Ég átti að liggja hérna á spítalanum fram á föstudag en verð sendur heim í dag vegna góðra frétta og slæmra – annars vegar kom blóðprufa vel út í morgun og hins vegar er líkaminn að gefast upp á þessum kjarnorkusýklalyfjum og maginn allur kominn í hönk (búið að drepa svo mikið af góðu bakteríunum líka). Ég illska @oskabornin A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Feb 19, 2016 at 6:22am PST Þessu ævintýri lauk síðan á laugardag. Ég var fjarri góðu gamni – hefði verið gaman að sjá hvernig sýningin þróaðist en svona er það bara þegar leikhúsin eru öll einhvers staðar lengst úti í rassgati. Lokasýningin var á 71 árs ártíð Adolfs Hitlers og afmælisdegi Jaroslavs Hasek (en Hannes Óli er einmitt byrjaður að leika Svejk á öðru sviði). Ég sá bara frumsýninguna – sem var frábær – en hef heyrt mikið og vel af hinum sýningunum látið. Áðan horfði ég svo á lokaþáttinn af Ligeglad – þar sem leikstjóri Illsku, Vignir Rafn, leikur eitt aðalhlutverkanna. Svo nú er hann sennilega bara atvinnulaus. Ég sá á Twitter í morgun að hann var að biðja einhvern að kenna sér að dánlóda. Þetta er hart líf. Ekkert að gera. Engar tekjur. Bara blús. Svo er bara að sjá hver ætlar að gera bíómyndina. Ég gef 25% afslátt af réttinum ef hún verður meira en 4 klukkustundir.
29. apríl: Andri Snær, byggðastefna, Sigurður Einarss, Óttar & Rótin, botnlangabólgan og hver va
Ég er að reyna að skrifa bók. Búinn með fimm síður og veit ekki hvað á að gerast næst. Það var einhver að dingla. En hver? Hver var að dingla? Ég er enn í sjúkrarúminu. Og hvílist, sem er gott. Fæ lyf, sem er gott. Og heimsóknir, sem er gott. Eitt og annað velkist um í huga mér. Líklega er Sigurður Einarsson eini útrásarvíkingurinn sem ég skil. Sem mér finnst vera mannlegur. Ef ég hefði verið útrásarvíkingur væri ég líka alltaf að hringja fullur í sjónvarpið og hóta því að berja fólk sem léti mig ekki í friði tæpum áratug eftir hrun. Ég hefði ekkert þolinmæði í annað. Stóísk ró er fyrir vélmenni. Hegðun hans kemst næst því að endurreisa trú mína á mannkynið. Ruglið í kringum Óttar Guðmundsson er að verða svolítið PC-Gone-Mad. Það er undarleg krafa að skoðanir fagmanns í geðheilsu á geðheilsumálefnum þurfi að vera í samræmi við meginstraum millistéttarháskólasamfélagsins – alveg sama hvaða álit maður hefur á þeim skoðunum, hvort þær séu vel rökstuddar eða annað. Það er algert rugl – einsog Rótin gerir – að krefjast þess að Læknafélagið þaggi niður í manninum (og það er vel að merkja fáránlegur orðhengilsháttur að segja að það sé ekki það sem Rótin er að gera, því það sé ekki orðað þannig). Og þá að vinsælli skoðunum: Ég ætla að kjósa Andra Snæ. Ég held að hann sé talsvert meiri kapítalisti en ég – og ég er með dálítið óþol fyrir startöpp-blæti samtímans, sem Andri representerar svolítið – en ég veit líka að Andri er sólítt, frjálslyndur og ærlegur. Mér finnst aðrir valkostir vera ýmist of borgaralegir eða flipp – og þótt ég kunni vel að meta flipp þá kann ég vel að meta það sem flipp, fyrir skemmtanagildið, fyrir rótið og brjálæðið, ljóðrænuna. Svona einsog ég kann að meta Túrkmenbasí (það er reyndar fleira sem ég kann ekki að meta við Túrkmenbasí en látum það liggja á milli hluta í bili). En sem sagt. Mér finnst merkilegt að Andri njóti jafn lítils fylgis á landsbyggðinni og raun ber vitni enda veit ég ekki til þess að hann hafi gert landsbyggðinni neitt nema vara við einhverri botnlausri þvælu austur á fjörðum. Þar sem hann hafði líka rétt fyrir sér – ekki bara á forsendum fegurðar og náttúruverndar heldur líka byggðaþróunar, efnahags og svo framvegis. Töff lökk fyrir áljakkalakkana en þannig var það nú bara samt. Ég held hins vegar að það sé orðinn mikilvægur hluti af sjálfsmynd landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðis hins vegar að skilgreina sig í ólíkar blokkir. Súgfirðingar geta ekki kosið einsog Vesturbæingar og Vesturbæingar geta ekki kosið einsog Súgfirðingar; því við vitum öll að Súgfirðingar / nVesturbæingar eru fífl sem hafa enga reynslu af raunveruleikanum / hafa aldrei lesið bók. Hópar skilgreina sig ekki bara út frá því hverjir þeir eru heldur ekki síst hverjir „hinir“ eru – hverjir það eru sem eiga ekkert erindi í hópinn. Eitt af grundvallarhugtökum allrar greiningar er lífsbaráttan. Hverjir þurfa að hafa fyrir lífinu og hverjir ekki, hverjir eru að berjast í bökkum og hverjir fitna. Þetta allt saman. Við þekkjum þetta, við erum öll (sem lesa þetta blogg, svona 97-98% á að giska) menntaðir vinstrimenn og þetta heitir að valdgreina á marxísku. Maktanalysen, segja Svíarnir, er hjärtat í allri greiningu. Ef við berum það módel upp að landsbyggð og höfuðborgarsvæði er alveg ljóst að það er landsbyggðin sem á í vök að verjast – mörg svæði eru beinlínis við það að fara í eyði – á meðan vandamál höfuðborgarsvæðisins eru fyrst og fremst vaxtarverkir vegna blómlegrar tíðar. Það er ekki síst af þessum sökum sem t.d. Vestfirðingar fyrtast við þegar þeim er sagt að „flugvöllurinn fari, það sé bara tímaspursmál“ eða annað álíka – þegar það er látið einsog lífsbarátta þeirra (s.s. okkar) sé aukaatriði við hliðina á skipulagsvandræðum borgarbúa. Og einsog gengur þegar burgeisavandamál eru borin saman við öreigavandamál þá finnst voða mörgum burgeisavandamálin einfaldlega vega þyngra og að öll þjónkun við öreigavandamál sé „popúlismi“. Ég veit ekki hvernig eða hvers vegna Andri Snær lenti röngu megin í þessu battli – ég veit ekki til þess að hann hafi neitt til þess unnið. Kannski bara vegna þess að mörgum fannst á sínum tíma að Kárahnjúkavirkjun væri svona kjarnorkusprengjulausn á vanda Austfjarða – eitthvað máttugt og mikilfenglegt og einhvers konar kristileg fórn þar að auki (og við vitum öll, hvað sem þessari virkjun líður, að velmegun vesturlanda er byggð á öðrum eins fórnum – sturlaðri iðnvæðingu – og það er þess vegna sem „Ísland á ein stærstu ósnortu víðerni Evrópu“, það er búið að fórna öllu hinu fyrir verslunargötur og umferðaræðar og nettengingar, þessi taktík svínvirkaði nefnilega í gamladaga). Og þar sem að hann setti sig upp á móti henni hafi hann ekki haft hagsmuni austfirðinga að leiðarljósi. Sem er auðvitað rugl. Kárahnjúkavirkjun er fullkomlega misheppnaður gjörningur og peningana hefði betur mátt nota í margt annað. T.d. alls konar startöpp. Annað sem ég hef tekið eftir er að þegar rýnt er í fylgistölur og greint í kyn, fjárhag, menntun og búsetu þá virðast fjölmiðlar hafa mestan áhuga á menntuninni. Þetta á svo tvöfalt við um félagsmiðlatröllin. Einhvern veginn verður upplagið þannig að fólk sem er lítið menntað kjósi vitlaust. Að ef fólk færi bara heldur í sálfræðinám en stálsmíði eða bara að vinna þá myndi það kjósa betur og hafa þóknanlegri skoðanir. Í einhverjum tilfellum er þetta einfaldlega rökleysa. Þótt mér sé að mörgu leyti þvert um geð að gangast við því þá er ástæðan fyrir því að ómenntað fólk víða í Evrópu er líklegra til að kjósa flokka sem vilja takmarka aðgengi innflytjenda einfaldlega sú að innflytjendur eru líklegri til að keppa við þá á vinnumarkaði en menntafólk. Menntafólk þarf ekki að óttast að sýrlenskir flóttamenn eða afganskir verkamenn veiti þeim nema samkeppni um sín störf. Tekjulægra fólk er líka ósennilegra til að telja sig aflögufært (og ef saga kapítalismans hefur kennt okkur eitthvað þá er það að fátækt fólk er alltaf fyrst til að þurfa að borga fyrir allt – #cashljós). Ómenntað fátækt fólk kýs þannig einfaldlega með hagsmunum sínum – sem markast af stöðu þeirra sem lægsta og óvarðasta lags samfélagsins. Ef við viljum að ómenntað, fátækt fólk hætti að kjósa fasista þá þarf ómenntað, fátækt fólk að eignast (aðra?) fulltrúa innan valdsins – á þingi, ríkisstjórnum, bæjarstjórnum og fjölmiðlum – sem hefur það að stefnu sinni að breyta kerfinu þannig að byrði samfélagsins lendi ekki á þeim. Altso, verkafólk þarf að fá hærri laun, meira atvinnuöryggi og greiðari aðgang að stofnunum samfélagsins (sérstaklega heilsugæslu); það er vinstrilausnin. Já og svo þurfum við að vinda ofan af einkarekstri í skólakerfinu (líka leikskólakerfinu) svo fólk af ólíkum bakgrunni komist í meiri snertingu hvert við annað. Fasistalausnin – að byggja epískar verksmiðjur, „leiða alþýðuna“ og einangra þjóðina er hvort eð er engin langtímalausn. Hún er hugleysi á borð við að hætta að mæta í vinnuna eða hitta fólk vegna þess að það er svo kalt úti. Spurningin er þá auðvitað hvernig hægt sé að hrinda þessari vinstristefnu í framkvæmd; hvernig hún geti orðið traustvekjandi valkostur fyrir lægstu lög samfélagsins – fyrir ómenntað, tekjulágt verkafólk á landsbyggðinni. En nú er ég komin dálítið út fyrir efnið. Þetta hefur ekki nema að takmörkuðu leyti með forsetakjörið að gera. Andri Snær verður góður forseti vegna þess að hann lítur ekki á það sem hlutverk sitt að standa vörð um veröld sem var heldur þá veröld sem verður – og hann er maður sem gæti fóstrað slíkar breytingar ef þær ættu sér stað, frekar en að hann yrði gerandi eða katalysti. ÓRG er forseti veraldar sem hefur verið og er kominn tími til að renni sitt skeið – hann er valdafursti frá vandræðalegasta pólitíska skeiði 20. aldarinnar. Aðrir verða líklega ekki forsetar úr þessu. Og það var sem sagt einhver að dingla.
28. apríl, #Ljóðafimmtudagur
Ljóð eiga rætur sínar að rekja til hefðar sem tók sig (að mestu) frekar alvarlega. Merkilegt nokk voru það einhvers konar sagnamenn – þeir sem lærðu hómerskviður og annað álíka utanbókar – sem stýrðu ferðinni. Og tól ljóðlistarinnar, það sem gerði ljóðin að ljóðum, það er að segja hljóðin (rím, stuðlar, taktur), voru bæði strangir húsbændur, fegrandi og praktísk, þau einfölduðu fólki að muna langa bálka og gerðu þá þægilegri áhlustunar, hreinlega estetískari. Þau voru þokkafull, með mikla undiröldu. Þetta er auðvitað einföldun einsog allar tilraunir til þess að fella þúsundir ólíkra hefða saman í þann eina alþjóðlega meginstraum sem við eigum í dag, því hversu sem hann annars kvíslast erum við í grunninn öll hluti af sama fljótinu – og það er ekki endilega víst að svo hafi alltaf verið. Það er heldur ekki alltaf einfalt að segja til um hvernig heimurinn hafi litið út einu sinni – hvernig t.d. fólk hafi hanterað hómerskviður, hvort það hafi verið meira einsog við hanterum þjóðsöngva, af innilegri virðingu, eða einsog við youtubemyndbönd, að við berum þau á milli til að hlæja (hugsa sér samt ef maður þyrfti að læra youtubemyndböndin utan af; guði sé lof fyrir tækniframfarir / sic transit gloria mundi). Það hefur síðan stundum slegið mig, og hefur ekkert með ljóðagerð að gera, að skáldsagan á uppruna sinn í verki – Don Kíkóta (um þetta er engin almenn sátt, en mesta sáttin sem hægt er að finna þó) – og það er verk sem einkennist fyrst og fremst af stjórnlausum fíflaskap. Don Kíkóti er bókmenntaverk sem á sér félagslega samsvörun í því að ganga um í heimskulegu kokteilboði, ullandi og frussandi með báðar löngutangir á lofti. Sem slíkt mjög fyndið – frábær bók – en í raun tilbreytingarlítið diss. 800 blaðsíður af sama aulabrandaranum. (Og ég sem sagt elska þessa bók). Skáldsagan mátti líka þola það í fleiri hundruð ár að vera óvinsæla bókmenntaformið. Meðal annars vegna þess að hún krafðist markaðar – takk, kapítalismi – sem gat fjöldaframleitt drasl (þ.e.a.s. prentað bækur og dreift þeim víða) og var lengst af ekki til staðar. Það sem Ford gerði fyrir bílabransann gerði Penguin síðan um svipað leyti fyrir bókabransann. Penguin framleiddi ódýrar kiljur sem fólk keypti í massavís á sama tíma og fólk hafði meiri ráðstöfunartekjur og þar með komst fólk í tæri við lengri bókmenntaverk sem ekki var hægt að leggja á minnið og sem maður las kannski ekki nema einu sinni. Á norðurlöndum spiluðu sósíalistar líka rullu – Rauðir Pennar, bókaklúbbar, bókasöfn o.s.frv. Það var talsvert meiri metnaður fyrir því þá að tilheyra alþýðunni og þjóna henni en í dag, þegar menntamenn vilja helst bara gleðjast yfir skoðanakönnunum sem sýna að ómenntað fólk (og fátækt, en það er ekki lögð jafn mikil áhersla á það) „kjósi vitlaust“ (því það staðfestir „yfirburði“ menntamannanna). Kiljubyltingin hefur enn ekki átt sér stað á Íslandi, sem auðveldar margt – allir frá höfundum að prentsmiðjum græða meira á dýrum bókum en ódýrum – en flækir annað. Fátækt fólk kaupir til dæmis síður bækur og jafnvel þótt það geti umgengist bækur með hjálp bókasafna – sem eru miklar fyrirmyndastofnanir – þá skilst mér að allar rannsóknir sýni að fólk sem elst upp á bókaskápalausum heimilum sé síður líklegt til þess að lesa sjálft (það að mamma sé alltaf með þrjár nýjar og nýjar bækur á náttborðinu, sem hún les á hverju kvöldi þegar börnin eru sofnuð, spilar sem sagt litla rullu). Það hefur þá félagslegar afleiðingar á nokkrum kynslóðum – fólk fer að sjá sig sem bókalaust fólk – og ef eitthvað er að marka þá mýtu að á öllum íslenskum verkamannaheimilum hafi mikið verið lesið í eina tíð, held ég að þess sjái nú þegar talsvert stað, t.d. í lestrarhæfiskönnunum. Ég er komin svolítið út í buskann (ég ligg enn á sjúkrahúsinu og sýnist að ég fái kannski aldrei að fara heim, en ég er samt ekki á neinum verkjalyfjum – bara ósköpunum öllum af sýklalyfjum – kannski svolítið ringlaður). En hvar, sem sagt, var ég? Ljóð ferðuðust með munnmælum, ekki bara vegna þess að þau voru stutt (sem þau voru oft), heldur líka vegna þess að þau voru beinlínis smíðuð með það fyrir augum að það væri auðvelt að bera þau á milli fólks og þurftu þess vegna alls ekki á markaðnum að halda. Það hefur meira að segja verið reiknað út að þau stríði gegn markaðnum – einföld, venjuleg pappírsörk er vara sem borgar sig að selja í heildsölu, ef maður á mikið af henni á lager getur maður komið henni í ritfangaverslanir og selt fyrir gróða; prenti maður ljóð á pappírinn snýst dæmið við, þá skilar reksturinn undantekningalaust tapi; ergo, ljóðlistin eyðir peningum, tortímir mörkuðum. Viðskiptamódelið er enn svipað – ljóð berast um með munnmælum, þannig lagað. Þeim er dreift á twitter á #ljóðafimmtudagur, póstað á vefsíður, birtast á Facebook, í YouTubemyndböndum o.s.frv. Sem eru munnmælin á minnislausum tímum. Ljóð gleymast, rifjast upp, gleymast o.s.frv. Margt er drasl, margt er gott, sumt ratar á endanum í bækur. Ég hef það á tilfinningunni að færri og færri ljóð birtist á prenti – það er í það minnsta satt um dagblöð (það voru alltaf ljóð í Lesbókinni, oft vond ljóð, en samt ljóð), sennilega um tímarit og hugsanlega um bækur. Að vísu er markaðurinn þá auðvitað búinn að finna leið til þess að græða á ljóðum – ég held að Zuckerberg tapi a.m.k. ekkert á Facebookfærslunni manns, þótt maður kalli hana ljóð. Leiðin er þá að prenta þau bara ekki. Eyðileggja ekki fullkomlega markaðsvæna hvíta pappírsörk með verðlitlu hrafli. (Ástæðan fyrir þessu með pappírsörkina er síðan auðvitað sú gamla og margsannaða klisja að fólk vill heldur skrifa ljóð en lesa þau; fólk eyðir pening í að kaupa hvíta pappírsörk til að prenta ljóðin sín svo það geti lesið þau á upplestrum, en minni pening í bækur hinna sem eru líka að lesa).
27. apríl: Botnlangabólga og bókmenntir
Nú er ég með mörg mínusstig. En þótt ég hafi t.d. ekki bloggað (eða hreyft mig mikið) þá er ég búinn að skrifa og lesa mikið og hef lítið drukkið og ekkert reykt. Ég hef hins vegar verið lasinn. Með botnlangabólgu, að öllum líkindum. Læknirinn heldur að botnlanginn sé í raun löngu sprunginn en nú hafi ég fengið sýkingu, sem sé staðbundin og því hægt að lækna hana með sýklalyfjakúr. Ég var ómskoðaður í gær og fékk uppáskrift í apótekið og nú í morgun fór ég í sneiðmyndatöku til að staðfesta greininguna frá því í gær. Svör fást á næstu dögum. Nojan í mér segir að ég sé með magakrabba. Hún er sem betur fer ekki óbrigðul. Ég hugsa að nýlegur dauði vinkonu minnar sé ekki til þess að hjálpa til. Þessi sneiðmyndataka var annars með því sci-fiaðasta sem ég hef gert um ævina. Eða svona. Kannski er tengingin meira við Dr. House og læknadrömun en Star Trek. Þetta er líka minna sneiðmyndatæki en í Hollywood. Hvað hef ég lesið? Nú er ég að lesa Elskan mín, ég dey eftir Kristínu Ómars – meistaraverkið hennar, segja sumir. Og ekki ætla ég að rífast við suma þótt ég sé bara hálfnaður. Það borgar sig ekki því maður veit aldrei hverjir sumir eru, þeir gætu verið hverjir sem er. Bókin er undirfurðuleg, sársaukafull, vandræðaleg og kímin – það er í henni einhver stemning sem ég held að sé miklu meira móðins nú en þegar bókin kom út, um miðjan tíunda áratuginn. Kannski er það misskilningur en líklega ekki. Ég vil ekki kalla það kaldhæðni því hún er alltof hlý til að vera kaldhæðni en það er skyld stemning. Ég las Fjárhættuspilarann eftir Dostójevskí. Sem var eiginlega frábærari en ég átti von á. Hafði séð fyrir mér að þetta væri b-verk – hún er skrifuð á mánuði til þess að uppfylla samning. Ég hef átt hana hérna í plastinu árum saman. Hann er einhvern veginn líka Tjékhovskur þarna – þetta er stofudrama, tragíkomedía með dásamlega breyskum karakterum. Ég hef ekki lesið Dostó í áreiðanlega 15 ár og þetta voru mjög ánægjulegir endurfundir. Ég las Giovanni’s Room eftir James Baldwin (sem drapst einmitt úr magakrabba). Bókin fjallar um ungan bandaríkjamann í París sem á unnustu sem er á ferðalagi um Spán. Á meðan hún er í burtu fer hann að halda við ungan ítalskan karlmann – Giovanni – og verður mjög ástfanginn. Þetta endar allt með ósköpum, einsog við er að búast. Bókin mallar í sektarþrungnu bítnikki fyrstu 80% en fer síðan af stað í annars konar dramahryllingi undir lokin, sem setur allt hitt í merkilegra ljós. Giovanni’s Room var víðast hvar ekki vel tekið á sínum tíma. Hún fékk mestmegnis hlandvolga dóma í pressunni og fleiri slátranir en fagnanir. Svarti pardusinn Eldridge Cleaver fann að samkynhneigðinni, sem hann sagði að væri sturlun á borð við að nauðga börnum. Ljóðskáldið Langston Hughes sagði að hún væri illa skrifuð og ofhlaðin. Og ljóðskáldið Amiri Baraka fann að því að Baldwin – sem er svartur – hefði skrifað bók um hvítt fólk, að það væri eitthvert undarlegt form af sjálfsfyrirlitningu. En Baldwin mun hafa verið gefinn fyrir að fara sínar eigin leiðir, einsog gjarnt er á þá sem leggja stund á hugrekki, og hafði ímugust á að vera flokkaður sem „svartur höfundur“. Þá var hann líka mjög pólitískt mótiveraður og gjarn á að rekja þræði milli kynþáttamála, kynferðismála og stéttskiptingar. Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvort það séu margar bækur í íslenskum bókmenntaheimi sem hafa hlotið „uppreisn æru“ af þessu tagi eða hvort við séum of lítið þjóðfélag til að bera slíka fimleika. Það þarf krítískan massa af fólki til þess að halda á lofti fána tiltekinnar bókar og annan eins krítískan massa sem vill bara grúska í bókasöfnum í leit að einhverju vanmetnu. Við eigum fullt í fangi með að fjalla um bækurnar sem eru miðlægar á sölumarkaði. Svo las ég Mannorð eftir Bjarna Bjarnason. [Varúð: Spoilerar!] Bókin fjallar um útrásarvíkinginn Starkað Leví sem hefur glatað mannorðinu og leitar til fyrirtækis sem sérhæfir sig í að veita mönnum nýtt mannorð, í þessu tilviki gott mannorð skáldsins Almars Loga Almarssonar. Einfaldasti lykilrómanlestur segir manni að Starkaður Leví sé Björgólfur Thor og Almar sé Bjarni sjálfur. Ekki að það sé neitt aðalatriði, en á litlu landi – og í skáldsögu sem fjallar beinlínis um mannorð, það orð sem fer af manni, félagslega tilvist hans í samfélagi – þá hlýtur það að hafa einhver áhrif á lesturinn. Ég hafði lítið lesið um bókina þótt hún hafi vakið athygli mína á sínum tíma, fyrir það litla sem ég vissi. En ég átti von á að í henni væru átök um endurreisn mannorðs – og meiri pælingar um hvað mannorð sé í raun, eða skömm. En auðvitað er það alveg í karakter fyrir útrásarvíking – erkitýpuna – að gera lítið til þess að endurreisa mannorð sitt og fara frekar styttri leiðina og kaupa sér nýtt. Skáldið Almar Logi er einhvers konar þunglyndissjúklingur sem vildi helst deyja, ef ekki væri fyrir harminn sem það ylli hans nánustu. Þetta er auðvitað merkileg sýn skáldsins á sjálfan sig – sem Bjarni leikur síðan með þegar hann daðrar við hugmyndina um að skiptin hafi í raun átt sér stað, slær bæði í og úr, og Starkaður Leví / Björgólfur Thor skrifi kannski Mannorð, Bjarni/Almar sé löngu horfinn. Ég veit ekki hvort það er galli að maður telji að bókin sé um eitthvað annað en hún er – að forsendurnar kalli fram önnur sagnaminni, aðra heimspeki, en er svo að finna í bókinni. Það er nefnilega ýmislegt í henni um ídentítet, dauðaþrá, lífsþrá sem hætt er að fari forgörðum þegar maður er að leita að mannorðinu í henni. Kannski er þetta hluti af leiknum; eitthvað sem maður ætti að lesa í, hvernig mannorð bókarinnar (einsog það birtist í kynningarstarfinu) þvælist kannski fyrir henni. Eitt og annað fór í smámunataugarnar á mér – mér fannst bókinni ekki nógu vel ritstýrt (það voru kaflar hér og þar sem voru bara of veikir ennþá – það hefði mátt veita syni og eiginkonu Almars meiri kraft) og prófarkarlestur klikkar á nærri því hverju einasta erlendu orði (cappucHino, cHiabatta o.s.frv.). En þetta er merkileg bók fyrir því og hefði alveg mátt fara hærra. — Hvað fleira hefur gerst? Prince dó. Ég hélt upp á hann og skrifaði um hann stutt fyrir Starafugl . Þar skrifaði ég líka stutta grein um aðra bók sem ég las, Tram 83 eftir Fiston Mujila . Við fengum tvo frakka í heimsókn, í boði frönskukennarans á heimilinu. Þá kom í ljós að þau höfðu verið mér samferða frá París um daginn og síðan í fluginu vestur líka. Hann tók eftir mér, karlinn, enda er ég tveir metrar og með kúluhatt; fyrst á CDG, svo á Reykjavíkurflugvelli, sá mig síðan úti á götu hérna og sagði við konuna sína að þessi náungi með hattinn væri bókstaflega alls staðar. Honum fannst svo sérstaklega gaman að hitta mig hérna aftur – eiginmann frönskukennarans – og átta sig á því að ég væri höfundur bókarinnar sem hann hafði verið að lesa í fluginu og var hálfnaður með. Annars hef ég mestmegnis bara legið í móki. Lyfjamóki og verkjamóki. Það vill til að það fer skáldum vel að liggja banaleguna. Nadja var á deddlæn með styrkumsókn og vann til miðnættis síðustu kvöld og fór einu sinni á fætur aftur fyrir fimm; svo var hún á skíðum í gærkvöldi, þannig að ég hef eiginlega ekkert hitt hana nema á forbífartinni. Ég er búinn að horfa á rosalega mikið af sjónvarpsþáttum – Louie, GoT og byrjaði aftur á The Wire. Og nú hringdi síminn: Sneiðmyndin staðfesti það sem þeir héldu. Líklega hefur botnlanginn sprungið úti í Tyrklandi en lífhimnan einangrað þetta, sem hún gerir víst stundum og er bara heppni, annars hefði ég endað á bráðamóttöku í Istanbul. Ég þarf að fara á spítalann og fá einhver lyf í æð og verð þar næstu daga, líklega fram að helgi.
19. apríl
Ég fæ ekki mörg stig þessa dagana. Nenni ekki einu sinni að telja þau. Ég er með einhverja ferðalagstimburmenn (ekki af áfengi, vel að merkja). Blúsaður og viljasnauður. Það fór allt úrskeiðis á heimleiðinni einsog á útleiðinni. Það kom enginn bíll að sækja mig út á flugvöll, einsog mér hafði verið lofað, svo ég hringdi á leigubíl. Já og ég hafði ekkert sofið um nóttina vegna magaverkja. Klukkan var fjögur að morgni. Ég var bara tékkaður inn til Parísar, þar sem ég þurfti að tékka mig út og inn aftur. Þá kom í ljós að það hafði ekki verið bókaður neinn farangur á mig – svo ég þurfti að punga út 54 evrum fyrir því og 46 (!!!) evrum fyrir 3 (!!!) aukakíló. Þegar ég var loksins kominn inn og ætlaði út í vél – eftir nethangs og kaffi – fann ég hvorki passann minn né flugmiðann. Ég fékk taugaáfall, ráfaði um flugstöðina í móki, og fann hann loks í öryggishliðinu. Vélarnar voru báðar einsog sardínudósir og mér varð sífellt meira illt í maganum. Svaf ekki neitt. Þegar ég kom til Reykjavíkur var ófært til Ísafjarðar, ég fékk að gista hjá Möggu frænku – þar sem ég skreið beint upp í (eftir heimsókn í apótekið) og talaði ekki við nokkurn mann. Uppúr miðnætti fóru verkirnir að hjaðna og ég sofnaði. Ég flaug svo heim í býtið. Skipulagði aukaafmælisveislu fyrir Aino. Pakkaði inn gjöfunum hennar, sótti fleiri gjafir á pósthúsið (frá Jessicu frænku hennar og fjölskyldu), bakaði ananasköku. Aram kom heim klukkan 14 og við héngum til 15 þegar hann fór í dans og ég sótti Aino – ég hékk með henni til 16.30 þegar Aram og Nadja komu heim. Í kvöldmat var upphitað risotto úr frystinum. Og í dag afrekaði ég ekkert nema að lesa örfáar blaðsíður – þær síðustu – í Tram 83 eftir Fiston Mwanza Mujila. Fékk þær fréttir að vinkona mín ein, austurþýskur bókmenntaagent, væri látin – úr hverju veit ég ekki, hún var keðjureykjandi ökuþór og afar skemmtilegur félagsskapur. Og svo frétti ég að Illska væri seld til Króatíu. Ég ætla að reyna að helga næstu daga lestri. Þetta gengur ekki.
16. apríl
Líklega eru komnir tveir sólarhringar síðan ég gaf síðast skýrslu. Allt er við það sama. Það er heitt en ekki of heitt. Ég er með frekar lítið af stigum (svindlaði á jóga; reykti). Las upp í íslömskum stúlknaskóla í gær. Það var frekar skrítið að horfa á allar þessar skuplur. Ekki þar fyrir að þær voru voða venjulegir unglingar – flissuðu mikið og kennararnir áttu í eilífri baráttu við skvaldur. Þær spurðu líka fínna spurninga – ekkert um trúmál en talsvert um fegurðina. Ein spurði hvort það væru til ljóð sem við vildum að væru ekki til. Önnur spurði hvort það væru til ljóð sem stæðu okkur of nærri til að við sýndum neinum þau. Eftir upplesturinn tók ég bátinn yfir bospórussund og skoðaði evrópska hlutann. Skrefamælirinn í símanum segir að ég hafi gengið 30 þúsund skref – tæpa 26 kílómetra. Það er það mesta sem ég hef gengið á einum degi síðan ég fékk símann. Það er mesta furða hvað hverfin eru ólík og hvað umhverfið breytist hratt. Á einum stað líður manni einsog á miðöldum í þröngum, skítugum götum þar sem hver smábasarinn tekur við af öðrum; svo sams konar nema hreinni og túristavænni; á þeim næsta eru ekkert nema risavaxin vöruhús; svo kemur túristahverfi með hótelum; þá hippsterahverfi fyrir lókala; fátækleg íbúðarhverfi; hverfi þar sem allar búðir selja veiðarfæri, mótora og akkeri; o.s.frv. o.s.frv. Ég fór meðal annars í tvær moskur. Suleiman-moskuna og „nýju“ moskuna (hún var ekkert nýlegri að sjá). Þar var mjög friðsælt en það kom mér á óvart – eins lógískt og það nú annars er – hvað er mikil táfýla þarna inni. Kannski er það ekkert skrítið í ljósi þess að líklega koma þúsundir túrista þarna á dag og allir hafa þeir þrammað um í hitanum og þurfa svo að fara úr skónum áður en þeir koma inn. Það var að minnsta kosti mjög mikil táfýla af mér. Svo fór ég á nútímalistasafnið Istanbul Modern. Þar var bara einhver sú áhugaverðasta sýning sem ég hef séð á nútímalistasafni. Meðal annars verk þar sem maður gróf í sig í gegnum kaðladyr til þess að koma inn í myrkvað herbergi þar sem héngu tvö stór upplýst hnattlíkön úr loftinu. Annað þeirra var ómerkt og hitt, sem var merkt, var á hvolfi (en merkingarnar á réttunni). Það var líka myndbands/dansverk af fólki að dansa í vatnstanki. Og lítil dúkka sem sat á sandhóli og starði inn í risastóran megafón (sem minnti mann auðvitað á bænaköllin hérna – sem vinir mínir, múslimar frá Dúbaí, Albaníu og Marokkó, eru sammála um að séu umtalsvert fallegar sungin en heima hjá sér). Safnið er ekki mjög stórt en það tekur talsverðan tíma að sjá það, einfaldlega vegna þess að maður staldrar alls staðar við. Ég náði ekki að klára fyrir lokun (eða svona; hljóp í gegnum restina). Svo var minjagripaverslunin glötuð. Það voru ekki einu sinni almennileg póstkort. Sem var í sjálfu sér hressandi (þótt ég hefði viljað kaupa póstkort af verkunum eða jafnvel bækling til minningar). Á tímabili villtist ég líka – um það leyti sem sólin settist – og stóð á tímabili alls ekki á sama þar sem ég þræddi yfirgefnar, hljóðlátar og illa upplýstar þröngar göturnar í myrkrinu. Ekki það ég viti neitt hvernig glæpatíðnin er hérna. Mér finnst sennilegt að það sé tekið mjög hart á glæpum. En óttinn er yfirleitt ekki heldur upplýstur (ég fatta það núna að auðvitað hefði ég bara átt að fara afsíðis og gúggla glæpatíðninni í Istanbul!) Í morgun fór ég á fætur, fékk mér morgunmat og fór svo aftur að sofa. Gekk um í hverfinu og keypti alls kyns delikatess til að taka með mér heim. Það er aldrei jafn erfitt að koma ekki við hendur trúaðra kvenna og þegar maður þarf að fá afgang í búð – þá beinlínis gneistar á milli og maður rekst alltaf aðeins utan í. Tómt vesen. Át köfte akindir í dürüm og drakk með því ayran. Svo gerði ég jóga heima á hóteli og nú ætla ég niður í spaið að hlaupa á brettinu. Í kvöld er síðan aðalupplesturinn – ég ætla að lesa Ljóð um bókmenntir sem ég held að hafi enn hvergi birst, gott ef það var ekki samið fyrir fyrirlestur í Biskops-Arnö. Flugið heim er klukkan 6.50 – ég millilendi í París og er kominn til Íslands upp úr tvö. Ef veðurspáin skánar eitthvað flýg ég svo heim úr Vatnsmýrinni – þar sem hjartað slær – klukkan fimm. Ef ekki, er ég veðurtepptur fram á mánudag.
14. apríl
Það er lítið að gerast. Í gær munaði minnstu að ég næði fyrstu 10/10 í sjálfsbótatilraun minni en svo nennti ég ekki að blogga fyrir háttinn og fékk því bara 9. Eyddi bróðurpartinum af deginum við tölvuna á hótelveitingastaðnum að skrifa ritgerð fyrir ráðstefnu í Lyon í maí. Hún er næstum því tilbúin. Today’s office. A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Apr 13, 2016 at 4:47am PDT Svo átti þessi dama þriggja ára afmæli. Ég sakna hennar alveg hræðilega. Netið er svo lélegt á hótelinu að ég neyddist til að skæpa við hana í gegnum 3G og er kominn með magasár af peningaáhyggjum. En það var samt alveg þess virði. Anna vinkona hennar gaf henni þetta hjól sem hún er hætt að nota. Aino var annars ánægðust með bláa blöðru með gullborða – sem svo sprakk á meðan við vorum að skæpa, með frekar dramatískum afleiðingum. Um morguninn fór ég og las upp í menntaskóla ásamt tveimur öðrum ljóðskáldum – ungri tyrkneskri konu sem heitir Tuba Kaplan og suður-afríska skáldinu Lebo Mashile. Við Lebo töluðum helling í bílnum – mest um börn, litla afmælisbarnið mitt og barnið sem Lebo er með í maganum og á að fæðast í júlí. Á bakaleiðinni töluðum við síðan um uppgang fasismans. Krakkarnir í skólanum kunnu flest ensku sem einfaldaði alla samræðu. Þau spurðu hvernig við hefðum byrjað að skrifa, hvaða merkingu ljóðlistin hefði, hvernig maður vissi hvort maður hefði hæfileika o.s.frv. Tuba Kaplan talaði hins vegar litla ensku – ég veit ekki að hverju þau spurðu hana. Hún spurði mig hins vegar eftir á með aðstoð túlks hvort ég skrifaði pólitísk ljóð (ég las Ljóð um kebab, sem birtist á ensku í Grapevine í fyrra, og það var á tyrknesku í bókinni sem er gefin út af hátíðinni). Ég sagðist stundum gera það og þá brosti hún út að eyrum og sagðist sjálf skrifa mjög pólitísk ljóð. Við yfirgáfum svo svæðið í tveimur bílum og kvöddumst á skólalóðinni. Lebo og Tuba tókust í hendur en þegar ég ætlaði að kveðja á sama hátt dró hún að sér höndina. Ég veit ekki hvers vegna það kom mér á óvart. Hún gengur með skuplu og er augljóslega trúuð. En hún er líka 27 ára, pólitískt ljóðskáld. Ég spurði einn af skipuleggjendum um hvað hún skrifaði og var sagt að hún skrifaði um reynslu ungs fólks. Þegar ég nefndi að hún hefði ekki viljað taka í höndina á mér sagði hann fyrst bara get used to it og bætti síðan við að hann legði sig alltaf fram um að vera ýtinn við svona aðstæður. Ég held það sé í sjálfu sér sjálfsagt að hver og einn ákveði hvernig og hvort hann eða hún vill vera snert/ur. En þetta er samt óþægilegt. Manni finnst einsog í því felist einhver áfellisdómur – sem það kannski gerir. En kannski eru óþægindin bara í því fólgin að hafa verið staðinn að einhverju faux-pas – í því að vera fávís. Í Frakklandi er maður stanslaust hlæjandi að því hvort eigi að kyssa á eina, tvær, þrjár eða fjórar kinnar og það tekur því enginn illa þótt maður rétti bara fram höndina. Ég hitti þar konu sem þýðir úr sænsku og þegar við kvöddumst bað hún um skandinavíska kveðju – það er að segja faðmlag, knús, kram. Kannski snerust óþægindin um að þarna hefði „minn heimur“ verið rofinn, mín kreðsa, ung kona sem skrifar pólitísk ljóð á – í mínum heimi – að vera einhvers konar líberal sósíalisti. Það kom reyndar fram í samræðu við einn skipuleggjandann að tyrkneska dagskráin væri íhaldssamari en þau kærðu sig um vegna þess að hátíðin er styrkt af ríkinu. Það þýðir annars vegar að þau gæta sín – það er ekkert hægt að bjóða hverjum sem er – og hins vegar að mörg róttækari skálda vilji einfaldlega ekki leggja nafn sitt við hana. Ástandið hérna er náttúrulega ekki alveg normalt. Samkvæmt RÚV hafa nærri því tvö þúsund manns verið handteknir fyrir að tala illa um forsetann frá því hann tók við völdum 2014 – þar af fimm manns í gær. Eftir skólaheimsóknina fór ég bara að vinna, borðaði kvöldmat á hótelinu (sem er ókeypis), vann meira og svaf. Ég vaknaði of seint fyrir morgunmatinn – eða í þá mund sem hann var að klárast. Ætlaði fyrst að fara að leita uppi morgunverðarstað sem hafði verið mælt með við mig en internetið sagði að það væri búið að loka honum. Þá ætlaði ég að rjúka upp í leigubíl og fara að skoða nútímalistasafnið en var tjáð í móttökunni að það væri ómögulegt að ná í leigubíl á þessum tíma (klukkan hálfellefu á fimmtudagsmorgni). Ég fékk mér kaffi og börek á kaffihúsi í nágrenninu, skoðaði möguleika á að taka metró – en stöðvarnar virðast meira og minna vera lokaðar, búið að rífa upp allt kerfið. Á endanum rölti ég bara hér um í hverfinu, kom svo aftur upp á hótel og vann svolítið meira. Á eftir fer ég að selja boli með ljóðaáletrunum. Þetta er eitthvað góðgerðardæmi. Í kvöld er svo skipulagt hangs með hinum skáldunum sem ég hef hingað til mest hitt í hótelkvöldmatnum.
12. apríl
Það er eiginlega kominn þrettándi í Istanbul og þrettándi apríl í ár er þriggja ára afmælisdagur dóttur minnar, Ainoar Magneu. Ég heyrði í henni í síma og á skype áðan; hún er með eyrnabólgu og hefur ekki mjög gaman af lífinu og fór að hágráta þegar ég þurfti að fara. Ég eyddi deginum í leit að afmælisgjöf handa henni. Keypti á endanum tréhendi með hreyfanlegum liðum. Alveg pínu skrítið. Ekki segja henni. Þetta er leyndarmál fram á sunnudag (hún les ekki bloggið mitt). Á ráfi mínu um í miðbæ Uskudar – sem er svona hverfisborg í Istanbul, þar sem ég bý á meðan á hátíðinni stendur – gerðist þetta: “Take a picture of that instead” the boatman at the harbor said to a pair of tourists posing, pointing up into the air at the seagulls. “Take a picture of what?” they asked. And I looked up and saw him. I watched him on the ledge for what seemed to be forever. He fell, grabbed a hold, climbed back up, threatened to jump again and again – at one point he took up his wallet and seemed to want to bribe the police to leave him alone. Then he fell again, grabbed a hold, swung his legs around and climbed back up. Every once in awhile he’d bang his head on the window so hard you could hear it – or him – crack, six stories down on the pavement. At times he seemed drunk out of his mind and at times as if he were spiderman. And I thought: Should I keep walking? Do something? Will I ever again get the chance to see a man die? Will I be more or less jaded and deluded if I stay or if I leave? Is there humanity in watching, and if not whom am I debasing? Me? Him? Society? My heart was racing and I really needed to pee. I never looked away, not for a single moment. I took up the phone and took a photo for Instagram, and thought: this is nuts, I am not a person, I am a machine. Something must happen – my gaze must be broken before I urinate myself in public. And then suddenly he gave up and decided to go on. He took somebody’s outstretched hand and climbed in the window which promptly was shut behind him, sealing him within the house, within humanity, stuck with the living. I clapped. A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Apr 12, 2016 at 5:33am PDT Ég var miður mín en svo tók eðlileikinn strax aftur við. Hann lifði líka af, þessi blessaði maður – nema hann hafi ráfað aftur út á silluna seinna, en í borg af þessari stærðargráðu deyja sjálfsagt margir á dag þótt þeir deyi ekki beint fyrir framan mann. Og einhvern veginn var maður bara aftur kominn inn í mannhafið strax og þessu lauk. Hálftíma síðar var maður byrjaður að gleyma þessu. Höfnin er mikið verslunarhverfi en mér sýndust flestir þarna samt vera heimamenn, frekar en túristar, þótt búðirnar séu tiltölulega túristalegar. Enda skilst mér að túristarnir séu flestir hinumegin við ána í Evrópu, en ekki hér Asíumegin. Ég á eftir að líta á það, ef færi gefst. Ég var mjög lúinn þegar ég kom heim. Byrjaði daginn á 5 kílómetra hlaupatúr á bretti í hótelspainu – fyrsta skipti sem ég hleyp á bretti. Það var alltof heitt og þungt loft þarna inni og mjög lágt til lofts, svo ég rak mig nokkrum sinnum uppundir. En annars frekar mikill lúxus þetta spa einsog spö almennt. Eftir hlaupin fór ég í sturtu og svo niður í bæ – það er ríflega klukkustundargangur yfir nokkuð bratta hæð – gekk þar um í 4-5 tíma og svo aftur heim. Fékk mér kebab sem var minni en Berlínarkebabið – svona 1/3 af stærðinni – og alls ekki jafn bragðmikill og hressandi. Döner kebab er líka Berlínartyrkneskt fyrirbæri, en ekki tyrklandstyrkneskt. Og listinn? Ég er búinn að missa úr þrjá jógadaga, enn ekkert skrifað, alltaf lesið smá og missti úr einn hlaupadag. Hvorki reykt né drukkið. Einn dag kunni ég ekkert gott að meta. Hef verið of mikið á netinu, of mikið að glápa og of mikið að gera krossgátur. Ætli ég sé ekki með á bilinu 6-8/10 eftir því hvernig maður leggur mat á dagana? Hvar einn byrjar og öðrum lýkur, meina ég – eru þetta sólarhringar frá einhverri tiltekinni klukkustund, dagar frá því ég vakna þar til ég sofna eða bara tíminn sem líður á milli bloggfærslna?
11. apríl
Maðurinn sem afgreiðir á 428 Bar í Terminal 1 á Charles de Gaulle flugstöðinni heitir Benhur. Ben Húr. Mér finnst það alveg magnað en ég er líka enn að vakna. Þegar ég opnaði augun í morgun – á stofugólfinu hjá Snæbirni Brynjarssyni og hans ektakonu, í Porte de Clignancourt – var ég viss um að ég hefði sofið yfir mig. Sem betur fer var það misskilningur. En kannski til marks um að ég sé farinn að taka ferðalaginu alvarlega, frekar en með þeirri stóísku ró sem hefur leitt mig í ógöngur á síðustu dögum. Það er ágætt, ekki síst í ljósi þess að nú er ferðalöngum ráðlagt frá því að ferðast til Istanbul vegna hryðjuverkahættu. Mér hefur í tvígang verið bent á að kannski sé ekki góð hugmynd að ganga um með hattinn í Tyrklandi því róttækir múslimar gætu talið mig vera Ísraelsmann. Ég veit samt ekki hvort ég ætla að fara að taka því alvarlega. Ég er þrátt fyrir allt líka í rauðum buxum og einhvern veginn alltaf meira einsog fífl en rabbíni til fara. Þegar ég var að skrifa Illsku hins vegar var ég á tímabili að breytast í litháískan 20. aldar gyðing, með barðastóran svartan hatt og skegg niður á bringu. Í Póllandi hræktu (fullir) menn á eftir okkur Lomma Lomm og görguðu eitthvað um Ísrael. Í gær var mér vísað úr metróinu – ásamt öllum sem þar voru – og línunni lokað á kafla vegna þess að það hafði fundist „grunsamlegur pakki“ einhvers staðar. Mér skilst að þetta sé daglegt brauð í París. Annars eru í dag 30 ár frá því Primo Levi lést. Hann henti sér fyrir lest. Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel, sem var líka í Auschwitz, sagði um Primo að hann hefði í raun drepist í útrýmingarbúðum nasista, fjörutíu árum after the fact. En ég sem sagt fékk flugmiða í dag, annað en í gær, og er kominn inn fyrir öryggishliðið og þá fær mig fátt stoppað. Mikligarður bíður mín. Maðurinn sem afgreiddi mig um miðann hjá Turkish Airlines, og var áreiðanlega af tyrkneskum ættum, bauð „góðan dag“ á íslensku þegar hann sá passann minn, spurði síðan hvort ég væri með „en bagage“ og kvaddi loks með „takk“. Mér fannst það impónerandi og skemmtilegt en náði ekki að spyrja að því hvort hann hefði einhver tengsl við landið – líklegast hefur hann lært einhvers konar norræn fræði einhvers staðar, fyrst hann ruglaði líka skandinavískunni inn í þetta, frekar en að hann hafi búið á Íslandi. Ég ímynda mér ýmislegt um þennan mann. Hann heitir ábyggilega líka Ben Húr. Sendiráðið var opnað fyrir mig í gær og mér reddað. Það var ekki lítið sem ég var þakklátur fyrir það. Þau rukkuðu mig ekki einu sinni (frekar en ræðismaðurinn í Caen, reyndar). Úr sendiráðinu fór ég upp í 18. hverfi þar sem við Snæbjörn höfðum mælt okkur mót á kantínunni Recyclerie, sem er gamalt uppgert reiðhjólaverkstæði. Þar gekk ég í flasið á konu sem hafði lesið bókina mína og var mjög hissa að sjá höfundinn bara spranga þarna um. Það var einhver norræn listahátíð í húsinu sem var því fullt af friðlum norðurlanda. Ég bauð Snæbirni út að borða fyrir gistinguna – og Plokkfiskbók – og svo fórum við og fengum okkur nokkra bjóra. Við ræddum eitt og annað – bókahark, fagurfræði, menningarfjölmiðlun – og rifumst um það hvort Andri Snær myndi bjóða sig fram, ég sagði já og hann sagði nei, og í þeim töluðu orðum hefur Andri verið að boða til blaðamannafundar. Ég frétti það hins vegar ekki fyrren ég var að leggjast til svefns og þá munaði minnstu að ég ryddist bara inn á Snæbjörn og frú til að taka eitt gott told you so fyrir svefninn. En ég er of vel upp alinn svo ég lét það vera. Ég er ekki alveg viss með stigagjöfina. Skrifaði ekki, reykti ekki, gerði engan jóga, drakk aðeins meira en væri tilvalið . 7 af 10? Segjum það.
10. apríl: Listin að klúðra ferðalögum
Ég veit ekki hvort það telst sem ég hafi misst úr bloggdag þegar það er bara rúmur dagur af vökustundum sem fellur úr. Hvað um það. Í gær fór ég og reddaði neyðarvegabréfi hjá ræðismanninum í Caen; síðan settumst við Eric Boury niður heima hjá honum í Herouville og fórum yfir þýðinguna á Heimsku sem kemur út hjá Metailie á næsta ári. Konan hans, Claude, gerði dásamlegan hádegismat og svo fórum við öll aftur til Le Havre. Um kvöldið var maraþonupplestur úr Illsku – þau töluðu um 50 mínútur en samkvæmt minni klukku þá var lesturinn nær einum og hálfum tíma. Sem var fínt, eða það fannst a.m.k. þeim sem tala frönsku (ég var að verða svolítið þreyttur). Eftir upplesturinn var samtal á sviði í svona 40 mínútur og svo – klukkan 23 – var farið út að borða kvöldmat. Ég var kominn á hótelið klukkan 02 og vaknaður aftur klukkan 06 til að ná bílnum til Parísar, þar sem til stóð að ég færi áfram til Istanbul. Jamm. Til stóð. Þetta er að verða einsog kafli í bók. Ég hrekst um heiminn á óheppninni (og ekki í fyrsta skiptið – nægir að nefna þegar ég svaf yfir mig í Norrænu og missti af Færeyjum). Þegar ræðismaðurinn spurði mig í gær hvort ég þyrfti þriggja mánaða eða sex mánaða neyðarvegabréf sagði ég að þrír mánuðir væru feykinóg, ég væri að fara heim eftir viku. En svo var mér snúið við á deskinum áðan – enda þarf maður að hafa vegabréf sem gildir í a.m.k. sex mánuði eftir að maður kemur og mér hefði aldrei verið hleypt inn í Tyrkland. Ég breytti miðanum – missi ekki af neinum viðburðum ef ég kem á sama tíma á morgun (en missi af túristatíma – og lúrnum í flugvélinni, sem ég var farinn að hlakka til). En það var dýrt, og einsog mér er tíðrætt um er ég svimandi blankur. Nú er ég búinn að ræsa út utanríkisráðuneytið til að opna sendiráðið á sunnudegi – og þá er að sjá hvort óbilandi stuðningur minn við Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina skilar sér ekki í einhverri forgangsmeðferð. Ég á eftir að redda mér gistingu í París í nótt. Allar tillögur vel þegnar. Og bíða þess að utanríkisráðuneytið hafi samband aftur, upp á að fá nýtt vegabréf. Og redda mér nýjum passamyndum, reikna ég með. Og hvernig var með stigagjöfina? Ég fór út að hlaupa, las, gerði jóga, reykti (en bara lítið). Hvað er það þá? 7 af 10? Ég þyrfti eiginlega að bæta á þennan lista ellefta atriðinu: ekki klúðra ferðalögum.