Í gær var Bill Cosby sakfelldur fyrir nauðgun. Ég veit ekki hvað hann var sakfelldur fyrir margar en hann var a.m.k. sakaður um fleiri tugi – ferill hans virðist með því allra viðbjóðslegasta í heimi hinna ríku, frægu og sturluðu, svona ef frá er talinn Jimmy Savile. Af þessu tilefni rifjaði ég áðan upp Bill-Cosby mónólóg Eddies Murphys úr RAW, þar sem hann segir frá því þegar Cosby hringir í sig til að kvarta undan sóðakjaftinum á sér, og er mikið niðri fyrir. Það er eitthvað sem manni finnst ganga upp við að mestu móralistarnir séu oft á tíðum líka mestu skepnurnar – eðli mannsins er hræsnisfullt og hann er gjarn á fela bresti sína frekar en flíka þeim, og góðmennskuyfirvarpið og kurteisin eru góðar fjarvistarsannanir fyrir þá sem vilja stunda myrkraverk. Þess utan er maðurinn líka gjarn á að reiðast öðrum fyrir það sem hann skammast sín mest fyrir í eigin fari (og ég geri alveg grjóthart ráð fyrir að verstu skrímslin meðal okkar viti af ógeðinu í eigin fari og það meiði þá). Ég veit ekki hvort Eddie Murphy er góðmenni – eini alvöru skandallinn í lífi hans kom upp þegar hann var gripinn með trans vændiskonu fyrir um 20 árum. Í kjölfarið gaf Candace Watkins, trans vændiskona, mentor trans vændiskvenna og rithöfundur, út rafbók – In the Closet with Eddie Murphy – þar sem teknar voru saman sögur af viðskiptum Eddies og trans vændiskvenna. Bókin var aldrei prentuð en dreift í gegnum heimasíðu – nú virðist hún horfin af netinu, ég finn a.m.k. hvorki af henni tangur né tetur. Eddie sagðist bara hafa verið að skutla konunni, sem dó ári síðar – af slysförum eftir að hún læsti sig úti sagði lögregla en einhverjir gerðu því víst líka skóna að henni hefði verið hrint út um gluggann (sem lögreglan sagði að hún hefði verið að reyna að komast inn um). Jimmy Savile var þekktur mannvinur og einsog Cosby þekktur fyrir einn fjölskylduvænan sjónvarpsþátt – forsenda Jim’ll fix it var að börn skrifuðu Jimmy óskir sínar og hann lét þær rætast. Í gúglinu hérna áðan rakst ég líka á viðtal sem Ricky Gervais tók við Savile, sem hann kynnir með orðunum: „My next guest is basically the A-team rolled into one. He has the cigar of Hannibal. He’s a ladiesman like Face. He’s got the jewelry of Mr. T and he’s mad like Murdoch. And not in a good way.“ Svo fara þeir að ræða góðgerðarstarf Jimmys, sem er afar hógvær (fyrir þá sem af einhverjum ósennilegum ástæðum þekkja ekki söguna af Jimmy, sem var sennilega eins nálægt því að vera djöfull í mannsmynd og nokkur kemst, er hægt að lesa um glæpina hér).
Category: Uncategorized
id““:““2vfr2″“
Það er 18. september 2020 og því liðin slétt 50 ár frá því Jimi Hendrix dó, 27 ára gamall, einsog Robert Johnson, Janis Joplin og allir hinir. Hér eru tvö lög af því tilefni.
id““:““ai20s““
Who made Who er náttúrulega ekki nein venjuleg breiðskífa – heldur að hálfu leyti best-of, 20% instrumental, 20% endurreisn tveggja laga af hinni misheppnuðu Fly on the Wall og svo titillagið, Who made Who – sem vill til að er besta lag sveitarinnar í 2,9 plötur, frá fyrsta lagi For Those About to Rock (en slær þó ekki út nema eitt og eitt lag af þeim sem AC/DC gaf út fyrir þann tíma). *** Platan var gefin út sem soundtrack fyrir bíómyndina Maximum Overdrive sem Stephen King skrifaði og leikstýrði sjálfur – gersamlega útúrkókaður. Ég hef ekki séð myndina og King kallar hana sjálfur „moron movie“ en hann sem sagt hélt og heldur sennilega enn mikið upp á AC/DC (sennilega verið of kókaður til að heyra mikið hvað var að gerast á þessu niðurlægjandi tímabili í ferli sveitarinnar). Myndin er einhvers konar sci-fi dystópía þar sem alls konar tæki lifna við í kjölfar þess að einhver halastjarna fer of nálægt jörðinni (eða álíka, söguþráðurinn er svo mikil steypa að mér sortnaði fyrir augum þegar ég reyndi að lesa hann). *** En platan þá. Mér heyrist vera búið að poppa svolítið upp mixið á Hells Bells og For Those About to Rock en ég myndi ekki hengja mig upp á það. You Shook Me All Night Long var alltaf poppað. Ride On er eina lagið hérna sem Bon Scott syngur. Sennilega þurfti kontrast fyrir myndina og þetta er eini kontrastinn, sirkabát, sem AC/DC eiga í handraðanum. *** Gítarlögin tvö – D.T. og Chase the Ace eru bæði príma, enda leysir það ansi mörg vandamál hjá bandinu að þurfa ekki að eltast við söngmelódíur og þess lags hégóma. Sérstaklega er Chase the Ace flott – rosalegt gítarsóló. Hér að neðan má líka sjá brot úr bíómyndinni. *** *** Lögin tvö af Fly on the Wall – Nervous Shakedown og Sink the Pink – eru skömminni skárri í rímixinu. En ég veit ekki hvort það er eitthvað meira. Sennilega er Sink the Pink alltílagi lag og Nervous Shakedown undir meðallagi. *** Í titillaginu byrjar svo að móta fyrir gítarstefinu fræga í Thunderstruck. Angus er svolítið gjarn á að endurtaka sig og fullkomna það smám saman – þannig mótar líka fyrir For Those About to Rock stefinu í Shoot to Thrill, einsog ég nefndi áður. Þetta er ekki endilega spurning um sömu nótur heldur svipaða tækni og stemningu. Lagið er annars einsog ég segi mjög fínt, þótt þeir megi fara að hrista af sér eitísið sem fór þeim aldrei vel, og textinn aldrei þessu vant ekki vandræðalegur. who made who, who made you
who made who
ain’t nobody told you
who made who, who made you
if you made them and they made you
who pick up the bill and who made who Og myndbandið er frábært (Stephen King leikstýrði því ekki). *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-23T14:27:37.240Z““
Bókaklúbbur barnanna kláraði Tímakistuna fyrir helgi. Ég valdi og var alveg ógurlega ánægður með hana. Ég var einhvern veginn búinn að heyra misjafnar sögur um hana og bjóst því aldrei við því að hún væri jafn góð og hún er – kannski að hún hafi ekki haldið dampi allan tímann, kannski það hafi komið í henni smá febrúar í síðasta fjórðungi, en hún lifði það alveg af á þrususkriðþunga eftir frábæran fyrrihluta. Börnin voru líka kát en ekki kannski jafn kát og ég. Grunnpunkturinn í sögunni er kistan í titlinum. Ef maður fer í kistuna stoppar tíminn. Þannig getur maður sleppt öllum rigningardögum lífsins. Sagan gerist fyrst og fremst í fortíðinni þegar enginn er í kistunni annar en ein prinsessa, sem er metin svo hátt að lífi hennar megi engan veginn sóa, og hún missir þannig af lífinu, ástvinum sínum og öllu hinu. En hún gerist líka í framtíðinni eftir að kisturnar verða almenningseign og allir hafa lagst í hýði til að bíða af sér kreppuástand – sem lýkur auðvitað aldrei af því enginn nennir að leggja á sig erfiðið sem fylgir því að vinna sig upp úr kreppu, allir ætla bara að bíða hana af sér einsog hvern annan rigningardag. Það vildi til að daginn sem ég byrjaði á bókinni rakst ég á tilvitnun í Andra Snæ á vegg hjá dönskum vini mínum – úr danskri þýðingu á einhverju, man ekki hverju – þar sem Andri vitnar í einhvern rithöfund (man ekki hvern, man ekki neitt!) sem sagði að maður þyrfti að lifa þremur lífum. Einu til að lesa, einu til að skrifa og einu til að bara lifa. Andri bætir svo því fjórða við: Einu lífi til að skutla börnunum í ballett og fótbolta. Allt kristallar þetta auðvitað upplifunarþrána sem einkennir samtímann – og sjálfsuppfyllingarþrána kannski líka. Ég ræddi það við Nödju um daginn að það væri svo sjaldan sem við gerðum ekki neitt. Þegar ég var lítill fór maður oft á rúntinn með foreldrum sínum – eða ég gerði það allavega – og var ekki á leiðinni neitt. Hér fyrir vestan þvældist maður milli fjarða, fór og keypti ís í Brúarnesti, í Reykjavík enduðum við oft á lulli um bílasölur. Ef við fjölskyldan í Tangagötunni förum upp í bíl eða bara upp á hjól eða reimum á okkur skóna erum við alltaf á leiðinni eitthvað. Meira að segja þegar við förum bara í göngutúr þá er markmiðið heilsan. Það er alltaf markmið, alltaf tilgangur – og maður er eftir því þreyttur og lúinn og burnoutaður og kvíðinn. Þetta er Tímakistan okkar – við breytum rigningardögunum í sólskinsdaga, breytum febrúar í eitthvað ævintýri, af því það þarf alltaf að vera ævintýri, má aldrei vera friður. Afleiðingarnar eru kannski ekki jafn slæmar og í Tímakistunni en ég held samt þetta sé ekki gott. *** Héraðið eftir Grím Hákonarson, Óli Pétur – Undir áhrifum eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson og Girl eftir Lukas Dhont eru að mörgu leyti mjög ólík verk. Þau eru samt öll realísk lífsreynsluverk – raunveruleg, byggð á raunverulegum atburðum, eða trúverðug samtímaheimild – og hefðu öll getað komið aðalatriðum sínum til skila í mannlífsviðtali eða Facebookstatus. Mikilvægi þeirra getur legið í boðskapnum eða innsýninni en listfengi þeirra liggur í öðru. *** Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem horfði á Girl. Myndin fjallar um sextán ára transstúlku og ballerínu í Belgíu. Nadja valdi. Ég man ekki hvort ég hef lesið eitthvað um að hún hafi verið umdeild, þessi mynd, en mér finnst það sennilegt. Þótt ekki væri nema bara vegna þess að leikstjóri og stjarna myndarinnar eru bæði sís-karlmenn (eða strákur og karl). Þegar við bætist að myndin er mjög brútal og nærgöngul á líkama Löru finnst mér einsog hún hljóti að hafa ýft fjaðrir. Ég nefni það ekki vegna þess að mér finnist það aðalatriði, til hnjóðs eða lofs, en það kannski segir eitthvað um hana. Lara byrjar á hormónum í upphafi myndar og stefnir á aðgerð í framhaldinu. Hún misþyrmir hins vegar líkama sínum – borðar ekki, sefur ekki, teipar niður kynfærin á sér og fær sýkingar, tekur of stóra skammta af hormónunum sínum gegn læknisráði og þar fram eftir götunum. Þess utan gengur hún afar nærri sjálfri sér í ballettinum – er ævinlega alblóðug og marin eftir strangar æfingar. Afleiðingin er sú að læknirinn tjáir henni að hún sé ekki í neinu ástandi til að undirgangast erfiðar skurðaðgerðir. Það aftur veldur henni meiri harmi sem veldur því að hún gengur enn harðar að sjálfri sér, borðar minna, meiðir sig meira og svo framvegis. Myndin byrjar í raun sem einföld reynslusaga en verður smám saman að einhverju meira, nær öðrum skriðþunga og öðlast táknrænni víddir. (Þetta er ekki diss á reynslusagnaformið heldur bara lýsing á því hvernig ég sá myndina). Ég ætla ekki að dæma um hvort þær víddir séu lýsandi fyrir transferlið eða kynama en ég held ég treysti mér alveg til að segja að þær séu lýsandi fyrir ákveðnar hliðar hins mannlega ástands – sársaukann sem getur falist í því að eiga líkama. Líf Löru, sem annars er útlits einsog eitthvað kvenlegt ídeal úr Jane Austen sögu – grönn, ljóshærð, glaðleg, yfirveguð (á yfirborðinu) – leysist upp í stríð við líkama sinn, sem hún getur augljóslega ekki beinlínis unnið. Hvert högg á andstæðinginn er högg á hana sjálfa. Úr verður mikil og blóðug píslarsaga. Endirinn er bara alltílagi. Hugsanlega hefði ég frekar kosið að myndin yfirgæfi bara Löru á einhverjum hversdagslegri tímapunkti. En hún er víst byggð á sannsögulegum atburðum og þá er verið að fylgja einhverjum raunveruleika, reikna ég með. Niðurstaðan er að vísu hvorki sigur né tap – en það er eitthvað við þessa „lokabardaga“, kannski sérstaklega í svona myndum, sem virkar ótrúverðugt. *** Ég sá Héraðið í Ísafjarðarbíó. Grímur Hákonar er gamall vinur minn – ég skrifaði í Testamentið, sem hann ritstýrði, ég var aukapersóna í Varði Goes Europe, ferðaðist með þeim til Þrándheims, Grímur var stofnmeðlimur í Nýhil og hékk svolítið í Berlín þegar ég bjó þar (og hann í Prag) og hann var einn af nokkrum kommum sem ég umgekkst mikið þegar ég fór suður. Meðal hinna var Erpur Eyvindarson – og ég hló upphátt þegar ég sá að kaupfélagið í Héraðinu hét Kaupfélag Erpsfirðinga. Þótt nafngiftin komi sennilega af búinu þar sem myndin er tekin upp frekar en að þetta sé uppgjör milli Erps og Gríms, sem ég held að hafi verið bekkjarfélagar í gamladaga. Það eru fallegar stemningar í Héraðinu og góður húmor. Einhvern veginn vinna samt húmorinn og ljóðrænan aldrei nógu vel saman, frekar að þau dragi hvert úr öðru. Sagan um samskipti konunnar við kaupfélagið er að mestu leyti trúverðug (og reyndar sönn, skilst manni) og hefði neglt mann, hugsa ég, ef sjálfsmorð karlsins hefði verið betur undirbyggt. Myndin gerir því skóna að hann hafi drepið sig vegna þess að hann meikaði ekki lengur að vera samsekur kaupfélaginu – en við fáum aldrei að sjá hversu kúgaður hann er eða slíkar afleiðingar af klögum hans að það réttlæti sjálfsmorð. Allur skaði er ekonómískur og fjarri miðju sögunnar – við missum af harminum. Nú veit ég vel að fólk drepur sig oft alveg meira og minna að ástæðulausu, en í þessari tilteknu mynd er þetta samt nöfin sem restin á að hreyfa sig um – kannski hefði verið áhugavert að fara bara meira út í það hvort hann hafi ekki bara drepið sig af því hann var þunglyndur og í burnouti. En hitt er einhvern veginn skilið eftir hjá manni sem skýringin. Í myndinni er gert pláss fyrir boðskap Kaupfélagsins, einsog Grímur nefndi í einhverju viðtali, en hann er samt bara fluttur sem vondukallaboðskapur. Það er alveg sama hvaða rök Svarthöfði ber á borð – tilfinninga- eða ísköld – þau lifa ekki af þá staðreynd að hann er Svarthöfði og vill ekkert nema illt. Siggi Sigurjóns – sem er ekkert minna en stórkostlegur sem kaupfélagsstjórinn – fær að flytja sín rök en myndin sjálf tekur skýra afstöðu gegn þeim. Svar Ingu við mögulegu hruni innviða í sveitinni ef kaupfélagið ber sig ekki er bara að allt sé ódýrara annars staðar og börnin vilji ekki búa í sveitinni og panti sitt dót af Amazon. Nú held ég það sé alveg rétt að svona kaupfélög séu óttalegar mafíur og svífist oft einskis – en það á líka við um stórmarkaðina fyrir sunnan sem grafa undan kaupfélaginu og það á sannarlega við um Amazon. Þetta er einkenni á kapítalismanum frekar en bara kaupfélaginu – og lausnin er ekki endilega að það vanti samkeppni (þótt einokunarkapítalismi sé sannarlega eitt ljótasta form kapítalismans). Þessi veruleiki er flókin en einhvern veginn birtist hann manni í Héraðinu einsog hann sé einfaldur – einsog veruleikinn í sveitinni hafi frosið árið 1950. Að því sögðu fannst mér myndin að mörgu leyti mjög góð. Það er eitthvað í stóra boganum sem klikkar og myndir treystir ekki áhorfandanum til að taka afstöðu með Ingu og undirstrikar því um of réttlátan málstað hennar – en sögupersónur eru vel skrifaðar og vel leiknar, allar senurnar í myndinni eru góðar og hún er stappfull af fegurð, ljóðrænu og húmor. *** Óli Pétur – Undir áhrifum er stutt heimildarmynd eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson. Sá fyrrnefndi er líka æskuvinur minn en hefur ekki nema að litlu leyti lagt fyrir sig kvikmyndagerð. Myndin er gerð að ósk söguefnisins, Óla Péturs Jakobssonar, sem ég kannaðist við líka. Óli var eins illa haldinn af alkóhólisma og nokkur maður getur orðið, og alkóhólisminn dró hann til dauða áður en búið var að klippa myndina. Myndin samanstendur fyrst og fremst af viðtölum við tvo æskuvini Óla og svo myndböndum af Óla á götunni í Reykjavík með vinum sínum þar, sem eru allir rónar einsog hann. Hún segir manni sosum ekkert nýtt hvorki um sjúkdóminn eða götulífið í Reykjavík eða reiðina sem býr í því fólki, vonbrigðin og kærleikann og samstöðuna sem einkennir líf þeirra. Hún sýnir manni Óla einsog hann var á lokametrunum og eins einkennilega og það nú kannski hljómar þá sér maður hvað hann átti mikla fegurð til í sér, mikla mýkt og gæsku, meira að segja þegar hann var á botninum. Baldri og Fjölni tekst í þessari mynd að ná af honum snappsjotti – birta mannlýsingu, portrett – og á sama tíma fær maður líka brot úr samfélögum, annars vegar litlu horni Ísafjarðar á níunda áratugnum og hins vegar litlu horni Reykjavíkur samtímans. Mér fannst myndin mjög falleg, þótt það spili kannski rullu að þetta sé fólk sem maður þekkir. Myndin er öll á YouTube . *** Ljóðabókin Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur er önnur ljóðabók hennar. Sú fyrri hét Uss. Sæmundur gefur báðar út. Ég mundi ekki nema óljóst eftir Uss og fór og náði í hana upp í skáp þegar ég var búinn að lesa Fugl/Blupl. Hún var góð en átakalausari en Fugl/Blupl, þar sem flakkið milli einhvers sem er einsog naíft normkor – rosalega tilþrifalaus en indæll texti: Á þessu hjóli er ég eins og
drottning í hásæti mínu og þess sem er ákafari listræna: Sniglaslefið tindrar í dagsbirtunni.
Töfraskjaldbakan er ekki farin. er miklu meira. Það er einsog Steinunn sé að þreifa sér leið í átt að einhverjum svona William Carlos Williams fílingum. Annars vegar í hjólböru- og ísskápastemningum og hins vegar í meiri Paterson. Ég fíla þetta mjög vel og ekki síst að það sé ósamræmi og spenna, rödd bókarinnar sé stundum einsog hana dreymi og stundum einsog hún sé glaðvakandi. *** Ég skrifa nú ekki alltaf um matinn sem ég ét á veitingastöðum. En við fórum í Flatey á síðustu helgi og átum þar sælkeramatseðil. Ég fékk matseðil 2 minnir mig – krækling í forrétt, tacos með reyktum silungi (minnir mig) í sörpræs, lamb í aðalrétt og súkkulaðiköku á eftir. Þetta var ein allra besta máltíð lífs míns og sérstaklega var kræklingurinn engu lagi líkur. Nadja var sammála mér og við eyddum máltíðinni mest megnis í að ræða bestu máltíðir sem við hefðum fengið áður (margar þeirra voru í Víetnam – mín besta var mexíkósk paella í New York og eftirlætis Nödju á einhverjum svínslega dýrum veitingastað í Frakklandi áður en við kynntumst). Ég kann annars lítið að rýna í mat. Hann var góður. Kræklingurinn var mjög stór og bráðnaði bókstaflega í munni – og auðvitað úr firðinum. Það var svolítið kikk í soðinu/sósunni. *** Gítarleikari vikunnar er Geeshie Wiley. Það er til slatti af gömlum blússöngkonum – og fyrstu vinsælu blústónlistarmennirnir voru konur með stórar hljómsveitir á bakvið sig, Ma Rainey, Bessie Smith og þær allar. Deltablúsgítarleikararnir, sem eru kannski samt aðeins eldri og upprunalegri, slógu ekki í gegn fyrren seinna. Í þeim hópi eru afar fáar konur og þær sem eru þar eru flestar annað hvort bara söngkonur eða píanóleikarar og söngkonur, einsog til dæmis Louise Johnson. En Geeshie Wiley er sem sagt undantekning hérna – líkt og Memphis Minne og Elvie Thomas, vinkona Geeshiar og ferðafélagi. Geeshie tók upp sex lög fyrir Paramount og Elvie tók upp tvo – og svo hurfu þær bara, eða þannig. Það veit enginn hvað þær hétu í raun eða hvar þær fæddust eða dóu, þótt það séu alls konar kenningar, og það eru engar myndir til af þeim heldur. Mér finnst Geeshie algerlega geggjuð og þetta er besta lagið hennar, eða allavega það frægasta.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.396Z““
createdTimestamp““:““2024-05-24T11:48:21.555Z““
id““:““ffrm4″“
Háð er hollt.
Grínið gott.
Valdið vont. Úr Litlu hugsanabókinni eftir Guðberg Bergsson. Ég er flúinn að heiman. Kominn með skrifstofu úti í bæ fram í miðjan næsta mánuð. Út af myglunni, sem lagast ekkert, sama hvað ég geri. Versnar bara, ef eitthvað er. Það eru nokkrir dagar í kosningar. Ég hef enn ekki gert upp við mig hvort ég kýs Vinstri-Græn, sem nýjustu upplýsingar herma að séu klámsjúk (gott ef ekki hreinlega kúkaklámsjúk), eða Pírata, sem eru byssuóðir gervistærðfræðingar. Kannski úllendúllendoffa ég bara. Saga Nýhils: Áttunda brot brotabrots brotabrotabrots
2002 gaf Nýhil út þrjár bækur. Fyrst kom Heimsendapestir, sem ég hafði þegar fjallað um, en síðan Spegilmynd púpunnar: Greatest Shits eftir Hallvarð Ásgeirsson og þá heimspekiritið Aðilafræðin eftir Hauk Má Helgason. ljóðabókin Nei, nú slæ ég þessu upp og þá segir internetið að bók Varða hafi ekki komið fyrren 2003. Hugsanlega er það rétt. Það gæti líka verið að Aðilafræðin – sem var BA-ritgerð Hauks – hafi komið eftir áramótin líka. Maður man aldrei neitt. Já, jú – 21. janúar, 2003, segir Tímarit.is. Haukur fer svo í viðtal í febrúar í tilefni af því að hann hafði verið valin – ásamt alþjóðlegu einvalaliði – til þess að gera útvarpsleikrit fyrir BBC World. Þar kemur í fyrsta sinn nokkur opinber útskýring á Nýhil – ef frá er talinn vefurinn sem opnaði sennilega rétt fyrir áramót. – Þú hefur einnig staðið fyrir ýmsum uppákomum, bókaútgáfu o.fl. í nafni Nýhil. Hvað er það? „Nýhil er félagsmiðstöð launbúddískra róttæklinga með aðalbækistöðvar í Berlín. Okkur þykir lífið alltof ágætt til að taka það mjög alvarlega. Eða taka systemin alvarlega; peningasystemið, vinnusystemið, velsæmissystemið. Það er auð- veldara að sjá þau utan frá þegar maður stendur raunverulega, landfræðilega, utan þeirra. Nýhil hefur hingað til staðið sig best sem bókaútgáfa, með þrjár útgefnar bækur og einn DVD-disk á síðasta hausti: Heimsendapestir, ljóðabók eftir Eirík Örn Norðdahl, Aðilafræðin er heimspekirit eftir mig og Draumar um Bin Laden leikrit eftir Steinar Braga. DVD-diskurinn geymir vídeólistaverk frá Halldóri Arnari Úlfarssyni, myndlistarnema í Helsinki og Reykjavík. Fleira er á leiðinni, t.d. erum við Grímur Hákonarson trúlega að fara að gera hvor sína stuttmyndina, undir merkjum Nýhils. Nýhilkvöldin sem við höfum haldið í Berlín og Reykjavík slá tempó í starfið, með mixi af upplestrum og tónlist frá vinum okkar.“ – Draumar um Bin Laden kom að mig minnir aldrei út sem sjálfstætt verk en Áhyggjudúkkur hafði komið út hjá Bjarti þarna um jólin og við vorum í skýjunum yfir henni og í kjölfarið í talsverðum samskiptum við Steinar – sem urðu meðal annars til þess að ég skrifaði formála að leikritinu (og bætti við einhverjum texta, aðallega neðanmálsgreinum). Verkið var svo prentað í Af Stríði sem kom út snemma um haustið 2003. Tveimur dögum fyrir viðtalið – 13. febrúar – birtist þessi tilkynning í horni í Morgunblaðinu: Gunnar Þorri er Pétursson, bókmenntafræðingur, Ófeigur er Sigurðsson rithöfundur, Varði er áðurnefndur Hallvarður Ásgeirsson – sem síðar hefur aðallega einbeitt sér að tónsmíðum og gítarleik, Bjarni Delirium Klemenz er rithöfundur, Pétur Már trommaði síðar í Skátum, Stína er Kristín Eiríksdóttir og mér finnst sennilegt að Alli sé Aðalsteinn Jörundsson – sem í dag er þekktur sem AMFJ og er þekktari fyrir að vera „power noise musician“. Þetta er fyrsti viðburður Nýhils á Íslandi og einhvers staðar eru til upptökur af honum – en við í Berlín vorum augljóslega fjarri góðu gamni, a.m.k. fýsískt. Á listann vantar mann sem ég kann ekki frekari deili á en hann las þýðingar á leiðarvísum, meðal annars fyrir traktora, sem höfðu verið þýddir úr rússnesku. Já, ég fann þetta hérna í arkífunum. Fyrst traktoragaurinn. Haukur Már tók líka upp lestur á texta sem var spilaður af teipi – og Varði rímixaði þann texta og rímixið var líka spilað. Ég á líka upptökur af Hauki að lesa, eina af Gunnari Þorra og tvær í viðbót af Traktoragaurnum. En ég veit ekki alveg hvað er óhætt að birta hérna í leyfisleysi. Myndin af Hauki er tekin í íbúðinni okkar við Prenzlauer Allée, mér sýnist hann liggja á dýnunni minni frekar en inni hjá sér – hugsanlega var herbergjaskipanin svona allra fyrstu dagana og við skiptum síðar. Ég held að ég hafi ekki getað sofið útréttur í hinu herberginu, sem var minna, eiginlega pínulítið – tæplega tveir sinnum tæplega tveir metrar. Þau voru að vísu jafn breið en það stærra var mjög langt – sennilega 8-9 metrar, sinnum tæplega tveir. Mér vitanlega eru ekki til nein dokument um Nýhilkvöldin í Berlín – ég hef aldrei séð mynd eða heyrt upptöku þaðan. Ein saga – sem tengist dokumentasjón: Þennan vetur ákvað Haukur Már einu sinni að endurfæðast sem skáld. Hann tók handritið að ljóðabókinni sem hann hafði unnið að síðustu misserin og brenndi það síðu fyrir síðu í stofunni hjá okkur, sem fylltist af reyk og þetta varð allt hálfgert kaos en með miklu harðfylgi og talsverðri þrjósku og stórum opnanlegum stofugluggum og járnruslafötu tókst honum samt að brenna allt. Svo eyddi hann skjalinu í tölvunni sinni – mundi þá að ég átti annað eins og bað mig að gera hið sama. Sem ég gerði, áður en ég tilkynnti honum að ég ætti líka útprent af handritinu sem hefði orðið eftir á Ísafirði og geisladisk sem hann hafði sent mér, með upplestrum á flestum ljóðunum í bland við hljóðabréf og upplestra á ljóðum úr Heimsendapestum (sem hann var að ritstýra þegar hann sendi mér bókina). Sennilega er 2002 árið sem hlutir hættu að hverfa endanlega úr heiminum. Samt er svo lítið til af því í dag. Handritsútprentið fannst aldrei, svo ég muni – en ég á hljóðupptökurnar.
id““:““95bl““
Í gær horfði ég á Rocky Horror Picture Show kvikmyndina frá 2016, með Laverne Cox í aðalhlutverki. Það eru sennilega ekki nema 2-3 vikur frá því ég horfði aftur á orginal kvikmyndina með Tim Curry. Mér fannst hún mjög góð – einhvern veginn hressilega ómórölsk. En nýja myndin er satt að segja ömurleg. Hún er svo vond að mann langar að meiða sig. Ég veit ekki alveg hvað veldur – handritið er svo til óbreytt, þetta er bara sviðsett með nýjum leikurum – en hugsanlega hefur það einfaldlega eitthvað með samtímann að gera. Hún flúttir ekki. Það fyrsta sem truflar mann er hvað hinn íhaldssami mórall – hreinlyndu sálirnar Brad og Janet og heimurinn sem þau tilheyra – er úreltur. Hann var það auðvitað líka árið 1975 en ég ímynda mér að hann hafi samt verið til, á annan máta, verið konsekvent afl í heiminum. Íhaldssemi samtímans er miklu líkari Söruh Palin og Donald Trump – og móralisminn hefur hreiðrað um sig víðar, og einfaldlega breyst, lítur öðruvísi út, virkar öðruvísi. Að millistéttarplebbar óttist dragdrottningastemningu og búningadrama – meðan þau raða í sig bókum Tracy Cox (óskyld Laverne) og 50 gráum skuggum og frásögnum Ragnheiðar Eiríksdóttur úr Swingpartíum eða mökunarlýsingum Köru Kristelar – á sér einfaldlega enga stoð í raunveruleikanum. Millistéttarplebbar þyrpast auk þess á Rocky Horror sýningar um veröld alla. (Það munaði minnstu að upprunalega myndin floppaði – vinsældir hennar komu loks, öllum að óvörum). Næst truflar fegurð leikaranna. Í upprunalegu útgáfunni er eitthvað fríkað við leikarana. Meira að segja Brad og Janet eru pínu off – eins falleg og þau eru – og þótt Frank sé sannarlega hott er hann ekki fullkominn. Leikararnir í nýju sýningunni líta allir út einsog þeir hafi fengið einkaþjálfara í skírnargjöf. Við sköllótta fólkið veltum því líka fyrir okkur hvers vegna allir eru alltaf svona vel hærðir í Hollywood. Nýi Riff Raff reynir síðan bókstaflega að herma eftir gamla Riff Raff. Og gerir það vel. En það er svolítið einsog að fá Örn Árnason til að leika Davíð Oddsson – það er skopstæling. Fagurfræði sýningarinnar er í samræmi við þetta slétt og felld – mixið er ofmixað, allt er flatt og agnúalaust, ef frá er talinn performans Tims Curry sem afbrotafræðingurinn. Curry fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og leikur hann af fremsta megni, hikandi og af erfiðleikum – einsog Johnny Cash að syngja Personal Jesus, maður á sínum síðustu andardráttum – og einmitt vegna þess að hann er ekki fullkominn er hann langsamlega bestur. Það er líka eitthvað saklaust við nekt fullkomins fólks – eitthvað sem er ekki afhjúpandi, þegar líkaminn hefur verið undir það búinn frá fæðingu að birtast nakinn. Eða – þið vitið – hálfnakinn. Þegar Susan Sarandon stóð á náttkjólnum var hún allsber – nýja Janet (ég nenni ekki að gúgla nafn leikkonunnar) er ekki naktari en fótósjoppuð Kim Kardashian á forsíðu Paper. Í þriðja lagi – ég veit ekki hvort transgressjónin er minni í nýju myndinni, hvort það er beinlínis gengið skemmra (senan þar sem Frank nauðgar/tælir Brad og Janet er umtalsvert sakleysislegri – það er einsog leikstjórinn hafi ekki getað ákveðið sig hvort Frank ætti að penetrera eða penetrerast og þau Brad enda á að liggja saman og slá hvort annað á fullklæddan rassinn). En tilfinningin fyrir hættunni er engin – tilfinningin fyrir leiknum er engin. Kannski er Rocky Horror í samtímanum alltaf bara eitthvað kits – fólk að LARP-a ógn, klætt einsog krossfarar, einhvers konar períóðustykki, fólk að spila á lútur og rifja upp nostalgíu sem það á ekkert í (bróðurpartur áhorfenda var ekki fæddur 1975). Kannski er þetta bara ekki hægt, alveg sama hvað lögin eru góð, jafnvel þótt leikararnir væru betri og handritið eitthvað uppfært – það hjálpar í það minnsta ekki hvað þessi uppfærsla var skelfilega geld (no pun intended) og ógnarlaus. En það er hægt að horfa á orginalinn – það er meira að segja fínt og sannfærandi. Og Tim er guðdómlegur. *** Annars veit ég ekki hvort Frank er trans – hann er náttúrulega geimvera og alveg óvíst hvort hann sé þar með kynjaður yfir höfuð. En í upprunalega textanum segist hann vera „transvestite“ – þ.e.a.s. klæðskiptingur – og hvernig það fer saman við að vera trans veit ég ekki. Ef maður skiptir um eða leiðréttir kyn líkama síns svo það samræmist hinni ytri kyntjáningu er maður sennilega ekki klæðskiptingur lengur – en maður getur auðvitað stundað klæðskipti í hina áttina. Vandamálið við Frank er að hann klæðir sig ekki í samræmi við neina standard kyntjáningu karla eða kvenna. Hann ögrar skilgreiningunum. Það er mikilvægt líka að hafa í huga að þegar Frank segist vera frá „Transsexual, Transylvania“, er hann að tala um plánetuna Transsexual í vetrarbrautinni Transylvania – það er komma þarna, hann er hvorki frá kynfráu né kynsegin Transylvaníu, einsog það hefur verið þýtt. Hvort nafngift plánetunnar sé meira lýsandi fyrir íbúana en Grænhöfðaeyingur eða Hvít-Rússi veit ég ekki heldur og það best ég hef getað tekið eftir, kemur það aldrei fram.
id““:““8m3uo““
da Dum dum dum. Þótt flestir blúsar séu tólf bör með viðsnúningi (turnaround) er það samt yfirleitt þetta sem kemur fyrst upp í hugann þegar fólk almennt hugsar um blústónlist. da Dum dum dum. Eða da Dum da Dum dum. Stundum kallað i-iv-iii framvinda og hefur verið endurtekin svo oft með litlum breytingum að þeir sem eru viðkvæmir fyrir blústónlist fá útbrot í öðrum hljómi, en hinir gæsahúð. Frá Hardworkin man með Cramps yfir í Rocky Mountain Way með Joe Walsh yfir í Bad to the Bone með George Thorogood yfir í milliriffið í Murrmurr eftir Mugison (með tvisti). Það mætti jafnvel bæta hérna við Green Onions riffinu – sem er næstum því da Dum dum dum riffið aftur á bak – og er varíant sem sést næstum jafn oft. Fyrsta da Dum dum dum lagið er auðvitað Hoochie Coochie Man með Muddy Waters en samið – einsog nánast annað hvert blúslag á 20. öldinni – af bassaleikaranum Willie Dixon. Muddy Waters fæddist í Mississippi – var skírður McKinley Morganfield, en fékk drullupollsviðurnefnið eftir sínu helsta áhugasviði í æsku (að leika í drullupollum) – og bjó þar og vann fram á fullorðinsaldur, á Stovall-plantekrunni í þessum einherbergiskofa. Hann byrjaði að spila á gítar þegar hann var sautján ára og var undir miklum áhrifum frá Son House og sótti í að sjá hann spila við hvert tækifæri. Hér verður maður enn og aftur að hafa í huga að Son House var ekki vinsæll tónlistarmaður fyrren eftir að hann „enduruppgötvaðist“ 1964 – hann tók upp sín helstu lög rétt um það leyti sem kreppan skall á og plötubransinn hrundi og náði ekki meiri vinsældum en svo að af þeim fjórum plötum sem hann gaf út (fjórar plötur = átta lög – hann tók upp níu lög en það níunda var ekki gefið út) er bara til eitt einasta eintak af tveimur þeirra. Að hann skuli hafa haft náið samneyti og mikil áhrif á tvo frægustu blúsmenn seinni tíma – jafn líka og ólíka og Robert Johnson og Muddy Waters – er eiginlega með ólíkindum. Þegar maður svo bætir því við að Son House lærði sjálfur mikið af Charley Patton – sem var sá þvottekta deltablúsari sem mestum vinsældum náði á sinni tíð – er óskiljanlegt að hann skuli ekki hafa vakið meiri athygli samtímamanna sinna annarra. En það er önnur Ella! Þegar þjóðfræðingurinn Alan Lomax birtist á Stovall plantekrunni 1941 og vildi taka upp Muddy Waters var Muddy þegar árinu eldri en Robert Johnson var þegar Robert dó – 28 ára gamall. Þá lék Muddy enn í deltastílnum – en var sparsamur á nótur, duglegri á bassanóturnar en háu nóturnar, og leyfir röddinni að njóta sín. Meðal laganna sem hann spilaði fyrir Lomax var eitt sem heitir einfaldlega Country Blues. Textinn þar er að mörgu leyti sá sami og í Walking Blues eftir Son House, sem Robert Johnson hafði tekið upp og er gjarnan kennt við hann, og laglínurnar skyldar, en Muddy hefur áreiðanlega lært af höfundinum. Þegar Eric Clapton tekur upp Walkin’ Blues fyrir Unplugged plötuna sína notar hann hvorki útsetningu Son House eða Robert Johnsons heldur einmitt þetta Country Blues eftir Muddy. Þá útsetningu lærði ég sjálfur í Tónlistarskólanum á Ísafirði þegar ég var svona 15-16 ára og spila enn af og til. Hún er mjög fín, hvað sem líður áliti manns á Unplugged-plötu Claptons. Muddy fékk síðan tvö eintök af plötunni og tuttugu dali. Hann fór með hana beint í næsta glymskratta, lék hana aftur og aftur – sagði frá því sjálfur að það hefði verið ólýsanlegt að heyra sjálfan sig syngja og spila á upptöku – fyrst þá hefði verið óhugsandi að sinna öðru en tónlist. Tveimur árum síðar, 1943, var Muddy svo mættur til Chicago, tilbúinn til að takast á við framtíðina. Einsog svo margir aðrir var hann mörg ár í harki – keyrði vörubíl og vann í verksmiðju á daginn en spilaði um kvöld og helgar. Hann komst hins vegar fljótlega í vinfengi við vinsælasta blúsarann á svæðinu, Big Bill Broonzy, og fékk að hita upp fyrir hann og tók síðan upp einhverja tónlist fyrir Chess með settlegu kombói. Á þessum tíma var rafmagnsgítarinn að ryðja sér rúms í blústónlistinni, þótt menn væru ekki alveg búnir að uppgötva hvers hann var megnugur – það sem heillaði var fyrst og fremst meiri hljómstyrkur á fjölmennari tónleikum, böllum og partíum. Plötufyrirtækin höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á skerandi hávaðanum í rafmagnsgítarnum – svo lítinn raunar að helsti gítarleikari Chicagotímabilsins, Buddy Guy, sem byrjaði að spila fyrir Chess-útgáfuna 1959, fékk ekki vinnu nema sem sessjónleikari í bakgrunni hjá öðrum fram til 1967. Af því hraður gítarleikurinn var einfaldlega afgreiddur sem hávaði. Muddy var hjá Chess einsog Buddy og svo margir aðrir og fékk fyrstu árin ekki að nota sína eigin hljómsveit í stúdíóinu. Sú hljómsveit, sem fylgir honum loks á plötum frá 1953, er einhver frægasta blússveit allra tíma. Little Walter á munnhörpu (og svo Junior Wells), Jimmy Rogers á gítar, Elga Edmunds á trommur, Otis Spann á píanó og oftar en ekki Willie Dixon á bassa. Fyrir utan Elga er enginn þarna sem á sér ekki sína eigin hittara – fyrir utan að vera í þessu ofsalega bandi – og þegar hann leikur fræga tónleika á Newport Jazz Festival sjö árum síðar eru allir í bandinu nema Otis (sem var orðinn hljómsveitarstjórinn) komnir með sólóferil í fúll svíng. Eftir að Muddy tók upp Hoochie Coochie Man með þessu bandi árið 1954 – og slær þá fyrst endanlega í gegn, 41 árs gamall – kom annar Chicago-blúsari, líka fæddur í Deltunni, Bo Diddley með lagið I’m a Man og notaði sama (eða svipað) da Dum dum dum riff til að bera það uppi. Það er einhver ruglingur með það hverjir nákvæmlega spiluðu undir hjá Bo en að öllum líkindum var píanóleikarinn sá sami og hjá Muddy – Otis Spann. Í sjálfu sér er þetta mjög ólíkt öðrum lögum Bos – sem voru mikið til leikin í sérstökum takti sem kallaður er Bo Diddley-bítið (nema hvað). Þessu svaraði Muddy ári seinna með laginu Mannish Boy – sem er hans frægasta, auk Hoochie Coochie Man og I Got My Mojo Working – og aftur er það sama riffið sem ber lagið uppi. Því hefur stundum verið velt upp hvers vegna það sé ekki í höfundarétti – hvers vegna hver hljómsveitin á fætur annarri megi bara velta sér upp úr því óbreyttu án þess að borga kóng né presti. Í því sambandi er áhugavert að athuga að á meðan Hoochie Coochie Man er skrifað á Willie Dixon og I’m a Man er skrifað á Bo Diddley er Mannish Boy skrifað á Muddy Waters og Bo Diddley – en ekki Willie Dixon. Þar munar sennilega öllu að textinn í Mannish Boy er unninn beint upp úr I’m a Man en textinn þar er bara rétt svo „innblásinn“ af Hoochie Coochie Man. Willie virðist ekki hafa gert neitt mál úr þessu (en kærði og vann Led Zeppelin löngu seinna, fyrir að stela úr You Need Love fyrir Whole Lotta Love). Maður verður að hafa í huga að frumleiki er ekki endilega grunntónn blússins, eða í það minnsta ekki frumleiki í sömu merkingu og lögð er í orðið frá og með Bítlunum, sirka. Blústónlistin er alþýðutónlist – folk – og sem slík er höfundarréttur ekki aðalatriði og hreinlega óljóst hver samdi hvað. Margir helstu blústónlistarmennirnir voru vanir því að spinna mikið á staðnum – úr brunni riffa og ljóðlína – og meðal annars þess vegna er merkingin í mörgum eldri blúsanna svolítið mikið á reiki. Ljóðlínur rekast á af því höfundarnir eru margir og sömu erindin rata inn í mörg lög og öllum var skítsama hver samdi hvað. Þá fengu þeir sem tóku upp lög fyrir plötufyrirtækin borgað per lag – og síðan ekki söguna meir. Höfundarréttur var yfirleitt skráður á hvíta manninn sem tók lagið upp. Hvítu mennirnir gerðu kröfu um lágmarksfjölda frumsaminna laga – yfirleitt fjögur – þegar þeir bókuðu tónlistarmenn í upptökur. Þannig myndaðist þrýstingur á tónlistarmennina að hámarka fjölda frumsaminna laga með öllum tiltækum ráðum – Big Bill Broonzy tók upp ábyggilega 200 lög, en ef þú myndir þurrka burt lög sem eru „næstum eins“ og eitthvað annað sætu ekki eftir nema svona 50 stykki. Solid lög að vísu. Á böllum var kannski sama lagið leikið samfleytt í hálftíma – hent inn erindi hér og þar, sum frumsamin, önnur stolin – og það var ekkert í heiminum eðlilegra en að vísa í eitthvað annað lag með því að hirða úr því línu og línu eða byggja nýtt lag á gömlum grunni. Þessa sér svo stað í alls konar tónlistartrakteringum á 20. öld – frá því hvernig Bob Dylan leyfði sínum eigin lögum og koverum að vera fljótandi og breytast ár frá ári yfir í það hvernig Public Enemy stöfluðu saman vísunum með því að sampla austur og vestur. Frumleikinn sem sótt er í og menn stæra sig af er meira frumleiki í merkingunni „primal“ – og hefur að gera með sánd og einkenni og heilindi. Þennan eiginleika að það er alveg sama hvað Muddy Waters myndi reyna að dulbúa sig – því við myndum þekkja þetta mojo hvar sem er.