Slátrun ársins

Í Svíþjóð eru veitt verðlaun fyrir slátrun ársins. Årets sågning. Sá bókmenntagagnrýnandi sem þykir hafa gengið hreinlegast til verks, svo að segja, fær verðlaun. Gyllta sög, skilst mér. Í Svíþjóð slátra gagnrýnendur ekki heldur saga.

Að þessum verðlaunum stendur hlaðvarpið Gästabudet – þær Mikaela Blomquist og Lyra Ekström – en með þeim í dómnefnd situr rithöfundurinn Agri Ismaïl. Verðlaunin voru fyrst veitt í fyrra. Þá fékk Anders Mortensen verðlaunin fyrir sögun sína á ævisögu Jespers Högström um skáldið Gunnar Ekelöf. Vel að merkja mun Mortensen þessi sjálfur vera með bók í smíðum um Ekelöf. Í ár var það svo Gunilla Kindstrand sem fékk verðlaunin fyrir sína sögun á sjálfsævisögulegri skáldsögu/ritgerð Daniels Sjölin, Fältskärsv. Sú fjallar meðal annars um misnotkun sem höfundur/sögumaður/báðir verður fyrir sem barn – af hendi annars barns (sem bæði eru á forskólaaldri, ef mér skjátlast ekki). Ég hef ekki lesið þá gagnrýni – hún er handan gjaldmúrs – og ekki heldur bókina svo sennilega ætti ég ekki að hafa mörg orð um hana. Auk þess kannast ég lítillega við Sjölin sem ég kann vel við og það sem ég hef lesið eftir hann finnst mér gott.

Til verðlaunanna var stofnað til þess að auka á umræðuna og Daniel tók því boði og hefur meðal annars gagnrýnt að svo virðist sem aðstandendur Gästabudet hlaðvarpsins lesi ekki bækurnar sem eru til umfjöllunar, heldur bara gagnrýnina – og þetta vill hann meina (í grein í Expressen) að sé almennt mein í sænskri bókmenntaumræðu og vísar sérstaklega til greinar sem Blomquist birti í október þar sem hún biður um „värdelös litteratur“ – altso bókmenntir sem hafa ekkert gildi, eru ekki baráttutól eða sálfræðileg útrás, í stað bóka einsog Fältskärsv og fleiri. Þá spyr hún sig hvers vegna engin setji spurningamerki við það hvort 4-5 ára gamalt barn sé einu sinni fært um kynferðisofbeldi.

En já. Almennt mein, segir Sjölin. Hann segir álitsgjafa eftir álitsgjafa mæta fullyrðingaglaðan á vígvöllinn til að segja skáldsögur/ fagbækur/ ljóðabækur vera rusl, meira og minna, en ráði svo ekki við að benda á eitt einasta dæmi (annað en Guðrún Helgadóttir í pistlinum sem vitnað var til í síðustu færslu).

Það vill til að sænsk bókmenntafjölmiðlun verðlaunar upphrópanir – og oft verður úr því heilmikið og skemmtilegt húllumhæ svo menningarumfjöllunin endar á forsíðum. Ég man t.d. eftir umfjöllun um nýjar Danteþýðingar sem voru margsinnis á forsíðu annað hvort Expressen eða Aftonbladet. Ef maður vill vera fullyrðingaglaður er leiðin inn í kastljós menningarsíðnanna greið.

Mikaela Blomquist svaraði auðvitað Sjölin og sagði það alls ekki satt að hún læsi ekki bækurnar sem hún fjallaði um – hún hefði bara alls ekki verið að fjalla um bókina hans heldur það tilfinningaþrungna tungutak sem var notað til að lýsa henni. Ég held að þar séu þau Daniel ekki ósammála um neina eiginlega staðreynd – Daniel finnst bók sín vera til umfjöllunar þegar gagnrýni um hana er til umfjöllunar, en Mikaelu finnst það ekki.

Ég veit ekki hvort „årets sågning“ á sér fyrirmynd í breskum verðlaunum sem kölluðust „hatchet job of the year“ – á ensku er hvorki sagað né slátrað, heldur unnið með öxi. Að þessum verðlaunum stóð síðan Omnivore. Hvað sem fyrirmyndum líður tala þær stöllur í Gästabudet meira um mikilvægi þess að upphefja vitræna bókmenntaumræðu en að þær fagni eigin þórðargleði – alæturnar með axirnar voru agressífari og vildu „hvassa, fyndna og heiftúðuga texta“ (sú tegund af kvikindislegri gagnrýni er auðvitað þjóðarsport í Bretlandi, mörgum til ama en öðrum til gamans). Bresku verðlaunin voru skammlíf, einungis afhent þrisvar sinnum á árunum 2012 – 2014, og eitthvað segir mér að þetta verði ekki mikið langlífara prójekt í Svíþjóð.

Mér finnst sjálfum áhugavert að á sama tíma og Gästabudet verðlaunar neikvæða gagnrýni gera þær sér far um að hæðast að óþarflega (að þeirra mati) jákvæðri gagnrýni. Kannski vegna þess að sjálfum finnst mér volga gagnrýnin leiðinlegust – sú ástríðulausa sem felur fagurfræði sína jafnvel á bakvið uppgerðarhlutleysi og ver sig þannig fyrir öllum fagurfræðilegum debatt: þetta er ekki fagurfræðilegt mat, þetta er hámenntuð úttekt á faktískum eiginleikum. Ég vil miklu heldur öfgarnar – og endilega að fólk svari gagnrýni hástöfum (ef ekki aðrir gagnrýnendur eða almennir lesendur, þá bara höfundarnir sjálfir).

En þegar ég hugsa út í það gef ég sjálfur næstum öllum bókum 3-4 stjörnur á Goodreads – og nánast aldrei svara ég gagnrýnendum mínum – svo ég er kannski ekki sjálfum mér samkvæmur. En líklega er ég líka lunkinn við að sjá fyrir hvað mér finnist gaman að lesa – og niðurstaðan væri áreiðanlega önnur ef ég fengi eitthvert slembival í hendurnar.

Skildu eftir svar