Það er undarlegt að halda bara sjó í jólabókaflóðinu milli þess sem maður hlustar á fréttir. Ég er á löngu bókaðri ferð og eðli málsins samkvæmt upptekinn við að hugsa um annað en barnsmorð á Gaza og skammast mín fyrir það alltaf þegar hugurinn hvarflar aftur þangað – sem gerist auðvitað oft á hverri klukkustund, því stríðið er alls staðar í sameiginlegri vitund okkar, í fréttum og á samfélagsmiðlum og samræðum og eins manns hljóðum. Einsog ég eigi að vera að gera eitthvað annað og alls ekki að ganga vel. Ekki það að skömm mín hafi neinn tilgang eða ég ætli að skreyta mig með henni. Hún bara er og mér fannst ég þurfa að nefna hana. Ferðin gengur annars vel, sem sagt, og bókakassarnir eru að verða tómir. Forlagið ætlar að redda mér nýjum kössum sem ég get vonandi sótt á Egilsstöðum á morgun. Það er svolítið misvel mætt, einsog ég hafði auðvitað reiknað með – það er ekki alveg einfalt að prómótera svona ferð með nákvæmlega ekkert budget – og ég er afar þakklátur öllum sem deila viðburðum á Facebook eða láta af upplestrunum vita á annan hátt. Bókmenntir eru word-of-mouth bransi, það er bara þannig. Heilt yfir hafa viðtökurnar hins vegar verið mjög góðar og á stöku stað (halló Patreksfjörður! halló Siglufjörður!) var tekið á móti mér einsog konungbornum og ég hreinlega leystur út með gjöfum.
Þetta er vel að merkja ekki bara upplestur – heldur meira einsog fyrirlestur um bókina með litlum upplestrum á milli, þetta er sjó. Og svo er spjall á eftir. Stundum læt ég gamlar myndir malla með – stundum sýni ég myndband. Og það hefur alltaf verið gaman. Í dag er fyrsti dagurinn á ferðinni sem ég les bara einu sinni – á Húsavík kl. 17, á kaffihúsinu Hérna – og ég hef notað tækifærið til að taka því rólega. Fór út að skokka í morgun, eldaði mér heitan mat í hádeginu og hringdi í pabba sem er úti á Benidorm. Áður en ég læt mig hverfa úr bænum (ég er enn á Akureyri) ætla ég líka að taka aðeins til í bílnum. Eftir upplesturinn á Húsavík brenni ég svo yfir á Egilsstaði þar sem ég gisti í nótt – og verð varla kominn fyrren seint. Ferðaveðrið hefur verið algert dekur hingað til en nú var minn maður á Veðurstofunni, sem hefur haldið utan um þetta fyrir mig, að greinast með covid og mér sýnist að það verði orðið hvasst þegar ég fer að keyra eftir suðurlandinu. Ef það fer að snjóa er ég sem betur fer með gott fólk líka hjá Vegagerðinni sem hefur lofað að halda öllum vegum opnum. Þetta eru annars næstu (opnu) upplestrar – þið megið endilega láta orðið ganga: 31. október. Húsavík . Hérna kl. 17. [Facebook-viðburður] 1. nóvember. Egilsstaðir . Tehúsið kl. 20. [Facebook-viðburður] 2. nóvember. Borgarfjörður eystri . KHB ölstofa kl. 20. [Facebook-viðburður] 3. nóvember. Breiðdalsvík. Beljandi kl. 20. [Facebook-viðburður] 4. nóvember. Neskaupsstaður . Þórsmörk kl. 20. [Facebook-viðburður]