Akkilesarhnéð

Ég er kominn í veikindaleyfi. Fór í körfubolta í gærkvöldi – gegn betri vitund, í fyrsta skipti í 25 ár – og þegar það voru 2 mínútur eftir rústaði ég á mér hnénu. Það var annað hvort það eða fingurnir. Það á enginn – nema í besta falli Zlatan – að leika boltaíþróttir eftir fertugt. Þetta gerðist þegar ég stökk upp á miðjum velli – fjarri öðrum leikmönnum – til þess að ná bolta sem var á leiðinni yfir mig. Ég var að hlaupa á ská afturábak og lenti líka þannig á talsverðum hraða – það kom slinkur á hnéð og ég hrundi í gólfið með harmkvælum. Leikurinn stoppaði ég og ég haltraði út af, setti upp fótlegginn, og fannst mjög fljótlega að kannski væri ég að gera mikið úr engu. Sársaukinn fjaraði hratt út og hnéð virtist virka einsog það á að gera. Leikurinn hófst aftur, við töpuðum (held ég, ég var að hugsa um annað) og síðan ætlaði ég að sýna strákunum hvað hefði gerst og þá – við nánast ekkert átak – gaf hnéð sig aftur. Þá áttaði ég mig á því að það var undarlega valt. Ég fór varlega í sturtu, Háli fylgdi mér svo heim og ég tók bílinn til að sinna tveimur einföldum erindum. Kom svo aftur heim, gekk frá íþróttafötunum mínum og hrundi svo bara inni í þvottahúsi. Þurfti að kalla á hjálp. Aino kom og náði svo í mömmu sína sem hjálpaði mér upp í sófa. Ég komst sjálfur í rúmið síðar um kvöldið og fór niður eftir verkjalyfjum og kuldapakkningu í nótt, þegar ég gat ekki sofið, og gat bjargað mér um morgunmat og kaffi áðan. Ég reif kálfann tvisvar á hlaupum í ár. Fyrst í vor og síðan í sumar. Það var eiginlega ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka mig svolítið í gegn. Síðustu tvo mánuði hef ég verið duglegur í ræktinni og jóga – látið óhollustu að mestu vera – og hef bæði styrkst og lést mikið. Og átti enn mánuð eftir. Planið var að láta af meinlætinu þegar ég héldi mitt síðbúna útgáfuhóf, 10. desember. Ég reyndi að athuga með að hitta lækni en það er enginn tími laus fyrren undir lok mánaðarins. Mér finnst einhvern veginn yfirdrifið að vera að biðja um röntgen á svona skaða eftir mánuð. Mér skilst að vísu að svona nokkuð geti tekið langan tíma en ég vona nú samt að eftir mánuð verði þetta a.m.k. á réttri leið af sjálfu sér (og með léttum æfingum). En ef ég bíð og bóka ekki tíma og þarf hann eftir mánuð þá þarf ég væntanlega að bíða í annan mánuð? Þessi mánuður verður nú eitthvað líka. Ég er með nokkra upplestra nú í vikunni og svo er ég bara farinn af stað – fyrst til Slóvakíu og verð svo í Reykjavík. Það hefði verið ákjósanlegra að vera sæmilega á sig kominn. Sem ég var! Í gær var ég sterkur, fótfrár og léttur á mér og nú er ég örvasa. Ég ætla að rölta til pabba á eftir og fá hjá honum staf. Annars bættist við eitt gigg hjá okkur Diddu á Tálknafirði á laugardag. Og það er búið að útfæra tónleikagiggið í Hömrum – við krakkarnir leikum tvö lög og ég les smá og það verða veitingar. Mánudag klukkan átta. Æfingar standa yfir. Ég les og leik sitjandi.