Það eru í mér jólabókaflóðsónot og þó er ég ekki með í jólabókaflóðinu. Ég gaf út bók í vor og þótt það sé „í ár“ þá á ég ekki von á því að vera dreginn neitt inn í jólabókastemninguna og það er ekki hennar vegna heldur. Það er ekki heldur vegna útgáfu Heimsku – Głupota – í Póllandi. Ég les ekki pólsku og hef ekki hugmynd um hvers konar viðbrögðum ég á von á – fá bækur marga dóma? Nýjar bækur eftir erlenda höfunda sem enginn hefur heyrt minnst á? Ég hef heilmikið lesið upp í Póllandi í gegnum tíðina en alltaf ljóð og aldrei komið út á bókarformi fyrren nú. Hins vegar er Náttúrulögmálin að koma út í Svíþjóð og Svíþjóð er það næsta sem ég kemst því að eiga mér vara-fósturjörð – konan mín er sænsk, börnin mín hálfsænsk, ég hef gefið út sjö bækur í Svíþjóð og tekið þátt í óteljandi viðburðum þar í landi, þekki álíka marga sænska höfunda og ég þekki íslenska (það eru kannski ýkjur, en ekki miklar), og ég veit hvaða heimasíðum ég á að endurhlaða viðstöðulaust í bið eftir umfjöllun. Já og ég er fluglæs á málið. Og ég mun fara heilmikið til Svíþjóðar í haust í tengslum við útgáfu bókarinnar – sem er alls ekki alltaf raunin, það er alveg upp og ofan, stundum gefur maður út bók í útlöndum og heyrir aldrei nokkurn skapaðan hlut af henni. Ég fer reyndar líka til Póllands og les upp bæði í Gdansk og Varsjá.
***
Ég er búinn með Circe. Kláraði kaflann einhvern tíma í síðustu viku og hlustaði svo á megnið af honum í bílnum líka – ég var að lesa upp á Stokkseyri í fyrradag, fór í road trip. Ég veit ekki hvaða tökum er best að taka hann. Hann er ekki erfiður í sama skilningi og Proteus eða Oxen of the sun. Hann er bara langur og fullur af smáatriðum sem hægt er að staldra við. Hversdagslegasta útlegging á honum gæti hæglega orðið lengri en bókin öll. Og svo tefur mig líka letin.
***
Annað sem ég hlustaði á í bílferðinni minni var How to be alone eftir Jonathan Franzen – ritgerðasafn, dálítið köflótt, sumt mjög gott og annað síðra, líður fyrir viðbúinn samanburð við David Foster Wallace, sem var betri í þessum sömu þemum, sömu þankabönum (þeir voru miklir vinir). Í henni talar hann á einum stað um „Bloomsday“ og á við dag sem er fullkomlega dokumenteraður niður í minnstu smáatriði. Það er ekki nýtt fyrir mér að fólk tali þannig um Ulysses, að hún sé þessi dagur – 16. júní, 1904 – dokumenteraður í drep. Og Joyce sagði sjálfur að Dublin mætti endurbyggja frá grunni út frá síðum Ulysses. Til að gera langa sögu stutta þá er brandarinn fyndinn en bæði auðvitað þvæla. Það er af og frá að við vitum allt sem gerist í lífum (eða hugum) Leopolds Bloom og Stephen Dedalus þennan dag – við vitum ekki einu sinni allt sem á daga þeirra drífur. Bæði eru eyður – kaflarnir byrja ekki allir þar sem síðasta lauk, og tímasetningin er stundum svolítið á reiki – og svo er gjarnan bara fylgst með öðrum þeirra. Við vitum kannski hvar hinn er á meðan en ekki endilega hvað hann er að gera eða segja. Aukinheldur eru kaflar þar sem skilningarvit þeirra eru brengluð og aðrir þar sem lýsingarnar á því sem þeir eru að gera eru með slíkum stíllegum heljarstökkum að sá sem segist hundrað prósent viss um hvað hafi átt sér stað – í jarðbundnasta skilningi dokumentasjónar – er að ljúga.
Joyce sækir á djúpið – hann er ekki að kortleggja einn dag eða einn mann eða eina borg. Hann er að kortleggja hræringarnar í innra lífi tveggja manna – og meira að segja sú kortlagning er gloppótt þótt hún sé impónerandi í umfangi sínu.
***
11 dagar í Tom Waits endurtekt. 12 dagar í fyrsta Svíþjóðartúr – með bókamessunni í Gautaborg. Einn mánuður og þrír dagar í maraþon. Eftir það fer ég í tveggja vikna útlegð til þess að einbeita mér að næstu bók. Og svo aftur á flakk. Einhvern tíma verður svo allt rólegt.