id““:““ed3h1″“

Nehemiah „Skip“ James er sennilega sú af blúshetjum 20. aldarinnar sem var minnst þekktur meðan hann lifði. Eiginlega vissu bara ótrúlega fáir að hann væri til fyrren hann „fannst“ aftur árið 1964 – í sama mánuði og Son House – og hann var minniháttar fígúra í blúsendurreisninni við hliðina á hinum og átti bágt með að framfleyta sér í sínum fábrotna lífsstíl alveg þangað til að Cream tóku upp I’m So Glad (sem hann er skrifaður fyrir en samdi ekki nema að hluta – einsog margir blúsar er það mikið byggt á öðru lagi). Og svo dó hann bara augnabliki seinna. Ég held ég fari rétt með að einsog Skip hafi Mississippi John Hurt ekki notið velgengni í æsku – en hann var súperstjarna á hippakaffihúsunum (enda ólíkt ómþýðari en hinir). Bukka White var alltaf mallandi – hætti aldrei að spila, var með í leiknum þótt hann væri misþekktur eftir tímabilum. Og það var ekki erfitt að finna hann – maður þurfti ekki nema spyrja náfrænda hans, B.B. King. Son House gaf ekki út vinsælar plötur en var samt vinsæll og þekktur á sínum heimaslóðum, átti þekkt lög sem aðrir gerðu vinsæl, og umgekkst (og kenndi) óhemju mörgum yngri blúsurum – og lærði sjálfur af Charlie Patton. Svo naut hann þess – eða, ég veit ekki hversu mikil nautn það var honum – að vera með mjög góða og virka umboðsmenn á sjöunda áratugnum sem komu honum á framfæri og héldu honum gangandi. Dick Waterman var beinlínis í fullri vinnu við að halda honum passlega fullum og sjá til þess að hann kæmist milli gigga og svona, seldi ekki gítarinn fyrir brennivíni og eitthvað (hann var gersamlega stjórnlaus bytta, ef eitthvað er að marka frásagnirnar). Skip er fæddur sama ár og Laxness, 1902, og var aldrei kallaður annað en Skippy fyrren plötuútgefandinn hans stytti það fyrir hann árið 1931 (á móti kemur að hann kallaði upptökustjórann, Art Laibley, aldrei annað en Artie). Hann var tregur til að koma og taka nokkuð, sennilega af því hann hafði það ágætt og lifði lífi sem kallaði ekki beinlínis á athygli – hann var melludólgur, sprúttsali og ofbeldismaður. Stephen Calt gerir því skóna í ævisögu hans að hann hafi hugsanlega átt yfir höfði sér dauðadóm í Atlanta – en það eru mestmegnis getgátur. Mamma hans var þjónustukona í húsi plantekrueiganda og Skip er alinn upp „í húsinu“ og leit alla tíð niður á blökkumenn – hafði meira að segja á orði við Calt að það væri ástæðulaust að koma fram við sig einsog hann væri hvítur, þótt hann teldi sig nú heilt yfir hafa lunderni hvíts manns (annað en allir þessir óþolandi blökkumenn í kringum hann). En hann tók nú samt upp nokkur lög og þóttist viss um að verða nú heimsfrægur. Plöturnar (tvö lög per plötu – 9 plötur) seldust hins vegar ekki rassgat og voru sennilega líka þrykktar í mjög litlu upplagi. Tvær þeirra – 22-20 Blues / If You Haven’t Any Hay og Devil Got My Woman / Cypress Grove Blues hafa samt ratað upp í hendurnar á Robert Johnson, sem gerir 22-20 að 32-20 Blues og notar margt úr Devil Got My Woman í bæði Hellhound On My Trail og Come On In My Kitchen. Þegar menn fara svo að skoða Robert Johnson fyrir alvöru seint á sjötta áratugnum og uppgötva þetta finna þeir þessi örfáu eintök sem enn voru til af plötum Skips og falla í stafi – líkt og þeir höfðu gert yfir upptökum Son House. Það jók svo mjög á gildi Skips í þessum fámenna harðkjarna blúsplötusafnara að plöturnar voru gríðarlega sjaldgæfar. Þeirra Skips og Son House er síðan lengi leitað og finnast einsog áður segir báðir í júní, 1964. Son House finnst langt að heiman, í Rochester, New York – blindfullur og illa spilandi, en nær fljótt talsverðu af sinni gömlu færni (meðal annars með aðstoð Alan Wilson, síðar í Canned Heat). Skip finnst á spítala í Tunica, Missisippi. Gítarstíll Skips er talsvert erfiðari viðfangs en stíll Sons House – sem er svolítið random, taktfastur, villtur, eiginlega er Son House pönkari – og hann verður aldrei sams konar gítarleikari og hann var árið 1931. Hann spilar hægar og með meiri trega, fingurnir láta ekki alveg að stjórn. Calt finnst minna til þessa koma en ég verð að vera ósammála. Ef maður ber þessa öldrun saman við til dæmis það hvernig ungu gítarleikararnir 1964 – *hóst* Eric Clapton *hóst* – hafa elst þá er ekki spurning í mínum huga hver hefur vinninginn. En ég myndi vilja bæta um betur og segja bara að Skip hafi hreinlega elst mjög vel – og njóti mjög góðs af betri upptökutækni, sem hafði miklu minna að segja fyrir blúshrópara einsog Son House eða Bukka White. Hann er meiri blús-shredder árið 1931 en það er meiri dýpt í upptökunum 1964-1969 – hann nýtur sín betur þegar díteilarnir í rödd og spilamennsku eru skýrari. En báðar hafa augljóslega sinn sjarma – mér finnst Skip 1964 ekki hafa minni hæfileika en 1931, þeir eru bara aðeins öðruvísi í laginu. Lagið byrjar eftir mínútu formála á þýsku: Það er margt sem drífur á daga Skips á árunum frá 1931 til 1964 þótt hann sé ekki frægur og leggi ekki stund á tónlist nema af og til. Hann gerist meðal annars aðstoðarpredikari pabba síns, stórtækur sprúttsali (í skjóli „vináttu“ við plantekrueiganda) og allra handa dólgur. Á einu tímabili rekur hann skemmtistað úti í sveit og Calt rekur sögu af því hvernig ein helsta hættan við þennan rekstur var að verða rændur. Strategían gekk þá gjarna út á að slökkva á steinolíulampanum – það virðist yfirleitt bara hafa verið einn – og ræna svo peningakrukkunni af barnum í skjóli myrkurs. Skip gerði því að forgangsatriði að gæta lampans og hafði hann alltaf alveg hjá sér. Einu sinni sem oftar brjótast síðan út slagsmál á skemmtistaðnum. Einhver dregur upp byssu og fer að skjóta og ein kúlan splundrar lampanum við hliðina á Skip. Í myrkrinu tryllist okkar maður, teygir sig í haglarann og byrjar að drita út í sal og yfir dansgólfið þangað til „allir voru farnir eða dauðir“ einsog sagan segir. Á þessum árum og alveg langt fram eftir ævi gekk Skip alltaf með byssu (og gekk síðar mikið á eftir Calt með að útvega sér vopn, sem hann lét vera, meðal annars fyrir orð eiginkonu hans, Lorenzo, sem óttaðist að hann myndi drepa sig í einhverju bræðikastinu). Þótt það fari alls konar sögum af blúsurunum þá segir Calt (sem ætti að vita það) að Skip sé eini blúsarinn sem hann viti til að hafi alltaf verið vopnaður. Skip játaði líka á sig alls konar morð og talaði um ofbeldisgjörðir sínar algerlega hiklaust og það er sennilega alveg ástæðulaust að efast um að hann hafi drepið marga, þótt hann hafi kannski líka sagt fiskisögur inn á milli. Og fyrri eiginkona hans, Mabel, átti nokkrar sögur sjálf af því að stinga menn til bana og skilja þá eftir í skurðum. En vegna þess að þau hafa sennilega látið duga að drepa svarta karlmenn sem öllum var meira og minna slétt sama um á þessum tíma hafði þetta aldrei neinar sérstakar afleiðingar (annað en að Skip átti mikið af óvinum). Hugsanlega hefur hann samt drepið hvítan mann í Atlanta og þess vegna aldrei þorað aftur þangað – en það eru allt hreinar getgátur (sem koma til af sterkum tilfinningum hans í garð Atlanta, þess að hann sagði hreint út að hann ætti eftir að segja svakalegustu sögurnar sínar, og þess að hann sagðist aldrei hafa verið í Atlanta – sem er vitað að er ósatt). Árin sem hann starfar sem predikari eru líka áhugaverð. Skip ólst ekki upp hjá föður sínum og á í sams konar sambandi við hann og margir „yfirgefnir synir“ – hann dýrkar hann og vill allt gera til að fá viðurkenningu hans. Þetta er mjög ólíkt Skip annars, einsog þið getið kannski ímyndað ykkur. Faðir hans hefur lítinn áhuga á honum og veitir honum aldrei neina viðurkenningu að ráði og þetta virðast hafa verið svolítið erfið ár fyrir Skip (einsog flestir mannhatarar er hann djúpt tilfinningalegt svöðusár sjálfur – grét í faðmi kvenna sinna um nætur en setti upp hörkusvip á daginn). Skip er alltaf að einhverju leyti trúaður og spilar líka gospel – og þykist vita að blússpilamennskan sé Guði alls, alls ekki þóknanleg. Reyndar er líka áhugavert að athuga hvað hann upplifir sjálfur sem syndugt líferni – og er að sögn Calts ekki einsdæmi fyrir Skip heldur almennt í trú blökkumanna í Mississippi (og hvítra auðvitað líka, en á annan, skipulagðari, distanseraðri og rasjónalíseraðri hátt). Það er að segja – Skip leit aldrei á það sem neitt vandamál að hann hefði drepið fullt af fólki af því fólkið sem hann drap átti það nú eiginlega bara skilið. Þetta voru þjófar og aumingjar. Barátta hans við syndina snerist um að hætta að spila blúslög, hætta að drekka brennivín og hætta að nota tóbak. Einhvers staðar þar á eftir kom svo að hætta hóreríi (Calt segir að prestarnir hafi sjálfir verið svo fjölþreifnir að það hafi gjarnan mætt afgangi að predika gegn slíku). Að hætta að drepa aumingja sem áttu það skilið kom kannski einhvers staðar á eftir því að vera ekki að gera góðlátlegt at í vinum sínum. Eða þannig. Og kemur þá að fyrirferðarmestu persónu þessarar ævisögu Stephens Calt um Skip James – sem er Stephen Calt sjálfur. Mánuði eftir að þeir Son House og Skip James uppgötvuðust spiluðu þeir á Newport Folk Festival. Að sögn höfðu skipuleggjendur aldrei heyrt í Skip James en hleyptu honum á svið fyrir orð annarra – blúsnördanna sem allt vissu. Einn af blúsnördunum úti í sal – sem hafði lítið að segja baksviðs – var hinn átján ára gamli Stephen Calt. Hann er nógu mikið nörd til að þekkja til Skips, leitar hann uppi og kynnist honum og þeir ná vel saman – sennilega vegna þess að lunderni þeirra beggja er frekar svart. Ef eitthvað er að marka Calt lá Skip ekki hlýtt orð í brjósti til nokkurs manns og það er alveg ljóst af bókinni að hið sama átti við um Calt, sem beinlínis eys úr skálum beiskju sinnar yfir allt og alla, þar með talinn Skip James – sem á í besta falli fjögur góð lög, tímalausa klassíkera vissulega, en er annars skíthæll og fífl sem gerir hlutina með hangandi hendi, og allt sem hann gerir eftir upptökurnar 1931 er leiðinlegt og það var mikil bölvun fyrir Calt að hengja sig svona á hann. Robert Johnson er líka leiðinlegur, Alan Wilson er sikkófant og fífl, Bukka White og Son House eru hæfileikalausir æpandi fábjánar sem fljóta á misskildum tónlistaráhuga bláeygðra hvítra manna einsog Dick Waterman og blúsendurreisnarsinnanna (= vina Calts frá þessum tíma) sem gera engan greinarmun á góðri og vondri tónlist. Og ekki þolir Calt samt neina aðra tónlist heldur – ræðurnar sem hann heldur yfir folk-hreyfingunni eru ofsalegar. Honum finnst bara allt ömurlegt. Þetta veitir bókinni bæði svolítið skemmtilegan blæ og er ótrúlega þreytandi. Svona einsog munurinn á því að hlæja að korters viðtali við Kára Stefánsson og hinu að sitja fastur við hliðina á honum í 7 tíma flugferð meðan hann malar viðstöðulaust. Mér fannst gaman að fá þessa krítísku vídd í byrjun – rak mig fyrst utan í þegar hann fór að gera lítið úr upptöku Roberts Johnson á Hellhound on My Trail og ofbauð svolítið þegar hann talar um T-Bone Walker sem eitthvað eftirstríðsfyrirbæri sem allir eru löngu búnir að gleyma (sem er bara ekki satt – ég er enginn T-Bone maður en hann er samt frægur og ég skil alveg að sumir fíli hann). Og listinn er lengri – Sonny og Brownie fá sinn skamt, Lightning líka, Chicagoblúsinn sitt o.s.frv. Þegar hann fer síðan að tala um hvað Alan Wilson sé mikið fífl að dirfast að halda á gítar í návist meistara Skip James, einsog þeir séu þarmeð blúsmenn af sama kalibera, og rekja það hvernig Skip hafi sagt baksviðs að Alan væri feitur og maður gæti ekki spilað blúsinn ef maður væri feitur var ég alveg byrjaður að jæja svolítið duglega með sjálfum mér. Síðustu 60-70 blaðsíðurnar var ég alveg kominn með upp í kok, farinn að leggja bókina frá mér á fimm mínútna fresti til að trufla Nödju með einræðum um hvað þessi maður væri mikið fífl að halda einræður um hvað aðrir væru mikil fífl (ég sá ekki íróníuna í því þegar ég var að þessu – en ég hef séð ljósið nú!). En. Þetta er eina ævisaga Skip James og Calt hafði mikinn aðgang að honum og bókin er sannarlega fróðleg – þótt hann líka gjarn á að taka bara því sem Skip segir sem heilögum sannleik. Þegar Skip fer að afsaka slælega spilamennsku með því að hann sé viljandi að spila illa svo hann geti borið því við þegar hann mætir drottni að hann hafi ekki spilað blúsinn af innlifun – og það sé því ekki blús – og Calt tekur því sem einlægri afstöðu hans frekar en bulli úr manni sem er beiskur yfir því að fingurnir á honum láti ekki að stjórn, þá finnst manni hann sekur um allt það bláeyga sakleysi sem hann sakar aðra blúsendurreisnarbræður sína um. Altso. Frábær músíkant, einn sá allra besti, samt frekar glataður gaur – en alinn upp á vargöld í vondum heimi. Fróðleg bók og skemmtileg á köflum, skrifuð af manni sem hefði aðeins mátt slaka á lífsbeiskjunni. Aukaefni: Þetta er lagið sem Skip byggir I’m So Glad á. Glöggir munu taka eftir því að þessi maður er ekki einu sinni blökkumaður. Ég get bætt því við að þetta er alls ekki blúslag – það er m.a.s. á mörkunum hjá Skip. 32-20 Blues er útgáfa Roberts Johnson á 22-20 Blues. Robert breytir því svolítið og þar á meðal kaliberi vopnsins. Það er gaman að geta þess að hinn vani byssumaður Skip James henti þessu lagi að sögn saman á örfáum klukkustundum – og kaliberið sem hann notaði, 22-20, er bara rugl. Það eru ekki til neinar 22-20 byssur. 32-20 er hins vegar bara klassík – bæði Colt og Winchester framleiddu þannig vopn. Það væri synd að segja að þetta kover hafi gert Skip ríkan en hann átti allavega fyrir helstu sjúkrahúsreikningum og leigunni. Það má segja Clapton og félögum það til hróss að þeir hafi skráð lagið á hann. Stones voru ekki svo næs með t.d. Love in Vain eftir Robert Johnson. Svo eru auðvitað mýmörg dæmi um að menn hafi gert lögin að sínum eigin – einsog deltablúsararnir gerðu sjálfir. Mikið af því sem Led Zeppelin voru kærðir fyrir voru jafn mikið þeirra eigin sköpunarverk og orginalarnir sem þeir hermdu eftir voru sköpunarverk þeirra sem fyrir þeim voru skráðir – sama á við um Dylan, sem sagði sjálfur að sítatið væri einn af hornsteinum blússins. Dylan skráði líka sín hreinni kover á upprunalegu höfundana – líka þegar hann útsetti og hagræddi einu og öðru, einsog í See That My Grave is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson, sem segja má að Dylan hafi hreinlega blúsað upp, það er blúsaðra með honum en Lemon). Þessi Beck ábreiða er úr Wim Wenders myndinni Soul of a Man – sem er önnur í seríu mynda sem Martin Scorsese pródúseraði. Því miður er ekki allt lagið – það er feidað út í leikara að mæma Skip James. Þetta er skemmtileg útgáfa. Hér snýr Bonnie laginu á haus. Í staðinn fyrir að syngja „I’d rather be the devil / than be that woman’s man” þá syngur hún „I’d rather be the devil / than be a woman to that man“.

id““:““f5a80″“

Ein af bókunum sem ég las í síðustu viku, og tengist þessum bókaskrifum – sem og leikritinu (sem er – plöggviðvörun – frumsýnt á laugardag í Tjarnarbíó) – heitir  Free Speech on Campus og er rituð af tveimur amerískum lögfræðingum. Einsog titillinn gefur til kynna fjallar bókin um málfrelsi og mörk þess í háskólasamfélaginu. Grundvallarkenning bókarinnar er sú að málfrelsi verði að vera rýmra í háskólum en annars staðar því því annars geti þeir ekki sinnt hlutverki sínu (sem er meðal annars að takast á við ögrandi hugmyndir, en líka að fella vitlausar hugmyndir úr gildi – til þess þarf að vera hægt að ræða þær, á eigin forsendum en líka að skoða þær forsendur. Þá flytja höfundar ýmis rök gegn því að málfrelsi séu settar hömlur – eða réttara sagt, þá benda þeir á hvernig margar aðferðir (svo sem safe space-sköpun í kennslustofum eða skyldubundnar triggerviðvaranir) geti annars vegar haft neikvæð áhrif – t.d. þannig að hamlanirnar valdi nemendum sem heild alls kyns kvíðavandamálum, enda vaki þar nemendur hver yfir öðrum og refsi og skammi hver annan, samfélagið verður púrítanískt – og hins vegar sé ekki hægt að banna A (sem er skaðlegt) án þess að banna líka B (sem er nauðsynlegt frjálsri samræðu). Afleiðingar hertra reglna um tjáningu séu einfaldlega of neikvæðar, þótt hvatinn til þess að herða reglurnar sé skiljanlegur. Ekki er þar með sagt að allt mál sé einfaldlega varið og öll tjáning lögmæt. Þeir gera t.d. greinarmun á tjáningu sem er beinlínis hótandi í garð tiltekins fólks. Þannig væri innan marka að brenna kross en ekki innan mark að brenna hann á lóð svartrar fjölskyldu; innan marka að segja konur heimskari en karlmenn (enda standist það enga skoðun og falli strax dautt í samfélagi sem leyfir sér að vera krítískt) en ekki innan marka að hóta að nauðga konu (enda sé það ekki „hugmynd“ sem hægt er að takast á um heldur einfaldlega hótun). Þegar ég segi „innan marka“ á ég líka fyrst og fremst við „löglegt“ – og „ætti ekki að banna“, þótt það sé vissulega glatað. Ekki að manni eigi að finnast það frábært. Lögfræðingarnir, sem hafa kennt málfrelsislög, eru báðir á því að triggerviðvaranir geti þjónað alls konar tilgangi og hafa báðir notað þær frá því löngu áður en hugtakið var til. Þannig hafi þeir oft fjallað um mónólóg Georges Carlin Seven Dirty Words og alltaf varað nemendur sína við að þeim gæti þótt þetta ljótt. Það þýðir vel að merkja ekki endilega að það sé afleiðingalaust að ganga út – en það gefur manni tækifæri til að búa sig undir það. Ég stóð mig að því sjálfur á laugardagskvöldið, þegar vinkona mín spurði mig hvort ég væri „viðkvæmur fyrir myndum“ að svara „ekki ef þú varar mig við“ – sem er einmitt málið. Það er ágætt að láta vara sig við. (Það er svo viðeigandi að nefna í þessu vinnudagbókarbloggi að vinkonan, sem er trans, sýndi mér svo mynd af transpíku – ekki sinni, vel að merkja, heldur bara af netinu – og ég trámatíseraðist sama og ekki neitt). Hins vegar geti verið alls konar ástæður fyrir því að kennarar vilji og þurfi að sýna nemendum sínum efni  án þess að vara þá fyrst við – það sé einfaldlega ákvörðun sem kennarinn verði að taka sjálfur, miðað við efni og aðstæður, en ekki eitthvað sem eigi að gerast á skrifstofu skólastjóra og miðast við öll efni og allar aðstæður. Þá sé líka í fínu lagi að búa til safe spaces – en það megi ekki nota hugtakið sem skjöld gegn öllum óþægindum. Kennslustofan geti verið staður til þess að ögra og það sé einfaldlega margt sem ómögulegt sé að læra án þess að verða fyrir óþægindum. Maður verður ekki læknir án þess að þola að sjá blóð. En það þýðir kannski ekki að það megi sturta yfir mann blóði óforvarendis inni á klósetti bara af því maður er í læknanámi. Þeir skilgreina síðan stórt svæði utan kennslustofunnar – sjálfan kampusinn – sem málfrelsissvæði. Þar eigi að gilda rúmari reglur um tjáningu en annars staðar í samfélaginu og raunar líka rúmari reglur um truflun – en truflunartjáningu er eðli málsins samkvæmt sniðinn þröngur stakkur í kennslustofu, þar sem fólk á að bera virðingu fyrir hugmyndunum sem verið er að ræða. Sé maður ósammála fyrirlesara er ekki nóg að segja honum bara að fokka sér – þótt það sé nóg á kampusnum annars – í kennslustofunni ber manni skylda til þess að kljást við hugmyndir fyrirlesarans. Ég hef séð alveg fáránleg myndbönd af fólki að garga niður fyrirlesara – t.d. karlréttindasinna – bæði inni í kennslustofu og svo í stórum hópum fyrir utan þær, með þeim afleiðingum að ekki heyrðist orð innandyra. Höfundar eru alveg klárir á að það sé utan marka. Þeir leggja líka áherslu á það lögfræðingarnir að skólarnir geti gert ýmislegt til þess að vinna gegn hatri í skólanum án þess að grípa til þess að banna illyrmislegar hugmyndir. En þeir eru líka alveg harðir á því að tilvikum þar sem kennurum og nemendum sé refsað að ósekju – eða réttara sagt fyrir tittlingaskít eða „réttmætan hugmyndaflutning“ eða hvað maður vill kalla það – fari mjög fjölgandi og það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur, bæði af andrúmsloftinu í kennslustofunni en líka í kringum háskólann – einn kennari var sem dæmi rekinn fyrir að fara með blackface málningu á grímuball, ótengt háskólanum, þótt sannað þætti að hún hefði fyrst og fremst ætlað að „ögra til umræðu“. Þótt manni finnist slík hegðun ósæmileg sé hún engan veginn réttlætanleg brottrekstrarsök. *** Hans Blær – verandi tröll – starfar við hið transgressífa, að ganga yfir þessa línu, helst þannig að hán komist upp með það. Þar er ekki endilega spurt hvort hán brjóti lögin, sem hán gerir stundum lítillega (og stundum meira), heldur hvort og hvernig hán brýtur á siðferðislögmálum. Hán þarf að brjóta nóg á þeim til þess að þjóðfélagið taki andköf en ekki svo mikið að fólk hætti að horfa eða hlusta – þetta er línudans þess sem vill hámarka athyglina. Og verandi fjölmiðlastjarna lýtur hán augljóslega öðrum reglum en t.d. háskólaprófessorar. Í kampussamhenginu er hér hægast að vísa enn eina ferðina til Milo Yiannapoulus sem túraði milli kampusa í Bandaríkjunum í fyrra og baðaði sig í athyglinni, bæði jákvæðri og neikvæðri. Sums staðar fór hann á svið og gerði óskunda og sums staðar – t.d. í Berkeley, en þar eru báðir höfundar  Free Speech on Campus starfandi – var honum ekki hleypt á svið af reiðum múg og gerði þannig enn meiri óskunda og vakti enn meiri athygli. Það eru til þrjú stig af þessari transgressjón. Í fyrsta lagi transgressjón sem gengur ekki nógu langt – sjokkerar engan (eða sjokkerar nógu lítið að fólk eigi auðvelt með að hafna því að það hafi sjokkerast). Síðan transgressjón sem fúnkerar – þar sem hinir þórðarglöðu hlæja og hinir viðkvæmu reiðast. Tröllið – ekki ósvipað og transgressífi listamaðurinn – þrífst á átökum þessara tveggja hópa, þetta er kraftaverkaaugnablikið. Loks er það transgressjón sem einfaldlega gengur of langt – þegar það slær þögn á hópinn og þetta „er ekki fyndið lengur“. Það getur verið tímabundið – einsog gerðist fyrir Milo þegar hann gerði lítið úr samböndum unglingsbarna (13-14 ára) við fullorðna karlmenn – eða stærra, verra og ófyrirgefanlegra. Í síðara tilvikinu nær þá transgressjónin yfirleitt út fyrir heim orðanna – þá eru það gjörðir. Hitler – svo ég taki nærtækt dæmi! – var húsum hæfur þrátt fyrir Mein Kampf. Það þurfti helförina til þess að Morgunblaðið hætti að verja hann.

id““:““fq433″“

Það er sól og blíða og við ætlum að spila svolítið hokum og dónablús. Á þessu tvennu er sennilega ekki æðislegur munur, a.m.k. hefur mér ekki tekist að finna hann, þótt blúsfræðingar séu margir á því að þetta séu auðsjáanlega tvær mjög ólíkar kategóríur tónlistar. Til hægðarauka hef ég stillt því þannig upp í höfðinu á mér að hokumblús sé þegar augljóslega er sungið um kynlíf eða annað transgressíft efni en notuð um það önnur orð – svo sem einsog í Warm My Weiner eftir Bo Carter – en dónablús sé þegar maður yrkir einsog The Clovers gerðu árið 1953: Cocksucking Sammy get your motherfucking mammy
We’re going downtown to the cocksucker’s ball
Fuck, suck and fight till the beginning of broad daylight Ég skal nú reyndar ekki rífast við neinn sem segir að þetta sé ekki propper blús – þetta er doo-wop – sennilega neyðist ég til að hafa einhvern svona formála í hverri einustu færslu. Blúsinn er víða, það er blús í næstum öllu – mismikill. En þetta er s.s. í blúsfjölskyldunni. Clovers eru frægastir fyrir ljúfari smell – Love Potion no. 9. Svo eru auðvitað ótal mörg lög sem fara einhvern milliveg og erfiðara að flokka í hokum eða dónablús. Blúsarnir eru fæstir svona ofsalega grófir og beita talsverðri íþrótt til þess að sleppa því að segja hlutina hreint út. Bo Carter, sem var nefndur hér áðan, átti talsvert af svona lögum þar sem hann skipti út einhverju kynlífsnafnorði fyrir annað nafnorð – Let Me Roll Your Lemon, Banana In Your Fruit Basket, Pussy Cat Blues og svo framvegis – en annars voru það konurnar sem áttu bestu og frægustu lögin. Sennilega er einhver allra frægasti hokumblús lagið Need A Little Sugar in My Bowl sem Bessie Smith tók upp árið 1931 en Nina Simone gerði ódauðlegt (og breytti need í want) árið 1967. Af því allir hafa heyrt það með Ninu hlustum við á Bessie. Nina droppar líka pylsulíkingunni úr laginu – Bessie syngur „I need a little hot dog in my roll“. Einsog gefur að skilja úir og grúir af pylsulíkingum í hokum. Svo eru sítrónurnar líka mikið teknar, Robert Johnson syngur um „dauðu rækjurnar“ sínar í getuleysisblús, Lil Johnson (sem söng eiginlega bara hokum) syngur um kjötbollur og pylsur og fleira, Maggie Harris spyr hvort enginn vilji prófa kálið sitt (?!!), kisur koma ítrekað við sögu og Lightning Hopkins syngur um púðluhunda, Blind Boy Fuller syngur um hunangsholuna, margir syngja um snáka (ekki síst svarta snáka) og Wynonie Harris mælir með því að maður strokki þar til smjörið kemur: Mikið af kvennablúsnum tekur fyrir karlmennskuna – hvort nokkuð gagn sé af karlinum og er það nokkuð upp og ofan, einsog gengur. Ida Cox syngur að hún sé „One Hour Mama“ og þoli illa einhverja „one minute papas“. I don’t want no lame excuses
’Bout my lovin’ bein’ so good
That you couldn’t wait no longer
Now I hope I’m understood
I’m a one hour mama
So no one minute papa
Ain’t the kind of man for me Áður en yfir lýkur er hún reyndar farin að hóta því að þessi ósköp geti vel teygst upp í tvær eða þrjár klukkustundir, eiginlega sé hún bara rétt að komast í stuð eftir fyrsta tímann. Alberta Hunter hins vegar þarf ekki að auglýsa eftir neinum manni af því hún á svo góðan. Þetta er líka extraskemmtilegt af því Alberta er ekki 25 ára og löngu hætt að roðna. Now he threads my needle,
And he creams my wheat,
Heats my heater,
And he chops my meat, he’s a mess,
My man, is such a handy man
Now I don’t care if you believe it or not,
He’s a mighty nice man to have around, Svo er það Dinah Washington sem fer á stúfana að finna trombónuleikarann „with that big long slidin’ thing“ og Julia Lee sem á sinn „king size papa“ („he’s a real super-daddy and he knows just what to do“) og Lilla Mae Kirkman var að kynnast manni sem er akkúrat passlega stór („I met a man last night, he was just my size / I’ve taken him home with me to bake my cakes and pies“). Sumar lenda í vandræðum – Barrel House Annie biður: „If it don’t fit don’t force it / cause you’ll make your mama mad“ og Tampa Red og félagar – og raunar svo haugur af konum á eftir þeim – syngja svo um hvað ástandið sé nú stundum þröngt: Uncle Bill came home
’Bout half-past-ten
Put the key in the hole but he couldn’t get in
Oh, it’s tight like that
Beep-um-bum-bum
Oh, It’s tight like that
Beedle-um-bum
Ya hear me talkin’ to ya
I mean it’s tight like that
Me and my brother
Was up in the loft
We’s seein’ Uncle Bill when he broke it off
Y’know, it’s tight like that Memphis Minnie, sem hafði meðal annars lifibrauð sitt af vændi, a.m.k. á tímabili, söng síðan (og samdi, held ég) lagið Tricks Ain’t Walking No More. I’m going to learn these walking tricks what it’s all about
I’m going to get them in my house and ain’t going to let them out
Because tricks ain’t walking, tricks ain’t walking no more
Tricks ain’t walking, tricks ain’t walking no more
And I can’t make no money, I don’t care where I go Ég veit ekki hvort það er víðáttuvitlaus lestur – en þótt lagið fjalli fyrst og fremst um að það skorti kúnna í kreppunni – þá finnst mér líka í því vera fólgin hótun um að gera vissa tegund af kúnna ófæran um gang. Loks, áður en ég skil við ykkur í dag, vil ég koma að einu uppáhaldslagi. Þetta er Lucille Bogan sem er fantafín söngkona og hefur notið alltof lítillar athygli – kannski einmitt vegna þess að umfjöllunarefni laga hennar eru jafnan í grófari kantinum. Frægustu lögin hennar eru þetta hér að neðan, Shave Em Dry II, sem er grófari útgáfa af lagi með Ma Rainey, og Tricks Ain’t Walking, en annars syngur hún líka mikið um fyllerí og ofbeldi. Og ég hef enn ekki spilað þetta lag fyrir neinn sem grípur ekki fyrir munninn og segir að þetta sé svolítið smekklaust. En í grunninn fjallar það auðvitað bara um að ríða – það er ekkert ljótt í því annað en dónaorðin. Og söngurinn er engu líkur. **** AUKAEFNI

Hlekkur á Spotify-lista með öllum þessum lögum og fleirum til – meira að segja nokkrum nýrri.

createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:37.919Z““

Ég las upp úr Illsku í Lettlandi á dögunum og var í kjölfarið spurður hvort það væri sanngjarnt að „tala svona“ um þjóðina (og margar aðrar þjóðir reyndar líka) – ekki væru Íslendingar upp til hópa rasistar, og sönnunargagnið væri gjörningur „Biryndísi Bjórkvinsdauttir“ (eða hvað hún nú aftur heitir sú ágæta kona), þar sem 100 þúsund manns hefðu boðist til að taka á móti hælisleitendum og/eða flóttamönnum á heimilum sínum. Ég byrjaði á að segja að í fyrsta lagi væru Íslendingar heimsins bestu spunameistarar – við hefðum á sínum tíma verið best í kapítalisma, svo best í að lækna krankleika kapítalismans og fangelsa bankastjóra og bylta ógnarstjórnum, síðan best í … voru ekki eldfjöllin næst, það gæti reyndar staðist, við erum mjög góð í að loka flugvöllum … og loks værum við best í að bjarga flóttamönnum frá dauða. Altso, núna. (Fyrir utan auðvitað hvernig við erum best í að búa til tónlist og skrifa bækur). Síðan nefndi ég að líklega hefðu þetta verið 10 þúsund manns en ekki 100 þúsund manns og 10 þúsund væri ekkert rosalega hátt hlutfall af 340 þúsund manna þjóð, ekki miðað við stærð vandans. Og fólk hefði boðið ýmislegt minna en húsnæði og framfærslu (og ég sjálfur ekki neitt, vel að merkja). Auðvitað væri gjörningurinn fallegur, symbólískur, Bryndís væri góð vinkona mín og fáir sem ég bæri jafn mikla virðingu fyrir, þetta hefði verið geggjað. Og flóttamenn þyrftu líka hreinlega að fá að heyra það að einhver stæði með þeim, að einhver hugsaði til þeirra þar sem þeir træðu marvaðann í Miðjarðarhafinu og drukknuðu í evrópskri skriffinnsku. Og ráðamenn þyrftu að heyra í fólkinu. En staðreyndin væri sú að líkt og aðrar norðurlandaþjóðir þessa dagana kysum við yfir okkur fasistastjórnir og okkar hefði ákveðið að þessi mikli þrýstingur og þessar 10 þúsund sjálfboðaliðasálir þýddi að í stað þess að taka á móti 25 manns mætti taka á móti heilum 50 manns – og það væri enn ekki kjaftur kominn. Fyrir utan þessa fáu Sýrlendinga sem komu sjálfir og fengu loks hæli – voru þeir ekki fjórtán? – eftir endalaus og ítrekuð mótmæli og þrýsting. Það lá við að fólk hótaði því einfaldlega að slá skjaldborg um þá. Og munaði minnstu að þau yrðu send í burtu. Það þurfti tíu þúsund sjálfboðaliða til að fá vilyrði fyrir 50 flóttamönnum og í nótt þurfti 20 lögreglumenn til að sækja fjögurra manna albanska fjölskyldu og senda þau úr landi. Þau voru sótt um miðja fokkins nótt vegna þess að neyð þeirra þótti ekki nógu stór fyrir mannúð Íslendinga, hún dugði ekki til. Fjölskyldufaðirinn sætir ofsóknum glæpamanna í Albaníu og sonurinn, þriggja ára, er fársjúkur og þarfnast læknisaðstoðar. En það er ekki nóg. Faðirinn var í vinnu og börnin komin á leikskóla, þau voru með stuðningsnet heimamanna, vina sem þótti vænt um þau – þau höfðu verið hér í tíu mánuði, sem er rúmur fjórðungur úr lífi yngsta barnsins. 20 lögreglumenn – líklega bjuggust þeir við því að mæta hörku, í öllu falli vildu þeir greinilega vera viðbúnir því að þurfa að takast á við einhvern. En fjölskyldan bað vini sína að mótmæla ekki – enda vildu þau ekki sjá lögregluna berja vini sína. Því hver vill það? Lögreglan vinnur alltaf hvort eð er. Og maður spyr sig hvað þetta kosti. Og hvort ekki væri nær að fljúga fólki í hina áttina, úr eldinum í öskuna frekar en öfugt? Úr eldinum í kuldann. Við getum ekki bjargað öllum, en við getum bjargað þeim sem bjarga sér sjálfir. Við getum sleppt því að eyða stórfé í að leggja líf fólks í rúst. Svona er að búa í fasistaríki. Mér er engin nautn í að segja það – en það er nákvæmlega þetta skeytingarleysi um líf annarra sem er lykileinkenni fasismans. Að reglur séu reglur og líf fólks skipti ekki máli, ekki gagnvart reglunum (sem þess utan eru alltaf túlkaðar þröngt; það eru engar reglur sem skylda okkur til að senda fólk úr landi og það liggur huglægt mat að baki reglum um dvalarleyfi af mannúðarástæðum). Það má síðan alveg hengja sig á einhverjar aðrar orðabókarskilgreiningar – þegar ég var ungur sósíalisti var mér sagt að fasistar væru ekki fasistar nema þeir sæktu sinn helsta stuðning til stéttar smáborgara (sem samkvæmt fræðunum eru þeir sem vinna ekki fyrir aðra og eru ekki með aðra í vinnu; þeir sem vinna fyrir sig sjálfa – svona einsog ég). En fasisminn er fyrst og fremst ákveðinn móður, ákveðinn hamur, ákveðið verklag sem sýnir utanaðkomandi yfirgengilegan fjandskap, skilgreinir þá (t.d. albanskar fjölskyldur) sem ógn við einingu og velferð þjóðarinnar, og beygir sig ekki einu sinni að vilja samfélagsins, heldur friðar það með bitlingum, enda hefur hið fasíska ríki sinn eigin vilja og lýtur engum. Og ég skal bara segja það aftur: svona er að búa í fasistaríki. Lýðræðislegu fasistaríki – við kjósum þetta, og skömm okkar er meiri fyrir vikið – en fasistaríki engu að síður. Þar sem sumir mega einfaldlega drepast. Þegar við síðan brennum inni með þetta rugl, einsog við brunnum inni með kapítalismann 2008 – hvort sem það verður af völdum stríðs eða borgarastyrjaldar eða einfaldlega þess harms að hafa horft upp á stóran hluta þriðja heimsins drepast á dyraþrepinu hjá okkur, rétt á meðan við troðum í okkur jólamatnum, hvort sem við murkum endanlega lífið úr fátæka fólkinu eða það rís upp gegn okkur – þá getum við ekki haldið því fram að við höfum ekkert vitað í hvað stefndi, að við höfum ekki áttað okkur á því eða að við höfum ekki getað gert neitt. Það er einfaldlega ekki í boði. Við gerum þetta með galopin augu – vitum að vísu ekki alltaf hver drepst og hver lifir – en við vitum að mannfallið er mikið. Við kjósum að viðurkenna ekki neyð fólksins sem knýr dyra. Með fullri meðvitund og lýðræðislegu samþykki. Það þýðir ekkert að yppta öxlum og láta einsog það komi okkur nú ekkert við, ekki séum við í albönsku mafíunni, ekki séum við í ISIS eða morðsveitum Assads, við séum nú „bara Íslendingar“. Við erum alveg jafn sek þótt við látumst heimsk.

id““:““3unqm““

Hann á afmæli í dag. Goðsagnakenndasta blúshetjan. Robert Johnson. 109 ára. Eiginlega allt við sögu hans – goðgerðina, markaðssetninguna – segir manni að það ætti ekki að vera neitt varið í þetta. Þetta ber öll einkennis þess að vera viralþvæla – búið að ofselja hann. Númer eitt er þetta með að hann hafi selt sál sína andskotanum á krossgötunum fyrir hæfileikana. Sagan segir að Robert hafi verið skítsæmilegur munnhörpuleikari en afskaplega vondur gítarleikari en hafi stundum fengið að troða sér inn hjá öðrum þegar þeir voru í pásu. Son House sagði að þetta hafi oft endað með ósköpum – fólk hafi beinlínis komið og beðið sig um að hætta í pásu og koma þessum hæfileikalitla partítrúbador af sviðinu. Svo lét Robert sig bara hverfa í hálft ár – og það er þá sem hann á að hafa selt sálina en allt bendir samt til þess að hann hafi haldið sig nálægt heimabæ sínum, Hazlehurst, og verið í læri hjá gítarleikara sem hét Ike Zimmerman (og er ekki til á upptöku). Þegar hann kom aftur til Memphis fékk hann enn á ný að stinga sér milli setta hjá Son House – sem hló að honum og stríddi honum áður en hann fór á sviðið. En þá var allt breytt. Það er ekki bara að Robert spili af nánast yfirnáttúrulegri ástríðu – sándið í röddinni og samspil hennar við gítarleikinn er engu líkt – heldur býr hann yfir ógurlegri tækni og hefur sameinað ólíka stíla frá mönnum á borð við Blind Lemon, Big Bill, Son House, Blind Willie Johnson, Charley Patton og fleiri. Frægt er að þegar Keith Richards heyrði hann spila fyrst hélt hann að þetta væru margir gítarleikarar. Þegar hann svo deyr – sennilega eftir eitrun vegna þess að hann var að dilla í annars manns konu – segir sagan að hann hafi skriðið um æpandi og gólandi af sársauka í marga daga. Var þá sagt að Legba/kölski væri kominn að heimta sálina sína. Svipuð saga var sögð um marga aðra og auðvitað er þetta Fást-goðsögnin – og þess utan beint upp úr biblíunni: allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig. Oftast var þessi saga sögð um Tommy Johnson og margir sem telja að í ljósi dauðdaga Roberts hafi sagan flust yfir á hann. Þegar Son House segir söguna um það hvernig hann hafi horfið og birst aftur – hæfileikalaus fyrir og snillingur á eftir – eru liðin meira en þrjátíu ár og Son, einsog margir samferðamanna hans, orðinn ansi sleipur í að selja svona sögur. Það er langt liðið á blúsendurreisnina – þetta er 1965 – og erfitt að slökkva þorsta hvítra blúsnörda fyrir goðsögnum um blúsmenn í deltunni og djöfullinn einhvern veginn alltaf með í dæminu. Ég held að Son hafi verið sagnamaður – einsog Big Bill og fleiri – og góður sagnamaður lætur hvorki sannleikann né minnið standa í vegi fyrir góðri sögu. Þegar bútarnir raða sér upp í dauðafæri lætur maður bara vaða. Um kölska má segja það tvennt að annars vegar var hann lifandi hluti af trú margra á þessum tíma – sú trú var raunveruleg og áþreifanleg – og hins vegar að hann var sannarlega talinn búa í blústónlistinni. Big Bill Broonzy samdi við mömmu sína um að taka aldrei gítarinn með sér inn til hennar af því að djöfullinn bjó í honum. Son House barðist alla tíð við við djöfulinn – drekkti honum í áfengi milli þess sem hann skildi við blúsinn og predikaði guðsorð. Og meira að segja þegar hann spilaði blúsinn er einsog hann skammist sín fyrir það – hann sé að þjóna andskotanum – og ég held það sé engin ástæða til að ætla að sú skömm sé einhver látalæti þótt hún hafi sennilega líka verið hluti af sjarmanum. Annað sem ýtir undir mýtuna um Robert Johnson er hvernig „við“ rétt misstum af honum. Eftir að hann sneri til baka frá Hazlehurst tók hann upp fullt af lögum í tveimur sessjónum, 1936 og 1937, og þar af náði eitt lag, Terraplane Blues, nokkru máli. Terraplane er hálfgerður hokumblús – dónablús. Terraplane var bíltegund og verður Robert að myndlíkingu fyrir kynlíf – og raunar getuleysi. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni hversu margir af dónablúsum Roberts fjalla um getuleysi – Dead Shrimp Blues er allavega líka á svipuðum slóðum, sem og Phonograph Blues (þar sem ljóðmælandi er reyndar hugsanlega bara svona útriðinn – þau ríða og ríða og svo ryðgar bara nálin hans). Og rannsóknarefni hvers vegna ég sé aldrei neinn tala um þetta. I’d said I’ll flash your lights, mama, and the horn won’t even blow
I even flash my lights, mama, and this horn won’t even blow
I got a short in this connection, way way down below Ég held ég fari með rétt mál að langflestir af þessum hokumblúsum séu gorgeirs- frekar en getuleysisblúsar (en hef enn ekki skoðað það sérstaklega). Ég man allavega í svipinn ekki eftir neinum öðrum getuleysisblúsum. Önnur lög Roberts vöktu enga sérstaka athygli. Tónlist hans berst samt til eyrna Johns Hammond, sem vann hjá Colombia Records og var allra handa músíkpródúsent, sem um sína tíð uppgötvaði óhemju af frægum tónlistarmönnum – frá Count Basie til Bruce Springsteen. Og ber ekki að rugla saman við tónlistarmann sem heitir sama nafni. John Hammond var að skipuleggja tónleika í Carnegie Hall – From Spirituals to Swing – sem yrðu helgaðir tónlist blökkumanna og áttu að brjóta niður hinn ósýnilega múr milli tónlistar svartra og hvítra. Þarna yrði – í fyrsta sinn – tónlist blökkumanna „veitt virðing“ og hún leikin í alvöru tónleikasal fyrir sitjandi og hlustandi gesti. Hvíta gesti mestmegnis. Þetta er auðvitað að einhverju leyti misskilningur. Tónlistin var ekki í ónáttúrulegu umhverfi þótt hún væri partítónlist og hún er ekki meira alvöru fyrir að vera í Carnegie Hall, fyrir að vera kanoníseruð. Hins vegar má alveg til sanns vegar færa að þessi leikur Hammonds hafi orðið til þess að varpa meira ljósi á „listrænni“ blústónlistarmenn. Það er kannski meira gaman að dansa við Leroy Carr en það er meira gaman að hlusta á Robert Johnson. Hvað sem því líður fer Hammond á stúfana eftir Robert Johnson, sem átti að sögn að vera aðalatriðið, en kemur að tómum kofanum (svo til bókstaflega) því hann er þá nýdauður. Big Bill Broonzy var fenginn til að fylla í skarðið en svo fannst Hammond það ekki nóg svo hann tók sig bara til og stillti upp plötuspilara á sviðinu og lék nokkur lög eftir Robert Johnson af plötu fyrir stappfullt Carnegie Hall. Það má segja að frá þessari stundu hafi Robert Johnson verið merkastur allra blúsmanna – en fyrst og fremst í munnmælum því plöturnar voru ekki til víða og það er ekki fyrren 1961, þegar blúsendurreisnin er í hámæli, að hann er endurútgefin og öðlast almennar vinsældir – tryllir ekki ómerkari menn en Eric Clapton og Keith Richards. Þegar sagan og mýtan er orðin svona mikil er hætt við að maður fari að gæta sín á að kokgleypa þetta ekki bara. Ég varð aðeins var við það á dögunum til dæmis að menn héldu því fram í kjölfar dauða Yahya Hassan að hann væri nú kannski ekki svona merkilegur heldur væri hann bara eitthvað viral-rugl – svona einsog reiðilegt komment á Jyllands-Posten sem allir rífast síðan um á Facebook. En það má segja um Hassan einsog um Robert Johnson að verkin tala bara fyrir sig sjálf. Þetta er einfaldlega ótrúleg tónlist (einsog ljóð Hassans eru engu lík). *** BÓNUSEFNI Bestu Robert Johnson koverin. Ég sleppi þeim allra frægustu – Love in Vain með Stones, Crossroads með Cream, Travellin Riverside með Zeppelin, They’re Red Hot með Red Hot Chili Peppers, Sweet Home Chicago með hverjum sem er – sumt af því er mjög fínt en það er bara óþarfi að auglýsa tónlist sem allir þekkja. Hér eru sömu lög sem Spotify-playlisti fyrir þá sem vilja bara láta þau renna – en það eru ekki allt alveg sömu útgáfur. Ég mæli sérstaklega með Ike & Tinu hér að neðan – útgáfan á Spotify er flott en þessi á YouTube er sjóðheit. En Dylan lagið er bara á Spotify – maður þarf eitthvað premium dæmi til að hlusta á það á YouTube.

id““:““e5nb5″“

Jólin eru sá tími árs þegar þeim sem á annað borð líður illa, líður verst. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að það sé nokkuð úrval til af jólablúsum. Þá er auðvitað „jólalagið“ sem konsept líka hækja sem margir grípa til af ýmsum ástæðum – BB King, sem var einn duglegasti tónlistarmaður 20. aldarinnar, mjólkaði þessa kýr vel og vandlega, hún gaf honum ástæðu til að gefa út nýja plötu, halda nýja tónleika, ýta vélinni í gang, gera meiri músík og græða meiri pening. Jólalagið rímar líka vel við eþos fyrstu blúsbylgjunnar, sem var einfaldlega að fagna lífinu, búa til smelli og selja plötur – löngu áður en blúsmenn fóru að standa vörð um tilkall sitt til þess að teljast „ekta“ eða „hreinir“. Þá eru ótaldir þeir sem hafa hent í eitt jólalag í tilraun til þess að endurlífga dauðan feril og/eða borga af húsnæðisláninu – Christmas Present Blues eftir hinn annars stórfenglega Jimmy Reed er eitt slíkt, alveg voðaleg blúsfönkjólasúpa frá 1971, sem verður ekki póstað hér. Við byrjum þessa jólaþeysireið á drottningu sjálfri – Bessie Smith ætlar að halda jólin með sínu nefi. Jólin færa manni gleði, bjór, vín og dans – og komi dansfélaginn ekki nógu vel fram við mann, er bara að sækja sér nýjan, nóg er til. Í kjölfar drottningarinnar koma, einsog vera ber, þrír kóngar. Fyrstur til að stíga á svið er Albert – lénsherra Stevie Rays og Gibson V-beri. Ég er satt best að segja ekki alveg viss hvað jólin koma þessu lagi við – en þau eru þarna samt í viðlaginu. Sennilega er það bara árstíminn, en blúsinn er víst samur við sig hvort sem það er ágúst eða desember. I’ve got to push on
I got to push on away from here
Oh, you treat me just like I’m a playtoy, darlin’
And Christmas only comes once a year Næstur kónganna er Blues Boy BB King. Hann hefur sinnt jólunum vel, einsog áður segir, og margt af því er æði smekklaust – svo sem dúett hans með (hinni oft ágætu) Christinu Aguilera. En þetta gerir hann gríðarvel. Þriðji og síðasti kóngurinn er auðvitað Freddie. Ég vissi ekki af þessu lag fyrren áðan en þetta er strax orðið uppáhalds jólalagið mitt. Úti heyrist í sleðabjöllum og englakórum, en Freddie heyrir ekkert frá ástinni sinni – og situr bara inni einn og grætur. Frændi BB – deltablúsarinn Bukka White – á líka þetta æði fína lag. Kærastan hans setti engan pakka fyrir hann undir jólatréð og hann skilur bara ekkert hvers vegna. Chuck Berry er hefðbundnari í sínum jólatextasmíðum – í staðinn fyrir að taka blústexta og strá svolitlum jólum yfir það, hefur hann tekið týpískan jólatexta og stráð svolitlum blúsi yfir það. If I could only have an hour of this holiday with you
We could sit and rap together, spinning records old and new
Have a little cake and a bit o’ coke now and do the things we used to do Clarence Gatemouth Brown sýnir á sér nýja hlið og er skemmtilega djassaður í jólalagi um að jólin séu ekki bara fyrir mig og þig, heldur fyrir alla. Orðaleikurinn með að „dresser drawer“ geti bæði þýtt kommóðuskúffa og kvenmannsnærföt er gamalt hokum-grín. Þegar kærastan hans Sonny Boy Williamsonar fer úr húsi og segist hafa skilið gjöfina hans eftir í kommóðunni tekur forvitnin af honum völdin og hann fer að gramsa – með kostulegum afleiðingum sem enda með lögregluafskiptum. Butterbeans og Susie voru gríndúó í vaudeville hefðinni – og þykir alls ekki fínt, vel að merkja, en lagið er skemmtilegt og listasagan var einsog hún var (þótt ég hefði nú sennilega haft lengri fyrirvara á því að pósta svona ef þau hefðu verið hvít). Vaudeville-sýningarnar gengu mest út á skopstælingar og klisjur úr hversdagslífi fólks og þar naut „hjónarifrildið“ gríðarlegra vinsælda. Þetta er svoleiðis lag – jólahjónarifrildi í blúsdúr. Loks er það annar dúett – hinir æðislegu Leroy Carr (á píano og söng) og Scrapper Blackwell (á gítar). Í grjótinu á jólum: This food here Santa, it ain’t fit to eat
This food here Santa, it ain’t fit to eat
Won’t you come and bring me a plate of turkey meat
In jail on Christmas Day again, ain’t that a pain
Oh baby, baby, baby ain’t that a pain

id““:““8vi3s““

I: Að vera blár Sársauki, skortur, svik, óbætanlegur missir. Kannski er íslenska orðið fyrir blús bara „torrek“. Elstu blúsararnir svöruðu gjarnan spurningunni um eðli blússins á þá leið – blúsinn er tilfinning, aðstæður og stemning. Og það er mikilvægt að hafa í huga að þeir nefna yfirleitt tilteknar aðstæður – tilfinningin er ekki nóg, blúsinn er ekki væl út af smotteríi og hann er ekki klínískt þunglyndi (þótt ég muni eftir fáeinum klínískum þunglyndissjúklingum sem voru góðir blúsarar – t.d. Skip James). Þeir segja ekki: blúsinn er að vera leiður. Heldur: Blúsinn er þegar þú kemur heim úr ömurlegu vinnunni þinni og áttar þig á því að konan þín er farin og hún tók með sér börnin og allar eigur ykkar. Blúsinn er þegar karlinn ykkar nær honum ekki upp. Blúsinn er þegar konan þín er ótrú og karlinn þinn er lyginn. Blúsinn er þegar þú drekkur þig niður á botninn á flösku. Og blúsinn er allt sem þú röflar þarna á flöskubotninum, blindfullur, þegar hvítur háskólastrákur spyr þig. Í sjálfu sér eru varíantarnir ekkert ægilega margir – rétt einsog í annarri sagnagerð liggja gæðin í díteilunum. Það getur verið eitthvað tvist – uppleggið er kannski að svikin séu þau að þú hafir svikið vin þinn með því að hafa af honum konuna hans, sem hafi svikið hann, en pönslænið að þau hafi bæði svikið þig með því að hafa tekið saman aftur og skilið þig eftir einan og sáran. En oftar en ekki er þetta einfaldlega fallegt myndmál, góð ljóð. If the river was whisky / and I was a diving duck / I’d swim to the bottom, baby / and I’d drink my way up. Nú eða þetta: When the train, it left the station
With two lights on behind
When the train, it left the station
With two lights on behind
Well, the blue light was my blues
And the red light was my mind
All my love’s in vain II: Að vera svartur Seinna myndu aðrir svara sömu spurningu þannig að blúsinn væri kjarninn í upplifun svartra bandaríkjamanna – eitthvað sprottið úr einstakri reynslu þeirra og eitthvað sem enginn gæti tjáð nema þeir. Þetta hangir saman við réttindabaráttu blökkumanna um miðja öldina og nýja sýn þeirra á eigin sögu og sjálfsmynd; og líka við þá staðreynd að þessi tónlist, sem flestum hafði verið meira og minna sama um – ekki síst þeim sjálfum, djassinn var alltaf vinsælli, og síðar R&B swing og soul-tónlist – var skyndilega ekki lengur gamaldags og klúr gagnvart fágaðri vinsældartónlist hvíta mannsins heldur sönn og djúp og resonant. Skyndilega skipti hann máli – og skyndilega var verið að stela honum. Hvítir háskólakrakkar sem fannst líf sitt með Pat Boone ekki fullnægjandi tóku að leita í eitthvað sterkara og fundu það í alþýðutónlist – folk music – sem upprunalega er auðvitað ekki heiti á tónlistargenru heldur hugtak í þjóðfræði. Það er að segja: „folk music“ segir (upprunalega) ekkert tónfræðilega um neina tónlist, ekki takt, melódíu eða hljómaskipan, heldur um tilurð. Folk er tónlist sem er samin af þjóðfélögum fremur en einstaklingum, dokumenteruð af göfugum þjóðfræðingum frekar en tónlistarmönnum – lög og ljóð sem eru látin ganga í munnmælum – og þegar fólk fer að hafa áhuga á „folk“ sem slíku virðist þessi hvíti úthverfa almenningur ekki láta sig það nokkru skipta hvort lagið er western, köntrí, blús eða bluegrass. Út úr þessu kemur tvennt: 1) Það verður til tónlistarstefna sem heitir bara folk, hverrar grunntónn er sirka Joan Baez. Þetta sánd kjarnast sem sagt, frekar en að þróast. 2) Það verður til ný blústónlist, á sama tíma og eldri blúsarar eru færðir upp á stall. Það er merkilegt nokk mjög lítið um Joan Baez týpur í þessu – í stað þess að ná sér í gamlan national steel gítar og fara að herma eftir Son House fara blústýpurnar og ná sér í rafmagnsgítar og stofna hljómsveit – nýjan rafmagnsblús sem er ekki bara framhald af Chicagoblúsnum. Þetta eru Stones og Ry Cooder, Taj Mahal, Koko Taylor, Canned Heat og Magic Sam og svo framvegis. Eina undantekningin sem ég man er Bob Dylan, hvers fyrsta plata er að stærstum hluta gamaldags köntrí-blús – því þótt hún sé yfirleitt bara kölluð „folk“ verður ekki horft framhjá því að langstærstur hluti laganna er blökkusöngvar frá Mississippi og lagahöfundar t.d. Blind Willie Johnson, Jessie Fuller, Blind Lemon Jefferson, Curtis Jones, Bukka White, Reverend Gary Davis o.s.frv. Síðan þá hefur Dylan auðvitað spilað óhemju af blús (playlisti á Spotify með blúslögum Dylans er vel á áttundu klukkustund) en megnið af því er í nýrri stíl. Ég held að menn einsog ljóðskáldið Amiri Baraka hafi upplifað ágang Dylans og Stones á tónlist sem þeir töldu erfðarétt sinn – sína tónlist, einsog Íslendingar „eiga“ íslendingasögurnar – sem enn einn menningarþjófnaðinn. Það var búið að taka nútímalegri blúsinn – R&B Big Mama Thornton og Arthurs „Big Boy“ Crudups – og breyta honum í Graceland-milljarðamæringinn Elvis Presley; án þess að Thornton eða Crudup hefðu af því nokkrar sjáanlegar tekjur, og nú átti að endurtaka leikinn með helgustu verðmæti hinnar svörtu þjóðar – og hann var auðvitað endurtekinn. Stones urðu stærsta og ríkasta band allra tíma, Dylan fékk nóbelsverðlaun, það er búið að nefna reikistirni eftir Eric Clapton og í dag eru hvítir blústónlistarmenn óneitanlega umtalsvert plássfrekari en þeir voru fyrir þennan tíma. Og þá gengur ekki lengur að segja einsog Son House eða Lightnin’ Hopkins gerðu, að blúsinn væri tilfinning – að hann væri úniversal. Þá segirðu frekar að sársaukinn sé sértækur, snúi að vissri reynslu – og jafnvel, einsog Ruth Brown, að þessi sársauki sé fyrir bí, þetta þjóðfélag horfið og enginn þekki hann (sem er ekki það sama og að segja að það sé ekki óréttlæti eða rasismi). Af því vilt standa félagslegan vörð um menningararfleið þína – að henni verði hvorki spillt né aðrir græði á því sem þjóð þín var arðrænd af. III: Að vera svartur eða hvítur Blúsinn er líka ákveðin tónfræðileg einkenni. Hann er gjarnan tólf bör (taktar) sem skipt er upp í þrjú box – fyrst eitt á grunnhljómi (tonic eða I), þá hálft á undirforhljómi (sub-dominant eða IV) og hálft aftur á grunnhljómi, loks hálft á forhljómi (dominant eða V) og hálft á grunnhljómi (oft er það reyndar líka kvart á grunnhljómi og kvart á forhljómi – sem er leikið í einhvers konar krómatískt hnígandi (eða stígandi) riffi og kallað viðsnúningur eða turnaround). En hann getur líka verið átta bör eða sextán og gömlu köntríblúsararnir gerðu þetta bara einsog þeim sýndist – 9 bör í einu erindi, 13 og hálft í næsta, svo 11, næst 12. Þá er hægt að varíera hljómaganginum þar til hann verður nánast óþekkjanlegur – það fer eftir því hvað maður djassar það mikið (í djassi skiptir maður oft hljómum út fyrir aðra sem „ganga upp“ í staðinn). Maður gæti sagt að kjarninn í blúsnum sé samt þarna – vandamálið er bara að þessi hljómagangur hefur verið notaður svo víða í tónlist sem er alls ekki blús. Og þá er ég ekki að meina í rokklögum eða einhverju köntrídóti eða pönki – þannig lög blúsast auðveldlega upp, kannski af því hljóðheimurinn er skyldur – heldur poppaðri músík, fágaðri músík. Ég veit t.d. ekki hvort það gagnast neitt að skilgreina Black or White með Michael Jackson sem blús þótt það uppfylli skilyrðin. Svo eru auðvitað milljón klassísk blúslög sem nota alls ekki þennan hljómagang og myndu falla utangarðs (og blústónlistarmennirnir sem við þekkjum frá fyrri hluta aldarinnar léku líka með fáum undantekningum „alls konar tónlist“ – þótt plötuútgefendur og þjóðfræðingar hefðu minni áhuga á að heyra þá spila Gene Autry eða Tin Pan Alley). Önnur einkenni eru stöðugur þömpandi fjórtaktur, lækkaðar sjöundir (sem eru í dag svo algengar að þær eru yfirleitt bara kallaðar sjöundir), lækkaðar fimmundir (sem er nóta í blússkalanum sem farið er í gegnum en aldrei dvalist við – enda sjálfur tónskrattinn – hún skapar spennu sem þarf að leysa úr strax) og míkróteygðar moll-þríundir og sjöundir (kenningar eru um að það hljómi réttar í vestur-afrískum tónstigum – en hljóðfæri blússins eru auðvitað fyrst og fremst evrópsk). Þá einkennir það blússkalann að þótt tólf-barablús sé í dúr er leikinn yfir hann pentatónískur mollskali (með blúsnótu – tónskrattanum). Og stundum hendir maður inn einni og einni dúrþríund – sérílagi strax á eftir mollþríundinni. En svo eru líka til mollblúshljómagangar og dúrblússtigar. The Thrill is Gone er t.d. mollblús og Skip James spilaði alltaf í mjög sérstakri og harmrænni moll-stillingu. T-Bone Walker spilaði oft dúrskala og Lonnie Johnson spilaði nú bara alls konar djassskala og margir leika sjöundar-arpeggios yfir hljómana og láta skalana bara eiga sig. En vandamálið er líka að blússólóið – eða bara blúsmelódían, þessi einkenni hér að ofan – eru margfalt algengari en nokkur 12 bara blús. Vestræn tónlist er einfaldlega undirlögð – kólóníseruð! Þá er samtalið milli radda eða hljóðfæra eða – sem er algengast – milli raddar og hljóðfæris ákveðið einkenni á blústónlist. Söngvarinn segir: Ég er svangur. Gítarinn segir: Dí-dú-dí-dá. Söngvarinn: Ég er atvinnulaus. Gítarinn: Da-dú-bí-dú-dí. Þetta ku vera afrískt einkenni og er – einsog mörg önnur blúseinkenni – líka mjög algengt í gospel og vinnusöngvum.
Loks ber að nefna áferðareinkenni einsog að teygja eða slæda upp og niður í nótur, nota mikið víbrató – og nota grófan hljóm, frekar en fagran, að hrópa rámri röddu, leika á sargandi gamla Stellu, diddleyboga, ódýran Airline-rafmagnsgítar, keyra lampamagnara út í overdrive, spila á lúið gamalt píanó – frekar en að spila á hljómfagran klassískan gítar eða steinway-flygil. Þetta helgast auðvitað upprunalega af félagslegum aðstæðum – stellurnar voru ódýrustu hljóðfærin og upptökugræjurnar sem voru notaðar til að taka upp tónlistina í fyrstu voru kannski ekki beinlínis hi-def. En það þýðir ekki að það sé ekki sándið í blúsnum – þótt hér séu aftur líka ofsalega stórar undantekningar, alveg frá fyrsta degi. Lonnie Johnson spilaði fágað, Mississippi John Hurt spilaði fágað og BB King var fágaðastur allra (og hafði ímugust á öllu þessu fátæktar- og hávaðatali – þótt hann bæri mikla virðingu fyrir frænda sínum, Bukka White, sem var nú sennilega næst grófastur og æstastur og sveittastur, strax á eftir Son House og strax á undan Howlin’ Wolf). Löngu áður en Jack White gerði eldrauða
og ódýra airline-gítarinn að sínu vörumerki
var hann þekktur sem JB Hutto gítarinn. Þessi einkenni áttu sennilega fyrst og fremst við blúsinn þegar hann birtist á sjónarsviðinu – og þótt það væru enn 30 ár í að tónlistarmenn í Chicago færu að tigna hávaðann og rúmlega 50 ár í að pönkararnir tækju það upp á næsta stig – voru önnur áferðareinkenni strax komin í almenna umferð eftir fyrstu blússprenginguna (og auðvitað ómögulegt að segja að hversu miklu leyti þau voru til víðar – en þetta eru einkenni sem almennt eru tiltekin á þessum tíma þegar verið er að lýsa því hvernig blúsinn sker sig frá annarri tónlist, sem er þá fyrst og fremst evrópsk). En sem sagt – almennt er mjög erfitt að skilgreina blúsinn tónfræðilega einmitt vegna þess hve djúpstæð áhrif hann hefur haft á alla dægurtónlist. Það er eiginlega ekkert sem einkennir blúsinn sögulega sem einkennir ekki núorðið nánast alla vestræna dægurtónlist. IV: Að tikka í boxin Blús er síðan á 20. öldinni ekki síst bara vörumerki eða markaðstæki. Hilla í plötubúðinni. Ákvörðun sem er tekin á skrifstofu plötufyrirtæki – eða þjóðfræðings. Þegar blúshugtakið nýtur vinsælda er allt kallað blús og þegar það þykir hallærislegt er ekkert kallað blús. Fólk sér það sem það vill sjá. Og vegna þess að það hefur alveg frá upphafi verið tengt einhvers konar uppruna eða hinu átentíska – sem undirstrikaðist svo mjög í blúsendurreisninni á sjötta og sjöunda áratugnum – eru það ákveðin einkenni sem hafa ekkert með tónlist að gera sem skilgreina blúsinn, nánast einsog þegar verið er að skilgreina þjóðir (og hér nær Amiri Baraka máli með hugmyndum sínum um að blúsinn geti bara verið tónlist svartra með vissan bakgrunn). Þá skiptir máli að uppfylla vissa steríótýpu – eða tikka a.m.k. í sem flest box. Það er betra að vera svartur. Betra að vera frá Mississippi. Betra að vera frá Deltunni. Betra að vera frá Clarksdale. Betra að vera karl. Betra að spila á gítar. Betra að vera blindur eða haltur. Betra að vera drykkfelldur (og betra að drekka viskí). Betra að vera kvensamur (eða karl- og kvensamur ef maður er kona, sem er verra). Betra að hafa unnið sem leiguliði (eða sharecropper, réttara sagt). Betra að eiga afa sem var þræll. Betra að eiga mömmu sem var vændiskona. Betra að vera lyginn. Betra að vera ótrúr. Betra að hafa verið prestur. Betra að hafa gert samning við djöfulinn. Betra að hafa drepið mann og betra að hafa farið í fangelsi – unnið í keðjugenginu. Svona einsog maður er varla norðmaður nema maður eigi lopapeysu með silfurhnöppum, sé hvítur og ljóshærður í góðu líkamlegu ásigkomulagi og fari gjarnan á gönguskíði þegar færi gefst. Þessi áhersla á upprunaleika hefur líka þau áhrif að fólk (bæði innanblúss og utanblúss) bregst ókvæða við breytingum og þróun – það var alls ekkert sjálfsagt þegar Muddy og félagar fóru að spila rafmagnsblús í Chicago en þeir voru þó með öll möguleg credentials. Helmingur þeirra lærði að spila á gítar hjá Robert Johnson sem lærði það af djöflinum sjálfum. En það náðist í gegn. Hins vegar getur einfaldasta og augljósasta blúslag ekki fengið smá keim af neinu öðru – rokki, pönki, swing – án þess að sú skilgreining taki einfaldlega yfir. Blúsað rokklag fer í rokkrekkann og rokkað blúslag fer líka í rokkrekkann. Svartur tónlistarmaður frá Clarksdale, fæddur í byrjun aldarinnar, fer hins vegar í blúsrekkann alveg sama þótt hann spili hergöngumarsa á túbu. Bob Dylan hefur bæði samið óhemju af blúslögum og leikið nánast allan delta-katalóginn – Stones gerðu eins, byrjuðu á að kovera eftirlætin sín frá Mississippi og Chicago og sömdu svo undir áhrifum frá því efni, kynntu sig undantekningalaust sem blúshljómsveit í meira en áratug áður en þeir gáfust bara upp á því. Ef þeir hefðu verið svartir hefði sagan sennilega verið önnur. Hvítur tónlistarmaður sem stígur út fyrir 12 bara blúsinn og leikur ekki löng pentatónísk gítarsóló með epískum teygjum og helst öllum nótunum í skalanum í einu er alltaf að gera eitthvað annað en að spila blús. V: Að vera trúr og sannur (ég meina ótrúr og lyginn) Sennilega er þetta spurning um einhvern heildarpakka – félagslega og tónfræðilega og sögulega og andlega og tilfinningalega samsetningu sem gengur upp. Að rekja alla söguna – hlusta á öll lögin sem hafa verið kölluð blúslög til þessa. Og svo bara eitthvað svona „ég þekki það þegar ég heyri það“ dæmi. Stundum heyrir maður eitthvað sem er bara svo augljóslega blús, þótt það standi hvergi blús utan á því.

Hið óraunverulega

Ég var í Ísafjarðardjúpi þegar síminn hringdi tvisvar í röð. Sitthvor Selfyssingurinn að segja mér sömu fréttirnar. Að Ásgeir hefði látist um nóttina og að Lífsvakan sem hann hafði kallað til færi engu að síður fram. Klukkustund síðar keyrði ég fram á dauðan búrhval í Guðlaugsvík. Á stað sem heitir, eftir því sem ég kemst næst, Staður . Það er svo skrítið með óraunveruleikatilfinninguna að hún getur lent hvar sem er. Mér fannst ekkert óraunverulegt að Ásgeir væri dáinn. Það var frekar allt hitt, allt í kringum það. Og kannski fannst mér ég sjálfur óraunverulegastur, stundum einsog ég væri að fylgjast með sjálfum mér ferðast í gegnum heiminn, hlusta á sjálfan mig tala frekar en að ég væri að tala. En líka sem sagt þessi hvalur, hann var líka óraunverulegur. Ég stoppaði og fór niður í fjöruna. Tók mynd. Pissaði. Fylgdist með hröfnunum. Ég var á þessum „Stað“ dágóða hríð en það kom enginn annar bíll. Og svo bara fór ég. Kannski var það þá sem mér byrjaði fyrir alvöru að finnast ég óraunverulegur. Þegar ég yfirgaf hvalinn til þess að fara að hitta ekki Ásgeir. Ásgeir var ekki einn af mínum nánustu vinum þótt ég hafi þekkt hann lengi. Ég heimsótti hann aldrei í Prag og held raunar að ég hafi aldrei komið heim til hans og hann aldrei heim til mín. Óraunveruleikatilfinningin sem andlát hans kveikti lýsti sér í að lágmarki tvenns konar loddaralíðan. Annars vegar spurði ég sjálfan mig ítrekað hvers vegna ég væri að leyfa minni sorg að taka pláss þegar aðrir þurftu pláss fyrir sína sorg. Og hins vegar spurði ég mig hvort ég væri í raun og veru sorgmæddur eða hvort ég væri að látast vera sorgmæddur og var hreinlega ekki viss – óraunveruleikatilfinningin tók yfir og ég hugsaði stöðugt: Af hverju er ég með þetta asnalega bindi? Fyrst ég er sorgmæddur? Af hverju er ég með þetta asnalega skegg? Af hverju er ég að hlæja núna? Af hverju er ég að reyna að vera sniðugur? Af hverju er ég skyndilega klökkur? Af hverju valdi ég að lesa þetta ljóð? Er þetta ekki allt bara eitthvað feik? Einhver látalæti? Og svo óhjákvæmilega líka: Af hverju er ég svona upptekinn af því að hugsa um sjálfan mig en ekki Ásgeir, ekki fólkið sem stendur honum næst, þá sem eiga raunverulegt tilkall til þess að syrgja. Hlustaðu betur, Eiríkur. Var léttir að þurfa ekki að hitta hann veikan? Mig langaði innilega að kveðja hann og þegar ég sagði það upphátt átti ég aðeins erfitt með að tala, af því það var mjög satt, en sennilega óttaðist ég líka að sjá hann veikan, og kannski var það þá líka ósatt. Kannski er dauðinn hvergi jafn hræðilegur og í fordyrinu, í gættinni, þegar hann er bæði til staðar og ekki. Þegar maður trúir því ekki lengur að einhver lifi af. Veislan var góð. Kviðan var góð. Vinir Ásgeirs voru fallegir, þeir sögðu fallega hluti, lásu fallega hluti, sýndu fallega hluti. Ég veit ekki hvað ég drakk mikið sjálfur en ég drakk meira en manni er hollt – það hjálpaði mér ekki í baráttunni við óraunveruleikann eða sjálfhverfuna – og var ekki einn um það en ég held samt að langflestir hafi alls ekki drukkið neitt og það var ábyggilega gott, ábyggilega betra, en kannski var óraunveruleikinn þarna hjá okkur öllum samt. Ég framlengdi hótelgistinguna eina nótt og hékk með Lomma. Við sturtuðum í okkur Pepsi á hótelbarnum og rifjuðum upp gamla tíma, rýndum í nýja. Í gær keyrði ég heim, hlustaði á Kristján Guðjónsson – sem var síðasti maðurinn sem ég kvaddi í kviðunni – tala við unga karlmenn um Krist, Job og Jesaja í Lestinni. Hvalurinn var enn í fjörunni í Guðlaugsvík. Farið að slá aðeins í hann. Hröfnunum hafði líka fjölgað mikið. Ég er búinn að taka niður asnalega bindið en ég er enn með asnalega skeggið og enn að segja asnalega hluti, enn að hlusta á sjálfan mig tala, fylgjast með sjálfum mér ganga, en það stendur allt til bóta. Raunveruleikinn er hérna enn og nú er bara að fálma sér leið að honum aftur.

Markaðsmál og lífsvaka

Það er ótímabært að sýna ykkur kápuna á nýju ljóðabókinni minni. En ég er búinn að sjá hana. Og nokkrir starfsmenn Forlagsins eru búnir að sjá hana. Börnin mín eru líka búin að sjá hana. Ég er meira að segja búinn að setja hana sem skjámynd á símanum mínum en það sér aldrei neinn símann minn nema ég. Annað fólk á ekkert með að vera að glápa á símann minn. Það er aldrei að vita hvað annað það gæti komið auga á. Nú er ég farinn að hugsa einsog markaðsmaður. Ef ég myndi sýna ykkur kápuna á ljóðabókinni núna mynduð þið bara vera komin með leið á henni þegar hún kemur út í byrjun mars. Þá mynduð þið sjá hana í bókabúð, augun myndu reika yfir hana, og ef þau staðnæmdust þá væri það bara í augnablik og bara til þess að hugsa: Var ég ekki búinn að lesa þessa? Jú, ég var áreiðanlega búinn að lesa hana. Mjög kunnugleg. *** Á morgun ætla ég að keyra til Akureyrar til þess að taka þátt í Lífsvöku Ásgeirs H. Ingólfssonar, vinar míns, annað kvöld. Ásgeir er með illvígt krabbamein og hefur fengið einhvers konar dauðadóm frá læknum – þótt hann haldi í einhverja von – og af því tilefni hefur hann kallað saman gamla vini og samstarfsmenn. Til skemmtunar. Ljóðakvöld, listakvöld, kveðjustund, baráttufundur – ég fer án þess að vita neitt í hvað stefnir og ég veit ekki hvort það er hægt að gera þetta öðruvísi. En vegna þess að við Ásgeir – sem var í Nýhil á sínum tíma, a.m.k. um skeið – eigum marga sameiginlega vini verður þetta líka hálfgert ættarmót. Það eru margir að fara sem ég sé alltof sjaldan. Sem eykur á þessa undarlegu blöndu gleði og sorgar. Einhvern tíma fyrir tveimur áratugum vorum við í Nýhil spurð hver væri munurinn á gamaldags níhilista og þesstíma nýhilista, fyrir utan yfsilonið, og svöruðum því til að gömlu níhilistarnir hefðu sökkt sér í svartholin áður en búið var að finna upp skammtafræðina. Með skammtafræðinni hefðum við uppgötvað að ef maður sökkvir sér nógu djúpt í svarthol kemur maður upp einhvers staðar annars staðar. Ef maður mætir því óttalaus og án þess að hika er með öðrum orðum í því fólgin nokkur von. Og talsverð fegurð. Hvað sem öðru líður og hvernig sem allt fer finnst mér einsog Ásgeir hafi nú þegar sannað þessa kenningu með tiltæki sínu.

Venjulegt fólk

Ég sá því haldið fram um daginn að mennirnir sem nauðguðu Gisèle Pelicot hafi verið venjulegir. Þessu til sönnunar var tiltekið við hvað þeir hefðu unnið, hvað þeir voru gamlir, hvers konar bakgrunn þeir höfðu og svo framvegis. Og þeir höfðu sem sagt unnið venjulegar vinnur, voru á öllum aldri og höfðu ólíkan, en venjulegan, bakgrunn. Og ég spurði sjálfan mig hvað þetta þýddi og við hverju viðkomandi hefði búist. Hefði komið minna á óvart ef þetta hefðu allt verið einhvers konar smáglæpamenn, rumpulýður – eða ef þeir hefðu allir verið sturlaðir yfirstéttarmenn í smókingjökkum, svona Eyes Wide Shut týpur? Hvað hefði þurft til að þessir menn teldust ekki venjulegir? Og svo rann það upp fyrir mér, já einmitt, það sem gerir þessa menn óvenjulega er að þeir eru nauðgarar. Það sem gerir fólk venjulegt eða óvenjulegt er ekki að vera rafvirkjar eða húsverðir eða bara menn heldur hvernig það bregst við í veröldinni, hvað það gerir, hvað það gerir ekki. Rafvirki gæti t.d. verið óvenjulegur fyrir að njóta þess að fá straum eða fyrir eitthvað óvinnutengt einsog t.d. að sleikja klósettsetur eða eitthvað sakleysislegt og sætt einsog að vilja helst dansa alla dansa afturábak eða eitthvað hræðilegt einsog að nauðga. Þá segjum við ekki lengur: þetta er venjulegur maður, heldur þetta er óvenjulegur maður og því til sönnunar bendum við ekki á að hann sé rafvirki heldur á það að hann hefur vísvitandi og af hvötum sem hljóta að teljast óvenjulegar nauðgað annarri manneskju. Annars er þetta algengt viðkvæði úr bandarískum true crime kúltúr – eða þaðan þekki ég það helst – að fjöldamorðinginn hafi verið / geti verið / sé venjulegi maðurinn í næsta húsi. Það er áreiðanlega mjög paranojuvekjandi að temja sér þann hugsunarhátt að hrottaleg ofbeldisverk geti verið framin af hverjum sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Jafnvel þótt það sé fullkomlega raunsætt mat: óvenjulegt fólk er miklu víðar en maður heldur, óvenjulegir hlutir gerast oft, fólk, sérstaklega annað fólk, er fært um ýmislegt óvenjulegt. Maður missir þannig auðveldlega sjónar á því að ofbeldi er ekki reglan; og fer jafnvel að leggja saman tvo og tvo og óttast venjulegt fólk og krefjast róttækra aðgerða sem verji mann fyrir venjulegu fólki – enda sé það stórhættulegt – hættir jafnvel að fara óskjálfandi úr húsi. Um það eru mýmörg dæmi, þannig fólk er líka óvenjulegt en reynist líka úti um allt ef maður fer að gefa þeim auga.