losaði blauta manséttuna af vendinum dýfði
vetrargosunum vöfðum í 2 bergfléttublöð í glasið þeir drukku
vatnið þeir stóðu við rúmið mitt um nætur gegnum
gardínurnar snerti tunglið við enni þeirra auga þeirra, fann upp á 1 ást
til þeirra, í sakleysi mínu úr um að nudda blómaugu í byrjun mars eftir Friederiku Mayröcker (snúið úr sænskri þýðingu Ullu Ekblad-Forsgren) Aram Nói er sjö ára í dag. Við skriðum einhvern veginn dauðþreytt fram úr hálftíma fyrr en venjulega og færðum honum morgunverð og gjafir í rúmið. Hann fékk eitt og annað – ninjabúning, star warsgrifflur, tvær bækur (Rottuborgari eftir David Walliams og Doktor Proktor og heimsendir kannski eftir Jo Nesbö), bomberjakka og sundskýlu. Seinna í dag er svo vinaafmæli og á morgun er fjölskylduafmæli. Ég er rangeygur af þreytu. Það hefur ekki bara með afmælið að gera heldur ekki síður þá staðreynd að litla systir afmælisbarnsins skreið upp í óvenju snemma og sparkaði í mig svo til viðstöðulaust í 5-6 klukkustundir. Starafugl er í fullum gangi. Þegar ég byrjaði með hann hafði ég hugsað mér að þetta yrði árslangt verkefni og svo myndi hann kannski bara reka sig sjálfur. Nú hef ég afráðið að taka þetta bara að mér fyrir lífstíð eða svo – með sumar- og hátíðafríum – en reyna þá sömuleiðis að gera þetta dálítið átomatískt, svo það verði auðveldara að sinna því meðfram öðru. Frábær grein í dag eftir Jóhann Helga Heiðdal um hugvísindi, kapítal og kapítalisma. http://www.starafugl.is .
Untitled
Orville! Ímyndaðu þér flugvél sem flýgur alein. Flugvél sem flytur allar okkar syndir, flugvél sem flytur alla okkar glæpi, allar okkar sorgir. Flugvél sem er okkar eigin dreki, flugvél sem við getum látið berjast við alla ímynduðu drekana sem skáldsagnaráðuneyti ríkisstjóra heimsins munu semja næstu aldirnar. Flugvél sem við þurfum ekki að hugsa meira um á meðan við bjóðum öldruðum frænkum og föngulegum dætrum þeirra í útsýnisflug yfir velli Norður Karolínu og ræðum ástandið í gamla heiminum. úr Drónar eftir Ásgeir H. Ingólfsson Það er hádegi. Klukkan er eina mínútu gengin í eitt. 12.01 alveg að verða 12.02. Ég er seinn í mat. Sennilega treð ég bara í mig einhverjum afgöngum og skelli síðan dálítilli rauðri málningu á spýturnar sem ég var að skipta um í klæðningunni á húsinu, vegna þess að þær voru fúnar og handónýtar. Það er ves að eiga hús. Og væri miklu meira ves ef ég væri duglegri, ef ég ætti meiri pening og kynni meira fyrir mér í smíðum. Þjóðfélagsmálin: Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður án þess að eitthvað jafn gott eða betra komi í staðinn þá kveiki ég í Austurvelli. Annað var það ekki í bili.
Untitled
because in the above-named shop 1 kg. of cookies was sold to a jewish woman
because she attempted to deliver a fairly large quantity of food to eugen israel stein, chief justice of the state court
because he repeatedly went to the jew’s apartment and often provided him with food
because he drew on his own resources to have money and clothing sent to the jewish woman
because she accepted linens, clothing, furs and cash from jews for storage
because she took up collections for a jew dismissed from his job
because she kept up relations with jews and provided them with underclothes úr transcript eftir Heimrad Bäcker transcript er vel að merkja bók sem er byggð algerlega á tilvitnunum í gerendur og þolendur helfararinnar. Þetta er úr enskri þýðingu Patricks Greaney og Vincents Kling. Ég gleymi undantekningalítið að blogga fyrst á morgnana. Sem er auðvitað voðalegt því þá heldur mamma hans Ingó (þ.e.a.s. bolurinn/vinnuveitandinn/skattgreiðandinn) að ég sofi alltaf svona hryllilega yfir mig. En ég fer á fætur. Ég er bara ekki mikil morgunmanneskja og er frekar utan við mig fram undir hádegi – finnst best að sinna tilbreytingarsnauðum verkum, einsog að pósta nýjum greinum á Starafugl eða ganga frá to-do listanum mínum. Skipulagningu. Eiginlega finnst mér einsog gáfur mínar fari almennt þverrandi eftir því sem ég eldist. Ég er bestur ungur og eftir hádegi. Ég held þetta sé afleiðing af því að hafa ekki farið í skóla. Ég sé fyrir mér að þeir sem fóru í skóla verði gamlir vitringar – ég glata bara lífsþróttinum og geng í barndóm.
Untitled
ég hef komist að því
segirðu
að höfuð eru hol að innan
hol og köld
og djúp og hol úr Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur Ég held að það sé talsvert algengara að kjötætur lagi sig að þörfum grænmetisætna og vegana en öfugt. Þó þekki ég a.m.k. eitt dæmi um grænmetisætu sem lagar reglulega kjötrétti. En mér finnst pínulítið hlægilegt að sjá vegana kvarta undan stríðni; á meðan þeir gefa sig margir (ef ekki flestir) út fyrir að vera í róttækri baráttu gegn kjötátinu og kjötætunum. Það er til marks um viðkvæmni og skort á perspektífi – að maður er ekki miðjan í veröldinni og hún snýst ekki bara um manns eigin gildi og viðmið. Ekki að maður megi ekki standa í róttækri baráttu – en maður tekur því þá bara að henni fylgi átök án þess að verða fornermaður yfir því að fólkið sem maður uppnefnir morðingja kalli mann grasbít á móti. Ekki það ég hafi strítt vegana um ævina* eða sjái sérstaka ástæðu til þess – ég elda lítið kjöt sjálfur (því konan mín borðar það ekki) og það er bæði grænmetisætuplokkfiskur og veganplokkfiskur í Plokkfiskbókinni. Ég held að það sé öllu fólki hollt að rækta sínar eigin sérviskur og ekki síður að sýna sérviskum annarra nokkurn kærleika. Sérviskur eru forsenda breytinga og lífsrýmis. Kjötát er líka smám saman að verða sérviska – ætli ég gefi því ekki svona sirka það sem eftir er af minni lífstíð. 90-95% af öllu sem fólk segir um mat er hins vegar kjaftæði. Sérstaklega það sem er stutt vísindalegum fullyrðingum. — * Þetta er alveg áreiðanlega lygi. Ég held ég hafi um ævina strítt fólki fyrir næstum allt sem hugsa má á jörðu. En ég var líka einu sinni grænmetisæta og var mikið strítt á því – sem jafnar þetta út.
Untitled
sagðar eru blikur á lofti
að blóðkreppa auðvaldsins
fari land úr landi
einsog krabbamein úr Dáinsheimur eftir Birgi Svan Símonarson. Ég las fyrst að blóðkreppa auðvaldsins færi úr landi. Frekar en land úr landi. Og svei mér þá ef mér finnst mislesturinn minn ekki betri. Myndin er að vísu illskiljanlegri þannig – en líka áhugaverðari. Að fara úr landi einsog krabbamein. Annars er líka undarlegt að blóðkreppa fari um einsog krabbamein. En skemmtilegt. Eða, þú veist, ekki skemmtilegt – en línan er áhugaverð. Ég sendi frá mér þýðinguna á Hvítsvítu Athenu Farrokhzad í morgun. Í síðasta sinn. Og fór fram á að vera getið á forsíðu – þýðanda er alla jafna ekki getið á forsíðu á Íslandi (oft má þýðandi bara heita góður sé hans getið yfir höfuð). En mér finnst sem sagt að það ætti að vera regla með fáum undantekningum að þýðanda sé getið á forsíðu. Svo sjáum við bara hvernig forlagið tekur í það. Það er taugatrekkjandi að geta ekki gert fleiri breytingar. Taugatrekkjandi að maður hafi hugsanlega breytt einhverju sem maður uppgötvar svo síðar að maður hefði alls ekki átt að breyta (ég lenti í því með Ginsberg þýðingarnar mínar). En það þarf að fara að koma þessu í prentun ef bókin á að nást út í byrjun október. Við verðum saman í Norræna húsinu 4. október – á Gauk á Stöng 2. október (í góðum félagsskap) og hér fyrir vestan 6. október. Ég hef líka farið ítarlega í gegnum þetta með Athenu – og fengið framúrskarandi lestur frá Elínu Eddu hjá Forlaginu og John Swedenmark, sem þýðir íslenskar bókmenntir á sænsku (nú síðast Heimsku). Það var líka í boði hjá John sem Athena pikkaði upp lokalínurnar í bókina, sem eru kunnuglegar fyrir íslendinga: Bróðir minn sagði: Öll þau fræ sem fengu þann dóm að falla í þessa jörð og verða aldrei blóm Það er fyrir þau sem jörðin skal rifna Textinn í bókinni er vel að merkja allur svona hvítur á svörtum grunni.
Untitled
Ég er eins konar kóngur og eins konar asnaeyru.
Við allt sem ég snerti festir sig líka sú nánd
sem móðir og barn nota til að halda lífi hvort í öðru. (Jag är en sorts kung och en sorts åsneöron.
Vid allt som jag berör klamrar sig också den närhet fast
með vilken mor och barn håller liv i varandra) Henriikka Tavi – úr Toivo/Hoppet í sænskri þýðingu Henriku Ringbom. Byrjaði daginn á að festast í sænskum debatt um hið pólitískt rétta og hið pólitískt ranga. Nú snýst það um Bókamessuna í Gautaborg, sem verður haldin í lok september. Á messugólfinu má gjarna finna bása frá hinum ýmsustu tímaritum – og þar eru t.d. veitt verðlaun fyrir tímarit ársins. Í ár bættist í selskapinn öfgahægriblaðið Nya Tider – sem eru eins konar teboðsfasistar. Í fyrstu varði Bok & Bibliotek þá ákvörðun að hleypa þeim inn, en þegar þrýstingurinn varð of mikill var Nya Tider rekið út aftur. Einhvern veginn er þetta að verða mjög týpískur gjörningur í sænsku menningarlífi. Sumir segja að Bok & Bibliotek eigi að sýna meiri prinsippfestu – ef þau standi með málfrelsinu þá geti það ekki bara verið þegar málfrelsinu er ekki ógnað – og aðrir segja fullkomlega eðlilegt, í raun réttri afar lýðræðislegt, að fólkið í samfélaginu hafi eitthvað um það að segja hvað sé fært á svið, hvað fái athygli og hvað ekki. Og ekki sem sagt bara fyrirtækið. Einhverjum hluta af mér – þeim hluta sem er vanur að sækja heim þetta þunglyndislega messugólf – finnst leitt að Nya Tider sé ekki með. Því það hefði þá í öllu falli fært messugólfinu dálítið meiri dramatíska dýpt. Tímaritið hefði aldrei fengið að vera í friði. Og vera þeirra á staðnum hefði hugsanlega gert að verkum að málefnin hefðu endað í fókus – einsog þegar Ungverjaland var gestaland og lýðræði og málfrelsi var sett í fókus – bæði á opinberri dagskrá sem og óopinberri. Hins vegar finnst mér prinsippleysi markaðarins vera mjög próblematískt – að mikilvægir lykilaðilar í menningarlífinu láti stjórnast af því sem í grunninn er markaðslögmálið, þ.e.a.s. duttlungum neytandans – eða PR-fulltrúans, skaðastjórnandans – frekar en að standa og falla með ákvörðunum sínum vegna þess að þær séu einfaldlega réttar. Ég er ekki viss um að mér hugnist meirihlutaræðið – það er a.m.k. ekki svo einfalt að það leiði ævinlega til réttrar niðurstöðu. Ég þreytist ekki á að minna á að vandamálið við helförina hafi ekki verið að hún fór hvorki í þjóðaratkvæðisgreiðslu né grenndarkynningu – hún var framkvæmd af til þess bærum, réttkjörnum yfirvöldum, sem stýrðu ríkinu (og tóku og héldu völdum) í samræmi við gildandi lög. Og í þriðja lagi, í mótsögn við allt hitt, finnst mér ekki að stórfyrirtæki eigi að ráða því hverjir teljast vera í húsum hæfir. Eða hverjir ekki. Því það eru augljóslega alltaf einhverjir sem eru einfaldlega ekki í húsum hæfir – þetta er bara spurning um hvar grensan liggur. Kannski er eðlilegast að þetta ráðist einfaldlega í einhverjum svona átökum.
Untitled
Svartari í svörtu, er ég naktari.
Aðeins trúlaus er ég trúr.
Ég er þú, ef ég er ég. (Schwärzer im Schwarz, bin ich nackter
Abtrünnig erst bin ich treu.
Ich bin du, wenn ich ich bin). Úr Lob der Ferne (Lofsöng fjarlægðarinnar) eftir Paul Celan. Ekki bara mundi ég eftir að byrja vinnudaginn á stuttu tilskrifelsi út í heiminn heldur tók ég upp gamlan sið – sem ég hyggst nú halda í heiðri – að byrja hverja færslu á tilvitnun. Ég hef ekki lesið nándar nærri jafn mikinn Celan og ég ætti að hafa gert – en ég keypti mér valin ljóð hans í frekar ódýrri prentun í Svíþjóð um daginn (þótt prentunin sé ódýr var bókin það reyndar alls ekki). Í dag eru níu ár frá því að við Nadja giftum okkur í finnskum skógi. Við höfum verið með mjög óljós plön um hvað við ætluðum að gera í tilefni dagsins – sem hafa meðal annars strandað á að það þýðir sennilega ekkert að reyna að bóka gistingu neins staðar í nágrenninu á miðri túristavertíð. Við höfðum eitthvað delerað um að lána foreldrum mínum börnin en þá brá mamma sér af bæ – sem við vissum af en höfðum gleymt – og þar með féll botninn úr því plani. Eiginlega er hún eina manneskjan sem gæti tekið þau svona fyrirvaralaust og skilað þeim í skóla og leikskóla í fyrramálið. Sennilega látum við duga að borða eitthvað (verulega) gott í kvöldmat þegar börnin eru sofnuð. Tólfréttað. Eða fáum einhvern vin til að sitja yfir þeim hérna á meðan við förum út. En það kemur allt í ljós.
Untitled
Ég steingleymdi að skrifa nokkuð hér í gærmorgun og gleymdi því svo aftur seinnipartinn og loks í þriðja sinn nú í morgun. En hér er ég kominn og ekkert við því að gera. Það er hægt að gleyma sumu stundum en það er ekki hægt að gleyma öllu alltaf, einsog skáldið kvað. Ég hef það stöðugt á tilfinningunni að samfélagið sem við búum í sé meira og meira að hólfast niður. Að foreldrar séu alltaf að verða betri í að fjölfalda sjálfa sig og það sé minna um stéttaflakk – eða í öllu falli of lítið um stéttaflakk. Og þá meina ég ekki úr lágstétt í miðstétt eða þannig, heldur að börn fræðimanna verði fræðimenn, börn skálda skáld, börn rútubílstjóra í mesta lagi leigubílstjórar og svo framvegis. Mér finnst einsog ég heyri varla af nýjum rithöfundi sem er ekki sonur, dóttir, frændi eða frænka einhvers annars rithöfundar – eða alinn upp í þannig umhverfi – og þá hef ég áhyggjur af hinum sem eru með rithöfundadrauma einhvers staðar á sveitabæ lengst úti í rassgati, hver hlúir að þeim? Það er ekki einsog nýliðunin í bókmenntaheiminum sé svo mikil fyrir. Og mikið held ég að bókmenntirnar verði fátæklegar ef þróunin verður sú að allir komi úr sama jarðvegi. Nógu erum við lík í stéttinni fyrir. En kannski varðar þróunin bara veginn fyrir einhvern almennilegan pönkara. Ég er farinn að sakna íkonaklastanna – meira að segja kaldhæðnin er núorðið upbeat, uppbyggileg og vinaleg. Öll dýrin í skóginum eru vinir (nema auðvitað óvinir þeirra sem ráða miðjunni). Ég sakna þess að listin sé hættuleg.
Untitled
Rauðasandur. A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Aug 21, 2016 at 8:23am PDT Ég gleymdi ekki að blogga í morgunsárið ég þurfti bara fyrst að sinna skattinum mínum. Og fara með Aino Magneu á leikskólann. Og sofa aðeins út – til hálfníu – af því við komum seint heim í gær. Vorum í útilegu/road trip um suðurfirðina. Tjölduðum í Bíldudal og skoðuðum Uppsali og Brautarholt í Selárdal, böðuðum okkur í Reykjarfirði og Birkimel, átum á Hópinu og Hótel Flókalundi, renndum út á Rauðasand og skoðuðum Skrímslasetrið á Bíldudal og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Sigurvegarar ferðarinnar voru fjöllin og strendurnar á leiðinni út í Selárdal frá Bíldudal og Skrímslasetrið. Ég gerði jóga í tunglsljósinu við sjóinn á Bíldudal og hljóp svo dálítið um morguninn. Annars höfum við setið mikið í bíl og Nadja æfingaakstrað sig einsog óð væri. Það er gott að vera kominn heim þótt ég sé lúinn en það er alltof mikið að gera. Og helvítis satans túristaskipið í firðinum – MS Koningsdam – byrjaði að blasta þokulúðurinn klukkan 7 í morgun og hefur gert á tveggja mínútna fresti alveg síðan – í samræmi við lög og reglur um skip sem lóna í þoku. Helvítis túristar. Það hefur orðið nokkur breyting á mataræði á vegum úti með tilkomu túristanna – nú er hægt að fá ýmislegt fleira en hamborgara. En hvernig stendur á því að hamborgarinn er enn eini budget valkosturinn? Hann kostar yfirleitt helminginn af því sem allir aðrir réttir kosta. Þorskréttur á veitingastað á Íslandi á ekki að kosta það sama og hann kostar á veitingastað í Finnlandi – þar sem þorskurinn er ríflega helmingi dýrari út úr búð. Og hvers vegna er svona lítið af grænmetis- eða fiskiborgurum? Það er alveg jafn auðvelt að kaupa þá tilbúna hjá heildsölum og kjötborgarana. Svo verða nú sum bæjarfélög aðeins að fara að taka sig á í grænmetisvalkostum; á einum stað (*hóst* Patreksfirði *hóst*) gat Nadja ekkert fengið – í öllum bænum – nema pizzu eða ostaslaufu. Og hún borðar samt fisk. Ef hún hefði verið vegan hefðum við sennilega endað á að drekkja henni í höfninni til að hlífa henni við að drepast úr hungri.
Untitled
Í dag er fjórði dagur í endurreisn þessarar dagbókar; sá þriðji var fall, í gær gleymdi ég einfaldlega að þessi staður tilverunnar væri til og skrifaði ekki orð. Það er heiðskírt á Ísafirði og ég fór með Aino á leikskólann – grunnskólinn byrjar ekki fyrren eftir helgi svo Aram Nói er að þvælast hérna í reiðileysi. Í gær fór ég á hryllingsmynd í bíó – mér brá nokkrum sinnum. Þegar ég kom heim stóð Nadja með straujárnið í stofunni og sagðist vera að velta því fyrir sér hvort hún fengi nokkurn tíma nógan tíma og næði til að strauja jafn mikið hana langaði. Ég spurði hana hvort hún gerði sér grein fyrir því hvað hún hefði verið að segja – og hvort þetta væri hugsanlega fyrstaheimsvandamál allra fyrstaheimsvandamála – og þá fékk hún dálítið hláturskast. Ég er kominn hálfa leið í gegnum Paradise City – fimmta lagið á Appetite. Og að verða búinn að negla fyrra sólóið í Welcome – löngu búinn að negla það síðara. Og sólóið í Nightrain. Þetta er rosaleg plata.