Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að láta sér standa á sama um hlutina – ekki bara mikilvægu hlutina, flóttamannavandann, stéttskiptinguna, ástvini sína og það allt saman – heldur líka hitt. Til dæmis fótbolta. Einhvern veginn held ég að það fari líka saman. Að temji maður sér óhóflega stillingu í einu máli þá sé hætt við að sú stilling elti mann á röndum hvert sem maður fer. Ég er vel að merkja ekki heimsins mesti fótboltaaðdáandi. Ég er ekki einn af þeim sem mun bera kennsl á alla leikmenn enska liðsins. En ég reyni að láta mér ekki standa á sama um hann þegar ég horfi á hann. Ég hef horft á leikina einn – fyrst í tölvunni uppi í herbergi heima hjá mágkonu minni og svo hérna í Västerås (fjölskyldan er enn hjá mágkonunni). Það getur verið pínu erfitt að komast í stemningu einn, sérstaklega ef maður er bara að hlusta á sænsku kynnana – sem sýndu mestan lit þegar þeir fóru að tala um hversu æstur íslenski kynnirinn á næsta bás væri – en maður reynir að hossa sér svolítið á rúminu og steyta hnefann að guðunum. Það er meira gaman að hlusta á Gumma Ben en ef ég geri það þá er hann alltaf aðeins á eftir – hann tryllist ekki fyrren svona 5-6 sekúndum eftir að það er skorað. Þá er ég með skrúfað niður í hljóðinu á SVT og Rás 2 í streymi. Því það er auðvitað ekki í boði að horfa á leikinn á RÚV nema maður sé á Íslandi. Það er líka eitthvað bogið við alla þessa fagmennsku í fótboltaskýringum – þessa yfirveguðu og útreiknuðu sýn á boltann, þar sem tæknin er skoðuð í grunninn. Einsog þeir stunda Svíarnir á meðan Gummi er að æpa. Fótbolti er fyrst og fremst leikur. Hann er skemmtiefni. Og auðvitað er alls konar taktík í leiknum, ýmisleg hugsun og margt að greina . Mannskepnan er nú einu sinni gerð til að greina – það er greiningin sem skilur okkur frá dýrunum. Þeir sem spila hann þurfa líka að taka hann dálítið alvarlegum tökum – þó ekki of alvarlegum. En hérna. Sem sagt. Ég er dálítið skeptískur. Mannskepnan er nefnilega líka gerð til að blekkja sjálfa sig. Ég hef stundum sagt frá því þegar ég var í foreldrahópi á spítala hér í Västerås áður en Aram fæddist – hjúkrunarkonan tuggði það svo rækilega ofan í okkur feðurna að „við skiptum líka máli“ að á endanum held ég að það hafi ekki verið kjaftur eftir sem trúði því í raun og veru. Því það er enginn ástæða til að segja eitthvað svona oft nema til þess að sannfæra sjálfan sig – það sem er satt er augljóslega satt og það segir maður bara einu sinni, nema manni sé mótmælt. Hún braut okkur alveg niður, þessi kona, og við þurftum að byggja okkur upp aftur sjálfir. Ég hef svipaða tilfinningu fyrir allri alvöru í kringum fótboltann. Að greiningin og tæknimódelin og sérfræðingarnir í jakkafötunum séu þarna til þess að hjálpa okkur að gleyma að þetta sé leikur. Að við – fullorðna fólkið – séum að horfa á annað fullorðið fólk leika sér. Við sem erum ekki lengur börn. Af því að ef þetta er ekki alvara þá ættum við að vera að slá grasið eða elda matinn eða bara í vinnunni. Það er kannski ekki síst þetta sem er svo hughreystandi og fallegt við Gumma Ben. Barnslega hamingjan. Það er engin sjálfsblekking þarna (það gæti heldur enginn þóst vera svona hress – það er óhugsandi að feika þetta). Næsta leik mun ég sjá í Finnlandsbátnum og get líklega ekki valið mér skýranda – líklega verður leikurinn bara á finnsku. Ég vona bara að skýrendurnir verði hressir.
Untitled
Verðið þið aldrei neitt efins þegar í ljós kemur að allir sem deila „markhópi“ með ykkur – þeir sem eru líka listhneigðir, milli þrítugs og fertugs, af sama kyni, kynhneigð og kynþætti, með sömu áhugamál á Facebook – hafa sömu skoðanir og þið á einhverju? Ég ímynda mér t.d. að það sé mjög ólífvænleg skoðun í vissum kreðsum í Reykjavík að flugvöllurinn eigi að fá að vera þar sem hann er; rétt einsog það er ólífvænleg skoðun að hann skuli „bara fara“ á Ísafirði. Og er hún þá bara ólífvænleg vegna þess að það er uppgjör við lífheim manns allan að setja sig upp á móti henni – maður myndi bara leysast upp í eitt allsherjar þras ef maður temdi sér aðra skoðun? Ég velti þessu líka fyrir mér þegar ég sé skoðanakannanir sundurliðaðar – þar er oft áberandi kynjamunur og ef maður er karl, langar mann þá að kjósa einsog allir hinir karlarnir? Ef maður er kelling, langar mann þá að kjósa einsog kellingarnar? Hugsar maður bara að sitt eigið kyn hafi nú greinilega alltaf rétt fyrir sér? Eða veltir maður því fyrir sér hvort maður sé kannski bara einsog fiskur í vatni – fatti ekki samfélagsforritið sem maður gengur um með í hausnum? Ég þekki mjög fátt fólk sem ætlar að kjósa Davíð eða Guðna og er það þó vel rúmur helmingur þjóðfélagsins. Margir myndu skammast sín fyrir að viðurkenna að þeir ætluðu að kjósa Davíð en ég get ekki ímyndað mér að neinn beinlínis skammist sín fyrir að ætla að kjósa Guðna – það er þá helst að það sé frekar ófrumlegt og lítil afstaða í því fólgin önnur en að maður kjósi einhvers konar rólegheit. Annars tek ég bara mest undir með vinstri hippsterþenkjandi millistéttar menntafólki. Þó ég sé reyndar alinn upp í (rísandi) verkalýðsstétt og hafi enga menntun, sé með ofnæmi fyrir 101 og vinstrinu. Mér finnst t.d. þetta „kjóstu“ myndband, sem á að fá ungt fólk til að kjósa, mjög hallærislegt. Ég er að verða 38 ára (1. júlí, ég er ekki á Facebook svo þið verðið bara að senda mér póst) og það er of gamalt fyrir mig. Og ef maður kýs ekki Elísabetu eða Andra þá er maður bara úti á þekju, það er ekkert flóknara, nema maður ætli að skeina sér á kjörseðlinum – ég kaupi það líka sem legit viðbrögð. — Mér finnst mjög erfitt að vera þeirrar skoðunar, sem ég er, að landsbyggðin eigi að vera eitthvað annað og meira en sumarbústaðarland fyrir velmegandi Reykvíkinga. Vegna þess að þótt sú skoðun sé ekki vinsæl fyrir vestan er hún í meginatriðum gegnumgangandi í kreðsunni minni einsog hún lítur út á landsvísu (en á sér lögfesti í 101). Þannig öskraði ég oft upphátt á tölvuna mína þegar ég sá fólk nýlega deila grein um flugvöllinn – „frábær grein“, „skyldulesning“ og var þó augljóslega hvorugt, þótt hún væri lipurlega skrifuð – þar sem því var haldið fram að Ísland væri „borgríki öðru fremur“. Þótt það hljómaði „harkalega“ og „hrokafullt“, sem sagt. O jæja. If it quacks like a duck þá er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvort það sé kannski önd. Maður virðist þá í það minnsta hafa forsendur til þess að taka distans á skoðanir sínar, þótt maður neiti sér jafn harðan um hann. Sú kenning að Ísland sé borgríki er jafn mikið búllsjitt og að Ísland sé sambærilegt við Leicester – hún er afleiðing af excelískum hugsunarhætti sem heldur að mannlíf verði talið og vigtað (en fyrst og fremst bara þegar það hentar ákveðnum hagsmunum). Ísland er miklu dínamískara heldur en nokkurt borgríki einmitt vegna þess að þar eru þrátt fyrir allt enn nokkrir pólar – og lítið land einsog Ísland má einfaldlega ekki við því að verða hómógenískur mónókúltúr, má ekki við því að allir spekingarnir stundi sömu kaffihúsin og vakni við sama veðrið dag eftir dag. Menning stærri landa – og að litlu leyti Íslands – byggir ekki síst á togstreitu milli stóru pólanna. Að það skuli vera önnur kreðsa í Malmö en í Stokkhólmi, önnur kreðsa í Los Angeles en New York og svo framvegis. Nú eigum við auðvitað ekki aðra stórborg – þótt Akureyri standi sig oft ágætlega – en smábæirnir okkar eru jafnvel enn fjær því að vera sambærilegir við jafn stóra bæi á Englandi en landið allt er við Leicester. Einsog Andri Snær orðaði það, þá er Detroit krummaskuð en Seyðisfjörður heimsborg – það er nefnilega ekki bara spurning um mannfjölda heldur hlutverk innan samfélags. Sjálfsmynd staðar. Ísland sem borgríki er Ísland sem einleikur með einu hlutverki – og auðvitað finnst stjörnunni á leiksviðinu alltaf eðlilegt að leikverkið byggi fyrst og fremst á sinni tilvist. En það gerir það ekki. Það byggir ekki heldur á minni hlutverkunum eða statistunum eða sviðsmyndinni – heldur einmitt dínamískum samleik. Í grunninn er þessi hugmynd um Reykjavík sem borgríki líka bullandi nýfrjálshyggja – sá sterkari á alltaf að fá sínu framgengt, í því er öll framþróun samfélagsins fólgin, og hann á ekki að þurfa að taka tillit til þarfa annarra en sjálfs sín nema að mjög takmörkuðu leyti. Hann getur hjálpað svo fremi það kosti hann ekki neitt og hann hefur engum skyldum að gegna við neitt nema hamslausa framfaratrúna. — En sem sagt. Kenning. Ef maður trúir einhverju staðfastlega sem kemur jafn augljóslega niður á jafn mörgu fólki – og maður tilheyrir ekki þeim hópi sjálfur – þá eru allar líkur á að maður hafi ekki hugsað hugsunina til enda, maður hafi ekki hugsað hana út frá neinum öðrum en sjálfum sér, maður sjái ekki að ein helsta ástæðan fyrir því að maður getur talað sig inn á kenninguna og réttlætt hana fyrir öðrum er sú að hún hentar þröngri framtíðarsýn manns og hún truflar ekkert í manns eigin lífi. Þú veist, svona einsog annars vel meinandi karlar töluðu sig inn á að samfélagið myndi leysast upp án þræla eða ef millistéttarkonur færu út á vinnumarkaðinn – og þeim finnst þetta hvort eð er gaman, það er ekki í eðli þeirra að skilja pólitík, lesa bækur eða keyra bíla, þeim finnst gaman að vera úti í sólinni og hekla. Og nú er ég ekki að segja að flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Heldur að það sé lýsandi fyrir blinduna í (vissum/mínum kreðsum í) Reykjavík að fólk þar sjái sér ástæðu til að klappa upp þá skoðun að landsbyggðinni sé fórnandi fyrir „meiri hagsmuni“. Læk á læk ofan. Því stundum fær maður það á tilfinninguna að Reykvíkingar ætli ekki bara að losa sig við flugvöllinn heldur við byggðirnar sem hann þjónar – og auðvitað er það þannig sem þjóðríki klofna oftast, auðugi hluti landlíkamans sker af sér það sem hann upplifir sem holdfúa. Flugvöllurinn í Vatnsmýri er ekki afgangsstærð – hann er ekki „ónýtt“ landsvæði, heldur einmitt nýttur undir krítískan infrastrúktúr – og ef það reynist nauðsynlegt að flytja hann er algert lykilatriði að það verði gert í samráði við fólkið sem þarf á honum að halda. Ég hefði síðan haldið að ef það er stál í stál þá vægi sá sterkari – enda er ég jafnaðarmaður þótt ég sé ekki krati – borgin sem stríðir við vaxtaverki, frekar en landsbyggðin sem er í lífróðri. Það er hlutverk borgarinnar að sannfæra ytri byggðirnar um að ný lausn sé jafn góð eða betri – frekar en að kristna Vatnsmýrina með sverði. „Ég á þetta, ég má þetta“. Og þá verða ytri byggðirnar auðvitað að vera tilbúnar til að hlusta – þótt lítið sé eftir af trúnaðartrausti eftir skylmingar síðustu ára. — En svo hef ég auðvitað beina hagsmuni af því að halda landinu í byggð. Að minnsta kosti Vestfjörðum. Og takmarkaðan áhuga á skipulagsmálum í miðbæ Reykjavíkur (skil reyndar ekki alveg hvernig jafn lítil borg ætti að geta átt jafnvel enn stærri miðbæ, en það er efni í annað röfl). — Ég íhuga það stundum að skrifa um þetta alvöru grein og birta annars staðar en hér. Stíga út úr röflinu. En einhvern veginn er ég svo vonlítill um áheyrn (nema hjá kórnum – fengi auðvitað fullt af lækum hjá mínum líkum) – og þá verður aldrei neitt úr neinu.
Untitled
Ég er nýbúinn að átta mig á því að það er alger óþarfi að skrifa dagsetninguna í bloggfyrirsögn – hún birtist sjálfkrafa. Ég hef verið blindur á þetta hingað til. Bloggið er dautt, lengi lifi bloggið. Meira að segja orðið „blogg“ hljómar núorðið einsog eitthvað úr forneskju – einsog gufuvél, vídjótæki, túbusjónvarp (reyndar var orðið túbusjónvarp varla til fyrren flatskjáirnir komu og svo úreldu þau hvort annað – nú eru aftur bara sjónvörp). Það er furðu frelsandi að skrifa á vettvang sem enginn les. Og furðu letjandi. Svona blanda af báðu. Með vettvangnum – og yfirtöku hinna knöppu samhengislitlu félagsmiðla – hvarf líka þolinmæðin af internetinu. Ég spáði því á sínum tíma að það yrði alveg öfugt – að plássleysi blaðanna hefði haldið aftur af okkur og eðli internetsins væri hið langa og ítarlega, allt þetta ótrúlega andrými – en í dag er öll hugsun sett fram í örstuttum sándbætum. Hækan vann og hún er hvorki hölt né með hækju – en hún er rosalega bundin af því að vera „sniðug“. Við búum við einræði sniðugheitanna og það trompar ekkert nema einræði hinnar afhjúpandi einlægni, einræði trámans. En þetta er sem sagt gufuvélin mín og stundum gleymi ég að sinna henni. Vandamálið við dagbækur er að maður hefur yfirleitt ekki tíma til að sinna þeim nema þegar ekkert er að gerast. Síðustu vikurnar hafa verið mjög viðburðarríkar – og raunar hefur tíminn frá því snemma í vor verið frekar bilaður. Ég veit ekki hvað ég nenni að rekja það – það væri eldsneyti á einræði trámans – en ég er allur frekar eftir mig og lúinn í leit að hugarró. Líf mitt snýst reyndar mikið um leit að hugarró. Fertugsaldurinn. Ég veit ekki hvernig það gerðist. Lengi vel leitaði ég kannski mest að einhvers konar hugar-óró – en það gerir maður ekki nema maður hafi efni á því, ekki nema maður sé stöðugur og treysti því að ef maður falli þá geti maður staðið aftur á fætur. En hvað er þá annað í fréttum? Eftir alls konar moj og vesen hefur Illska loksins fundið sér heimili á hinum enskumælandi markaði hjá forlaginu sem sýndi henni fyrst áhuga – Dalkey Archive, sem gefur meðal annars út Svetlönu Alekseivitsj og Jacques Roubaud – og auk þess mun hún koma út í Grikklandi hjá Ekdoseis Polis (sem gefur m.a. út Modiano og Roth) og í Króatíu hjá Oceanmore (sem er með Knausgaard, Hertu Müller o.fl). Heimska kemur á sænsku hjá Rámus í haust og frönsku hjá Metailie í byrjun næsta árs. Það eru forsetakosningar. Ég kaus Andra Snæ – held samt líka með Elísabetu – og svo vinnur Guðni. Það er EM, ég held með „Íslandi Lars Lagerbäck“ einsog það heitir hér í Svíþjóð og myndi kjósa þá áfram en finn ekki rétta símanúmerið. Finnst sennilegt að ég horfi mikið á fótbolta á morgun og mikið á kosningasjónvarp Stundarinnar í kvöld (ef það er ekki læst þeim sem eru ekki með Facebookreikning, sem gæti verið). Ég fór í viðtal við Linh Dinh – sem birtist hér og þar en meðal annars á vefnum UNZ . Þar eru kommentin með því rosalegra sem ég hef séð. Við vorum að tala um Ísland og pólitík og Linh spurði mig aðeins út í Bobby Fischer og þess vegna snúast kommentin öll um gyðingasamsærið. Já og svo er eitthvað þarna líka um að íslenskar konur séu jafn fallegar og raun ber vitni vegna þess að víkingarnir hafi nauðgað svo mikið af írskum þrælum. Og þar fram eftir götunum. Ég er í Västerås. Fer til Helsinki í byrjun næstu viku. Svo um borð í Crowd-skáldarútuna sem hefur verið á ferð um Evrópu síðustu vikurnar – byrjaði leikinn í Helsinki en ég verð um borð á leggnum Istanbul-Þessalónika. Svo aftur til Västerås og verð hér þar til í byrjun ágúst – þá kenni ég í Biskops-Arnö og sný að því loknu heim til Ísafjarðar. Loksins. Ég er að reyna að vinna í Ljóðum um samfélagsleg málefni. Er með skáldsögu í heilaskúffunni – á einhverjar blaðsíður og gróft konsept – en það er allt bara að gerjast og súrna í bili. Ég skal svo reyna að vera duglegri að láta í mér heyra.
18. maí
Ég er alltaf að setja bakvið eyrað að ég verði að fara að blogga um eitt eða annað og svo týni ég því, einhvers staðar þarna bakvið eyrað. Það sem slær mig oftast er kannski að fara að nöldra yfir landsbyggðarfyrirlitningu hippstera í Reykjavík og því hversu glórulausir þeir virðast um hana. Og hversu lítið allt þetta fólk sem annars les Said, sósíalísk/feminísk rit og alls lags valdgreiningar virðist hugsa um skipulag og vald út frá landinu öllu (skipulagsmál á Íslandi virðast aðallega snúast um þau svæði sem eru miðborg Reykjavíkur og þau svæði sem gætu hugsanlega orðið miðborg Reykjavíkur). Ég hangi of mikið á Twitter. Það er alveg augljóst. Og á Twitter er það Gísli Marteinn sem leggur línurnar. Það nýjasta snerist um gagnrýni – eða meira svona hnus – á þá hugmynd að nota skattkerfið til að auðvelda fólki búsetu úti á landi, líkt og er gert víða (og þykir þjóðhagslega hagkvæmt). Hugmyndin er sem sagt sú að fólk borgi lægri skatta utan höfuðborgarinnar. Þetta má réttlæta á ýmsa vegu – lykilrökin eru auðvitað þau að það er VAL að byggja upp alla þjónustu á höfuðborgarsvæðinu frekar en annars staðar eða bjóða upp á hana í öllum dreifbýliskjörnum – það er VAL hvar við skilgreinum miðjuna – og þessu vali fylgir aukinn kostnaður fyrir þá sem ekki staðsetja sig miðsvæðis. Vegna þess búa fyrirtæki, t.d. á Ísafirði, við miklu hærri útflutnings- og innflutningskostnað en sams konar fyrirtæki (sem fyrirtækið á Ísafirði er í samkeppni við) í Reykjavík. Lógíska niðurstaðan er alltaf sú sama: pakka saman og byrja upp á nýtt í Reykjavík eða verða undir. Vegna þess að alþjóðaflugvöllurinn er óralangt héðan. Og þar fara vinnurnar, fer nýsköpunin, grundvöllurinn að ræktarlegu og lífvænlegu samfélagi. Aðstöðumunurinn gerir það að verkum að við spekilekum. Þennan aðstöðumun er hægt að jafna. Ef maður er jafnaðarmaður, þá vill maður það. Ef maður er hins vegar hægri maður – einsog Gísli – þá vill maður það auðvitað ekki. Maður gæti svo sem viljað að fólk hafi að einhverju leyti jöfn tækifæri (en mis-jöfn þó – það á ekki að nota peninga ríka fólksins til þess að niðurgreiða menntun fátæka fólksins, frekar en það má jafna annan aðstöðumun, því það er svo ósanngjarnt), en um jöfnuðinn sjálfan gæti manni ekki staðið meira á sama. Það er líka að mörgu leyti fínt (les: „eðlileg/óumflýjanleg þróun“) að landsbyggðin leggist í eyði því þá getur maður keypt sér hús fyrir slikk og notað það fyrir sumarbústað og AIRBNB. Því það er svo kósí að koma út á land. Komast í rólegheitin. Rétt einsog einhver verður að vera menntlaus því hver myndi annars vinna í öllum niðursuðuverksmiðjunum og sauma stuttermabolina? Einhvern veginn er líka búið að telja mörgu fólki trú um að landsbyggðin víli og díli með allt vald í þessu landi – líklega vegna þess að búvörumafían og LÍÚ eru einhvern veginn hluti af ímynd landsbyggðarinnar, þú veist, við erum bændur og sjómenn (og hér eru vissulega bændur og sjómenn, en þeir díla ekki með mikið vald). Ég er vel að merkja sammála því að búvörusamningurinn sé satanískur og það þurfi að gæta þess að orkufrek stóriðja eignist ekki smábæina. En við erum hvorki búvörusamningurinn né LÍÚ – þeir toppar eru sennilega í Garðabænum einsog aðrir toppar. Og ef misjafnt atkvæðisvægi (sem mér finnst ægilegt, einsog það virkar í öllu falli) hefði svona mikið að segja, þá færi Vestfirðingum væntanlega ekki fækkandi. En vegna þess að þetta er dagbók en ekki kjallaragrein, verð ég að taka fram að því verður varla lýst með orðum hvað mér finnst orðið leiðinlegt að þrátta um stjórnmál. Það eru mér eilíf vonbrigði að þess gerist einu sinni þörf. Ég myndi ekki lesa þennan texta þótt ég fengi borgað fyrir það. Heldur myndi ég skalla vegginn þar til honum færi að blæða. — Í öðrum fréttum er ég enn móður og þreklaus en þó aðeins skárri en í fyrradag. Ég sef ekki nóg og ég kem ekki nógu miklu í verk. Á morgun fer ég suður með seinni vélinni og svo til Frakklands um nóttina. Ég les varla neitt en ræð mikið af krossgátum.
17. maí
Steinar Bragi segir að ég verði að fara að blogga. Það sé ekki hægt að hafa efstu frétt hérna þá að ég sé allur í hönk. Dögum saman. Ekki þar fyrir að ég er handónýtur. Eða þannig. Ennþá þreklaus og á erfitt með að koma mér í gang. Reyni að hreyfa mig – hjóla eða hlaupa – daglega en líður einsog öldruðum sjúklingi. Hugsanlega er það líka vegna þess að ég ét bara rusl. Þarf að gera eitthvað í því. Ég er enn að lesa Bolaño. Er ekki einu sinni hálfnaður. Fyrsti hlutinn var allur í einni fyrstu persónu, frá ungu skáldi sem fylgist með tveimur aðeins eldri og svalari skáldum og genginu í kringum þá. Arturo Belano (sem á víst að vera Bolaño sjálfur) og Ulises Lima. Annar hluti – ég er í honum miðjum – flakkar svo viðstöðulaust á milli ólíkra persóna sem flestar hafa einhvers konar sjónarhorn á þá Arturo og Ulises eða skáldahreyfinguna þeirra, iðraraunsæisskáldin (e. visceral realists). Eiginlega er bókin samt hingað til 95% útúrdúrar, að minnsta kosti ef maður lítur á kjarna hennar sem skáldin og hreyfinguna. Mér finnst sennilegt að það séu komnar 20-30 nýjar fyrstu persónur það sem af er öðrum hluta. En auðvitað er bókin fyrst og fremst einhvers konar heimslýsing, einhvers konar sjónarhorn. Sem slík er ekki auðvelt að fara að draga hana saman í einhvern þægilegan þráð – en hún er gefandi. Annars er ég bara að reyna að skrifa, pakka saman og taka til (Sjökvist er á útleigu á AIRBNB í sumar; við verðum í Svíþjóð og Finnlandi). Ég var í matarspjalli í Stundinni og með uppskrift að víetnamskri pho súpu (sem er sturlað góð). Hérna . Á fimmtudaginn fer ég til Frakklands í bókmenntastúss. Fyrst á Les Caracteres hátíðina í Auxerre. Síðan á Les Assises Internationales du Roman. Í Lyon. Á vegum Le Monde og Villa Gillet. Ég sit á panel til að ræða illsku og er búinn að skrifa stutta ritgerð. Þaðan fer ég til Berlínar á minningarathöfn um vinkonu mína Susan Binderman, sem lést á dögunum, langt fyrir aldur fram. Og svo Svíþjóð. Ég verð síðan að reyna að vera duglegur að vinna á hverjum degi svo þetta handrit dafni vel. (Hér myndi ég setja einhverja vel valda meðgöngulíkingu, eitthvað um að fósturlát væru algengust á fyrstu vikunum, ef það væri ekki líklegt til þess að gera fólk sem er konur eða empatíserar með slíkum alveg spangólandi vitlaust af kyngremju).
9. maí
Nú er allt í mínus. Í fyrradag hrundu bæði uppþvottavélin og þvottavélin með fimm mínútna millibili. Ég pantaði nýtt fyrir peninga sem ég á ekki. Henti þvottavélinni út í innkeyrslu í dag en næ ekki uppþvottavélinni út – slangan er föst og mig vantar aðra töng. Þannig að uppþvottavélin er úti á miðju gólfi. Það er þess utan allt rennandi blautt á gólfinu undir eldhúsinnréttingunni minni eftir uppvask kvöldsins. Ég er enn með lyfjamæði, enn að éta sýklalyf. Vonandi er þetta bara það. Ef ekki þá kemur það væntanlega í ljós síðar í vikunni því kúrinn klárast á morgun. Ég er líka skrítinn í hálsinum – suma daga tengi ég það við skrifstofuna í bílskúrinni og loftgæðin þar inni. Ég veit reyndar ekki hvað ég get gert fleira án þess að demba mér í rándýrar framkvæmdir – hringja á verktaka. Sem kemur ekki til greina vegna peningaleysis. En það eru lofthreinsunartæki þarna, rakatæki, blóm, ég reyni að lofta út. Og ekki hef ég eytt neinum óskapa tíma þar heldur síðustu daga. Kannski er þetta allt sama heilsuleysið. Leit ekkert í Bolaño í gær og ekkert í dag. Er frekar þungur. Starði svolítið á bókina mína í dag og gerði á endanum eina stóra breytingu sem hafði í för með sér allsherjar yfirferð á þeim texta sem er kominn – kannski tek ég hana til baka. Það væri dæmigert, enda var þetta tímafrekt, þótt þetta séu engin ósköp af texta enn sem komið er. Skrítin bók og ég enn að átta mig á því hvernig hún er í laginu.
7. maí – Twitter og Bolaño
Þegar ég var unglingur var Gulli Helga hressasti maðurinn á landinu. Hann var svo hress, þessa 2-3 tíma sem hann var í útvarpinu, að ég var eiginlega handviss um að hann væri þrælkeyrður áfram á kílóum af kókaíni í auglýsingahléunum og svo svæfi hann í súrefnisboxi þessa 22 tíma sem út af stæðu. Í dag er Gulli Helga bara einsog einhver zen-kóngur. Þrælslakur. Og það sló mig alltíeinu að líklega hefði hann samt ekkert róast, það væri bara veröldin sem væri í yfirgír. Ég hangi svolítið á twitterreikningi Starafugls. Kannski fæ ég þessa tilfinningu þar. Í brandaraflóðinu. Korter á twitter er einsog að éta skál af marsipani í morgunmat. Þá er hysterían á Facebook kannski skárri. Maður verður allur útþembdur. Og það er erfitt að hætta af því að sykur er ávanabindandi. Í gær gengu brandararnir allir út á náungann sem drekkur átta lítra af Pepsi Max á dag og var í viðtali í Fréttatímanum (only in Iceland). Það var eitthvað symbolískt við það. Ég er að lesa Savage Detectives eftir Roberto Bolano. Hún er mökklöng. Ég er búinn með 1/4 því ég les á hraða fimm ára barns. En hún er skemmtileg/sturluð/nýmóðins. Skýrsla síðar.
6. maí
Sumir eru ánægðir með að fá persónustýrðar auglýsingar og að einhverju leyti getum við öll verið ánægð með þetta, en spurningin er þessi siðferðislega: Á mjólkin að kosta mismunandi eftir því hvort einhver hafi fengið sér 15 ára háskólanám eða ekki haft getu til þess? Er það siðferðislega rétt að við borgum ekki sömu upphæð fyrir sömu vöru? Héðan . Það vantar nýja teiknimyndasögu í staðinn fyrir Ást er … Eitthvað í líkingu við Sturlun er … þegar eitt af stærstu vandamálum samtímans er smættað niður í að læknar þurfi kannski að borga meira fyrir mjólkurlítrann en einstæðar, atvinnulausar öryrkjamæður. Því það væri ósanngjarnt.
Smættað niður er kannski ósanngjarnt orðalag. Hún tekur dæmi. Og auðvitað eru það einhvers konar mannréttindi að fólki sé ekki mismunað (og ætti að eiga við um laun líka). En það hvaða dæmi koma upp í hugann á okkur segir eitthvað um það hvernig við hugsum um vandamálin. Því auðvitað væri tekjutenging innkaupsverðs einhvers konar stríð gegn stéttarsamfélaginu. Korporatískt stríð, en samt stríð. Í viðtalinu kemur líka fram að fólk sé farið að teipa fyrir myndavélarnar á símunum og tölvunum sínum. Ég gaf einmitt út skáldsögu um það í fyrra. Á dögunum las ég síðan um leitarvél sem getur fundið nettengda hluti út frá tegundum – Shodan, heitir hún – og þá getur maður t.d. fundið öll nettengd ungbarnatæki, myndavélar eða talstöðvar sem fylgjast með sofandi ungabörnum úti í vakni, í einni borg. Og rúntað um og hirt … tja hvort heldur sem er, myndavélarnar eða börnin. Þetta er allt eftir bókinni. Ég hef heyrt þetta áður um að skrefamælarnir safni „öðrum heilsutengdum upplýsingum“ en því hvernig við göngum en það hefur aldrei verið útskýrt fyrir mér hvaða upplýsingar þetta séu.
5. maí
Svona beygir maður fjölskyldumeðlimi mína: Nadja
Nödju
Nödju
Nödju Aram
Aram
Aram
Arams Aino
Aino
Aino
Ainoar Og ekki orð um það meir. Mér finnst vel að merkja eðlilegt að Nadía – með í-i eða með i-i – taki ekki hljóðvarpi í fyrsta atkvæði og sé Nadíu í aukaföllum. En Nadja með joði tekur hljóðvarpi. Máli mínu til stuðnings bendi ég á Dostójevskíþýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur, þar sem Nödjur eru ö-aðar hægri vinstri. Mér finnst þágufallið Arami líka vera alveg vonlaust. Og Aino sem eignarfall, einsog ég hef heyrt fólk reyna, er líka vonlaust. Hvað er annars að frétta? Ég er framan á Séð og heyrt. Ég vissi að ég yrði í blaðinu en brá talsvert við að vera á forsíðu. Úr fókus og hattlaus. Ekki að ég hafi neitt á móti Séð og heyrt. Slúðurmiðlar sem koma til dyranna einsog þeir eru klæddir eru góðra gjalda verðir (ég hef hins vegar ímugust á menningarkálfum sem morfast út í lífsstílsblöð sem morfast út í slúðurblöð). Og það er víst lítil berstrípun á einkalífi mínu að játa á mig botnlangavesen. Ég var líka í Stundinni. Með uppskrift. Og svo vildi til að blaðið var borið út einmitt í þá mund sem við sátum stynjandi yfir matnum (sem var mjög góður). Þetta er s.s. víetnamskt pho. Og það er á baksíðunni. Ég held það hafi líka eitthvað verið í Fréttatímanum. Um botnlangakastið mitt, einsog í S&H. Ég er bærilegur af því, annars, enn með botnlangann og enn að bryðja sýklalyf og fékk smá verk í dag en hef annars verið verkjalaus.
4. maí: Lestrardagbók
Ég er búinn að lesa tvær viðtalsbækur – eina við James Baldwin (sem skrifaði Giovanni’s Room og ég kláraði um daginn) og aðra við David Foster Wallace, sem ég hef mjög lítið nennt að lesa. Þeir eru báðir með einhvers konar mikilmennskubrjálæði. Baldwin er gjarn á að tala einfaldlega um sig sem snilling eða í það minnsta goðsögn („Þegar maður er goðsögn einsog ég eða Miles Davis, þá …“) og DFW svarar oft spurningum sem honum þykja erfiðar með því að segja að það sé nú ekki pláss til að ræða það í stuttu máli – fyrst þurfi að skilgreina öll hugtökin („hvað áttu við með „bók“? og hvað er þetta „skrifa“ fyrir þér?“) og svo kannski leggjast yfir þetta í nokkra mánuði. Þetta myndu margar vinkonur mínar kalla karlskt og er það sjálfsagt – en það fer ekki beinlínis í taugarnar á mér, það er meira að mér finnist það í senn kjánalegt og aðdáunarvert. Og þarna er líka margt fleira ágætt. Og kannski er einmitt bráðnauðsynlegt (ég skrifaði nærri því brjálnauðsynlegt og hugsanlega var það líka réttara) að vera með svolítið stórt egó ef maður ætlar að skrifa bækur. Eða í einhvers konar mótsögn með það – einhvers konar kontrast við sjálfan sig. Einsog fólk með mikilmennskubrjálæði er yfirleitt reyndar; líklega eru ekki til smærri sálir. Baldwin er brjálæðislega góður í að stara sjálfan sig og samfélagið niður. Einsog hann sé ekki hræddur við neitt. Í einu viðtalinu kemur hann inn á þetta sem ég ræddi í tengslum við Giovanni’s Room, að hann hefði verið gagnrýndur fyrir að skrifa um hvítt fólk, eða réttara sagt að hann skammaðist sín fyrir að vera svartur – og tekur einfaldlega undir með því, það sé rétt. DFW sagði í sinni bók að ekkert væri nær eðli hans en löngunin til að eiga kökuna og éta hana líka, og það er eitthvað sem sér stað í Baldwin þegar hann ræðir stöðu sína gagnvart samfélagi svartra. Á aðra höndina undirstrikar hann stöðu sína sem svarts rithöfundar – að ónefndu mikilvægi rithöfundarins sem vitnis (frekar en talsmanns) – og á hina hafnar hann því algerlega að hann sé svartur rithöfundur – og leggur áherslu á að hann sé að skrifa um úniversal hluti (og leggur kynhneigð og litarhaft oft að jöfnu sem hluti sem þurfi að leysa upp, enda obsessjón meginstraums samfélagsins á kynhneigð og litarhaft ekkert nema vísir um óþroska viðhorf okkar tíma, og alger bóla). DFW er ekki jafn áhugaverður. Hann er of mikið að intelektúalísera án þess að takast á við neitt. Mér finnst alltaf jafn merkilegt reyndar að þeir Franzen hafi verið svona góðir vinir, einsog mér var einhvern tíma sagt, því ég get varla hugsað mér ólíkari höfunda – innan þess mengis hvítra, efri-millistéttar, new york sem þeir tilheyra. DFW vill vera erfiður og skrítinn og les þess utan mikið þannig efni – kennir óvenjulegar bækur og er stærðfræðinörd. Og þolir ekki popp eða meginstraum (á maður kannski að hætta að tala um meginstraum og fara að tala um meðalmennsku? er það of dómhart?) Franzen er það sem hann kallar sjálfur „contract“ höfundur – það er að segja, hann gerir samning við lesandann um að halda sig innan ákveðinna marka og ráfar ekkert. Hann skrifar Dickensískar skáldsögur um þyngstu málefni samtímans – svolítið einsog Houellebecq, nema ekki jafn siðferðislega krefjandi. Að síðustu las ég Strákinn í röndóttu náttfötunum eftir írska höfundinn John Boyne [Varúð: spoilerar]. Mamma gaukaði henni að mér og fannst ómögulegt að ég hefði ekki lesið hana. Þetta er hálfgerð unglingabók um níu ára strák, Bruno, sem á föður sem er fangabúðameistari í Auschwitz. Bruno fer í leiðangra og í einum slíkum kynnist hann Shmuel sem er hinumegin víggirðingarinnar. Shmuel og Bruno eru jafn gamlir (báðir fæddir 15. apríl 1934) og með þeim skapast vinátta. Bókin er stutt og að uppbyggingu er hún smásaga frekar en skáldsaga – það eru engir útúrdúrar og ef eitthvað er að marka höfundinn skrifaði hann allt fyrsta handritið á 60 klukkustundum. Eitt og annað smálegt fór í taugarnar á mér – aðallega að hún er frekar óraunsæ. Bæði voru fáir drengir á þessum aldri í Auschwitz (óvinnufær börn voru flest drepin samstundis – í bókinni eru hundruð barna), á einum stað er óvart látið einsog stríðið hafi ekki verið hafið árið 1940 og svo eru systkinin Bruno og Gréta full vitlaus til að vera níu og tólf ára. Þau virðast ekki skilja almennilega muninn á vikum og mánuðum og hann getur ekki borið fram Auschwitz (Out-With á ensku, Ásvipt á íslensku) eða Führer (Fury/Firringin). Führer er rosalega venjulegt þýskt orð – þýðir t.d. líka bara leiðarvísir (og enskumælandi manni þætti áreiðanlega impónerandi að níu ára Íslendingur geti borið fram „leiðarvísir“ en það er það ekki). Og þetta veldur því að maður fer að vantreysta öðru. En auðvitað er erfitt að ætla að lesa bók af þessu tagi svona. Þetta eru ekki raunsæjar endurminningar úr fangabúðum nasista heldur einhvers konar dæmisaga og (meló)drama. Bruno stendur fyrir hinn bláeyga þýska almenning sem skilur ekki hvað á sér stað og Shmuel fyrir hinn saklausa pólska gyðing sem getur ekkert hafa gert af sér. Á lykilaugnabliki í sögunni er Shmuel fluttur í eldhúsið hjá Bruno þar sem hann á að þrífa litla bolla, enda sé hann með svo smáar hendur. Bruno rekst þar á hann og gefur honum að borða. Þegar einn nasistaforinginn spyr hvort Shmuel hafi verið að éta bendir Shmuel á Bruno og segir að Bruno sé vinur hans og hann hafi gefið honum kjúkling, hann hafi ekki stolið. Þegar gengið er á Bruno með þetta hafnar hann því að þeir séu vinir, segist aldrei hafa séð hann áður. Þetta verður honum til talsverðrar skammar, svo mikillar raunar að hann lætur iðulega einsog það hafi aldrei gerst – þeir hafi aldrei sést öðruvísi en með girðinguna á milli sín. Þetta er auðvitað biblískt. Pétur hafnar gyðingnum Jesús einsog Bruno hafnar gyðingnum Shmuel. Og sjálfsagt hafa margir Þjóðverjar einmitt lent í svipuðum sporum, haft tækifæri til að grípa inn í en látið það vera vegna þess að það gæti kostað – vegna þess að þeir þekktu sjálfir brútalítet ríkisins, þótt það væri meira af afspurn. Bókin endar á því að Bruno ákveður að heimsækja Shmuel í fangabúðirnar – fara undir grindverkið og klæðast náttfötum og nátthúfu einsog hann. Þennan dag eru þeir svo kallaðir í gasklefana, þar sem þeir eru drepnir óforvarendis. Það má lesa alls kyns symbólisma í það. T.d. hreinlega að helförin hafi líka í einhverjum skilningi drepið þýsku þjóðina – að það standi enginn í svona viðbjóði, ekki einu sinni á hliðarlínunum, án þess að það kosti hann sjálfið. Að það lifi það enginn af, í raun og veru, að drepa. Einhverjir gagnrýnendur bókarinnar hafa lesið út úr þessu vilja um einhvers konar syndaaflausn fyrir Þjóðverja – sem er hæpið í írskri bók, finnst mér. Ég held að Boyne sé meira að segja sögu – þetta er klassískur tragedíuendir, skrifar sig næstum sjálfur þótt maður horfi á hann einsog bílslys. En svona gæti Þjóðverji aldrei skrifað – enda er þetta, einsog einhver benti á, fyrst og fremst tragedía um nasistafjölskyldu. Shmuel og fjölskylda hans eru aukapersónur og við sjáum aldrei almennilega inn í líf þeirra – kannski eigum við líka auðveldara með að ímynda okkur þá sögu, hafandi séð hana annars staðar, það er brútalla að fara inn á heimili nasistanna. Í einu viðtalanna við James Baldwin kvartar hann – og viðmælandi hans – undan því að hvítir höfundar séu gjarnir á að skrifa þolendasögur svartra en hann sé enn að bíða eftir því að einhver hvítur maður skrifi sögu rasismans frá sjónarhóli Ku Klux Klan. Þetta er auðvitað þannig saga – a.m.k. í einhverjum skilningi. Kannski er skrítið að segja það en bókin hefði hugsanlega mátt við því að vera ennþá simplari en hún er, ennþá strípaðri, færri lýsingar og kannski pínulítið kaldari viðkomu.