createdTimestamp““:““2024-05-23T08:38:12.620Z““

„Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. Auðvitað missa gagnrýnendur oft út úr sér alls konar vitleysu í sjónvarpi – Kiljan er nánast í beinni, tekin upp í beit og lítið klippt – en þetta er samt svolítið fyndið. Mín tvö sent hljóma svona: Ef manni finnst bókarkápan á Kærastinn er rjóður ekki frábær þá á maður ekki að vinna við að leggja fagurfræðilegt mat á neitt og ef það er ekki fyrren maður opnar bókina og les ljóðin sem maður áttar sig á að ljósmyndin á forsíðunni (á bók sem heitir Kærastinn er rjóður – ljósmynd af rjóðum manni) á sennilega að vera af hinum rjóða kærasta þá er maður kannski ekki í sínu besta bókmenntagreiningardagsformi. Sjálfum finnst mér bókin frábær. Ég á svolítið erfitt með að tjá mig um ljóðabækur svona ósjálfrátt – einsog ég skrifa hérna – og beint í kjölfar þess að ég les þær. Ég veit ekki hvað það er. Kannski geri ég öðruvísi kröfur til mín um að það sem ég segi meiki einhvern sens en t.d. þegar ég skrifa um einhverja plötu eða bíómynd, sem ég hef ekkert sérstakt vit á og á ekki að hafa. Kristín er á svipuðum slóðum og hún hefur alltaf verið í ljóðunum, þematískt og táknrænt, en það er eitthvað að leka inn úr annað hvort leikhúsinu eða prósanum í stílnum – sem er látlausari (en ekki merkingarlausari fyrir það). Hún er að fjalla um sambönd – kannski fyrst og fremst heterónormatíf sambönd í patríarkískum heimi, en ekki endilega bara það og sennilega má lesa táknin í víðara samhengi – en maður vill ekki heldur fljóta alveg út í geim bara þótt maður geti það. Hún er að fjalla um einmanaleika – þrána eftir öðrum – og beiskjuna sem vex á milli fólks. Er látlausari stíll fullorðnari – þroskaðri? Manni hættir til að finnast það en ég er ekki viss. Fyrst og fremst er hann lævísari – loftfimleikar tungumálsins eru ekki jafn augljósir og í fyrri bókum hennar, en þeir eru engu minni þótt hreyfingarnar séu fínlegri. Textinn er líka ágengur – passíf-agressífur frekar en agressífur, einsog Kristín hefur verið áður í bókum sínum. Kaldur og óþægilegur – það fer ekki jafn mikið fyrir blóðhitanum hérna, nema að litlu leyti, ástríðunni sem hefur fært manni ákveðna samúð með vonlausum elskendum fyrri bókanna. Þetta er samanbitnara fólk – tilfinningarnar kannski að mörgu leyti erfiðari – og þetta er auðvitað minna „rómantískt“. Kristín hefur fundið að því að fólk sé að leita að tilteknum kærustum í bókinni. Ég hef svolítið ofnæmi fyrir því að fólk biðjist undan ævisöguaðferðinni í lestri – maður þarf að vera frjáls um sinn lestur og sína túlkun (m.a.s. gagnrýnendur í útvarpi og sjónvarpi) og höfundar verða bara að sætta sig við að vera berskjaldaðir fyrir slíku. Að því sögðu er ég búinn að þekkja Stínu lengi (kynntumst á ircinu – bókstaflega – fyrir aldarfjórðungi!) og þekki nokkra af fyrrverandi kærustum hennar mjög vel, hef lesið allar bækurnar hennar (og megnið af bókunum fv. kærastanna líka) og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf leyst úr neinu svona hver-á-að-vera-hver hérna. Einsog í öllum bókmenntum byggir Kristín áreiðanlega á eigin reynslu – bækur eru fullar af díteilum úr lífi höfunda – en hvorki grófu og fínu drættirnir hérna eiga sér neina augljósa samsvörun í „raunverulega“ heiminum, það ég get séð. *** Aino Magnea má þola það að lesa sjaldan myndabækur á íslensku. Þegar Aram var lítill lásum við yfirleitt myndabækur fyrir svefninn en um það leyti sem hann var 7-8 ára skiptum við alfarið yfir í kaflabækur. Þær miðast þá alla jafna við að hún hafi gaman af þeim líka – en mamma hennar, sem les annað hvert kvöld, les sitthvora bókina fyrir þau (og getur þá t.d. leyft sér Harry Potter og þannig lagað, fyrir Aram). Við eigum samt óhemju af myndabókum og margar höfum við aldrei lesið – og enn fleiri hefur Aino aldrei lesið. En nú fóru Nadja og Aram suður á síðustu helgi (Aram var að tromma með tónlistarskólanum í Hörpu og Nadja í vinnuferð – af sömu ástæðu var hvorugur kvikmyndaklúbbur heimilisins starfræktur á helginni) og þá lásum við Aino tvær myndabækur sem hún valdi úr hillunni. Sú fyrri heitir Nói og hvalrekinn, eftir Benji Davies, og fjallar um ungan dreng sem finnur hval á ströndinni, fer með hann heim í baðker og felur hann fyrir pabba sínum (þeir virðast búa bara tveir saman). Svo finnur pabbinn auðvitað hvalinn og áttar sig á því að hann hefur ekki verið að sinna syni sínum sem skyldi – verið önnum kafinn við brauðstritið, sjómennskuna – en reiðist alls ekki. Samt fara þeir nú og skila hvalnum aftur út í sjó. Falleg saga – látlaus og ljóðræn, frumleg hugmynd og fallegar teikningar. Það eru víst til fleiri bækur um Nóa og þennan hval. Sú seinni heitir Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu og er eftir Guðna Líndal með myndum eftir Ryoko Tamura. Þessa tengdi Aino sérstaklega við og við höfum talsvert talað um hana síðustu daga. Hún fjallar um stelpu sem missir gersamlega stjórn á ruslinu í kringum sig – húsið beinlínis drukknar í drasli og einhvers staðar í draslinu týnist s.s. litli bróðir hennar. Eina leiðin til að sigra „ruslahvelið“ er að taka til. Í sjálfu sér er kannski skrítið að stelpan virðist bera ábyrgð á öllu heimilinu – þannig þarf hún t.d. að vaska upp og gera ýmislegt sem er yfirleitt ekki á ábyrgð barna. En hún hefur sosum verið að rusla þetta til líka – gera sér samlokur og eitthvað. Þetta er líka falleg saga – meira af „brjálaða“ skólanum en þeim ljóðræna. Það er eitthvað mjög norrænt við þessar bækur um mjúka, ljóðræna stráka á aðra höndina og trylltar drulluprinsessur á hina – eitthvað viðnám, sem er kannski að verða fyrirsjáanlegt, en virkar ágætlega enn. Fyrir einhverjum vikum síðan ákváðum við að hætta að atast stöðugt í Aino með tiltekt og bíða þess einfaldlega að hún yrði þreytt á draslinu sjálf og sá dagur er eiginlega upp runninn, svona um þessar mundir (það stefnir í allsherjar Marie-Kondo-dag á heimilinu á morgun). Þess vegna tengir hún svona hart – maður kemst varla inn til hennar fyrir drasli. *** Djassgítarleikarinn Andrés Þór mætti með Paradox-kvartett og lék samnefnda plötu á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum. Þeir hentu líka í einn standard í uppklappi en nú er stolið úr mér hvaða lag það var. Ég hafði aldrei heyrt Andrés spila áður og hafði ekki nema óljósa hugmynd um hver hann væri. En ég reyni að mæta á djasstónleika hérna, sem eru nokkuð tíðir, og sérstaklega ef það er gítarleikari. Og þvílíkur gítarleikari! Ótrúlega naskur á melódíur og synkóperingu – bæði í lagasmíðum og spuna. Ég hef hlustað nokkrum sinnum á plötuna á þessari viku sem er liðin síðan tónleikarnir voru – eftirlætis lögin mín hingað til eru þau sem voru á miðju prógrami tónleikanna, Avi, Schrödinger’s Cat og Tvísaga. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom inn var annars pedalaborðið – verandi með svolitla gítargræjudellu. Djassgítarleikarar eru voða oft bara með snúru beint í magnarann eða í mesta lagi 1-2 fetla á gólfinu en Andrés er með fullskipað pedalaborð. Ég kunni sosum ekki við að rýna í það en tók strax eftir því að hann var með Strymon Flint – reverb og tremolo effekt sem ég er einmitt að safna mér fyrir (les: selja aðra fetla svo ég geti réttlætt kaupin). Sem var skemmtileg tilviljun. Næsta skemmtilega tilviljun var svo þegar hann gengur inn með forláta Eastman T386 gítar í fanginu – en kvöldið áður hafði ég legið andvaka í rúminu og verið að gúgla alternatífum við Gibson ES-335 og rekist á þessa og lesið heilmikið um þá. Þriðja og síðasta og sennilega skrítnasta tilviljunin var svo þegar Andrés kynnir lagið J.L. – sem heitir ekki eftir húsinu heldur dönskum gítarleikara, vini Andrésar og „youtube-stjörnu“ sem heitir Jens Larsen. Ég horfi talsvert á gítarmyndbönd á YouTube og þótt ég spili lítinn sem engan djass hafði ég einmitt tekið upp hjá sjálfum mér að læra Blue Bossa og hafði daginn áður legið yfir myndbandi með Jens Larsen, þar sem hann kennir manni hvernig sé best að spila arpeggios yfir hljómaganginn. Og hafði aldrei rekist á þann mann áður. Sándið í gítarnum gat orðið svolítið hvellt af og til. Ekki að hann væri beinlínis of hátt stilltur en þessi salur hentar djassmúsík ekkert æðislega vel – ég gæti líka trúað að Marshall-magnarinn sem Andrés spilaði í gegnum sé heldur stór fyrir svona akustískan sal. Svo er líka meira gaman að fara á djasstónleika þegar maður situr ekki bara einsog á skólatónleikum, heldur við borð og jafnvel með bjór í hendi – þar vinnur Edinborgarhúsið hands down. En sándið var líka fjölbreyttara en gengur og gerist – þökk sé fetlaborðinu, meðal annars. Sennilega hef ég bara tvisvar farið á betri djasstónleika – þegar ég sá Lenni-Kalle Taipele spila … sennilega var það á Gauknum fyrir ábyggilega 20 árum. Og um svipað leyti þegar ég sá Sunnu Gunnlaugs spila fyrir mig og mömmu og kannski einn annan í þessum sama sal, Hömrum. Af lífi og sál. Það vill til að sami trommari, Scott McLemore, lék með Sunnu þá og lék með Andrési núna – en hann er held ég giftur Sunnu. Aðrir í bandinu hjá Andrési voru Agnar Már Magnússon á píanó og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Og alveg jafn lygilega færir og Andrés Þór – eða allavega svo gott sem. *** Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannesdóttur. [Hér á eftir er hugsanlega spoiler, þið lesið á eigin ábyrgð]. Einsog allir sanngjarnir og réttlátir áhrifavaldar gera þarf ég að taka fram að bókina fékk ég ókeypis, einsog hvert annað meiköpp-kitt eða fæðubótarefni. Bókin er í nóvellulengd og gerist á nokkrum dögum. Ungur sjómaður með alla vasa fulla af peningum fer á fyllerí og lætur varla renna af sér á meðan sögunni stendur. Þetta er í sjálfu sér þekkt form – ekki síst á fyrstu bók – djammið sem „píkareska“, alveg frá On the Road til Millilendingar og Við erum ekki morðingjar. Mætti jafnvel setja Kokkál þarna inn líka. Og sannarlega mína fyrstu – Hugsjónadrusluna. Ólyfjan hins vegar sker sig þannig úr að fylleríið er eiginlega öll bókin – þetta er bara misdrukkinn maður að þvælast í gegnum skemmtanalífið á meðan „alls konar“ gerist (frekar en að djammið marki söguna eða bergmáli í gegnum hana). Maðurinn hefur enga sérstaka skoðun á því sem hann sér og er sjálfur erkitýpa – einsog „höfundurinn“, sem kemur fyrir í bókinni, nefnir sjálfur. Einsog aðrir karlmenn í bókinni hefur hann fátt annað til brunns að bera en að vera algert fífl – einsog skrifaður upp úr einhverju why-are-men-assholes twitter-ranti. Ólyfjan virkar meira á mig sem ritlistaræfing efnilegs höfundar en kláruð bók. Að miklum hluta til skrifast það á forlagið – ef það er eitthvað sem manni er ljóst frá fyrstu síðu þá er það að bókinni hefur nákvæmlega ekkert verið ritstýrt (eða þá mjög, mjög illa). Málfarið er mjög klaufalegt á fyrstu síðunum en skánar svo eftir því sem líður á bókina – nánast einsog höfundur sé að læra að skrifa samhliða því sem hann skrifar bókina. Píkareskur þurfa ekki að vera á leiðinni neitt sérstakt – ágætis dæmi um frábæra píkaresku sem er á leiðinni beint út í ruglið er Austur Braga Páls – en stefnuleysið hérna er bara of mikið einsog að vera sjálfur á mjög hversdagslegu fylleríi (með einhverjum steingeldum fávita). Og samt er hellingur þarna – það er ofsalegur kraftur þegar Díana gefur í og vandar sig og sagan er einhvern veginn alltaf alveg í þann veginn að fara að blómstra. Og hún hefur augljóslega miklu betri tök á skrifunum í lok bókar en í upphafi – þótt metafiksjónal tvistið hafi verið jafn erindislaust og fylleríið. Hún þarf að beisla þessa orku og beita henni fyrir eitthvað sem henni brennur fyrir brjósti – og kannski er þá ágætt að hún sé þá búin að hreinsa allar helstu djammsögurnar af borðinu. Ólyfjan er ekki góð bók – þótt það sé ýmislegt gott í henni – og ég spái því óhikað að næsta bók Díönu verði miklu betri. *** Ásta Fanney Sigurðardóttir gaf á dögunum út það sem maður gæti kallað sína fyrstu bók „í fullri lengd“. Ljóðabókina Eilífðarnón – og fylgir þar eftir singulnum Herra Hjúkket og samstarfsbókinni Vísnabók með CD. Á bókamerkinu sem fylgir með bókinni stendur að Ásta hafi einhvern tíma verið kölluð „spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda“. Það vill einmitt til að það var ég sem kallaði hana spaðaásinn og ég stend við það. Ljóðlist Ástu síðustu svona átta árin (og sennilega lengur, þetta eru átta ár sem ég hef vitað af henni, og jújú, ég man reyndar að hún vann einhverja keppni ásamt vinkonu sinni löngu fyrr) hefur ekki síst birst í gjörningum og upplestrum og eru fá skáld sem ferðast jafn víða og hún eða sýna jafn mikinn metnað í ljóðaperformansi. Lengi vel – kannski enn – endurtók hún sig heldur aldrei á sviði, sem er rosalega intensíft þegar maður kemur mikið fram. Ásta er hins vegar alveg jafn fær og jafn tilraunakennd eða flippuð, full af leik og ljóðrænu, flissandi launfyndni, á síðunni og hún er á sviðinu og Eilífðarnón er instant-klassíker í íslenskri framúrstefnu, sem er ósennilegt að einu sinni Ásta sjálf toppi neitt í bráð. Eða það er allavega mitt fyrsta viðbragð. Mér finnst mikið af ljóðlist síðustu ára vera góð – en hún er líka svolítið sjálfri sér lík, svolítið svipaðar raddir (kannski vegna þess hve margir fóru í gegnum sama ritlistarnámið) og í því geri, þessu geri íslenskra ljóðskálda, er Ásta alger spaðaás – beint út úr erminni, skák og mát – og það hvernig hún beitir tungumálinu, tökin sem hún hefur á því og þessi furðu lífræna tengingin sem hún hefur við það, hljóð þess og merkingu, ljóðmyndir og málfræðilega slóða, er einfaldlega engu lík, algerlega einstök. Hafi maður minnsta áhuga á íslenskri ljóðlist verður maður að eignast þessa bók, punktur og basta, yfir og út. *** Í annað skiptið í sögu „gítarleikara vikunnar“ er gítarleikarinn íslenskur (hinn var Langi Seli). Andrés Þór.