Það kom nýr dagur og ég gleymdi því að ég ætlaði að byrja daginn á að blogga. Þetta átti að verða nýi vaninn minn. Í dag byrjaði ég hins vegar daginn á að flytja skrifstofuna mína úr svefnherberginu yfir í gestaherbergið; strax og gestirnir voru lagðir af stað til Reykjavíkur. Það er ólíft í bílskúrnum fyrir sagga og myglu og ólykt – ég hef hugsað mér að byrja að takast á við það næsta mánudagsmorgun og því lýkur sjálfsagt ekki fyrren í fyrsta lagi fyrir jól. Ég þarf að byrja á því að taka til og gera pláss svo ég geti rifið niður innveggina; svo þarf ég að koma fyrir alla leka á veggjunum, reisa nýja innveggi og millivegg, loka niðurfalli, flota gólfið, laga loftræstingu og líta undir baðherbergið í horni skúrsins (það er óttalegt skítmix frá fyrri eigendum, sturtan lekur og svona – kannski er þetta í lagi þarna undir og kannski ekki). Í gær ætluðum við út að borða. Reyndum að bóka borð á Tjöruhúsinu og Hótelinu (Við Pollinn) en þar var allt uppbókað fram eftir kvöldi og við vorum með krakkaskarann. Í sjálfu sér var nóg pláss á Við Pollinn en það ku hafa verið skortur á kokkum í eldhúsinu. Við reyndum ekki einu sinni við Húsið – átta saman, þar er ekki nóg af borðum. Settumst á Edinborg, sem var pakkað, og fengum ágætis mat. En ef fer sem horfir þarf augljóslega að bæta eitthvað í flóruna hérna yfir sumarmánuðina. Það er eitthvað fullkomlega absúrd við að maður geti hugsanlega hvergi fengið mat nema á Hamraborg og Thai Koon – á venjulegu þriðjudagskvöldi (og raunar kemur Thai Koon ekki til greina því þau eru nærri því aldrei með grænmetisfæði eða fisk, og Nadja borðar ekki kjöt). Altso helvítis túristar (helmingur okkar – gestirnir – var reyndar túristar). Svo pissar þetta og skítur út um allt og lætur björgunarsveitir sækja sig sokkalaust upp á heiðar. En nú þarf ég að fara að vinna.
Untitled
Það er góður vani að byrja hvern vinnudag á því að skrifa nokkrar línur í dagbókina sína. Nú er klukkan orðin hálffjögur á þriðjudegi og ég hef ekki skrifað staf hér inn í rúma viku. Samt hefur vinnan gengið vel og lífsnautnin jafnvel enn betur. Ég hef farið í göngutúr í Skálavík og keyrt kræklóttann fjallastíg upp á Bolafjall í svartaþoku, rennt mér í vatnsrennibrautum og hangið í heitum pottum, barist við kríur á Þuríðarbraut, haldið stóra plokkfiskveislu fyrir vini og kunningja, bröns fyrir bróður minn og fjölskyldu, farið á Ríkharð III á Suðureyri, spjallað við Gerði Kristnýju á dyraþrepinu hjá mér, lært að spila sólóið í Nightrain með Guns N’Roses, lesið ljóð Daivu Cepauskaitu, farið út að hlaupa, gert jóga, eldað pizzur ofan í tvær barnafjölskyldur, unnið í Ljóðum um samfélagsleg málefni, þýðingunni á Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, endurreist Starafugl og hjólað út í Hnífsdal. Já og svo fór ég til læknis sem lét athuga í mér blóðið og ég er mjög hress, nema honum finnst ég ekki drekka nóg. Samt var ég með snert af þynnku í blóðprufunni – eftir plokkfiskveisluna kvöldið áður. En nú er best ég hætti svo ég hafi frá einhverju að segja á morgun líka.
Untitled
Ísafjörður. Það var ekki til neinn kúrbítur í Samkaup í dag. Ég hef ekki verið heima hjá mér síðan í maí og stundum er ekki heldur til kúrbítur í útlöndum. Ég er annars dálítið slappur – líklega hefur keyrslan verið heldur hörð síðustu vikurnar. Ég var mest í Svíþjóð en líka í Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Tyrklandi og Þýskalandi. Ég hef ekki komist út að hlaupa eins oft og ég hefði viljað, ekki gert jóga eins oft og manni er hollt og kannski reykt fullmargar sígarettur og drukkið fullmarga bjóra. Ofan í þetta er svo talsvert vinnuálag að flytja svona með sér vinnuna alltaf. Og mér er farið að leiðast óhemju mikið að ferðast. Hér er staðan sú að ég hef dæmt bílskúrinn óhæfan til íveru sökum loftgæða og veggjamyglu. Og ég hef skrifað verktaka til að láta gera tilboð í viðgerðir. Í millitíðinni þarf ég að vinna inni á heimilinu og hugsanlega eitthvað úti í bæ á þegar við fáum gesti síðar í vikunni. Eiginlega þyrfti ég samt líka að fá að pústa og hætta að vera lasinn og koma mér í einhvers konar ásættanlegt ásigkomulag. Ef til þess gefst tími eða næði. Tölvan mín er verr á sig komin en ég. Hún er lúnari og hefur áreiðanlega farið verr með sig. Það er bara þannig sem þetta er. Ég fann að lokum kúrbít í Bónus. Og halloumi. Og pantaði smurningu fyrir bílinn. Nú þarf ég bara að panta mér uppskurð uppi á spítala til að losna loksins við helvítis botnlangann.
Untitled
Nætur í Malmö. Hvað voru þær margar? Ég á erfiðara með að binda hugsanir mínar í orð, finnst mér, eftir því sem ég verð eldri, en ætli þær hafi ekki verið fimm. Nú er ég í Stokkhólmi fram á annað kvöld. Ætla að hitta þýðandann minn, sem er að ganga frá Heimsku, kaupa tösku undir gítarinn minn (Epiphone SG Pro), skokka og borða eitthvað gott í kvöldmat. Á morgun koma Nadja, Aram, Aino og líklega Liam frændi líka – við ætlum á Vasasafnið og svo til Västerås. Það versta við að ferðast með næturlestinni er hvað ég sef lítið. Það var geðbilaður hiti í lestinni í nótt. Alveg gersamlega sturlaður. Og svo er lestin einfaldlega ekki nógu lengi á leiðinni; kemur á áfangastað 06.15. Ég á bókað herbergi á hóteli en get líklega ekki tékkað mig inn fyrren á hádegi. Í Malmö hitti ég ósköp af fólki og átti góðar stundir – meðal annars Mats Kolmisoppi (sem biður að heilsa Auði Jóns og Sigurbjörgu Þrastar, ef þær sjá þetta), át hádegisverð með Athenu Farrokhzad, lenti á sörpræs fylleríi með Alex og Gustaf hjá Vertigo forlaginu, í dýflissunni undir forlagskontórnum, fékk að hanga með Idu Börjel og Jenny Tunedal, baða mig á Kallbadsstranden (sem er einhver mesti lúxus sem ég hef upplifað lengi), fara á opnun á nýjum latínóbar, og svo voru það Rakel og Karin og Benjamin og allir hinir. Mest hékk ég með Per, vini mínum og útgefanda, og bauð honum og Thomasi – sem á hinn helminginn í Rámus – í plokkfiskveislu. Og ég keypti sem sagt gítarinn líka, sem nú vantar bara góða tösku. Athena spurði mig í hádegisverðinum hvort mér væri það metnaðarmál að skrifa bækur sem væru innbyrðis ólíkar og ég svaraði því til að já, það væri það, en mér væri að lærast líka að allar þessar bækur – frá Blandarabröndurum til Illsku til Ást er þjófnaður til Hugsjónadruslunnar til Fönixins til Heimsku og Hnefa og Plokkfiskbókarinnar – ættu miklu meira skylt en ég hefði gert mér grein fyrir í upphafi. Að ég væri kannski alltaf að hnita í kringum sömu hlutina; hringsóla innan sama hugarheimsins og kannski bara að merkja einhverjar leiðir inn á korti, svona einsog maður ráfar um stórborg og áttar sig smám saman á því að hin ólíku hverfi, hin ólíku hús, tilheyra öll sömu heildinni og eiga einhverja innbyrðis lógík, eitthvað samhengi, án þess að maður geti endilega bent á nákvæmlega hvað það er (annað en að hýsa fólkið og starfsemi fólksins). Ég orðaði þetta nú eitthvað óljósar samt við Athenu og hún spurði hvað það væri sem ég teldi að bækurnar ættu sameiginlegt. Og þá varð mér eitthvað færra um svör – líklega muldraði ég eitthvað um ídentítet, um það hvernig við mótuðumst af því að horfa á aðra og vera séð og horfa á aðra horfa á okkur. Eftirlit í Heimsku er sú hugmynd á anabólískum sterum; lífið í störunni. Það er auðvelt að sjá þetta líka í Illsku, Gæsku og Hugsjónadruslunni – eitthvað minna í Eitrinu (sem fjallar um fólk sem sést lítið og sér illa og er dálítið rænulaust um augnaráð annarra). Mér finnst þetta augljóst í Plokkfiskbókinni, eitthvað síður í Ást er þjófnaður, þótt það sé þarna samt – ekki síst að því marki sem hún er autofiktíf. Í ljóðunum er kannski einsog þetta augnaráð – þetta hringsól – þá færist yfir á tungumálið sjálft. Hvernig við sjáum tungumálið og hvernig tungumálið sér okkur; hvort hægt sé að skapa „nýja“ sýn á tungumálið (auðvitað er hún oft marginalt ný – stundum snýst það um kunnuglegar aðferðir í nýjum aðstæðum) og láta tungumálið sjá hlutina á nýjan hátt. Nú er ég ekki endilega að gera tilkall til byltingarkennds frumleika – ég hef takmarkaða trú á slíkum fimleikum – ég á við „nýtt“ í hversdagslegri skilningi, eða a.m.k. þannig að það er eitthvað sem allir hafa aðgang að og þarf ekki séní til (ég hef takmarkaða trú á séníum líka). Annars veit ég aldrei hvort hugsanir mínar eru að verða flóknari eða óskýrari eða bæði. Og tilgerðarlegri, auðvitað, en það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að taka sig alvarlega. Og auðvitað þarf maður að taka sig alvarlega, þótt það sé líka mikilvægt að koma upp og anda reglulega – að hafa húmor fyrir því að maður sé doldið sjálfhverft fífl – þessu bloggi er hvort eð er ætlað að vera meira í ætt við gamaldags dagbók en kjallarapistla. Verkfæri til þess að hugsa frekar en frágengin hugsun. Sem er kannski líka ágætis lýsing á bókunum mínum og þeim bókmenntum sem ég kann vel við – þetta er a.m.k. sæmileg útskýring á því hvað ég meina þegar ég segi að ég sé „tilraunaskáld“ – og skýrir líka hvað ég get verið kontrarian og þrætugjarn; hvað ég á bágt með t.d. þá einstefnuhugsun sem viðgengst í allri pólitík, frá grasrót og uppúr. Ég skil að hennar geti verið þörf – efi fer illa með pólitíska baráttu, í pólitík verða allir alltaf að hafa 100% rétt fyrir sér eða tapa. Mér er meinilla við að draga ályktanir sem ég get ekki tekið til baka eða mælt í mót sjálfur.
Untitled
Ljóð um hryðjuverkaógnina Allt um ódæðið í Nice og eitthvað um Norður Írland. Allt um sprengingarnar á Atatürk-flugvelli og eitthvað um Baskaland. Allt um árásirnar við Bataclan og eitthvað um Rauðu herdeildirnar á Ítalíu. Allt um aftökurnar á skrifstofum Charlie Hebdo og eitthvað um Korsíku. Allt um sprengingarnar í Brussel og eitthvað um Baader Meinhof hreyfinguna. Allt um sjálfsmorðsárásina við Bláu moskuna í Istanbul og eitthvað um Primea Linea. Allt um voðaverkin í Ankara og eitthvað um English Defence League. Allt um Anders Behring Breivik, Osló og Utöya og eitthvað um ISIS. Allt um trukkinn sem sprakk í Karrada í Bagdad strax í kjölfar Ramadan og eitthvað um viðskiptabannið á Írak. Allt um árásirnar í Madrid og London og eitthvað um PEGIDA. Allt um sjálfsmorðsárásina við mosku spámannsins í Medína og eitthvað um Hermenn Óðins. Allt um ellefta september og eitthvað um Michael Brown. Allt um Oklahomabygginguna og eitthvað um Boko Haram. Allt um skólaárásina í Jokela og eitthvað um kynferðisofbeldið í Köln. Allt um aftökur á lögregluþjónum og eitthvað um Combat 18. Og svo framvegis og svo framvegis. Og svo framvegis og svo framvegis. Samúðarkveðjur. Innilegar samúðarkveðjur. Innilegar samúðarkveðjur frá innstu hjartarótum. Endurtakist eftir þörfum. Þétt og innilega. Hátt og skýrt. Á meðan enn er líf á jörðu. Á meðan enn er friður í næstu götum. Á meðan kaffihúsin eru opin. Þar til skemmtistaðirnir loka, Chartreusið klárast og allir eru hættir að geta sníkt sígarettur. Víða lýkur deginum á því að menn í grænum göllum spúla öllu burt. Það er til fyrirmyndar, annað er líklega misráðið. Knús og kossar. Ást, knús og kossar. Ást, knús, kossar og hjörtu. Ást, knús, kossar, gif og hjörtu. Ást, knús, emojis, kossar, gif og hjörtu. Hugur okkar er hjá ykkur. Hugur okkar. Einsog síðast og þar síðast. Og þar þar síðast. Og þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar þar þar þar þar síðast. Og þar þar þar þar þar þar þar þar þar síðast. Á þessari stundu hjá þeim sem eiga um sárt að binda. Innilegar samúðarkveðjur. Ítarleg umfjöllun. Nærmyndir af vettvangi. Viðtöl við Íslending sem var á staðnum. Þjóðhöfðingjar sem fordæma voðaverkin. Óritskoðuð myndbönd á félagsmiðlum. Allur rasisminn. Allur andrasisminn. Dauðinn hefur sífellt fyrirsjáanlegri afleiðingar. Fyrir mannfallið og hið táknræna. Fyrir hina látnu og aðstandendur. Fyrir uppnámið og afleiðingarnar. Fyrir baráttuna og óréttlætið. Fyrir sársaukann. Fyrir hvínandi sársaukann sem þurrkar út allt annað; fyrir doðann, fyrir störuna og höfuðverkinn. GET EKKI GETUM EKKI GET EKKI GETUR EKKI GET EKKI GET EKKI GETIÐ EKKI GET EKKI GETUM EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GETUM EKKI GET EKKI GETIÐ EKKI GET EKKI GETUR EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GETIÐ EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GET EKKI GETUM EKKI GET EKKI GETUR EKKI. Ekki meir. Og má ekki minna vera. Það þarf einhver að ýta á pásu á meðan við enn náum andanum. Það þarf einhver að spóla yfir erfiðu kaflana og taka internetið úr sambandi. Það þarf einhver að fella útvarpsmöstrin og færa alþýðunni hljóðeyðandi heyrnartól. All we are saying er gefið okkur gott hljóð. Andrúm. Vegna fólksins sem er víst ennþá fólk handan hafsins, handan ljósleiðarans, handan tungumálsins. Vegna fólksins sem bergmálar ekki lengur, speglar ekki lengur. Vegna samanburðarins. Vegna óþolandi samanburðarins. Vegna þess að eitt er aldrei einsog neitt annað. Vegna þess að allt er sambærilegt. Eins manns dauði er annars tveir, þrír, fjórir. Eins manns dauði er annars fjöldagröf. Allt um allt og eitthvað um ekki neitt. Allt um málstaðinn og eitthvað um skaðann. Allt um fórnarlömbin og eitthvað um hefndina. Allt um orsakirnar og eitthvað um afleiðingarnar. Allt um nauðsynina og eitthvað um tilgangsleysið. Allt um ógnina og eitthvað um óttaleysið. Allt um viðbrögðin og eitthvað um réttarríkið. Allt um sakleysið og eitthvað um sektina. Allt um samúðina og eitthvað um raunsæið. Allt um barsmíðarnar og eitthvað um djöfulskapinn. Allt um hið óstýriláta og eitthvað um agann. Allt um herlögin og eitthvað um slæðurnar. Við erum hjá ykkur á vefmiðlunum, við erum hjá ykkur á Skype og á Google Maps, við erum hjá ykkur á Twitter, við erum hjá ykkur í anda. Þið eruð í bænum okkar þótt við séum ekki í bænum ykkar, þótt við séum óralangt í burtu þá erum við hjá ykkur á Facetime, á spjallinu og ef þið viljið hringja þá finnið þið okkur í símaskránni undir öllum bókstöfum stafrófsins, við heitum öllum nöfnunum. Og svo framvegis og svo framvegis.
Untitled
Suma daga er auðveldara að stara út í loftið en að hugsa. Mér líður einsog ég sé með harðsperrur í heilanum – eða marbletti. En jæja. Ég er kominn til Svíþjóðar frá Tyrklandi og Grikklandi – helmingi feitari en áður og helmingi maríneraðri. Rosalegir staðir, Grikkland og Tyrkland, eða a.m.k. það sem ég hef séð af þeim. Ég hef eitthvað verið að væflast með hugsanir um félagslegan tilbúning og afstöðu fólks til hans. Sem sagt, til dæmis þessa með þjóðernið – þjóðerni er augljóslega sköpunarverk frekar en náttúruleg eining og til þessa er oft vísað þegar fólk vill ómerkja tilvist þess. „Þjóðerni er lygi“ er til dæmis svona setning. Aðrar álíka væru „kyn er lygi“ eða „kyngervi er lygi“ og þar fram eftir götunum. Það sem truflar mig í þessum dæmum er vanvirðingin við skáldskapinn sem er fólgin í allri okkar tilvist. Sjálfsmynd okkar er tilbúin – hún er skáldskapur. En það er ekki þar með sagt, sumsé, að hún sé lygi eða ómerk eða röng. Auðvitað getur hún verið allt í senn – en hún þarf ekki að vera það. Það hvort við séum gagnkynhneigð eða samkynhneigð eða höfum áhuga á fótbolta (sem sumum finnst fáránleg tímasóun) eða ljóðlist (sem sumum finnst fáránleg tímasóun) er allt einhvers konar skáldskapur. Ekkert okkar er fullkominn meistari sinnar tilvistar í þeim skilningi að við getum bara ákveðið sjálfsmynd okkar ein og óstudd – ég get t.d. ekki bara ákveðið einn, tveir og bingó að ég sé Tyrki. Sem þýðir ekki að ég geti ekki orðið Tyrki en til þess þarf þá ákveðinn feril. Ég þarf að sannfæra þá sem tilheyra hópnum – sem og þá sem standa utan hans – um að ég sé Tyrki. Ég veit ekki hvort að sjálfsákvörðunarréttur manns um eigin sjálfsmynd eigi að vera nokkur mannréttindi. Mér finnst það eiginlega hálf kjánalegt, í aðra röndina, og í hina finnst mér í því fólgin óþægilega mikil einstaklingshyggja. Við erum samfélag, við erum upp á hvert annað komið – við þurfum að þola fordóma hvers annars og díla við þá á einhvern máta sem fleytir okkur áfram. Og við þurfum að bera virðingu fyrir vilja hvers annars – við þurfum að hlusta. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem kjósa að sækjast eftir annarri sjálfsmynd en sem þeim hefur verið úthlutað – það er jafn sjálfsagður réttur manns að skipta um kyn*, kynhneigð** eða þjóðerni og að skipta um nafn, fatastíl eða fótboltafélag. En sjálfsmynd er flókið samspil alls kyns merkjasendinga, túlkana og kredda – og að baki hverrar sjálfsmyndar er ekki neitt nema vilji og skáldskapur. Það gerir hana ekki ómerkilegri – eiginlega þvert á móti. Sjálfsmyndin er einmitt heilög vegna þess að hún heyrir ekki undir hinn grjótfasta statíska veruleika, hún er fljótandi og dýnamísk og fögur. Það er síðan ekki ómerkilegra að sverja sig í einhvern hóp – og þótt mér finnist sjálfum ósmekkleg hugmyndin um hvert og eitt okkar sem aðskilið einstakt snjókorn, þá er það alltílagi líka, fyrir þá sem fíla svoleiðis. En kannski er það einmitt sú sjálfsmynd sem er næst því að vera lygi – aðskilnaðarsjálfsmyndin, einstaklingshyggjan, séníblómið sem afneitar tengslum sínum við plebbíska alþýðu manna. — * Eða leiðrétta kyn sitt eða laga eða árétta eða hvernig sem maður vill skilgreina þá breytingu sem maður undirgengst – ég gef mér að sá ferill sé jafn persónulegur og lendingin.
* * Raunar er merkilegt hversu sjaldgæft það er að nokkur skipti um kynhneigð.
Untitled
Fótbolti snýst ótrúlega mikið um göfgi. Ég er ekki viss um að ég hafi áttað mig á þessu fyrren nú. Maður á að sýna af sér íþróttamannslega hegðun og skemmta sér og andstæðingum sínum. Þess vegna heldur enginn á Íslandi með Portúgölum (nema þeir sem eru Portúgalir – og meira að segja það er próblematískt) eftir fýlujafnteflið þegar Ronaldo kallaði okkur smámenni, en margir halda með Frakklandi, sem gersamlega rústaði okkur. Af því að þeir þökkuðu okkur fyrir leikinn og litu ekki á sigur sem sjálfsagt mál – ekki neitt sem þeir ættu einfaldlega skilið. Og eru þeir þó miklu betra fótboltalið en Portúgal. Þess vegna er Steven Lennon líka í svona vondum málum. Ummæli hans um að nú loks væru menn að græða á því að spila góðan fótbolta voru afskaplega ógöfug – eiginlega ruddaleg, í ljósi aðstæðna. Hann gaf þar með í skyn að sigur íslendinga áður – líklega gegn Englandi – hefði verið óverðskuldaður. Réttu viðbrögðin – samkvæmt etíkettunni – og þau sem mátti sjá úti um allt meðal stuðningsmanna annarra þjóða voru: Þið eruð frábær, takk fyrir góða keppni. — Íslenskir stuðningsmenn eru góðir í þessari göfgi – líka þegar þeir eru að vísa til sín sem víkinga sem ætli að fara um lendur Evrópumanna með stríðsöxina á lofti. Það er einfaldlega gálaus húmor sem menn geta leyft sér vegna þess að þeir eru lítilmagninn í keppninni – þetta er einsog þegar litlir kettir urra á stóra hunda. Það væri flóknara mál ef Þjóðverjar ætluðu að koma með einhverjar blitzkrieg-líkingar eða Frakkar færu að vísa til nýlendustefnunar sem stórsigurs (og þó á ávöxtur hennar óbeint stóran hlut í liði Frakka). Það vill líka til að mjög langt er liðið frá víkingaöldinni – hún er ekki beinlínis körrent (sem seinni heimsstyrjöldin og nýlendustefnan eru). Mestu skiptir síðan að þessu stærilæti fylgir afskaplega herramannsleg framkoma – af hálfu leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. Öðru máli gegndi líka ef víkingalíkingunum fylgdu barsmíðar á andstæðingum. Eitthvað var líka um að fólk væri að halda því fram að Íslendingar hefðu aldrei verið víkingar. Ég veit svo sem ekki hvernig maður skilgreinir það – en fólkið sem nam hér land voru a.m.k. þrælahaldarar upp til hópa, hvað sem svo leið næstu kynslóðum þar á eftir. Víkingar voru líka margt fleira en ofbeldismenn – þeir áttu sér heilan menningarheim, sem var einmitt í forgrunni á stóru víkingasýningunni á The British Museum fyrir nokkrum árum, þar sem var lögð sérstök áhersla á að arfleið þeirra væri stærri og merkilegri en ofbeldið – merkilegt handverk, tæknikunnátta, siglingakunnátta og auðvitað sögur og ljóð. En líkingamál er fyrst og fremst líkingamál – það hljómar kannski undarlega en maður á alls ekki að taka tungumálinu „bókstaflega“ heldur verður maður að túlka það. Tungumálið gerist ekki hjá þeim sem talar eða hinum sem heyrir – það gerist þarna á milli og er samkomulagsatriði. En til þess að samkomulagi megi ná um merkingu verður maður að taka tillit til þess sem er meint og leggja ekki lykkju á leið sína til að mistúlka orð annarra. Maður bráðnar ekki í sólinni þótt maður sé „alveg að bráðna“ og maður drepst aldrei alveg í hnénu alveg sama hversu lengi maður er „alveg að drepast í hnénu“ og maður rústar ekki þeim sem maður segist ætla að „rústa“. Maður bara svona rétt mer þá í einhverjum sakleysislegum leik. Og þótt maður segist ætla að gera strandhögg í Evrópu fylgir því hvorki beinn né óbeinn stuðningur við nauðganir og gripdeildir á tíundu öldinni, nema í hugum hinna ofurviðkvæmu, sem koma óorði á heiðvirða PC-ara. Tungumálið úir og grúir af hernaðarlíkingum – kannski vill maður uppræta þær allar, en maður á þá ærinn starfa fyrir höndum. Og þá er líka mér að mæta, því mér finnst þær skemmtilegar.
Untitled
http://kolbrunarskald.tumblr.com/post/146802413469/birthday-spoils-bowler-20 Þetta er nýi hatturinn, same as the old hatturinn í einhverjum skilningi, en í öðrum skilningi svo nýr. Það er ekki brún á barði þessa, til dæmis, og kúlan er öðruvísi í laginu – ekki jafn kúlulaga. Ef þið viljið velta muninum eitthvað nánar fyrir ykkur getið þið farið inn á hattabloggið mitt. Gamli var orðinn mjög lúinn eftir daglega notkun í um þrjú og hálft ár – bæði stormavetur á Vestfjörðum og sólina í Hoi An. Í Hoi An bráðnaði meira að segja límið sem hélt fóðrinu í kúpunni svo það leit næstum út einsog sjálft fóðrið væri byrjað að mygla. Við gengum um í dag feðgarnir hvor með sinn kúluhattinn í sólinni í Helsinki. Ásamt hattlausum mæðgum. Hittum fyrst gamlan ítalskan vin á leikvelli ásamt fjölskyldu hans og svo Kára Tulinius, Vilju-Tuuliu og þeirra Kasper í almenningsgarði í Käpylä. Í þessum garði var meðal annars Tuk Tuk matar„trukkur“ þar sem við fengum tælenskan hádegisverð á um þúsundkall fyrir skammtinn; í eftirrétt var ís úr gamaldags Lippakioski sem kostaði staka evru. Í garðinum var líka skransali sem seldi okkur spidermankall fyrir valfrjálsa upphæð og gamlir vinir mínir, Anu og Sulevi, sem eitt sinn voru atvinnudansarar en tjáðu mér að þau hefðu gefist upp á danslífinu – hún er komin í verkfræðinám og hann er að læra forritun. Huotarinen/Tulinius fjölskyldan bauð síðan upp á kaffi og kanelsnúða heima hjá sér. Ég var harðákveðinn í að komast út að hlaupa hafandi eitt gærdeginum í Tívolí étandi kandífloss, djúpsteiktar rækjupylsur og ís – og ekki hreyft mig nema sem nemur örvuðum hjartslætti í rússíbönum (mér tókst að draga Aram með mér í alla sem hann mátti fara í). Ég er að verða spikfeitur. Þau hin – N&A&A – ætluðu á Gay Pride en afréðu á endanum að sleppa því, enda klukkan orðin margt, og komu þess í stað heim til að spila spil. Við átum afganga í kvöldmat. Það var gott. http://kolbrunarskald.tumblr.com/post/146811733229/old-man-with-new-hat-vs-young-man-with-old-hat
Untitled
Ef maður á ekki afmæli á Facebook þá á maður eiginlega ekki afmæli. Maður getur látist eiga afmæli og það er gott og blessað, en það er samt ekki það sama. Ég var vakinn með afmælissöng, kaffi, pönnukökum og nýjum kúluhatti. Stetson. Ég er enn að máta mig við hann. Það er yfirleitt dálítið aðlögunarferli. Þetta er þriðji kúluhatturinn í lífi mínu. Þann fyrsta eignaðist ég líklega átján eða nítján ára – fékk hann í jólagjöf frá þáverandi kærustu minni. Og hafði beðið um hann. Þann næsta keypti ég daginn sem ég fékk afhent íslensku bókmenntaverðlaunin, í janúar 2013, og hef gengið með hann daglega síðan. Hann var orðinn vel þreyttur. Þess utan hef ég átt líklega fjóra hatta sem ég hef gengið með að staðaldri og sex-sjö aðra – ýmist meira spari eða bara svona að gamni. Hvað er að frétta? Ég fór í viðtal við Liberation um fótbolta – og var presenteraður, alveg óvart, sem hálfgerð fótboltabulla. Staðreyndin er hins vegar sú að ég, einsog svo margir aðrir, fylgist aðallega með stórmótunum. Það þýðir ekkert að spyrja mig út í Manchester United, það er varla að ég viti að þeir séu til. En þetta viðtal fór víðar en ég er vanur að orð mín rati – endaði á forsíðu og var tíst skrilljón sinnum. Ég hef oft verið í viðtölum í stórum blöðum og fengið dóma þar en það er dálítið annað að tala um bókmenntir en íþróttir, svona upp á athyglina. Helförin er kannski vinsæl en hún er ekki nærri því jafn vinsæl og fótbolti (note to self: skrifa stóru íslensku fótboltaskáldsöguna). Ég horfði á leikinn gegn Englendingum í ferjunni frá Stokkhólms til Finnlands. Fyrsta hálftímann á pöbbnum var leikurinn hljóðlaus og karókí í gangi. Gamlir, fullir finnar sungu tangóslagara. Það var mjög spes og mætti eiginlega taka upp víðar. Svo fórum við niður á kaffiteríuna og horfðum í tíu mínútur í viðbót og þá datt útsendingin út – við úti á reginhafi. Ég var að tryllast í svona 20 mínútur, sturtaði í mig bjór, og svo datt útsendingin aftur inn á 70. mínútu. Það var mikið fagnað í bátnum þegar leikurinn vannst. Í dag er það svo tívolí og nepalskur matur. Leikurinn á sunnudag verður líklega tekinn á bar með Íslendingum í Helsinki.
What’s The Matter With Poetry? | New Republic
I read the second half of Lerner’s book not just as a manifesto against political poetry, but as something stranger and more ideological. In his attacks on the avant-garde, Lerner paraphrases Peter Bürger’s Theory of the Avant-Garde. Bürger’s theory—which is mind-blowing if you’ve ever thought that avant-garde artists aspire to be as pretentious as possible—is that these experimental artists simply wanted to bring art closer to life. This means telling your readers to get drunk (as Baudelaire did), quoting ragtime and commercial jingles (T.S. Eliot), installing a urinal in an art show (Duchamp), or admitting the burbling noises of the street into the concert hall (John Cage). These may be assaults against art, but they’re also embraces of life. But if you believe in poetry as a pure sanctuary beyond us mere mortals, what could be more repellant than iconoclasm, chance, and mass culture? Modernism sought to debunk metaphysical foundations for the truth, which so many philosophers cast as a pernicious illusion and distraction from human life. The charge Lerner levels against both futurist and cultural critics is the opposite: their seemingly improper desire to “enter history.” This is a strange criticism that grows more legible if you remember that Lerner thinks the point of poetry is to offer refuge from “the finite and the historical—the human world of violence and difference.” This passage gave me pause, as I am a poet who rents a too-expensive one-bedroom apartment located within the human world. While avant-garde poetry is usually framed as a nihilist assault against lyric poetry, we can now see that the opposite is true: What is most offensive about avant-gardism is its attempts to bring human messiness and excess into a medium that is against humans, lyric poetry. Read this way, The Hatred of Poetry is a betrayed valentine to poetry, one that doesn’t so much dismantle its divinity as expresses annoyance over the pesky humans that get in its way. Fáránlega áhugaverð grein eftir Ken Chen í New Republic um nýjustu bók Bens Lerner. What’s The Matter With Poetry? | New Republic