Að tárast í ókyrrðinni

Ég ætlaði að blogga eitthvað í gær. Sennilega er ég hættur menningardagbókinni í bili – lítið búinn að lesa reyndar en hef séð alls konar sjónvarp og bíó. Harry Potter, Grevinnan och betjenten, Ívar Hlújárn, Fright Night, Dolemite is My Name, Jo Jo Rabbitt, Marriage Story, skaup og krakkaskaup og Zombieland. Lesið Dimmumót Steinunnar og Deep Blues eftir Robert Palmer. En ég ætlaði að blogga eitthvað hversdagslegt. Eitthvað um morgunmatinn. Svo féllu þessi snjóflóð á Flateyri og í Súgandafirði og það er auðvitað allt annað en hversdagslegt. Og ég einn heima. Blessunarlega virðast snjóflóðavarnirnar hafa gert sitt gagn og enginn vera alvarlega meiddur þótt augljóslega séu margir hvekktir – og sumir áreiðanlega mjög hvekktir. Þetta var tráma fyrir allt svæðið 1995 og þau sár ýfast af minna tilefni en þessu. Í Brúnni yfir Tangagötu er einsog ég hef nefnt snjóþungt á einum kafla og þá berast snjóflóðin eðlilega í tal. Ef það snjóar mikið hérna berast snjóflóðin í tal – það er bara þannig, aldarfjórðungi síðar. Á morgun eru beinlínis 25 ár frá flóðinu í Súðavík. Upp á daginn. Ég held að hvort sem manni líkar betur eða verr þá séu snjóflóðin 1995 kjarnandi fyrir lífið á Vestfjörðum – í þeim skilningi að þau eru alltaf þarna, maður veit alltaf af þeim, þau eru grundvallarþáttur í lífinu. Ég segi ekki að maður sé í einhverjum viðstöðulausum kvíða alltaf þegar tekur að blása eða einu sinni þegar hengjur byrja að safnast fyrir í fjöllum. Því fer raunar fjarri. Þau bara eru þarna í kollinum á manni. Möguleikinn um hvað getur gerst. Og þessi möguleiki er öðruvísi fyrir en eftir, þegar maður man. Við vitum öll að það gæti orðið stór suðurlandsskjálfti eða mikið Heklugos – gosið í Heimaey varpar áreiðanlega svipuðum skugga í Vestmannaeyjum – og víðast hvar í heiminum er einhver sambærileg ógn. Stundum er hún félagsleg, stundum beinlínis hernaðarleg eða annars eðlis – hverju valda loftslagsbreytingar á endanum, hvað gerist ef efnahagurinn hrynur gersamlega og svo framvegis. Flóð, skógareldar, hungursneyð. Lífið er hættulegt og Vestfirðir eru ekki einstakt hamfarasvæði. En það er annað að vita þessa hluti í hausnum á sér en að finna fyrir þeim í taugaendunum – þessum væga seyðingi sem af og til blossar upp af því líkaminn kannast við þetta. Ég er ekki viss um að það sé verra – alls ekki. Dauðabeygnum fylgir nefnilega líka kærleikur – og lífsþrá, að vilja ekki fyrir neina muni sóa þessum mínútum sem maður lifir. En það sem er kannski skrítnast – sérstaklega á degi einsog í dag, nótt einsog í fyrrinótt – er hvað þessi kvíði er einmitt hversdagslegur alla jafna. Kvíði er meira að segja ofmælt – þetta er meira einsog maður veit að maður gæti dáið undir stýri og er alltaf meðvitaður um það en byrjar ekki að ofanda fyrren bíllinn skautar svolítið. Maður stígur pollrólegur upp í flugvélar en tárast svo í ókyrrðinni – eða bítur á jaxlinn en það kemur í sama stað niður. Á svona degi eru allir svolítið að kljást við kökkinn í hálsinum, ónotin í maganum. Ekki bara vegna þess sem gerist heldur vegna þess að maður man – og þetta gæti verið svo miklu verra. Mér sýnist ókyrrðin að mestu liðin hjá þótt við séum ekki lent. Það hefur loksins birt aðeins til – ég get ekki lýst því hvað var dimmt hérna áðan. Og ég sé glytta í bæði Erni og Eyrarfjall. Ég heyri í veðrinu en það brakar ekki lengur í húsinu. Í sjálfu sér getur verið allt annað veður í Önundar- Álfta- og Súgandafjörðum en vonandi gefur þetta tóninn fyrir næstu klukkustundir. Ég er þakklátur fyrir snjóflóðavarnirnar – einsog bílbeltin. Svo mega þessar lægðir aðeins fara að róa sig. Ég væri til í að fá Nödju og Aino heim – Aram kemur víst ekki alveg strax – og svo er orðið mjög tómlegt um að litast í Nettó og það væri gaman að geta farið á skíði í öllum þessum snjó.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *