Untitled

Lestin. Ekur til Osló. Aka lestir? Keyra þær? *** Mér finnst einsog hljóðeyðandi heddfónarnir mínir séu alveg hættir að eyða hljóði. Einsog þetta var nú stórkostlegt þegar þeir voru nýjir. Ég veit ekki hvað veldur. Ekki þar fyrir að ég er að hlusta á Tom Waits og það þarf ekkert að eyða því hljóði. Burgers and fries and what kind of pies. *** Ég hef sagt það áður: Að hætta á Facebook er næstum einsog að hætta að vera til. Eða fara langt afsíðis. Flytja í sumarbústað úti í sveit. Í afskekktum firði. Eiginlega er þetta mjög grunsamlegt. Hvað ætlar maður eiginlega að gera í þessum firði? Hvers vegna vill maður ekki að það sjáist til manns? Ekki þar fyrir að hér er auðvitað opið – það liggur vegur í fjörðinn, hann er bara fáfarinn. *** Mig langar að segja að ég sé með klofinn huga – ég sé kleyfhugi – en það er sennilega ekki það sem ég á við. Ég á sennilega við að ég glími við einbeitingarskort. Sem er ekkert nýtt. Sennilega er ég með hvínandi athyglisbrest. Mér finnst ég varla virka nema ég sé á þrjú hundruð kílómetra hraða (sennilega er lestin einmitt á þrjú hundruð kílómetra hraða, ég sit hins vegar kyrr). En mér líður einsog heilinn á mér sé á fjórum stöðum samtímis. Fall out of the window with confetti in my hair. *** Kleyfhugi er þýðing á skitsófren. En svo er ástandinu lýst svona í orðabók: kleyf·hugi KK sálfr.
• maður með skapgerð sem einkennist af innhverfu og hlédrægni eða tortryggni og viðkvæmni í mannlegum samskiptum (tengist rengluvexti skv. kenningum Kretschmers)
sbr. hringhugi Mér finnst þetta allt kunnuglegt. Í dag. Ekki alla daga alltaf. En í dag. *** Þetta er svo hringhugi. hring·hugi KK sálfr.
• maður með skapgerð sem sveiflast á milli glaðværðar og hryggðar, eljusemi og doða (tengist riðvexti skv. kenningum Kretschmers) Svona er ég ekki. Ætli þetta sé ekki það kallast á gullaldaríslensku að vera maníódepressífur? Eða jújú, sveiflast milli eljusemi og doða – það kannast ég líka við. *** Annars greini ég mig yfirleitt með allt sem ég les um. Öll stjörnumerkin passa mér vel, ég er týpískur hrútur, vog, meyja, ljón og krabbi. Ég er með öll krabbamein sem ég hef lesið um, alla geðsjúkdómana og ég hef upplifað öll heimsins trámu. Þetta kalla ég að vera empatískur. Meðlíðandi. *** Ég náði að gera mínútu af jóganu mínu í morgun þegar síminn hringdi. Það var móttakan sem vildi láta mig vita að ég hefði átt að tékka út tólf mínútum fyrr. Ég sagðist koma niður eftir fimm og dreif mig í buxurnar og rúllaði upp mottunni. Hugsanlega hefði ég bara getað spurt hvort ég mætti vera í hálftíma í viðbót. En ég veit líka að öll hótelpláss í bænum voru uppbókuð – vinur minn, Dan, sem er ljóðskáld og ritstjóri hjá stærsta forlagi Noregs, þurfti að sofa á sófum á hótelherbergjum annarra, og útgáfustjóri hjá öðru forlagi neyddist til að flytja milli hótelherbergja daglega því það var ekkert eitt herbergi laust tvo daga í röð. Kannski var það hún sem beið eftir að komast í herbergið mitt. *** Nú er lestin bara stopp. Og ég er að hlusta á rosalega skrítið kassagítarskover af Thunder með AC/DC. Þetta er mjög vont. Skipti í Beat It  kover með Yngwie Malmsteen. Líka lélegt. Hann spilar samt mjög hratt. *** Nettengingin í þessari lest er til skammar. Og það í ríkasta landi í heimi! *** Í gær heyrði ég unga menn úr norskri verkalýðsstétt lýsa því hvernig þeir hefðu sem unglingar dýft rúsínubollum í koníak. Til tilbreytingar í fylleríinu. Í mínu ungdæmi drukkum við bara heimalagaðan gambra. Þegar ég nefndi það við þá að þetta væri kannski ekki alveg eðlilegt, þá báru þeir fyrir sig að þetta hefði verið mjög lélegt koníak og ég væri að misskilja. *** Mér finnst algengara og algengara að ég lesi fréttir sem eru bara illa dulbúinn pólitískur áróður. Ég segi einsog ónefndur leiklistargagnrýnandi: Þessu verður að linna! #ACDC