Bíó

Þegar ég skrifaði Illsku rakst ég á nokkra stutta kvikmyndabúta sem höfðu verið teknir í Jurbarkas árið 1927. Ég var langt kominn með bókina og það var mjög undarleg tilfinning að sjá þetta – hina raunverulegu Jurbarkas, þar sem ég hafði í einhverjum skilningi þó dvalið lengi. Og auðvitað hafði ég séð ljósmyndir og þekkti ýmislegt – og það var ekkert úr þessum myndböndum sem ég „notaði“ beinlínis. En ég var samt einhvernveginn alveg sleginn. Bíó getur verið svo magnað. Breytir öllu, lífgar allt og fjörgar. Ég hef ekki horft á þessi brot –  sem eru fleiri en þetta eina hér að ofan – í mörg ár. En fyrir svona ári síðan – þegar ég var langt kominn með Náttúrulögmálin – lenti ég í svipaðri reynslu með myndband af Ísafirði frá árinu 1923, tveimur árum áður en bókin á að gerast. Nema nú þekkti ég auðvitað miklu fleira – ekki síst þessi fjöll, sem hafa ekkert haggast á 100 árum. En líka hús og staði. Þetta er tekið hér og þar. Fyrst sér maður niður reitana í áttina að Hinum sameinuðu íslensku verslunum – sem var síðar breytt, gluggar fjarlægðir, húsið steinað og breytt í pósthús. Það er enn merkt Pósti og síma þótt pósturinn sé annars staðar. Svo er einsog fólk sé að koma niður Fjarðarstrætið, þar sem síðar var Íshúsfélag Ísfirðinga, úr einhverjum fögnuði sem mér finnst líklegt að hafi þá verið á Eyrartúni (þar sem tveimur árum síðar reis sjúkrahús – nú safnahús). Einsog kemur berlega fram er myndbandið tekið á 17. júní. Ég er hins vegar svo hægfattandi að það var ekki fyrren eftir svolítinn tíma að ég fór að spyrja mig hverju í fjáranum fólkið hefði verið að fagna 17. júní 1923 . Einhver stakk upp á því að kannski hafi vestfirðingar þá þegar verið farnir að agitera fyrir því að 17. júní yrði hátíðisdagur og má vel vera. Ég hef svo sem ekkert reynt að grafast fyrir um það, en fólk er prúðbúið og það er greinilega gaman. Mér sýnist reyndar líka að það sé verið að flagga danska fánanum [viðbót: missýn, en er þetta íslenski?]. Svo kemur smá skeið af fyrsta bílnum – sem var áreiðanlega eini bíllinn á Ísafirði þetta sumar. Síðan eru nokkrar yfirlitsmyndir, þá dálítil bátsferð og loks yfirlitsmynd af Flateyri. Það er samt eiginlega skemmtilegast að horfa bara á fólkið. Ótrúlega gamansamt og hresst – fólk er svo oft alvarlegt á ljósmyndum, en á þessum hreyfimyndum er stuð, fólk fíflast, stríðir hvert öðru, ýtist jafnvel. Einhvern veginn er þetta allt önnur mynd af fortíðinni en sú sem maður fær á ljósmyndum eða skrifuðum heimildum. *** Af túrnum er það helst að frétta að ég er kominn í Fjarðabyggð. Búinn að lesa fyrir starfsmenn bæjarskrifstofunnar og fer á Hulduhlíð á eftir og verð svo á Beljanda í kvöld. Ég ætla að gangast við því hér að vera orðinn svolítið ferðalúinn – og ætla að fá mér síðdegislúr á eftir til að vera í toppformi í kvöld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *