createdTimestamp““:““2024-05-23T20:34:12.122Z““

Aðventan hefst víst ekki fyrren á sunnudag en hún hefst nú samt eiginlega alltaf fyrsta desember, hvað sem hver segir. Þegar jólalögin „mega“ byrja að heyrast í útvarpi (ég hlusta aldrei á útvarp og veit ekki hvort þau gera það). Við fjölskyldan í Sjökvist fögnuðum aðventunni – og fullveldisdeginum, sem sonur minn átta ára kallaði lýðveldisdaginn í gær, og hlýtur að hafa frá einhverjum fullorðnum því ég er ekki viss um að hann hafi kunnað orðin fullveldi og lýðveldi í síðustu viku – með því að opna fjöldann allan af jóladagatölum. Í fyrsta lagi eru það tvö súkkulaðijóladagatöl, svo er eitt Bamsedagatal (Bamse er sænskur teiknimyndabangsi), eitt sænskt útvarpsdagatal (útvarpssöguna hlustum við á yfir morgunverðinum – í sitthvoru hollinu, mæðginin snemma og feðginin seint), eitt sænskt sjónvarpsdagatal (ég lýg þessu; við gleymdum sjónvarpsdagatalinu en tökum þá bara tvöfaldan skammt á morgun) og svo eitt trédagatal með litlum hurðum sem maður getur fyllt með hverju sem maður vill. „Prinsinn“ – því hvað kallar maður eina son heimilisins annað en prins, á heimili þar sem fullorðna fólkið hagar sér ævinlega einsog það sé konungborið? – ákvað að í hvert hólf ættu að fara fyrirskipanir. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þennan … hvað kallar maður það, áhuga á valdboði? … allavega ekki frá mér. Fyrirskipan dagsins var að kaupa jólaseríur og hengja upp. Það hafðist með herkjum. *** Ég gerði pizzur og brenndi mína meðan ég stóð á snakki um jólaseríurnar. *** Í fyrradag gerði ég gamaldags með blönduðu maltviskí – heitir það blandmöltungur? – Monkey Shoulder og það var mjög gott en í dag komst ég að því að þetta á maður alls ekki að gera, maður á að nota rúgvíski eða búrbon, svo ég endurtók þetta með Makers Mark og það var bara alls ekki jafn gott. Í gær gerði ég svipuð mistök með Manhattan, sem ég blandaði mér og drakk yfir óútgefnu ljóðahandriti eftir Lomma, þar sem ég setti blandmöltung í staðinn fyrir búrbon og það var alls ekki nógu gott – og er víst Rob Roy en ekki Manhattan, með þessum skiptum. *** Geiri vinur minn er búinn að kaupa tónleika með AC/DC á Blue-Ray. Úr Highway to Hell tónleikaferðinni 1979. Geiri á rosalegt sjónvarp (hann á líka rosalegt klósett – japanskt með heilu stýriborði – en það er í sjálfu sér óskylt hinu) og ég hlakka mikið til að vera boðið í tónleikapartí. Ég hef séð talsvert úr myndinni á YouTube – Riff Raff útgáfan er … já hvað getur maður sagt? Hún er engu lagi lík. Muniði eftir bílnum í nýju Mad Max myndinni, með gítarleikaranum sem hangir í keðjum á grillinu og spilar viðstöðulaust meðan heimurinn ferst í kringum hann og vélin undir honum malar og dekkin ryðja undir sig eyðimörkina? Hún er svoleiðis. Ég get bókstaflega ekki beðið eftir að sjá hana á Blue-Ray. Ég er ekki viss um að ég hafi séð neitt á Blue-Ray – samt eru ábyggilega 15 ár síðan það hóf innreið sína – og ég hef svo sannarlega ekki séð AC/DC í Blue-Ray. *** Á morgun er laufabrauðsgerð hjá Smára og Siggu. *** Ég ryð mér í gegnum óútgefnar bókmenntir þessa dagana og ljóðabækurnar raðast upp á borðinu hjá mér og ég er sennilega ekki kominn nema svona 30-40 blaðsíður inn í Orlandó. Mér heyrist að höfundar séu nervus að fá enga dóma, ég er það líka þótt ég viti að ég fái enga dóma – það eru engir gagnrýnendur á blöðunum á vorin og bækur sem koma út að vori þykja steindauðar að hausti. Ég get þó huggað mig við að Óratorrek á eftir að koma út á sænsku, dönsku og grísku og sennilega ensku líka, og þar fæ ég þó áreiðanlega einhverja dóma. Annars veit ég ekki hvaða þráhyggja þetta er í mér fyrir að fá ritdóma. Kannski bara vegna þess að einu sinni var þetta sjálfsagður hluti af ferlinu. Svona einsog lénsherrarnir söknuðu prima noctis þegar það var aflagt – þótt það hafi sennilega verið öllum til bóta á endanum. *** Mig dreymdi að ég og minn gamli félagi Þorleifur Örn hefðum sett upp Grease söngleikinn í ljósi #metoo byltingarinnar (eftir að Óskabarna-Viggi hafnaði samstarfi við mig sökum ósmekklegra hugmynda í handriti). Það var svakalegt. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað það var svakalegt (ekki án þess að lenda í einhvers konar meiðyrðamáli). Þjóðin var í sárum á eftir og við Þorleifur báðir ærulausir, sem og Viggi og allir aðrir sem komu að draumförum þessum. Ég þarf kannski að róa mig í kokteilagerðinni á kvöldin. ***