Mitt bardús og bardús annarra

Það er óvenju mikið líf í bloggheimum þessa dagana. Þórdís Gísla, Snæbjörn Arngríms og Hermann Stefánsson birta öll reglulega pistla, líkt og Lóa Björk í Lestinni (yfirskriftin þar er reyndar „Lóa ekki í lestinni“ svo kannski er það einhver önnur Lóa eða bara sama Lóa stigin af Lestinni). Það þarf svo sjálfsagt ekki að taka það fram að Ármann Jakobsson bloggi alla virka daga – það held ég standist alltaf – en það er því miður orðið langt síðan Bragi Ólafsson bloggaði alla daga. En þetta finnst mér gaman og þessi blogg öll skemmtilegri og fróðlegri en bæði fréttasíðurnar og samfélagsmiðlarnir samanlagt. Það eru hlekkir á þessi blogg og fleiri (misvirk) hér hægra megin einsog venjulega. *** Ég er á fjórða degi upplestrarferðar minnar – í kvöld verð ég í sveitaleikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal. Það er mjög sérstakur staður – yndislegur hreinlega. Ég hef heyrt af einhverjum þreifingum Ísfirðinga sem langar að fara þangað en annars á ég auðvitað mest von á Dýrfirðingum. Í gærkvöldi var ég á Fisherman Café á Suðureyri og í fyrradag á hinum sögufræga Vagni á Flateyri. Allt eru þetta staðir sem er haldið út af hugsjón og ástríðu af góðu fólki sem ber umhyggju fyrir sínu samfélagi – góðir heim að sækja. Ég veð auðvitað blint í sjóinn með hvort nokkur mæti á þennan túr eða hvort ég selji bækur – og lofaði því víst einhvers staðar að alveg sama hversu illa gengi myndi ég aldrei játa annað en stórsigur á þessu bloggi – en get með sanni sagt að þetta hafi verið afar ánægjulegt hingað til. Það er samt pínu skrítið að vera „farinn á túr“ en vera enn heima hjá sér. Það er ekki nema klukkustundarakstur í Haukadal – og á morgun verð ég í Bolungarvík, sem er næsti bær við Ísafjörð – og því er ég auðvitað ekki „farinn“ neitt enn. Ég sef heima hjá mér um nætur. Og oft á dag rekst ég á fólk sem spyr, furðu lostið: „Ert þú ekki farinn?“ eða „Ég hélt þú værir farinn?“ Það er næstum að ég gruni fólkið um að vera byrjað að bardúsa eitthvað sem ég átti alls ekki að verða vitni að – það hafi treyst því að ég væri farinn. Þessu fólki til hughreystingar vil ég nefna að ég fer á föstudagsmorguninn. Eða, svona upp úr hádegi líklega. Ef þið viljið vera alveg viss um að vera í friði við ykkar einkalega bardús skuluð þið ekki sleppa af ykkur beislinu fyrren eftir klukkan eitt.