Dagbók, 10. mars, 2025

Ég er veðurtepptur. Átti að vera í upptökum fyrir Kiljuna. En sit þess í stað heima í eldhúsi og ét carbonara afganga. Sem eru að vísu ágætir. Kannski kemst ég seinnipartinn – fluginu var frestað frá 9 í morgun til klukkan 15. En tökunum er lokið. Ég kemst vonandi í útgáfuhófið mitt á morgun. Til að fyrirbyggja misskilning þá er veðrið prýðisgott. Og mér sagði flugmaður í gær að það yrði að öllum líkindum flogið – en með þeim fyrirvara þó að það væri ómögulegt að sjá fyrir tiktúrur Flugfélagsins. Sem ætlar víst hvort eð er að hætta að fljúga hingað á næsta ári. Þá vantar tvö ár upp á 100 ára flugsögu til Ísafjarðar. Þórbergur Þórðasson flaug hingað (sem farþegi) með Súlunni og lenti 3. júlí 1928.

Þannig er því farið um margt. Það virkar ekkert. Ekki pósturinn. Ekki heilbrigðisþjónusta. Ekki almenningssamgöngur. Ekki bótakerfið. Og alltaf er það arðsemiskrafan sem eyðileggur allt. Ég er ekki viss um að fólk hafi alltaf spurt fyrst um arðinn þegar það var að byggja þetta þjóðfélag. En það er með arðsemiskröfuna á lofti sem það er hlutað í sundur og hent í ruslið.

Sá sem getur ekki haldið úti flugsamgöngum við Ísafjörð – með Loftbrú og öðrum niðurgreiðslum – er annað hvort að drepast úr arðsemisgræðgi eða einfaldlega ekki hæfur til að sinna viðskiptum og ætti að finna sér gott djobb við eitthvað annað. Á færibandi. Á kassa. En ekki í rekstri.

***

Það er ekkert að frétta af lestri. Ég lötra í gegnum Lady in the Lake. Hugsa eitthvað um eðli glæpasögunnar. Og hvar Chandler víkur frá forminu. Því er gjarnan haldið fram að bækur hans fjalli meira um stemningu – samfélagslýsingu – en glæpinn sjálfan og þá gjarnan vísað til þess að hann leysir ekki alltaf sína glæpi. En sú samfélagslýsing er augljóslega allt önnur og ekki jafn bundin af realisma og samfélagslýsingin í scandi-noir bókunum. Ekki þar fyrir að hún sé eitthvað fantastísk en hún er meira bíó – karakterarnir meiri steríótýpur, samfélagið ýktara. Scandi-noir samfélagið er svo sem ýkt líka – og kannski er þessi munur bara munurinn á tíðarandanum. Bæði gamla noirið og scandi-noirið bera þess merki að vera ort upp úr dagblöðunum. Og það var meira yfirborð í gömlu dagblöðunum – meira verið að lýsa hlutum og athöfnum, en alltaf með þessi fororði að undir öllu saman kraumaði siðspilling, morð og framhjáhöld og drykkja og barsmíðar. Í scandi-noirinu er yfirborðið gegnsærra – einsog í opinskáum einkaviðtölum eða kaþartískum facebook-póstum. Samtíminn er allur á viðstöðulausu trúnó og þegar allir eru á trúnó getur ekkert kraumað undir yfirborðinu. Kannski er það þess vegna sem scandi-noirið grípur svo oft til þess að nota „gömul leyndarmál“ stýra sögunni – af því að í fortíðinni er yfirborð sem felur eitthvað, þar er eitthvað til að afhjúpa. Og svo er ´í sjálfu sér líka algengt, held ég, að scandi-noirið takist á við það hvernig þetta opinskáa einkaviðtal er líka performans, líka yfirborð sem getur reynst tóm lygi þegar nánar er að gáð. En ég er ekki alveg viss um það.

***

Ég las viðtal á helginni við David Lagercrantz. Hann var að skrifa krimma um sænska bókmenntasamfélagið og talar mjög illa um það – þar vaði sósíópatar um og stýri öllu. Og ekki alltaf ljóst hvort hann er að tala um höfundana eða bissnissmennina á bakvið höfundana og stundum blandar hann því saman á hátt sem er ekki alveg sannfærandi (það er t.d. alveg satt að listamönnum hefur gjarnan leyfst að vera gallagripir og erfiðir í umgengni – en hið sama verður ekkert sagt um ritstjóra og það er engin rómantík í kringum millistjórnendur sem skeyta skapi sínu á öllum og/eða mæta fullir í vinnuna – að sama skapi eru höfundarnir oft valdalausir gagnvart bissnissákvörðunum og hafa takmarkaðra vald hver yfir öðrum). Einhvern veginn sló þetta viðtal mig falskt. Mér fannst hann vera að saka alla um að vera óheiðarlegir til þess eins að undirstrika hvað hann væri heiðarlegur og góður sjálfur – og mér fannst það bara ekkert styrkja þá hugmynd að hann væri heiðarlegur og góður eða einhver varðmaður smælingjanna, heldur þvert á móti, fór ég að leita að minnstu vísbendingum þess að hann væri það ekki. Samt var ég vel að merkja ekki ósammála neinu einu sem hann sagði neins staðar – mér fannst hann bara vera að tikka í of mörg sjálfsögð og fyrirsjáanleg box. Nefna Trump og að hann væri vondur – tékk. Nefna Harvey Weinstein og að hann væri vondur – tékk. Þetta var of mikið paint-by-numbers.

Ég las líka EKKI grein í New Yorker af því hún var handan gjaldmúrs. En ég sá glitta í punktinn í fyrirsögn og fáeinum málsgreinum. Sem var að bókstafstrúin – literalisminn – væri að gera út af við bíómyndir. Þessi bókstafstrú gengur ekki út á að túlka margræð og mótsagnarkennd trúarrit heldur þvert á móti að skrifa eitthvað sem er svo skýrt að það getur enginn misskilið það. Það er meining – hún er í 99% tilvika eitthvað sem 99% ætlaðra áhorfenda verða sammála (altso, það er predikað fyrir kórinn) – og það fer aldrei neitt á milli mála hver meiningin er. Það er ekkert rými til að túlka.

Ég veit ekki hvort þetta er satt – þótt ég þykist kannast við tendensinn úr bókum –  en ég fór á Mickey 17 á föstudag og hún þjáist dálítið af þessu. Eða réttara sagt þjáist seinni hluti hennar af þessu. Fyrri hlutinn er frábært existensíalískt drama en seinni hlutinn er mjög literalísk geimsápa – alveg skemmtileg en uppfyllir ekki loforð fyrri hlutans. Er eiginlega bara önnur mynd.

Á laugardag horfði ég síðan á aðra álíka geimmynd sem er líka með Robert Pattinsson og að mörgu leyti áþekkum söguþræði – við skulum segja að hann hálfrími (ég ætla ekki að rekja hérna söguþræðina, það er tilgangslaust fyrir þeim sem hafa séð myndirnar og þvælist bara fyrir hinum, sem gætu líka bara gúglað plottinu). High Life. Hún fer eiginlega alveg þveröfuga átt, estetískt, og maður veit varla almennilega hver söguþráðurinn er þegar hún er búin. Og samt er alveg ljóst frá fyrstu stundu hvar sagan endar – hvernig fer. Tímaflakkið er notað til að leysa mann undan allri plottkvöð – og það verða aðrir hlutir sem maður þarf að reyna að giska sig fram úr. Manni er ekki sagt hverjar reglurnar séu í þessum framtíðarheimi eða hvers vegna fólkið hagar sér einsog það gerir eða hvernig það lenti þar sem það lenti – heldur verður maður sjálfur að draga ályktanir. Á milli senanna eru eyður sem maður þarf að fylla upp í sjálfur. Og hún er hæg. Meira Solaris eða Stalker eða 2001: Space Odyssey. En ekki jafn fyndin og Mickey 17. En í sjálfu sér samt fyndin. Og falleg.

Kannski er ástæðulaust að leita að einhverri millileið til að sætta þessar öfgar. Þær mega bara vera svona. En Mickey 17 var samt aðeins of mikið on the nose einsog maður segir.

Sprengt fyrir friði

Nú stefnir allt í að Evrópa vígvæðist. Og hefur í sjálfu sér gert síðustu ár. Ég man eftir að hafa furðað mig á því fyrir nokkrum árum að hin nútímalega Sanna Marin, fv. forsætisráðherra Finna, skyldi fara í áróðursför um álfuna til þess að hvetja Evrópuþj´óðir til að eyða meira í vopnaframleiðslu. Af því mér fannst það afstaða sem væri meira viðeigandi fyrir sextugan karl fyrir 30 árum. Ungar konur gera ekki svona, sögðu fordómarnir/áróðurinn, það var búið að lofa manni að konur væru diplómatískari, ljúfari stjórnendur – það væri feðraveldið sem sprengdi drasl í tætlur. Konur myndu semja og eyða skattpeningum í sjúkrarúm og kennslustofur og leikskólapláss. Nú er Kristrún Frostadóttir á svipuðum slóðum og Sanna Marin. Og allir bara á þessum slóðum, þetta eru einu slóðirnar. Sprengjur fyrir friði.

Ég segi ekki að ég sé einhamur í þeirri afstöðu minni að það sé vond hugmynd að eyða pening í stríð. Í varnir, meina ég. Í vopn. Í að drepa þá sem ráðast á okkur eða aðra sem eiga ekki skilið að láta ráðast á sig. Mér finnst líka vonlaus staða að Vladimír Pútín geti vaðið inn í öll þau lönd sem hann kærir sig um að eiga – og innantómt hjal að tala um að „semja frið“ við hann ef engar útskýringar fylgja á því hvernig sá friður á að líta út eða hvernig honum eigi að framfylgja (einsog Selenskí nefndi í Hvíta húsinu um daginn hefur Pútín 25 sinnum svikið sín eigin friðarsamkomulög). Og auðvitað verður að halda því til haga að Sanna Marin er Finni – það er hærri fórnarkostnaður í þessari jöfnu fyrir þjóðir einsog Finna, Eystrasaltsþjóðir og auðvitað Úkraínumenn. Og ég kaupi bæði þau rök að Íslendingar séu í góðri stöðu til þess að taka prinsippafstöðu með friði (þótt varla láti Trump Ísland vera ef hann ætlar að taka Grænland – enda lítur Ísland út fyrir að vera hluti af Grænlandi á kortinu hans) og að það sé ódýrt og jafnvel prinsipplaust að taka þannig prinsippafstöðu bara af því maður hefur sennilega engu að tapa. Af því sprengjurnar springa ekki nógu nálægt manni.

Ég kann ekki á þessu neina lausn, vel að merkja. Það má vel vera að Sanna og Kristrún og Macron og Starmer hafi bara rétt fyrir sér. Og kannski er standpína vopnaiðnaðarins bara óþægileg hliðarverkun.

Annað í þessu veldur mér samt ugg og mér finnst það minna rætt. Ef fer sem horfir munu borgaralegar stjórnir sósíaldemókrata og allra þjóða sjálfstæðisflokka margfalda fjárframlög til vopnaiðnaðarins á næstu árum; en á sjóndeildarhringnum eru líka kosningasigrar fasískra afla. Evrópa á eftir að lenda undir hælnum á sínum eigin drullusokkum – þó Trump og Pútín láti okkur vera. Við gætum þannig hæglega setið uppi með gríðaröfluga heri í öllum löndum Evrópu – sem væri stýrt af Svíþjóðardemókrötum, Frönskum þjóðfylkingum og þ´ýskum AFD-mönnum. Og Snorra Mássyni. Það er auðvitað nú þegar staðan í bæði Ungverjalandi og á Ítalíu. Og það finnst mér ekkert voðalega kræsileg tilhugsun, svona ykkur að segja.

Dagbók, 6. mars, 2025

Kæra dagbók. Gott fólk. Ég vil byrja á að þakka auðsýnda samúð vegna táarinnar sem ég nefndi í síðustu færslu. Henni – þar af leiðandi mér, okkur báðum – líður betur og í morgun fórum við út að skokka með ónefndum ljósameistara. Það var gott. Í gær fórum við líka í gufubað með ónefndum rokkgítarleikara og kannski hafði það sitt að segja fyrir tána. Finnar segja að það sem gufubað lækni ekki sé sennilega banvænt.

Dagurinn fór í að skipuleggja upplestra mánaðarins. Þessi mánuður er svolítið púsluspil – við Nadja skiptumst á að fara úr bænum. Upplestrana sjáið þið hér í reitnum vinstra megin. Hægra megin ef þið eruð að horfa út um skjáinn á mig. Sem er ósennilegt. ´Það má vera að eitthvað bætist við en það kemur þá bara í ljós.

Á eftir er ég svo að fara að dæma í stóru upplestrarkeppninni. Aram ætlar að sjá um kvöldmatinn og eftir mat fer ég á hljómsveitaræfingu með Gosa – ég kannski nefndi það hérna að Gosi er að fara að gefa út plötu (þar sem ég leik í þremur lögum, held ég) og við erum að æfa fyrir ´útgáfutónleikana.

Ég hef ekkert lesið nema á kvöldin. Ég er á fjórðu Marlowe bókinni – Lady in the Lake – sem er ágæt en síst samt af þessum fjórum. A.m.k. enn sem komið er. Ætli Farewell, My Lovely sé ekki í eftirlæti núna – en ég hlakka til að lesa The Long Goodbye, þá sjöttu, sem kunnugir segja mér að sé staðbest. Og það er varla að ég fái mig til að opna Appollinaire þýðingarnar – en ég ætlaði að vera búinn með Appollinaire fyrir lok febrúar. Ljóðskáld marsmánaðar átti að vera Linda Vilhjálms – en ég var svo sem byrjaður á heildarverkum hennar í nóvember. Og svo á maður ekki að lesa ljóð með skeiðklukku heldur. Ég er bara dálítið ferkantaður stundum.

Dagbók, 3. mars, 2025

Mér er illt í puttanum. Vísifingri á hægri hendi. Eftir kontrabassaleik. Og mér er illt í tánni. Tærnar heita ekki neitt, einsog frægt er, nema litlatá, en ef þær hétu eitthvað væri það baugtá á vinstri fæti sem um ræddi. Það er hugsanlega eftir hlaup og hugsanlega eftir óþarflega nærgöngular naglasnyrtingar. Svo er ég líka voðalega þreyttur – hugsanlega með aðkenningu af einhverri pest sem er þá annað hvort á út- eða innleið. Ég hef bara ekki tíma til að vera með pestir.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum (sem á annað borð ratar hingað inn) að ég hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á fimmtudaginn síðasta. Fyrir Náttúrulögmálin. Af því tilefni fór ég suður og mætti í móttöku í Gunnarshúsi. Svo fundaði ég með forlagsfólki vegna nýju ljóðabókarinnar minnar og mætti í langt viðtal hjá Oddnýju Eir og Vigdísi Gríms á Samstöðinni. Daginn eftir var ég veðurtepptur og notaði tímann til að sinna einhverjum samfélagsmiðlaviðtölum á vegum forlagsins. Síðan kom ég mér fyrir á kústaskápshóteli í boði Icelandair og lá þar einsog slytti fram á næsta dag þegar ég komst aftur heim.

Fimm ljóð kemur í búðir á morgun. Ég ábyrgist ekki að hún verði komin í útstillingu strax en kassarnir eiga allavega að koma í hús á morgun. Ég hef verið að skirrast við að ramma hana inn – segja „um“ hvað hún sé. Kannski vegna þess að mér finnst ljóð alls ekki vera um neitt – í eiginlegum skilningi. En enn líklegra er að mér finnist bara óþægilegt að ákveða það fyrir aðra um hvað hún sé. Að mér þyki eðlilegast að hver ákveði það bara fyrir sig. Hún er mjög „persónuleg“ fyrir mig en ég er ekkert endilega viss um að það skíni alltaf í gegn. Og ég held það komi ekkert að sök. Best væri auðvitað ef hún reyndist vera persónuleg fyrir lesandann líka – í þeim skilningi að lesandinn hitti þar fyrir sjálfan sig, frekar en að ég sé að þvælast mikið fyrir.

Fram undan er ýmislegt. Mig vantar stað til að halda útgáfuhóf í Reykjavík (Skálda er bókuð báða dagana sem koma til greina). Og eiginlega á Ísafirði líka. En ég mun koma fram á Ljóðum og vinum í Mengi þann 12. mars. Og 27. mars verð ég í einhverju sprelli með Sjón á nýrri bókmenntahátíð sem Helen Cova stendur fyrir á Flateyri. Þá er fyrirliggjandi einhver spilamennska með Gosa þegar líður á vorið. Ég reikna með að eignast kontrabassa fyrir næstu mánaðamót. En það hefur ekki gengið mjög vel (reyndi að panta að utan en þá var ekki hægt að senda, reyndi að panta innanlands en eintökin sem voru til reyndust ekki í söluhæfu ásigkomulagi). Hugsanlega kemst ég líka í eitthvað ljóðasprell með annarri hljómsveit en það verður þá tilkynnt síðar. Eða ekkert tilkynnt og kemur bara á óvart.

Ég er að vona að tilnefningin verði til þess að ýta við einhverjum erlendum forlögum að gefa út Náttúrulögmálin. Hingað til er það bara Rámus í Svíþjóð sem ætlar að gefa hana út. Lengdin stendur í fólki. Ég vona líka að það verði einhverjir viðburðir á Norðurlöndunum – Norðurlandaráð er nefnilega búið að slaufa verðlaunaafhendingunni. Sjálfsagt í kjölfar þess að listamennirnir voru sumir hverjir farnir að nota tækifærið – með salinn fullan af norrænum þingmönnum – til þess að halda eldræður. Á tímum vaxandi fasisma voru þessar ræður oft mikilvægar. En þeim er auðvitað vorkunn, Sönnu Finnunum og Svíþjóðardemókrötunum og öllum hinum, að vilja ekki láta lesa yfir hausamótunum á sér í fínum kokteilboðum. Og því sviptu þeir bara listamennina gjallarhorninu. Nú er í staðinn framleiddur sjónvarpsþáttur þar sem allt er tekið upp fyrirfram – og jafnvel þótt einhver segði eitthvað í þeim þætti þá hefur viðkomandi ekki athygli norrænna þingmanna þar frekar en bara í Kiljunni.

En ég sem sagt vona að maður fái samt eitthvað að sprella út á þetta.

Ég hef verið að lesa Alcools eftir Guillaume Appollinaire í tvímálaþýðingu Donalds Revell. Ég les þá frönskuna en reyni að hafa enskuna bara til stuðnings en það hjálpar bara svo lítið af því þýðing Revells er vægast sagt frjálsleg. Hún er sjálfsagt í einhverjum skilningi ljóðræn endursköpun – einsog þýðingar þurfa gjarnan að vera – en tónninn í henni er líka annar en hjá Appollinaire og mikið af breytingunum eru bara ekki góðar. Ég sé heldur ekki tilganginn með þeim. Ekki er hann að eltast við rím eða form – þar sem er rímað rímar hann alls ekki, sem er alltílagi mín vegna, en þá ætti maður að hafa metnað fyrir að vera aðeins nákvæmari. Þar á undan las ég Calligrammes í tvímálaþýðingu Anne Hyde Greet – sem er afbragð – og kannski fer þetta meira í taugarnar á mér þess vegna.

Annars hef ég mest verið í gömlum reyfurum. Chandler og Hammett og Cain. Og las líka Gun, With Occasional Music eftir minn gamla vin Jonathan Lethem – sem skrifaði líka Motherless Brooklyn. Sú er hálfgert framtíðar-sci-fi ofan í reyfarastemninguna sem er tekin beint upp úr Chandler. Og alveg dásamleg – á pari við Motherless Brooklyn (sem ég þýddi á sínum tíma af eigin frumkvæði – ég vara samt við bíómyndinni, hún er ekki góð).

Slátrun ársins

Í Svíþjóð eru veitt verðlaun fyrir slátrun ársins. Årets sågning. Sá bókmenntagagnrýnandi sem þykir hafa gengið hreinlegast til verks, svo að segja, fær verðlaun. Gyllta sög, skilst mér. Í Svíþjóð slátra gagnrýnendur ekki heldur saga.

Að þessum verðlaunum stendur hlaðvarpið Gästabudet – þær Mikaela Blomquist og Lyra Ekström – en með þeim í dómnefnd situr rithöfundurinn Agri Ismaïl. Verðlaunin voru fyrst veitt í fyrra. Þá fékk Anders Mortensen verðlaunin fyrir sögun sína á ævisögu Jespers Högström um skáldið Gunnar Ekelöf. Vel að merkja mun Mortensen þessi sjálfur vera með bók í smíðum um Ekelöf. Í ár var það svo Gunilla Kindstrand sem fékk verðlaunin fyrir sína sögun á sjálfsævisögulegri skáldsögu/ritgerð Daniels Sjölin, Fältskärsv. Sú fjallar meðal annars um misnotkun sem höfundur/sögumaður/báðir verður fyrir sem barn – af hendi annars barns (sem bæði eru á forskólaaldri, ef mér skjátlast ekki). Ég hef ekki lesið þá gagnrýni – hún er handan gjaldmúrs – og ekki heldur bókina svo sennilega ætti ég ekki að hafa mörg orð um hana. Auk þess kannast ég lítillega við Sjölin sem ég kann vel við og það sem ég hef lesið eftir hann finnst mér gott.

Til verðlaunanna var stofnað til þess að auka á umræðuna og Daniel tók því boði og hefur meðal annars gagnrýnt að svo virðist sem aðstandendur Gästabudet hlaðvarpsins lesi ekki bækurnar sem eru til umfjöllunar, heldur bara gagnrýnina – og þetta vill hann meina (í grein í Expressen) að sé almennt mein í sænskri bókmenntaumræðu og vísar sérstaklega til greinar sem Blomquist birti í október þar sem hún biður um „värdelös litteratur“ – altso bókmenntir sem hafa ekkert gildi, eru ekki baráttutól eða sálfræðileg útrás, í stað bóka einsog Fältskärsv og fleiri. Þá spyr hún sig hvers vegna engin setji spurningamerki við það hvort 4-5 ára gamalt barn sé einu sinni fært um kynferðisofbeldi.

En já. Almennt mein, segir Sjölin. Hann segir álitsgjafa eftir álitsgjafa mæta fullyrðingaglaðan á vígvöllinn til að segja skáldsögur/ fagbækur/ ljóðabækur vera rusl, meira og minna, en ráði svo ekki við að benda á eitt einasta dæmi (annað en Guðrún Helgadóttir í pistlinum sem vitnað var til í síðustu færslu).

Það vill til að sænsk bókmenntafjölmiðlun verðlaunar upphrópanir – og oft verður úr því heilmikið og skemmtilegt húllumhæ svo menningarumfjöllunin endar á forsíðum. Ég man t.d. eftir umfjöllun um nýjar Danteþýðingar sem voru margsinnis á forsíðu annað hvort Expressen eða Aftonbladet. Ef maður vill vera fullyrðingaglaður er leiðin inn í kastljós menningarsíðnanna greið.

Mikaela Blomquist svaraði auðvitað Sjölin og sagði það alls ekki satt að hún læsi ekki bækurnar sem hún fjallaði um – hún hefði bara alls ekki verið að fjalla um bókina hans heldur það tilfinningaþrungna tungutak sem var notað til að lýsa henni. Ég held að þar séu þau Daniel ekki ósammála um neina eiginlega staðreynd – Daniel finnst bók sín vera til umfjöllunar þegar gagnrýni um hana er til umfjöllunar, en Mikaelu finnst það ekki.

Ég veit ekki hvort „årets sågning“ á sér fyrirmynd í breskum verðlaunum sem kölluðust „hatchet job of the year“ – á ensku er hvorki sagað né slátrað, heldur unnið með öxi. Að þessum verðlaunum stóð síðan Omnivore. Hvað sem fyrirmyndum líður tala þær stöllur í Gästabudet meira um mikilvægi þess að upphefja vitræna bókmenntaumræðu en að þær fagni eigin þórðargleði – alæturnar með axirnar voru agressífari og vildu „hvassa, fyndna og heiftúðuga texta“ (sú tegund af kvikindislegri gagnrýni er auðvitað þjóðarsport í Bretlandi, mörgum til ama en öðrum til gamans). Bresku verðlaunin voru skammlíf, einungis afhent þrisvar sinnum á árunum 2012 – 2014, og eitthvað segir mér að þetta verði ekki mikið langlífara prójekt í Svíþjóð.

Mér finnst sjálfum áhugavert að á sama tíma og Gästabudet verðlaunar neikvæða gagnrýni gera þær sér far um að hæðast að óþarflega (að þeirra mati) jákvæðri gagnrýni. Kannski vegna þess að sjálfum finnst mér volga gagnrýnin leiðinlegust – sú ástríðulausa sem felur fagurfræði sína jafnvel á bakvið uppgerðarhlutleysi og ver sig þannig fyrir öllum fagurfræðilegum debatt: þetta er ekki fagurfræðilegt mat, þetta er hámenntuð úttekt á faktískum eiginleikum. Ég vil miklu heldur öfgarnar – og endilega að fólk svari gagnrýni hástöfum (ef ekki aðrir gagnrýnendur eða almennir lesendur, þá bara höfundarnir sjálfir).

En þegar ég hugsa út í það gef ég sjálfur næstum öllum bókum 3-4 stjörnur á Goodreads – og nánast aldrei svara ég gagnrýnendum mínum – svo ég er kannski ekki sjálfum mér samkvæmur. En líklega er ég líka lunkinn við að sjá fyrir hvað mér finnist gaman að lesa – og niðurstaðan væri áreiðanlega önnur ef ég fengi eitthvert slembival í hendurnar.

Pervert

Í gær sló ég orðinu hér að ofan upp á Tímarit.is (einhverjir myndu segja að erindi mitt hafi verið viðskiptalegs eðlis) og rakst á grein eftir Guðrúnu Helgadóttur í Þjóðviljanum, 2. desember 1964, sem heitir „Nokkur orð um góða bók og vondar bækur“. Einsog vænta mátti af Guðrúnu var þetta tæpitungulaus grein. Hefst hún á því að hún segist hafa nýlesið bók Hannesar Péturssonar um Steingrím Thorsteinsson, sem hún hafi hrifist mjög af. Svo heldur hún áfram:

Eftir að ég las þessa bók, hefur sú hugsun orðið æ áleitnari við mig, hvort það væri ekki mikil blessun menningu okkar […] ef færri bækur kæmu út á Íslandi en nú gerist. Væri það ekki stórkostlegur menningarauki, ef bókaútgáfa Íslendinga drægist saman um helming, en þær bækur sem út væri gefnar, hefðu eitthvert menningarlegt gildi? Það er ekki vafi á því, að bókaflóð það, sem nú æðir yfir þjóðina, er að eyðileggja allan lestur í landinu. […] Við hrósum okkur af mörgu, og m.a. af því að við séum heimsins mesta bókaþjóð. Það getur satt verið, þó að ég viti það ekki með vissu, að meira sé gefið út af bókum á Íslandi miðað við höfðatölu en í öðrum löndum, en hitt er jafnvíst, að það er meira gefið út af ómerkilegu rusli á Íslandi en annars staðar. Og því miður er raunin sú, að góðar bækur týnast og gleymast í öllu ruslinu. Getur hver maður gert sér það ómak að líta yfir „jóla“-bókalistann í ár. Er nú svo komið, að svo virðist sem hver sá, sem lætur flæða úr penna sínum, komi því á almennan markað. Er ekki kominn tími til að stöðva þessi ósköp? Svo langt hefur ósvífni þessara höfunda gengið, að húsmæður bæjarins setjast niður, rissa upp hundruð blaðsíðna af ómerkilegu og heimskulegu þvaðri og lýsa því síðan yfir í viðtölum við blaðamenn, að þær hafi vantað peninga fyrir eldhúsinnréttingu. Og þetta vill bókaþjóðin lesa. Til þess að enginn þurfi hér að geta í eyðurnar, á ég hér við bækur Ingibjargar Jónsdóttur, og þetta mega einnig taka til sín Magnea frá Kleifum, Guðrún A. Jónsdóttir og fleiri slíkir höfundar. Þá mætti og minnast á ævisagnaskrifin um menn, sem fátt eitt hafa gert sér til ágætis annað en að sanka að sér fé, já, jafnvel sýna atorku við að drekka brennivín (Jón Kristófer) og jafnvel selja það. Verst er, að höfundar, sem áður höfðu skrifað eitthvað einhvers virði, hafa lagt sig niður við að semja slík verk, annaðhvort af andlegu gjaldþroti eða peningaskorti.

Greinin er lengri. Og orðið „pervert“ kemur ekki fyrir strax – það birtist ekki fyrren Guðrún fer að biðja um betur skrifað klám.

Verandi áhugamaður um hispursleysi fannst mér þetta skemmtilegt aflestrar – þótt ég þekki ekki höfundana sem Guðrúnu er svo uppsigað við. Stutt innlit á skáld.is segir mér að Magnea hafi þarna bara skrifað tvær bækur og að Ingibjörg Jónsdóttir hafi verið með fyrstu höfundum til að skrifa vísindaskáldskap – en báðar virðast þær fyrst og fremst hafa fengist við ástarsögur fram til þessa. Ingibjörg segist í viðtali í Fálkanum sama ár alls ekki vera rithöfundur.

Rithöfundar skrifa góðar bækur, sem þeir ganga með tímunum saman, en það geri ég ekki. Ég skrifa heldur ekki góðar bækur. Ég skrifa bækur sem fólkið styttir sér stundir við að lesa, og það kaupir þær. Hvers vegna veit ég ekki, en það er ekki vegna þess að þær séu vel skrifaðar.

Ekki veit ég hvað Jón Kristófer skrifaði – um hann skrifaði Steinn Steinarr frægt ljóð – en það er erfitt að grafast fyrir um hitt af því hann hét ekki Jón Kristófer (og ekki Kadett heldur) heldur Jón Sigurðsson og Leitir kannast ekki við neinar bækur eftir Jón Sigurðsson fæddan 1912. Og á skáld.is er einungis haldin skrá yfir konur sem hafa skrifað.

Það vill til að í þessum sama Þjóðvilja er greinarstúfur um bóksölu í borginni og blaðamaður hringir í nokkrar bókaverslanir til þess að spyrja hvað sé söluhæst og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé „tvístirnið“ Guðrún frá Lundi, með bókina Hvikul er konuást, og Thorolf Smith, sem hafði þá gefið út bók um John F. Kennedy. Þá mun líka vinsæl bók sem er skrifuð upp úr sjónvarpsþáttunum The Untouchables – en þeir eru að gera allt vitlaust í kanasjónvarpinu. Þessar bækur nefnir Guðrún vel að merkja ekki.

Það er áhugaverð hugmynd sem ég heyri alltaf af og til að íslenskum bókmenntum færi betur að ´út kæmu færri bækur. Mér finnst nota bene líklegt að árið 1964 hafi komið út miklu færri bækur en árið 2024. Og mér finnst líklegt að fólk hafi lesið meira. Í dag er samt miklu algengara viðhorf að fleiri titlar myndu auka lestur – sérstaklega þegar litið er til barnabóka. Bækur eiga að höfða til ólíkra einstaklinga og á öld einstaklingshyggjunnar erum við öll svo ólík að það þyrfti kannski einn titil ´a mann. Eða fimmtíu á mann á ári svo maður verði aldrei uppiskroppa. Þetta gæti gervigreindin áreiðanlega gert. Klæðskerasniðnar bækur.

Þegar fólk biður um færri bækur er það gjarnan ákall til útgefenda og í einhverjum skilningi ákall um að ritstjórum sé hlíft við því að ritstýra 40 bókum á ári (eða hvað það er sem þeir er ætlað að afkasta). Að hver bók verði alvöru prójekt og öllu kostað til að hún verði eins fullkomin og frekast er unnt – frekar en að hún sé bara jafn fullkomin og við höfum tíma og fjárráð til að þessu sinni.

Svo er auðvitað augljóst af strúktúrnum í kringum listamannalaunin að höfundar eru verðlaunaðir fyrir að halda áfram að framleiða. Markaðurinn – bæði metsölumarkaðurinn og sá sem greiðir fyrst og fremst út í menningarauðmagni – gleymir höfundum á augnabliki, jarðsetur bækurnar hverja á fætur annarri allt jólabókaflóðið og urðar svo restina í kyrrþey í janúar. Gleymdur höfundur fær ekki listamannalaun og getur fátt annað gert til að minna á sig en að pósta einhverju deilanlegu (frekar en umdeilanlegu) á Facebook.

En auðvitað er ekkert sem segir að bækur batni alltaf við meiri vinnslutíma – þær geta allt eins versnað, orðið kreistnar eða tilgerðarlegar og bólgnað út eða verið skornar óhóflega niður. Eða að höfundar sem gefi út eina bók á áratug skili betra verki en þeir sem rusla út einni  – eða tveimur! – á ári. Þetta er bara alls konar.

Hins vegar bergmála gjarnan í mér hugmyndir Wills Self um að skáldsagan hafi dáið þegar fólk hætti að snobba fyrir henni – þegar hún hætti að vera heilög og varð einsog hver önnur neysluvara, hvert annað smjörlíki. Að mikilvægi hennar hafi líka verið performatíft – hún hafi skipt máli vegna þess að við leyfðum henni að skipta máli. Og að hún hafi einungis „dáið“ útávið – og orðið að sérhæfu hobbíi frekar en einhverju sem átti almennt erindi. Hann átti sumsé ekki við að skáldsögur 21. aldarinnar væru verri bækur, bara að þær hefðu lítið erindi – og á 21. öldinni læsi enginn eldri bækur heldur. Self orðaði það einhvern veginn þannig að þegar fólk sem vildi telja sig yfir meðalgreind væri hætt að ljúga því til að það hefði lesið klassíkina og það sem var helst á döfinni – eða að lágmarki að það stæði til – og farið að yppta bara öxlum og segja „ég les nú alltof lítið“ – hafi slagurinn verið tapaður. Kannski ljúgum við öðru í dag af því okkur finnst aðrir hlutir skipta máli.

Og það sem pistill Guðrúnar segir mér – alveg burtséð frá gæðum eða gæðaleysi þeirra bóka sem hún úthúðar – er að bækur skiptu máli. Ekki bara hana sjálfa heldur samfélagið. Henni finnst samfélagið vonlaust ef góðar bækur njóta ekki sannmælis og finna lesendur, og henni finnst það enn vonlausara ef vondar bækur verða ráðandi á náttborðum landsmanna. Sjálfsagt hefur rignt yfir hana athugasemdum um óþarfa grimmd og kvenfyrirlitningu (à la „konur eru konum verstar“) og fordóma gagnvart ástarsögugrein bókmenntanna – í athugasemdakerfi Þjóðviljans, ef ekki á götum úti, ég reikna með því að fólk hafi verið jafn viðkvæmt árið 1964 – en hún hefur látið sig hafa það af því henni þótti þetta skipta máli. Og það, umfram allt annað, er eftirbreytni vert.

Afstæðiskenningar

Ég var að enda við að senda frá mér fyrstu smásöguna sem ég skrifa í nærri því aldarfjórðung. Árið 2001 var ég í ritlistaráfanga í HÍ – sem var reyndar í svokölluðu „creative non-fiction“, kennarinn, Njörður P. Njarðvík, átti íslenskt nafn fyrir það en því hefur verið stolið úr mér – og þá skrifaði ég nokkrar sögur sem voru með einhvern snert af raunveruleika í sér en stímdu í burtu, út í skáldskapinn. Þær voru ágætar en miklu meira í ætt við þreifingar, æfingar, en fullburða sögur. Og jú raunar skrifaði ég eina hálfmisheppnaða sögu fyrir börn/unglinga einhvern tíma fljótlega eftir hrun en ég tel hana ekki einu sinni með. Ég var eiginlega búinn að sætta mig við að ég kynni þetta ekki, ætti ekki tólin, og þegar ég var nú beðinn um að skrifa smásögu (af manneskju sem virtist vita að ég geri það eiginlega ekki) þá ætlaði ég að svara nei. En svo dró ég það og allt í einu blasti hún við, hugmynd sem átti að verða allt annað og allt öðruvísi og hefur legið á skrifborðinu mínu í að verða ár, án þess að verða eitt eða neitt.

***

Ég leit inn á Facebook til þess að vara fólk við að fara ekki inn á Starafuglsvefinn – á honum er nú bara klám – en starafuglsefnið er allt komið á starafugl.norddahl.org. Og sá þá að kunningi minn, ljóðskáldið Gísli Þór Ólafsson, lést úr krabbameini fyrir viku síðan. Ég hitti Gísla síðast fyrir rúmu ári þegar ég fór í túrinn góða – hann kom á upplesturinn á Sauðárkróki. Og það var raunar líka þar sem ég hitti hann fyrst, þegar hann var einn tveggja gesta í ljóðapartíi Nýhils – hinn var Geirlaugur Magnússon. Gísli var sérstakt ljóðskáld, engum líkur nema sjálfum sér, og ég þurfti að venjast honum áður en ég áttaði mig á gildi þess sem hann skrifaði – það er einfeldningslegur tónn í bókum hans, naivískur, sem ég ruglaði lengi saman við einfeldni.

Ég samhryggist ástvinum Gísla og sendi þeim mínar samúðarkveðjur.

***

Í fyrrakvöld horfði ég á Möltufálkann en í gær á Svefninn langa. Í þeirri fyrri leikur Humphrey Bogart Sam Spade en í þeirri seinni leikur Humphrey Bogart Philip Marlowe. Sam Spade er aðalspæjari Dashiell Hammetts á meðan Marlowe tilheyrir Raymond Chandler. Bækurnar eru ólíkari en myndirnar en í b´aðum tilvikum eru myndirnar þó mildaðar útgáfur af bókunum – þær eru fórnarlömb hins svokallaða Hays-kóða sem bannaði alla mögulega siðspillingu í bíómyndum, sem var sérlega dýrkeypt fyrir harðsoðnu reyfarana. Kannski er ég bara ekki nógu læs á stíl kvikmynda en mér fannst nánast einsog þær gætu hafa verið verk sama mannsins á meðan texti Hammetts og Chandlers er mjög ólíkur. Kannski er það bara vegna þess að Bogart er alltaf Bogart – frábær leikari en fyrirferðarmikil persóna sjálfur frekar en maður með margar ólíkar stillingar.

Það slær mann þó í báðum – eða öllum fjórum – verkum að þetta eru sögur um stemningu miklu frekar en vel plottaðir krimmar. Það eru hreinlega alltof mörg lög, alltof margar persónur og of margir óprúttnir viljar að takast á til þess að maður hafi nokkurn tíma góða yfirsýn yfir alla þræði. Mest verður maður bara lúinn af að fylgja plottinu. Það er þó skömminni skárra í Möltufálkanum þar sem eltingaleikurinn við fálkastyttuna sjálfa bindur allt hitt saman. En stemningin í Svefninum langa er líka svakalegri. Það skemmir bíómyndina svolítið að framleiðendum fannst greinilega ekki annað hægt en að láta Bogart og Bacall verða ástfangin – sem þau voru í raunveruleikanum áður en tökur hófust, Bogart var í skilnaðarferli – og þar með er heilindum Marlowes kastað á glæ og hann (í samstarfi við handritshöfunda sem draga mjög úr grimmd hennar) látinn varpa hlífiskildi yfir Vivian Sternwood ástar þeirra vegna, frekar en vegna þess að hann lendir í mórölsku öngstræti einsog raunin er í bókinni (og varpar engum hl´ífiskildi, hann bara fer). Heilindi hins gallaða spæjara Chandler – sem á augljóslega að vera riddaralíking – eru akkerið í sögunum. Marlowe er – einsog Chandler orðaði það – maður sem reynir að sýna heilindi í heimi þar sem það er óðum að detta úr tísku. Án þessara heilinda er ekkert eftir nema grautur. Og kemistrían milli Bacall og Bogarts, sem er auðvitað heilmikil.

Ég endurlas líka þýðingu Guðbergs á Svefninum langa. Ég skrifaði um hana einhvern tíma og mundi hana sem mjög sérvitra – mjög grindvíska í orðavali – en var búinn að gleyma hvað hún er einfaldlega léleg. Og hvað útgáfan er mikið drasl. Síðu eftir síðu vantar nokkrar línur neðst á blaðsíðu og stundum birtust sömu setningarnar neðst á einni síðu og aftur efst á næstu síðu og þar fram eftir götunum. Ég man varla til að hafa lesið þýðingu þar sem allir aðilar hafa kastað jafn mikið til höndum.

Bækurnar og myndirnar eru líka gallaðar en þær eru kannski einmitt ágætis dæmi um verk sem gætu engu að síður ekki verið öðruvísi – þar sem gallarnir eru (flestir) óaðskiljanlegir frá kostunum. Þannig hefði stemningin í Svefninum langa t.d. alls ekki verið jafn svakaleg ef það hefðu ekki verið svona mörg lög af plotti. Það er engum treystandi, ekki einu sinni pínulítið, nema Marlowe og meira að segja honum tekst aldrei að vera fullkominn.

Fullkomlega óþekkur

Ég fór á Dylanmyndina í gær. Ég hef engan heyrt kalla þessa mynd sínu rétta nafni og ég ætla ekkert að taka það upp. Dylanmyndin er fínt heiti. Svona ævisagnamyndir eru náttúrulega alltaf í aðra röndina mjög þvingað drasl. Og það verður því verra sem maður veit meira sjálfur um söguefnið. Ég er ekki mjög verseraður í Dylan sjálfum en ágætlega verseraður í atburðunum á Newport 1965 og eftirlætis tónlistarsagnfræðingurinn minn, Elijah Wald, skrifaði bókina sem Dylanmyndin er „byggð á“. Sem þýðir ekki að hún sé ekki full af rangfærslum sem er alls ekki að finna í bókinni. Það þýðir kannski í mesta lagi að þessar rangfærslur eru allar viljandi. Ég ætla ekki að fara að þylja þær hérna upp nema til að segja að skipuleggjendur voru hvorki mótfallnir rafmagnaðri tónlist, rokktónlist né frumsaminni tónlist. Dylan leit ekki svo á sjálfur að hann væri að spila folk-tónlist nema á fyrstu plötunni – sem var miklu meiri blúsplata en frumsamda efnið á kassagítarsplötunum, þetta sing-a-long dót sem hann fékk sjálfur fljótt viðbjóð á – af því Dylan áleit ekki frumsamin lög vera folk-tónlist. Hann var nefnilega líka púristi. „How many times must I say I am not a folk-singer before the people stop saying he’s not a folk singer“ sagði Dylan – nokkru áður en hann gerðist elektrískur.

Pete Seeger var almennt miður sín yfir dvínandi vinsældum folk-tónlistar meðal annars vegna þess að hann sá hana sem sameinandi afl en sá rokktónlist sem sundrandi afl – folk-tónlist væri tónlist samkenndar og rokktónlist tónlist einstaklingshyggju. Og hafði á réttu að standa, hvað sem manni svo finnst um rokk og folk. Að því sögðu hélt hann líka upp á ýmsa rokktónlist. En hann sá í Dylan – einsog er greinilegt í myndinni – mann sem gæti komið folk-tónlist á hæsta stall, og hafði kannski gert það í nokkur misseri. Hann var fjarska sár yfir þessu. Wald hefur bent á að í raun hafi enginn skipt um skoðun á Bob Dylan eftir Newport 1965 en hins vegar hafi ímynd Seegers umturnast. Fyrir Newport var var hann byltingarsinnaður hipster-afi (hann var jafngamall mér 1965) sem hafði ögrað McCarthy nefndinni, látið svartlista sig úr öllum helstu miðlum, og sameinað ótrúlegan fjölda fólks að baki réttindabaráttunni í suðurríkjunum með tónlist sinni og hugsjónum. Hann var mjúkur og ljúfur og staðfastur prinsippmaður sem naut virðingar og aðdáunar jafnt ungra sem aldinna. Eftir Newport var hann ótrúlega hallærislegur og íhaldssamur lúða-afi, kynþokkalaus hálfsköllóttur söngapi sem átti að hafa viljað höggva á kaplana í Newport með öxi (sú saga er sennilega komin til af tvöföldum misskilningi – þegar Dylan kom af sviðinu eftir elektríska settið gekk hann í burtu á sama tíma og Dylan, einhver spurði: hvert er hann að fara? og einhver svaraði: he went to get his axe. He verandi Dylan og axe verandi slangur fyrir gítar – Dylan var að sækja kassagítarinn til að klára settið, Seeger rölti bara í burtu vegna þess að hann var ósáttur og vildi ekki tala við Dylan).

Alan Lomax var – einsog er nefnt í framhjáhlaupi í myndinni – fyrst og fremst ósáttur við að The Paul Butterfield Blues Band fengi að spila á hátíðinni. Ekki vegna þess að hann væri folk-púristi heldur vegna þess að PBBB voru hvítir. Lomax var á kafi í Chicago Blues – sem hávær og rafmagnaður – og bæði Muddy Waters og Howlin’ Wolf höfðu spilað á hátíðinni áður. Hávær og rafmögnuð sett (Muddy reyndar líka mætt með kassagítarinn einu sinni, en það var til að heiðra Son House, nýlátinn). Honum fannst þetta vera menningarnám af verstu gerð. Hann vildi fá Buddy Guy.

Þess skal samt geta að The Paul Butterfield Blues Band voru eins áþentískir og hvítt blúsband gat verið á þessum árum – þeir höfðu lifað á svörtu klúbbunum í Chicago árum saman og nutu þar virðingar. Þeir voru ekki Stones. Gítarleikarinn í PBBB var Mike Bloomfield– og einsog kom fram í myndinni er það til Mike Bloomfield sem Dylan sækir þegar hann vill fá alvöru gítarleikara.

PBBB spiluðu kvöldið á undan Dylan og Lomax gaf þeim víst fremur dónalega kynningu – það hefur því miður ekki varðveist hvað hann sagði nákvæmlega en það var nóg til þess að umboðsmaður þeirra, Albert Grossmann, sem var líka umboðsmaður Dylans, hjólaði í hann og þeir slógust. Í myndinni gerist þetta á tónleikum Dylans. Það er svo út af þessu sem Dylan ákveður að spila elektrískt sett sjálfur – hann stígur inn í annarra manna rifrildi til þess að sýna PBBB stuðning (og til þess að taka þátt í havaríinu). Það var ekki einsog í myndinni að skipuleggjendurna hefði grunað þetta og þaðan af síður að Pete Seeger hafi vakið hann þunnan klukkan sjö að morgni til að biðja hann að gera þetta ekki. Dylan var búinn að taka upp rafmagnað efni og ætlaði að túra það síðar um sumarið. En hann kom til Newport án hljómsveitar. Það vildi til að nokkrir meðlimir Paul Butterfield Blues Band höfðu leikið með honum inn á plötu og hann hóaði í þá óforvarendis – æfði á staðnum með litlum fyrirvara og mætti með fremur illa æft rokkband á sviðið. Og lét skrúfa allt í botn (sem var það sem gerði Pete Seeger óðan – eða allavega óðari).

Lagið sem hann spilaði var auðvitað Maggie’s Farm – sem er endurunnið gamalt blúslag (og þar með folk) og sósíalískur óður (þótt það fjalli auðvitað líka um þrældóm rokkstjörnunnar Dylans, væntingarnar sem hann vildi ekki standa undir). Með þessu steig hann inn í ofsaveðrið og tók afstöðu með Stones og Animals og PBBB og Bítlunum gegn Newport fólkinu, sem fannst það þá þegar vera að drukkna – og kannski líka gegn Buddy Guy og svörtu Chicago-blúsurunum sem Lomax taldi sig vera í forsvari fyrir. En Dylan tók ekki afstöðu gegn folk-tónlist (a.m.k. ekki blústónlist) og ekki gegn mótmælatónlist heldur.

Svo mætti spyrja sig, einsog Wald hefur gert, hvort hann hefði valdið jafn miklu fjaðrafoki ef hann hefði byrjað á akústíska settinu og svo kynnt nýja stöffið sér – með dálítilli auðmýkt, hér er soldið öðruvísi stöff, nýtt og nýmóðins, vonandi fílið þið það. Eða hvernig hefði farið ef hann hefði ákveðið þetta með einhverjum fyrirvara og mætt með sæmilega þétt band. En hann gerði það ekki og hann gerði það viljandi. Kannski vildi hann bara vekja tilfinningar – það er sagt að í menntaskóla hafi fólk oft púað á hann þegar hann söng og hann nánast nærst á því – og kannski vildi hann svipta fólk forræði yfir því hvað hann væri, hvað hann ætti að vera. Og kannski bæði í senn og margt fleira.

Annars var myndin ágæt sem slík. Sérstaklega var leikurinn góður. En það er alltaf samt svolítið einsog að reyna að troða búrhval í pollagalla að segja svona ævisögu. Það er of mikið af efni, of mikið sem þarf að sníða, of mikið sem þarf að sleppa og einfalda. Og þegar vinnan er öll unnin lítur afurðin bara út einsog blöbber í pollagalla, sami blöbber og síðast, sama sagan um generískan snilling sem þjáist fyrir list sína (þr´átt fyrir að hafa notið dæmalausrar velgengni), sýnir af sér eigingirni og á erfitt með tengsl. Það var kannski áhugaverðast – og gegn klisjunni – að kvikmyndagerðarmennirnir skuli hafa köttað svona snyrtilega framhjá eiturlyfjaneyslu og óreglu, sem birtist manni aðallega sem fullir öskubakkar og tómar flöskur.

Samt fín mynd sko.

Endurfæðing

Mig langaði að skrifa endurfæðsla. Einsog færsla. Födsel. Ég veit ekki hvers vegna en fæðing hljómar alltaf einsog eitthvað sem gerist af sjálfu sér en födsel eitthvað sem fólk framkvæmir. Konur. Og börn. Og endurfæðsla er þá eitthvað sem maður framkvæmir frekar en bara gerist.

Ég eyddi gömlu síðunni minni og færði allt hér inn. Starafugl er líka að hverfa af sínu gamla léni og verður framvegis á www.starafugl.norddahl.org – til þess að ég komist hjá því að borga 45 þúsund krónur á ári.

En einsog þið takið eftir eru gömlu færslurnar ekki í réttri röð. Það er mjög lítið af greinarskilum sem komu með í flutningunum. Þetta er eins konar skrá um blogg sem var en ekki sjálft bloggið. Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því. En ræð ykkur frá því að eiga nokkurn tíma í viðskiptum við Wix. Mér hafði verið ráðið frá því áður en ég hóf þau viðskipti en ég hlustaði ekki. Þið skulið hlusta. Varist Wix. Og Google Workspace. Nú er ég með allt inni á 1984 og ég held það sé þjóðráð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef flutt heldur – bloggið hefur átt áreiðanlega tíu ólík heimili og á þeim tíma hafa margar færslur glatast. Ég lofa samt að ég er ekki að eyða neinu svo þið kanslið mig ekki fyrir eitthvað sem ég sagði 2004 (það var bæði æskilegt og leyfilegt að stíga á línur 2004 – veröldin er í ferli) og ef þið leitið finnið þið áreiðanlega eitthvað hérna sem er hægt að kansla mig fyrir hvort eð er. Eða bara í bókunum mínum – sérstaklega Nihil Obstat, Illsku og Hans Blæ (svona svo þið þurfið ekki að lesa allan katalóginn).

Allavega. Forsíðan er líka gamla síðan mín frá 2018 líklega – ég þarf að uppdatera hana. Og hliðarreiturinn í þessu bloggi frá 2020. Brúin yfir Tangagötu ný. Ég breyti því í ljóðabókina hvað á hverju.

createdTimestamp““:““2024-05-16T16:49:40.157Z““

Fyrsta bók vikunnar var Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær bók – aðeins köflótt einsog flest smásagnasöfn en heilt í gegn príma dæmi. Ég las hana í tveimur lotum og ég man að ég hugsaði í fyrri lotunni að stystu sögurnar væru bestar – að Þórdís nyti sín best í hinu … mig langar að segja gisna en það er ekki alveg rétt lýsing, eða hún hljómar allavega ekki nógu vel. Ég er að meina svona hemingwayískar eyður – samtöl þar sem maður er ekki alveg viss hvað er í gangi af því maður sér aldrei nema brot af heiminum. Skáldskapur sem hleranir í ókunnar veraldir. En í seinni lotunni snerist þetta við og lengsta sagan í bókinni – Leg – er besta sagan. Hún fjallar um sérstakan og sturlaðan matarklúbb, nú langar mig að líkja stemningunni við eitthvað hjá Brett Easton-Ellis, en kannski er það bara vegna þess að ég var að hugsa til hans áðan út af öðru – en það er einhver svona gegndarlaus firring í bland við kátínuþrungna heimsendastemningu. Seinni bók vikunnar var ljóðabókin/endurminningabókin Garments Against Women eftir Anne Boyer. Anne var einu sinni í flarf-hópnum en er komin langt þaðan í dag. Ég hef þýtt lítillega eftir hana úr bókinni Romance of the Happy Workers og verið í aðdáendaklúbbnum í sennilega 15-16 ár. Ég náði því miður ekki að hitta hana á flarf-hátíðinni í New York, sem ég fór á sumarið 2008 – hún þurfti að afbóka á síðustu stundu minnir mig – en við skrifuðumst örlítið á fyrir löngu. Garments Against Women er grafalvarleg og brútal bók en það er samt einhver húmor þarna – eitthvað sem ég kann ekki alveg að skilgreina. Bókin fjallar um margt og fer víða – kapítalisminn og líkami manneskjunnar í kapítalismanum, í fötunum, í kvenfatnaðinum, og líkami manneskjunnar í sjúkdómum er í forgrunni. Anne Boyer hefur þennan hæfileika að geta starað heiminn niður án þess að blikna – og samt er hún líka að skrifa mikið um hvað hún bliknar, án þess að blikna. Skrifa um að vera uppgefin án þess að gefast upp. Fullorðinskvikmyndaklúbbur Sjökvist horfir ekki á klámmyndir, einsog einhver gæti kannski ályktað af nafninu, heldur á fullorðinsbíómyndir með áherslu á allt utan Hollywood (hér í húsinu Sjökvist eru reknir tveir aðrir kvikmyndaklúbbar sem sérhæfa sig í barnamyndum). Fjórði fundur var haldinn í gær – fyrstu þrjár myndirnar voru Vagabond eftir Agnesi Varda, Unmarried Woman eftir Paul Mazursky, Le Fantôme de la liberté eftir Luis Buñuel og í gærkvöldi horfðum við á Hymyileva Mies eftir Juho Kuosmanen með vini okkar Jarkko Lahti í aðalhlutverki. Jarkko á hús á Flateyri – eða ég held hann hafi ekki selt það enn – ásamt fyrrverandi konu sinni. Hann var hér á síðustu páskum en við rákumst á hana á Aldrei á helginni. Myndin fjallar um boxarann Olli Mäki og tækifæri hans til að verða heimsmeistari í boxi á sama tíma og hann verður ástfanginn. Þetta er sannsöguleg og afskaplega falleg og mikil feel-good mynd. Ég veit ekki hvort það er miklu meira um hana að segja samt. Hún lýsir tíma sínum, 1962 minnir mig að hún gerist, og fjallar kannski ekki síst um óþolið fyrir athyglinni, fyrir sirkusnum – og er fyndið auðvitað í ljósi þess sirkus sem við lifum við í dag. Olli Mäki kemur frá Kokkola til Helsinki og lendir beint í heimspressunni og stöðugum myndatökum og veseni – á sama tíma og hann er einmitt hvínandi ástfanginn og getur vart um annað hugsað. Aldrei fór ég suður var haldin um helgina. Hápunkturinn hjá mér var þegar Salóme Katrín flutti Wuthering Heights – það var ofsalegt. Hápunkturinn hjá Aram var að sjá Bagdad Brothers – hann fór heim og náði í trommukjuðana sína og leitaði uppi trommuleikarann og fékk hjá honum eiginhandaráritun. Annars sá ég talsvert minna en ég hefði viljað – missti t.d. af Hórmónum, sem var mjög leiðinlegt, og Ayia með Ástu vinkonu minni. Ég var með matarboð á föstudeginum og við sein af stað og svo var ég á barnavaktinni og fór heim með krakkana upp úr tíu. Þá sáum við eiginlega bara Þormóð systurson minn – hann er eiginlega sigurvegari hátíðarinnar, það hefur hreinlega aldrei verið jafn fullt í húsinu og þegar hann var á sviðinu. Var ekki nokkur séns að komast inn – nema fyrir börnin sem gátu smogið sér milli lappa fólks. Á laugardeginum var ég svo að vinna á aldreibarnum og þar heyrði maður lítið sem ekkert. Þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana á föstudaginn (Elías, fyrstu bókina) horfði ég á nýjasta þáttinn af Star Trek og síðan svona hálftíma á Zizek-Jordan Peterson debattinum. Ég er eiginlega ósammála öllum um það tiltæki og finnst hreinlega til fyrirmyndar að debatt sé gerð umgjörð sem hentar sjónvarpstækjum um veröld alla. UFC fyrir heilann. Svo eru hugmyndir vondar eða góðar en öll umræða um hugmyndir er góð. Peterson er eins langt frá mér í pólitík og heimspeki og nokkur maður getur orðið, og ekki finnst mér hann sérlega gáfaður, en mér finnst ekki fullkomlega gagnslaust að hlusta á hann. Kannski bara vegna þess að ég er kominn með svo mikla leið á því að hlusta á langar keðjur af stuttum hugsunum – að fá heiminn í tístum og statusum, sem hverfa jafn óðum – og ég sakna þess hreinlega að fá þannig umræðu, lifandi umræðu frekar en bókfasta, í lengri og ítarlegri skömmtum. Þegar maður er svangur er allur matur góður. Ég hef aldrei skilið hvers vegna Zizek féll af stalli og fór að þykja hallærislegur – eiginlega finnst mér að fyrst vinsældir hans og svo óvinsældir hjá cool kids liðinu séu bæði til marks um sauðshátt samfélagsins, hvað við erum gjörn á að stökkva á eftir einhverjum bendingum um hvað sé hot og hvað sé not og finnast svo það sama og síðasta manni. Í sjálfu sér er Zizek þekktari stærð í dag en fyrir 10 árum og kannski er það bara þess vegna. En hugsun hans er aldrei óáhugaverð – ekki einu sinni þegar hann er að endurtaka gamlar lummur frá sjálfum sér, sem hann gerði mikið í þessum debatt (eða því sem ég sá af honum). Kannski var hann í þessum best off gír vegna þess að hann taldi sig hafa mikið af nýjum áheyrendum – og það gæti verið rétt. Það sló mig reyndar líka að líberal-fólkið – GíslaMarteinarnir, sem dómínera svolítið á samfélagsmiðlum – geti ekki ímyndað sér neitt verra en að samfélagsumræðan eigi sér stað á ásinum milli svartsýnnar íhaldssemi og svartsýnnar byltingarstefnu. Líberalisminn hvílir á hamslausri bjartsýni og framfaratrú – sem felur reyndar í sér að allir sem eru ósammála þeim séu smám saman að deyja út (fun fact: nei), sem er auðvitað dálítið sínískt. Helstu viðbrögðin sem ég sá við þessum debatt voru eins konar and-debatt – hvað gæti maður kallað það, frávísun? Twitter fylltist af fólki sem stakk puttunum í eyrun og sagði BLABLABLABLABLA LÚSERAR. Það gerði mig furðu leiðan, jafnt þótt ég gæti tekið undir að annar þeirra sé svolítill lúser – af því mér finnst þetta vera orðið viðbragðið við óttalega mörgu. Svona grobbin idíókrasía – einsog fólkið sem montar sig nánast af því að lesa ekki bækur. Maður á að lesa bækur og maður á að takast á við þær hugmyndir sem eru sentral í menningu manns á hverjum gefnum tíma. Brett Easton-Ellis var annars að skrifa einhverja bók um hvað þúsaldarkynslóðin sé miklir aumingjar. Einhver skemmtilegasti útvarpsþáttur sem ég hef hlustað á var þegar BEE bauð til sín Ezra Koenig, gítarleikaranum í Vampire Weekend, til að debatera einmitt þetta. BEE kann að þrátta og gera það skemmtilega og – líkt og t.d. Zizek – þá segir hann frekar eitthvað heimskulegt en eitthvað óáhugavert, sem mér finnst alltaf kostur (vegna þess að hið heimskulega anímerar mann en hið óáhugaverða svæfir mann). Svo fór hann í viðtal við Sunday Times og sagði að þúsaldarkynslóðin læsi ekki bækur og þetta tók Twitter nærri sér – bara af því þau læsu hann ekki þá þýddi það ekki að þau læsu ekki bækur. Will Self var einhvern veginn dreginn inn í þetta líka – sem er í talsvert meiru uppáhaldi hjá mér en BEE. Það sló mig að þegar þeir Self og BEE voru um tvítugt, í byrjun níunda áratugarins, var ábyggilega miklu, miklu, miklu meira lesið en í dag. Og kannski miklu, miklu, miklu, miklu meira. Í öllu falli er alveg ljóst að bókamarkaðurinn hefur hrunið á síðustu 20 árum – ekki bara kaupir fólk færri bækur og les færri bækur heldur les það færri og færri titla, lesturinn dreifist minna. Heilt yfir er það ungt fólk sem les minna – þótt t.d. í Bandaríkjunum skiljist mér að fólk lesi fleiri ljóðabækur en áður (og þær eru vel að merkja styttri og metsöluljóðlist síðustu tíu ára er umtalsvert auðveldari aflestrar en ljóðlistin tíu árin þar á undan). Ég ræddi nýlega við menntaskólakennara sem vildi meina að margir unglingar væru beinlínis stoltir af því að lesa ekki neitt – á meðan að unglingar af okkar kynslóð hefðu verið líklegri til þess að ljúga því að þeir hefðu lesið eitthvað sem þeir lásu ekki, þá lægi við að sumir unglingar í dag ýktu stöðuna í hina áttina og segðust ekki hafa lesið bækur sem þeir hefðu þó lesið. En svo er þetta líka einhver viðhorfsbreyting. Svartsýnin á undir högg að sækja. Self og BEE finnst kannski æskan glötuð í dag en þeim fannst æskan líka glötuð árið 1985, þegar þeir tilheyrðu henni. Þeir koma báðir upp úr pönkinu, inn í kókaínbrjálæði tíunda áratugarins, í restina af einhverju tímabili sem ég sé alltaf fyrir mér sem gullöld intelektúalismans – frá svona 1970 til 1985. Það er auðvitað vel hugsanlegt að þetta sé kolrangt hjá mér. Ég var sjö ára árið 1985. Þeir líta á hlutverk sitt í heiminum – einsog margir intelektúalar hafa gert í gegnum tíðina – sem það að segja fólki til syndanna, bókstaflega, frekar en að fagna því hvað allir séu frábærir. Ég er að spá í að lesa þessa bók hans BEE – hún er áreiðanlega ekki hálft eins leiðinleg og fólkið sem henni er stefnt gegn heldur fram. *** Gítarleikarar vikunnar eru tveir – Adrian Smith og Dave Murray.