Í gær sló ég orðinu hér að ofan upp á Tímarit.is (einhverjir myndu segja að erindi mitt hafi verið viðskiptalegs eðlis) og rakst á grein eftir Guðrúnu Helgadóttur í Þjóðviljanum, 2. desember 1964, sem heitir „Nokkur orð um góða bók og vondar bækur“. Einsog vænta mátti af Guðrúnu var þetta tæpitungulaus grein. Hefst hún á því að hún segist hafa nýlesið bók Hannesar Péturssonar um Steingrím Thorsteinsson, sem hún hafi hrifist mjög af. Svo heldur hún áfram:
Eftir að ég las þessa bók, hefur sú hugsun orðið æ áleitnari við mig, hvort það væri ekki mikil blessun menningu okkar […] ef færri bækur kæmu út á Íslandi en nú gerist. Væri það ekki stórkostlegur menningarauki, ef bókaútgáfa Íslendinga drægist saman um helming, en þær bækur sem út væri gefnar, hefðu eitthvert menningarlegt gildi? Það er ekki vafi á því, að bókaflóð það, sem nú æðir yfir þjóðina, er að eyðileggja allan lestur í landinu. […] Við hrósum okkur af mörgu, og m.a. af því að við séum heimsins mesta bókaþjóð. Það getur satt verið, þó að ég viti það ekki með vissu, að meira sé gefið út af bókum á Íslandi miðað við höfðatölu en í öðrum löndum, en hitt er jafnvíst, að það er meira gefið út af ómerkilegu rusli á Íslandi en annars staðar. Og því miður er raunin sú, að góðar bækur týnast og gleymast í öllu ruslinu. Getur hver maður gert sér það ómak að líta yfir „jóla“-bókalistann í ár. Er nú svo komið, að svo virðist sem hver sá, sem lætur flæða úr penna sínum, komi því á almennan markað. Er ekki kominn tími til að stöðva þessi ósköp? Svo langt hefur ósvífni þessara höfunda gengið, að húsmæður bæjarins setjast niður, rissa upp hundruð blaðsíðna af ómerkilegu og heimskulegu þvaðri og lýsa því síðan yfir í viðtölum við blaðamenn, að þær hafi vantað peninga fyrir eldhúsinnréttingu. Og þetta vill bókaþjóðin lesa. Til þess að enginn þurfi hér að geta í eyðurnar, á ég hér við bækur Ingibjargar Jónsdóttur, og þetta mega einnig taka til sín Magnea frá Kleifum, Guðrún A. Jónsdóttir og fleiri slíkir höfundar. Þá mætti og minnast á ævisagnaskrifin um menn, sem fátt eitt hafa gert sér til ágætis annað en að sanka að sér fé, já, jafnvel sýna atorku við að drekka brennivín (Jón Kristófer) og jafnvel selja það. Verst er, að höfundar, sem áður höfðu skrifað eitthvað einhvers virði, hafa lagt sig niður við að semja slík verk, annaðhvort af andlegu gjaldþroti eða peningaskorti.
Greinin er lengri. Og orðið „pervert“ kemur ekki fyrir strax – það birtist ekki fyrren Guðrún fer að biðja um betur skrifað klám.
Verandi áhugamaður um hispursleysi fannst mér þetta skemmtilegt aflestrar – þótt ég þekki ekki höfundana sem Guðrúnu er svo uppsigað við. Stutt innlit á skáld.is segir mér að Magnea hafi þarna bara skrifað tvær bækur og að Ingibjörg Jónsdóttir hafi verið með fyrstu höfundum til að skrifa vísindaskáldskap – en báðar virðast þær fyrst og fremst hafa fengist við ástarsögur fram til þessa. Ingibjörg segist í viðtali í Fálkanum sama ár alls ekki vera rithöfundur.
Rithöfundar skrifa góðar bækur, sem þeir ganga með tímunum saman, en það geri ég ekki. Ég skrifa heldur ekki góðar bækur. Ég skrifa bækur sem fólkið styttir sér stundir við að lesa, og það kaupir þær. Hvers vegna veit ég ekki, en það er ekki vegna þess að þær séu vel skrifaðar.
Ekki veit ég hvað Jón Kristófer skrifaði – um hann skrifaði Steinn Steinarr frægt ljóð – en það er erfitt að grafast fyrir um hitt af því hann hét ekki Jón Kristófer (og ekki Kadett heldur) heldur Jón Sigurðsson og Leitir kannast ekki við neinar bækur eftir Jón Sigurðsson fæddan 1912. Og á skáld.is er einungis haldin skrá yfir konur sem hafa skrifað.
Það vill til að í þessum sama Þjóðvilja er greinarstúfur um bóksölu í borginni og blaðamaður hringir í nokkrar bókaverslanir til þess að spyrja hvað sé söluhæst og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé „tvístirnið“ Guðrún frá Lundi, með bókina Hvikul er konuást, og Thorolf Smith, sem hafði þá gefið út bók um John F. Kennedy. Þá mun líka vinsæl bók sem er skrifuð upp úr sjónvarpsþáttunum The Untouchables – en þeir eru að gera allt vitlaust í kanasjónvarpinu. Þessar bækur nefnir Guðrún vel að merkja ekki.
Það er áhugaverð hugmynd sem ég heyri alltaf af og til að íslenskum bókmenntum færi betur að ´út kæmu færri bækur. Mér finnst nota bene líklegt að árið 1964 hafi komið út miklu færri bækur en árið 2024. Og mér finnst líklegt að fólk hafi lesið meira. Í dag er samt miklu algengara viðhorf að fleiri titlar myndu auka lestur – sérstaklega þegar litið er til barnabóka. Bækur eiga að höfða til ólíkra einstaklinga og á öld einstaklingshyggjunnar erum við öll svo ólík að það þyrfti kannski einn titil ´a mann. Eða fimmtíu á mann á ári svo maður verði aldrei uppiskroppa. Þetta gæti gervigreindin áreiðanlega gert. Klæðskerasniðnar bækur.
Þegar fólk biður um færri bækur er það gjarnan ákall til útgefenda og í einhverjum skilningi ákall um að ritstjórum sé hlíft við því að ritstýra 40 bókum á ári (eða hvað það er sem þeir er ætlað að afkasta). Að hver bók verði alvöru prójekt og öllu kostað til að hún verði eins fullkomin og frekast er unnt – frekar en að hún sé bara jafn fullkomin og við höfum tíma og fjárráð til að þessu sinni.
Svo er auðvitað augljóst af strúktúrnum í kringum listamannalaunin að höfundar eru verðlaunaðir fyrir að halda áfram að framleiða. Markaðurinn – bæði metsölumarkaðurinn og sá sem greiðir fyrst og fremst út í menningarauðmagni – gleymir höfundum á augnabliki, jarðsetur bækurnar hverja á fætur annarri allt jólabókaflóðið og urðar svo restina í kyrrþey í janúar. Gleymdur höfundur fær ekki listamannalaun og getur fátt annað gert til að minna á sig en að pósta einhverju deilanlegu (frekar en umdeilanlegu) á Facebook.
En auðvitað er ekkert sem segir að bækur batni alltaf við meiri vinnslutíma – þær geta allt eins versnað, orðið kreistnar eða tilgerðarlegar og bólgnað út eða verið skornar óhóflega niður. Eða að höfundar sem gefi út eina bók á áratug skili betra verki en þeir sem rusla út einni – eða tveimur! – á ári. Þetta er bara alls konar.
Hins vegar bergmála gjarnan í mér hugmyndir Wills Self um að skáldsagan hafi dáið þegar fólk hætti að snobba fyrir henni – þegar hún hætti að vera heilög og varð einsog hver önnur neysluvara, hvert annað smjörlíki. Að mikilvægi hennar hafi líka verið performatíft – hún hafi skipt máli vegna þess að við leyfðum henni að skipta máli. Og að hún hafi einungis „dáið“ útávið – og orðið að sérhæfu hobbíi frekar en einhverju sem átti almennt erindi. Hann átti sumsé ekki við að skáldsögur 21. aldarinnar væru verri bækur, bara að þær hefðu lítið erindi – og á 21. öldinni læsi enginn eldri bækur heldur. Self orðaði það einhvern veginn þannig að þegar fólk sem vildi telja sig yfir meðalgreind væri hætt að ljúga því til að það hefði lesið klassíkina og það sem var helst á döfinni – eða að lágmarki að það stæði til – og farið að yppta bara öxlum og segja „ég les nú alltof lítið“ – hafi slagurinn verið tapaður. Kannski ljúgum við öðru í dag af því okkur finnst aðrir hlutir skipta máli.
Og það sem pistill Guðrúnar segir mér – alveg burtséð frá gæðum eða gæðaleysi þeirra bóka sem hún úthúðar – er að bækur skiptu máli. Ekki bara hana sjálfa heldur samfélagið. Henni finnst samfélagið vonlaust ef góðar bækur njóta ekki sannmælis og finna lesendur, og henni finnst það enn vonlausara ef vondar bækur verða ráðandi á náttborðum landsmanna. Sjálfsagt hefur rignt yfir hana athugasemdum um óþarfa grimmd og kvenfyrirlitningu (à la „konur eru konum verstar“) og fordóma gagnvart ástarsögugrein bókmenntanna – í athugasemdakerfi Þjóðviljans, ef ekki á götum úti, ég reikna með því að fólk hafi verið jafn viðkvæmt árið 1964 – en hún hefur látið sig hafa það af því henni þótti þetta skipta máli. Og það, umfram allt annað, er eftirbreytni vert.