Author: kolbrunarskald
id““:““5povm““
Ég veit ekki hvað maður gerir með hina svonefndu blues revivalista. Ég veit ekki einu sinni hvernig er best að íslenska hugtakið. Blúsvakning – jújú – en blúsvökumenn? Er það gjaldgengt? Of karllægt – þetta voru held ég 99,99% karlar. Eða strákar, eiginlega. Látum það allavega heita gjaldgengt í þessari færslu. Vakning og vaka er ekki alveg sami hluturinn en blúsvakningamenn er bara ekki jafn hljómfagurt. Hvað um það! Það þarf ekki allt að vera svona flókið! Áfram með smjörið! Það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk á við þegar það talar um blúsvakninguna. Maður gæti átt við fyrstu hvítu blúsarana – Bob Dylan, John Mayall, Clapton, Led Zeppelin og Stones. Maður gæti átt við starf þjóðfræðinga á borð við feðgana John og Alan Lomax – sjálfa dokumenteringuna – eða tónlistarmógúla einsog John Hammond. Og maður gæti verið – einsog ég, og sennilega flestir sem nota hugtakið – að tala um blúsnördin sem spruttu upp beggja vegna Atlantsála eftir stríð og byggðu með sér fámennt en kraftmikið samfélag hvers blómatími er sennilega svona 1959-1965, en varð til í lok seinni heimsstyrjaldar og stendur enn í dag. Kjarninn í þessu samfélagi á gullöld þess er mjög fámennur – örfáir tugir dedikeraðra þráhyggjusjúklinga – og eina ástæðan fyrir því að nokkur skriður kemst á þennan köntríblús er samsláttur þeirra við aðra og stærri hópa. Á fyrra skeiði sínu, fyrir innreið hippismans, er blúsvakningin einsog hliðarhobbí við djassplötusöfnun – margir blúsvökumanna segja frá því í viðtalsbókinni Pioneers of the Blues Revival eftir Steven Cushing að þeir hafi fengið að hirða blúsplötur úr söfnum djassgeggjara, sem stóð meira og minna á sama um þessar plötur en enduðu stundum með þær í höndunum þegar þeir voru að kaupa söfn í heilu lagi. Ég veit ekki hvort þeir gerðu einsog blúsvökumenn sem keyrðu stundum um í hverfum svartra og kölluðu út um gluggann að þeir vildu kaupa plötur – eða bönkuðu upp á og spurðu hvort það væru til nokkrar gamlar plötur. En það var í öllu falli talsvert meiri vinna að safna plötum á þessum tíma en það er í dag.
Á seinna skeiðinu fara þeir svo í samflot með folk revival hreyfingunni. Þá eru þeir ekki lengur bara að safna plötum heldur farnir að safna lifandi fólki – leita uppi svarta blústónlistarmenn og koma þeim inn á folk-hátíðirnar og hippa/bítnikkakaffihúsin. Stór hluti af starfinu fram til þess tíma er fræðilegt grúsk – bæði að safna plötum en líka að grafa upp skjöl og myndir og taka viðtöl. Þá er mikið lagt upp úr því að gera almennilegar útgáfuskrár – komast að því hvað hafði verið tekið upp, hverjir léku í hvaða lögum og hvað væri til og hvað væri týnt. En þarna snemma á sjöunda áratugnum – ég tala um hippa en þetta er eiginlega forhippismi – er farið að gera nýjar upptökur, nýja tónleika og tónlistin og tónlistarmennirnir eru ekki lengur bara einhver forsöguleg abstraksjón heldur lifandi. Það er svo skrítið að þeir nefna það margir að hafa skyndilega bara „fattað“ að tónlistarmennirnir gætu verið á lífi. Einhvern veginn hafði það varla hvarflað að þeim af viti – en þetta eru bara þrjátíu ár. Ef við berum það saman við daginn í dag væri kannski hægt að segja að jújú, Kurt Cobain sé dáinn og Chris Cornell líka, en Dave Grohl er enn að túra heiminn og ég held að Zach de La Rocha sé enn á lífi, þótt maður heyri sjaldan frá honum. Þeir eru að vísu flestir aðeins eldri – Son House og Skip James eru báðir 62 þegar þeir finnast (meðalgruggrokkarinn er fimmtugur 2020) og lífaldur skemmri, ekki síst fyrir svarta menn í deltunni. Ein ástæða þess að ég veit ekki hvað ég á að gera við blúsvökumennina er að allt þeirra ótrúlega mikilvæga starf orkar svo mikið tvímælis – þeir eru stundum mjög rænulausir í ákafa sínum og ástríðu. Á aðra höndina björguðu þeir ótrúlegum verðmætum frá gleymsku án þess að græða mikið á því sjálfir, ef nördastig eru frátalin. Á hina höndina eru þeir hvítir gestir í landi þessarar svörtu alþýðutónlistar og leggja á hana sitt eigið gildismat sem stýrir fagurfræði blússins æ síðan. Ef þeirra hefði ekki notið við væru sennilega flestar upptökur manna einsog Son House og Skip James og Mississippi John Hurt týndar og tröllum gefnar og enginn þeirra hefði öðlast nýjan feril á sjöunda áratugnum – og við ættum þar með engar nýrri upptökur af verkum þeirra. Fyrir blúsáhugamann er það einsog að týna hómerskviðum eða píramídunum. En ef þau hefðu glatast væri áherslan kannski bara meiri á Gilgamesh og Mayahofin. Það er auðvitað ómögulegt að segja hvert landslagið hefði verið án þessarar tónlistar. Þegar Stones drógu Howlin’ Wolf með sér í unglingaþáttinn Shindig! í Bandaríkjunum – þeir gerðu það að skilyrði fyrir sínu giggi að annað hvort Muddy eða Howlin’ Wolf fengi að fljóta með – var nýbúið að finna Son House í Rochester, og einhvern veginn var honum smyglað inn í stúdíóið til að hitta Howlin’ Wolf. Brian Jones missti kúlið og féll á hnén við fótskör Wolfs; og þegar Son House birtist – sem enginn hafði séð í meira en tvo áratugi – missti Wolf kúlið og féll á hnén við fótskör House. Wolf varð reyndar síðar mjög fúll út í House að hafa leyft sér að breytast í byttu – það er klippa á YouTube þar sem Wolf les sínum gamla lærimeistara lexíuna . Brian Jones hafði óljósa hugmynd um tilvist House en þekkti tónlistina ekki að ráði – hann fékk hana í gegnum Wolf. Svo er spurning hvort það sé nóg. Dylan sagði einhvern tíma að munurinn á sér og Donovan væri sá að Donovan hefði aldrei orðið fyrir áhrifum af neinum öðrum en Dylan – „he only got me, he never got what I got“ og átti þar við tónlistarsöguna þar á undan, að Dylan hefði mótast af fleiri kynslóðum tónlistarmanna, en Donovan bara byrjað á top of the folk-pops 1963. Hugsanlega væru hugmyndir okkar um uppruna blússins litaðri af mönnum einsog Leroy Carr, Big Bill og Josh White, ef blúsvökumanna hefði ekki notið við – en það er tónlist sem er erfiðara að sjá í verkum Muddys og Wolfs. Þar skortir þráð. Wolf fær sitt frá Charley Patton (og við hans hlið var alltaf Son House) og Stones fá sitt frá Wolf – og við myndum bara þekkja Son House af orðsporinu. Carr, Bill og White voru allt vinsælir tónlistarmenn og höfðu sennilega meiri áhrif í dægurlagaheiminum og á folk-tónlistarmenn – þetta segi ég þeim ekki til hnjóðs, ég elska tónlist þeirra allra, en þetta er hreyfing í aðra átt. White var beinlínis einn af allra vinsælustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á fyrri hluta aldarinnar og að hann skuli jafn gleymdur og raun ber vitni er sennilega bæði vegna McCarthyismans sem bannfærði hann fyrir stjórnmálaskoðanir hans og svo blúsvökumennina sem höfðu ekki áhuga á þessari fágun og færðu fókusinn yfir á „listrænni“ og/eða harðari blúsara. Þegar maður vill gera lítið úr blúsvökumönnum lætur maður einsog þeir hafi verið miklir forréttindapésar sem hafi haft svarta tónlistarmenn að féþúfu. Fyrir því er hægt að týna til ýmis rök en það gengur eiginlega ekki upp nema maður sé góður í kirsuberjatínslu – því þótt maður geti til dæmis bent á að sennilega hafi umboðsmenn Mississippi John Hurt haft hann að féþúfu var það undantekning hjá þeim – og regla annars í tónlistarbransanum; og þótt maður geti bent á að einhverjir blúsvökumannanna hafi verið úr efri millistétt þá var það líka undantekning. Flestir þeirra virðast hafa notið liftarhafts síns (og kyns), og þótt það sé sannarlega ekki ekki-neitt, nutu þeir ekki endilega annarra forréttinda í lífinu og blúsáhuginn virðist hafa kostað þá miklu, miklu meira en þeir græddu á honum. Þeir ferðuðust ekki bara þvert yfir Bandaríkin til að finna einhverja blúsmenn til að tala við – stundum komu þeir alla leiðina yfir hafið frá Bretlandi og eyddu í það nærri aleigunni. Og áður en það var auðvelt að fjölfalda upptökur fóru enskir blúsvökumenn til Parísar – aftur á skóþvengsfjárlögum – af því það fréttist að þar byggi maður sem ætti tveggja-laga Charley Patton plötu sem þeir höfðu aldrei heyrt. Þeir sem höfðu það skást eru sennilega þeir sem fóru menntaveginn með þessu og gerðust einhvers konar akademíkerar (ekki í neinum blúsfræðum vel að merkja, það var ekki mikið í boði í þeim efnum). Alla jafna eru þetta líka mjög ungir menn, rétt skriðnir yfir tvítugt – og alveg sama hvort maður er þá að spá í helstu leikendum 1949 eða 1961. Þeir heitustu halda áfram alla ævi en það kvarnast hratt úr hópunum eftir því sem þeir eldast og nýir taka við. Þeir sem halda áfram virðast líka margir hafa hrist af sér fjölskyldu eftir fjölskyldu í þráhyggjunni – ýmist fyrir að eyða öllum tekjum sínum í plötur eða fyrir að leiðast út í almenna óreglu (með jafnöldrum úr vakningunni og/eða eldri blúsurum). Flestir þeirra sem taka þátt í þessu eru sjálfir tónlistarmenn í þeim skilningi að þeir spila á hljóðfæri, en fáir þeirra höfðu það nokkurn tíma að atvinnu. Einhverjir þeirra léku svo alls ekki blús og vildu ekki gera það – litu einfaldlega á blúsinn sem alþýðutónlist svartra og ekki viðeigandi að þeir væru að spila hann sjálfir. Þrjár meiriháttar undantekningar eru á þessu – Al Wilson, John Fahey og Henry Vestine. Al Wilson fór ekki með að finna Son House en það var bara vegna þess að hann komst ekki og hann var lykilmaður í að hjálpa Son House að komast aftur í form og hýsti gjarna bæði Son House og Skip James þegar þeir voru á ferðinni. Fahey fann Bukka White (með því að senda póstkort til „Bukka White / Old Blues Singer / Aberdeen Missisippi / c/o General Delivery“ – eftir að hafa heyrt Aberdeen Mississippi Blues). Fahey og Vestine fundu Skip James. Fahey átti farsælan sólóferil en Vestine og Wilson stofnuðu síðar Canned Heat (sem er nefnd eftir gömlu Tommy Johnson lagi). Hér spilar Canned Heat á Woodstock. Henry Vestine hætti í hljómsveitinni vikunni áður. Lagið virðist vera einhvers konar útgáfa af I Believe I’ll Make A Change sem bæði Leroy Carr og Josh White gerðu frægt en var samið af bræðrunum Pinetop og Lindberg. Ég vil svo skilja þetta að mestu frá spurningunni um frumleika og þjófnað í blúsnum – þótt Canned Heat menn hafi verið í hvorutveggja. Einsog blúsvakning nördanna er sá heimur félagslega og pólitískt problematískur – og einsog með hann finnst mér að langflestu leyti ósanngjarnt að fárast bara yfir honum fyrir það, en af öðrum ástæðum. Veröldin er margslungin og maður vildi oft að hlutirnir gerðust ekki nákvæmlega einsog þeir gerðust – ekkert svo með öllu gott að ekki boði líka einhverja helvítis vitleysu. Afstaða mín til blúsvökumanna – dómsorð þessarar færslu – er að þeir hafi unnið stórfenglegt og óeigingjarnt starf og þótt mikilvægt sé að skilja annmarka þess og vankanta sé fullkomið virðingarleysi að gera lítið úr því.
createdTimestamp““:““2024-05-11T18:17:50.887Z““
Þetta var fremur róleg vika í menningarneyslunni. Ég veit ekki hvað veldur – ekki einsog maður hafi ekki nægan tíma. Sennilega skrifaði ég síðast á þriðjudegi og þá er hún degi styttri. Reyndar eru alls konar hlutir mjög tímafrekir hérna. Laugardagurinn fór sem dæmi nánast allur í að versla (án þess að við værum að kaupa nein ósköp – í matinn og nokkra smáhluti sem vantaði). Mest kemur mér á óvart hvað ég las lítið – í bók að minnsta kosti. Eina skepnu – svo er ég reyndar langt kominn með aðra bók en hún býður næstu viku (og gengur furðu hægt). Ég hef talsvert lagt mig eftir greinum um ástandið hérna í Hondúras og fundið lítið en það sem ég hef fundið er ítarlegt og gott – einsog þeir sem skrifi um stöðuna leggi meira í það vegna þess að það þarf alltaf að útskýra allan bakgrunn og kannski skiptir bara meira máli að það sé vel gert þegar það eru ekki allir að skrifa um þetta. Nema hvað. Eina stutta bók – Lykt af brenndum fjöðrum eftir Daníil Kharms. Bókin kom út sem Sérrit Bjarts og frú Emilíu fyrir sléttum 100 árum. Nei, djók, fyrir kannski sirka 20 árum, gæti ég trúað. Þetta eru stuttir textar, ein lengri smásaga, brot/athugasemdir og nokkur ljóð í restina. Stíllinn er heillandi afslappaður og húmorinn það sem ég held að kallist „sérlundaður“ – svona Tvíhöfði síns tíma, eða Andy Kaufman ef maður vill fara lengra aftur. Maður veit ekki alltaf hvað á að vera fyndið við þetta en þetta er samt óneitanlega frekar spaugilegt. Ég hugsaði mikið til Friðriks Sólnes meðan ég las – eitthvað til Borgesar (þótt það sé kannski langsótt), Þorsteins Guðmundssonar og Barkakýlis úr tré og jafnvel einhvers einsog Aesópar. Einfaldast er að taka bara dæmi: *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á bíómyndina Skrímsli í París. Aino valdi. Við höfðum séð þessa mynd áður – ég virðist reyndar hafa misst af byrjuninni í fyrra skiptið, man ekki hvers vegna – en horfðum á hana aftur vegna þess að það ku hollt að horfa á hluti aftur (og lesa hluti aftur) og vegna þess að við áttum góðan eftirmiðdag í París um daginn og ræddum þá talsvert um hvar við hefðum séð Eiffelturninn og allt hitt áður. Ladybug – þættir sem Aino horfir talsvert á og við stundum með henni – gerast til dæmis í París. Skrímsli í París fjallar um tvo menn sem fara óvarlega á tilraunastofu vísindamanns (sem er fjarri góðu gamni) með þeim afleiðingum að lítil fló verður risastór og fer að skelfa Parísarbúa alls staðar þar sem hún fer. Flóin kynnist svo kabarettsöngkonu (vinkonu mannanna tveggja) sem uppgötvar að hún getur sungið einsog engill – dulbýr flóna og syngur með henni í kabarettsýningunni við miklar vinsældir. Á meðan þessu stendur er lögreglustjóri bæjarins – og vonbiðill kabarettsöngkonunnar, við lítinn fögnuð hennar – að reyna að klófesta flóna, aðallega sjálfum sér og sínum ferli til dýrðar. Allt endar þetta með ósköpum, einsog vera ber, en fer svo vel á síðustu stundu. Þetta er skemmtileg saga og þótt ég hafi oft vel því fyrir mér hvað hún væri að reyna að segja mér – hver sögn myndarinnar væri, einsog maður segir – þá velti ég því samtímis talsvert fyrir mér hvort hún þyrfti að hafa einhverja sögn. Listaverk hljóta að mega vera „bara sögur“ – rétt einsog þau mega hafa sögn eða boðskap án þess að þeim beri skylda til þess. Maður er sennilega sérstaklega vakandi fyrir þessum víddum í barnaefni af því maður óttast alltaf að bækur og myndir muni breyta börnunum manns í Vigdísi Hauks ef maður fylgist ekki með. Það er ábyggilega misskilningur. Það sló mig reyndar að ólíkt mörgum bíómyndum, sem hafa jafnan svipaðan strúktúr og plottuð smásaga eða nóvella (kynning, plottdrífandi breyting sem veldur ójafnvægi í heimi sögunnar, uppgjör) þá væri margt þarna líkara skáldsagnauppbyggingu á háu tempói. Margir karakterar, mörg hliðarplott (þótt við sæjum mörg þeirra bara stuttlega) og svo framvegis. Ég spekúleraði ekkert í þessu frekar – man bara að ég hugsaði þetta á meðan myndinni stóð og kannski var þetta bara einhver dilla sem ekki stenst. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á sænsku bíómyndina Samablóð. [HÖSKULDARVIÐVARANIR] Í upphafi myndar hittum við fyrir fjörgamla kellingu, Elle-Marju (sem kallar sig síðar Christinu) og son hennar sem dregur hana norður til Samalands í jarðarför systur sinnar. Kellingin er full af fordómum í garð sama – þeir stela, ljúga, jojkið er bara eitthvað garg og svo framvegis – og vill alls ekki fara og líður illa í bæði jarðarför og erfidrykkju, neitar að gista hjá ættingjum sínum og nælir sér í hótelherbergi. Eftir að sonur hennar og barnabarn skilja hana eftir (hún vill ekki fara / bregst of seint við) og fara með þyrlu upp á fjall til að taka þátt í hreindýramerkingum fer hún á diskótek á hótelinu og dettur inn í fortíðina. Þá er hún ung kona í Samalandi á fjórða áratugnum. Hún og systir hennar eru sendar í skóla þar sem eru bara samar og allir alltaf klæddir í samabúning. Hún verður fyrir margs konar fordómum – kennarinn, ung, fögur og afar sænsk kona, álítur þau of heimsk fyrir frekara nám og segir að heilarnir í þeim dugi ekki til að lifa af í borginni, samar deyi út ef þeir haldi sig ekki norðurfrá með hreindýrunum. Strákar í nágrenninu tala illa um samana og þegar hún konfronterar þá skera þeir í eyrað á henni (einsog hún merkir sjálf hreindýr nokkru fyrr). Allir horfa á þau og hafa fordóma. Höfuðlagsfræðingar koma og mæla börnin – taka myndir af þeim allsberum og grátandi á meðan nágrennisstrákarnir liggja á rúðunum. Kvöld eitt stelur hún kjól af kennslukonunni og fer á ball – þar kynnist hún ungum manni sem heillar hana og þau eru komin afsíðis til að kela og kannski ríflega það þegar fólkið úr heimavistarskólanum mætir og dregur hana burt, en ekki áður en hún fær heimilisfang stráksins. Nokkrum dögum síðar stingur hún af til Uppsala þar sem hún bankar upp á hjá mjög svo borgaralegum foreldrum stráksins – sem er á balli þegar hún kemur – og segir að sér hafi verið boðin gisting. Þau eru fremur hvumsa og ókurteis og geta varla talað við hana af furðu og viðbjóði. Strákurinn kemur heim um nóttina – þau talast við, skemmta sér, sofa hjá – og daginn eftir láta foreldrar hans hann senda hana sinn veg (enda höfðu þau heyrt þau stunda kynlíf, vissu einhvern veginn að hún væri sami og þar með óverðug og höfðu áhyggjur af að hún yrði eða væri þegar ólétt). Elle-Marja skráir sig í skóla undir nafninu Christina – segist vera frá Smálöndum. Vantar pening fyrir skólagjöldum – spyr ríka strákinn sem spyr hvers vegna hún spyrji ekki foreldra sína. Þá fer hún aftur norðureftir, spyr mömmu sína, sem neitar fyrst en gefur henni að endingu silfurbelti pabba síns (sem er dáinn). Þá erum við aftur á diskótekinu. Kellingin starir út um gluggann – og einhvern veginn augljóslega breytt, augljóslega ekki full af sjálfshatri og skömm. Daginn eftir fer hún gangandi á fjöll og finnur samabúðirnar. Myndin endar. Þetta er kraftmikil mynd og hún er betri þegar maður horfir á hana en svona í endursögn. Hún er vel leikin, vel leikstýrt, falleg og sagan er trámatísk og erfið. Við Nadja vorum sammála um það þegar hún kláraðist að myndin væri góð. Og hún er góð þrátt fyrir vankanta sína – sem ég tel vera eftirfarandi:1. Einsog furðu margar sænskar myndir og bækur er veruleiki hennar að mörgu leyti svarthvítur – ég sakna þess að það séu núansar. Svíarnir voru allir ofsalega sænskir og samarnir ofsalega samískir og sjálfshatandi saminn ofsalega sjálfshatandi sami og rasisminn ofsalega rasískur. Línurnar eru svo skarpar. Þetta er eitthvað sem á rætur a.m.k. allt aftur í sænska sósíal-realismann og ég held að þetta sé heiðarleg tilraun til þess að líta ekki undan og gefa ekki afslátt gagnvart hroða heimsins. Svíar eru sem (menningar)þjóð gjarnir á að vera með samviskubit, afar kröfuharðir um sitt réttlæti og einsog þeim finnist rangt að horfa á björtu hliðarnar. Auðvitað á þetta ekki við um alla Svía – kannski bara menningararminn – Svíar eru líka sjálfumglaðir einsog allir aðrir (og margir þeirra eru hreinlega Svíþjóðardemókratar og þeir kunna ekkert að skammast sín).2. Manni finnst einsog sagan sé rétt að byrja þegar hún er skyndilega búin. Ekkert að því að hoppa frá einu aldursskeiði til annars – en það vantaði bara að klára söguna með strákinn í Uppsala (var hann pabbi sonarins? þeir voru líkir) og skólann. Þetta er ekki stór galli og ég get vel fyrirgefið hann.3. Fjörgömul kelling gengur ekki á fjöll þangað sem frískt fólk á besta aldri fer á þyrlu. Ekki einu sinni þótt um æðar hennar renni 400 oktana samablóð.4. Það var ekki sannfærandi að hún hristi bara af sér allt sjálfshatrið með því að standa á diskóteki í nokkrar mínútur og rifja upp æsku sína meðan hún horfði út um gluggann. Við sáum þar ævi hennar í fyrsta sinn og eðlilega hrærðumst við af því – en þetta var ekkert nýtt fyrir henni. Sjálfshatur – afleiðing áratugalangs rasisma sem er alls ekki horfinn þótt hann hafi skánað (og í myndinni virkar hann a.m.k. fremur slæmur enn) – er of inngróið til þess að maður geti bara svona úpsadeisí eitthvað losað sig við það með réttum trigger. Það er búið að kynna okkur fyrir trámatíseraðri stúlku sem elst upp í mjög fjandsamlegu umhverfi og gamalli kerlingu sem getur ekki heyrt jojk í útvarpinu án þess að byrja að ragna – hún fyllist ekkert alltíeinu nostalgískri andakt yfir samalífinu. Ég bara kaupi það ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Robert Johnson. Lagið er Dead Shrimp Blues – Nárækjublús. Á Twitter í vikunni sá ég eitthvað fólk eiga í hinni klassísku samræðu um að gítarinn væri dauður og gítarsóló væru sjálfsfróun fyrir framan annað fólk (einsog það sé ennþá sixtís til eitís og við öll að drukkna í gítarsólóum í meinstrím tónlist). Auðvitað má það til sanns vegar færa samt með gítarleikinn – allur góður gítarleikur er „peacocking“ – einsog margt annað reyndar, t.d. hjólabrettaiðkun, frístæl-rapp og alls kyns aðrar kúnstir. En það er önnur Ella sem ég ætlaði ekki að ræða – Nárækjublúsinn er sérstök tegund af sjálfsfróun fyrir framan annað fólk af því hann fjallar um getuleysi.
createdTimestamp““:““2024-05-22T02:58:02.816Z““
Ég kláraði þriðju þáttaröð af Glow. Gorgeous Ladies of Wrestling. Ég er ekki frá því að mér hafi fundist hún allt í lagi. En kannski horfi ég alls ekki á sjónvarp til þess að hugsa mikið um það. Það voru narratífar flækjur þarna sem voru látnar vera – fá að grassera áfram – og það var vel þegið. Ég er alveg kominn með ógeð á þessum endalausu endahnýtingum (?!). *** María veimiltíta eftir Ulf Stark. Aram valdi. Hann hefur lesið svolítið af bókum eftir Ulf Stark á sænsku held ég. Ég man ekki hvaðan þessi kemur. Kannski frá mömmu – hugsanlega er þetta eitthvað sem ég átti þegar ég var lítill. Hún er gefin út 1987 á íslensku. Bókin fjallar um Maríu sem er óttalegt ólátabarn og barnapíuna hennar, hana Gerðu, sem er eldri kona sem María heldur að sé norn, og vin Maríu, Ebba – sem heitir í alvöru Giuseppe Amadeus. María hefur talsverðar áhyggjur af því að nornin Gerða ætli sér eitthvað illt og leggur mikið á sig til að koma í veg fyrir það – grefur til dæmis öll verðmæti fjölskyldunnar svo hún geti ekki stolið þeim (og gleymir auðvitað hvar) og ákveður að fórna sér og fara með norninni í híbýli hennar til þess að hún taki þá ekki litla bróður. Ég hef alveg lesið skemmtilegri barnabækur. Ekki það hún var fín – fyndin og sniðug og vel skrifuð. Þetta eru svona klassísk skandinavísk sniðugheit af Ole Lund skólanum. En hún er sennilega ekki ein af þeim sem sitja í minninu ævilangt. *** Stílæfingar Raymonds Queneau. Ég las hana á ensku fyrir kannski 15 árum síðan. Og þótti frábær – umturnandi. Aðferðafræðin í ljóðabókinni minni, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum , er meðal annars innblásin af Stílæfingunum – og sennilega Plokkfiskbókin líka. Í Stílæfingunum segir Queneau sömu söguna aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur með tilbrigðum. Sagan er mjög einföld og snýst eiginlega ekki um neitt – mann í strætó og sama mann nokkru síðar með kunningja sínum – og frásagnartilbrigðin og uppáfinndingarsemin fá þannig að njóta sín. Það er reynt á „þanþol tungumálsins“, einsog það er kallað, með miklum fimleikum. Rut Ingólfsdóttir þýðir bókina af mikilli íþrótt og andagift. Sumt af textanum er reyndar illlæsilegt og knosað en það er líka þannig á enskunni – ég veit ekki með frönskuna en ég reikna heldur með því. Stíllinn sem liggur að baki – handan allra fimleikanna – er furðu þunglamalegur einhvern veginn. En það skiptir ekki neinu máli og kemur málinu ekki við, eiginlega, flugeldasýning bókarinnar liggur annars staðar. *** Ingi Bjarni Skúlason mætti með hljómsveit í Edinborgarhúsið og lék lög af plötu sinni Tenging. Í hljómsveitinni voru Merje Kägu frá Eistlandi á gítar, Jakob Eri Myhre frá Noregi á trompet, Daniel Anderson frá Svíþjóð á kontrabassa og Tore Ljøkelsøy frá Noregi á trommur. Lagasmíðarnar voru fínar. Ég veit ekki hvort að spilamennskan var eitthvað losaralegri í byrjun en í fyrstu lögunum varð tónlistin stundum svolítið súpuleg – en það getur líka legið í lagasmíðunum. Djass er auðvitað oft óttaleg súpa og augljóst að hluti af lagasmíðunum var í óljósum bendingum (banki í hljóðfæri og slíku). En seinni hlutinn var þéttari og í betra grúvi og heillaði mig meira. Melódískt og seiðandi. Þau enduðu svo á því að flytja nýtt lag sem er ekki á plötunni og það þrælrann þótt þau hafi haft einhverjar áhyggjur af því. Ég starði auðvitað svolítið á gítargræjurnar. Merje var að spila á það sem ég held að hafi verið Ibanez af105-nt (þau kunna sannarlega að skíra gítarana sína hjá Ibanez) í gegnum Mesa Boogie Lonestar. Hún var með þrjá pedala á gólfinu – sennilega delay, tuner og einhvers konar boost/overdrive (reif ekkert í – hækkaði bara í sólóunum og hjálpaði flaututónunum að hljóma). Frekar standard djass-settöpp held ég – ábyggilega hnausþykkir strengir í gítarnum (sem er auðvitað hollowbody) og ekkert teygt og sparlega farið með víbrató. Flott sánd en manni finnst nú samt að þessir djassgítarleikarar gætu prófað eitthvað annað af og til. *** Ég keypti tvær blúsplötur í Berlín á dögunum meðan ég var að bíða eftir því að The Dead Don’t Die sýningin hæfist. Blues Masters vol. II með Bukka White og Feelin’ Low Down með Big Bill Broonzy. Þegar ég keypti þær tilkynnti kaupmaðurinn – sem hafði staðið fyrir utan og reykt og drukkið bjór með vinum sínum þar til ég var búinn að velja mér plötur – að hann hefði séð Bukka White spila. Ég spurði ekkert frekar út í það en sló því upp og Bukka spilaði í Berlín 15. október 1967, svo það gæti allt staðist – kallinn hefur verið á aldur við pabba og því um tvítugt þá. Mér finnst það samt mjög tilkomumikið. Bukka er af gamla skólanum, byrjaði að taka upp 1930 – en hvarf í gleymskunnar dá einsog svo margir sem gáfu út þarna upp úr kreppunni og skaut ekki upp kollinum aftur fyrren Dylan byrjaði að kovera hann (Fixin’ to die blues er eftir Bukka). Platan er frá þessum tíma, eftir kombakk – 1972 kemur hún út. Þetta er vandræðagripur að sumu leyti. Það er verið að troða upp á hann rokkhljómsveit í sumum lögunum – það var oft reynt við deltablúsarana. Ýmist held ég að pælingin hafi verið að beisla kaosið í þeim eða reyna að uppfæra sándið fyrir nýja tíma. Vandinn er bara að deltablúsararnir spila fæstir „í takt“ – 12 takta blúsinn er stundum bara 9 taktar, stundum 11 og hálfur, og þeir hafa engan áhuga á samstæðum taktmælatakti heldur hægja og hraða á sér til skiptir, færa til áherslur og leika alls kyns hundakúnstir. Og svo spila þeir lögin ekki alltaf eins tvisvar í röð – lögin eru kannski ekki nema rammi sem þeir fylla með hinu og þessu (þess vegna ganga svona margar línur – bæði laglínur og textalínur – aftur í hinum ýmsu lögum með hinum ýmsu músiköntum). Það olli reyndar mörgum blúsáhugamanninum talsverðu hugarvíli að hinn andsetni Robert Johnson, sem hefði átt að vera náttúrulegastur í óreiðunni, var sá þrautþjálfaðasti og einmitt fullfær um að spila sama lagið nákvæmlega eins, nótu fyrir nótu, tvisvar í röð. John Lee Hooker var víst einna verstur – það var nánast bara kveikt á honum og hvað sem er gat komið út. En hann tók líka upp einsog óður maður með öllum sem hann gat og undir milljón nöfnum og varð á endanum alger samstarfskóngur – straumlínulagaður að taktmæli og 12 töktum. Bestu lögin á Blues Masters vol. II eru þau þar sem Bukka spilar einn. Aberdeen Blues, eftirlætis lagið mitt með honum, er hins vegar með sveit og alveg handónýtt. Ég er enn að spekúlera í Broonzy. Hann er meiri „lagasmiður“ – svona singalong – en margir deltablúsararnir. Ég hef ekki nennt að hlusta á plötuna nema tvisvar vegna þess að hún er full af endurtekningum – sama lagið tvisvar röð í tveimur (keimlíkum) útgáfum. Ég tók ekkert eftir þessu þegar ég keypti hana. *** Boðun Guðmundar eftir Eirík Stephensen. Ég hafði heyrt mikið vel af henni látið síðan hún kom út í vor einhvern tíma og lofið er allt verðskuldað. Þetta er hressilega skrifað – einmitt þegar maður hélt að bókmenntagreinin „umkomulausan karlmann skortir tilgang“ væri alveg þurrausin. Textinn er í sjálfu sér tilkomulítill en á besta hátt – maður rekur sig ekki í neitt en tekur ekki sérstaklega eftir honum heldur. Sagan af hinum drykkfellda og ólétta Guðmundi, sem ber sjálfan frelsarann undir belti, er alger dásemd. Hliðarsagan af englinum Gabríel, sem lærir hégóma af mönnunum, nær kannski ekki sömu tökum á manni en hefði alveg getað verið sín eigin skáldsaga. Ef hún hefði verið dýpkuð hefði hún orðið of plássfrek – svo það er kannski ekki það sem maður vill. Kannski hefði bara mátt draga örlítið úr henni svo maður kæmist ekki á bragðið – færi ekki að æskja einhvers sérstaklega af henni. Eða blása allt saman upp um 100 blaðsíður í viðbót. Eða bara hafa þetta einsog það er – ég er bara að reyna að finna að einhverju (guð veit hvers vegna, það er engin ástæða til þess). *** Blackkklansman eftir Spike Lee er „sönn saga“ – en þó talsvert færð í stílinn að mér skilst. Annað en með Boðun Guðmundar heyrði ég ekkert nema hallmæli um þessa mynd áður en ég sá hana. Hún er sannarlega ekki eitt af meistaraverkum Lees en að sama skapi er henni alls ekki alls varnað. Hún segir söguna af svörtum lögreglumanni sem skráði sig í klanið í síma og átti svo í símasamskiptum við meðlimi – en sendi, eðli málsins samkvæmt, félaga sinn til að vera andlit sitt út á við á samkomum. Í myndinni verður hann góðvinur Davids Duke en í raunveruleikanum náði hann honum víst bara einu sinni í síma og spjallaði stutt. Eitt af því sem ég ímynda mér að fari í taugarnar á mörgum er hvernig Spike Lee speglar Klanið í Black Power hreyfingum áttunda áratugarins. Orðræðan bergmálar þarna á milli – án þess að hann segi neitt frekar um það (og lokasenan tekur af öll tvímæli um afstöðu leikstjórans). En þetta eru auðvitað einhvers konar helgispjöll. Að benda á að hinn réttláti rembingur og hinn óréttláti eru í sömu tóntegund. Blackkklansman er einhvern veginn samtímis léttúðug gamanmynd og alvarleg sósíal-satíra – mér finnst afstaðan í henni áhugaverðari og margbrotnari en í t.d. Sorry to bother you en hún er ekki nærri því jafn vel heppnuð sem listaverk. Sorry to bother you var einhvern veginn einsog lensa – ruddist áfram og vissi alltaf hvert hún væri að fara – en Blackkklansman er tilraun til einhvers annars, til þess að hræra í fleiri lögum merkingar. En kemst ekki á leiðarenda, eiginlega. Og samt er hún mjög fín, vel að merkja – algerlega sinna tveggja tíma virði. *** Gítarleikari vikunnar er sjálfur Bukka White auðvitað og eftirlætislagið. Orð fá ekki lýst hvað mér finnst þetta geðveikt.
id““:““c4813″“
Það er farið að hægja svolítið á framleiðslunni og drengirnir – sem eru orðnir gráhærðir karlar þegar hér er komið sögu (a.m.k. Cliff) – farnir að túra lengur. Á áttunda áratugnum komu út 8 plötur frá 1974 – að vísu eitthvað útgefið á fleiri en einni plötu (fyrst í Ástralíu, svo í breyttri mynd alþjóðlega), en manni reiknast varla færri en ein á ári. Á níunda áratugnum eru plöturnar fjórar og á þeim tíunda bara tvær – og Ballbreaker er sú fyrsta, 1995 (Razors Edge er ’90 og reiknast sem síðust á níunda áratugnum). Síðan er það bara ein á áratug (hingað til). *** Á Ballbreaker er Malcolm alveg steinhættur að drekka og sennilega búinn að taka öll tólf sporin a.m.k. tvisvar. Og spilar frekar dannað – laust og fallega en í úthugsuðum, fullorðnum blús- (Chicago og Delta), köntrí-, diskó-, western- og rokkriffum – meira að segja smá metall í Caught With Your Pants Down. Og þetta er miklu meiri Malcolmplata en Angusar, en litli bróðir er þó byrjaður að vinna í nokkrum trixum sem blómstra ekki að fullu fyrren á næstu plötu. Þeim liggur ekkert á að þroskast frekar en fyrri daginn. *** Rétt einsog Razors Edge hófst á vísun í Hells Bells – „like rolling thunder“ varð að kyrjuðu „thunder“ – hefst Ballbreaker á veltunni: „a rolling rock / electric shock“. AC/DC er, einsog fram hefur komið, ekki hljómsveit sem krukkar of mikið í formúlunni. Það er engin ástæða til þess að ætla að það sem virkar á Rakhnífsegginni virki ekki líka á Knattbrjótnum. *** Textarnir eru aldrei áhugaverðari. Einn vandræðalegur – Cover You in Oil er tilraun til þess að taka í sátt eða vinna með þá staðreynd að frá og með Back in Black er hljómsveitin mjög vinsæl á sviðum fatafellna. Í dag er alveg fáránlega mikið af YouTube myndböndum af fáklæddum konum í alls kyns „pole fitness“ við undirleik sveitarinnar, fyrir þá sem hafa gaman af slíku. *** Í opinbera myndbandinu er dansarinn reyndar að maka sig í smurolíu. *** Hail Caesar er einn af skemmtilegustu textunum. Og myndbandið er ekkert minna en stórkostlegt! *** *** Down at the epicenter
Things started heatin’ up
Rockin’ up the richter scale
Swingin’ in the chariot
Around and around we go
The senators rehearse the tale Watch out Caesar I said hail Hail! hail! All hail Caesar
Hail! hail! *** Þetta er auðvitað líka vísun í For Those About to Rock – viðlagið þar er fengið frá sama Sesari: Ave, Caesar, morituri te salutant – Heill þér Sesar, við sem brátt vöðum í dauðann hyllum þig. *** Svo er það lagið Furor. *** Kick the dust, wipe the crime from the main street
Await the coming of the lord
Hangin’ round with them low down and dirty
Bringing order from the boss
What’s the furor ’bout it all
Leave you pantin’, bust your balls
Kicked around, messed about, get your hands dirty
On the killin’ floor I’m your furor
I’m your furor, baby *** Það þarf ekki brjálæðislega mikið ímyndunarafl – ímynda ég mér – til þess að heyra „I’m your Führer, baby“ og að ímynda sér að lagið fjalli hreinlega um helförina. Sem er auðvitað sikk, en samt eitthvað fallega heiðarlegt við það – og betra en öll svarthvíta rómantíkin að ég tali nú ekki um nýlegar tilraunir á borð við Lesarann eða Strákinn í röndóttu náttfötunum eða aðrar slíkar rómantískar fegranir. En svo er auðvitað alltaf stemning í AC/DC lögum, lífsháski sem skapar spennu og óþægindi hjá okkur sem tengjum stemmarann kannski ekki alveg við helförina – og ef ég væri formaður Flokks fólksins, og hefði smá snert af húmor fyrir sjálfum mér, þá myndi ég gera þetta að þemalaginu mínu og hafa það á rípít á kosningavökum. Nasistar hafa samt aldrei húmor fyrir nasisma sínum. *** Það hefði nánast mátt endurnýta myndbandið fyrir Hail Caesar óbreytt. Það var ekki gert og aldrei gefið út myndband, en auðvitað er einhver sniðugur (nasisti?) á YouTube búinn að klippa lagið saman við myndskeið úr Triumph des Willens: *** *** Þetta myndband er eiginlega hilaríus. Svipurinn á Hitler þegar Brian syngur „I’m Your Furor, Baby“ í fyrsta viðlagi er óborganlegur. *** Þess má geta að The Furor spilar hljómsveitin ALDREI live. Sennilega væri það bara of óþægilegt – og eitthvað við það útskýrir líka muninn á tónleikum og upptöku. Upptakan er kompóneruð, þar eru karakterar og stellingar og sagðar sögur – á sviðinu er tengingin milli performers og áhorfanda of bein, þar skortir alla íroníska fjarlægð, sjálfan skáldskapinn. *** Á eftir Sesar og Hitler er farið beint í ljótakallinn. Eða þannig. Í stað Bogeyman er það „boogie man“ – búggímaðurinn. Bandaríkjamenn bera orðin (næstum) eins fram – bretar segja meira bógí en búggí, kanar búgí, ég veit hreinlega ekki hvað ástralir gera en þetta er augljóslega leikur að hugtökunum tveimur. I like fine suits, smoke the best cigars
Like talking sex to women, girls in fast cars
I might be under the bed, ready to bite
So little girl, be careful, when you’re on your own tonight I’m your boogie man, your boogie man And I hope, that you don’t misunderstand your boogie man *** *** Takið eftir því hvað Phil er flottur bakvið settið – með rettuna – og Angus tekur tryllinginn í þessari extended útgáfu, sleppir skepnunni af básnum, sýnir svo fagmannlegt stripp og kastar sér loks í gólfið með gítarinn. A plús. *** Annars eru þeir – enn harðgiftir og bláedrú – bara mest að syngja um píkur og vín. Platan er frekar gegnheil án þess að eiga marga hápunkta. Það er ekkert lag á plötunni sem er augljós singull en heldur ekkert sem gæti ekki sloppið sem singull. Þeir hafa ekki gert jafn „jafngóða“ plötu frá Back in Black. *** Já og Rudd er kominn aftur. Sem er auðvitað gaman en Chris Slade er líka saknað. Rudd er orginal trommarinn, og djöfulli harður, og á þar með einhvers konar forgang – en hann er líka skíthæll og hafði lent harkalega saman við Malcolm út af óreglu og fantaskap. Slade var víst svo miður sín að vera rekinn (þremur árum eftir að Rudd fór að reyna að væla sig aftur inn) að hann snerti ekki trommusettið sitt árum saman. Þegar Rudd lenti síðan í „bobba“ fyrir nokkrum árum kom Slade sem betur fer aftur. En einhvern veginn glatað að vera samt svona understudy. *** Það er engin annar en Rick Rubin sem pródúserar og tekur við af Bruce Fairbarn – og sándið er skemmtilegt en langt í frá það besta, það er hreinlega of næntís (sem er kannski ósanngjörn aðfinnsla, platan kom út ’95). Hann fetar líka full mikið í slóða Fairbarns, sem endurlífgaði sándið í bandinu – sem hafði verið á algerum villigötum frá For Those About to Rock. Sándið er aðeins blúsaðra – sem gladdi orginalistana í aðdáendahópnum – en langt frá áttunda áratugnum þótt Rubin hafi ruslað saman einhverjum gömlum Marshallmögnurum til að taka þetta upp. Það er aðallega leiðinlegt af því maður býst við meiru af Rick Rubin – en þetta er sem sagt allt vel gert. *** Textinn í Burnin’ Alive er líka skemmtilegur – eða „skemmtilegur“ hann er auðvitað ægilegur, ég sé fyrir mér að þetta sé byggt á martröð sem annan hvorn (eða báða) Young bræðra hefur dreymt, en þetta er falleg ljóðlist: No firewater, or novacaine,
No thunderstorm, and no John Wayne
No kids to rock, nowhere to run
So watch out, cause this place is gonna burn Burnin’ alive, burnin’ alive
Burnin’ alive, burnin’ alive *** Nei, ég sló þessu upp. Burnin’ Alive fjallar um Waco, Texas . Ég var samt ansi nálægt því. *** En hér kemur svo titillagið að lokum. *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-06-03T14:17:29.877Z““
Ég kláraði Great Apes eftir Will Self í gær. Bókin, sem er frá 1997, fjallar um myndlistarmanninn Simon Dykes, sem vaknar dag einn eftir mikið og kunnuglegt eiturlyfjarús við þá skelfingu að kærastan hans er ekki lengur manneskja heldur simpansi. Og ekki bara hún reyndar, heldur hann líka, og allir sem hann þekkir – veröldin einsog hún leggur sig, í stíl við Planet of the Apes. Í stað þess að menn hafi þróast og orðið ráðandi tegund jarðarinnar voru það simpansar – órangútanar og górillur heyra hins vegar til dýraríkinu, líkt og menn. Simon lendir síðan í meðferð hjá hinum „mikilsvirta náttúruspekingi“ (einsog hann kallar sig ítrekað sjálfur), Zack Busner, sem fylgir honum í gegnum veröld simpansana, heimilislíf þeirra beggja og loks til Afríku í leit að týndum syni Simons, sem sennilega er enn maður og býr þar á verndarsvæði. Ég hef aldrei lesið bók þar sem er jafn hressilega mikið riðið og slegist. Simpansarnir hafa ekki verið antrópómorfíseraðir svo mikið að þeir glati þeim eiginleikum sem þeir hafa í náttúrunni – þvert á móti finnst þeim mjög sætt eða sjúkt eftir atvikum hvað mannskepnan er spéhrædd og kynlaus og það hversu langan tíma það tekur hana að fá fullnægingu er talið til marks um lífsleiða. Simpansarnir hins vegar raða sér upp eftir hírarkískum tiktúrum í röð við næsta bólgna kvenskaut og fá það á fáeinum sekúndum. Konurnar hleypa bara körlunum að þegar þær eru á lóðaríi en karlarnir serða allt – líka náskylda ættingja sína og það þykir gróf misnotkun að sinna ekki serðingu dætra sinna. Ofbeldi er þá daglegt brauð. Fari einhver fram úr sér við sér hátt settari apa – sjúklingur við lækni, t.d., einsog gerist af og til milli Simons og Busner – tekur sá háttsettari sig til og snuprar smælingjann með því að berja hann hressilega og ítrekað í nefið, hendurnir einsog þyrluspaðar. Annað er eins – „sumt breytist aldrei“, er sagt nokkrum sinnum í gegnum bókina – og konur eru undirsettar körlum og bónóbóar (af afrískum uppruna) undirsettir simpönsum. Ég gleymdi bókinni heima (ég er á skrifstofunni) og það er ótrúlega lítið hægt að gúgla því en mig langaði að birta hérna tilvitnun til að sýna ykkur stílinn – sem er vægast sagt frábær. Vísindalegur, ljóðrænn, hilaríus – ég á auðvitað ekki ensku að móðurmáli og get ekki verið fullkomlega dómbær en mér finnst enginn komast í hálfkvisti við Will Self þegar kemur að unaðslega meðvituðuðum og orðríkum texta nema kannski Nabokov. Að minnsta kosti ekki fyndnu höfundarnir – Joyce kemur upp í hugann en hann skýtur bara of langt yfir markið. Góður maður gæti gleymt sér dögum saman við að greina hvað er rangt við þessa bók. Viðlíkingar af þessu tagi og karnivalískir viðsnúningar geta aldrei þolað mikla snertingu við vitlausa bein hinna vel meinandi – hugtakið mutually assured destruction kemur upp í hugann. Karikatúrar eru eðli málsins samkvæmt særandi og vilji maður ekki algerlega skera burt alla viðkvæma þjóðfélagshópa – alla nema hinn dómínerandi gagnkynhneigða hvíta sís-karlmann – þá karíkatúrar maður þá líka, gollívoggar þá, og stillir upp viðstöðulaust dauðafærum fyrir félagsbókmenntafræðinga. Það er skrítið og kannski er það ekkert skrítið hvað það situr djúpt í manni nútildags að byrja á slíku nittpikking og horfa meira og minna framhjá því um hvað verkin snúast og hvað þau eru að segja. Það er nánast ósjálfrátt viðbragð, einsog bergmál úr Twitterspherinu. („Svona var þetta ekki þegar ég var ungur, ég skal sko segja ykkur, á Ircinu var …“) Great Apes fjallar um margt og verður ekki auðveldlega smættuð – en helsti og mikilvægasti þráðurinn, sá sem ég myndi toga í ef ég væri að skrifa bókmenntarýni, snýr að sambandi manns við eðli sitt og mörkin milli manns og náttúru hvort sem maður sér þau sem „eðlileg“ eða „tilbúin“. Hvað það þýði að álíta sig aðskilin frá skítnum, eitthvað „annað“ en náttúruna – hvort heldur maður gerir það einsog hippinn sem telur sig skilja hana, vill vernda hana, úr hásæti sínu og af óþolandi hroka, eða einsog borgarbúinn sem vill helst ekki sjá hana og heldur að hún sé ekki hluti af sér, heldur eitthvað utanaðkomandi. Og þegar ég segi náttúra meina ég bæði grösin og gredduna – bæði náttúruna í fjallinu og náttúruna í manninum. *** Í gær horfði ég líka á Vofu frelsisins – Le Fantôme de la liberté – eftir Luis Buñuel. Einsog gefur að skilja er þetta súrrealískt verk og þar eru nokkrir viðsnúningar sem eru blóðskyldir apaleikjum Self. Söguþráðurinn er bútasaumur – við fylgjum einni persónu að þeirri næstu og skiljum stundum við sögupersónur í miðri sögu, finnum þær stundum aftur síðar og stundum ekki. Þetta hljómar auðvitað hámódernískt og mjög leiðinlegt ef maður þekkir ekki Buñuel, sem er svívirðilega fyndinn höfundur. Í þessari mynd er hin fræga matarboðssena. Þar gyrðir fólk niðrum sig og situr til borðs á klósettum og kúkar saman meðan það spjallar en bregður sér síðan afsíðis til að borða – confit de canard, sýndist mér það vera, og rauðvín með. Myndin er frá árinu 1974 og færi sennilega sem því nemur enn verr út úr hinum viðkvæma samtímalestri en Great Apes. Það finnst angan af því kynferðislega frjálsræði sem hafði rutt sér rúms en hún birtist fyrst og fremst í nöktu kvenfólki – tveimur stykkjum – en þeim tíma og þeim móral virðist minna fagnað í dag, fyrir það siðferðislega drullufangelsi sem hann muldi, og meira bölvað fyrir (augljósan) ófullkomleika sinn. Í annarri af þessum kvennektarsenum, þar sem ungur maður reynir með talsverðri frekju að koma til við sig aldraðri ástkonu, birtist okkur líkami þeirrar gömlu sem ungur – þegar hann loks birtist. Sem er auðvitað í anda súrrealismans en einhverjum gæti þótt pólitískt eða móralskt óþægilegt – eða í það minnsta nóg til að við það væri staldrað. Reyndar birtist þarna líka einn karlmannsrass, sem ég hafði gleymt, og er flengdur af konu í leðurbúning, í senu sem er mjög kómísk á kostnað hinna BDSM-ísku exhibisjónista. Sú sena er líka á einhvers konar hápunkti myndarinnar – að mínu mati – sem gerist á gistiheimili þar sem gestir flakka á milli herbergja og heilsa hver upp á annan í alls konar undarlegum kringumstæðum. Þetta er svona hurðafarsi fyrir súrrealista. Senurnar eiga það flestar sameiginlegt að snúa upp á félagslega siði – sumar bara lítið, einsog hjá lögregluskólakennaranum þar sem fólk er stanslaust að koma og fara, aðrar meira einsog hjá bróðurnum sem hangir yfir naktri systur sinni þar sem hún spilar rapsódíu Brahms, og aðrar enn meira einsog þegar lögreglan ber ekki kennsl á sýslumann, handtekur hann, en þegar hann hittir þann sem þá er sýslumaður (fyrst hann var ekki sjálfur sýslumaður er einhver annar sýslumaður) verða þeir báðir sýslumenn. Hvert skref er í sjálfu sér rökrétt en algerlega án tengsla við þau rök sem réðu skrefinu á undan – siðirnir og hegðunin er rétt ef þau eru skoðuð einangruð. Sama gildir um stúlkuna sem leitað er að um alla París svo vikum skiptir vegna þess (hafi ég skilið það rétt) að henni varð á að svara ekki nafnakalli í skólanum. Það skiptir ekki máli þótt hún svari síðar og aðstoði yfirvöld við að leita að sér – hafi hún ekki svarað nafnakalli er hún ekki til staðar og sé hún ekki staðar verður að leita hennar þar til hún finnst. Sem hún gerir á endanum, án þess að á því sé gefin nein sérstök skýring. Stundum finnast týnd börn og stundum ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Paul Kossoff í Free. Ekki sá teknískasti eða sá frumlegasti – en þvílíkur tónn, þvílíkt víbrató! Fyrir bassaleikarana er svo líka bassasóló.
paragraphData““:{„“textStyle““:{„“textAlignment““:““AUTO““}
LÉONARD DESBRIÈRES – LIRE „Joyeux trublion littéraire, le géant islandais Eirikur Örn Norddahl n’a peur de rien ni de personne et s’empare avec une intelligence malicieuse des sujets qui fâchent pour cramer au lance-flammes les travers de nos sociétés modernes.“ MATHIEU LINDON – Libération „Le fil du rasoir est le décor romanesque préféré d’Eirikur Örn Norddahl.“
createdTimestamp““:““2024-12-04T15:48:36.901Z““
Í Svíþjóð er allt í hers höndum. Þannig lagað. Það er stjórnarkreppa, ein stærsta matvörukeðja landsins hefur neyðst til að loka flestum búðum sínum vegna árása nethakkara og gengjastríðin geisa sem aldrei fyrr. Stjórnarkreppan kom upp vegna þess að sósíaldemókratarnir ætluðu að þvinga vinstri-flokkinn til þess að samþykkja frjálst leiguverð – húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er mér svo óskiljanlegur að ég hef eiginlega enga skoðun á þessu máli en finnst þó leigustjórnun instinktíft sympatískari en hitt. Það sem mælir gegn leigustjórnuninni – fyrir mína parta – er kannski mest hvernig hún er framkvæmd. Fólk stillir sér í biðröð og safnar stigum, sem hljómar í grunninn sanngjarnt, en lýsir sér síðan þannig að meðvitaða millistéttin stillir sér í biðröð út um allt upp á von og óvon (það eru engar hömlur á því hvað maður getur verið í biðröð í mörgum ólíkum kaupstöðum eða hjá ólíkum fyrirtækjum) og fyllir allt og flytur svo kannski eða kannski ekki. Þeir sem hafa ekki tíma eða kraft eða skipulag í sams konar fyrirsjón og framtíðarbúskap eru svo bara shit out of luck, einsog maður segir. Þetta viðheldur þannig ákveðinni stéttarskiptingu sem þeir græða mest á sem kunna á kerfið og þekkja það – útlendingar, innflytjendur, kærulausir, vonlausir o.s.frv. reyna kannski að reisa sig við en það tekur bara 25 ár á einhverjum biðlista að komast jafnfætis hinum, sem áttu foreldra sem settu þá á lista strax við fæðingu. Frjálst leiguverð myndi nú sennilega ekki samt verða til mikilla úrbóta. Ég treysti alla vega vinstriflokknum ágætlega til að hafa hagsmuni verkafólks að leiðarljósi og það eru nú ekki síst þeir hagsmunir sem þarf að verja á þingi. Frjálslyndir – sem eiga líka aðild að ríkisstjórninni – heimtuðu þetta og Löfven veðjaði á að vinstriflokkurinn myndi gefa sig frekar en að sprengja ríkisstjórnina. Það gerðist ekki og Nooshi Dadgostar, nýr formaður vinstriflokksins, hefur uppskorið mikið lof fyrir staðfestu – það vill til að Svíar eru langflestir á móti þessum „umbótum“ frjálslyndra. Það sem gæti kannski helst bitið þau í framhaldinu er ef þetta verður einhvern veginn til þess að hægrimenn – með Svíþjóðardemókrata ofarlega á blaði – komist til valda. Þá gæti vinstriflokkurinn fengið það í andlitið að hafa komið því til leiðar með þrjósku sinni. Eitt sem truflar núna er líka að það er ekki nema ár til kosninga og hvaða stjórn sem tekur við mun stjórna í mjög skamman tíma. Og það er hætt við að þeir flokkar sem eigi aðild að henni græði lítið á því – að taka í stjórnartaumana akkúrat þegar viðbúið er að margar afleiðingar Covid-lokana síðustu 18 mánaða fari að kikka inn, er varla líklegt til vinsælda. Og ár er enginn tími til að koma raunverulegum breytingum til leiðar, alveg sama hver fer með völdin. *** Matvörukeðjan Coop lokaði held ég öllum búðum sínum í fyrradag eftir árásir hakkara á tölvukerfið sem keðjan nýtir sér til að sjá um sína verslun. Ég held þær séu flestar enn lokaðar. Að minnsta kosti sú sem ég fer alltaf í. Ég gleymdi þessu í sakleysi mínu áðan þegar við Aino ætluðum að panta dósir, en við þurftum frá að hverfa með dósirnar á annan stað í bænum. Mér skilst að hakkararnir vilji 600 sænskar milljónir. Sem eru þá um 9.000 íslenskar milljónir. Það er ekki ekki neitt. Ég veit samt ekki hvort Coop getur opnað án þess að borga. Skil þetta satt að segja ekki mjög vel. *** Ég nefndi það eitthvað um daginn að sænska lögreglan hefði verið að vinna úr gögnum frá frönsku lögreglunni, sem þeirri áskotnaðist þegar henni tókst að brjótast inn í Encrochat – dulkóðað spjallkerfi sem glæpamenn höfðu nýtt sér um nokkurt skeið. Þetta hefur orðið til þess að fjölga handtökum í glæpaheiminum sem aftur skapar tómarúm í alls konar valdastöðum þar innan og hafa átök ólíkra gengja sennilega aldrei verið harðari í landinu. Enda hverfur markaðurinn fyrir eiturlyf eða aðrar glæpsamlegar nautnir ekkert þótt maður stingi einum og einum fanti í fangelsi. Það losnar bara forstjórastaða í einu fyrirtæki og annað fyrirtæki missir fótstöðuna á markaði svo það þriðja fer að sækja í sig veðrið. Ég held það verði eftir sem áður selt jafn mikið kókaín í Svíþjóð og efri millistéttin vill snorta á diskótekunum sínum. Mér skilst að umræðan lögleiðingu eiturlyfja hafi komið hér upp fyrir einhverju síðan en svo dalað og sé nú svo gott sem gleymd. *** Plata vikunnar er Chess-ára plata Little Walter. Ég ætla ekkert að flækja þetta og velja bara Boom, boom, out go the lights. Boðskapurinn er kannski í það harðasta, en lagið er klassík.
createdTimestamp““:““2024-06-06T05:39:16.568Z““
Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Rango. Vestra um samnefnt gælukameljón sem villist í villta vestrinu og lendir í smábæ sem er undir hælnum á illmennum. Einsog gefur að skilja er Rango reyndar nafnlaus einsog allar alvöru vestrahetjur – hann velur sér nafnið Rango af skilti. Rango er hugleysingi en góður leikari og tekst að sannfæra alla um að hann sé mikill byssufantur – klaufast svo til þess að drepa hauk sem ofsækir bæjarbúa og er gerður að skerfara. En bæjarstjórinn hefur sölsað undir sig allt vatn bæjarins og bæjarbúar eru bókstaflega að drepast úr þorsta. Nú þarf Rango að taka á honum stóra sínum – en auðvitað ekki fyrren hann verður fyrst vonlaus um eigin getu, rekst á „anda vestursins“ og fær sjálfstraustið aftur og klaufast enn á ný til þess að bjarga öllu. Það er áhugavert hvernig það er aldrei sá hæfasti í barnabókum sem bjargar málunum, heldur sá hugprúði, klaufalegi, indæli sem sveiflast milli góðlegs mikilmennskubrjálæðis og eyðileggjandi minnimáttarkenndar. Og hann bjargar yfirleitt ekki málunum með hæfni sinni – sem er ekki til staðar – heldur hugrekki sínu. Að láta bara vaða, reyna, gera sitt besta. Og aldrei aðstoðarlaust, vel að merkja, heldur með því að blása hinum í brjóst sams konar fífldirfsku. Í myndinni er líka einhvers konar umhverfisádeila og kapítalísk ádeila. Hvorugt er óalgengt í barnaefni – og stórmerkilegt raunar hversu mikil kapítalísk ádeila kemur úr Hollywood almennt. Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni. Ekki ætla ég að verja kaupsýslumenn eða kapítalismann en það segir manni eitthvað að kapítalisminn skuli framleiða áróður gegn sjálfum sér – og maður verður alveg svolítið nojaður af því. *** Ég las Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þetta er mjög stutt bók og skrifuð í stuttum einföldum mónólógum. Hún fjallar um stelpu sem byrjar með strák. Strákurinn er manipúlerandi kúgari og stelpan svona týpa sem vill að öllum líki vel við sig og setur því engum mörk í samskiptum. Eða í það minnsta ekki honum. Hann notar þetta til að ganga sífellt lengra og lengra – heldur framhjá og kennir henni um það, pissar á hana, tekur hana óviljuga í rassinn og svo framvegis og svo framvegis. Söguröddin er rosalega ung – eða naív. Það skapar ákveðinn ugg. Manni finnst einsog stelpan muni aldrei segja stopp. Ég man ekki hvort það kemur fram hvað þau eiga að vera gömul í bókinni en mér finnst oft einsog þau séu 15 ára – þótt þau séu líklegri til að vera 25. Ég man eftir svona tilfinningum sem unglingur – bæði þessari ofsalegu löngun til að þóknast og þessari fórngjörnu ást en líka þessari rosalegu löngun til þess að stýra og láta elska sig (ég held að svona skíthælahegðun sé oft það – fólk að láta reyna á ást hins, láta hinn aðilann sanna ást sína með að þola viðbjóðinn). Bókin er svolítið „ritlistarleg“ – einsog margar bækur síðustu árin. Ég kann ekki að greina það betur, eða hef ekki lagt mig í það, en það er einhver svona tónn – og tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið „hugsaðir til enda“. Að jafnaði er það talið gott en ég er alls ekki sérstaklega hrifinn af því. Það vantar tilraunina og óvissuna. Ég er nánast að kalla eftir því að bækur séu verr skrifaðar, eins undarlega og það nú hljómar, það sé meiri tensjón í sjálfri hugsuninni. Ég hugsaði svolítið um feminískt raunsæi vs. sósíal raunsæi. Það er hættulegt að greina þannig eigin tíma í bókmenntum en mér finnst einsog við lifum á tímum feminísks raunsæis. Efnistök og boðskapur femínismans eru mikilvæg og stíllinn á ekki að vera fullyrðandi eða debaterandi heldur presenterandi – reynslan er í forgrunni, reynsluheimar. Eitthvað sem hefur raunverulega gerst eða gæti raunverulega gerst eða er raunverulega að gerast – og presentasjón af tilteknum pólitískum veruleika þar sem X er undirokaður og Y undirokar. Ekki beinlínis greining á valdi – og raunar alls ekki – heldur sýning á valdi. Þannig er Aftur & aftur eftir Halldór Armand, sem er önnur bók sem ég las í vikunni, alveg úti á túni. Hún er af Bret Easton Ellis / Douglas Coupland / David Foster Wallace skólanum. Mikil samtímagreining, miklar tíðarandaveiðar, langlokur um tækni og framtíð. Samt er hún reyndar ekkert úti á túni og rekst raunar alls ekkert á Kvikuheiminn – það er meira einsog þessar strákabókmenntir eigi sér stað á annarri tímalínu. Bergur Ebbi er þarna líka. Dagur Hjartar og Jónas Reynir eiga snertipunkta þarna inn en ekki jafn afgerandi. Aftur og aftur fjallar um ungan strák sem lendir í því að verða forstjóri startöppfyrirtækis, nánast bara af því eigandanum finnst hann eitthvað svo töff. Og hún fjallar líka um eigandann – fyrrum trommuleikara í sveitaballabandi sem svo fer að smygla dópi en verður loks farsæll kaupsýslumaður. Báðir eru forréttindamenn – sá ungi er ráðherrasonur og sá eldri sonur útrásarvíkings sem lendir í fangelsi. Ég las Kviku í striklotu á ströndinni í Útila meðan krakkarnir voru að snorkla og byrjaði svo á Aftur & aftur strax og ég kom heim og ég man að mér fannst fyrst einsog ég væri núna kominn inn í hausinn á stráknum í Kviku. Strákahaus sem er fyrst og fremst nógu upptekinn af sjálfum sér og því nýjasta sem ber fyrir augu til þess að eiga gríðarstóra blinda bletti (ég er að tala um söguhetjuna, vel að merkja, ekki höfundinn). Einsog hann hafi raunverulega engan áhuga á líðan einstaklinganna í kringum sig (en þeim mun meiri á stóru sögunni, samfélagslíðaninni). Enda lendir söguhetjan í því í tvígang að vera sagt upp af kærustum sem hann virkar annars frekar áhugalaus um – og það kemur honum gersamlega í opna skjöldu og hann verður mjög leiður. Þessi hugdetta entist ekki mjög langt inn í bókina – til þess eru þeir of ólíkir karakterar – en samt eitthvað. Reyndar eru karakterarnir tveir í Aftur & aftur nógu líkir í hugsun til að vera næstum sami maðurinn á ólíkum lífsskeiðum. Það vantaði talsvert upp á að aðskilja raddir þeirra – ef það var á annað borð ætlunin. Báðar þessar bækur eru reyndar brjálæðislega áhugaverðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar. Ég veit ekki hvort það var bara einhver gremja í mér, þreyta eða annað, en þær náðu mér samt ekki og ég var sífellt að þræta eitthvað við þær og höfunda þeirra í huganum á meðan á lestrinum stóð. „Nei, kommon!“ sagði ég kannski við sjálfan mig inn á milli. Eitthvað þannig. Ég náttúrulega henti frá mér A Tale of Two Cities í pirringi í síðustu viku svo ég er kannski bara ekki í fíling þessa dagana. En svo er það kannski líka einkenni á bókum sem eitthvað er varið í að maður hugsar talsvert um þær eftirá. Ég er enn að melta þessar báðar. Við sjáum bara hvað setur. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins gleymdi sér í gær. Aðra vikuna í röð. Horfum kannski á eitthvað á morgun (erum að gera annað í kvöld). *** Þriðja bókin sem ég las þessa vikuna var Eitur fyrir byrjendur. Sem ég skrifaði sem sagt sjálfur og kom út fyrir 13 árum. Bókin sem ég var að klára og guð veit hvenær kemur út er (mjög sjálfstætt) framhald af henni og ég hafði ekki lesið hana síðan árið 2010. Þá kom hún út á sænsku og ég las hana í rútu á leiðinni á Littfest í Umeå svo ég væri fær um að svara spurningum upp úr henni. Þetta er eina bókin mín sem ég hef lesið í heild sinni eftir að hún hefur komið út og nú hef ég lesið hana tvisvar. Reynslan af að lesa hana í rútunni 2010 var mjög spes. Mér fannst þetta mjög langur tími – fjögur ár – og hún rifjaði upp alls konar. Það eru senur í henni sem áttu sér stað í raunveruleikanum – áreksturinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar til dæmis, og strákurinn sem rífst dauðadrukkinn við hjásvæfu sína á Lækjartorgi var ég sjálfur og svo framvegis. En það var ýmislegt fleira smálegt sem var skrítið að lesa. Díteilar. Omeletta me tiri – til dæmis – einföld fetaostomeletta sem ég var vanur að gera en hafði gleymt. Siggi Gunnars vinur minn, sagnfræðingur og ljósmyndari frá Ísafirði, sagði mér einu sinni að hann hefði haldið dagbók sem barn og í hana hefði hann skráð mjög hversdagslega hluti. Til dæmis að hann hefði borðað seríos í morgunmat og farið í skólann og svo ekkert meira. En hann sagði að það væri ótrúlegt hvað þessir hversdagslegu hlutir gætu framkallað miklar og sérstakar minningar – það var einsog dagarnir lifnuðu við og skyndilega mundi hann þá einsog þeir hefðu gerst í gær. Það var svipað að lesa Eitrið þarna 2010 – omeletturnar og árekstrarnir tendruðu öll ljós í minninginum mínum frá sirka 2003-2006, sem eru sirka skemmtilegustu í nýhilfélagsskapnum, óreglu og ást og kaosi og kærleika. Það var minna af svoleiðis núna og miklu minni nautn í lestrinum. Ég er búinn að vera á leiðinni að byrja á henni lengi en hef verið viðkvæmur fyrir textanum – vandræðalegur yfir honum og vildi að hún væri öll einhvern veginn öðruvísi. Það rann af mér á meðan ég las hana en kaflarnir eru sannarlega misgóðir og ég hafði augljóslega ekki nægan tíma til að skrifa hana – þetta er allt skrifað á kvöldin eftir vinnu á Bæjarins besta eða þegar ég var næturvörður á Hótel Ísafirði. Hins vegar kveikti ég á alls konar hlutum sem ég gerði ekki 2010. Til dæmis því að það eru allir með heimasíma og það er enginn með snjallsíma – fólk er að sms-a hvert annað til að láta vita hvar megi finna Noah Wyle og söngvarann í Darkness. Þá er alls staðar reykt inni – t.d. á Mokka. Fólki er fundið til foráttu að nenna aldrei að mynda sér skoðanir á neinu (ha ha ha!), það þykir skrítið að strákur sé að læra kynjafræði og svo framvegis. Alltíeinu er bókin orðin bók um fortíðina. Og þá kannski ekki seinna vænna að gera framhald. *** Við Aino lékum Monument Valley II á iPhoninum mínum. Fyrir fjórum árum lékum við Aram einmitt fyrri leikinn þegar við bjuggum í Víetnam. Ég er ekki mikill tölvuleikjakall lengur – þótt ég hafi mikið leikið alls konar leiki á unglingsárunum. Monument Valley er völundarhúsaleikur sem reynir á rýmisskynjunina og er afskaplega fallegur. Það er varla hægt að segja að það sé mikill munur á I og II. En þeir eru skemmtilegir og gaman að leika þá saman og síðast en ekki síst eru þeir voða fallegir. *** Gítarleikarar vikunnar eru tveir. Keb Mo’ og Taj Mahal. Þetta lag er líka alveg frábært.