Untitled

Einar Kárason úthúðaði mér – eða Starafugli/Sterafugli – á Facebook (hann fékk slæman dóm í vor sem hefur hangið á forsíðu í sumarfríinu). Snæbjörn danski dásamar Þórdísi Gísladóttur á blogginu sínu. Bragi Ólafsson „hjólar í“ Stefán Mána á sínu bloggi. Þarf ég þá ekki að tjá mig um einhvern kollega minn í bókmenntaheiminum? *** Mér sýnist trendið vera að tjá sig um einhvern yngri. Ungskáld. *** Ég man (óljóst en greinilega) að Sverrir Norland skrifaði einu sinni fordómafullan pistil á Facebook um fólk sem hleypur í dýrum skóm eða íþróttabolum, en ekki gömlum skóm sem það keypti í tíunda bekk – voru einhvern tíma hvítir eða bláir en eru gráir í dag – og ljótasta bolnum í skápnum. *** Fólk sem er annað hvort ungt og þarf ekki að hafa áhyggjur af að meiða sig eða með líkama sem voru einfaldlega gerðir fyrir hlaup hleypur kannski þannig til fara. Í dag hlaupa miklu fleiri, til dæmis ég. Og við þurfum bara spelkur og fjöðrun og klæði sem „anda“. *** Ég var rosa reiður þegar ég las þetta og er enn. *** Ef ég hleyp í lélegum skóm meiði ég mig nefnilega (fann ekki nýju skóna mína í fyrradag og hljóp í gömlum = er núna haltur og get ekki hlaupið næstu sirka tíu dagana). *** Ef ég hleyp án svitabands sé ég ekkert fyrir svita og er rauður í augunum í viku. Ef ég hleyp í venjulegum sokkum fæ ég viðbjóðslegar blöðrur sem valda mér gríðarlegum sársauka. *** Ef ég hleyp meira en 7-8 kílómetra í bómullarbol blæðir úr geirvörtunum á mér. Það blæðir! Er það þetta sem unga kynslóðin í íslenskum bókmenntum vill? Að það blæði úr geirvörtunum á mér? Ég missi sjónina og verði ógöngufær, með rifna vöðva, sinar, molnuð hné og blóðugar tær? *** Og er ég kannski ekki nógu góður til að verðskulda þráðlausa heddfóna? Vill Sverrir Norland kannski að ég fari út að hlaupa með vasadiskóið sem ég keypti mér fyrir blaðburðarpeningana mína þegar ég var 11 ára? Eða kannski plötuspilarann sem ég erfði frá foreldrum mínum (þegar þau fengu sér nýjan, þau eru enn á lífi). Ég get bara hlaupið í kringum hann. *** Eða ber mér kannski einhver siðferðisleg skylda til þess að „hlusta á alheiminn“. Er ég að „misskilja“ hlaupanautnina? *** Ég get líka sleppt því að þvo mér með sápu á eftir og bara nuddað hlandi í handakrikana á mér. Það kemur víst út á eitt, er náttúrulegra, „sögulega rétt“ og sennilega heilögum Sverri þóknanlegra. *** Það eru að minnsta kosti alveg hreinar línur að ég læt ekki Sverri Norland – eða nokkurn annan – „níða af mér skóinn“.