createdTimestamp““:““2024-06-03T14:17:29.877Z““

Ég kláraði Great Apes eftir Will Self í gær. Bókin, sem er frá 1997, fjallar um myndlistarmanninn Simon Dykes, sem vaknar dag einn eftir mikið og kunnuglegt eiturlyfjarús við þá skelfingu að kærastan hans er ekki lengur manneskja heldur simpansi. Og ekki bara hún reyndar, heldur hann líka, og allir sem hann þekkir – veröldin einsog hún leggur sig, í stíl við Planet of the Apes. Í stað þess að menn hafi þróast og orðið ráðandi tegund jarðarinnar voru það simpansar – órangútanar og górillur heyra hins vegar til dýraríkinu, líkt og menn. Simon lendir síðan í meðferð hjá hinum „mikilsvirta náttúruspekingi“ (einsog hann kallar sig ítrekað sjálfur), Zack Busner, sem fylgir honum í gegnum veröld simpansana, heimilislíf þeirra beggja og loks til Afríku í leit að týndum syni Simons, sem sennilega er enn maður og býr þar á verndarsvæði. Ég hef aldrei lesið bók þar sem er jafn hressilega mikið riðið og slegist. Simpansarnir hafa ekki verið antrópómorfíseraðir svo mikið að þeir glati þeim eiginleikum sem þeir hafa í náttúrunni – þvert á móti finnst þeim mjög sætt eða sjúkt eftir atvikum hvað mannskepnan er spéhrædd og kynlaus og það hversu langan tíma það tekur hana að fá fullnægingu er talið til marks um lífsleiða. Simpansarnir hins vegar raða sér upp eftir hírarkískum tiktúrum í röð við næsta bólgna kvenskaut og fá það á fáeinum sekúndum. Konurnar hleypa bara körlunum að þegar þær eru á lóðaríi en karlarnir serða allt – líka náskylda ættingja sína og það þykir gróf misnotkun að sinna ekki serðingu dætra sinna. Ofbeldi er þá daglegt brauð. Fari einhver fram úr sér við sér hátt settari apa – sjúklingur við lækni, t.d., einsog gerist af og til milli Simons og Busner – tekur sá háttsettari sig til og snuprar smælingjann með því að berja hann hressilega og ítrekað í nefið, hendurnir einsog þyrluspaðar. Annað er eins – „sumt breytist aldrei“, er sagt nokkrum sinnum í gegnum bókina – og konur eru undirsettar körlum og bónóbóar (af afrískum uppruna) undirsettir simpönsum. Ég gleymdi bókinni heima (ég er á skrifstofunni) og það er ótrúlega lítið hægt að gúgla því en mig langaði að birta hérna tilvitnun til að sýna ykkur stílinn – sem er vægast sagt frábær. Vísindalegur, ljóðrænn, hilaríus – ég á auðvitað ekki ensku að móðurmáli og get ekki verið fullkomlega dómbær en mér finnst enginn komast í hálfkvisti við Will Self þegar kemur að unaðslega meðvituðuðum og orðríkum texta nema kannski Nabokov. Að minnsta kosti ekki fyndnu höfundarnir – Joyce kemur upp í hugann en hann skýtur bara of langt yfir markið. Góður maður gæti gleymt sér dögum saman við að greina hvað er rangt við þessa bók. Viðlíkingar af þessu tagi og karnivalískir viðsnúningar geta aldrei þolað mikla snertingu við vitlausa bein hinna vel meinandi – hugtakið mutually assured destruction kemur upp í hugann. Karikatúrar eru eðli málsins samkvæmt særandi og vilji maður ekki algerlega skera burt alla viðkvæma þjóðfélagshópa – alla nema hinn dómínerandi gagnkynhneigða hvíta sís-karlmann – þá karíkatúrar maður þá líka, gollívoggar þá, og stillir upp viðstöðulaust dauðafærum fyrir félagsbókmenntafræðinga. Það er skrítið og kannski er það ekkert skrítið hvað það situr djúpt í manni nútildags að byrja á slíku nittpikking og horfa meira og minna framhjá því um hvað verkin snúast og hvað þau eru að segja. Það er nánast ósjálfrátt viðbragð, einsog bergmál úr Twitterspherinu. („Svona var þetta ekki þegar ég var ungur, ég skal sko segja ykkur, á Ircinu var …“) Great Apes fjallar um margt og verður ekki auðveldlega smættuð – en helsti og mikilvægasti þráðurinn, sá sem ég myndi toga í ef ég væri að skrifa bókmenntarýni, snýr að sambandi manns við eðli sitt og mörkin milli manns og náttúru hvort sem maður sér þau sem „eðlileg“ eða „tilbúin“. Hvað það þýði að álíta sig aðskilin frá skítnum, eitthvað „annað“ en náttúruna – hvort heldur maður gerir það einsog hippinn sem telur sig skilja hana, vill vernda hana, úr hásæti sínu og af óþolandi hroka, eða einsog borgarbúinn sem vill helst ekki sjá hana og heldur að hún sé ekki hluti af sér, heldur eitthvað utanaðkomandi. Og þegar ég segi náttúra meina ég bæði grösin og gredduna – bæði náttúruna í fjallinu og náttúruna í manninum. *** Í gær horfði ég líka á Vofu frelsisins – Le Fantôme de la liberté – eftir Luis Buñuel. Einsog gefur að skilja er þetta súrrealískt verk og þar eru nokkrir viðsnúningar sem eru blóðskyldir apaleikjum Self. Söguþráðurinn er bútasaumur – við fylgjum einni persónu að þeirri næstu og skiljum stundum við sögupersónur í miðri sögu, finnum þær stundum aftur síðar og stundum ekki. Þetta hljómar auðvitað hámódernískt og mjög leiðinlegt ef maður þekkir ekki Buñuel, sem er svívirðilega fyndinn höfundur. Í þessari mynd er hin fræga matarboðssena. Þar gyrðir fólk niðrum sig og situr til borðs á klósettum og kúkar saman meðan það spjallar en bregður sér síðan afsíðis til að borða – confit de canard, sýndist mér það vera, og rauðvín með. Myndin er frá árinu 1974 og færi sennilega sem því nemur enn verr út úr hinum viðkvæma samtímalestri en Great Apes. Það finnst angan af því kynferðislega frjálsræði sem hafði rutt sér rúms en hún birtist fyrst og fremst í nöktu kvenfólki – tveimur stykkjum – en þeim tíma og þeim móral virðist minna fagnað í dag, fyrir það siðferðislega drullufangelsi sem hann muldi, og meira bölvað fyrir (augljósan) ófullkomleika sinn. Í annarri af þessum kvennektarsenum, þar sem ungur maður reynir með talsverðri frekju að koma til við sig aldraðri ástkonu, birtist okkur líkami þeirrar gömlu sem ungur – þegar hann loks birtist. Sem er auðvitað í anda súrrealismans en einhverjum gæti þótt pólitískt eða móralskt óþægilegt – eða í það minnsta nóg til að við það væri staldrað. Reyndar birtist þarna líka einn karlmannsrass, sem ég hafði gleymt, og er flengdur af konu í leðurbúning, í senu sem er mjög kómísk á kostnað hinna BDSM-ísku exhibisjónista. Sú sena er líka á einhvers konar hápunkti myndarinnar – að mínu mati – sem gerist á gistiheimili þar sem gestir flakka á milli herbergja og heilsa hver upp á annan í alls konar undarlegum kringumstæðum. Þetta er svona hurðafarsi fyrir súrrealista. Senurnar eiga það flestar sameiginlegt að snúa upp á félagslega siði – sumar bara lítið, einsog hjá lögregluskólakennaranum þar sem fólk er stanslaust að koma og fara, aðrar meira einsog hjá bróðurnum sem hangir yfir naktri systur sinni þar sem hún spilar rapsódíu Brahms, og aðrar enn meira einsog þegar lögreglan ber ekki kennsl á sýslumann, handtekur hann, en þegar hann hittir þann sem þá er sýslumaður (fyrst hann var ekki sjálfur sýslumaður er einhver annar sýslumaður) verða þeir báðir sýslumenn. Hvert skref er í sjálfu sér rökrétt en algerlega án tengsla við þau rök sem réðu skrefinu á undan – siðirnir og hegðunin er rétt ef þau eru skoðuð einangruð. Sama gildir um stúlkuna sem leitað er að um alla París svo vikum skiptir vegna þess (hafi ég skilið það rétt) að henni varð á að svara ekki nafnakalli í skólanum. Það skiptir ekki máli þótt hún svari síðar og aðstoði yfirvöld við að leita að sér – hafi hún ekki svarað nafnakalli er hún ekki til staðar og sé hún ekki staðar verður að leita hennar þar til hún finnst. Sem hún gerir á endanum, án þess að á því sé gefin nein sérstök skýring. Stundum finnast týnd börn og stundum ekki. *** Gítarleikari vikunnar er Paul Kossoff í Free. Ekki sá teknískasti eða sá frumlegasti – en þvílíkur tónn, þvílíkt víbrató! Fyrir bassaleikarana er svo líka bassasóló.