Konur sem kjósa menn

Ég er voða mikið í einhverju grúski þessa dagana. Eitt af því sem ég rak augun í fyrir tilviljun, í leit að allt öðru, var grein í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, þar sem fram kemur að tvær konur hafi kosið í hreppsnefnd í Mosvallarhreppi í Önundarfirði árið 1874 – en þann rétt fengu konur ekki fyrren 1882. 35 manns kusu alls og þar af voru sem sagt þær Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnadal og Steinunn Jónsdóttir á Hesti. Ekki kemur fram hvað þær kusu – en það kemur þó fram að það sé vitað, enda hafi kosningar verið opinber gjörningur og skrásett hver kaus hvað. Gera má ráð fyrir að þær hafi kosið karlmann, enda voru þeir einir í kjöri. Ástæðan fyrir þessu er síðan forvitnileg túlkun kjörstjórnarmanna á tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 4. maí, 1872, þar sem segir: Kosningarrétt og kjörgengi til hreppsnefndar á hver búandi maður, sem hefur óflekkað mannorð, er 25 ára að aldri og er ekki öðrum háður sem hjú, ef hann síðasta árið hefur haft fast aðsetur í hreppnum og goldið til hans þarfa, stendur ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk og er fjár síns ráðandi. Töldu kjörstjórnarmenn að konurnar tvær – sem réðu fyrir eigin búi, höfðu náð tilsettum aldri (42 og 52 ára), voru hvorki hjú, fátæklingar eða ómagar og uppfylltu önnur skilyrði – væru auk þess menn í réttum skilningi þess orðs á íslensku, þótt þær væru kannski ekki mænd upp á dönsku – einsog var sennilega sá skilningur sem lagður var í tilskipunina af þeim sem skrifuðu hana, á dönsku, eða þeim sem þýddu hana á íslensku. Enda er þetta eina dæmið um að tilskipunin hafi verið svo túlkuð.

Sól, Stund, sund og sjómenn

Það styttist óðum í að sólargeislarnir nái niður í bæ. Tæp vika áður en það getur tæknilega gerst. Áður en til þess kemur mun ég reyndar halda suður á bóginn í sumarbústaðarferð. Eða vetrarbústaðarferð. Ef heppnin er með okkur munum við njóta sólar í þeirri ferð. Svo þegar við komum til baka bökum við pönnukökur (25. jan.) og drekkum kaffi. Það er eini dagurinn á árinu sem ég baka pönnukökur – annars sér Nadja um það og gerir oft. Stundum hefur reyndar verið skýjað í lengri tíma eftir sólardaginn. Þá sér maður enga sól. Stundum er bara vitlaust veður, dag eftir dag. Ég er langt kominn með fyrstu Stund þessa vefmiðlalausa lífs. Þetta er svolítið einhæft, sérstaklega fyrri hluti blaðsins – persónulegur harmur og fjármálavafningar. Og sumt af því er bara þegar orðið frekar gamalt þegar blaðið kemur út – það var alveg ástæða til að kovera Vitalíumálið en það er einsog það hafi gleymst að finna einhvern vinkil á það annan en að mylja bara ofan í mann tíu daga gamla fréttapunkta. Kannski er þetta grein sem birtist strax á netinu. En staðreyndir hætta hratt að vera fréttnæmar. Myndlistarumfjöllun Hillbillysystra bjargar svo blaðinu. Illugi átti líka góðan sprett – þótt ég hefði gjarnan viljað fá einhverjar heimildir um að fólk hafi beinlínis viljað að sjómenn væru ósyndir svo þeir kveldust skemur í hafinu. Það er nógu ankannaleg hugmynd til að bera sig illa sem heimildalaus endursögn – maður hváir ósjálfrátt. Og veltir fyrir sér hvenær nákvæmlega fólk hafi verið þessa sinnis. Kannski missti ég bara af því samt. Ég hraðfletti síðunum sem ég á eftir til að athuga hvað væri í vændum og mér sýnist að það sé ljósmyndaumfjöllun, tónlistarumfjöllun og kannski meiri menning en engar bókmenntir (einsog ég hafði sosum reiknað með).

„Mjór er sá vegur sem liggur til lífsins“

Í síðustu viku rann það upp fyrir mér að frá því Brúin yfir Tangagötuna kom út hefur verið flutt út úr bæði húsinu á móti og húsinu norðanmegin og nú er nágranninn fyrir aftan okkur að flytja líka. Ég veit ekki hvað ég á að lesa í það. Nágranninn sunnanmegin flutti líka á tímabilinu en þar kom strax maður í manns stað. Mér skilst líka að nágranninn norðanmegin komi aftur í vor og að það verði flutt í húsið fyrir aftan okkur strax og núverandi nágranni flytur út. Beggi á móti hafði svo sennilega ekkert val – hann var kominn á aldur. Við þetta má svo bæta að einu nágrannanarnir sem ég veit fyrir víst að hafi lesið bókina, Tinna og Gylfi, eru líka einu svona „næstu“ nágrannarnir (þar sem maður sér inn – ukuleleið á stofuveggnum þeirra blasir við og einsog speglar ukuleleið á stofuveggnum okkar) sem hafa ekki flutt neitt. Annar nágranni minn – einu húsi fjær sunnanmegin, maður sem ég vann með í rækjunni – stoppaði mig á dögunum í óveðri og hrópaði í gegnum rokið: „VEISTU HVERNIG HÁRIÐ Á ANDRÉSI ÖND ER Á LITINN?“ Ég stoppaði og verandi andlaus™ eftir jólavertíðina spurði ég hvort það væri ekki hvítt? „NEI HANN ER DUCKHÆRÐUR!“ hrópaði þá nágranninn.

Blöðin og Hagalín

Morgunblaðið er frekar íhaldssamt blað. Sem er hressandi. Það er ekki gott fyrir mann með mótþróaröskun að vera fastur í búbblu. Það er betra að býsnast yfir málflutningi pólitískra andstæðinga sinna en að býsnast yfir málflutningi svonefndra samherja sinna. Í morgun las ég dásömun á verstu íhaldsseminni í nýju bók Houellebecq, vörn (dulbúinni sem hlutlaus umfjöllun) fyrir transruglinu í JK Rowling og Reykjavíkurbréf um hvað Trump væri misskilinn og hvernig almennt væri nú samþykkt að veiran hefði orðið til í kínverskri rannsóknarstofu. Reyndar las ég líka ágætis viðtal við næringarfræðing og annað við Björn Hlyn – þar sem fram kom að hann vilji gera Ölver að heimili blústónlistarinnar og gott ef mér finnst hann ekki bara 15-20% betri leikari eftir að ég frétti það. Mín bíður svo Stundin. Á morgun ætla ég sem sagt að býsnast yfir ofvirkri félagslegri uppljómun – frjálslyndinu sem trúarsetningu. Það komu engin blöð frá þriðjudegi og þangað til í gær – ég lét vera elstu moggana en hirti lau- og sun og svo þessa Stund. Ég verð hissa ef það verður jafn mikið um bókmenntir í Stundinni og í sunnudagsmogganum – þótt það sé ekki beinlínis „mikið“ þar heldur. Annars er ég alveg dottinn í lókalbókmenntirnar og er að ljúka við níunda bindið í ævisögu Guðmundar G. Hagalín. Fyrstu átta bindin fjalla um bernsku, æsku, unglingsár og allra fyrstu fullorðinsárin (ég hoppaði yfir þau). Hagalín er rétt tæplega þrítugur þegar níunda bindið – Þeir vita það fyrir vestan – hefst. Þetta er áhugavert efni, sérstaklega fyrir ísfirskan rithöfund kannski, en líka bara líf í tuskunum. Það slær mig hvernig pólitískur klofningur hefur litið allt öðruvísi út á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hagalín er mikið í mun að sýna að sér sé vel við alls konar fólk sem er ósammála honum. „Sjálfstæðismaður, en drengur góður“ er einkunn sem maður sér víða. Hagalín var auðvitað eðalkrati og bæjarmálamafíósi af guðs náð – í makkerí með Finni Jónssyni, Haraldi Guðmundssyni og Vilmundi landlækni – og þeir svífast einskis. Eru að mörgu leyti íhaldssamir en líka framfarasinnaðir og fullir af krefjandi kærleik í garð smælingjanna (þeir setja t.d. reglur um að það megi ekki eyða sveitastyrknum í óholla fæðu – fá kaupmenn í lið með sér og láta merkja alla hollustuna sérstaklega í búðunum). Þá er honum tíðrætt um marga kommúnista að þeir séu gáfumenni og jafnvel drengir góðir (en auðvitað heilaþvegnir af Sovétinu). Næstu stund er hann að gera Brynjólf Bjarnason hlálegan á fundi með því einu að svara ræðu hans með einu „halelúja“, að bola kommúnistum úr verkalýðsfélaginu og nefndum og að rota sjálfstæðismenn úti á saltfiskreitunum þegar þeir eru að gera sig líklega til verkfallsbrota. Það er svo alþekkt að bæjarblöðin á þessum tíma, Skutull og Vesturland, eru ofsalega hörð. Mjög fyndin oft – en líka bara bókstaflega svo rætin að maður skilur ekki að þetta fólk skuli geta hafa mæst mörgum sinnum á dag á förnum vegi án þess að skiptast á gúmorrenum; sem það hlýtur þó að hafa gert. Altso mæst, ekki slegist. Og ef það er eitthvað að marka Hagalín fór nú bara vel á með þeim, þegar það var ekki að takast á í bæjarblöðunum eða svindla hvert á öðru í atkvæðagreiðslum eða rota hvert annað á saltfiskreitunum. Enda drengir góðir. Það er líka áhugavert að hugsa um stöðu Hagalíns sem „borgaralegs höfundar“ – hann sem var frekar rauður krati (sérstaklega á nútímastaðli) en taldi kommúnista hálfgerðan skríl. Hinumegin pólitíska rófsins í íslenskum bókmenntum, sem nær frá krötum að kommum, eru svo menn einsog HKL og Þórbergur en þeir eru líka hinumegin við Vilmund landlækni – sérstaklega eru Þórbergur og Hagalín í miklu vinfengi við Vilmund (sem er með Hagalín í öllum krataplottunum til að klækja á kommunum á Ísafirði). Og einhvern veginn undarlegt að hugsa um Vilmund sem snertipunkt eða nöf milli þessara fylkinga. Það segir svo sína sögu um þessa ævisögu Hagalíns að ég man ekki hvað konan hans heitir. Hún kemur yfirleitt bara við sögu sem „kona mín“ og þá jafnan til þess að nefna hvað hún er alltaf ægilega bíl- og sjóveik. Þau geta ekkert ferðast án þess að hún sé til vandræða. Maður veit ekki alltaf hvort Hagalín hefur nokkra samúð með henni – eiginlega fær maður það á tilfinninguna að þetta fari mjög í taugarnar á honum. Kannski er það ósanngjarnt mat. Ég held þau hafi skilið á endanum en þar sem Hagalín skrifaði aldrei fleiri bindi í þessa ævisögu veit það sennilega enginn fyrir víst. Annað sem vekur athygli mína er að alltaf þegar bækurnar hans fá góða dóma segist hann hafa verið „afar hissa“. En þegar hann fær slæma dóma segir hann sögu af því hvernig hann náði sér niður á ritdómaranum síðar, oft með einhverri vel tilfundinni athugasemd eða klækjum.

Stormviðri í Skutulsfirði

Það hefur mikið verið rætt um landfyllingu neðan við Fjarðarstræti á Ísafirði síðasta misserið. Sonur minn og fleiri fóru meira að segja og söfnuðu undirskriftum gegn landfyllingunni, sem tekur yfir stóra fjöru, þar sem börn leika sér á góðviðrisdögum. Þessi fjara myndaðist reyndar við aðra landfyllingu – var miklu nær landi áður en það var fyllt upp í og ný fjara birtist á um áratug. En það er sama, þau þekkja enga aðra fjöru (það var samt svolítið skrítið að sjá sumt fullorðnara fólk tala um að það hefði „alist upp í þessari fjöru“ – sem var alls ekki til fyrren þau voru vel stálpuð). Þegar ég var unglingur átti einn af mínum bestu vinum heima við Fjarðarstræti. Hann var með sérinngang í herbergið sitt í kjallara aftantil og þar var fjaran nokkurn veginn beint við dyrnar. Þegar það var stormasamt var ófært inn til hans einkaleiðina. Um það leyti sem fyrri landfyllingin kom var talað um að færa veginn þarna niðurfyrir – Fjarðarstræti er þröng og asnaleg gata. Ég veit ekki hversu alvarlegar þær hugleiðingar voru en ég man eftir að hafa frétt af þeim þannig að það „bara stæði til“. Þá bjó ég sjálfur við götuna og hugnaðist lítið að skipta út sjávargjálfrinu við svefnherbergisgluggann minn fyrir umferðargný. Svo kom ekkert nema bersvæði og göngustígur, sem er nú sennilega meira nýttur en fjaran – sjálfur skokka ég hann oft í viku þá mánuði sem veðrið hrekur mig ekki inn. Mér skilst að það sé fólk innan kerfisins – bæjarstjórn og bjúrókratar – sem klæjar mjög að fá þarna nýtt byggingarland „á besta stað“. En að sama skapi eru íbúar sem nú búa við útsýni beint út á Snæfjallaströndina ekki par ánægðir – enda búa þeir nú á besta stað og þann stað á að taka af þeim og planta þeim við götu inni í miðjum bæ. Sérstaklega er þetta einmitt ágætur staður frá því síðustu grjótgarðar og landfyllingar komu því það gengur ekki lengur jafn mikið af sjó á land eða inn í kjallara – en útsýnið er enn til staðar og nálægðin við náttúruundrin næstum söm. Eyri í Skutulsfirði er í dag eiginlega ekkert nema landfyllingar og það hefur staðið styr um þær flestar. Enda var Eyrin gjarnan kölluð Tangi fremur en Eyri – Hagalín kallaði Ísafjörð alltaf Tangakaupstað. Mér skilst það sé einhver smá spotti eftir af orginalfjöru niðri í Neðstakaupstað en annars sé allt uppfyllingar – stór hluti af ætluðu „byggingarlandi“ á Eyrinni stendur síðan á gömlu ruslahaugunum, sem þarf sennilega að rudda upp við tækifæri, en guð veit hvað finnst þar undir. Það, ásamt skólpmenguninni sem safnast fyrir ár frá ári á pollinum, er sennilega nærtækasta lókal umhverfiskatastrófan á 21. öldinni. Ef ekkert verður að gert (sem er nú mjög sennilegt, ef reynslan segir manni eitthvað, ekkert er uppáhaldsiðja mannsins). Ég ætti kannski líka að telja með díoxínhörmungina úr Funa hér í upphafi aldar auðvitað. Jú og svo líst mér nú lítið á samþjöppun í laxeldinu – það er ekki ávísun á neitt nema þjösnagang þegar auðvaldið byrjar að þétta raðirnar. Sjálfur veit ég ekki með frekari landfyllingar neðan við Fjarðarstræti. Ég er svona frekar á móti þessu en þegar æsingur vissra bæjarbúa mætti mótþróaröskuninni minni var ég á tímabili farinn að verja hana miklu meira en ég kærði mig um – ég þurfti að beita mig handafli til að bakka. En það var erfitt að heyra rökin með henni, fyrir hávaðanum í þeim sem fluttu rökin gegn henni (og hreinlega ýkjum). En ég er nú samt á móti henni – kannski ekki brennandi heitur, en myndi greiða gegn. Ég held að landfyllingin sé óþarfi og mér sýnist að hún kosti miklu meira en lagt var upp með (fyrst átti hún að vera svo gott sem ókeypis, vegna nýtingar á jarðvegi annars staðar að). Og þótt fjaran komi aftur hverfur hún samt heilli kynslóð. Síðan sé ég ekki betur en það sé í raun hægt að byggja helling á þeirri landfyllingu sem nú þegar stendur – útsýnisþegum Fjarðarstrætis til gremju, vissulega. Svo mætti líka rífa skítakofana gegnt Faktorshúsinu og byggja eitthvað fallegt þar. Mestar áhyggjur hef ég samt af því að það verði byggt eitthvað ljótt. Það komi landfylling og röð af bensínstöðvum og kannski ein ljót blokk með dýrum íbúðum. En vandamálið er varla – enn sem komið er – að það sé hvergi hægt að byggja. Og þá er bara óþarfi að vera að eyða almannafé í það eitt að skaprauna íbúum.

Æruleysisbænin

Þetta orð dúkkaði upp í huga mér í morgun. En hvernig væri æruleysisbænin? Væri hún kannski bara áþekk æðruleysisbæninni? Eða verður hún til á skrifstofum almannatengslaráðgjafa? Guð gefi mér styrk til að troða allar dræsurnar í svaðið, æruleysi til að vera alveg sama og vit til að lifa það allt saman af? Kannski væri hún auðmjúkari – guð gef mér styrk til að bæta ráð mitt, æðruleysi til að játa syndir mínar og vit til að lifa það allt saman af. Annars lærði ég í dag að tíu árum eftir að fyrsta bifreiðin kom til Ísafjarðar (1924) og sex árum eftir að fyrsti flugfarþeginn (Þórbergur Þórðarson) kom til Ísafjarðar kom fyrsti tómaturinn til Ísafjarðar. 1934. Og þótti hreint ekki ómerkilegri en Þórbergur Þórðarson fljúgandi. Það er dæmalaust hvað maður kemst yfir að lesa þegar maður hangir ekki á Facebook og Twitter og Instagram og YouTube og Vísi og DV og Stundinni og MBL alla daga jafnt. Ég man að ég las einhvern tíma í viðtali við Árna Bergmann, hið annálaða gáfumenni, að fólk sem teldi sig aldrei finna tíma til að lesa ætti að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til (þetta var fyrir FB – þar sem Árni er/var reyndar vinur minn). Ég á örfáar síður eftir í Landið handan landsins eftir Guðmund Daníelsson og annað eins í Að lesa ský – ljóðaþýðingum Magnúsar Sigurðssonar, sveitunga míns, og eru það þá níunda og tíunda bókin sem ég klára frá áramótum. Samt er ég heilmikið búinn að horfa á sjónvarp og spila á gítar líka og fara í búð og gera mat og leika við börnin mín og vinna fullan vinnudag alla virka daga (og m.a.s. smá á helginni líka).

Blúsbloggið: Árslisti, færsla 2 af 3

Jæja. Þá er komið að sætum 6-11 á árslista blúsbloggsins yfir bestu plötur ársins 2021. (Ég bætti við einu sæti til að ná inn öllum sem ég vildi hafa með – þetta má maður þegar maður er sinn eigin ritstjóri). 11. sæti: Steve Cropper – Fire it Up Steve Cropper er gítarleikarinn og lagasmiðurinn á bakvið ótal tryllta ofsasmelli – frá Sittin’ at the Dock of the Bay, Soul Man, Knock on Wood, Green Onions og In the Midnight Hour. Hann er áttræður og þetta er önnur sólóplatan hans og sú fyrsta í 53 ár. Hann er með frábært band sér við hlið, æðislega lúðrasveit og bærilegasta söngvara – sem stenst nú reyndar ekki samanburð við Otis Redding eða Wilson Pickett, en það gera nú sosum ekki margir heldur. Stíllinn er gamaldags og Cropper hefur engu gleymt og engu breytt. Besta lagið er instrumental-lag sem er skipt upp í tvo kafla sem hefja og ljúka plötunni – en birtist líka óskipt sem aukalag. Klassískt Cropper-grúv. Ég veit ekki hvort það er mikils að vænta af Croppernum úr þessu – hann fer nú sennilega bara að taka því rólega – en þetta er líka mjög virðulegt lokalag á glæsilegum ferli. 10. sæti: Robert Finley – Sharecropper’s Son Robert Finley virkar einsog hann ætti að vera eldri en Cropper en er nú samt nokkuð yngri – fæddur 1954. Hann hefur lengi verið að gutla í músík en aðallega heima hjá sér – var smiður lengst af en missti víst sjónina og fór upp úr því að einbeita sér meira að músíkinni. Hann hefur átt góðu að gengi að fagna frá því hann gaf út sína fyrstu plötu 2015 – komst svo fljótlega í samband við Dan Auerbach úr Black Keys og hafa þeir talsvert unnið saman síðustu ár. Auerbach pródúserar þessa plötu og það heyrist. 9. The Blues Album – Joanna Shaw Taylor Blúsplatan heitir hún ekki vegna þess að JST hafi ekki verið að spila blús fram að þessu, heldur vegna þess að hér eru ekkert nema koverlög – kannski ekki þekktustu lögin en samt gegnheilir og þvottekta klassíkerar. Þetta er mikil gítarhetjuplata en Joanna er líka með fallega rödd ofan í gítarhæfileikana (sem er nú því miður ekki alltaf raunin). Lagið sem ég vel hérna af plötunni er gamalt lag með Bettye Lavette og verður nú sennilega aldrei gert betur. En fjári vel gert er þetta samt. Mér verður reyndar illt af að horfa á sólóið í myndbandinu (það hefur greinilega ekki verið til nein taka af Joönnu að spila það svo það er bara notað „eitthvað“). Joe Bonamassa – JoBo sjálfur – og Josh Smith pródúsera (einsog reyndar líka plötu hinnar Joönnunar, Joönnu Connor, sem var nefnd í síðustu færslu). 8. Delta Kream – The Black Keys The Black Keys eru sjálfsagt langþekktasta sveitin á þessum lista. Þetta er önnur koverlagaplata, með áherslu á svokallaðan „hill country“ blús, ekki síst Junior Kimbrough. Titillagið er reyndar einn af stærstu smellum John Lee Hooker en útgáfan er líkari útgáfu Kimbroughs. Þarna eru svo lög eftir RL Burnside, Big Joe Turner og Mississippi Fred McDowell. 7. sæti: Heavy Load Blues með Gov’t Mule Gov’t Mule er eins konar afsprengi hinnar frægu sveitar Allman bræðra. Þetta er ein af þessum sveitum sem er ekkert að flækja hlutina mikið fyrir sér – snýst um að finna sér grúv og setjast svo rækilega í það. Enn ein koverlagaplatan – meðal bestu laganna eru Snatch it back and hold it eftir Junior Wells, Ain’t no love in the heart of the city sem Bobby Blue Bland gerði frægt og þetta hérna, Make It Rain eftir Tom Waits af Real Gone. 6. sæti: Nowhere Sounds Lovely – Cristina Vane Cristina var líka á listanum í fyrra með plötuna Old Played New sem innihélt alls kyns deltablúskover. Hér er hún með sína fyrstu breiðskífu af frumsömdum lögum – það eru alls kyns þjóðlagaáhrif hérna, írskir og hillbilly straumar, og lög einsog Dreamboy eru (í þeim útsetningum sem birtast á plötunni) bara frekar grípandi poppslagarar. Síðasti skammtur kemur svo á næsta fimmtudag.

Einkamál

Eitt það allra snúnasta við að hætta á samfélagsmiðlum er að forðast þá tilfinningu að maður sé alltíeinu svo miklu betri og merkilegri en þeir sem fastir eru í þessum billegu hrævareldum korporatfasismans. Ég er að vísu ekki einu sinni búinn að slökkva á reikningunum mínum. Ég er hreint ekki viss um að ég sé búinn að skrá mig út, hvað þá annað. Ég hef bara ekki opnað síðurnar. En ég er orðinn mjög hofmóðugur samt, á þessum tíu dögum sem eru liðnir. Finnst ég óspilltur, einhvern veginn. Í gær fékk ég loksins moggann. Laugardags- og sunnudags í einu. Það er, einsog ég hef sjálfsagt nefnt, mjög langt síðan ég las nokkuð dagblöð og mér brá talsvert að uppgötva hvað helgarblöðin eru þunn. Það er nánast ekkert í þessu. Meira að segja barnablaðið er eiginlega ekkert nema ein krossgáta, nokkrar myndir eftir börn og auglýsing (mjög classy að hafa auglýsingu inni í barnablaðinu). Efnið er í sjálfu sér ágætt – það var t.d. grein um Betty White og viðtal við Hauk Ingvarsson um Faulknerbókina. Í sunnudagsmogganum var hins vegar engin stjörnuspá og því þurfti ég að láta mér stjörnuspá laugardagsins að góðu heita. Þar kom fram að dagurinn minn yrði „frábær“ og var mælt með því að ég færi í göngutúr. Þetta las ég auðvitað ekki fyrren í morgun og þá var of seint að fara í göngutúr síðasta laugardag, svo þá hef ég bara farið í heimsókn til foreldra minna í staðinn. Eða … þá mun ég hafa … nei … þá myndi ég hefði … hvaða tíð passar eiginlega fyrir að maður hefði í fortíðinni farið að ráðleggingum spádóms um framtíðina ef blaðið hefði bara borist manni í tæka tíð? Þegar ég kom á skrifstofuna í morgun gluggaði ég síðan í Morgunblaðið frá 9. marz (svo) 1985. Þann dag fylgdi Morgunblaðinu sérstakt aukablað um Guðmund G. Hagalín (ég kláraði Kristrúnu í Hamravík – í fyrsta sinn – í gær) og eru þar margir sem minnast hans, meðal annars Guðmundur Daníelsson, Indriði G. Þorsteinsson og Sigurður Pálsson (f.h. RSÍ). Bara karlmenn, hjó ég eftir. Hvað um það – ekki veit ég hvort Halldóri Laxness var boðið að frumskrifa eitthvað í blaðið eða hvort þetta var fyrsta val ritstjórans, en þar birtist líka stuttur en skemmtilegur kafli úr Sjömeistarasögu hans þar sem HKL reifar samband sitt við hinn mikla Hagalín. Þar birtast brot úr tveimur „kvæðum“, sem Halldór nefnir svo, en ekki er nefndur höfundur – stíllinn á tilskrifinu er þannig að manni á sjálfsagt að skiljast að þetta hafi Halldór ort sjálfur. Mér fannst annað þeirra allavega nógu skemmtilegt að skrifa það hjá mér. Í húsinu númer 3 við Mjóstræti
maður nokkur var sleginn í rot;
það var heiðursmaðurinn Ólafur Hvanndal
brautryðjandi í myndmótagerð.
Kært var fyrir lögreglunni málið
en að vanda hún svæfði það svo rótt
með þeim formála sem þar er vant að hafa
að hér væri einkamál á ferðinni Hitt kvæðið er í sama stíl og fjallaði um hest sem drapst úr skitu og varð fólki sorgardauði.

Blúsbloggið: Árslisti, færsla 1 af 3

Ég hef ekkert sinnt blúsblogginu síðan ég gerði árslistann í fyrra . Eða svona. Ég skipti því út fyrir plötu vikunnar hér á tímabili. En það hafa ekki verið neina eiginlegar blúsbloggsfærslur síðan í desember 2019. Ég keypti mér tvær plötur af þeim lista – Rawer than Raw með Bobby Rush og Cypress Grove með Jimmy Duck Holmes. Ég reyndi líka að útvega mér Blackbirds með Bettye Lavette en það tókst víst aldrei. Auk þeirra hef ég mest hlustað á El Dorado með Marcus King – en líka eina plötu sem komst ekki á listann en gerði það næstum því, var á langalistanum, en það er Sweet Little Black Spider and Other Songs from the Trenches of the Blues með Franck L. Goldwasser, Kid Anderson og June Core. Lagið Jimmy Bell með Watermelon Slim fær líka gjarnan að heyrast en síður annað af plötunni – og koverlagaplata Cristinu Vane líka. Annað hef ég varla hlustað á. Það er oft erfitt að sjá fyrir hvað lifir með manni þegar plöturnar eru nýlegar. Goldwasser og kó unnu mikið á en annað dofnaði. Í ár ætla ég að hafa þetta í þremur færslum. Í dag ætla ég að færa til bókar þær plötur sem komust ekki inn á topp tíu listann en mér fannst samt allrar athygli verðar. Og ég er ekki hættur að hlusta á neina þeirra. Plöturnar eru eru, í engri sérstakri röð: Long Time Comin’ með Paul Cowley Þetta er sjálfsútgefin plata með kassagítarleikara frá Birmingham. Það er heilmikill sjarmi þarna og mig grunar að hann vinni á – en ég er bara ekki búinn að hlusta nóg á hana til að vera viss. 4801 South Indiana Avenue með Joönnu Connor Joanna Connor er slide-gítar drottningin. Útgáfa hennar af Walkin’ Blues varð viral hér um árið – með smitstuðul á við ómíkrón í öskrandi áramótapartíi. Hún gefur alltaf allt og á endanum er það sennilega ástæðan fyrir því að ég hef hana ekki með. Þetta er þrusustöff – ofsaleg rödd og nístandi gítar – en það vantar dýnamíkina. Eða kannski ræður hún bara ekki við að gæða ljúfu tónana sama lífi. En djöfull er hún samt góð þegar hún er góð. 662 með Christone „Kingfish“ Ingram Ég hef meiri smekk fyrir Kingfish en margir. Þetta er fremur poppað og hann er af gítarhetjuskólanum. Fæddur í Clarksdale – og þá hefur maður annars konar tilkall til blússins en venjulegt fólk. Einsog Joanna ræður hann yfir þessum nístandi gítartón sem sundrar í mér hjartanu, en hann hefur líka meiri dýnamík og er jafnvígur á ljúfari tóna. Pródúseringin á þessu ber þess hins vegar merki að þetta er meikplata – það hefur einhver rándýr Nashvillepródúsent fengið það hlutverk að stýra þessu inn á vinsældarlistana. Paint the Roses (Live in Concert) með Larkin Poe og Nu Deco Ensemble Ég er alltaf á báðum áttum með Larkin Poe. Þær eru eiginlega alltaf aðeins of fullkomnar. Mér finnst meira gaman að hlusta á þær live en í stúdíóupptökum – þær fá einsog Kingfish alltaf einhverja Nashvilletýpu til að sjúga lífið úr lögunum. En meira að segja þessi live-plata hefði mátt vera aðeins hrárri. Fyrsta lagið (þetta hér að ofan) er best. Binga með Samba Touré Samba Touré er afróblúsari frá Malí af Ali Farka Touré skólanum (en þeir eru ekkert skyldir, eftir því sem ég get grafið upp – Samba túraði samt með Ali einhvern tíma og er álitinn hans helsti arftaki, tók kannski bara upp nafnið, ég hreinlega veit það ekki). Ég er ekki skólaður í afróblús en mér finnst skemmtilegt að láta þetta renna – þjóðfélagsgagnrýnin fer svo yfir ofan höfuð og neðan af því ég kann ekki málið. Sambalama byggir á Whole Lotta Love riffinu frá Led Zeppelin. Sem er óvenju vel til fundið menningarnám. Afrique Victime með Mdou Moctar Annar afróblúsari. Moctar er berbi – nánar tiltekið Túaregi – búsettur í Níger. Þessi plata hefur fengið frábæra dóma út um allt. Ég kynntist henni og Binga nánast samtímis og þær kepptu svolítið um athygli mína, sem var ósanngjarnt – því þær eru ansi ólíkar þótt þær séu báðar afróblús (enda sungnar á ólíkum tungumálum, leiknar á ólík hljóðfæri o.s.frv. þótt þær eigi ýmislegt sameiginlegt og hljóðheimurinn sé skyldur). Ég hef ekkert sinnt blúsblogginu síðan ég gerði árslistann í fyrra. Eða svona. Ég skipti því útr plötu vikunnar hér á tímabili. En það hafa ekki verið neina eiginlegar blúsbloggsfærslur síðan í desember 2019. Ég keypti mér tvær plötur af þeim lista – Rawer than Raw með Bobby Rush og Cypress Grove með Jimmy Duck Holmes. Ég reyndi líka að útvega mér Blackbirds með Bettye Lavette en það tókst víst aldrei. Auk þeirra hef ég mest hlustað á El Dorado með Marcus King – en líka eina plötu sem komst ekki á listann en gerði það næstum því, var á langalistanum, en það er Sweet Little Black Spider and Other Songs from the Trenches of the Blues með Franck L. Goldwasser, Kid Anderson og June Core. Lagið Jimmy Bell með Watermelon Slim fær líka gjarnan að heyrast en síður annað af plötunni – og koverlagaplata Cristinu Vane líka. Annað hef ég varla hlustað á. Það er oft erfitt að sjá fyrir hvað lifir með manni þegar plöturnar eru nýlegar. Goldwasser og kó unnu mikið á en annað dofnaði. jhih jhi jh j

Sófa só gúdd

Ég ímynda mér að þið hafið margt betra við tíma ykkar að gera en að hlusta á raunir mínar við að finna nýjan mogga – jafnvel „mogga dagsins“ – og hlífi ykkur því við þeim ævintýrum mínum í dag. Nægir að nefna að ég hef enn ekki komist yfir nýjan mogga og er búinn að lesa þann síðasta (4. jan.) í drep. Það berst margt annað til Ísafjarðar, þótt mogginn komi ekki. Til dæmis fékk ég lítið fjöltengi frá Elko í fyrradag, sama dag og stjórnarformaður móðurfélags Elko sagði af sér vegna ásakana um kynferðisofbeldi í heitum potti. Daginn eftir pantaði ég RCA-snúru frá sama fyrirtæki en get ekki borið fyrir mig að þá hafi ég ekki vitað af málinu. Sú snúra er reyndar ekki komin. Sem er bót í máli. Það allra stærsta til að berast hingað – að minnsta kosti á okkar vegum – var þessi sófi. Þetta er 80 rassa tryllitæki – jafn ljótur og gömlu sófarnir okkar voru fallegir, jafn praktískur og þægilegur og hinir voru ópraktískir. Þeir voru gamlir íslenskir sófar úr trésmiðjunni Víði sem ég þurfti að gera við einu sinni á ári. Mér fannst þeir alls ekkert óþægilegir en það fannst sumum öðrum og þegar annar þeirra brotnaði undan hoppandi sykurdrukknum börnum í áramótaveislu ákváðum við Nadja að nú væri komið gott – við myndum eyða aleigunni í nýjan þolgóðan og þægilegan sófa við fyrsta tækifæri. Ferlíkið kom í þremur einingum. Það þurfti að fara með hann inn af pallinum. Og þótt hann væri í svona fáum einingum var nú merkilega mikið moj að setja á hann fætur og festa hann saman. Það hafðist nú samt á endanum, rétt fyrir kvöldfréttirnar og voru þær nýttar til vígslu hans – enda er þetta þvottekta „sjónvarpssófi“. Með svona stóran sófa í húsinu finnst manni svo alltíeinu sjónvarpið vera orðið pínulítið. Þannig vindur smáborgaralífið upp á sig, eitt skref í einu.