Væntanleg 20. október: Frankensleikir

Spurningarnar glumdu í höfði Fjólu. Hvað í ósköpunum gátu þau verið að meina? Ekki til? Hver hafði þá gefið henni í skóinn? Hver myndi gefa henni í skóinn framvegis? Hvað hafði orðið af þeim? Hver haltraði eftir trégólfum ef ekki Stekkjarstaur? Hver skellti hurðum ef ekki Hurðaskellir? Hver sleikti úr öskum ef ekki Askasleikir? Jólin nálgast og Fjóla hlakkar til. Stekkjarstaur kemur til byggða eftir tvo daga. En þá færa foreldrar hennar þær fáránlegu fréttir að jólasveinarnir séu ekki til. Fjóla sér strax að það gengur ekki upp og hefst handa við að bjarga málunum. Þá kemur óvænt að góðum notum að stóri bróðir hennar hefur stjórnlausan áhuga á varúlfum, fjörulöllum og öðrum ófrenjum – og veit allt sem hægt er að vita um skrímsli Frankensteins. Frankensleikir er sprenghlægileg jólasaga eftir verðlaunahöfund sem kemur sífellt á óvart. Sagan er ríkulega myndlýst af Elíasi Rúna.

Hin útvöldu

Annie Ernaux er ekki minn tasse de thé . Að minnsta kosti ekki þessi eina bók sem hefur komið út á íslensku. Mér sýnist reyndar á lýsingum að aðrar bækur hennar – t.d. Skömmin og Árin – séu mun áhugaverðari en Staðurinn . Það er eitthvað við þessar bækur um stéttaflutninga – höfunda sem alast upp í verkamannastétt en færast upp í menntamannastétt og skrifa um það – sem slær mig alltaf sem svolítið patróníserandi. Einsog fólki sé svo mikið í mun að sýna fram á að nú sé það í „réttri“ stétt – þau hafi fengið að blómstra og verða sín raunverulegu sjálf, fulfill their potential, einsog það heitir hjá amerískum markþjálfum – en foreldrar þeirra og forfeður hafi verið hálfgerðir aumingjar. Þetta eru oft í og með sögur um útvalda – svona fólk sem fæðist í koti en kemur í ljós að er með blátt blóð og neyðist þar með til að fara út í heim að vinna stórvirki og vorkenna öllum sem það „skildi eftir“. Ég hrökk upp í nótt rétt fyrir 02.00 við að einhver bankaði á útidyrnar. Hvers vegna er það svona óþægilegt að einhver banki um miðja nótt? Ég fór ekki til dyra. Lá bara í rúminu og hlustaði eftir hljóðum en heyrði engin. Fannst einsog þetta hlyti að vera innbrotsþjófur eða ofbeldismaður. Sennilega les maður of mikið af fréttum – eðli málsins samkvæmt fjalla þær aldrei um neitt gott. Í Svíþjóð eru allir morðingjar í gengi en á Íslandi eru allir kynferðisofbeldismenn. Annars staðar eru ýmist stríð eða náttúruhamfarir. Eftir 5-10 mínútur fór ég á kreik. Það var veðurblíða og engin hljóð, sem er sjaldgæft, yfirleitt brakar í húsinu undan minnsta vindi. Líklega hefur mig dreymt bankið en ég man þá ekkert í hvaða samhengi það var. Ég gat samt ekki sofnað aftur. Teygði mig í bók og las seinni hlutann af annarri stuttri skáldsögu –  Ránið á Húnboga Höskuldssyni, alþingismanni , eftir Ófeig Drengsson. Ég hafði aldrei heyrt af henni – kom út 2016. Hún byrjar á svona fororði um að öll líkindi við raunverulegar persónur sé tilviljun og svo heita aðalsöguhetjurnar allar eitthvað í ætt við „Valli í Járnkörlunum“ (sem var í hljómsveitinni Járnkarlarnir) og „Björn Grétar Jakobsson, blaðamaður“ og þær þekkjast allar af barnum „Bjórstofunni“. Að vísu er plottið nógu ósennilegt. Hópur vina er á leiðinni til Suðureyrar til að veiða sel og silung. Einn þeirra er með flugvallarmálið á heilanum. Og þegar þeir rekast á framsóknarþingmann og flugvallarvin, sem ráfar fullur út úr ráðherrabústaðnum, ræna þeir honum og keyra með hann vestur í því augnamiði að fá hann til að senda út fréttatilkynningu um að hann hafi skipt um skoðun – flugvöllurinn verði að fara. Ég þekki reyndar mann – eða þekkti, hann er látinn – sem flutti vestur eftir að hafa dottið í það í Reykjavík og rankað við sér á Suðureyri, án þess að vita neitt hvar hann var í veröldinni. Svo þetta er ekki alveg fordæmalaust. Sá var að vísu ekki þingmaður. En hann var ekki heldur neinn lassaróni. Ófeigur Drengsson er annars eitthvert höfundarnafn – viðkomandi finnst hvergi nema sem nafn utan á þessari bók og einni annarri. Þegar ég var búinn með bókina tók ég svefntöflu og var fljótt sofnaður aftur.

Að hafa gaman

Ég var lengi fram úr í dag. Teygði mig í Hina feigu skepnu á náttborðinu og kláraði hana áður en ég steig á fætur. Það vantar auðvitað sögulega fjarlægð á þetta tímabil í kringum 2000 – árin í kringum 11. september, þetta eru taumleysisár, sérstaklega fyrir hina gagnkynhneigðu karlagreddu – og það væri áhugavert að vita hvernig þessar bækur líta út í þeirri fjarlægð þegar hún fæst. Núna erum við á uppgjörsárum og kannski er tímabilið lengra en bara rétt í kringum aldamótin – kannski væri nær að fara bara aftur í Elvis og mjaðmahnykkina og rekja þessa sögu fram að … tja hverju? Ég ætlaði að segja Harvey Weinstein en hans nótar hafa alltaf verið til og alltaf ópererað í skuggunum – ég er líklega frekar að hugsa um performansinn á greddunni (alveg án tillits til þess hvort viðkomandi listamaður er í raun og veru dónakarl eða siðsamur eða getulaus eða bara yndisleg mannvera). Hin feiga skepna fjallar sem sagt um 62 ára gamlan bókmenntaref – sjónvarpsgagnrýnanda – sem fær unga konu af kúbönskum ættum á heilann. Eða öllu heldur fær hann brjóstin á henni á heilann. Sami maður hefur víst í eldri sögu eftir Roth sjálfur breyst í brjóst – svona einsog Gregor Samsa breyttist í bjöllu. Með einhverjum útúrdúrum fjallar bókin eiginlega bara um það hvernig hann kemst yfir þessi brjóst og hvernig hann getur ekki án þeirra verið. Hann tuðar mikið – eiginlega er megnið af þessu tuð (og Roth er alveg meðvitaður um það – David er ekki sympatísk persóna) – og meðal þess sem hann tuðar um er að hafa í einhverjum skilningi verið svikinn um æskuna. Hann er fæddur 1930, giftir sig ’56 og kemur seint inn í kynlífsbyltinguna – þennan tíma þegar maður þurfti ekki að skammast sín fyrir að vilja snerta, þurfti ekki að „suða um kynlíf“, þegar fólk hélt að það hefði engin „kynferðisleg réttindi“. Og þá er hann fastur í hjónabandi (en heldur mjög mikið framhjá, einsog lögin kveða á um). Nú stöndum við auðvitað handan þessa tímabils og er ljóst að þessu frjálsræði fylgdi ekki síst yfirgangur og tilætlunarsemi – þegar skömminni sleppti varð fólk óforskammað, eins undarlega og það nú hljómar. Það var ekki alltaf gaman. Og talandi um gaman. Ég las líka á dögunum bókina Í návígi við fólkið á jörðinni eftir Þóri Guðmundsson. Þar segir Þórir sögur frá ólíkum heimshornum – fyrst og fremst frá hinum svonefnda þriðja heimi. Oft eru þær alveg hrottalegar – harmur, fátækt, ofbeldi, neyð og svo framvegis. En líka nokkrar ljóðrænar og fallegar inn á milli. Mér fannst hún bæði góð og áhugaverð þótt ég fyllist alltaf líka dálítilli skömm yfir því hvað ég er illa að mér um eitt og annað þegar ég les svona bækur og hvað sumir hlutir festast illa í höfðinu á mér – þótt mikið af því sé bara trivial-spursmál. Svona „Jerevan er höfuðborgin í …“ og ég man ekki neitt. Lokaorðin voru samt rosa skrítin. Bara allra síðasta setningin er „Maður er manns gaman“. Hin ljóðræna niðurstaða. Eftir allan þennan harm og þennan lokahnykk leið mér einsog ég hefði legið á gægjum – staðið á öxlunum á Þóri og horft inn um einhvern glugga. Átti þetta að vera gaman?

Nóbelsgleði

Einu sinni var ég spurður af sænsku dagblaði hver ég vildi að fengi nóbelinn. Þetta var fyrir mörgum árum. Ég er yfirleitt frekar lost þegar ég fer í viðtöl, sérstaklega ef ég á að tala mikið um sjálfan mig eða sannfæra einhverja lesendur um að bókin sem einhver var að gefa út sé þess virði að maður lesi hana. Þá er ég oftast að leika sjálfan mig. Og í því ástandi á ég ekki gott með að hugsa, sérstaklega ef það kemur einhver u-beygja – einsog þetta var. Ég tafsaði eitthvað og svaraði svo að það gæti verið gaman ef Margaret Atwood fengi nóbelinn. Ég held það hafi í sjálfu sér verið alveg einlægt, þótt svarað hafi verið í óðagoti, en í dag kemur svarið mér samt á óvart – ég myndi ekki svara Margaret Atwood í dag og ekki bara vegna þess að ég held að það sé ósennilegt (þetta var alltaf spurning um annað hvort hana eða Alice Munro – ekki tvær kanadískar konur af sömu kynslóð). Hún væri ekki einu sinni ofarlega á persónulega listanum. En hverjir væru þá á listanum? Auðvitað litast það af því hvað manni finnst líklegt – og svo litast það af því hverjir eru á veðlistunum, nema á hvolfi: ég reikna alltaf með því að þeir sem eru ofarlega á veðlistunum fái ekki verðlaunin. Þetta er í sjálfu sér misfrægt fólk sem fær nóbelinn – það var mikið sagt um Abdulrazak Gurnah í fyrra að hann væri „lítt þekktur“ en það fá engir „lítt þekktir“ höfundar nóbelsverðlaun. Þessir „lítt þekktu“ höfundar er fólk sem hefur verið þýtt á 40 tungumál og á helst góðan skerf ritsafnsins á sænsku, þótt það hafi ekki verið á veðlistunum. Stundum eru þau fornfræg og dálítið gleymd, stundum bara höfundar sem hafa mallað lengi og eru vinsælir í vissum kreðsum. Og stundum eru þau bara John Steinbeck – alþjóðlegir metsöluhöfundar (sem hefðu verið ofarlega á listum veðbanka) eða stórstjörnur einsog Bob Dylan. Það takast á ólík sjónarmið í þessu. Fyrir mörgum eiga nóbelsverðlaunin að varpa ljósi á höfundarverk sem er vanmetið en samt stórkostlegt . Þannig geti heimsbyggðin í raun eignast nýjan stórhöfund, hvers staða er tryggð í framtíðinni að auki. Viðkomandi verður lesinn lengi lengi. Og bókaforlögin sem hafa haldið tryggð við fegurðina fremur en að eltast við sölubókmenntirnar fá góðan bónus í reksturinn. Það er í slíkum tilvikum sem Gurnaharnir fá þetta. Fyrir öðrum er mikilvægt að nóbelsverðlaunin séu ekki of elitísk – sem er auðvitað fyndið í ljósi þess að það er bókstaflega menningarelítan sem velur sigurvegarann, þetta eru verðlaun elítunnar. En sagt er að nóbelsverðlaunin glati mikilvægi sínu ef einungis „lítt þekktir“ höfundar hljóti þau – að pöpullinn (og tilvist pöpulsins er forsenda hverrar elítu) verði líka að fá sitt. Sem þýðir samt bara John Steinbeck/Bob Dylan – ekki instagram-ljóðskáldið sem fær flestu lækin. En meiningin er þá líka að ljóminn af Bob Dylönunum skíni svolítið á Gurnahana. Ætli Murakami sé ekki últimat pöpulskandídatinn? Eða Atwood? Stephen King? Þegar ég lít á veðlistann sé ég að fyrir tíu dögum var Javíer Marías enn á honum – hann dó fyrir mánuði síðan. Hilary Mantel líka – sem dó fjórum dögum áður en listinn var gerður. Houellebecq og Rushdie eru ofarlega og báðir á lífi. Ngugi Wa Thiong’o er þarna og stjarna hans hefur farið rísandi síðustu árin. Ko Un er enn á listanum en hefur lækkað mikið frá því fjöldi kvenna sakaði hann um óviðeigandi hegðun fyrir nokkrum árum. En hver vill maður – vil ég – að fái nóbelsverðlaunin? Yfirleitt svara ég því til að ég vilji auðvitað helst kynnast einhverjum nýjum höfundi – en það er svona hæverska svarið mitt. Og nei, mikilmennskusvarið mitt er ekki að auðvitað vilji ég sjálfur fá nóbelsverðlaunin – mikilmennska mín er ekki meiri en svo að helst vil ég bara að einhver fái nóbelsverðlaunin sem ég hef lesið en kannski ekkert alltof margir aðrir. Svo ég sé pínu sérstakur. Altso, ekki Murakami, en kannski Duong Thu Huong, sem ég dýrka. Eða einhver álíka. Af þessum vinsælu finnst mér Ko Un frábært ljóðskáld – þótt hann sé dónakall – en kannski er það þá bara nóg að hann sé gott ljóðskáld. Af vinsælu valkostunum væri það kannski helst Don DeLillo. Þá hef ég nýlega fallið kylliflatur fyrir Ali Smith. Annars bara veit ég það ekki. Kannski er mér meira að segja alveg sama – nema bara svona fyrir að það er gaman að giska. O jújú, ég segi Ali Smith eða Duong Thu Huong – ég yrði glaðastur ef þær ynnu. Eða önnur hvor a.m.k.

Minningargreinar

Það eru minningargreinarnar sem halda bæði Mogganum og Facebook gangandi. Ég hélt mig fjarri samfélagsmiðlum þar til nafni minn dó og ég vildi eða þurfti að upplifa sorgina með einhverjum. Þá opnaði ég rifu. Svo kom önnur rifa nú þegar Svavar Pétur dó. Og ég læt moggann (og prentmiðla) eiginlega alveg vera nema þegar sömu ástæður kalla á lestur. Að vísu las ég svolítið dagblöðin í blábyrjun árs en það kom bara fljótt í ljós að þau mega muna sinn fífil fegurri. Ég lét mér kvöldfréttir í sjónvarpi og morgunfréttir í útvarpi nægja þar til ég fór til Svíþjóðar og það passaði ekki lengur inn í rútínuna. Þá fór ég aftur að lesa instagram vikunnar og allar hinar netfréttirnar. Maður les mjög mikinn óþarfa á fréttamiðlunum – eiginlega eru þeir að mörgu leyti verri en samfélagsmiðlarnir. Samfélagsmiðlunum er ekki alls varnað – þótt þeir bjóði, eðli málsins samkvæmt, líka upp á verstu tegund af bæði hjarðhegðun og trigger-trolli. Nú er jólabókaflóðið að hefjast og þar sem ég er með bók – mína fyrstu barnabók, mína fyrstu jólabók og mína fyrstu horrorbók (þetta er allt sama bókin samt) – þarf ég sennilega að opna enn stærri rifu. Þótt ekki væri nema bara til að geta boðið fólki í útgáfuhóf. Ég held ég hefði gott af því að móta mér einhvers konar umgengnisreglur við þessa miðla. Það þýðir ekki bara að vera ekki með appið í símanum þegar maður eyðir bróðurpartinum af deginum við tölvu (hugsanlega væri meira vit að vera bara með öppin og láta þetta alveg vera í tölvunni).

Hvítar skyrtur

Á mig sækir efinn. Ætli það sé bara vegna þess að það er mánudagur og ég var (einsog áður segir) mjög duglegur á smakkbásunum á bjórhátíðinni í Hveragerði? Ég er að lesa Stúlka, kona, annað eftir Bernardine Evaristo og finnst hún oftast eiginlega alveg hræðileg. Inn á milli koma kaflar sem hreyfa við mér. En einhvern veginn er mikið af þessu hálfgerðar tékklistaklisjur – sögupersónur sem manni finnst maður hafa séð þúsund sinnum áður, skrifaðar á þreyttri tilgerðarlegri urban-ljóðrænu, og flestar sögurnar voða beisikk sápuóperur. Harmur á háskaslóð. En svo er þetta áreiðanlega líka dagsformsspurning hjá mér. Það er stutt í óþolið hjá mér. „Er þetta ekki bara drasl?“ ómar í höfðinu á mér, alveg sama um hvað ræðir. Og svo þegar ég átta mig á því hvað ég er ósanngjarn breytist spurningin í „ert það ekki bara þú sem ert drasl, góði?“ Svo var líka maður þarna í Hveragerði sem gekk um og hellti úr jägermeisterflösku beint upp í fólk. Eða – „beint“ er svolítið orðum aukið. Eiginlega hellti hann mest bara yfir hvítu skyrtuna sem ég hafði keypt mér í Kormáki og Skildi um morguninn í staðinn fyrir þá sem ég skildi eftir á hótelherbergi í Frakklandi um daginn og hina sem ég fékk lánaða helgina þar á eftir og eyðilagði þegar það sprakk penni í innanávasanum mínum (sams konar blettur, en nokkuð minni, var einmitt líka á skyrtunni sem týndist í Provence). Ég sem er nýbúinn að ákveða að það fari mér svo vel að vera í hvítum skyrtum. (Nú las ég þessa færslu yfir og hugsaði: „voðalegt drasl er þetta“ – jæja, það kemur ekki í veg fyrir að ég pósti).

Far vel, fagri prins

Ég hafði varla hitt Svavar Pétur þegar ég hét honum ævarandi vináttu. Það var að hans undirlagi, ég þekkti hann ekki neitt – var úti á lífinu ásamt fleirum og var kallaður í stúdíó til að syngja í stórum kór fulls fólks í laginu Friends Forever, sem kom svo út á plötu Rúnks, Ghengi Dahls. Ég kynntist honum ekkert að ráði fyrren í Berlín árið eftir – aftur í stórum hópi. Eiginlega var Svavar mjög oft í stórum hópi, vinamargur þótt hann virkaði líka oft á mann sem einfari. Vinsæll einfari sem var elskur að mörgum. Einu sinni fékk hann lánaða íbúðina mína á Ísafirði þegar ég var í burtu – ég held hann hafi einmitt verið þar með stórum hóp sem fór svo út og málaði bæinn rauðan. Hann skrifaði mér nokkrum dögum síðar til að þakka fyrir sig og sagðist þá hafa farið mjög þunnur inn á baðherbergið mitt um morguninn – alveg svona epískt timbraður, himinn og jörð að farast – og setið þar lengi á dollunni og starað út í alltof bjartan alheiminn um þakgluggann ofan við klósettið áður en hann rak augun í útprentað lesefni sem ég hafði skilið eftir á þvottavélinni. Það var þá útkrotað handritið að óútgefinni skáldsögu Hauks Más Helgasonar sem hét og heitir Svavar Pétur & 20. öldin . Ég man ekki hvað honum fannst eða hvort honum fannst nokkuð eða hvort hann einu sinni las neitt nema titilinn. Sennilega skrifaði hann mér bara til að láta mig vita. Til þess að augnablikið yrði aðeins minna skrítið. Bókin hafði vel að merkja ekkert með Svavar Pétur að gera – Haukur hafði bara fengið nafnið að láni. Þetta fallega nafn. Síðar gerði hann kápur á nokkrar bækur fyrir mig – Maíkonunginn, Hnefa og átti bestu tillögurnar á Gæsku (en ekki þá sem Forlagið valdi á endanum). Við sáumst á tónleikum og upplestrum og í partíum og á laugaveginum. Mest þekktumst við samt bara í gegnum þennan stóra hóp af fólki sem umlék hann á alla kanta. Stundum var einsog hann væri allsstaðar að gera allt. Og gera það allt vel. Fallega hönnun, góðan mat, ótrúleg popplög, frábæra texta – og allt var það svo óumræðilega hans einhvern veginn. Hann átti einhvern tón, einhverja rödd – auðþekkjanlega og einstaka – og meira getur varla neinn listamaður beðið um. Hana eigum við enn og það er ekki svo lítið ríkidæmi til að hugga sig við – listin er hérna enn. En vinur okkar er farinn og eftir situr stór hópur og syrgir sinn besta dreng. Ég sendi fólkinu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Að drepa útlendinga

Finnar ætla víst að fara að meina Rússum inngöngu í landið. Síðustu daga hafa tugir ef ekki hundruð þúsunda karlmanna á herskyldualdri yfirgefið landið (ég hef séð tölur á bilinu 70-266 þúsund). Augljósasta leiðin úr landi þessa dagana er yfir finnsku landamærin. Mér skilst að Rússar eigi enn að geta sótt um hæli en ég átta mig ekki á því hvað það þýðir – hvort maður fái þá hæli ef maður er bara að reyna að komast undan herskyldu. Mér finnst ekki ósennilegt að Finnar óttist að með þessum hersingum komi óæskileg öfl – annað hvort á vegum Pútíns eða bara ribbaldar. Saga Rússlands og Finnlands er erfið og það grassera hræðilegir fordómar í Finnlandi gagnvart Rússum – ekki bara Pútín, heldur rússnesku þjóðinni sem slíkri. Þetta eru engar vinaþjóðir. Mér finnst herskylda hræðileg. Mér finnst hún líka hræðileg í Úkraínu, þótt aðstæður þar séu skiljanlegri. Að það sé ekki almennt skilgreint sem mannréttindabrot eða stríðsglæpur að skylda fólk til þess að drepa aðra. Einsog það sé ekki nógu vont að fólk drepi aðra sjálfviljugt?

Guð er ekki eina appelsínan

Á dögunum las ég Glímuna við Guð eftir Árna Bergmann. Þar vitnar Árni í ljóð eftir nafna minn Erich* Fried Hundur sem deyr og veit að hann deyr eins og hundur og getur sagt að hann viti að hann deyi eins og hundur er maður. (*Ég er skírður í höfuðið á afa mínum Erich Egon Hübner). Þetta ljóð má lesa á marga vegu. Fyrst og fremst blasir við að það sem geri manninn að manni (eða manneskju að manneskju, öllu heldur) sé meðvitund um stöðu sína og færni til þess að tjá sig um hana. Og að því marki að verði dýr fært um eitthvað slíkt hljóti dýrið að vera manneskja. Og sennilega er eitthvað líka þarna um að til þess að vera manneskja þurfi maður að geta dáið. Skyldar spurningar eru í forgrunni skáldsögunnar Frankissstein eftir Jeanette Winterson, frá 2019. Hún gerist á tveimur tímaskeiðum og segir annars vegar frá því þegar Mary Shelley skrifar Frankenstein og hvernig sköpunarverk hennar – dr. Victor Frankenstein – ofsækir hana (ofsækir er kannski orðum aukið – einhvers staðar mitt á milli ofsækir og heimsækir) – og hins vegar frá kynsegin lækninum Ry Shelley í samtímanum og sambandi háns við vísindamanninn Victor Stein, sem vinnur með gervigreind, og sölumanninn Ron Lord, sem selur og framleiðir kynlífsdúkkur. Winterson lætur sögusviðin spegla hvert annað og oft að því marki að bókin og sögupersónur hennar – sem sköpunarverk Winterson – spegla þá sköpun sem aðrir í bókinni stunda, bæði sem höfundar, vísindamenn og einstaklingar. Bókin er bráðsnjöll – leiftrandi á köflum – stundum dálítið kitsí og dettur af og til út í predikanir sem mér fannst stundum frekar PC (en internetið skiptist í tvær fylkingar með það hvort hún sé WOKE eða TERF). Winterson er á jarðsprengjusvæði og hefur fengið bæði lof og last fyrir – aðallega vegna Ry, sem hefur persónulegan frekar en dæmigerðan skilning á sjálfu sér og verður þess utan fyrir bæði fordómum, blætisdýrkun og ofbeldi af hendi samfélagsins sem hán lifir í. Eðlilega verður trans-spurningin í miðju skáldsögunnar viðkvæm þegar henni er stillt upp við hlið skrímslis Frankensteins og mögulegu frelsi líkamlausrar gervigreindar eða helsi kynlífsdúkkunnar. Transfólk vill ekki frekar en aðrir láta kalla sig skrímsli, póst-húman eða kynlífsdúkkur – ég myndi segja að Winterson, eða bókin, geri það ekki (nema hugsanlega að hún spyrji hvort við séum ekki öll póst-húman/skrímsli/kynlífsdúkkur). En listaverk af þessari tegund eru heldur ekki nákvæm – þau eiga ekki að miða beint í mark og væru vond ef þau gerðu það (það heitir áróður – hann kannar ekkert, skoðar ekkert, heldur bara veit og dæmir). Mér fannst sjálfum blasa við að Winterson væri með fjölbreytileikanum í liði, hinu margbrotna og skapandi, þótt hún vildi líka draga inn hætturnar. Að hún vildi hnita í hringi í kringum möguleika sköpunar, sjálfsmyndar og vitundar og sjá hvað kæmi út úr því – hvað það segði um „hið mannlega ástand“. Úr því kom ýmislegt hnitmiðað og annað óhnitmiðað – einsog gengur, Winterson hefur alltaf verið áhugasöm um ævintýrið í hinu mannlega – og það er kannski í og með kaldhæðnislegt og lýsandi (fyrir verkið og samtíma þess) að innsti kjarni bókarinnar skuli fjalla um ábyrgð skaparans á sköpunarverki sínu.