createdTimestamp““:““2024-06-12T04:21:20.187Z““

Við skildum við gítarinn í síðustu viku á cliffhanger sem myndi sæma hvaða spennusögu sem er – teipaðan og límdan úti í horni. Bindingin fékk að þorna yfir nótt og á þriðjudeginum tók ég teipið af og pússaði niður kantana. Mér fannst það alls ekki nógu fínt þegar ég byrjaði og bara mjög fínt þegar ég var búinn. Ég var svolítið hræddur um að bindingin yrði of mött við að vera pússuð svona en það reyndust óþarfa áhyggjur. Hún er mattari en alls ekki óþolandi mött. Á miðvikudeginum dútlaði ég mér bara við spilerí fram á kvöld, enda ekkert að gera nema bíða. Það vantaði sendingarkostnað inn á kvittunina fyrir hálsinum sem ég sendi tollinum og hann barst því ekki fyrren á fimmtudagsmorgun. Í ljósi þess að ég var á leiðinni í vinnuferðalag yfir helgi leyfði ég mér að taka frí á fimmtudeginum til að smíða. Og sá dagur var heldur betur massaður – þótt eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að taka því aðeins rólegar. Ég var orðinn mjög æstur á síðustu metrunum. Ég sótti hálsinn strax og ég hafði komið Aino á leikskólann. Hann er mjög fagur. Einsog áður segir er hálsinn úr við sem nefnist wenge en fingraborðið úr pau ferro – í stað rósaviðar, sem er á válista. Rjómalituð bindingin passar vel við bindinguna á búknum, sem er ekki alveg sjálfsagt enda „rjómalitur“ ekki einn litur. Þetta er ekki alveg nákvæmlega sami litur en maður þarf að rýna vel í hann til að sjá muninn. Ég mældi þúsund sinnum fyrir hálsinum, gerði skapalón til að hækka upp skapalónið frá StewMac og fræsti svo 16 mm vasa. Mér fannst það strax alltof grunnt að sjá – fór inn í hús og mældi hæðina á fingraborðinu á Gálkninu (SG) og Djásninu (Tele), sem var þá um hálfur sentimetri á meðan þessi var rúman sentimetra yfir búknum. Ég leyfði mér þá að dýpka vasann um 3 mm. Það tókst ekki alveg jafn vel. Ég þurfti að festa skapalónið aftur á og auðvitað skeikaði smá á staðsetningunni, nóg til að hálsinn var ekki lengur alveg þétt í. Þetta leysti ég með smá teipi á báðum hliðum, sem er auðvitað ekki optimalt, en það er ekki svo auðvelt að minnka svona vasa. Næst þurfti ég að bora fyrir götunum í hálsvasanum. Til að finna út staðsetninguna klippti ég út miða í sömu stærð og vasinn – stakk svo tannstönglum í holurnar á hálsinum og gerði göt á miðann. Ég notaði svo líka hálsplötuna til að staðsetja holurnar betur. Aftur klúðraði ég pínu – ein skrúfan er dálítið skökk, en ekki svo að ég ætti ekki að geta lagað það. Nú var ég orðinn svolítið mikið æstur. Mig langaði að ná að setja einn streng í gítarinn áður en ég færi í flug seinnipartinn. Ef það væri gæðastjóri í gítarfyrirtækinu Heyr á endemi hefði hann sennilega sent mig beint í pásu þegar hér var komið sögu. Maður smíðar nefnilega ekkert æstur, að minnsta kosti ekki vel. Fyrst þurfti að bora fyrir brúarstoðunum. Ég margmældi – hér má alls engu skeika – og fór svo að finna réttan bor. Sem ég átti auðvitað ekki. Mér sýndist í fyrstu að þetta ætti að vera 11 mm bor en ég átti bara 10 og 12. Í búðunum á Ísafirði var hvergi til 11 mm trébor svo ég endaði á að kaupa 11 mm steinbor – sem er ekki optimalt, þeir hlaupa til, en ég hafði séð fyrir mér að ég gæti forborað með minni borum. Nema 11 mm borinn var heldur ekki nóg – þótt það standi reyndar í leiðbeiningunum. Stoðin hefði aldrei farið niður. Svo ég fór og keypti 11,5 mm steinbor líka og helvítið gekk niður með herkjum (þetta situr svo fast að ég næ honum aldrei úr, vel að merkja, og á að gera það – ég teipa yfir hann þegar ég mála). Brúin er svo með tveimur holum og situr ofan á þessum tveimur stoðum. Hún á að vera frekar laus en þessa tilteknu er hægt að festa með sexkanti. Brúin á Gibsoninum, klassísk tune-o-matic, er alveg laus og dettur af þegar maður tekur strengina af. Nema hvað – stoðirnar mínar eru í réttri fjarlægð frá hálsvasanum, svo intóneringin á að vera í lagi (hálsinn ætti að vera innbyrðis réttur) en þær eru oggu pínu ponsu of langt hvor frá annarri sem þýðir að ég kem brúnni ekki á stoðirnar nema með talsverðu afli. Þetta er svo lítið að ég vona að ég geti bara sorfið aðeins innan úr holunni á brúnni með þjöl og þá sitji hún föst. Annars er þetta alveg nothæft – en það verður algert mörder að stilla strengjahæðina rétta, af því ég get ekki snúið stilliskrúfunum á stoðunum ef br úin er svona spennt. Ég var alltof æstur til að taka myndir. Næst boraði ég fyrir Bigsbyinu og festi það og skrúfaði stilliskrúfurnar í – setti einn a-streng í skepnuna og voilá! Afsakið óhreina tauið. Ég tók ekki einu sinni eftir því þegar ég tók myndina. Svo hljóp ég upp á loft, henti einhverju drasli í tösku, og rauk af stað til Münster. Á meðan ég var úti í Münster lauk gullsmiðurinn við að merkja hálsplötuna fyrir mig og ég fékk senda mynd á rithöfundakampusinn: Addi prentaði líka á klórplötuna fyrir mig og sendi mér myndir og myndband. Ég var svo í Reykjavík í dag og fór í kaffi til Möggu frænku (konu Adda sem sagt) í dag og fékk plötuna. Ég tók með mér kippu af bjór sem ég ætlaði að gefa Adda fyrir hjálpina en haldiði ekki bara að hann sé hættur að drekka? Fyrir fjórtán árum! Ég hef það sosum fyrir pólisíu að telja ekki drykkina ofan í annað fólk (eða sjálfan mig) en stundum er fattleysið í mér alveg botnlausara en svo að ég sjái niður. Ég verð bara að finna einhverja aðra leið til að gleðja Adda. Ég kom síðan heim seinnipartinn og þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana og Nadja var upptekin við að klára Lólítu fyrir bókaklúbbinn í kvöld, fór ég að fikta í strengjahæðinni – fór með sporjárn í vasann og reyndi að slétta aðeins til og laga. Hann er enn dálítið hár, finnst mér. Þótt ég sé með brúna alveg niðri er strengjahæðin full mikil. Ég get sennilega lagað það með því að fikta í hálsstönginni – truss rod – annars verð ég bara að dýpka hann enn meira eða gera meiri halla. Ég tók líka þjölina á brúna svo hún er nokkuð lausari en áður, ekki þó laflaus. Svo setti ég í hann gamla draslstrengi – er með tvo e-strengi neðst og b-streng fyrir g-streng en það er hægt að glamra á þetta og það er gaman. Hann er ekki nærri tilbúinn en þetta er strax orðinn góður gítar. *** Gítarleikari vikunnar er fyrsti „alvöru“ rafmagnsgítarleikarinn, Charlie Christian, sem vann sér það meðal annars til frægðar að spila með hljómsveit Bennys Goodman. Hann gerbreytti hugmyndum manna um gítarleik og nánast fann upp gítarsólóið sem listgrein auk þess að vera einn þeirra sem lagði grunninn að því sem síðar varð bebop tónlist og cool jazz, þótt hann væri þekktastur fyrir swing – og dó svo langt fyrir aldur fram, 26 ára gamall, úr berklum árið 1942. Sannkallaður snillingur.