Fáein orð um tilvist jólasveinsins

Jólasveinninn er til. Jólasveinarnir eru líka til. Frankensleikir er til. Þetta vita allir sem hafa nokkru sinni fengið í skóinn eða lesið jólabók. Jólasveinninn á heima á norðurpólnum, í Rovaniemi í Finnlandi, á Akureyri og með bræðrum sínum uppi á hálendinu. Á hverju ári rísa þeir úr gröfum sínum og brjótast inn á heimili fólks – innum gluggana, ofan í strompana, leysast upp og svífa í gegnum lofttúður, líkamnast svo aftur, borða mjólk og smákökur og lesa bréfin sem börnin hafa skilið eftir í skóm sínum. Svo gefa þeir í skóinn eða sokkinn eða eitthvað annað. Þetta er alþekkt. Í sumum löndum, aðallega einu fyrrverandi heimsveldi, er aðstoðarmaður jólasveinsins þeldökkur maður sem kallaður er Svarti Pétur. Jólasveinarnir fara um allan heim en ekki til þeirra sem ekki trúa á þá og ekki til þeirra sem hafa aldrei heyrt á þá minnst og alls ekki til fullorðinna. Maður verður fyrst fullorðinn þegar maður hættir að fá í skóinn – en það gerist á afar misjöfnum aldri. Jólasveinninn er kynlaus og barnlaus, giftur frú Santa Claus og eiga þau saman dálítinn her af álfum og átta eða níu hreindýr, þar af eitt sem heitir Rúdolf og er með rautt nef. Jólasveinninn er ekki þríeinn einsog drottinn heldur þrettáneinn – eða oftast nær núorðið, en hann hefur verið allt að því sjötíuogsjöeinn. Allur var hann sjöfaldur og sjötíuogsjöfaldur sonur Grýlu og Leppalúða – eitt sinn hrekkjóttur útilegumaður og síðan vinalegur bumbukarl í kókauglýsingu en nú hann uppvakningur, samansaumaður af Fjólu Garðarsdóttur, sögupersónu í bók sem ég skrifaði og er nýkomin út. Fjóla Garðarsdóttir er til. Hún er systir Hrólfs Garðarssonar og dóttir Garðars Flautland Garðarssonar og Brynju Vídalín. Ekkert af þessu á fólk erfitt með að skilja.