Heimferðin var einföld þegar ég var laus úr sóttkvínni. Krakkarnir fóru vestur með flugi á sunnudaginn en Nadja varð eftir og keyrði með mér strax eftir að ég var búinn í testinu (hún mátti það). Ég var svo kominn upp á Steingrímsfjarðarheiði þegar sms-ið kom um að ég væri covid-laus. Um kvöldið fórum við fagnandi í mat hjá mömmu og pabba og komum okkur svo fyrir hjá vinafólki okkar, sem eru í Litháen yfir sumarið. Þar fór vel um okkur fram á þriðjudagskvöld að við fengum skilaboð um að okkur væri óhætt að koma í húsið okkar – sem við höfðum búist við að komast í á miðvikudagskvöld eða fimmtudagsmorgun. Ég kíkti á skrifstofuna. Hitti Godd, sem er hér í residensíu, og náði stuttu spjalli sem átti að lengja í síðar. Spjallaði við Kjartan. Leit við í kaffi hjá Ödda og Vali bróður og kíkti í búðina til Dóru systur og át hádegismat með Smára og Hála. Skoðaði nýja bílskúrinn hans pabba. Þetta voru góðir dagar og sólin skein næstum viðstöðulaust. Krakkarnir voru allan tímann einhvers staðar bara. Aram hjá Hálfdáni fóstbróður sínum og Aino hjá ömmu sinni og afa. Aino kom að vísu og gisti á miðvikudagskvöld en Aram fékk leyfi til að vera hjá fóstbróðurnum hinn umsamda tíma, fram á fimmtudag. Vinur okkar var búinn að vera í einangrun með dóttur sinni í tvær vikur en átti að komast út á fimmtudag og var á leiðinni úr bænum strax á föstudag vegna vinnu, svo ég ákvað að slá í svona innkomu/útkomu veislu til að fagna lausn hans og heimkomu okkar á fimmtudagskvöld, og bauð þremur fjölskyldum með börnum og alles. Dagurinn fór síðan mest í að plana og kaupa inn – steinbít, rækjur, pylsur, kjúkling og fleira á grillpinnanna, caipiroskur og bjór á línuna. Það vantaði bara að við fengjum staðfest að Dan slyppi úr sóttkví – sem svo barst upp úr fjögur. Ég var búinn að skera svona helminginn af matnum á pinnana þegar sóttvarnarlæknir hringdi og sendi okkur aftur í sóttkví. Ég afbókaði veisluna, sendi vinkonu Ainoar (sem var sjálf nýkomin úr einangrun með pabba sínum) heim og lét senda Aram til okkar – hann kom þá loksins heim og fór beint í einangrun. Mamma vinar Arams og vinkonu Ainoar hafði greinst jákvæð og þótt börnin hefðu lítið verið inni á heimilinu og svo til ekkert nálægt mömmunni var vinur Arams byrjaður að sýna einkenni og því fór sem fór. Við töldum strax líklegast að Aram væri þá smitaður – þeir höfðu sofið í sömu strákakös um nóttina – og hann var settur í einangrun hér heima þar sem hann dúsar. Hann er einn með baðherbergið uppi og fær mat og skemmtiefni upp að dyrum. Í gærmorgun var honum húrrað í test með litlum fyrirvara og fékk jákvætt út úr því. Hann er, vel að merkja, einkennalaus – einsog við öll (eða ég veit ekki með mig, nojan mín veit ekkert hvað er einkenni og hvað er hystería lengur). Það var ekki á dagskrá að testa okkur strax en við fengum það í gegn samt áðan að við færum í test á morgun – meðal annars vegna þess að það gæti breytt landslaginu hérna heima. Ég er auðvitað óbólusettur – og missi af bólusetningunni sem ég átti að fá í vikunni; með þessu áframhaldi verð ég síðasti viljugi maðurinn til að fá bólusetningu á vesturlöndum – þannig að það væri ágætt að vita hvort Nadja eða Aino eru smitaðar upp á knús og nálægðir að gera. Ef annað hvort okkar hjónanna er síðan smitað og hitt ekki væri ráð að skipta fjölskyldunni upp svo hinir smitlausu fari annað, ef hægt er að koma því við. Þá myndi Aram a.m.k. losna úr herberginu sínu og geta valsað um húsið. Ég er auðvitað 100% viss um að ég sé smitaður. En ég er það eiginlega alltaf, nema þegar ég er 100% viss um að ég sé löngu búinn að fá þetta. Rétt í byrjun covid fékk heiftarlega mánaðarlanga flensu – og ég fór á spítalann, þar sem ég spurði meðal annars hvort það væri ástæða til að testa mig við covid, en var sagt að það væri óþarfi (þá voru engin smit á Íslandi – þetta var í lok febrúar – en ég varð veikur beint í kjölfar þess að ég sótti Aram á Keflavíkurflugvöll, þar sem ég meðal annars tók í höndina á amerískri flugfreyju – ég gef því samt ekki nema nokkur prósent líkur á að þetta hafi verið covid). Maður spyr sig síðan um framhaldið. Ekki bara fyrir okkur heldur fyrir landið og heiminn einhvern veginn. Ef ég skil þetta rétt er ekki lengur valkostur að berja veiruna alveg niður – bæði sé smitið of mikið og það sé hreinlega ekki annað æskilegt en að hún berist varlega um samfélagið. Ef við erum þá að horfa á svipaðar smittölur – um 100 manns á dag, 700 á viku – og allir sem hafa verið í lágmarks samskiptum við einhvern veikan fara í sóttkví, þýðir það væntanlega að það verða allir alltaf í sóttkví í vetur (og kannski næstu árin). Í Svíþjóð hefðum við ekki farið í sóttkví hérna fyrren Aram greindist jákvæður – Aram hefði farið strax í sóttkví en við hin hefðum sinnt okkar lífum einsog ekkert hefði í skorist (nema kannski með færri knúsum). Kannski er valkostur að hemja útbreiðsluna ennþá meira með því að búa til alls konar búbblur. Draga úr mannlegu samneyti um ófyrirsjáanlega framtíð. Skammta börnunum vini, skera sína eigin við nögl. Banna veislur – ef þess þarf, þær eru nú þegar svo ólystugar. En ef það hægist mikið útbreiðslunni náum við líka hægar hjarðónæmi. Smitist 100 manns á dag og 300.000 þurfa að smitast tekur það 3000 daga. Það eru rúmlega átta ár. Og Landspítalinn á nippinu allan tímann og allir alltaf í sóttkví og börn fá ekki nema 60% af eðlilegu námi og 30% af eðlilegum vinatengslum. Þá er áreiðanlega einhver von í nýjum bóluefnum – en líka nýtt vonleysi í nýjum og verri afbrigðum. Fyrir utan þreytu og áhyggjur höfum við það nú samt ágætt. Það er meira gaman að vera í sóttkví heima hjá sér en á hótelherbergi og það er líka minna stress en að vera að reyna að flytja við þessar aðstæður. Nú erum við komin heim. Dótið okkar er á leiðinni og það verða einhver ráð með að koma því inn í hús þótt við séum í sóttkví. Við eigum sæg af góðu fólki að hérna sem hefur varla undan við að bjóðast til að sinna erindum fyrir okkur eða flytja okkur kökur og bækur og vinylplötur og góðgæti algerlega óumbeðið. Við erum búin að bera svolítið af dóti úr bílskúrnum inn í hús og skiljum satt best að segja ekkert í því af hverju við þurfum að eiga alla þessa hluti. Samt er einhvern veginn erfitt að skiljast við þá. En vonandi hefst það. Allt fer þetta svo einhvern veginn.