Vort daglega brauð

Vantar mig ekki meira kaffi áður en ég fer að skrifa eitthvað? Augnablik. *** Komið. Ég er ennþá svona hægur. Veðrið er ennþá einsog það er. Aram er að fara til Bandaríkjanna á mánudag og Nadja og Aino ætla að fara með hann suður – sú yngri á þrjá miða á Matthildi en sú eldri gjafakort í lúxusnudd, hvorutveggja jólagjafir. En veðrið er einsog það er og ég er næstum farinn að halda að það fari enginn neitt. Það snjóar og snjóar og snjóar. Svona er þetta líka í bókinni minni – maður á aldrei að skrifa neitt sem maður vill ekki að gerist. Ég nefndi þetta við Nödju og mömmu í morgun – mamma kemur alltaf við og fylgir krökkunum þessa tvo metra sem eru í skólann – þær hafa báðar lesið bókina. Þá sneri Aino sér að mér og bað mig að skrifa sól og blíðu – og hún sagði það einsog þetta væri vísindalega sannað, að það sem ég skrifaði yrði satt, en ekki kæruleysisleg þvæla hálfvaknaðs mikilmennskubrjálæðings.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *