Því er stundum haldið fram að túristabylgjan á Íslandi gæði landið aukinni fjölbreytni. Að við njótum nú samneytis við alls kyns ólíkt fólk – allra þjóða kvikindi, beinlínis. En þegar ég horfði yfir mengið einsog það birtist mér sýnist mér hópurinn eins hómógen og hægt er að hugsa sér. Þetta er fólk á sama aldri – 55 til 70 – hvítt og einstaka sinnum asískt, forréttindafólk úr efri millistétt (já, það er búið að segja mér að það sé ljótt að minnast á að ekonómískar forsendur fólks séu ólíkar), í sams konar fötum með sams konar lífssýn (sýnist mér úr fjarlægð). Það er milt í skapi en of bergnumið til þess að taka eftir nærumhverfi sínu. Það gapir á fjöllin og gengur svo beint fyrir reiðhjól dóttur minnar, sem nær með naumindum að afstýra stórslysi. Það upplifir húsin sem dúkkuhús – liggur á gluggum, gengur inn og spyr hvort hér „búi einhver“ – upplifir náttúruna sem afskekktan heimsenda þar sem óhætt sé að kasta af sér hlandi og saur (því hver á svo sem leið hér um aftur fyrren í fyrsta lagi á næstu öld?). *** En já, nú hljóp ég svolítið út undan sjálfum mér. Ég ætlaði bara að benda á hversu mikið túristarnir líkjast hver öðrum. Sérstaklega skemmtiferðaskipafólkið. Þeir eru miklu líkari hver öðrum en við einangraðir eyjaskeggjar eða útnárahillbillíar erum líkir innbyrðis. Ísafjörður er aldrei eins einsleitur og þegar hann fyllist – og já hann fyllist þegar tæmt er úr tvö þúsund manna skemmtiferðaskipi yfir bæinn – af túristum. *** Það er mikilvægt að ferðast þótt við – ekki síst ég – ferðumst alltof mikið. Mér skilst að Vestfirðir séu stóriðjulausir – og nei laxeldi er ekki stóriðja, það er búskapur, en hugsanlega og sennilega er hæpnara að láta einsog skemmtiferðaskipin séu ekki stóriðja. Mengunin úr þessum skipum er í það minnsta stórfengleg – alveg sturluð. Og þau fá ekkert rafmagn í höfn, til þess er engin aðstaða – hvorki hér né í Reykjavík skilst mér – heldur ganga bara mótorarnir allan sólarhringinn.