Sögulegir viðburðir

Ég hef vanið mig á að horfa á Kiljuna yfir morgunmatnum á fimmtudögum. Í gegnum tíðina hef ég nú bara litið á hana þegar mig langar að sjá eitthvað tiltekið viðtal eða tiltekna umfjöllun – ég horfi mjög lítið á sjónvarp þar sem ekki er beinlínis verið að segja mér sögu. En upp á síðkastið hef ég tekið kiljuna með granóla og kaffibolla þegar börnin eru farin í skólann og Nadja í vinnuna. Það er bara frekar næs. Í morgun (eða í gærkvöldi, þá) var góður og vel verðskuldaður dómur um nýja skáldsögu Fríðu Ísberg, Merkingu. Og svo var skemmtilegt viðtal við Hörpu Rún Kristjánsdóttur um sína bók, sem ég er spenntur fyrir, ekki síst öllu kynlífinu í sveitinni, mér finnst allt svoleiðis alveg æðislegt. Harpa virðist líka vera nágranni bróður míns, sem á heima á Hróarslæk undir Heklurótum. Ég reyndi að gúgla bænum hennar til að sjá hvort þetta væri alveg handan hornsins en fann ekkert út úr því. Næst verð ég ábyggilega farinn að líta í Íslendingabók til að vita hvort rithöfundarnir í Kiljunni séu skyldir mér. Guðni Elísson mótmælti því í viðtali við Fréttablaðið að HMS Hermann væri Hermann Stefánsson. Ég ætla ekki að rífast við höfundinn – enda kemur honum minn lestur í sjálfu sér lítið við, undarlegt að vera rétt byrjaður á bók og strax kominn með rithöfundinn inn á gafl hjá sér að leiðrétta mann. En ég held að ef Guðni vildi ekki að maður ruglaði saman Hermanni og Hermanni þá hefði honum verið í lófa lagið að láta Hermann sinn ekki búa í sömu kjallaraíbúð og Hermann hinn. Jón Bjarki og Hlín, vinir mínir, litu í heimsókn á dögunum og sýndu myndina sína – sem Jón leikstýrði og Hlín gerði tónlist við og framleiddi. Hálfur Álfur heitir hún og fjallar um afa Jóns Bjarka og leið hans inn í álfa- og eftirheima. Það er erfitt að lýsa henni svo vel sé – afinn er svo sérstakur maður og stemningin í myndinni líka sérstök. Skemmtileg, falleg og sorgleg eru allt of víðtæk orð en sennilega kemst maður ekkert nær því nema með einhverjum ritgerðum. Það var afar gaman að hafa þau í heimsókn. Svo var ekki síður gaman að hafa gengið sem kom á ráðstefnuna „Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða“ hérna á síðustu helgi. Þar var einmitt umræddur Hermann Stefánsson, og virtist alls ekki með böggum hildar (einsog áðurnefndur Guðni hefur lýst honum í fjölmiðlum). Birna Bjarnadóttir var þarna líka – hún er einhvers konar skríkjandi náttúruafl og gæðir allt í kringum sig lífi. Þröst Helgason hafði ég varla hitt nema í mýflugumynd áður og það var gaman að kynnast honum. Öðrum kynntist ég minna en náði að hlýða á áhugaverð erindi Árna Heimis og Johnny Lindholm um Ólaf á Söndum. Sem orti meðal annars: Oft vill því mín öndin angra mig,
því verðugan hefndarvöndinn hún veit á sig,
sturlan á hana stríðir,
straffinu við hún kvíðir. Sem mér fannst auðvitað kjarna sálarástand mitt ágætlega í miðju jólabókaflóði. Ég spurði málfarsráðunauta mína á Facebook hvernig þeir teldu best að fallbeygja titil bókarinnar minnar. Það er enginn í bókinni sem heitir Einlægur Önd – en aðalsöguhetjan, Eiríkur Örn (sem á EKKERT skylt við mig, þetta er sannarlega engin lykilskáldsaga og ég get sannað það með drögum frá 1835), er uppnefnd Eiríkur Önd á einum stað. Flestir virðast vera á því að Önd eigi að beygjast einsog hjá Andrési (Önd/Önd/Önd/Andar) – ætli það sé þá ekki trakterað einsog ættarnafn? En það er auðvitað staðgengill millinafns og spurning hvort það eigi þá að beygja það einsog Örn – Önd/Önd/Endi/Andar. Svo er það Einlægur. Bent hefur verið á að jafnan þegar lýsingarorð verði að nafnorðum taki þau nafnorðsbeygingu en ekki lýsingarorðsbeygingu. Þannig sé talað um hestinn Rauð, en ekki hestinn Rauðan. Það er hins vegar freistandi að segja frá „Einlægum Endi“ þótt ekki sé nema vegna þess að endirinn á auðvitað að vera einlægur (og er það). Sjálfur hallast ég að því að beita blandaðri þverfaglegri nálgun á þetta og segja: Einlægur Önd Einlægan Önd Einlægum Endi Einlægs Andar En ég er ekki einu sinni viss um að ég sé sammála sjálfum mér í þessu. Það hafa bæst nokkrar uppákomur á bókaflóðsdagatalið . Við Didda, sem ætlum annars í nágrannabæina, ætlum að svara eftirspurn og hitta líka lesendur á Ísafirði. Það verður í Bókhlöðunni (Eymundsson) föstudaginn 5. nóvember klukkan 17. Mér var boðið að koma og lesa upp í tónlistarskólanum með því skilyrði að ég tæki með mér hljómsveitina mína, Sjökvist, og við lékjum tvö lög, eitt á undan og eitt á eftir upplestri. Fyrir þá sem ekki vita það er ég í hljómsveit með börnunum mínum, Aram og Aino. Þau spila á bassa og trommur og syngja og semja en ég útset og spila á gítar. Hljómsveitin hefur aldrei komið opinberlega fram, svo þetta er sögulegur viðburður. Við Fríða Ísberg verðum saman í panel á Bókamessunni í Reykjavík, 20. nóvember, klukkan 15 í Rímu. Við ætlum ekki að lesa upp heldur ræða um bækurnar okkar – það er eitthvað af sameiginlegum þráðum sem okkur tekst vonandi að rekja saman. Mér var boðið að koma að lesa í Jólabókadagskrá Bókasafns Hafnarfjarðar. Það er 2. desember klukkan 19.45. Þegar ég skrifaði upp viðburðadagatalið var ég nýbúinn að líma einhverjar endur inn á Íslandskort þegar kápuhönnuðurinn snjalli, Jóhann Ludwig, hafði pata af því að ég væri að fara á rand og sendi mér – óumbeðinn og þess óvitandi að ég væri að gera þetta – þessa fallegu mynd. Sem fór svo auðvitað með viðburðadagatalinu. Annars er allt ágætt að frétta. Ég er pínu úttaugaður af kaffidrykkju og tölvupóstsendingum og því öllu saman. Skrifstofustörfum. Það er líka flensa á heimilinu sem gerir allt brölt aðeins brattara. En annars bara óvenju góður.