Ég fékk senda bók í síðustu viku. Hún heitir Páfagaukagarðurinn og er eftir höfund sem kallar sig „Akörn“. Hún virðist hafa verið send eitthvað aðeins hingað og þangað og svo sá ég á Facebook að bókabúðin Skálda hefur fengið eitt eintak sem á að selja á 30 þúsund krónur – hún birtist bara þar og þetta var sett sem skilyrði. Ágóðinn fer til búðarinnar. Ég er búinn að lesa þessa bók – hún er ekki nema 100 síður – og hún er mikið afbragð. Svolítið einsog ef Cesar Aira myndi vinna með Yrsu að James Bond mynd. Eða ef Yrsa myndi skrifa handrit að James Bond mynd sem Cesar Aira væri látinn skrifa upp eftir minni. Eða jafnvel án þess að hafa séð myndina. Honum væri bara gert að ímynda sér þetta: Hvernig myndi James Bond mynd vera ef Yrsa skrifaði hana. Með cli-fi þema.
Mitt eintak er ekki til sölu.
***
Skólastjóri fyrir austan notaði gervigreindina til að skrifa fyrir sig útskriftarræðuna. Gervigreindin fann fyrir hana ljóð – greip sennilega það sem hendi var næst, sem var nafn digitalskáldsins Jóns Arnar Loðmfjarðar og einhver random lína um að vera næs. Þetta minnti mig á þegar forsetinn vitnaði í lokalínur Sumardagsins eftir Mary Oliver og sneri eiginlega merkingu þeirra á hvolf – sem fólk gerir reyndar, þessar línur eru í tilvitnanabókum – „Segðu mér, hvað ætlar þú að gera / við þitt eina, villta og verðmæta líf“ – og fólk tekur þeim sem „hvatningu“ þótt þær séu það augljóslega ekki í samhenginu. Í stað þess að fara í tilvitnanabækurnar fer fólk núna bara til gervigreindarinnar. Ég veit ekki hvort það er neitt verra. En mér finnst mjög fyndið að skólastjóri viðhafi vinnubrögð sem myndu kosta nemendur fall (sem er ekki að „nota“ gervigreindina – heldur að treysta henni blint og láta hana gabba sig).
Annars verður þetta vonandi til þess að fólk lesi ljóðin hans Lomma.
***
Það er Náttúrulögmálavika. Í dag er 11. júní, síðasti dagur Náttúrulögmálanna – dagur 7. Það er lengsti dagurinn í bókinni – honum er meira að segja skipt í tvennt. Í ár eru liðin akkúrat 100 ár frá sumrinu 1925. Af því tilefni fór ég upp á Gleiðarhjalla í gær. Sennilega í fjórða skiptið á ævinni – í eitt skiptið fór ég reyndar ekki alveg alla leið upp, lenti í ógöngum í ís og skrönglaðist aftur niður. Það er líka í eina skiptið sem ég hef ekki farið einn. Þá var ég í menntaskóla. Í næsta skipti þar á eftir fór ég á strigaskónum beint eftir vinnu í grunnskólanum – það var líka í snjó en í það skiptið komst ég upp og settist niður í klakann og skrifaði bréf. Og gekk svo aftur niður. Næst var líklega 2013, að sumri til, loksins. Ég ætlaði að fara meðan ég var að skrifa Náttúrulögmálin en fyrst sleit ég í mér krossband og svo eyddi ég heilu sumri með slæman hælspora og svo var bókin bara komin út.
Ég hef alltaf lent í ógöngum á leiðinni þarna upp, ef mig misminnir ekki. Í gær var ég kominn hálfa leiðina upp bratt moldarbarð/grjóturð þegar ég uppgötvaði að ég var hvorki með fótstöðu né grip neinsstaðar. Ég ofandaði svolítið þegar ég áttaði mig á því að ef ég færi að renna af stað myndi ég sennilega ekki stoppa neitt strax – og minnti mig svo á að það vitlausasta sem ég gæti gert væri að panikka. Stikaði síðan varlega niður aftur og fór upp í stórgrýtinu – sem er langskynsamlegast. Ég hafði dálitlar áhyggjur af niðurleiðinni en rataði miklu betri leið þá. Svo sér maður líka betur til þegar maður fer niður. Einhvern veginn er maður alltaf hálfblindur að klöngrast upp svona brattar brekkur. Í eitt skiptið fór ég upp vitlausa urð sem leiðir að ókleifu bjargi.
En þetta var gaman og fólk sem fer oftar en ég ratar léttari leiðir. Ég las aðeins úr bókinni og setti á samfélagsmiðla en aðaltilgangurinn var að taka upp smá kynningarmyndband fyrir sænska bókasafnsverði. Útgefandinn bað mig um þetta. Hann er mikill vinur minn og ég geri allt sem hann biður mig um.
***
Ég hef lítið lesið í vikunni. Annað en Páfagaukagarðinn. Nadja fór til Frakklands í síðustu viku og ég hef verið að vesenast alls konar. Í dag bar ég á pallinn og garðhúsgögnin. Á helginni reif ég upp ógurlegt hlass af kerfli, felldi eitt tré og hjó þriðjung af greinum annars. Garðurinn er allur annar á eftir. Svo hef ég verið að reyna að vinna en það er svolítið erfitt. Ég fer í sumarfrí í næstu viku og ég veit ég næ ekki að klára það sem ég er að reyna að gera og einhvern veginn verður það alveg til að stoppa mig af. Ég sest samt niður og reyni.
Eitthvað hef ég þó verið að líta í Kýklópinn – sem er næsti kafli Ulysses. Og horfa á bíómyndir. Fór á nýju Wes Anderson myndina í fyrrakvöld – The Phoenician Scheme – einsog með síðustu, Asteroid City, þá hefur henni víst ekkert verið alltof vel tekið en báðar þóttu mér afbragð. Ekki veit ég hvað það er sem fólk er ekki að sjá. En eitthvað er það. Kannski finnst fólki bara að það þurfi að skilja alla hluti – það finnst mér ekki. Mér getur alveg þótt gaman að lesa aftur og horfa aftur og skilja meira. En það truflar mig ekki neitt þótt eitthvað sé bara óskiljanlegt. Þannig er það líka í lífinu. Það er mjög margt sem ég skil ekki.
Í gærkvöldi horfði ég á American Beauty og spurði sjálfan mig hvort Kevin Spacey hefði verið svona góður í öllu sem hann gerði. Eða hvort mér þætti hann bara svona svakalegur af því það er auka-spenna í kringum hann út af skandölum einkalífsins. Einsog eitthvað undarlegt krydd. Hann er allavega alveg rosalegur í þessari mynd. Maður hefur í senn enga og alla samúð með honum – allt í botni og allt á botninum, dásamlegi aumingi, frjálsi sjálfhverfusjúklingur, hvataþræll úr böndum, skemmtilegasti og leiðinlegasti maðurinn í öllum samkvæmum.
Og svo af því ég var ekki kominn með nóg af miðaldra körlum sem þrá menntaskólastelpur sem þrá þá á móti horfði ég 25th hour. Þar er sá þráður reyndar ekki í fókus – Anna Paquin að reyna við ó-til-misviljugan Philip Seymour Hoffmann bara hliðarspor í sögunni um eiturlyfjasalann sem er á leiðinni í fangelsi. Það eru til margar kvikmyndir sem fjalla um eiturlyfjasala sem enda á því að eiturlyfjasalinn næst. Og það er til hellingur af myndum sem gerast í fangelsi. En það eru fáar sem gerast í bilinu þarna á milli – frá því hann næst og er dæmdur og þar til hann fer inn. Þetta er svona kveðjumynd – maður að yfirgefa líf sitt. Og kannski er hliðarsporið með Önnu og PSH önnur leið til þess að sýna okkur hversu lítið skilur að feigan og ófeigan – ef hann lætur freistast gæti hann glatað öllu einsog vinur hans. Þriðji vinurinn er svo hlutabréfasali sem manni finnst eiginlega alveg jafn mikið eyðileggingarafl – en hann er líka sá sem dæmir eiturlyfjasalann harðast. Þar er líka áhugaverð speglun.
***
Ég fór á frábæra djasstónleika í Hömrum á sunnudag. Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson fór þar fyrir sveit sem innihélt Inga Bjarna Skúlason á píanó, Hauk Gröndal á klarinett, Magnús Tryggvason Eliasen á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á oud. Ég keypti plötu og sá eftir því einu að hafa ekki keypt tvær en ég var búinn að bjóða tveimur með mér og þetta var að verða svolítið dýrt.
***
Enn eitt árið missti ég af Skjaldborg. Sennilega hefði ég farið a.m.k. einn dag ef Nadja hefði farið fyrir helgi – en hún fór á laugardag og hefði ekki komist með mér og það hefði verið glatað að fara frá henni. Hvernig ætli fari annars fyrir Blús milli fjalls og fjöru – það er hátíð sem ég hef heldur aldrei komist á. Maðurinn á bakvið hana hét Palli – Spursari sem ég fór í nokkrar fótboltaferðir með, á meðan við pabbi vorum enn að láta sjá okkur í London af og til – og hann varð bráðkvaddur um daginn.
***
Orri Harðar er líka látinn. Orri var mikill öðlingur einsog ég held að allir sem hann þekktu geti borið vitni um. Og hafi gert, bæði síðustu daga og þennan tíma sem hann hefur verið veikur. Ég þekkti Orra mest úr fjarlægð. Hann bað mig að lesa yfir fyrir sig bækur – fyrst Alkasamfélagið og svo skáldsögurnar tvær, Stundarfró og Endurfundi. Mér fannst hann alltaðþví roskinn þá – eldri maður að söðla um. Hann var 36 ára þegar Alkasamfélagið kom út, ekki nema 6 árum eldri en ég.
Svo hitti ég hann stundum á förnum vegi. Fyrst fullan og svo edrú og svo aftur fullan og loks bara edrú í mörg ár. Þegar ég gaf út lag í tengslum við Frankensleiki fékk ég hann til að mastera það fyrir mig – sem hann gerði án þess að rukka krónu fyrir, vel að merkja, bara vessgú góði vin, takk fyrir og gúdd lökk.
***
Í sömu viku fóru Sly Stone og Brian Wilson. Þeir voru svo sem komnir á tíma – þrjátíu árum eldri en Orri. En það má minnast þeirra fyrir því.