Untitled

Norðmennirnir reyndu að drepa mig með því að bera í mig peninga en Frakkarnir fara aðra leið; þeir troða í mig sjávarfangi og hvítvíni og vona að ég lognist út af, en ég gefst aldrei upp, þeir vita ekki að ég er alinn upp í rækjuverksmiðju og um æðar mínar rennur hreinn vínandi. *** Ég byrjaði daginn á panel með tveimur höfundum – annar þeirra var franskur, hinn þýskur, en báðir frönskumælandi. Patrice Favaro og Andreas Eschbach. Við vorum kynntir til leiks sem vísindaskáldsagnahöfundar – Patrice og Andreas báru það af sér, og áttu þó meira tilkall til þess en ég, sem hef skrifað þessa einu bók sem gerist í framtíðinni (og varla þó einu sinni langt í framtíðinni). En ég var ekkert að bæta þriðja neiinu í þennan kór og sé ekki hverju það skiptir heldur. *** Ég er með túlk. Hún túlkar til og frá ensku og er algerlega stórfengleg í sínu fagi. Það er alveg sama hvað ég tala lengi eða kaotískt, hún bara hripar hjá sér einhver skringileg tákn og krummelúr, og á endanum kemur þetta allt út á frönsku – ég skil örlítið í tungumálinu og verð ekki var við að hún gleymi neinu. Það er helst þetta verði skýrara þegar hún er búin að melta það aðeins. *** Ég sagði ekki margt af viti. Ég var þó ánægður með eitthvað – sennilega þá ábendingu að þegar spurt væri um frelsi og tækni (þess var spurt) þá fælist frelsið aldrei í einum tilteknum stað heldur hreyfingu frá einum öfgum til hinna, þegar maður reynir að leysa þá mótsögn sem er fólgin í því að vilja hafa möguleika til alls en ekki verða sjúkur í freistingar. Vilja geta allt og fá allt en vera í friði fyrir öllu samtímis. Ef maður er stöðugt fastur í borgarysnum er frelsið fólgið í að stíga upp á fjallstopp – þar sem er ekkert internet, ekkert símasamband, helst ekkert fólk, bara þögnin og alheimurinn. En ef maður er stöðugt fastur í slíkum aðstæðum – í vonlausum draugabæ, t.d. – er frelsið fólgið í möguleikunum sem borgin býður upp á. *** Þetta má færa yfir á tæknina líka. Maður er aldrei jafn frjáls og daginn sem maður hættir á Facebook, og losnar við allt áreitið, nema þá ef vera skyldi daginn sem maður byrjar aftur á Facebook, og öðlast aftur alger tengsl við gamla vini, kollega og kunnugleg fés. *** En það þýðir ekki að maður sé frjáls í borginni til lengdar. Eða á fjallstoppnum. *** https://kolbrunarskald.tumblr.com/post/161424499624/saint-malo https://assets.tumblr.com/post.js *** Eftir samtalið fór ég á bókamessuna og sat og áritaði bækur í nokkra klukkutíma ásamt Luis Sepulveda og Pascal Dibie. Þangað kom meðal annarra Einar Már Jónsson, fyrrum sagnfræðikennari við Sorbonne háskóla, Megasarbróðir og höfundur frábærra bóka um frjálshyggju, ’68 í Frakklandi og hugmyndafræði samtímans. Hann keypti Heimsku á frönsku handa eiginkonu sinni og fékk áritaða, og hafði svo á orði að hana þyrfti nauðsynlega að kvikmynda (þegar ég fór eitthvað að blaðra um að ég væri að skrifa leikrit). Og ég var eiginlega búinn að gleyma að það var og eða er í bígerð. *** Eftir hádegismat fór ég út að hlaupa meðfram ströndinni. Ég útaðskemmtamérreykti svolítið mikið í Lillehammer og er allur einsog taðreyktur hrefnureður að innan á eftir. Og ferðalúinn og lufsulegur. Og spikfeitur af óþarfa vellystingum. En ströndin er falleg og ég þurfti svo sannarlega á þessu að halda. Gerði líka jóga í morgun, eftir að hafa misst tvo daga úr á ferðalagi.