Hálar brekkur

Einbeiting er enn í lágmarki. Eða kannski væri nær að segja að athafnagleði væri í lágmarki. Mér finnst ég yfirleitt vera hálfgerð liðleskja þótt ég viti að það standist ekki nána skoðun – ég virðist allavega koma ýmsu í verk, svona af og til. Ég veit bara ekki hvenær ég geri hluti því alltaf þegar ég lít upp virðist ég ekki vera að gera nokkurn skapaðan hlut. Í dag hef ég fengið mér lúr og hann var ekki einu sinni langur – kannski 10 mínútur. Það var svipað uppi á teningnum í gær. Afkastaði engu nema lúr og hann var enn styttri og ómerkilegri en sá í dag. Ég hef líka fjarska lítið lesið upp á síðkastið. Hangi á félagsmiðlum og íhuga bugun mína. Er ég bara 5% bugaður? Eða er ég 45% bugaður? Hver eru krítísk mörk bugunar – hvenær er brekkan orðin svo brött að maður komist ekki upp aftur nema með aðstoð? Hvernig er færðin – er brekkan hál? Mig vantar GPS staðsetningu og veðurspá. Hugsanlega hef ég bara verið einn heima of lengi – í þessu flensuveseni. Félagsfærni mín (sem var ekki mikil fyrir) hefur rýrnað. Ég ætla ekki að halda neitt útgáfuhóf. Við Tapio Koivukari verðum með viðburð í Edinborgarhúsinu þann 19. mars og ég ætla bara að láta það duga. Ég er eitthvað að íhuga að gleðja mig bara með einhverju gítardóti í staðinn. Mig langar mikið að kaupa mér resonator-gítar . En þá þarf ég eiginlega líka að finna mér aukatekjur. Ekki það, þetta er ekkert æðislega dýr gítar (50 þúsund), en ég er bara (einsog venjulega) í holu. Gítarsmíðin gengur líka hægt. Þar er um að kenna blöndu af leti og þolinmæði. Á ég kannski of marga gítara – þeir eru allir ólíkir – ég á þrjá og bráðum fjóra rafmagnsgítara og tvo kassagítara, þar af hefur annar eiginlega bara tilfinningagildi? – má ég „safna“ gítörum? Í gítarleikaragrúppunum á FB pósta karlrembur reglulega einhverjum bröndurum um hvernig konurnar þeirra hindri þá í gítarsöfnun – sem er frekar óþolandi (húmorinn s.s.) en auðvitað er þetta kostnaður og svona. Og fyrir, einfaldlega, fjórðungur stofunnar er undirlagður (reyndar líka fyrir trommurnar hans Arams og hljómborðið sem Aino er hætt að læra á). Nadja hefur að vísu ekki hreyft neinum háværum mótmælum. Og auðvitað kostar þetta líka en í sjálfu sér er það engin ósköp miðað við hobbí almennt, sennilega ódýrara en kort í ræktina, og endursöluverð á flestu er ágætt (sérstaklega miðað við allt annað – tölvudót og húsgögn og svoleiðis, sem tekur varla að gefa) – kannski helst að heimasmíðuðu gítararnir færu fyrir minna en maður leggur í þá. Mér skilst að sé maður ekki alvöru gítarsmiður fái maður varla fyrir íhlutunum – og hvað þá fyrir vinnunni. Það skiptir mig auðvitað engu af því mig langar ekkert að selja þá. En ég er ekki tónlistarmaður og mér finnst erfitt að réttlæta að eiga svona mikið af græjum – mest fyrir sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég á ekki fyrir því. Í dag þarf ég að svara þessu viðtali sem ég hef nefnt í síðustu tveimur færslum og halda áfram að þýða eitt ljóð. Og eiginlega þyrfti ég að skrifa endurskoðandanum líka. Við sjáum til hvernig það gengur allt saman. Ég gef skýrslu síðar.

Manic Pixie Dream Girl og helförin

Í fyrsta skipti í rúman mánuð vaknaði ég heima hjá mér við vekjaraklukkuna mína. Nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku á ferðalagi, til þess að missa ekki af flugi, og nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku Nödju og einu sinni þennan mánuð hef ég farið á fætur og borðað morgunmat með fjölskyldunni minni fyrir skóla – það var á maskadaginn. En það á þá að heita að ég sé heill heilsu. Samt hósta ég svolítið og sýg aðeins upp í nefið. Fór í ræktina og hljóp stutta 3 kílómetra og hugsaði við hvern hósta – þeir voru kannski 5-6 – að nú væru allir að hugsa hvort ég væri með kórónaveiruna. Hóstaði einu sinni á Heimabyggð í hádeginu og framkvæmdastjórinn spurði hvort þetta væri þurr eða blautur hósti og tók svo niður sjúkrasögu mína til öryggis. Annars fór dagurinn öðruvísi en ég hélt. Í gærkvöldi var allt útlit fyrir að ég væri að fara að taka að mér stórt verkefni sem myndi krefjast fullrar einbeitingar og langra vinnudaga í rúman mánuð. Planið var þá að ryðja því af vinnuborðinu í dag sem gæti hugsanlega orðið fyrir mér, truflað þessa einbeitingu og tekið upp dýrmætan vinnutíma. Í morgun fékk ég svo tölvupóst þar sem fram kom að verkefnið – sem raunar kom upp bara á helginni, en með þannig deddlæn að ég gæti varla beðið boðanna – myndi hugsanlega annað hvort frestast eða falla niður. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort af verður. Og þá fór dagurinn í meira dól en til stóð. Fyrst fór ég í ræktina og svo þurfti ég að finna bíllyklana og það gekk illa – endaði með að fara upp í menntaskóla og fá lyklana hennar Nödju (sem vissi þá líka um mína, hafði óvart tekið þá). Þegar þeir voru fundnir renndi ég til Súðavíkur til að skila stúdíóbúnaði til Ödda – og endaði reyndar á því að kaupa af honum hljóðkortið á höfðinglegum kjörum. Þar drakk ég talsvert af kaffi og gaf popparanum kökubita sem ég bakaði með krökkunum í gær. Svo fór ég í mat á Heimabyggð og lenti á kjaftatörn um 30 ára gamal ástarmál hérna í bænum. Þegar ég kom á skrifstofuna byrjaði ég svo eiginlega á því að sofna í hægindastólnum mínum. Bara örstutt, en samt. Nú er ég að velta því fyrir mér hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur, eiginlega. Sennilega ætti ég að ganga frá skattadóti og skrifa pistil – og svara þessu viðtali þarna sem ég nefndi í síðustu færslu. En ég er auðvitað ekki innblásinn og þegar maður er ekki innblásinn sofnar maður bara í hægindastólnum. Sorrí, skattgreiðendur. *** Á FB-þræði hjá Hildi Knúts rakst ég á þessa mynd: Á þræðinum er ýmislegt rætt – að þetta eigi líka við um bíómyndir, sé kannski meira almennt fyrstubókarsyndróm en eitthvað sem eigi bara við um karlmenn. Fá dæmi hafa verið tekin þegar þetta er skrifað og bara eitt sem er eftir karlmann – Illska. Og ég er búinn að vera að velta því fyrir mér, án þess að þora að spyrja, hvort það sé þá Arnór eða Ómar sem sé illa dulbúin rómantísk útgáfa af sjálfum mér. Eða hvort það sé jafnvel Agnes og Arnór þá kannski eins konar manic pixie dream girl í nasistalíki?

Eftirlætis ljóðlínan mín

Hver er eftirlætis ljóðlína mín – allra tíma? Og uppáhalds fræga skáldið mitt? Þessu á ég að svara og alltíeinu finnst mér einsog ég hafi aldrei lesið neitt ljóð og kannist ekki við nafnið á einu einasta ljóðskáldi. Og mér finnst öll svör sem mér detta í hug vera annað hvort popúlísk eða snobbuð – að velja einhverja línu sem enginn hefur heyrt minnst á eða eitthvað sem allir kannast við. Ekki að ég muni neinar línur sem enginn hefur heyrt minnst á, frekar en ég man neitt annað – ég er gersamlega minnislaus. Ég skrifa í staðinn fyrir að muna. Ekki segi ég Ko Un af því hann er ígrundaður (e. cancelled). Ekki segi ég Allen Ginsberg af því það finnst öllum það svo hallærislegt – hann tilheyrir þeim flokki listamanna sem hefur einhvern tíma verið svo hressilega hæpaður að þeir bera þess eiginlega aldrei bætur. Það er einsog að segja að Bítlarnir séu uppáhalds hljómsveitin manns. Sama gildir um Bukowski og Waldman og Kerouac og eiginlega alla sem ég las sem unglingur. Er ekki tilgerðarlegt að segja Gertrude Stein? Hvað með Bodil Malmsten – er það ekki sjálfhvert (af því hún elskaði Illsku, er það ekki bara einhver leið til bókmenntalegrar sjálfsfróunar)? Snobbað að segja Paul Celan? Einhvern tíma hefði ég hiklaust nefnt tilraunaskáld – og jújú, ég gæti sagt Kurt Schwitters. Það væri ekki fjarri lagi. En ég hef ekki lesið hann spjaldanna á milli og ekki á frummálinu nema að litlu leyti. Og það sem mér finnst frábært er kannski engin ósköp – en mér finnst það mjög frábært. Eða eitthvað gott torf – Bruce Andrews eða Lyn Hejinian. Er ég búinn að lesa nóg af Hildu Doolittle til að segja að ég haldi mest upp á hana? Eða Jacques Roubaud? Á ég kannski að segja eitthvað íslenskt – sól tér sortna. Mér finnst Þorraþrællinn vera besta ljóð sem ort hefur verið á íslensku og ég man ekkert hver orti það. (Kristján Jónsson – gúglaði). Æri-Tobbi er mér afar kær en það meikar ótrúlega lítið sens fyrir útlendinga (þetta er fyrir útlendinga). Whitman væri möguleiki – og ljóðlínan þarna „do I contradict myself. Very well then, I contradict myself. I contain multitudes.“ Þetta finnst ábyggilega einhverjum líka vera mjög ómerkilegt (ég er alltof viðkvæmur fyrir einhverjum ímynduðum lesendum) en þetta var svolítið eureka fyrir mig og ég held að nákvæmlega þetta, sem fagurfræði og heimspeki, sjáist í mínum eigin verkum. Ég yppti öxlunum við mótsögnum, þannig rúlla ég. Skáldið og línan þurfa reyndar ekki að heyra saman. Og ég þarf að svara fleiri spurningum. Lýsa ljóðlist minni í fáum orðum. Nei, heyrðu – ég var að misskilja sé ég núna. Ég á að velja tvær úr hópi tíu spurninga. Svo ég hefði getað sleppt báðum þessum. Og ég get engst yfir þessu í nokkra daga í viðbót. Kannski upphafið að If I Told Him eftir Gertrude Stein – mér finnst það geggjað en ég er ekki viss um að margir tengi endilega mjög sterkt við það. Og auðvitað er svona neimdropp einhver sölumennska. Hugsanlega fer ég yfir á skrifstofu (ég er aftur á Heimabyggð) og lít yfir kilina á ljóðabókasafninu mínu. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju enda augljóslega minnislaus, einsog mig minnir að ég hafi nefnt. Kannski þarf ég bara að lesa allar ljóðabækurnar mínar aftur.

Untitled

Ég er kominn úr húsi. Ef frá eru taldar búðarferðir er þetta þá í fyrsta sinn frá … þorrablótinu sem ég fer úr húsi. Ætli það séu þrjár vikur? Tæpar sennilega. Ég hef verið hressari þessa viku en er samt enn eitthvað ónýtur – sennilega bara eftirköst af flensu. Ég er byrjaður að taka upp hljóðbókina og klára það sennilega á morgun. *** Stakir hlutar heimsins skiptast á að eiga hug minn allan. Forval demókrataflokksins til dæmis. Ég veit ekki hvort Bernie á neinn séns á að vinna Trump en ég tel nánast algerlega 100% víst að Biden á það ekki. Og þá er þetta sennilega búið. Það kom mér á óvart að sjá viðtöl við Biden – hann er fullkomlega sambærilegur við Trump. Ekki í að vilja rugga bátum – það væri meira Bernie – en í því að vera málhaltur og sennilega bara mjög vitlaus. Og líklega meðfærilegur – ef hann verður valinn þá ræður flokkseigendafélagið. Sem er ábyggilega skárra en að hann geri það sjálfur – hvað þá Trump. *** Og bókin mín auðvitað. Ég hugsa svolítið um hana líka. Ég er enn í þriðja sæti metsölulistans. Fjórðu vikuna í röð – eða eina vikuna var ég í öðru. Hugsa líka um gítarinn sem ég er að smíða. Ég pantaði verkfæri til að ganga frá böndunum á hálsinn en þau eru ekki komin. Ég er búinn að mála búkinn eins mikið og ég get í bili – áður en ég geri meira (pússa niður ójöfnur, tek eina umferð í viðbót og svo nokkrar lokaumferðir af glæru) þarf allt að verða grjóthart. Það eru tíu dagar í það. *** Ég er alltof mikið á samfélagsmiðlum. *** Það er gott veður. *** Ég afbókaði Frakklandsferð. Átti að vera á bókmenntahátíð í Nantes á helginni en er bara ekki nógu hress. Get ekki farið að láta mér slá niður. 28 daga flensa verður bara að duga. Svo er verið að aflýsa alls konar svona viðburðum og kannski hefði það verið best líka í Frakklandi – þótt maður fengi ekki meiri flensu þarna þá fengi maður kannski að fara í sóttkví þegar maður kæmi heim. Og ég er bara búinn að vera nóg heima hjá mér. *** Ég hef enn enga ákvörðun tekið með útgáfuhóf. Samt er bókin löngu komin út. Hugsanlega er bara frekar lágt á mér risið. Þessir fyrstu tveir mánuðir ársins hafa ekki verið neitt grín. *** Á dögunum sá ég konu halda því fram á Facebook – í fúlustu alvöru og án þess að nokkur andmælti henni – að það væri „ekki sjaldgæft“ að karlmenn sem standi í skilnaði „myrði konur sínar og börn“. Hún fékk meira að segja talsvert af lækum á þetta bara. Og þetta var raunar í stemningu við þráðinn almennt. Um þetta hef ég verið hugsi. *** Internetið er svolítið einsog bandalag ólíkra sértrúarsöfnuða. Eiginlega ætti maður að segja alveg skilið við það. *** Ó-ið hans Hauks Más var bók vikunnar á Rás 1. Það var afar gleðilegt. *** Ég er svolítið í því að snerta á mér andlitið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að fara að því að hætta því. En að því sögðu hef ég verið með flensu heima í 28 daga og enn ekki smitað neinn. Kannski snertir enginn annar mig. *** Nadja er að fara í Strandagönguna á helginni og það var búið að lofa krökkunum að gista hjá ömmu og afa (af því ég átti að vera í Frakklandi) svo sennilega verð ég einn aðra hvora helgarnóttina. Finnst einsog ég eigi að gera eitthvað úr því. Annað en að sitja sem sagt heima og njóta þess að vera í rólegheitunum af því það er það eina sem ég hef gert í margar vikur. Ég veit bara ekki hvað það ætti að vera. Eins manns útgáfuhóf? Fara á Húsið og liggja bara í því í sólarhring. *** Nei, varla. *** Og kominn úr húsi, já, ég er sem sagt á Heimabyggð. En nú ætla ég að fara í búðina og aftur heim.

Bönnum Hana

Síðustu áratugir 20. aldarinnar voru mikið umbrotaskeið í menningu vesturlanda. Fyrir þann tíma var allt svolítið hólfaskiptara – allt átti sitt rými og þeim rýmum var gert mjög mishátt undir höfði. Krefjandi verk og ögrandi, jafnvel óþægileg – áttu alls enga leið að því sem kalla mætti opinber rými. Þau gátu verið til en bara í sínum eigin lokuðu afkimum. Ef þau voru sýnd í almennum bíóhúsum, bækurnar seldar í bókabúðum eða listaverkin hengd upp þar sem „venjulegt fólk“ – að ekki sé minnst á börn – gat notið þeirra varð uppi fótur og fit. Niðurstaðan varð svo oftar en ekki málsókn og „bönn“. Bönnin voru samt ekki alltaf eiginleg bönn – réttarhöldin yfir Howl eftir Ginsberg, sem er eitt frægasta tíma dæmið um listaverkabann, snerist ekki um að það ætti að banna ljóðið. Það átti ekki einu sinni að banna prentun þess eða dreifingu. Enda hefðu málfrelsislög hamlað slíku. En vegna þess að bókin var prentuð í Englandi og flutt inn til Bandaríkjanna var hún stoppuð í tollinum og gerð upptæk á þeirri forsendu að hún innihéldi klám. Spoiler – og trigger – warning: ljóðið inniheldur klám. Þar er meira að segja fullyrt að fólk geti haft ánægju af því að láta margríða sér í rassgatið. Og það er enginn parental advisory miði á kápunni og til stóð að dreifa henni í til þess að gera venjulegar bókabúðir. Lagernum var þannig haldið í gíslingu mánuðum saman. En vegna þess að málsmetandi fólk kom hinu óþekkta ljóðskáldi og útgefanda hans til varnar skapaðist þrýstingur og umtal – útgefandinn sá að áhuginn var nægur til þess að hann gæti endurprentað bókina innan Bandaríkjanna og gerði það. Þegar lagernum var svo loks sleppt úr tollhúsinu var bókin orðin margföld metsölubók. Það er auðvitað fagnaðarefni – en það er líka mikilvægt pólitískt að yfirvöld (mórölsk, pólitísk eða efnahagsleg) átti sig á því að þau græða ekki á því að reyna að þagga listaverk heldur þvert á móti. Þetta má aldrei verða taktík sem virkar. En Howl var ekki bannað. Ekki frekar en alræðisstjórnir austantjalds lögðu í vana sinn að banna rithöfundum að skrifa. Þær bara komu í veg fyrir útgáfu efnis sem þótti skaðlegt fyrir heill ríkisins og sálarlíf alþýðunnar. Það er ekki það sama og að banna neitt. Listaverkin mega vera til – þau mega bara ekki sjást, það má ekki heyrast í þeim og umfram allt annað: þau mega ekki hreyfa við fólki (eða triggera tilfinningar). Gjarnan er líka reynt að takmarka einfaldlega útbreiðslu listaverka – stærstur hluti bókabannsumræðunnar í Bandaríkjunum snýr að skólabókasöfnum. Listar sem stundum birtast á Facebook um bækur sem eru „bannaðar“ í bandarískum skólum eru aldrei bannaðar í öllum bandarískum skólum heldur í einhverjum þeirra. Listin er í eðli sínu truflandi. Hún hrærir við okkur. Ekki alltaf á sama hátt – stundum hlæjum við, stundum grátum við samúðartárum og stundum fyllumst við hofmóði. En stundum ögrar hún líka gildum okkar – skoðar þær forsendur sem okkur þykja sjálfgefnar og leyfir sér að spyrja hvort þetta standist. Stundum er þessi ögrun út í hött – alveg brjálæðisleg – og hún er merkilegt nokk ekki alltaf vitleysislegri fyrir það. Stundum ýtir hún þá við hugsunum og tilfinningum sem við vissum ekki einu sinni að gætu verið til. Í vikunni var birt opið bréf með löngum undirskriftalista þess efnis að bíómyndin Elle eftir Paul Verhoeven ætti ekkert erindi á dagskrá RÚV enda væri hún „löðrungur í andlit þolenda“. Svona lýsti gagnrýnandi ríkisútvarpsins myndinni á sínum tíma: [Elle] snýst um aðalpersónuna Michèle, vel stæða konu á miðjum aldri, sem verður fyrir árás strax í upphafsatriði myndarinnar þegar grímuklæddur maður brýst inn til hennar um miðjan dag og nauðgar henni. Myndin hefst með óhljóðunum yfir myrkum ramma og í nokkur augnablik er óljóst hvort um sé að ræða ofbeldi eða samræði, þótt allur vafi virðist hverfa þegar myndavélin sýnir okkur verknaðinn í miðjum klíðum innan um glerbrot á gólfinu. Þessi tvíræðu augnablik setja þó tóninn fyrir það sem koma skal, því sem áhorfendur vitum við aldrei nákvæmlega hvað við eigum að halda, hvar aðalpersónan stendur, eða nákvæmlega hvert myndin sjálf stefnir, enda gerir hún í því að ögra frásagnarhefðum svipaðra kvikmynda og virðist bæði meðvituð um væntingar áhorfenda sinna og reiðubúin að snúa upp á þær. Þannig verða eftirmálar nauðgunarinnar undarlega hversdagslegir; Michèle lætur nánast eins og ekkert hafi gerst og þegar hún loks segir nánustu vinum frá gerir hún afskaplega lítið úr atburðinum. En í gagnrýni þeirra sem skrifuðu RÚV verður þetta að: Myndin er því verkfæri til að viðhalda úreltum og skaðlegum mýtum nauðgunarmenningar og misréttis kynja og sýning hennar á ríkismiðlinum er fullkomin vanvirðing við tugþúsundir kvenna sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi hér á landi. Helstu rökin fyrir þessu virðast vera þau að á einhverju stigi málsins í annars margbrotinni mynd sé daðrað við það að aðalsöguhetja myndarinnar hafi fengið kikk út úr því að vera nauðgað. Nú ætla ég ekki að fara að debatera hver séu eðlileg viðbrögð við nauðgun en mér hafði einmitt heyrst úr svipaðri átt og skrifaði þetta tiltekna bréf að það væru ekki til nein „eðlileg viðbrögð við nauðgun“ heldur væru þau alltaf persónuleg og oft á tíðum jafnvel mjög órökræn. Það er auk þess í samræmi við það sem ég þykist vita sjálfur – af fyrstu hendi og annarri og jafnvel þriðju líka. Við það má svo bæta að það er jafnvel enn galnara að ætlast til þess að sögupersónur séu rökrænar en annað fólk – enda eru sögupersónur bæði óáreiðanlegar og stundum ekki annað en myndhverfingar, hlutar af sagnalyklum. Í umræðum á Facebook hefur því verið hent fram að fyrir undirskriftafólkinu hafi fyrst og fremst vakið að krefjast einhvers konar triggerviðvörunar á myndina og ræða sýningartíma hennar. Um það má segja tvennt: 1) Það er ekki inntak bréfsins sem sent var RÚV og hvergi í því er talað um sýningartíma eða viðvaranir 2) Myndin er sýnd klukkan 22 á sunnudagskvöldi og er tveir tímar. Seinna má það ekki vera. Sýningu lýkur þá á miðnætti. Auk þess er myndinni lýst í dagskrárlýsingu og ætti engum að dyljast umfjöllunarefni hennar. Æski maður frekari upplýsinga er búið að skrifa þúsundir blaðsíðna um efni hennar á netið. Hún er þess utan bönnuð innan 16 ára. Þótt myndin stuði er óhemja af listrænt þenkjandi fólki – gagnrýnendum úr öllum stéttum, af báðum kynjum – sem ekki bara ver hana heldur fagnar henni. Þótt einn kalli hana „vegsömun nauðgunarmenningar“ þá er annar (eða önnur, réttara sagt – og umtalsvert fleiri) sem segir að aldrei hafi verið gerð kraftmeiri mynd um valdeflingu þolanda. Þótt einhverjum ofbjóði er bróðurpartur gagnrýnenda vægast sagt ánægður. Það er heldur ekki – hvað sem móralistarnir segja – ekkert samhengi milli þess að vera femínisti og að vera mótfallinn myndinni. Myndin er ekki sérstakt afsprengi feðraveldisins – nema að sama marki og allt annað. En einsog ég segi er list ekki bönnuð með því að setja í lög að „listaverk a sé bannað“. Heldur er hún jöðruð. Hún er gerð óútgáfuhæf. Rýmið sem hún birtist í er leyst upp eða því lokað. Þeim sem gerir hana sýnilega er refsað. Þú sérð hana ekki lengur í bíóinu og ef hún er sýnd í bíóinu er plakatið ekki uppi við götuna. Kannski sérðu hana bara hjá vini þínum sem reddaði sér eintaki. Í samizdat stemningu. Af því eintökin eru ekki á hverju strái. Það er að sönnu erfiðara að „stöðva“ útgáfu á tímum internetsins en það er líka auðveldara að grafa hana – það þarf sterkara signal til að skera í gegnum síbyljuna. Og sennilega hafa stóru rýmin sem leyfa sér að fara út fyrir almenna og saklausa afþreyingu þess vegna aldrei verið mikilvægari – hvort sem það er Bíó Paradís við Hverfisgötu eða sýningartímar á RÚV eða eitthvað annað. Íslensk heimildarmynd sem kemst á dagskrá hjá RÚV er til – um hana er rætt á twitter, á kaffistofum, til hennar taka ráðamenn afstöðu – en íslensk heimildarmynd sem fæst ekki sýnd á RÚV (einsog t.d. Ge9n eftir Hauk Má Helgason, sem fjallaði af miklu listfengi, dýpt og óþægilegri róttækni um níumenningamálið) er ekki til. Hún hefur verið grafin. Að þessum rýmum er alltaf sótt og tilvist þeirra er ekki sjálfsögð. Stundum er sótt að þeim af móralistum sem telja sig þess umkomna að fjarlægja alla óþægilega list úr almannarýminu svo hún skaði engan. Stundum af kapítalistum sem telja sig geta grætt meiri pening á að sýna eitthvað annað – eða selja eitthvað annað. Stundum af einhverjum öðrum. Ég hugsa að listabíó á RÚV eigi ekki marga dygga áhorfendur, gæti vel trúað að það „beri sig ekki“ og finnst ekkert sennilegra en að innan stofnunarinnar séu margir sem vildu helst bara kasta öllu slíku artífartí-drasli út í hafsauga – ekki síst þegar m.a.s. menntaða vinstraliðið er farið að biðjast undan „viðbjóðnum“. (Og ætla samt ekki að gera lítið úr því að innan RÚV starfar líka óhemja af menningarlæsu fólki – það er bara ekki endilega alltaf sama fólk og ræður mestu). Þá er ábyggilega einhver tilbúinn með niðurskurðarhnífinn – það má eiginlega bara bóka það. Í sjálfu sér kemur það mér ekkert á óvart að í heiminum séu harðir móralistar og umvöndunarfólk. Prestafrekjan er víða. En ég varð sannast sagna alveg miður mín þegar ég fór að forvitnast á Facebook og áttaði mig á því hversu mikinn stuðning þessi krafa hafði á bakvið sig – líka úr listakreðsum – og hversu lítið kikkbakkið við þessari fáránlega repúblíkönsku kröfu er. Ég á bara ekkert annað orð sem lýsir því en hræðilegt. Það er í alvöru hræðilegt ástand.

Flensuskýrsla

Ég skrifa lítið, les lítið og geri mest lítið. Í dag hef ég verið veikur í 14 daga samfleytt. 18 daga reyndar ef ég tel með fjögurra daga heyrnarleysi sem ég varð fyrir áður en ég veiktist. Á öðru eyra reyndar bara – það leystist með skolun á heilsugæslunni og ég gekk hress út til þess eins að hrynja niður í 39 stiga hita daginn eftir. Ég sem fer venjulega aldrei upp yfir 36,3 – ekki einu sinni þegar ég er veikur. Ég verð reyndar æ oftar veikur í seinni tíð, finnst mér, án þess ég hafi tekið það sérstaklega saman. Í þetta sinnið var það óvenju óverðuskuldað því ég tók allan janúarmánuð í hollustu og aðhald – borðaði ekkert nema heilsufæði, hreyfði mig daglega, snerti ekki áfengi eða tóbak, svaf vel og svo framvegis. Og þetta voru launin. Fyrst lagðist ég bara flatur. Þá kom að því að nærveru minnar var óskað í Jönköping – en þar er einmitt ground zero fyrir kórónaveiruna í Svíþjóð, ekki að það hafi verið þess vegna sem kallað var eftir mér, heldur til þess að sinna bókmenntunum. Ég ætlaði að blása þetta allt af og var búinn að skrifa skipuleggjandanum og segja henni að það væru nær engar líkur á að ég kæmi – bæði væri ég með flensu og svo væri spáin þannig að líklega yrði ekki flogið innanlands svo ég yrði þá að keyra suðureftir með háan hita. Sem væri af og frá, þetta myndi ég ekki leggja á mig, mér þætti það mjög leitt. Svo leit ég fyrir rælni á samninginn minn og sá að launin voru miklu hærri en gengur og gerist svo ég dró í land með allt saman – skítblankur og skuldugur – keyrði suður og flaug út eldsnemma morguninn eftir, tók síðan lestina til Jönköping og lá fárveikur í hótelrúminu mínu á milli gigga. Á heimleiðinni dópaði ég mig til þess að komast í Kiljuviðtal – heimkominn dópaði ég mig til að komast á þorrablót með konunni minni, sem hefur farið ein á þetta þorrablót síðustu árin vegna þess að ég er alltaf á einhverjum bókmenntahátíðum á þessum árstíma. Ég get varla sagt að ég hafi farið á alvöru þorrablót um ævina – fór í tíundabekk á svona æfingablót, einu sinni með íslendingafélaginu í Helsinki og svo á fusionblót með hrútspungapizzum og súkkulaðihúðuðu slátri og fleira hnossgæti sem endaði nú mest bara í ruslinu held ég. Maturinn í Hnífsdal á laugardaginn var nú samt bara góður – bæði klassíski þorramaturinn og svindlmaturinn (grafin gæs, hangikjöt og fleira nammi). Ekki skil ég hvað fólki finnst þetta „vont“ – spes, jújú, en þetta er einfaldlega ekki vont, það er bara einhver búraminnimáttarkennd. Ég var hins vegar búinn að éta rétt nógu mikið af verkjalyfjum – ofan í bjór, romm, brennivín, plómuvín og tekíla – til að vera bara svolítið einsog illa gerður hlutur megnið af ballinu. Ég dansaði örlítið, en ég er klaufi á dansgólfinu á góðum degi, og það var misgaman – í hlutfalli við það hversu miklu máli það skipti dansfélagann að þetta væri allt rétt gert. Svo lagðist ég aftur þunnur og lasinn á sunnudag – og fékk mikið af einhverjum svona „glætan þú sért lasinn“ kommentum sem mér fannst glötuð, búinn að harka þetta af mér í tíu daga. Lá aftur í gær. Í morgun fór svo ég á fætur – eða, þið vitið, klukkan 11 held ég. Át haug af verkjalyfjum, fór í sturtu, drakk Gatorade, fór í hrein föt, göngutúr. Ég er ennþá lasinn. Sennilega er ég bara að drepast. En ég nenni ekki að liggja lengur í rúminu. Þetta fer hrikalega með sjálfsvirðinguna. Ekki það að ég hafi gert neitt af viti – las ekkert, skrifaði ekkert (nema þetta). Jú, ég gekk frá skattamálum, skrifaði einn reikning og nokkra praktíska tölvupósta. Það er sennilega ágætt bara. Ef ég er ekki örendur á morgun get ég þá kannski byrjað aftur að þýða ljóð og jafnvel haldið áfram að smíða nýja gítarinn.

Nú verða sagðar fréttir

Jæja. Hvað er að frétta?!1. Ég er byrjaður að smíða nýjan gítar. Telecaster 72 Custom týpu. Sennilega fer það allt úrskeiðis!2. Ég fór suður og sótti Aram. Hann hefur verið í Ameríku í tvær vikur og tvo daga.3. Brúin yfir Tangagötuna ætti að koma með skipinu (brú með skipi?) nú um mánaðamótin. Eitthvað smávegis hefur verið rætt að taka upp hljóðbók fljótlega.4. En ég er upptekinn við ljóðaþýðingar flesta daga.5. Það er föstudagur. Það þýðir að það verður sennilega pizza í matinn.6. En ég er í aðhaldi. Reyni að éta ekkert óhollt, hreyfa mig daglega og snerti ekki brennivín eða tóbak.7. Aðfararnótt mánudags er ég boðinn í Superbowl sunday veislu. Þar mun bjórinn flæða og majonesið og allt milli himins og jarðar verða djúpsteikt. Sjá: 6. liður.8. Ég er með svo mikinn eyrnamerg í öðru eyranu að ég heyri ekkert frá vinstri. Ég hef prófað eyrnapinna og heitt vatn en það gerir lítið gagn.9. Ég er ekki stressaður yfir bókinni en ég er svolítið áhyggjufullur yfir ýmsu öðru í lífinu. Væntanlegum flutningum til Svíþjóðar ekki síst. Þar verðum við í ár frá september. Ég er orðinn svo hrikalega heimakær að ég ræð varla við tilhugsunina.10. Það eru almenn blankheit í lífinu líka. Bíllinn tók upp á að þurfa nýja kúplingu. Það setti mig svolítið á hliðina.11. Annars er voða fallegt veður. Sennilega verður gott að skíða næstu daga. Ég er reyndar ekki búinn að skoða spána. Kannski er þetta allt á leiðinni til andskotans.12. Hugsanlega eru áhyggjur minnar af „öðru“ bara tilfærsla á áhyggjum mínum vegna bókarinnar. Það hvarflar að mér. En það fer þó ekki á milli mála að mér hentar betur andlega að gefa út utan jólabókaflóðsins. Fjárhagslega er það sennilega óráð – hún verður ódýr kilja og seld á afslætti (undir þrjú þúsund, skilst mér) sem þýðir að ég fæ minna per selt eintak. Og svo seljast miklu færri bækur utan jólabókaflóðsins. En ég er samt vel að merkja hæstánægður með verðlagninguna – ég vil alls ekki að bækur séu munaðarvara.13. Í næstu viku fer ég til Svíþjóðar á bókmenntahátíð.

Að tárast í ókyrrðinni

Ég ætlaði að blogga eitthvað í gær. Sennilega er ég hættur menningardagbókinni í bili – lítið búinn að lesa reyndar en hef séð alls konar sjónvarp og bíó. Harry Potter, Grevinnan och betjenten, Ívar Hlújárn, Fright Night, Dolemite is My Name, Jo Jo Rabbitt, Marriage Story, skaup og krakkaskaup og Zombieland. Lesið Dimmumót Steinunnar og Deep Blues eftir Robert Palmer. En ég ætlaði að blogga eitthvað hversdagslegt. Eitthvað um morgunmatinn. Svo féllu þessi snjóflóð á Flateyri og í Súgandafirði og það er auðvitað allt annað en hversdagslegt. Og ég einn heima. Blessunarlega virðast snjóflóðavarnirnar hafa gert sitt gagn og enginn vera alvarlega meiddur þótt augljóslega séu margir hvekktir – og sumir áreiðanlega mjög hvekktir. Þetta var tráma fyrir allt svæðið 1995 og þau sár ýfast af minna tilefni en þessu. Í Brúnni yfir Tangagötu er einsog ég hef nefnt snjóþungt á einum kafla og þá berast snjóflóðin eðlilega í tal. Ef það snjóar mikið hérna berast snjóflóðin í tal – það er bara þannig, aldarfjórðungi síðar. Á morgun eru beinlínis 25 ár frá flóðinu í Súðavík. Upp á daginn. Ég held að hvort sem manni líkar betur eða verr þá séu snjóflóðin 1995 kjarnandi fyrir lífið á Vestfjörðum – í þeim skilningi að þau eru alltaf þarna, maður veit alltaf af þeim, þau eru grundvallarþáttur í lífinu. Ég segi ekki að maður sé í einhverjum viðstöðulausum kvíða alltaf þegar tekur að blása eða einu sinni þegar hengjur byrja að safnast fyrir í fjöllum. Því fer raunar fjarri. Þau bara eru þarna í kollinum á manni. Möguleikinn um hvað getur gerst. Og þessi möguleiki er öðruvísi fyrir en eftir, þegar maður man. Við vitum öll að það gæti orðið stór suðurlandsskjálfti eða mikið Heklugos – gosið í Heimaey varpar áreiðanlega svipuðum skugga í Vestmannaeyjum – og víðast hvar í heiminum er einhver sambærileg ógn. Stundum er hún félagsleg, stundum beinlínis hernaðarleg eða annars eðlis – hverju valda loftslagsbreytingar á endanum, hvað gerist ef efnahagurinn hrynur gersamlega og svo framvegis. Flóð, skógareldar, hungursneyð. Lífið er hættulegt og Vestfirðir eru ekki einstakt hamfarasvæði. En það er annað að vita þessa hluti í hausnum á sér en að finna fyrir þeim í taugaendunum – þessum væga seyðingi sem af og til blossar upp af því líkaminn kannast við þetta. Ég er ekki viss um að það sé verra – alls ekki. Dauðabeygnum fylgir nefnilega líka kærleikur – og lífsþrá, að vilja ekki fyrir neina muni sóa þessum mínútum sem maður lifir. En það sem er kannski skrítnast – sérstaklega á degi einsog í dag, nótt einsog í fyrrinótt – er hvað þessi kvíði er einmitt hversdagslegur alla jafna. Kvíði er meira að segja ofmælt – þetta er meira einsog maður veit að maður gæti dáið undir stýri og er alltaf meðvitaður um það en byrjar ekki að ofanda fyrren bíllinn skautar svolítið. Maður stígur pollrólegur upp í flugvélar en tárast svo í ókyrrðinni – eða bítur á jaxlinn en það kemur í sama stað niður. Á svona degi eru allir svolítið að kljást við kökkinn í hálsinum, ónotin í maganum. Ekki bara vegna þess sem gerist heldur vegna þess að maður man – og þetta gæti verið svo miklu verra. Mér sýnist ókyrrðin að mestu liðin hjá þótt við séum ekki lent. Það hefur loksins birt aðeins til – ég get ekki lýst því hvað var dimmt hérna áðan. Og ég sé glytta í bæði Erni og Eyrarfjall. Ég heyri í veðrinu en það brakar ekki lengur í húsinu. Í sjálfu sér getur verið allt annað veður í Önundar- Álfta- og Súgandafjörðum en vonandi gefur þetta tóninn fyrir næstu klukkustundir. Ég er þakklátur fyrir snjóflóðavarnirnar – einsog bílbeltin. Svo mega þessar lægðir aðeins fara að róa sig. Ég væri til í að fá Nödju og Aino heim – Aram kemur víst ekki alveg strax – og svo er orðið mjög tómlegt um að litast í Nettó og það væri gaman að geta farið á skíði í öllum þessum snjó.

Vort daglega brauð

Vantar mig ekki meira kaffi áður en ég fer að skrifa eitthvað? Augnablik. *** Komið. Ég er ennþá svona hægur. Veðrið er ennþá einsog það er. Aram er að fara til Bandaríkjanna á mánudag og Nadja og Aino ætla að fara með hann suður – sú yngri á þrjá miða á Matthildi en sú eldri gjafakort í lúxusnudd, hvorutveggja jólagjafir. En veðrið er einsog það er og ég er næstum farinn að halda að það fari enginn neitt. Það snjóar og snjóar og snjóar. Svona er þetta líka í bókinni minni – maður á aldrei að skrifa neitt sem maður vill ekki að gerist. Ég nefndi þetta við Nödju og mömmu í morgun – mamma kemur alltaf við og fylgir krökkunum þessa tvo metra sem eru í skólann – þær hafa báðar lesið bókina. Þá sneri Aino sér að mér og bað mig að skrifa sól og blíðu – og hún sagði það einsog þetta væri vísindalega sannað, að það sem ég skrifaði yrði satt, en ekki kæruleysisleg þvæla hálfvaknaðs mikilmennskubrjálæðings.

Venjuleg bloggfærsla af gamla skólanum

Í janúar í fyrra settist ég niður til að skrifa bók. Ég ákvað að skrifa bók án þess að velta  mikið fyrir mér hvert hún ætti að fara eða um hvað hún ætti að vera. Í stað þess að leggjast í ítarlega heimildarvinnu – einsog t.d. þegar ég skrifaði Hans Blæ eða Illsku – byrjaði ég bara að skrifa nánast í þeim sporum sem ég var. Karlmaður á mínum aldri – en ekki ég – sat við morgunverðarborðið á heimili mínu. Hann borðaði ekki morgunmatinn minn (ég fæ mér alltaf seríos) og það var ekki janúar. Hann var eirðarlaus og hafði lítið að gera og var dálítið skringilega þenkjandi, uppburðarlítill en með hugmyndir um veruleikann sem voru svolítið á reiki. Smám saman áttaði ég mig á því að ég hafði hitt þennan mann áður, skrifað hann áður, einu sinni var hann í bók sem heitir Eitur fyrir byrjendur. Svo fór ég í vinnuna dag eftir dag einsog maður gerir og sennilega kláraði ég fyrsta uppkast í mars. Annað uppkast í Hondúras í sumar. Sendi frá mér lokagerð einhvern tíma í lok nóvember. Í desember valdi ég kápu. Á föstudag las ég lokapróförk – lét breyta einu „í-i“ í „á“, það voru allar breytingarnar – og nú geri ég ekkert fyrren bókin kemur til landsins með skipi. Sennilega um miðjan febrúar. Líklega held ég ekki einu sinni útgáfuhóf fyrren um miðjan mars og ég er að hugsa um að halda jafnvel bara matarboð heima hjá mér í staðinn fyrir að standa í einhverju kokteilveseni. Á einhverjum tímapunkti hvarflaði reyndar að mér að stofna bara blúsband og halda tónleika í staðinn fyrir útgáfuhóf en það er að verða fullseint. Planið var síðan að byrja strax á næstu skáldsögu núna í janúar. Ég á fyrstu síðurnar að vísu tilbúnar. Ég skulda líka grein í Skírni. Er búinn með þriðjung úr strætóljóðabók. Á teikniborðinu er sömuleiðis safn ljóðaþýðinga – aðalvinnan þar væri að fara í gegnum lagerinn og velja – og þýðingar á völdum ljóðum eftir Gertrude Stein og Alfabet eftir Inger Christensen. Sem er meiri vinna – sérstaklega Inger, enda danskan mín bara rétt svo alltílagi (en ég er með alls konar þýðingar á önnur mál til samanburðar og hjálpar). Svo sit ég bara við tölvuna og gúgla gítarpikköppum, nestisboxum fyrir börnin og einhverju hollu til að hafa í kvöldmatinn. Ég hef áhyggjur af stríðinu í Írak og Íran. Kvótakerfinu. Yfirvofandi búferlaflutningum til Svíþjóðar næsta haust (tímabundið, í ár). Byggðamálum. Stari út í loftið. Ég hef lesið lítið og hægt síðustu vikur. Kláraði síðast bók um blúsinn. Byrjaði á þremur skáldsögum og leist og líst mjög vel á þær allar – en einni þurfti ég að skila á bókasafnið áður en ég komst langt í henni, annarri týndi ég innanhús um hríð og þriðju hef ég bara ekki haft eirð í mér til að lesa – af því söguheimurinn er svo sterkur. Ég bara sit hérna í mínum heimi, ídeósynkratískum heilanum á mér, og þoli illa að vera annars staðar, ekki beinlínis leiður en mjög, mjög hægur.