Allt verður svo forvitnilegt í faraldri. Og kannski er áhugaverðast að sjá hvað við höfum þrátt fyrir allt stundum rosalega litla aðlögunarhæfni. Eða – kannski ekki við sjálf, en kerfin sem við höfum smíðað okkur gera ekki ráð fyrir frávikum. Þetta eru í sjálfu sér engar fréttir með covid – í gegnum tíðina hef ég mest rekið mig á þetta í tengslum við barneignir og hjúskap. En eftir átján mánuði af covid hafa kerfin sama og ekkert lært. Fyrir utan margtíundaða bjúrókrasíu – sem er einsog hún er – má nefna að þrátt fyrir allan þann fjölda sem hefur setið í sóttkví síðustu misseri er eiginlega hálfvonlaust að fá heimsendan mat í höfuðborg landsins. Það er ekki nóg með að enginn (held ég) bjóði upp á fría heimsendingu nema maður panti fyrir morðfé heldur er sendingargjaldið bæði hátt og allir (held ég) með lágmarks upphæð fyrir sendingu sem er langt um meira en matur fyrir einn. Þannig pantaði ég hádegismat af veitingastaðnum Nings í dag og þurfti að hafa með því tvo drykki og forrétt til þess að ná upp í lágmarksgreiðsluna og svo þurfti ég að borga 990 króna sendingargjald ofan á það (sendingargjaldið telur ekki upp í lágmarksgreiðsluna heldur – ef lágmarksupphæðin er 4500 krónur getur maður ekki pantað fyrir minna en 5490 krónur). Svo er hitt að Nings er handan götunnar og það tók samt rétt tæpa klukkustund að færa mér matinn. Og það er ekki einsog þetta sé þannig veitingastaður að sósurnar séu hrærðar fyrir hvern rétt og einhver stari lærðum augum á kjúklinginn meðan hann grillast. Ég brá svo á það ráð núna að panta tvo rétti í kvöldmat til að ná lágmarkinu. Ég á þá kalda pizzu í hádeginu á morgun. Ég þarf líka að fara út af hótelinu þá – í seinni skimun – og má ekki við því að sendingartíminn sé eitthvað út úr kortinu. Matinn pantaði ég af XO í Smáralind klukkan 18.36 – hann var fljótlega skráður „í eldun“ en klukkan 19.44 fékk ég sms um að hann yrði sendur af stað klukkan 20.41. Matur sem er pantaður hálfsjö er þannig kominn til mín tveimur og hálfum tíma seinna. Ég spyr – kurteislega – hvar hin margrómaða aðlögunarhæfni kapítalismans sé? Annars hef ég það ágætt í sóttkvínni. Plön hafa breyst svolítið. Í stað þess að Nadja og krakkarnir bíði eftir mér fara þau vestur með flugi í fyrramálið. Mamma og pabbi buðu krökkunum og við áttum inneign hjá flugfélaginu út af flugi frá Egilsstöðum sem ég hefði átt að taka á morgun og ákváðum að það væri einfaldast ef Nadja færi bara líka. Ég fer í test í hádeginu og get svo rennt vestur eftir það fyrst ég er einn í bílnum. Eða – ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. Mér var sagt að ef við færum saman þyrfti Nadja að fara í sóttkví ef ég reyndist jákvæður. En ég held hún þurfi þess samt, af því við vorum saman í bátnum og á leiðinni frá Seyðisfirði – en samt átti ég helst ekki að vera í kringum hana eða börnin þessa aukadaga. Ég held þessar mótsagnir séu kannski vegna þess að maður er alltaf að spyrja ólíka aðila og allir eru að reyna að túlka ótýpískar aðstæður út frá fremur ferköntuðum reglum. Ég fæ svo niðurstöður einhvern tíma – vonandi áður en ég kem til Ísafjarðar en ef ekki verð ég bara að finna út úr því. Nadja ætlar að skilja eftir vistir í bílnum fyrir mig. Annað sem er óþægilegt er að hið opinbera segir manni að fara í fimm daga sóttkví – og biður mann að hlífa farsóttarhúsinu og kaupa sér gistingu sjálfur, með ærnum tilkostnaði – en gefur sér síðan aukasólarhring til að sleppa manni. Sjötta leynisólarhringinn. Ég fer í test á morgun á hádegi, þegar fimm sólarhringar eru liðnir, en er hugsanlega ekki laus fyrren í síðasta lagi á hádegi á mánudag. Sem þýðir að maður þarf eiginlega að kaupa sér sex nætur á hóteli upp á að nota kannski bara fimm – og ef maður býr út á landi (eða er í sóttkví á austurlandi eftir norrænu) getur maður ekki reiknað með að komast í flug fyrren eftir sex daga. Þetta gerir alla áætlanagerð erfiðari og dýrari. Ég skrifaði fólkinu á heilsuveru í gær og bað um bólusetningu, nú þegar ég er kominn til landsins. Ég hef ekki fengið neitt svar en sá að einn Facebook-vinur minn, sem er í svipuðum sporum, var beðinn um að bíða í tvær vikur – af einhverjum orsökum. Ef ég lendi í því fæ ég kannski fyrri sprautuna seinnipart ágústmánaðar, þá seinni kannski um miðjan september og telst þá fullbólusettur 1. október. Mér finnst 1. október tilheyra einhverjum öðrum veruleika, hann er svo langt undan. Ég ætlaði að fara á mánudag og líta í Tónastöðina og kaupa mér nýjan kassagítar fyrir peningana sem ég fékk fyrir SG-inn sem ég seldi kunningja mínum sem hafði haft hann í fóstri undanfarið ár og vildi síður skiljast við hann. (Já, ég veit ég var að kvarta undan því að ég væri blankur en þetta voru eyrnamerktir peningar og ég er ekki á vonarvöl, bara blankur). En með þessu nýja plani var ljóst að ég næði því ekki. Þá ákvað ég mig bara úr fjarlægð og hringdi og keypti Martin 000-15SM og lét leigubílstjóra sækja hann. Við höfum verið að dunda okkur við plokkæfingar. Ég hef líka farið í nokkra stutta göngutúra, einsog maður má víst, en það er erfitt að hitta engan – jafnvel á mjög yfirgefnum göngustígum. Það brunaði til dæmis framhjá mér óforvarendis einn strákur á rafhlaupahjóli og kom áreiðanlega inn fyrir tvo metrana. Hér á hótelinu er morgunverður fyrir þá sem eru í sóttkví milli 7.30 og 8 á morgnana, svo ég þarf að vakna snemma. Ég átta mig reyndar ekki á því hvers vegna við megum vera saman í morgunverð – þetta er víst mestmegnis áhöfn af skemmtiferðaskipi sem á að sóttkvía sig (þrátt fyrir að flestir ku bólusettir). Svo hefur verið bankað og ég spurður hvort ég vilji láta þrífa herbergið – og einu sinni vildi starfsmaður senda inn mann með nýtt sjónvarp (sjónvarpið sem er hérna er víst minna en sjónvarpið sem á að vera hérna). Ég sagðist aldrei horfa á sjónvarp og spurði hvort það væri ekki hægt að gera þetta seinna. Kannski tekur þetta enginn alvarlega. Það eru enn tuttugu mínútur í að maturinn minn fari af stað. Ég er að narta í homeblest en ég er orðinn mjög svangur. Megi XO og Nings og Aha.is og allt það batterí fara beinustu leið á hausinn við fyrsta tækifæri. En ekki fyrren ég er búinn að fá matinn minn samt.