Við sátum á pizzastaðnum I Love Pizza í Gautaborg, sem Aino hafði valið, þegar sms-skilaboðin bárust um að niðurstaðan í PCR-prófinu mínu væri komin í hús og ég gæti smellt á hlekkinn til að sjá hvort ég væri jákvæður eða neikvæður. Það tók óþarflega langdregnar sekúndur að hlaða síðuna en ég reyndist sem sagt laus við Covid. Léttir minn var talsverður, enda var ég bæði viss um að ég væri helsjúkur og að mér hefði tekist að kalla dauðadóm yfir nokkurn veginn alla sem ég hefði hitt dagana á undan með ábyrgðarlausri hegðun (ég er alltaf að snerta á mér andlitið). Um nóttina sváfum við á Scandic Crown og átum morgunverð í rólegheitunum. Ég fékk líka svar frá yfirvöldum um það hvernig væri best að ég hagaði sóttkví minni í ljósi þess að fella ætti úr gildi rétt fólks til þess að sitja af sér sóttkví á farsóttarhúsi og hver einasta kytra á austurlandi virtist fullbókuð. Þau svör voru ekki alls kostar einföld eða ómótsagnarkennd, ef satt skal segja. Í fyrsta lagi kom fram að ég mætti fara með Nödju og krökkunum til Reykjavíkur og þyrfti ekki að vera í sóttkví frá þeim og þau þyrftu ekki að fara í sóttkví fyrir það að umgangast mig. Fólk í ferðasóttkví mætti umgangast bólusetta. Þetta kom mér nokkuð á óvart svo ég spurði aftur – og bætti þá við hvort hugsast gæti að ég mætti líka gista í Reykjavík hjá vinum mínum sem væru bólusettir? Samskipti við yfirvöld hjá covid.is eru óþægileg að því leyti til að maður fær alltaf svar frá nýrri og nýrri manneskju. Við þessa þriðju eða fjórðu fyrirspurn mína fékk ég því fyrirlestur um hvernig ég ætti að haga minni sóttkví einsog ég hafði aldrei áður átt í neinum samskiptum við þetta yfirvald – og svo móralíseringar um þetta væri nú ekki svo mikið mál og þetta væri ekki svo dýrt af því ég þyrfti bara þrjár nætur – af því tvær væru í bátnum – og þar fram eftir götunum. Það var ekki alveg laust við að mér þætti yfirvaldið vera pínulítið patróníserandi. Fyrir utan að öll þessi aukaútgjöld við ferðina frá Svíþjóð til Danmerkur til Íslands, fyrir próf og vottorð og gistingar, eru löngu orðin meira en tvöfaldur ferðakostnaðurinn – þetta hrúgast hratt upp – og höfuðverkurinn og kvíðinn sem viðstöðulitlar breytingar á reglum (og hótanir um breytingar á reglum) kosta mann fullkomlega sturlandi á köflum. En ég spurði nú aðallega til að vita hvort ég mætti þetta, frekar en að ég ætlaði að gera það – og það má en segja má að hið opinbera hafi sagt það siðferðislega óréttlætanlegt. Næst þurfti ég því að redda mér hótelgistingu í Reykjavík. Það er ekki hægt að sjá á bókunarvefum hverjir bjóða upp á sóttkvíargistingu en það er listi á covid.is yfir þau hótel sem bjóða upp á slíkt og netföng með. Ég byrjaði á því að skrifa hverju einasta hóteli í Reykjavík samhljóðandi bréf – þau voru 27 talsins – og næstu klukkustundirnar tók ég á móti hverju höfnunarbréfinu á fætur öðru. Í sem stystu máli var laus ein íbúð fyrir rúmlega 300 evrur sólarhringurinn og eitt hótelherbergi fyrir 490 evrur nóttin (plús 28 evrur per nótt fyrir valfrjálsan morgunmat). Á hvorugu hafði ég ráð svo ég brá á það ráð að lesa vel yfir listann yfir hótelnöfnin á covid.is og reyna svo að nota booking.com til að finna laust herbergi einhvers staðar – í krafti þess að nöfn þeirra hótela sem byðu upp á sóttkví myndu sitja í skammtímaminninu og ég gæti borið saman ef eitthvað sýndist ganga upp. Þannig fann ég eitt herbergi í Kópavogi sem mitt síþynnandi veski ræður við. Til þess að bóka það þurfti ég að senda staðfestingu frá covid.is um að ég þyrfti ekki að vera fimm nætur heldur þrjár, vegna þess að ég væri að koma með bátnum – og sannaðist eina ferðina enn að það borgar sig að passa bara í alla kassa bjúrókrasíunnar, en vera ekki með aðskilin lögheimili, einn bólusettur og annar ekki, ferðast í gegnum önnur lönd á bíl sem er skráður í þriðja landi, og ferðast á skipi en ekki flugvél. Þannig er maður bara að biðja um að láta refsa sér með aukaveseni. Eftir morgunmat tókum við bátinn frá Gautaborg til Frederikshavn í krafti PCR-prófs míns og covid-ferðapassa Nödju. Og bernsku barnanna. Danmörk er allt annað land en Svíþjóð og það var einhvern veginn áberandi alveg frá fyrsta augnabliki. Vegirnir, húsin, skiltin, fólkið, fyrirtækin – allt er þetta einhvern veginn alls ekki sænskt í Danmörku. Við keyrðum frá Frederikshavn til Hirtshals og fórum þar beint niður á höfn þar sem Nadja var skilin eftir til að taka antigen-próf á meðan við börnin fórum og tékkuðum inn á hið allsendis dásamlega Hotel Hirtshals, alveg við höfnina. Augnabliki eftir að við tékkuðum inn var Nadja búin í prófinu og ég skildi krakkana eftir og fór og sótti hana – í bílnum á leiðinni til baka fékk hún sína niðurstöðu og reyndist einnig neikvæð. Gudskelov. Það var því eðlilega hugur í fólki. Við Aram fórum út að hlaupa – hann var svolítið sloj og fór bara tvo kílómetra, en ég fór fjóra og hljóp í brekkum og var með alls konar stæla. Nadja og Aino fóru líka út að hlaupa saman en voru mest á ströndinni að djöflast eitthvað. Svo fór Nadja að leita að þvottahúsi og fann það en reyndist þá ekki með neina danska mynt og þurfti frá að hverfa. Henni til hugarþægðar fór ég út og keypti mér nýjan hlaupabol – en hún þvoði nú samt hinn í vaskinum og hann lyktar alls ekki jafn illa og sumir vilja meina. Um kvöldið átum við á kránni í næsta húsi. Það var í sjálfu sér ágætt þótt það yrðu ruglanir með pantanir – þjónninn var ungur og ringlaður og það var meira að ég vorkenndi honum en léti ruglið fara í taugarnar á mér. Maturinn var fínn og við vel stemmd. Það var helst í morgun þegar ég uppgötvaði að hann hafði rukkað – og ég greitt, athugasemdalaust – 1.600 danskar krónur fyrir mat og drykk sem hefur alls ekki getað kostað meira en þúsund (og sennilega minna en það). Líklega höfum við fengið reikning fyrir rangt borð og ég í senn of góðglaður af bjór og kvíðaogléttisskiptavanda yfir öllu sem gæti farið úrskeiðis og því sem hafði þó reddast og þjónninn of ungur eða nýbyrjaður til við áttuðum okkur á þessu. Fyrren sem sagt við vorum farin frá Hirtshals. Nú í morgun var ég alveg sannfærður um það í nokkur augnablik að ég hefði misskilið brottfarartíma skipsins og við hefðum misst af því og nú væri allt í hassi. Það var engin umferð niður á höfn – og Norræna, sem gín yfir Seyðisfirði einsog fjallið eina, sást hvergi. Með alla þessa bjúrókrasíu í hausnum er ég í sjálfu sér mjög hissa að hafa ekki gleymt neinu algerlega beisik einsog komutíma skipsins. Einsog passanum mínum eða að fara í buxur á morgnana. Mamma þurfti að minna mig á það í gærkvöldi að fylla út í komuyfirlýsinguna á covid.is – sem ég vissi ekki hvort þyrfti að vera tilbúin fyrir byrðingu eða fyrir komu, en reyndist svo vera mitt á milli: hana þarf að sýna á barnum eftir klukkan 18 á morgun – og við gengum frá því fyrir háttinn í gær. Í eyðublaðinu var önnur svona bjúrókratísk mótsögn sem er ómögulegt að svara rökrétt – Nadja þurfti að segjast ekki búa á Íslandi (af því hún er enn með lögheimili í Svíþjóð) en samt vera á leiðinni heim (frekar en „í heimsókn“). Ég hljóma ábyggilega einsog ég sé með eitthvert heilkenni að hafa áhyggjur af svona hlutum en vantraust mitt á bjúrókrasíunni – og tiltrú mín á því að skriffinnar geti hengt mann fyrir minnstu yfirsjón, frekar en að þeir hafi með manni samúð eða sýni sveigjanleika – hefur bara gjarnan reynst réttmætt. Já og svo þegar maður er búinn að fylla út í komuyfirlýsinguna fær maður skilaboð um að maður eigi alls ekki að þiggja far með neinum í sóttkví, heldur bara keyra sjálfur, taka leigubíl eða fara með rútu! Samt var nýbúið að tvísegja mér að ég mætti fá far. Dæs! Norræna var auðvitað bara ekki komin í land. Og við vorum snemma í því og mjög framarlega í biðröðinni. Þess vegna var engin umferð og þess vegna sá ég ekkert skip. Við þurftum að bíða í um 40 mínútur áður en byrjað var að hleypa um borð en vorum þá mjög fljótt kominn í stæði. Ég var PCR-prófaður aftur í bílnum þegar sóttkví mín hófst formlega (hér um borð er mér samt frjálst að umgangast alla og fara á veitingastaði o.s.frv.) og það var talsvert minni pína en prófið í Gautaborg. Pinnanum bara svona rétt skotið mjúklega ofan í kok og snúið í nokkrar sekúndur og búið. Nú erum við um borð og höfum það ágætt. Búum í Staraherberginu. Sem er auðvitað viðeigandi. Ég er búinn að versla tollinn. Við erum að sigla undir Noreg. Nadja og börnin skelltu sér í heita pottinn og ég sit á kaffiteríunni og blogga við víðóma undirleik öskurgrátandi smábarna, sem virðast hafa komið sér strategískt fyrir í kringum mig. Fólk er með grímur á göngunum en eyðir mestum tíma á börum og kaffihúsum og þar eru allir eðlilega grímulausir – að troða mat og drykk í grímuleysið á sér. Ég reikna svona heldur með því að ferðin verði tíðindalaus þar til við komum til Seyðisfjarðar ekki á morgun heldur hinn, en maður veit svo sem aldrei. Kannski gerir óveður. Kannski birtist rússneskur kafbátur upp úr hafinu og sökkvir skipinu. Svo á ofurdreifaraviðburðurinn sem ég spáði hér um daginn auðvitað eftir að eiga sér stað. Það getur enn allt farið úrskeiðis.