Ég kláraði þriðju þáttaröð af Glow. Gorgeous Ladies of Wrestling. Ég er ekki frá því að mér hafi fundist hún allt í lagi. En kannski horfi ég alls ekki á sjónvarp til þess að hugsa mikið um það. Það voru narratífar flækjur þarna sem voru látnar vera – fá að grassera áfram – og það var vel þegið. Ég er alveg kominn með ógeð á þessum endalausu endahnýtingum (?!). *** María veimiltíta eftir Ulf Stark. Aram valdi. Hann hefur lesið svolítið af bókum eftir Ulf Stark á sænsku held ég. Ég man ekki hvaðan þessi kemur. Kannski frá mömmu – hugsanlega er þetta eitthvað sem ég átti þegar ég var lítill. Hún er gefin út 1987 á íslensku. Bókin fjallar um Maríu sem er óttalegt ólátabarn og barnapíuna hennar, hana Gerðu, sem er eldri kona sem María heldur að sé norn, og vin Maríu, Ebba – sem heitir í alvöru Giuseppe Amadeus. María hefur talsverðar áhyggjur af því að nornin Gerða ætli sér eitthvað illt og leggur mikið á sig til að koma í veg fyrir það – grefur til dæmis öll verðmæti fjölskyldunnar svo hún geti ekki stolið þeim (og gleymir auðvitað hvar) og ákveður að fórna sér og fara með norninni í híbýli hennar til þess að hún taki þá ekki litla bróður. Ég hef alveg lesið skemmtilegri barnabækur. Ekki það hún var fín – fyndin og sniðug og vel skrifuð. Þetta eru svona klassísk skandinavísk sniðugheit af Ole Lund skólanum. En hún er sennilega ekki ein af þeim sem sitja í minninu ævilangt. *** Stílæfingar Raymonds Queneau. Ég las hana á ensku fyrir kannski 15 árum síðan. Og þótti frábær – umturnandi. Aðferðafræðin í ljóðabókinni minni, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum , er meðal annars innblásin af Stílæfingunum – og sennilega Plokkfiskbókin líka. Í Stílæfingunum segir Queneau sömu söguna aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur með tilbrigðum. Sagan er mjög einföld og snýst eiginlega ekki um neitt – mann í strætó og sama mann nokkru síðar með kunningja sínum – og frásagnartilbrigðin og uppáfinndingarsemin fá þannig að njóta sín. Það er reynt á „þanþol tungumálsins“, einsog það er kallað, með miklum fimleikum. Rut Ingólfsdóttir þýðir bókina af mikilli íþrótt og andagift. Sumt af textanum er reyndar illlæsilegt og knosað en það er líka þannig á enskunni – ég veit ekki með frönskuna en ég reikna heldur með því. Stíllinn sem liggur að baki – handan allra fimleikanna – er furðu þunglamalegur einhvern veginn. En það skiptir ekki neinu máli og kemur málinu ekki við, eiginlega, flugeldasýning bókarinnar liggur annars staðar. *** Ingi Bjarni Skúlason mætti með hljómsveit í Edinborgarhúsið og lék lög af plötu sinni Tenging. Í hljómsveitinni voru Merje Kägu frá Eistlandi á gítar, Jakob Eri Myhre frá Noregi á trompet, Daniel Anderson frá Svíþjóð á kontrabassa og Tore Ljøkelsøy frá Noregi á trommur. Lagasmíðarnar voru fínar. Ég veit ekki hvort að spilamennskan var eitthvað losaralegri í byrjun en í fyrstu lögunum varð tónlistin stundum svolítið súpuleg – en það getur líka legið í lagasmíðunum. Djass er auðvitað oft óttaleg súpa og augljóst að hluti af lagasmíðunum var í óljósum bendingum (banki í hljóðfæri og slíku). En seinni hlutinn var þéttari og í betra grúvi og heillaði mig meira. Melódískt og seiðandi. Þau enduðu svo á því að flytja nýtt lag sem er ekki á plötunni og það þrælrann þótt þau hafi haft einhverjar áhyggjur af því. Ég starði auðvitað svolítið á gítargræjurnar. Merje var að spila á það sem ég held að hafi verið Ibanez af105-nt (þau kunna sannarlega að skíra gítarana sína hjá Ibanez) í gegnum Mesa Boogie Lonestar. Hún var með þrjá pedala á gólfinu – sennilega delay, tuner og einhvers konar boost/overdrive (reif ekkert í – hækkaði bara í sólóunum og hjálpaði flaututónunum að hljóma). Frekar standard djass-settöpp held ég – ábyggilega hnausþykkir strengir í gítarnum (sem er auðvitað hollowbody) og ekkert teygt og sparlega farið með víbrató. Flott sánd en manni finnst nú samt að þessir djassgítarleikarar gætu prófað eitthvað annað af og til. *** Ég keypti tvær blúsplötur í Berlín á dögunum meðan ég var að bíða eftir því að The Dead Don’t Die sýningin hæfist. Blues Masters vol. II með Bukka White og Feelin’ Low Down með Big Bill Broonzy. Þegar ég keypti þær tilkynnti kaupmaðurinn – sem hafði staðið fyrir utan og reykt og drukkið bjór með vinum sínum þar til ég var búinn að velja mér plötur – að hann hefði séð Bukka White spila. Ég spurði ekkert frekar út í það en sló því upp og Bukka spilaði í Berlín 15. október 1967, svo það gæti allt staðist – kallinn hefur verið á aldur við pabba og því um tvítugt þá. Mér finnst það samt mjög tilkomumikið. Bukka er af gamla skólanum, byrjaði að taka upp 1930 – en hvarf í gleymskunnar dá einsog svo margir sem gáfu út þarna upp úr kreppunni og skaut ekki upp kollinum aftur fyrren Dylan byrjaði að kovera hann (Fixin’ to die blues er eftir Bukka). Platan er frá þessum tíma, eftir kombakk – 1972 kemur hún út. Þetta er vandræðagripur að sumu leyti. Það er verið að troða upp á hann rokkhljómsveit í sumum lögunum – það var oft reynt við deltablúsarana. Ýmist held ég að pælingin hafi verið að beisla kaosið í þeim eða reyna að uppfæra sándið fyrir nýja tíma. Vandinn er bara að deltablúsararnir spila fæstir „í takt“ – 12 takta blúsinn er stundum bara 9 taktar, stundum 11 og hálfur, og þeir hafa engan áhuga á samstæðum taktmælatakti heldur hægja og hraða á sér til skiptir, færa til áherslur og leika alls kyns hundakúnstir. Og svo spila þeir lögin ekki alltaf eins tvisvar í röð – lögin eru kannski ekki nema rammi sem þeir fylla með hinu og þessu (þess vegna ganga svona margar línur – bæði laglínur og textalínur – aftur í hinum ýmsu lögum með hinum ýmsu músiköntum). Það olli reyndar mörgum blúsáhugamanninum talsverðu hugarvíli að hinn andsetni Robert Johnson, sem hefði átt að vera náttúrulegastur í óreiðunni, var sá þrautþjálfaðasti og einmitt fullfær um að spila sama lagið nákvæmlega eins, nótu fyrir nótu, tvisvar í röð. John Lee Hooker var víst einna verstur – það var nánast bara kveikt á honum og hvað sem er gat komið út. En hann tók líka upp einsog óður maður með öllum sem hann gat og undir milljón nöfnum og varð á endanum alger samstarfskóngur – straumlínulagaður að taktmæli og 12 töktum. Bestu lögin á Blues Masters vol. II eru þau þar sem Bukka spilar einn. Aberdeen Blues, eftirlætis lagið mitt með honum, er hins vegar með sveit og alveg handónýtt. Ég er enn að spekúlera í Broonzy. Hann er meiri „lagasmiður“ – svona singalong – en margir deltablúsararnir. Ég hef ekki nennt að hlusta á plötuna nema tvisvar vegna þess að hún er full af endurtekningum – sama lagið tvisvar röð í tveimur (keimlíkum) útgáfum. Ég tók ekkert eftir þessu þegar ég keypti hana. *** Boðun Guðmundar eftir Eirík Stephensen. Ég hafði heyrt mikið vel af henni látið síðan hún kom út í vor einhvern tíma og lofið er allt verðskuldað. Þetta er hressilega skrifað – einmitt þegar maður hélt að bókmenntagreinin „umkomulausan karlmann skortir tilgang“ væri alveg þurrausin. Textinn er í sjálfu sér tilkomulítill en á besta hátt – maður rekur sig ekki í neitt en tekur ekki sérstaklega eftir honum heldur. Sagan af hinum drykkfellda og ólétta Guðmundi, sem ber sjálfan frelsarann undir belti, er alger dásemd. Hliðarsagan af englinum Gabríel, sem lærir hégóma af mönnunum, nær kannski ekki sömu tökum á manni en hefði alveg getað verið sín eigin skáldsaga. Ef hún hefði verið dýpkuð hefði hún orðið of plássfrek – svo það er kannski ekki það sem maður vill. Kannski hefði bara mátt draga örlítið úr henni svo maður kæmist ekki á bragðið – færi ekki að æskja einhvers sérstaklega af henni. Eða blása allt saman upp um 100 blaðsíður í viðbót. Eða bara hafa þetta einsog það er – ég er bara að reyna að finna að einhverju (guð veit hvers vegna, það er engin ástæða til þess). *** Blackkklansman eftir Spike Lee er „sönn saga“ – en þó talsvert færð í stílinn að mér skilst. Annað en með Boðun Guðmundar heyrði ég ekkert nema hallmæli um þessa mynd áður en ég sá hana. Hún er sannarlega ekki eitt af meistaraverkum Lees en að sama skapi er henni alls ekki alls varnað. Hún segir söguna af svörtum lögreglumanni sem skráði sig í klanið í síma og átti svo í símasamskiptum við meðlimi – en sendi, eðli málsins samkvæmt, félaga sinn til að vera andlit sitt út á við á samkomum. Í myndinni verður hann góðvinur Davids Duke en í raunveruleikanum náði hann honum víst bara einu sinni í síma og spjallaði stutt. Eitt af því sem ég ímynda mér að fari í taugarnar á mörgum er hvernig Spike Lee speglar Klanið í Black Power hreyfingum áttunda áratugarins. Orðræðan bergmálar þarna á milli – án þess að hann segi neitt frekar um það (og lokasenan tekur af öll tvímæli um afstöðu leikstjórans). En þetta eru auðvitað einhvers konar helgispjöll. Að benda á að hinn réttláti rembingur og hinn óréttláti eru í sömu tóntegund. Blackkklansman er einhvern veginn samtímis léttúðug gamanmynd og alvarleg sósíal-satíra – mér finnst afstaðan í henni áhugaverðari og margbrotnari en í t.d. Sorry to bother you en hún er ekki nærri því jafn vel heppnuð sem listaverk. Sorry to bother you var einhvern veginn einsog lensa – ruddist áfram og vissi alltaf hvert hún væri að fara – en Blackkklansman er tilraun til einhvers annars, til þess að hræra í fleiri lögum merkingar. En kemst ekki á leiðarenda, eiginlega. Og samt er hún mjög fín, vel að merkja – algerlega sinna tveggja tíma virði. *** Gítarleikari vikunnar er sjálfur Bukka White auðvitað og eftirlætislagið. Orð fá ekki lýst hvað mér finnst þetta geðveikt.