Í allan vetur hef ég verið að segja að allt sé um það bil við hið sama. Svíum gengur alveg jafn vel að eiga við farsóttina nú og þeim gekk í ágúst í fyrra, þegar við komum. Það er mikið álag á heilbrigðiskerfinu en bólusetningarnar eru eitthvað að hjálpa til. Annars ber nú kannski mest á svívirðilega mikilli þreytu gagnvart viðfangsefninu – svona prívat og persónulega. Ekki flensunni sem slíkri heldur umræðunni um hana. Sem er ekki alltaf sérstaklega málefnaleg (a.m.k. ekki þegar ýtt er á viðkvæma punkta, einsog er samt mikilvægt). Í menningarfréttum er það annars helst að menningarritstjóri Västerbotten-Kuriren, Sara Meidell, hefur hafið á loft stríðsöxina gegn „kúk“ í barnabókum. Það er langtum skemmtilegra umfjöllunarefni. Nýlega hafa komið út bækur með titla á borð við „Allir kúka“, „Ofur-Kalli og kúkasprengingin“, „Kúkaveislan“, „Þegar Doris ætlaði að kúka“ og „Hæ, lortur“. Sara segir að þetta sé niðurlægjandi fyrir börnin, sem séu flóknari manneskjur en þetta, og ekki ætlað til annars en að vinna sér inn ódýrar vinsældir. Þá bætir hún við að kannski sé kúkurinn sem slíkur ekki stærsta vandamálið heldur að hann skuli koma í staðinn fyrir bókmenntalegt gildi – þannig séu til góðar bækur um kúk. Þar nefnir hún meðal annars bókina Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni – sem er í sjálfu sér áhugavert dæmi. Upprunalegi titillinn er: “Um litlu moldvörpuna sem vildi vita hver hefði gert það á hausinn á henni.” Sú bók heitir á sænsku „Det var det fräckaste“ – eða „Heyrðu nú mig góði“ eða eitthvað svoleiðis. Við áttum hana á báðum málunum og það vakti athygli mína á sínum tíma, fyrir hartnær tíu árum, að titlarnir væru svona ólíkir svo ég skoðaði þýska orginalinn og bar saman við sænsku og íslensku útgáfuna. Niðurstaðan var sú að í íslensku þýðingunni hefði verið valin „grófari“ leiðin alltaf þegar tvær voru í boði – við gætum líka kallað hana „litríkari“ leiðina, það er Þórarinn Eldjárn sem þýðir með sínu margrómaða nefi – en í sænskunni hefði frekar verið dregið úr. Ef ég man rétt var nú íslenska líkari þýskunni en sú sænska. Ég tók þessu þannig að Svíar væru viðkvæmir fyrir kúkatalinu og sennilega var það rétt. Hins vegar varð þessi bók mjög vinsæl í Svíþjóð einsog annars staðar og kannski brustu flóðgáttirnar einfaldlega – og Svíar komust á hið alræmda „þermistig“ sem er lýst svo í kennsluglósum sem ég fann á quizlet: Annað stigið af þroskastigunum fimm eftir Freud. 2-4 ára. Örvunarsvæðið færist niður í þarmana. Ánægja barnsins felst nú í því að halda inni hægðum eða losa sig við þær, jafnvel rannsaka. Viðbrögð foreldra skipta miklu máli. Í samhengi bókmenntana eru menningarritstjórarnir sennilega foreldrarnir en höfundarnir og foreldrarnir börnin (börnin sem lesa bækurnar eru hugsanlega einhver Hinn, eitthvert guðlegt afl, hvers vegir eru órannsakanlegir). Ég er ekki freudisti og hef litla sálfræði lært síðan í menntaskóla en ég gæti samt best trúað að viðbrögð Söru séu röng og til þess ætluð að innræta skrifandi höfundum og lesandi foreldrum skömm og hindra þau frá því að komast upp á næsta stig, hið svonefnda völsastig, þegar „orkan færist yfir á kynfærin sjálf“. *** Ég þarf núna að drífa mig í stúdíó að taka upp hljóðbók og aftur mætir blúshluti þessa bloggs afgangi (ég minni samt á lagið sem ég söng hér á dögunum ). Ég skal taka mig á og skrifa fljótlega um einhverja heila plötu. En í millitíðinni er hér Screamin’ Jay Hawkins með Constipation Blues – hægðatregðublús. Hafi nokkur efast um þau listrænu heilindi sem fólki er unnt að sýna á þermistiginu þá ættu þær efasemdir að vera foknar út í veður og vind, strax að lokinni hlustun.
Author: kolbrunarskald
createdTimestamp““:““2024-05-20T14:41:24.546Z““
Nýja hindrun dagsins – sem er að verða fastur liður – er að ríkið ætlar að hætta að hleypa okkur óbólusettu ferðamönnunum í farsóttarhúsin. Rökin eru væntanlega þau að óbólusettir túristar geti sjálfum sér um kennt að vera að dandalast þetta um heiminn á meðan pestin geisar. Og eigi þar með að borga sína gistingu sjálfir. Þeim er stillt upp gegn heiðvirðum veikum Íslendingum og látið einsog einn hópurinn þjáist á kostnað hins – sem er auðvitað klassískur popúlismi. Það er engin ástæða til þess að þjónusta ekki báða hópana (önnur en sparnaður sem sagt). Ef það var einhvern tíma réttlátt að bjóða upp á þessa gistingu þá er það það enn. Mér skilst það sé laus gisting á höfuðborgarsvæðinu. Það gagnast mér lítið, sem kem í land á Austurlandi. Ég hefði heldur kosið að gista á gistiheimili eða hóteli og er löngu búinn að skrifa öllum gististöðunum á svæðinu í leit að húsnæði til að sitja af mér mínar þrjár nætur. Það er, einsog áður hefur komið fram hér á síðunni, ekkert laust – ef frá er talin ein nótt sem kostaði 30 þúsund (og hefði ekki gert mér gagn af því maður má augljóslega ekki fara á milli gististaða). En það er augljóslega ákveðnum vandkvæðum bundið að neyða mig til að kaupa gistingu sem ég er búinn að reyna að kaupa en reyndist ekki í boði. Annars var hvíldardagur hér í Rejmyre. Á morgun keyrum við til Gautaborgar þar sem ég fer í PCR-test og ég er farinn að taka öllu sem líkami minn gerir sem ótvíræðu teikni um að ég sé með covid. Ef ég slepp í gegnum það test kemst ég samt um borð í bátinn og þá til Íslands. En við vitum ekki með Nödju fyrren í Danmörku. Ef ég slepp ekki skiptir þessi sóttkví á Íslandi sennilega engu máli en ég verð þá ekki kominn heim heldur fyrren í september. Ég fór út að hlaupa og tók upp Blús mánaðarins. En ég gerði engan jóga, einsog þó stóð til. Börnin eru að spila Matador. Farangurinn er kominn út í bíl. Mér skilst að þau sem tóku við íbúðinni á Karlsgötu séu flutt inn og allt sé í lagi þar. Allt fer þetta svo einhvern veginn.
id““:““2on0f““
Ég er að klára ævisögu Howlin’ Wolf. Moanin’ at Midnight eftir James Segrest og Mark Hoffman. Ég ætla sosum ekki að hafa um hana mörg orð. Bókin er samt fín og þetta er svolítið svakaleg ævi. Wolf er þarna alveg frá fyrstu dögum deltablússins en tekur ekkert upp fyrren hann er að verða fertugur. Maður tengir hann ekki alveg við lærimeistara sinn, Charley Patton, eða meðreiðarsveina sína, kynslóðina sem hann tilheyrir aldri samkvæmt – hann er árinu eldri en Robert Johnson. Muddy er nokkrum árum yngri en fer líka á flug fyrr – tekur upp alveg áratug á undan Wolf. Fyrir mörgum nær blússagan ekki heldur lengra en sirka að dánardægri hans 1976. Chester Burnett er einkabarn móður sinnar, sem er skilin við kallinn þegar hann kemur í heiminn. Hún hendir honum svo að heiman þegar hann er tíu ára – 1920 – og hann þarf sjálfur að koma sér í fóstur hjá ofbeldisfullum frænda sínum. Það er ekki alveg víst hvað gerðist á móðurheimilinu – hann gaf á því margar skýringar sjálfur. Ein var sú að hún hefði einfaldlega fengið nóg af honum. Önnur að hann hafi verið farinn að dútla við gítarinn og móðir hans, sem var afar trúuð, hafi ekki viljað kóa með neinum blús í sínum húsum. Hún kemur aftur inn í líf hans síðar en neitar alla tíð að taka við nokkru fé af honum – Wolf er einn af fáum svörtum blúsurum sem hélst vel á peningum, enginn þeirra þénaði vel, en Wolf var skipulagður og ábyrgur, og kvaðst á eldri árum lifa á vöxtunum á fé sínu. Ég man ekki hvort hann er svo 15 eða 16 þegar hann stingur af frá frændanum og fer bara „ridin’ the blinds“ – að húkka sér far með lestum og spila á götuhornum. Þá er hann að reyna að jóðla einsog Jimmy Rogers og Tommy Johnson en það kemur ekkert út nema þetta sorglega ýlfur sem verður svo kennimerki hans – og af því fær hann nafnið. Á þessum árum finnur hann líka pabba sinn aftur, sem virðist hafa rekið umtalsvert kærleiksríkara heimili en móðurfjölskyldan og ber Wolf bæði honum og stjúpu sinni þar afar vel söguna, þótt hann hafi aldrei verið þar nema fáein misseri í senn þegar lengst lét. Wolf lærir af Charley Patton – ekki bara að spila og syngja heldur líka sviðslætin, þeir voru báðir annálaðir fyrir dýrslegt brjálæði á sviði. Ég veit ekki með Patton en Wolf var mjög annt um að vera samt prófessjónal og a.m.k. þegar hann var kominn með band drakk hann helst ekkert fyrren eftir sjóið – og var þó talsverður drykkjubolti. Fljótlega eftir að hann kemur svo til Chicago og fer að setja saman band lendir hann í erjum við Muddy Waters og stóðu þær alla ævi – en í bland við vinskap, Wolf t.d. hjálpar Muddy að borga fyrir jarðarför eiginkonu sinnar á áttunda áratugnum (Muddy hélst ekki á peningum – en var frægur fyrir gjafmildi og hjálpsemi við aðra tónlistarmenn). Þeir gátu líka boðið hvor öðrum í mat, milli þess sem þeir hótuðu að skera hinn á háls. Sömu tónlistarmennirnir flakka á milli þeirra – þegar einn er rekinn hjá Wolf fer hann til Muddy og öfugt. En sennilega byrjar þetta þegar Wolf mætir svo til ókunnugur til að hita upp fyrir Muddy á klúbb þar sem Muddy átti fast gigg og tekst að ná fasta gigginu undan honum. Einsog svo margir bjó Wolf líka í kjallaranum í húsi Muddys á tímabili – sem Muddy segist hafa gefið honum frítt en Wolf sagðist hafa verið rukkaður fyrir hverja nótt og hvern matarbita. Wolf og BB King komast líka í vinfengi sem virðist aldrei hafa verið mjög náið en alltaf traust og BB kemur reglulega til hans í stúdíó eða baksviðs á tónleikum. BB og Wolf áttu prófessjónalismann sameiginlegan, sem og óþol fyrir óreglunni – eða allavega því að óreglan hefði áhrif á sjóið. Sem hún gerði samt. Einn mikilvægasti samstarfsmaður Wolf í gegnum árin, gítarleikarinn Hubert Sumlin – sem var uppáhalds gítarleikari Jimi Hendrix – var fullkomin andstæða við Wolf. Stjórnlaust kaos – alltaf fullur og alltaf í rugli – en að sama skapi gríðarlega uppfinningaríkur í augnablikinu. Hann gaf kontróleraðri einshljómatónlist Wolfs ófyrirsjáanleikann sem hana vantaði. En þeir elduðu grátt silfur saman alla tíð – slógust stundum harkalega, sem getur varla hafa verið neitt grín því Wolf var á hæð við mig en svona tvöfalt þyngri án þess að vera beinlínis feitur. Hann var bara ofsalega stór. Flestir bera Wolf mjög vel söguna og virðast af bókinni að dæma vera að bera til baka orðspor sem hann hafði fyrir að vera kvikindi, harður í horn að taka og jafnvel ofbeldisfullur við hljómsveitarmeðlimi. Þeir segja þá að hann hafi þvert á móti verið ljúfur, sanngjarn og nokkuð gert úr því hvað hann hafi verið barngóður. Hann var líka mjög tipp topp í öllum starfsmannamálum og var t.d. einn allra fyrsti hljómsveitarstjórinn til að borga öll launatengd gjöld af tekjum hljómsveitar sinnar, sem þýddi að ef hann rak þig þá áttirðu rétt á atvinnuleysisbótum – sem var alger nýlunda í þessum heimi. En á móti kom að launin voru lægri þegar búið var að taka af þeim gjöldin. Þá var hann eigandi og yfirmaður síns fyrirtækis og sýndi mönnum enga gjafmildi þegar þeir voru búnir að spreða peningunum sínum í vitleysu – þótt hann stæði gjarna með þeim sem væru í nauð. Ein skemmtileg saga í bókinni segir frá því að þegar sveitin kom heim eftir langan túr hafi tónlistarmennirnir allir farið heim til sinna kvenna peningalausir og borið því við að Wolf hafi ekki greitt sér einsog samið hafði verið um. Wolf frétti þetta og kallaði til fund með tónlistarmönnunum og konum þeirra – sem var ekki minni nýlunda, að konurnar kæmu þessu eitthvað við – og fór bara yfir í hvað peningarnir fóru. Benti á einn og sagði hann hafa drukkið sig í svefn tvisvar á sólarhring alla ferðina, annar hefði lagt allt undir í póker og þriðji legið með vændiskonum í hverju einasta krummaskuði. Og svo framvegis. Hann hefði ekki snuðað neinn heldur væru eiginmenn þeirra staðfestulausir aumingjar sem hefðu sóað tekjum fjölskyldunnar í eigin óreglu. Svörtu blúsararnir sem gera samning við Chess á sínum tíma semja yfirleitt um fasta summu á hverja selda plötu og þótti ágætt – þeir urðu flottir menn, komust í nokkrar álnir, eignuðust bíla og hús og gátu leyft sér ýmislegt, ef platan gekk vel. Hins vegar var þetta mikil þrælavinna – langir túrar við vondar aðstæður. Þeir djöflast um allar koppagrundir á stórum fólksbíl – með drykkfellt bandið í aftursætinu og hljóðfærin á þakinu. Einu sinni misstu þeir öll hljóðfærin í einu lagi út í Mississippi ána eftir annars lítilvægt bílslys og þá þurfti Wolf að leggja út fyrir alveg nýju setti í næsta bæ. Þegar blúsrokkstjörnurnar birtast svo á sjöunda áratugnum og fara að taka þessi lög og spila svipaða músík – fara gömlu blúsararnir að átta sig á því að þeir hefðu sennilega samið af sér. Chessbræðrum til málsbóta þá höfðu þeir ekki endilega þénað nein ósköp á þessu sjálfir á þessum áratugum sem þeir höfðu verið að gefa út blúsplötur. Það var mikið ástríðustarf með einhverjum gróða en ekki á neinu Led Zeppelin leveli. Hins vegar eru það fyrst og fremst þeir og fyrirtækið sem græða á því þegar lögin verða vinsæl meðal hvíts almennings (sem er miklu stærri markaður – og plötusala bókstaflega að springa) – þeir fara með höfundaréttinn en hafa greitt fyrir útgefnar upptökur. Þeir eru líka með einhverjar hundakúnstir á þessum árum og reyna að halda eins miklum pening í fyrirtækinu einsog þeir geta. Hvítu blúsrokkararnir eru þess utan með hagstæðari samninga frá upphafi – hlutdeild í gróða, einfaldlega, og meiri yfirráð yfir verkum sínum. Sennilega spilar kynþáttur stærsta rullu þar en þó má ekki gera lítið úr því að samningar blúsarana eru einfaldlega 15, 20 og 30 ára gamlir og miða við allt annan heim. Útgáfusaga fyrri hluta 20. aldar er viðstöðulaus snuðun og þarf ekki einu sinni að leita í tónlistina til að sjá það. Wolf lánaðist aldrei að fá sitt en ekkja hans fékk eitthvað – það var einhver baktjaldasamningur og það veit enginn hversu mikið það var. Chess hélt útgáfuréttinum og svo gleypti Universal Chess og þangað fer peningurinn í dag – hvort sem ég hlusta á plöturnar á Spotify eða kaupi þær á vinyl. — Auðvitað urðu þetta mörg orð. Voðalega er það undarlegt hvað maður man af því sem maður les, þegar maður heldur að maður muni fæst.
createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.037Z““
id““:““6rrsk““
Á morgun fer ég til Hald í Danmörku þar sem ég mun hitta danska ljóðskáldið Martin Glaz Serup og austurríska ljóðskáldið Jörg Piringer. Í fyrrasumar fórum við saman með rútu frá Tyrklandi til Þessalóniku og lásum upp á leiðinni – og milli upplestra kokkuðum við upp hugmynd að bók. Nokkrum mánuðum síðar skrifuðum við afar gróft handrit á fáeinum dögum í íbúð Jörgs í Vínarborg. Við höfum potað í handritið af og til síðan og ætlum nú að hittast í dönskum skógi til að klára þetta. *** Í dag er síðasti dagurinn í Finnlandi af minni hálfu. Við erum komin út úr iðrum skógarins og erum í útkanti Helsinki. Við hlustuðum á AC/DC í bílnum á leiðinni heim. Ég dundaði mér við að greina áhrif – fannst ég heyra Free, Ten Years After, Yardbirds og fleira – en þegar ég kom heim og fór að gúgla hvað þeir segja sjálfir kom fátt af því í ljós. Nema að trommarinn í Free virðist hafa komið til greina einhvern tíma. Sem trommari í AC/DC meina ég. En fékk ekki djobbið. *** Það voru meira Stones og Little Richard og sú áttin. Ég er enginn Stonesmaður. Þeir eru of snyrtilegir. *** Það sem kom mér á óvart var líka að þótt meðlimir AC/DC hafi mátt draga ýmsa djöfla fer því fjarri að hljómsveitin sem slík hafi verið nokkur tortímingarmaskína – einsog Guns eða Mötley eða þær allar. Malcolm hefur tekist á við áfengisdjöfulinn meira og minna skandalalaust. Angus hefur aldrei drukkið. Ekki sopa, að sögn. Phil er sá sem mest vandræði hafa verið með – var enda rekinn úr hljómsveitinni í tvígang fyrir rugl. Brian Johnson er víst annálaður rólyndismaður – áhugamaður um leti og tedrykkju – annað en forveri hans, Bon Scott, sem auðvitað drakk sig í hel, einsog frægt er. *** Það er auðvitað mjög snyrtilegt að vera tedrykkjumaður og á snúrunni. *** Þegar það átti að velja nýjan söngvara til að klára Back in Black, eftir að Bon drukknaði í eigin ælu, voru auðvitað góð ráð dýr. Fyrst átti bara að slaufa þessu. Hljómsveitir eru bræðralög og maður skiptir ekki út bræðrum sínum. Það var ekki fyrren fjölskylda Bons bað þá að láta þetta í guðs bænum ekki stöðva sig að Youngbræður rifjuðu upp hversu hlýlega Bon hafði talað um söngvara hljómsveitarinnar Geordie, sem hann hafði séð spilað fyrir löngu. Það væri alvöru rokksöngvari í anda Little Richard. Og leituðu hann uppi. Og fundu nýjan bróður. *** Auðvitað höfðu aðdáendurnir efasemdir. Frontmannaskipti misheppnast hrapalega í níu skipti af hverjum tíu. Og í þessu eina eru þau rétt svo skítsæmileg. Það sleppur fyrir horn. En dýrðin hverfur undantekningalaust. *** Back in Black hefst á Hells Bells. Brian Johnson byrjar ekki að syngja fyrren eftir eina og hálfa mínútu. Þá er búið að klingja öllum bjöllunum og fara í gegnum tvær ólíkar útgáfur af aðalstefinu. Vélin er keyrð í gang með varfærni og af virðingu – platan er tileinkuð Bon Scott – og hefst eðli málsins samkvæmt í helvíti. *** Lagið má – og ætti – að lesa sem fagurfræðilega yfirlýsingu Brians Johnson, loforð til aðdáenda, persónulegt sendibréf hans til Bons og sem ástaróð hljómsveitarinnar til síns gamla vinar. Í anda AC/DC og forverans er kveðið dýrt og hrokafullt – þetta gæti verið Bólu Hjálmar („Mínir vinir fara fjöld, / feigðin þessa heimtar köld, / ég kem eftir, kannske í kvöld, / með klofinn hjálm og rifinn skjöld, / brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld) Kanye eða Eminem. *** I’m rolling thunder, pouring rain.
I’m coming on like a hurricane.
My lightning’s flashing across the sky.
You’re only young but you’re gonna die […] I’ll give you black sensations up and down your spine
If you’re into evil you’re a friend of mine
See the white light flashing as I split the night
Cause if good’s on the left then I’m sticking to the right *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-20T15:36:25.103Z““
Ef ég væri ekki búinn að lofa að kjósa Andra myndi ég nú lýsa yfir stuðningi við Davíð. Af því þetta er svo sturlað og maður verður að halda dampi ef kongalínan á ekki að trampa yfir mann. Það þýðir ekki að slá slöku við. Páll Magnússon spilaði lagið Við Reykjavíkurtjörn á meðan hann var að tala við Davíð – Davíð samdi auðvitað textann. Eftir viðtalið spilaði hann síðan annað lag með skyldum titli, Við Gróttu eftir Bubba Morthens. Það er eitthvað symbolískt. Þar er textinn meðal annars: Dimmblá skýin skreyta sjónarhringinn.
Þú skoðar sem barnið þarabynginn
og hlátur þinn fyllir mig fögnuði þess
sem finnur að lífið hefur valið honum sess
við hlið hennar allt þar til lífinu lýkur.
Að lifa með henni það er að vera ríkur. Og jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég
og jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég
jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég.
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.468Z““
Crazy Blues með Mamie Smith og hljómsveitinni The Jazz Hounds er ekki fyrsta blúslagið og ekki heldur fyrsta blúslagið til að segjast vera blúslag – til að heita blús. Hið fræga Memphis Blues eftir WC Handy er ríflega tíu árum eldra og Dallas Blues eftir Hart Wand (sem er af þýskum ættum, ekki afrískum) er enn eldra en það. En það eru tæknilega séð ekki blúslög heldur einhvers konar ragtime, held ég – ég hef ekki beinlínis vit á því en blúsar eru þetta ekki, frekar en svo margt annað sem kallað er blús (ekki síst nútildags). Blúsinn er þess utan nokkuð eldri en upptökutæknin og var að mestu leyti leikinn af tónlistarmönnum sem kunnu ekki að lesa eða skrifa nótur (eða höfðu ekki áhuga á að skrifa niður þessa alþýðutónlist sem þeim þótti í besta falli ómerkileg og dálítið ósiðleg skemmtan). Sennilega hafði einhver tegund blússins verið leikin alveg frá 1870 – og hann á auðvitað rætur sínar helst að rekja til vesturstrandar Afríku, bæði að formi til en þess utan er ákveðin áhersla á notkun strengjahljóðfæra sem bjóða upp á millinótur (kvartteygðar þríundir og sjöundir t.d. – og hækkaðar ferundir) sem er víst þekkt í tónlist þar um slóðir eitthvað lengur. En hann á líka rætur að rekja til aðstæðna á baðmullarekrum í Bandaríkjunum. Þar kölluðu menn – sungu hátt – milli „akreina“ svo heyrðist í þeim og svöruðu svo aftur. Þetta „call and response“ einkennir allan blús og er jafnvel enn meira einkennandi en 12-bara hljómagangur með turnaround. Á baðmullarekrunum neyddust menn líka til að smíða sín eigin hljóðfæri, oft eftirlíkingar af afrískum hljóðfærum, af miklum vanefnum og tímaskorti (því unnið var allan daginn) – fyrst slide-gítararnir voru bara stálstrengir bundnir við hús sem leikið var á með vasahnífum. Á baðmullarekrunum þurftu menn síðan líka að sjá um sína eigin skemmtun – halda sín eigin böll – og fyrstu atvinnutónlistarmenn svartra bandaríkjamanna flökkuðu á milli baðmullarekra sem skemmtikraftar (blústónlist er og hefur alltaf verið partítónlist – líka þegar hún er hæg og tregafull). Á baðmullarekrunum – fyrst og fremst eftir að þrælahald var afnumið – komust svartir suðurríkjamenn líka í kontakt við evrópskan verkalýð og þótt sá kontakt væri heilt yfir sjaldan náinn þá þar varð talsverð krossvíxlun í menningaráhrifum. Blúsinn fór að ríma, sem hann hafði lítið gert áður, og stundum varð hann jafnvel ballöðukenndur – hvað er Goodnight Irene eftir Leadbelly t.d. annað en írsk ballaða? – og þegar farið var að taka hann upp öðlaðist hann (eða var þvingaður í) ákveðinn strúktúr. Lögin urðu að hafa byrjun, miðju og endi og máttu ekki vera lengri en spólan náði – oftast þrjár mínútur. Þá léku gömlu blúsararnir líka bara alls konar tónlist – kölluðu sig alla jafna „songsters“ frekar en hljóðfæraleikara og áttu sennilega mest skylt við partígítarleikara samtímans. Þeirra hlutverk var að kunna mikið af lögum og þeirra eigin lög voru oftar en ekki samsuða úr alls konar öðrum lögum. Þegar þeir voru svo teknir upp löngu seinna hafði enginn áhuga á að heyra þá spila eitthvað köntrí eða tin pan alley dót – heldur bara orginalblúsinn – og því eru litlar upptökuheimildir til um þetta. Hins vegar er talsvert vitað um svarta tónlistarmenn sem léku með hvítum og hvíta sem léku með svörtum – t.d. gítarleikarann Eddie Lang sem á óhikað skilið að vera talinn upp með frumkvöðlum blússins. En þeir gátu ekki alltaf spilað mikið saman opinberlega og þurftu stundum jafnvel að koma fram á plötum undir dulnefni (Eddie Lang kallaði sig Blind Willie Dunn á plötum Lonnies Johnsons). Þetta eru ótrúlegir gróskutímar í tónlist og allir að læra af öllu(m). Það er merkilegt að þetta lag, fyrsti upptekni blúsinn, Crazy Blues, sver sig eiginlega alls ekki í ættina við þennan upprunalega blús, þennan köntríblús, þennan baðmullarekrublús. The Jazz Hounds er „lærð hljómsveit“ – fágaðir atvinnumenn – að frátaldri fiðlunni er ekkert hljóðfæri þarna sem ræður við míkróteygða tóna, og Mamie Smith syngur kannski hátt og kallar en hún er enginn köntríblúsari og hún er ekki heldur karlmaður – fyrstu „vinsælu“ blúsararnir voru allt konur og plötukaupendur þeirra voru aðallega svartir karlar. Á þessum tíma – the roaring twenties – keyptu þeir vel að merkja ofsalega mikið af plötum, þetta eru uppgangstímar fyrir plötubransann (sem fór ekki endilega vel með þessa tónlistarmenn, vel að merkja). Það var síðan ekki fyrren seinna – í raun ekki af neinu viti fyrren hvítir menn fóru að hafa áhuga á blústónlist – sem farið var að taka upp og prómótera baðmullarekrublúsinn. Blúsinn byrjaði kannski á baðmullarekrunum en þegar farið var að taka hann upp var hann tekinn upp fyrir svarta var ekki snobbað fyrir fátæktinni eða hógværðinni – þessar konur sem sungu fyrstu blúslögin ferðuðust um með vaudeville-sjóum og voru gjarnan klæddar í glys og glamúr frá toppi til táar, pallíettur, fjaðrir og gimsteina.
createdTimestamp““:““2024-06-06T02:27:58.938Z““
id““:““kmdp““
Ég eyði þriðja vinnudeginum í röð í að stara á opin skjöl þar sem ég hef skrifað örfá orð – þetta eiga að verða langir fyrirlestrar, alltof langir eiginlega, og sá sem ég þarf að klára fyrst fjallar um ljóðabók sem ég hef enn ekki skrifað nema svona helminginn af: Ljóð um samfélagsleg málefni. Hér er eitt af þeim, „Ljóð um hörmungar“: Ég á að hafa eitthvað um þetta að segja – og hef það í sjálfu sér, þótt flest sem ég hafi um það að segja sé heldur upphafið og margt af því líklega beinlínis rangt í þokkabót. Til að bæta gráu ofan á svart (gulu ofan á blátt?) þá á ég að flytja (og semja) fyrirlesturinn á sænsku. Bókin er tilraun í retorík; tilraun til þess að staðsetja sig á tilteknum stað „í umræðunni“ – auga stormsins – og lýsa einfaldlega því sem fyrir augu ber. Eins konar hlutlæg lýsing á hinu huglæga; verkleg æfing í því að orða hluti um hluti, hafa orð á orðunum, lýsa þeim með sjálfum sér í heimi sem er viðstöðulaust upptekinn af textalægri sjálfhverfu (í gegnum tækin okkar lifum við lífinu meira og meira í texta). Ljóð um samfélagsleg málefni samanstendur ekki af textum „um“ texta, þetta er ekki greining, ekki hugsun (þanniglagað), heldur textar þar sem tungumálinu („orðræðunni“) er ætlað að koma í stað sjálfs sín. En samt þannig að það (og hún) afhjúpi sig, birtist okkur ekki sem orðræðan (einsog hún er á Facebook og í aðsendum greinum) heldur eins konar orðræðulíki, kunnugleg en samt furðu fjarlæg. Í hlutföllunum 1:1. Skiljið þið nú hvað ég á við þegar ég segi að þetta sé bæði rangt og upphafið? Og nú þarf ég bara að læra hvernig ég get sagt þetta á sænsku og teygt það upp í sirka tvo tíma.
createdTimestamp““:““2024-05-23T08:38:12.620Z““
„Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. Auðvitað missa gagnrýnendur oft út úr sér alls konar vitleysu í sjónvarpi – Kiljan er nánast í beinni, tekin upp í beit og lítið klippt – en þetta er samt svolítið fyndið. Mín tvö sent hljóma svona: Ef manni finnst bókarkápan á Kærastinn er rjóður ekki frábær þá á maður ekki að vinna við að leggja fagurfræðilegt mat á neitt og ef það er ekki fyrren maður opnar bókina og les ljóðin sem maður áttar sig á að ljósmyndin á forsíðunni (á bók sem heitir Kærastinn er rjóður – ljósmynd af rjóðum manni) á sennilega að vera af hinum rjóða kærasta þá er maður kannski ekki í sínu besta bókmenntagreiningardagsformi. Sjálfum finnst mér bókin frábær. Ég á svolítið erfitt með að tjá mig um ljóðabækur svona ósjálfrátt – einsog ég skrifa hérna – og beint í kjölfar þess að ég les þær. Ég veit ekki hvað það er. Kannski geri ég öðruvísi kröfur til mín um að það sem ég segi meiki einhvern sens en t.d. þegar ég skrifa um einhverja plötu eða bíómynd, sem ég hef ekkert sérstakt vit á og á ekki að hafa. Kristín er á svipuðum slóðum og hún hefur alltaf verið í ljóðunum, þematískt og táknrænt, en það er eitthvað að leka inn úr annað hvort leikhúsinu eða prósanum í stílnum – sem er látlausari (en ekki merkingarlausari fyrir það). Hún er að fjalla um sambönd – kannski fyrst og fremst heterónormatíf sambönd í patríarkískum heimi, en ekki endilega bara það og sennilega má lesa táknin í víðara samhengi – en maður vill ekki heldur fljóta alveg út í geim bara þótt maður geti það. Hún er að fjalla um einmanaleika – þrána eftir öðrum – og beiskjuna sem vex á milli fólks. Er látlausari stíll fullorðnari – þroskaðri? Manni hættir til að finnast það en ég er ekki viss. Fyrst og fremst er hann lævísari – loftfimleikar tungumálsins eru ekki jafn augljósir og í fyrri bókum hennar, en þeir eru engu minni þótt hreyfingarnar séu fínlegri. Textinn er líka ágengur – passíf-agressífur frekar en agressífur, einsog Kristín hefur verið áður í bókum sínum. Kaldur og óþægilegur – það fer ekki jafn mikið fyrir blóðhitanum hérna, nema að litlu leyti, ástríðunni sem hefur fært manni ákveðna samúð með vonlausum elskendum fyrri bókanna. Þetta er samanbitnara fólk – tilfinningarnar kannski að mörgu leyti erfiðari – og þetta er auðvitað minna „rómantískt“. Kristín hefur fundið að því að fólk sé að leita að tilteknum kærustum í bókinni. Ég hef svolítið ofnæmi fyrir því að fólk biðjist undan ævisöguaðferðinni í lestri – maður þarf að vera frjáls um sinn lestur og sína túlkun (m.a.s. gagnrýnendur í útvarpi og sjónvarpi) og höfundar verða bara að sætta sig við að vera berskjaldaðir fyrir slíku. Að því sögðu er ég búinn að þekkja Stínu lengi (kynntumst á ircinu – bókstaflega – fyrir aldarfjórðungi!) og þekki nokkra af fyrrverandi kærustum hennar mjög vel, hef lesið allar bækurnar hennar (og megnið af bókunum fv. kærastanna líka) og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf leyst úr neinu svona hver-á-að-vera-hver hérna. Einsog í öllum bókmenntum byggir Kristín áreiðanlega á eigin reynslu – bækur eru fullar af díteilum úr lífi höfunda – en hvorki grófu og fínu drættirnir hérna eiga sér neina augljósa samsvörun í „raunverulega“ heiminum, það ég get séð. *** Aino Magnea má þola það að lesa sjaldan myndabækur á íslensku. Þegar Aram var lítill lásum við yfirleitt myndabækur fyrir svefninn en um það leyti sem hann var 7-8 ára skiptum við alfarið yfir í kaflabækur. Þær miðast þá alla jafna við að hún hafi gaman af þeim líka – en mamma hennar, sem les annað hvert kvöld, les sitthvora bókina fyrir þau (og getur þá t.d. leyft sér Harry Potter og þannig lagað, fyrir Aram). Við eigum samt óhemju af myndabókum og margar höfum við aldrei lesið – og enn fleiri hefur Aino aldrei lesið. En nú fóru Nadja og Aram suður á síðustu helgi (Aram var að tromma með tónlistarskólanum í Hörpu og Nadja í vinnuferð – af sömu ástæðu var hvorugur kvikmyndaklúbbur heimilisins starfræktur á helginni) og þá lásum við Aino tvær myndabækur sem hún valdi úr hillunni. Sú fyrri heitir Nói og hvalrekinn, eftir Benji Davies, og fjallar um ungan dreng sem finnur hval á ströndinni, fer með hann heim í baðker og felur hann fyrir pabba sínum (þeir virðast búa bara tveir saman). Svo finnur pabbinn auðvitað hvalinn og áttar sig á því að hann hefur ekki verið að sinna syni sínum sem skyldi – verið önnum kafinn við brauðstritið, sjómennskuna – en reiðist alls ekki. Samt fara þeir nú og skila hvalnum aftur út í sjó. Falleg saga – látlaus og ljóðræn, frumleg hugmynd og fallegar teikningar. Það eru víst til fleiri bækur um Nóa og þennan hval. Sú seinni heitir Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu og er eftir Guðna Líndal með myndum eftir Ryoko Tamura. Þessa tengdi Aino sérstaklega við og við höfum talsvert talað um hana síðustu daga. Hún fjallar um stelpu sem missir gersamlega stjórn á ruslinu í kringum sig – húsið beinlínis drukknar í drasli og einhvers staðar í draslinu týnist s.s. litli bróðir hennar. Eina leiðin til að sigra „ruslahvelið“ er að taka til. Í sjálfu sér er kannski skrítið að stelpan virðist bera ábyrgð á öllu heimilinu – þannig þarf hún t.d. að vaska upp og gera ýmislegt sem er yfirleitt ekki á ábyrgð barna. En hún hefur sosum verið að rusla þetta til líka – gera sér samlokur og eitthvað. Þetta er líka falleg saga – meira af „brjálaða“ skólanum en þeim ljóðræna. Það er eitthvað mjög norrænt við þessar bækur um mjúka, ljóðræna stráka á aðra höndina og trylltar drulluprinsessur á hina – eitthvað viðnám, sem er kannski að verða fyrirsjáanlegt, en virkar ágætlega enn. Fyrir einhverjum vikum síðan ákváðum við að hætta að atast stöðugt í Aino með tiltekt og bíða þess einfaldlega að hún yrði þreytt á draslinu sjálf og sá dagur er eiginlega upp runninn, svona um þessar mundir (það stefnir í allsherjar Marie-Kondo-dag á heimilinu á morgun). Þess vegna tengir hún svona hart – maður kemst varla inn til hennar fyrir drasli. *** Djassgítarleikarinn Andrés Þór mætti með Paradox-kvartett og lék samnefnda plötu á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum. Þeir hentu líka í einn standard í uppklappi en nú er stolið úr mér hvaða lag það var. Ég hafði aldrei heyrt Andrés spila áður og hafði ekki nema óljósa hugmynd um hver hann væri. En ég reyni að mæta á djasstónleika hérna, sem eru nokkuð tíðir, og sérstaklega ef það er gítarleikari. Og þvílíkur gítarleikari! Ótrúlega naskur á melódíur og synkóperingu – bæði í lagasmíðum og spuna. Ég hef hlustað nokkrum sinnum á plötuna á þessari viku sem er liðin síðan tónleikarnir voru – eftirlætis lögin mín hingað til eru þau sem voru á miðju prógrami tónleikanna, Avi, Schrödinger’s Cat og Tvísaga. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom inn var annars pedalaborðið – verandi með svolitla gítargræjudellu. Djassgítarleikarar eru voða oft bara með snúru beint í magnarann eða í mesta lagi 1-2 fetla á gólfinu en Andrés er með fullskipað pedalaborð. Ég kunni sosum ekki við að rýna í það en tók strax eftir því að hann var með Strymon Flint – reverb og tremolo effekt sem ég er einmitt að safna mér fyrir (les: selja aðra fetla svo ég geti réttlætt kaupin). Sem var skemmtileg tilviljun. Næsta skemmtilega tilviljun var svo þegar hann gengur inn með forláta Eastman T386 gítar í fanginu – en kvöldið áður hafði ég legið andvaka í rúminu og verið að gúgla alternatífum við Gibson ES-335 og rekist á þessa og lesið heilmikið um þá. Þriðja og síðasta og sennilega skrítnasta tilviljunin var svo þegar Andrés kynnir lagið J.L. – sem heitir ekki eftir húsinu heldur dönskum gítarleikara, vini Andrésar og „youtube-stjörnu“ sem heitir Jens Larsen. Ég horfi talsvert á gítarmyndbönd á YouTube og þótt ég spili lítinn sem engan djass hafði ég einmitt tekið upp hjá sjálfum mér að læra Blue Bossa og hafði daginn áður legið yfir myndbandi með Jens Larsen, þar sem hann kennir manni hvernig sé best að spila arpeggios yfir hljómaganginn. Og hafði aldrei rekist á þann mann áður. Sándið í gítarnum gat orðið svolítið hvellt af og til. Ekki að hann væri beinlínis of hátt stilltur en þessi salur hentar djassmúsík ekkert æðislega vel – ég gæti líka trúað að Marshall-magnarinn sem Andrés spilaði í gegnum sé heldur stór fyrir svona akustískan sal. Svo er líka meira gaman að fara á djasstónleika þegar maður situr ekki bara einsog á skólatónleikum, heldur við borð og jafnvel með bjór í hendi – þar vinnur Edinborgarhúsið hands down. En sándið var líka fjölbreyttara en gengur og gerist – þökk sé fetlaborðinu, meðal annars. Sennilega hef ég bara tvisvar farið á betri djasstónleika – þegar ég sá Lenni-Kalle Taipele spila … sennilega var það á Gauknum fyrir ábyggilega 20 árum. Og um svipað leyti þegar ég sá Sunnu Gunnlaugs spila fyrir mig og mömmu og kannski einn annan í þessum sama sal, Hömrum. Af lífi og sál. Það vill til að sami trommari, Scott McLemore, lék með Sunnu þá og lék með Andrési núna – en hann er held ég giftur Sunnu. Aðrir í bandinu hjá Andrési voru Agnar Már Magnússon á píanó og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Og alveg jafn lygilega færir og Andrés Þór – eða allavega svo gott sem. *** Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannesdóttur. [Hér á eftir er hugsanlega spoiler, þið lesið á eigin ábyrgð]. Einsog allir sanngjarnir og réttlátir áhrifavaldar gera þarf ég að taka fram að bókina fékk ég ókeypis, einsog hvert annað meiköpp-kitt eða fæðubótarefni. Bókin er í nóvellulengd og gerist á nokkrum dögum. Ungur sjómaður með alla vasa fulla af peningum fer á fyllerí og lætur varla renna af sér á meðan sögunni stendur. Þetta er í sjálfu sér þekkt form – ekki síst á fyrstu bók – djammið sem „píkareska“, alveg frá On the Road til Millilendingar og Við erum ekki morðingjar. Mætti jafnvel setja Kokkál þarna inn líka. Og sannarlega mína fyrstu – Hugsjónadrusluna. Ólyfjan hins vegar sker sig þannig úr að fylleríið er eiginlega öll bókin – þetta er bara misdrukkinn maður að þvælast í gegnum skemmtanalífið á meðan „alls konar“ gerist (frekar en að djammið marki söguna eða bergmáli í gegnum hana). Maðurinn hefur enga sérstaka skoðun á því sem hann sér og er sjálfur erkitýpa – einsog „höfundurinn“, sem kemur fyrir í bókinni, nefnir sjálfur. Einsog aðrir karlmenn í bókinni hefur hann fátt annað til brunns að bera en að vera algert fífl – einsog skrifaður upp úr einhverju why-are-men-assholes twitter-ranti. Ólyfjan virkar meira á mig sem ritlistaræfing efnilegs höfundar en kláruð bók. Að miklum hluta til skrifast það á forlagið – ef það er eitthvað sem manni er ljóst frá fyrstu síðu þá er það að bókinni hefur nákvæmlega ekkert verið ritstýrt (eða þá mjög, mjög illa). Málfarið er mjög klaufalegt á fyrstu síðunum en skánar svo eftir því sem líður á bókina – nánast einsog höfundur sé að læra að skrifa samhliða því sem hann skrifar bókina. Píkareskur þurfa ekki að vera á leiðinni neitt sérstakt – ágætis dæmi um frábæra píkaresku sem er á leiðinni beint út í ruglið er Austur Braga Páls – en stefnuleysið hérna er bara of mikið einsog að vera sjálfur á mjög hversdagslegu fylleríi (með einhverjum steingeldum fávita). Og samt er hellingur þarna – það er ofsalegur kraftur þegar Díana gefur í og vandar sig og sagan er einhvern veginn alltaf alveg í þann veginn að fara að blómstra. Og hún hefur augljóslega miklu betri tök á skrifunum í lok bókar en í upphafi – þótt metafiksjónal tvistið hafi verið jafn erindislaust og fylleríið. Hún þarf að beisla þessa orku og beita henni fyrir eitthvað sem henni brennur fyrir brjósti – og kannski er þá ágætt að hún sé þá búin að hreinsa allar helstu djammsögurnar af borðinu. Ólyfjan er ekki góð bók – þótt það sé ýmislegt gott í henni – og ég spái því óhikað að næsta bók Díönu verði miklu betri. *** Ásta Fanney Sigurðardóttir gaf á dögunum út það sem maður gæti kallað sína fyrstu bók „í fullri lengd“. Ljóðabókina Eilífðarnón – og fylgir þar eftir singulnum Herra Hjúkket og samstarfsbókinni Vísnabók með CD. Á bókamerkinu sem fylgir með bókinni stendur að Ásta hafi einhvern tíma verið kölluð „spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda“. Það vill einmitt til að það var ég sem kallaði hana spaðaásinn og ég stend við það. Ljóðlist Ástu síðustu svona átta árin (og sennilega lengur, þetta eru átta ár sem ég hef vitað af henni, og jújú, ég man reyndar að hún vann einhverja keppni ásamt vinkonu sinni löngu fyrr) hefur ekki síst birst í gjörningum og upplestrum og eru fá skáld sem ferðast jafn víða og hún eða sýna jafn mikinn metnað í ljóðaperformansi. Lengi vel – kannski enn – endurtók hún sig heldur aldrei á sviði, sem er rosalega intensíft þegar maður kemur mikið fram. Ásta er hins vegar alveg jafn fær og jafn tilraunakennd eða flippuð, full af leik og ljóðrænu, flissandi launfyndni, á síðunni og hún er á sviðinu og Eilífðarnón er instant-klassíker í íslenskri framúrstefnu, sem er ósennilegt að einu sinni Ásta sjálf toppi neitt í bráð. Eða það er allavega mitt fyrsta viðbragð. Mér finnst mikið af ljóðlist síðustu ára vera góð – en hún er líka svolítið sjálfri sér lík, svolítið svipaðar raddir (kannski vegna þess hve margir fóru í gegnum sama ritlistarnámið) og í því geri, þessu geri íslenskra ljóðskálda, er Ásta alger spaðaás – beint út úr erminni, skák og mát – og það hvernig hún beitir tungumálinu, tökin sem hún hefur á því og þessi furðu lífræna tengingin sem hún hefur við það, hljóð þess og merkingu, ljóðmyndir og málfræðilega slóða, er einfaldlega engu lík, algerlega einstök. Hafi maður minnsta áhuga á íslenskri ljóðlist verður maður að eignast þessa bók, punktur og basta, yfir og út. *** Í annað skiptið í sögu „gítarleikara vikunnar“ er gítarleikarinn íslenskur (hinn var Langi Seli). Andrés Þór.