Að klæða sig úr menningunni

Í gær sá ég auglýsingu frá aktívistum þar sem fólk var beðið um að klæðast ekki sem „þjóðerni, kynþáttur eða menning“ í tilefni af hrekkjavökunni og varð mikið hugsi. Í fyrsta lagi hafði ég nýrætt við dóttur mína sem var á leiðinni á grímuball. Hún hafði tilkynnt mér að hún væri hætt við að nota draugakisubúninginn sem hún gerði með ömmu sinni og ætlaði að geyma hann fyrir útgáfuhóf Frankensleikis á mánudag (þegar hin eiginlega hrekkjavaka gengur í garð). Hún og vinkona hennar höfðu gert eitthvað nýtt plan – en heyrði ég hvað hún sagði áður en hún stakk af? Hún sagði ekki indíánaprinsessa, var það nokkuð? hugsaði ég. Guð, þarf ég nú að fara að leita barnið uppi og banna henni að vera indíánaprinsessa? Einsog ég hafi ekkert betra við daginn að gera. Ég lét það vera, af því ég er samviskulaus þrjótur sem ber enga virðingu fyrir svonalöguðu, og af því ég var ekki viss og þegar hún kom heim í kvöldmat kom í ljós að hún var bara einhver abstrakt týpa með stjörnur og dót á kinnunum og alls ekkert menningarlega óviðeigandi. Mannorði mínu var borgið. Það sem olli mér hins vegar enn heilabrotum var lokaliðurinn í skilaboðunum. Að maður ætti ekki að klæðast „sem menning“. Þetta bókstaflega bergmálaði í höfðinu á mér í allan gærdag. Auðvitað hlaut að vanta þarna orð – þetta hlaut að eiga að vera „menning annarra“ því maður hlýtur að mega klæðast sem sín eigin menning? Og segjum það. Segjum að það sé í lagi. Hvernig klæðir maður sig þá „sem [sín] menning“? Ég man eftir endalausum vangaveltum frá því ég var ungur um hvað menning væri – nærri því allir sem ég umgekkst á árunum eftir tvítugt voru að læra heimspeki. Frægustu skilgreiningarnar voru þær að menning væri a) hvaðeina sem mannskepnan tekur sér fyrir hendur eða b) að gera hlutina vel. Seinni skilgreiningin er komin frá Þorsteini Gylfasyni sem sagði í frægri grein að menning væri t.d. að sjóða ýsu akkúrat passlega, þannig að hún losni frá beininu en ofsjóði ekki. Hér var samt augljóslega átt við eitthvað annað – ekki það að maður ætti ekki að klæða sig sem nýsoðin ýsa. Og ekki gat þetta heldur átt við það að klæða sig upp sem þjóðerni  eða kynþátt (sem var það sem ég óttaðist að dóttir mín ætlaði að gera) heldur var þetta eitthvað enn annað. Einhver þriðja kategóría. Mér datt í hug að kannski væri verið að meina að gagnkynhneigður karl ætti ekki að vera „hommi“ á grímuballi. Og í stað þess að fara að telja upp „kynhneigð, kyngervi, kyn, trúhneigð“ o.s.frv. væri þetta „menning“ notað til þess að vísa til margs sem erfitt væri að koma fyrir undir einum hatti – eitthvað svona „ég þekki það þegar ég sé það“-dæmi. Svona „þessu hefðirðu nú betur sleppt“-dæmi. Sem er auðvitað svolítið ósanngjarnt gagnvart okkur miðaldra körlunum – því þetta „menningarlega“ rænuleysi er nánast skilgreiningin á því hverjir við erum. Ef við hefðum hugmynd um hvað væri í móð og hverjar óskrifaðar reglur samfélagsins væru, þá værum við sennilega alls ekki miðaldra karlar. Og hér má reyndar halda til haga þá líka mikilvægi þess að fólk geti notað grímubúninga til þess að tjá eitthvað sem það þorir ekki að gera í hversdagslegra samhengi – t.d. gæti grímuball verið tækifæri fyrir karl í skápnum til þess að máta sig við hlutverkið „í gríni“ (en að sama skapi gæti það samt verið móðgandi fyrir þá sem vilja ekki láta grínast með sjálfsmynd sína). Svo ég haldi nú áfram að blanda dóttur minni í þetta höfðum við einmitt kvöldið áður, þ.e.a.s. í fyrrakvöld, væri að ræða það að tíska – það að klæða sig – væri menning. Að maður notaði fötin til að segja eitthvað um sjálfan sig og oft væri það mjög óljóst hvað maður væri að segja. Ég væri til dæmis ekki viss hvað ég ætti við með því að ganga með kúluhatt en augljóslega væri ég að segja eitthvað. Sjálf tók hún dæmi um ólíkan fatnað sem hún klæðist eftir því hvort hún er kát eða leið. Að klæðast sem „menning annarra“ er þá kannski ef hún myndi setja upp hattinn – sem hún hefur gert ótal sinnum, einsog bróðir hennar, og alltaf segjast þau þá „vera pabbi“. En auðvitað er ekki heldur átt við það – þá væru allir grímubúningar í raun bannaðir, því eðli málsins samkvæmt eru þeir alltaf í þessum skilningi „menning annarra“. Þegar ég tek niður hattinn er ég að þykjast vera þið. Nei, inn í þetta vantar einmitt valdgreininguna – það má ekki stíga yfir tilteknar línur og leika þá sem við teljum vera neðar í hírarkíu lífsins. Ekki að það séu endilega alltaf mjög skýrar línur (einsog má t.d. sjá á átökunum í verkalýðshreyfingunni, þar sem fólk keppist um að vera með heppilegasta/trúverðugasta bakgrunninn með bæði skapandi lýsingum og uppnefnum) en þær eru það stundum. Þannig væri t.d. fyndið ef transmanneskja myndi mæta á grímuball sem einhver sístýpa; en ekki öfugt. Ég tel sem sagt að ég skilji hvað átt sé við þótt mér finnist orðalagið óheppilegt (einsog hráþýddur amerískur hugsunarháttur – sem er sennilega vinsælasta tegund menningarnáms þessi misserin) – ég starfa við menningu, í menningarbransanum, menning er mín menning, og þegar ég hugsa um menningu hugsa ég um eitthvað allt annað en þetta. Samkvæmt minni innilegustu skilgreiningu á menningu er ekki hægt að komast hjá því að klæðast sem menning og raunar ekki heldur sem menning annarra – því öll menning er arfur og samstarf og hópverkefni sem maður á afar lítið í sjálfur, svona prívat og persónulega – og maður er alltaf klæddur, alltaf með grímu, meira að segja þegar maður er nakinn.