Stundum set ég bara á Lights með Journey og læt mér líða vel. Sennilega hófst þetta eftir hafnaboltaleikinn í SF í sumar. *** Með fullri virðingu fyrir íslenskum kollegum mínum finnst mér þetta jólabókaflóð einkennast af góðum þýðingum. Sennilega eru frumsömdu verkin ekkert verri en venjulega, heldur meira að koma út af góðum þýðingum – bæði á samtímaverkum og klassík – en maður á að venjast. Ég hef ekki talið það saman, þetta er „tilfinning“. *** Angústúra er með tvær bækur – Veisluna í greninu eftir Villalobos, sem ég skrifaði um fyrir Starafugl, og Einu sinni var í austri eftir Xialou Guo. Ugla gefur út Ethan Frome eftir Edith Wharton og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf, auk Sagna frá Rússlandi – með smásögum allra helstu „meistaranna“. Opna gefur út Orlandó sama höfundar – ég byrjaði á henni í gær, hef beðið lengi eftir þýðingunni, og held mikið upp á orginalinn. Benedikt er með Orðspor Juan Gabriel Vasquez (sem ég las og er frábær), Sögu af hjónabandi eftir Gulliksen, Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström og Norrænar goðsagnir Neils Gaiman. Sæmundur er með Predikarastelpu Tapios Koivukari, Neonbiblíuna eftir Kennedy-Toole og Kalak eftir Kim Leine, auk ljóða Knuts Ødegårds. Bjartur með Grænmetisætu Han Kang, Allt sem ég man ekki eftir Khemiri og Hnotskurn Ians McEwans, auk annars bindis í Smásögum heimsins og lokabindisins í Napolífjórleik Ferrante. Dimma með Sólsetursvatn Léveille, Síðasta úlf Krasznahorkais , Pnín Nabokovs og Konu frá öðru landi eftir Sergej Dovlatov, auk ljóða Ko Uns og Christine De Luca og Birtuna yfir ánni , ljóðaþýðingar Gyrðis. Skrudda með Faðir Goriot eftir Balzac. Salka með Rútuna eftir Almeida. LaFleur, sem ég hélt að væri ekki til lengur, er með þrjár nóvellur eftir Soffíu Tolstaya, eiginkonu Tolstojs (sem er skráður meðhöfundur í bókatíðindum). Forlagið er með Ugg og andstyggð eftir Hunter S. Thompson og ljóðaþýðingar Kristjáns Árnasonar. *** Þetta er svona það sem fljótt á litið telst til fagurbókmennta í þýðingaflóðinu. Vantar reyndar útgefin verk Sagarana, sem eru ekki í bókatíðindum – þar er allavega ein ljóðabók og bæklingur með upphafi Baráttu minnar eftir Knausgård. *** Heldur finnst mér hlutur míns góða forlags, Forlagsins (með ákveðnum greini og stórum staf!), lítill í þessari útgerð. Svona miðað við að það á að heita stærsta og stöndugasta forlagið. Hálfdrættingur á við nýstofnaðan Benedikt – rétt jafnar enn nýstofnaðri Angústúru. Öll forlagsmaskínan er einsog tveir Benedikt LaFleur (hvað hann myndi segja um þá talnaspeki er svo önnur Ella). *** Starafugl hefur náð að skrifa um furðu mikið þarna og sennilega ástæða til að reyna að gera enn betur. Það gæti verið efni í nýtt átak eftir áramótin. Ef það verður ekki búið að gera út af við alla gagnrýnendurnar okkar. Það birtist aldrei svo neikvæður dómur að hann fái ekki svo neikvæð viðbrögð að gagnrýnandinn endurskoði stöðu sína í samfélagi gagnrýnenda – og þar sem margir gagnrýnendur Starafugls eru nýir heltast þeir einfaldlega úr lestinni. Tvisvar á síðustu vikum hafa mér borist skilaboðin: „Ég er hættur að gagnrýna“ (og jafn oft: „Ég get ekki skrifað um þetta verk því ég hef ekkert jákvætt að segja“). Jákvæðni er skilyrðislausa skylduboð samtímans. Að vera kurteis og góður. Og alls ekki flippaður eða einlægur eða spontant. *** Að gefast upp á að gagnrýna vegna mótlætis er reyndar líka tímanna tákn. Það eru allir einhvern veginn of shell-shocked til þess að takast á við álag. Þetta fólk þyrfti að hlusta meira á Journey. ***