Ég skildi við ykkur í síðustu færslu um borð í Norrænu á leið til Íslands með viðkomu í Færeyjum. Einu sinni var ég á ferðalagi með Norrænu frá Íslandi til Færeyja og svaf yfir mig og endaði í Danmörku – sá hrakfallabálkur var kannibalíseraður í skáldsöguna Hugsjónadruslan fyrir 100 árum. Í þetta sinn átti ég ekki að fara frá landi og fór ekki neitt. Nema upp á þilfar þar sem ég benti börnunum mínum á skipasmíðastöðina þar sem pabbi þeirra vann í gamla daga, barinn þar sem hann hellti sig fullan og fish’n’chips staðinn þar sem hann borðaði hádegismat þegar hann var ekki búinn að eyða öllum peningunum frá Tórshavnar Skipasmiðja í bjór á Café Natúr – eða, sem var nú sýnu verra, á Mími. Ég var ekkert að segja börnunum mínum frá Mími, þau verða bara að læra um þannig knæpur sjálf þegar þau hafa aldur til. Skömmu eftir millilendingu í Færeyjum voru farþegar kallaðir í pappíratékk. Langar biðraðir mynduðust eftir ganginum við krána þar sem starfsmenn Norrænu fóru í gegnum PCR- og antigen-vottorð og covid-passa auk komuskráninga á covid.is og vegabréf. Ungi starfsmaðurinn sem okkur var úthlutaður var ekki alveg við fulla heilsu. Hann var rauðeygur og sveittur undir grímunni, saug upp í nefið í sífellu og hnerraði einu sinni mjög hressilega inn í grímuna sína. Nadja reyndi að spyrja hann – gamansöm – hvort hann væri svolítið kvefaður, einsog til að létta andrúmsloftið, en honum virtist ekki finnast það neitt fyndið. Við urðum svo sjálf dálítið þungbúnari þegar hann fór að gera því skóna að sennilega myndu börnin þurfa að fara í sóttkví með mér frekar en í sóttkvíarleysið með móður sinni. Niðurstaðan var sú að Nadja fékk grænan miða en ég og börnin fengum appelsínugulan – til að sýna lögreglunni þegar við kæmum í land og þar yrði þetta útkljáð. Ég hafði auðvitað ekki bókað gistingu fyrir börnin enda þóttist ég vita að börn væru undanþegin sóttkví nema foreldrarnir þyrftu að fara í sóttkví og hélt að það ætti þá við um báða foreldrana. Við fórum að ráða ráðum okkar og það meira að segja hvarflaði að okkur (kannski aðallega mér) hvort við gætum þá svindlað á þessu – og kannski héldum við (eða allavega ég) því plani til streitu í korter tuttugu mínútur áður en við fórum að leita löglegri lausna. Ég hafði samband við vin minn sem hafði boðið mér íbúð til láns – eftir að það var orðið of seint að afbóka hótelið – og spurði hvort ég gæti kannski þegið íbúðina eftir allt saman ef til þess kæmi að hennar yrði þörf. Svo athuguðum við hvort við gætum keyrt beint vestur. Bæði var möguleiki. Svo bara drógum við bara andann og ákváðum að gera einsog lögreglan bæði okkur. En áður en við – eða ég, aðallega, dró andann náði ég að fara að rífast við Aram Nóa í kaffiteríunni. Ég hafði beðið hann fremur hranalega inni í klefa að hafa hljóð meðan ég væri að hugsa mig út úr þessum nýjum upplýsingum (eftir að hann hafði ekki hlustað fyrstu fjögur skiptin sem ég bað hann kurteislega að vera rólegan) og til þess að bæta fyrir að vera svona leiðinlegur ætlaði ég að bjóða þeim systkinum upp á eftirrétt. Það fór ekki betur en svo að Aram varð ægisúr þegar ég vildi ekki kaupa tvö súkkulaðistykki fyrir hann – með þeim rökum að súkkulaðikúlan sem systir hans vildi (og honum hafði boðist helmingur af) væri svo stór og hann þyrfti að fá jafn mikið. Og hlustaði ekki á það þegar við reyndum að útskýra fyrir honum að það væru ekki til minni súkkulaðikúlur og Aino myndi aldrei einu sinni borða hana hálfa (sem stóð auðvitað heima) og einn eftirréttur væri alveg nóg á mann. Og ég hélt yfir honum mikinn og lærðan fyrirlestur um að hann mætti ekki vera svona ofdekraður (einsog það sé hann sem ofdekri sig alveg sjálfur). En svo sömdum við um frið og spiluðum spil – Tecknet, Olsen/Uno, og Kleppara fram á háttatíma og það var mjög gaman. Í dag vöknuðum við klukkan rétt rúmlega sex. Tygjuðum okkur á fætur og fórum í morgunmat. Rákumst aftur á Kötlu úr Between Mountains, sem er fyrrum nemandi Nödju í MÍ, og við höfðum líka hitt kvöldið áður. Svo borðuðum við og fórum upp á þilfar. Aram Nói fylltist mjög mikilli Íslandsrómantík og vildi anda að sér íslensku lofti og snerta íslenska foldu og sjá Ísland rísa úr hafinu og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar við vorum komin að landi fórum við að leita að bílnum okkar – ekkert okkar mundi á hvaða bíldekki hann var en hann fannst samt fljótt og örugglega. Við vorum með þeim fyrstu inn í skipið og samkvæmt öllum eðlilegum rýmislögmálum, líkt hinum biblísku lögmálum, þá eru hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Við vorum reyndar ekki alveg síðust út úr skipinu en ég held við höfum verið næstsíðasti bíllinn til að komast af planinu – enda voru fæstir bílanna með svona appelsínugula miða einsog við. Þeir voru bara fyrir óbólusetta (ég hef tekið eftir því að þegar fólk kemst að því að ég er óbólusettur þá heldur það að ég sé fábjáni sem sé á móti bólusetningum – sú er alls ekki raunin en maður verður að hafa fylgst með blogginu í smástund til að átta sig á því hvernig á þessu stendur, ég get ekki verið að tíunda það hérna í hvert einasta sinn). Fyrst sagðist lögreglan telja að við ættum öll að fara í sóttkví saman – líka Nadja, sem er bólusett. Síðan sagði ég þeim að ég hefði fengið skýr svör – í tvígang – um að ég mætti ferðast með henni og raunar umgangast bólusetta (en það væri mælt með því að ég héldi því í lágmarki – helst engan nema nánustu fjölskyldu). Þá var kallað í lækni og aðra löggu til skrafs og ráðagerða. Niðurstaða þeirra var að Nadja og börnin þyrftu ekki að fara í sóttkví – það væri nóg að ég kæmi mér sjálfur afsíðis. Og betri niðurstöðu gátum við ekki vonast eftir, enda hafði allt skipulag miðað við þetta. Aram var reyndar frekar fúll að keyra ekki beint á Ísafjörð – en ég veit ekki hversu gaman honum hefði þótt í raun að vera þar læstur inni og mega ekki hitta vini sína eða neinn. Það hefði verið áþján að neita honum um það viðstöðulaust í marga daga (hann er ekki á þeim aldri að vilja endilega segjast svo auðveldlega eða finnast reglur fullorðna fólksins mjög merkilegar – sem er svo sem ágætt, en erfitt fyrir okkur íhaldssömu gamlingjana sem höfum fengið það hlutverk að gæta hans og bera ábyrgð á honum). Við byrjuðum á því að taka óþarfa rúnt í kringum Lagarfljót. Það eru nú sennilega fyrstu stóru mistökin sem við gerum í ferðalaginu. Við vorum á þvælingi þarna síðasta sumar og bjuggum þá í Hallormsstaðaskógi og fórum alltaf þessa leið og einhvern veginn gerðum við það bara líka núna. Síðan héldum við sem leið lá til Reykjavíkur, norðurleið. Þar keyrðum við meðal annars fram á slys – það voru löngu komnir nógu margir til að hjálpa en þó var ekki langt liðið frá því bíllinn keyrði út af. Þar var einn víst illa slasaður, sáum við síðar í fréttum, en hinir fjórir sluppu betur. Við máttum hvergi stoppa – eða öllu heldur mátti ég hvergi fara úr bílnum þar sem var aðstaða fyrir fólk. Ekki á bílastæðum eða þar sem eru borð eða við veitingastaði eða bensínsölur. Ég notaði því átylluna og meig á allar hæðir, hóla, runna, heiðar, tré og brúarstólpa frá Egilsstöðum að Borgarnesi. Nadja skaust svo þess á milli inn á bensínstöðvar og náði í kaffi og aðra vökva fyrir mig að míga á náttúruna. Við keyptum samlokur á Egilsstöðum til að borða í bílnum og hamborgara í Staðarskála til að borða í bílnum. Við höfum held ég aldrei keyrt svona langt í einni beit með börnin í bílnum. Við erum þvert á móti mjög gjörn á að stoppa jafnvel einu sinni á leiðinni frá Reykjavík vestur, sem er talsvert styttri leið. Börnin tóku þessum maraþonakstri furðuvel, þótt þau væru þreytt. Svo hentu þau mér úr við Hótel Smára og fóru sjálf í vinahús til gistingar. Ég áttaði mig á því þegar ég steig út úr bílnum að ég var með dálitla sjóriðu, sem kom mér einhvern veginn á óvart – það var ekkert sem ég fann fyrir meðan ég sat í bílnum. En ég er viðkvæmur fyrir sjóriðu og þekki það – þótt ég verði ekki sjóveikur, að minnsta kosti ekki í stærri bátum (af hinu hef ég svo litla reynslu að ég gæti ekki sagt til um það). Nú ligg ég hérna utan í Reykjanesbrautinni og blogga. Það er pínu skrítinn tilfinning að vera svona toxískur alltíeinu. Hættulegur samfélaginu. Án þess að neitt hafi breyst nema staðsetning manns. Eða þannig. Svo er ástandið hérna líka undarlegt – þessi vöxtur, hættan, álagið á heilbrigðiskerfið – þegar maður horfir til (margra) annarra landa er ástandið (a.m.k. hið sálræna) mun slakara. Það eru slæmar fréttir og góðar fréttir til skiptis. Og mjög margt annað í fréttum en bara covid. Hér fjalla fjölmiðlar ekki um annað og stjórnmálaflokkarnir sem ætla til kosninga í haust vilja helst ekkert annað ræða (þegar þeir eru ekki í einhverjum fullkomlega ópólitískum tittlingaskítsmetingi um hver sé með mest þvottekta öreigana í framboði). Það er eiginlega næstum einsog annað hvort fljóti aðrir sofandi að feigðarósi eða bólusetningar virki síður á Íslendinga. Þá er að síðustu undarleg tilfinning að vera í þessum stormi hérna óbólusettur. Ég las einhvers staðar í gær að Delta dræpi þrisvar sinnum fleiri af þeim óbólusettu en gamla góða covidið. Og væri á allan hátt skæðara. Mér þykir nú heldur ósanngjarnt eftir allt þetta vesen, ef ég á svo bara að fara að deyja.