Eitt af því besta við að hitta gamla vini sem maður hefur ekki hitt lengi er að maður á svo mikið af góðum sögum ósögðum, og margar góðar sögur óheyrðar. En svo vex maður líka í sundur og þarf að sýna því skilning – við Karen lentum í því nokkrum sinnum í gærkvöldi, og var kunnuglegt frá síðasta hittingi fyrir sex árum, að stýra inn á einhver pólitísk hættusvæði og bakka: tölum ekki um þetta, látum það bara vera. Ekki svo að skilja að við höfum verið sammála um allt þegar við vorum yngri – en kannski var samtíminn ekki jafn infekteraður þá og nú. *** Tíundi áratugurinn var óttalega saklaus en líka – og kannski einmitt þess vegna – meira um áhyggjulausan kjafthátt. Í minningunni eru meira að segja stríðin og ofbeldið einhvern veginn mörkuð dýpri óraunveruleikatilfinningu. Ég var í Þrándheimi ellefta september; Melli var farinn heim og við Karen bjuggum held ég ein í húsinu við Angelltröveien. Þar var sjónvarpslaust svo við hreiðruðum um okkur í sófanum heima hjá mömmu hennar í nokkra daga. Þegar ég hélt svo áfram til Helsinki tæpum mánuði síðar – daginn sem leiðir skildu í Osló var ráðist inn í Afganistan. *** Veröldin er auðvitað aldrei söm. Það hefur aldrei neitt gerst svo ómerkilegt að veröldin hafi verið söm á eftir. Það er ekki meira ofbeldi í heiminum eftir 11. september – hryðjuverkaógnin í Evrópu er ekki einu sinni meiri, heldur þvert á móti . En óttinn er meiri. 11. september og önnur hryðjuverk síðan hafa að mörgu leyti opnað augu fólks fyrir alvörunni. Það sem við gerðum 11. september – við sem erum alin upp við að finnast við örugg (sem er ekki það sama og að vera það) – var einfaldlega að horfast í augu við dauðann. Dauðinn var hins vegar engin tíðindi í sjálfum sér – hann var alltaf þarna. *** Karen sagði mér að þann 22. júlí – þegar árásirnar voru gerðar í miðborg Osló og á Utöya – hefði hún verið á suður Spáni ásamt kólumbískri vinkonu sinni, sem er alin upp í Medellín. Þegar maður er frá Medellín markast allt samband manns við ofbeldi af því hversu algengt það er – vinkonan spurði hvort Karen þekkti einhvern þarna og þegar í ljós kom að svo var ekki var víst næstum einsog hún registeraði ekki alvöru málsins lengur. Hún vildi bara halda áfram að túristast. *** Í fyrra fór ég nokkrum sinnum til Tyrklands og oftar til Frakklands, einsog árið áður. Í kjölfar hryðjuverkaárása. Viðbrögð heimamanna hefðu ekki getað verið ólíkari. Frakkarnir skrifuðu löng hugulsöm bréf þar sem þeir útlistuðu að það væri alltílagi að vera hræddur, alltílagi að afbóka ferðina ef ég teldi mig ekki óhultan í Frakklandi (ég var ekki einu sinni að fara til Parísar). En Tyrkirnir ypptu ekki einu sinni öxlum þótt árásin þar væri á flugvellinum sem ég flaug um – viku fyrir festival – og hefði verið þriðja árásin á fjórum mánuðum. Enda terrorinn annars konar hluti af daglegu lífi þar. *** Að vísu gerðist það í annarri heimsókn minni til Istanbul að eitt tyrkneska skáldið neitaði að fara með hópnum á Taksimtorg, þegar upp á því var stungið – með hópi af útlendingum sérstaklega. En einhvern veginn sagði hann það líka svona einsog þegar segi fólki að fara sér ekki að voða í Reynisfjöru. *** Maður venst ofbeldi. Það vita allir sem muna eftir því þegar slegist var á böllum. Og þegar maður hefur afvanist því verður fáránlega trámatískt að komast aftur í tæri við það. Að sjá fullorðna fulla karlmenn, vöðvastælta sjómenn, kýla hvor annan af öllu afli í andlitið. Ég ímynda mér að ef það gerðist núorðið myndi hálft ballið þurfa á áfallahjálp á eftir. *** Ég er ægilega þreyttur á þessum ferðalögum, ef satt skal segja. Samt hlakka ég mjög til þess að fara til San Francisco með Nödju í sumar. *** Ég taldi mig hafa séð Knausgård á götu í Lillehammer. En svo kom Stella bókmenntahátíðarstjóri og sagði mér að það væru tveir Knausgård tvífarar í bænum. Svo kannski sá ég bara einhvern tvífara. Annars var hann víst í Reykjavík líka. *** Reyndar hálfleiðist mér hann. En manni þarf ekki að finnast allt skemmtilegt heldur.