Brecht, upprisan og tómið

Einu sinni bloggaði ég. Og þegar ég segi einu sinni meina ég „í 8 ár“ – þetta myndi fylla margar bækur (og minnst af því prenthæft). Fyrst á blog.central, svo á blogger.com og loks á norddahl.org. Ég bloggaði meira að segja á Smugunni um hríð. Það er allt meira og minna horfið. Ég hélt ég ætti afrit einhvers staðar – þegar ég tortímdi öllu á léninu mínu til að hreinsa út vírus – en svo var víst ekki. Stór hluti þess sem ég skrifaði er inni á Wayback Machine – alls ekki allt – og það er meira vesen að finna eitthvað tiltekið en svo að ég nenni því. Þetta er kannski ekki einsog að glata handriti – ég tók það talsvert nær mér þegar ég hellti á sínum tíma stórum latté yfir fartölvuna mína með rétt ókláruðu handriti að Hugsjónadruslunni (einmitt um svipað leyti og ég byrjaði að blogga); það reddaðist – en þetta er samt dálítið leiðinlegt. Í tæpt ár las ég til dæmis pólitískar skáldsögur og bloggaði um þær daglega; í nokkra mánuði bloggaði ég einhverju smáræði á finnsku á hverjum degi; ég hélt hversdagsdagbók í líklega 18 mánuði. Á Smugunni (sem er líka horfin) skrifaði ég reglulega um vinnuna við Illsku. Þarna birti ég líka afrit af svo til öllu sem ég skrifaði í aðra miðla. Fyrstu tvö árin var bloggið öðruvísi en það varð síðar – maður bjóst ekki við því að hver sem er læsi það og því leyfði maður sér að vaða meira á súðum. Einu sinni livebloggaði ég eigin sambandsslitum úr stofunni hjá stelpunni sem dömpaði mér. Ég skrifaði ýmislegt miður geðslegt um fullt af fólki, sem ég hefði áreiðanlega betur látið ógert. Andrúmsloftið var allt annað. Það var ekki búið að finna upp tillitssemina. Í öllu falli var ekki búið að kenna mér að beita henni. Ætli tillitssemin – og kurteisin – hafi ekki hafið innreið sína á internetið um svipað leyti og moggabloggið? Þegar verstu fávitarnir þar riðu fram á ritvöllinn var auðveldasta leiðin til að skilja sig frá þeim að hætta að blóta og djöflast – þeir eignuðust þar með transgressífari hluta internetsins og eiga hann að mestu enn. Fyrir nokkrum vikum opnaði ég svo þetta blogg. Ég ætlaði að nota það á svipaðan hátt og Illskubloggið – til að dokumentera eitthvað ferli, í þessu tilfelli meira biðina en sjálfa vinnuna. Ég kláraði sem sagt Heimsku og nú bíð ég. Ég er byrjaður á annarri skáldsögu og bíð*, er langt kominn með nýja ljóðabók og bíð og er alltaf að lofa sjálfum mér að ég muni einn daginn klára matreiðslubókina sem ég byrjaði á veturinn 2012-2013 – ég skrifa auk þess eitt og annað, á grein um Víetnam í næsta TMM og þarf að skrifa að minnsta kosti tvo fyrirlestra fyrir ráðstefnur í sumar – annan með yfirskriftinni „skipulag/röð hlutanna“ – á sænsku – og hinn á ensku með yfirskriftinni „changing the world through writing“ – ég finn ekki upp á þessu sjálfur. En ég bíð. Ég mun sjálfsagt halda áfram að minnast á Heimsku af og til en ég hef annars komist að þeirri niðurstöðu að það borgi sig ekkert að segja of mikið um þessa bók. Hún verður eiginlega bara að fá að útskýra sig sjálf. Hún er ekki einsog Illska – hún tekur einfaldlega ekki endalaust við. Ég ætla sem sagt samt að blogga hérna. Vonandi daglega. Í dag ljúkum við þessu á ljóði – fyrir bloggið, fyrir Heimsku og fyrir alla mína þýskumælandi lesendur. Bertolt Brecht, dömur mínar og herrar. Den Nachgeborenen

Ich gestehe es:
Ich habe keine Hoffnung.
Die Blinden reden von einem Ausweg.
Ich sehe.
Wenn die Irrtümer verbraucht sind
Sitzt als letzter Gesellschafter
Uns das Nichts gegenüber. Ef lesendur eiga íslenska þýðingu af þessu má endilega birta hana í kommentakerfinu. * Skáldsagan gengur undir þremur vinnutitlum: Níska, Handtaska og Sjálfstæðisbaráttabaska. (Djók!)

Að útskúfa til að verða ekki útskúfað

We all need to mark the enemies of security in order to avoid being counted among them … We need to accuse in order to be absolved; to exclude in order to avoid exclusion. We need to trust in the efficacy of surveillance devices to give us the comfort of believing that we, decent creatures that we are, will escape unscathed from the ambushes such devices set – and will thereby be reinstated and reconfirmed in our decency and in the propriety of our ways. Zygmunt Bauman – Liquid Surveillance

Viðskiptabann: Mánuður 1

Ég veit ekki alveg hvers vegna, það var ekkert úthugsað og ég hugsa að ég leyfi því bara að vera óúthugsuðu, a.m.k. í bili, en ég ákvað fyrir mánuði síðan að næsta hálfa árið myndi ég bara lesa bækur eftir konur – kannski að hluta til vegna þess að þegar ég fór að hugsa málið þá voru flestir skallarnir þar (go figure) og listinn yfir það sem ég vildi lesa varð strax svo langur að það er borin von ég komist yfir nema brot af honum á hálfu ári. Og kannski að hluta til vegna þess að femínískar áherslur eru í móð og hver vill vera púkó. En þetta er sem sagt skýrsla 1/6 (ég les yfirleitt minna en þetta á einum mánuði, ég les frekar hægt). Station Eleven – Emily St. John Mandel, kanadísk – kláruð 28. mars Fín dystópía – ótrúlega „vel skrifuð“ í þeirri merkingu að mér fannst ég þurfa að ryðja mér í gegnum hana, æsispennandi. En ég er ekki viss um að mér finnist nú, mánuði síðar, að hún hafi skilið mikið eftir sig. Einhvers konar ebóla hefur þurrkað út bróðurpartinn af lífi í heiminum; leikflokkur ferðast um í norður-ameríku og sýnir Shakespeare, fólk gerir sér sveitarfélag á flugvelli, drengur elst úr grasi og verður illyrmislegur heimsslitapredikari, einu sinni var frægur leikari í kanada og allt tengist þetta með hætti sem útskýrist smám saman (en virðist svona eftirá hafa verið bara hálfpartinn út í loftið; í það minnsta segja tengingarnar mér ekki neitt, nema að þær séu til staðar). We are all completely beside ourselves – Karen Joy Fowler, bandarísk – kláruð 10. apríl Ég var alltof lengi að lesa þessa. Sögumaðurinn er óðamála – það er beinlínis karaktereinkenni, hún getur ekki haldið kjafti – og það smitast auðvitað út í stílinn sem verður dálítið bla bla bla og maður missir fókus. Og hún leysist nokkrum sinnum upp í frekar miklar predikanir (feminískar annars vegar og dýraverndunar hins vegar). En sagan, sem fjallar um konu sem ólst upp með sjimpansa (þær voru aldar upp einsog systur) fyrstu fimm ár ævinnar sækir á mann og er, þegar allt kemur til alls, miklu kraftmeiri en Station Eleven, þótt hún sé ekki jafn „vel skrifuð“, ekki jafn hnökralaus. Paradise of the blind- Duong Thu Huong, víetnömsk – kláruð 15. apríl Mig minnir að ég hafi skrifað aðeins um The Zenith á Starafugl – en hún fjallaði um síðustu daga Ho Chi Minh (og fleira). Þessi fjallar um tvær fátækar mæðgur í úthverfi Hanoi og er í aðra röndina klassísk örlaga/kynslóða/fjölskyldusaga – mamman er götusali sem vill að dóttir sín verði eitthvað meira, en ýmislegt stendur í veginum, ekki síst hún sjálf, en líka hefðirnar, þrjóskan, hinar sósíalísku hugsjónir, skyldur við aðra fjölskyldumeðlimi, hégóminn og jafnvel eitthvað „vestrænt“ andrúmsloft – allt rekst á. Dapurleg bók en falleg. Rilke Shake- Angelica Freitas, brasilísk – kláruð 16. apríl. Rilke Shake er ljóðabók – þýdd af Hilary Kaplan, sem verður eiginlega að koma fram því stór hluti verksins byggir á alls kyns orðaleikjum, orðahljóðum og fíflalátum (ég skil ekki portúgölsku en útgáfan er tvímála svo maður getur borið saman). Bókin fjallar um ídentítet og kynferði, tungumál og fegurð, og svo bókmenntahefðina – sem hún fer með einsog þá hlægilegu dásemd sem hún getur verið. Bright-sided: how the relentless promotion of positive thinking has undermined America – Barbara Ehrenreich, bandarísk – kláruð 18. apríl Þessi bók gengur ekki síst út á að gera lítið úr sjálfshjálpariðnaðinum og gerir það bæði með góðum og slæmum rökum – þessi bransi virðist svo sannarlega hálf sturlaður eftir lesturinn (og maður hugsar oft til þess offlæðis af jákvæðum „skilaboðum“ sem Facebookvinir manns flytja manni; já og hugmyndarinnar um „safe space“ – jákvæðnirúmið – sem kemur þó hvorugt til tals). Gallarnir eru helst í því fólgnir að hún endurtekur mikið af þeim skyssum sem sjálfshjálpargúrúarnir gera sjálfir, ekki síst því að rugla saman jákvæðri hugsun, velgengni, hamingju og ótal öðrum hugtökum einsog það sé allt sami grauturinn (en það er hugsanlega ekki hægt að takast á við þessi illskilgreindu konsept öðruvísi en að nota þau einsog þau koma af kúnni – annað myndi bara enda úti á túni). Delta of Venus – Anaïs Nin, kúbönsk-amerísk-frönsk – kláruð að 3/4 hlutum líklega 20. apríl (ég sé að ég hef gleymt að nótera það hjá mér). Ég sem sagt kláraði hana ekki. Hún var mjög áhugaverð framan af en svo bara bleee. Þetta er smásagnasafn, erótískt, að sögn skrifað eftir pöntun óþekkts auðkýfings, og því fylgir formáli höfundar sem ég var ósammála þar til ég var búinn að lesa þessa 3/4 bókarinnar. Hún altso heldur því fram þar að auðkýfingurinn hafi hálfpartinn rænt þau gleðinni af erótíkinni með því að strípa hana niður í kynlífslýsingar, með því að svipta sögupersónurnar öllu öðru en þessum löngunum sínum, því erótíkin sé bara gleðileg í samhengi sínu. Eitthvað þannig. Nú eru það kannski ýkjur, en 400 blaðsíður eru í það minnsta of stór skammtur af þessu – mér fannst mjög gaman og áhugavert að lesa fyrstu 100 síðurnar, en eftir 300 síður var þetta bara einsog að plægja sig í gegnum símaskrána og ég gafst upp. Það er reyndar áhugavert að næstum allt þarna, sem Nin skilgreinir sem erótík, yrði aldrei kallað annað en svæsnasta klám í dag – og oft á tíðum ofbeldisklám, nauðgunar/þvingunar fantasíur, sifjaspell og alls kyns pína (sem var oft líka fólgin í því að fólk fékk ekki að uppfylla þrár sínar fyrren seint og um síðir, ef þá nokkurn tíma). Miklu verra en nokkuð sem má finna í 50 skuggum, eða Fantasíubókinni. Sense and sensibility – Jane Austen, ensk – kláruð 24. apríl Þetta var einsog að detta í slúðurtunnu. Og minnti mig oft á Íslendingasögurnar, eiginlega – fólk fast í einhverjum hefðum að reyna að stýra sér leið í gegnum afskaplega flókna pólitík án þess að glata fjölskylduheiðrinum (og helst græða peninga). Samræðurnar voru dásamlegar og ég flissaði mikið, en ég missti líka þráðinn stundum og fannst oft einsog allt héti þetta fólk sama eftirnafninu („þessir karlar heita allir Þorgeir!“ var algengasta umkvörtunin þegar ég las íslendingasögur í skóla). Mikill „yndislestur“ einsog heitir. Það sló mig að þrátt fyrir að enginn ynni svo mikið sem eitt einasta handtak alla bókina (en allir hefðu miklar áhyggjur af tekjum sínum, sem guð einn veit hvar þeir fengu) þá var enginn frjáls, enginn gat farið og gert það sem hann vildi. Konurnar sátu mest kyrrar og karlarnir þeyttust um til að uppfylla „skyldur sínar“. Og ég fór að hugsa upp úr því hversu algengt það er að fólk vinni ekki neitt í bókum. i will never be beautiful enough to make us beautiful together – Mira Gonzalez, bandarísk – kláruð 24. apríl Önnur ljóðabók. Nei ég meina fyrsta ljóðabók. Fyrsta ljóðabók hennar, önnur ljóðabókin sem ég les í mánuðinum. Mira Gonzalez er nýjasta stjarnan í bandarískum ljóðaheimi og ég hef verið lengi á leiðinni að lesa þessa bók. Hún er fædd 1992 (!!!) og er stjúpdóttir bassaleikarans í Black Flag. Bókin er alveg skelfilega dapurleg – eða bara þunglyndisleg, alveg ógeðslega þunglyndisleg, en á sama tíma kímin og jafnvel glöð, og það án þess að verða nokkurn tíma skjálfandi hysterísk, einsog oft verður raunin þegar depurðin og fíflalætin mætast. Ég kláraði hana bara áðan og á eftir að lesa hana nokkrum sinnum – líkt og reyndar Rilke Shake, ljóðabækur eru yfirleitt í „umferð“ hjá mér í einhverjar vikur, liggja á borðum og við klósett og hér og þar, áður en þær fara upp í hillu (og fara svo iðulega aftur í umferð annað veifið).

Félagsbyltingar versus tæknibyltingar

Even more than overshooting technological achievements, however, it has been futurists’ failure to anticipate major social change, most egregiously the women’s and civil rights movements of the twentieth century, that has most seriously and justifiably damaged the reputation of the field. The bias toward predicting technological versus social progress has been and continues to be the Achilles’ heel of futurism, the next wave of gadgets and gizmos easier to see coming than a cultural tsunami. It is, as Arnold Toynbee has pointed out, ideas, not technology, that have stirred the biggest changes in history, Lawrence M. Samuel – Future: A Recent History

Biðfár

Það er óþolandi að sitja og bíða þess að bók, sem maður er búinn að skrifa, komi út. Ég hefði aldrei átt að klára hana fyrren á síðasta séns – hefði átt að skila handritinu í ágúst og fá hana út í byrjun september. Með klækjabrögðum og frekju. Ég veit ekki af hverju ég hef áhyggjur. Mér var hossað nóg fyrir lífstíð vegna síðustu bókar – ég hugsa að ég myndi alveg lifa það af þótt allir hötuðu þessa (sem er ósennilegt, þetta er frábær bók!). Kannski leiðist mér bara; hef ekki alveg í mér eirð til að byrja á nýrri bók en ætli ég neyðist ekki samt til þess. Ég á líka hálfa ljóðabók hérna og hálfa plokkfiskbók, sem vilja báðar láta klára sig – en ég veit ekki hvort ég myndi lifa af að vera búinn að skrifa tvær bækur sem hvorug er komin út. Reyndar bíða mín nokkrar greinar og fyrirlestrar; líklega er best að ég gangi frá því áður en lengra er haldið. Ég þarf líka að átta mig á því hvernig ég svara fyrir Heimsku – til þess, meðal annars, er þetta blogg. Það dugar víst ekki lengur að skrifa bækur maður þarf líka að geta lýst þeim. Spurningin ómar í höfðinu á mér, fyrsta spurningin sem allir spyrja: um hvað er bókin? Ég hef í raun ekki hugmynd, en það er heldur ekkert nýtt – ég hef ekki heldur hugmynd um hvað Illska er, eða Gæska eða nein hinna. Þaðan af síður ljóðabækurnar. Mestu skiptir að drepa tímann. Framtíðin lætur ekki bíða eftir sér að eilífu.