Einsog það er nú rómantískt að vera sveltandi listamaður þá er satt best að segja óþolandi að vera blankur. Og óþolandi að horfa á tekjustofna sína þorna upp og óþolandi að þurfa að nota ömurleg orð einsog „tekjustofnar“ til þess að tjá gremju sína. Óþolandi að hugsa um tekjustofna.
Ég fæ greitt fyrir bóksölu – sem er hverfandi, einsog allir vita, það les andskotans enginn neitt lengur. Og til þess að einhverju muni um tekjur af bóksölu þarf eiginlega að gefa út metsölubók á hverju einasta ári. Á 25 árum hef ég gefið út tvær slíkar og kannski gef ég aldrei út aðra.
Ég fæ greitt fyrir lán af bókasöfnum – bókasafnssjóður (og þar með tekjur mínar af þessum útlánum) hefur dregist saman um 45% frá 2021. Nú næ ég ekki 100 kalli fyrir hvert útlán – sem þýðir að „díllinn“ er næstum verri en Storytel-díllinn. En díllinn við bókasafnssjóð er enginn díll – fjármálaráðherra ákveður bara með pennastriki hvað hann nennir að borga okkur á hverju ári.
Ég fæ (stundum) greitt fyrir upplestur. En oftast ekki og oftast þegar ég fæ greitt er það langt undir taxta. Og ég fæ gjarnan líka að borga ferðalög og gistingu úr eigin vasa – a.m.k. ef það er innanlands og 100% ef það er til höfuðborgarinnar sem ég þarf að fara.
Greiðslur fyrir greinarskrif eru svo til ALLTAF langt, langt, langt, langt, langt undir taxta – sama gildir um greiðslur fyrir smásögur eða ljóð.
Ég fæ listamannalaun – sem voru víst einhvern tíma miðuð við lektorslaun en eru nú, eftir kostnað, lægri en lágmarksnámslán. (Já, lágmarks-námslán). Og restin – sem á að bólstra þetta upp í bærilegar tekjur fyrir mann sem langar að láta einsog hann tilheyri millistéttinni – er eiginlega ekki að verða að neinu. Listamannalaun eru svo ákveðin einu sinni á ári – og ef maður fær þau ekki er þetta ekki gerlegt nema maður eigi hátekjumaka eða einhvern annan að sem getur gert mann út. Sem ég á ekki.
Nú hljómar þetta kannski einsog mér gangi illa. En það er nú það sem er svo undarlegt við þetta allt saman. Í samanburði við langflesta kollega mína gengur mér nefnilega VEL.
***
Ég bið alla nema valdið velvirðingar á þessu ranti. Það er kalt og ég er þreyttur og gramur.