Untitled

Grænmetisætan er farin úr bænum og því ætla ég að borða lambakjöt alla daga þar til hún kemur aftur. Eða allavega eitthvað kjöt. Búinn að lofa sjálfum mér köfte og hugsanlega kebab og í kvöld verður eldað upp úr blogginu hennar Nönnu – hakk og halloumi . Svo langar mig í eitthvað langeldað marokkóskt. Við erum bara tveir í kotinu, feðgarnir, en ég slepp samt sennilega ekki við að gera pizzu á morgun. Lambapizza? Það verður allavega kjöt á minni. *** Annars ekkert að frétta. Kláraði Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos – það verður eitthvað um hana á Starafugli fljótlega. Var líka hafarí bakvið tjöldin á fuglinum í dag, meiðyrði, kæruhótanir, fjölmiðlar, andaskytterí, you name it. Það er ólíkt meiri hasar í ritstjórahluta lífs míns en rithöfundahluta lífs míns. Eða allavega ólíkt meira hrópandi hasar. Hans Blær (skáldsagan) er á góðum rekspöl og ef fer sem horfir akkúrat núna kemur hún næsta haust. Hans Blær (leikritið) verður frumsýnt strax í byrjun mars, held ég. En þetta fer nú líka eftir því hvernig ýmislegt annað spilast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *