandi síðasta mánuðinn hef ég sennilega áritað bækur fyrir alla  Frakka sem hafa komið til Íslands á síðustu árum eða ætla að fara þangað á næstum vikum, sem samanlagt er sennilega um níu-tíundu hlutar allra Frakka sem á annað borð hafa efni á slíkum fáránlegum munaði. Ég hef ekki einu sinni efni á því sjálfur að fara úr bænum. Kannski að maður ráði við pulsu í Bolungarvík og vonandi plokkfiskloku á Suðureyri ef það er ekki hætt að selja þær eða farið að selja þær með gullflögumylsnu. *** Ég er ógeðslega þreyttur. Það er partí í næsta lestarvagni. 100 franskir rithöfundar öskursyngja Edith Piaf einsog fótboltabullur. Ef að hryðjuverkamennirnir finna okkur vona ég að sprengjan sé í þeim vagni.