Það opnaðist eitthvað í mér þegar ég las Gösta Berlings Saga eftir Selmu Lagerlöf í fyrsta skipti, uppnuminn yfir því hvernig hið yfirskilvitlega var samofið hinu hversdagslega á máta sem ég kann ekki að kalla annað en lífsjátandi. Ég var líka langt kominn með Náttúrulögmálin og sennilega talaði þessi prestasaga Lagerlöf enn frekar til mín af þeim sökum. Hún segir af drykkfelldum presti – ægilega myndarlegum – sem er sviptur hempunni fyrir óreglu og ætlar að svipta sig lífi í framhaldinu, en er bjargað af majorsfrúnni á Eikabæ (kannski talaði þetta nafn líka til mín!) Þessi maður er auðvitað Gösta Berling, guðsmaður, ósigrandi kvennaljómi og fyllibytta. Eftir lífgjöfina flytur Gösta á Eikabæ þar sem majorsfrúin heldur heilan hóp af mislukkulegum og afar skrautlegum „kavalérum“ sem lifa bílífi á ríkidæmi hennar. Sögunni vindur svo áfram með alls kyns vendingum og margar ólíkar persónur enda í fókus áður en yfir lýkur – en sameiginlegt þema er annars vegar átök lífsgleðinnar og lífsbaráttunnar og hins vegar þetta hvernig þjóðsögur og trúmál ryðjast yfir allt, eru jafn raunveruleg og önnur viðfangsefni lífsins. Ég veit ekki hvort það er algengur lestur – mér sýnist ekki – en ég las hana alltaf þannig að það væri opið að hið yfirskilvitlega væri afleiðing lífsgleðinnar, og fólkið á og í kringum Eikabæ skynjaði kannski ekki heiminn sama skilningi og einhverjir meðaljónar, að öll þessi lífsgleði og lífsbarátta gerði þau næmari og nojaðri, svona einsog maður hlýtur að vera ef maður er alltaf ýmist drukkinn eða þunnur, ástfanginn eða hamslaus af losta, sérstaklega á tímum þar sem ekki var búið að faststilla veruleikann jafn rækilega og í dag. Ég tengdi bókina aldrei sérstaklega við töfraraunsæið fyrren ég sá það gert einhvers staðar annars staðar – það kemur úr annarri átt, hefur annan blæ. Og ég er ekki mikill töfraraunsæismaður – þótt ég hafi hrifist af Hundrað ára einsemd þegar ég var unglingur. Áður en ég las Gösta Berling hafði ég meira haft í huga skáldsögur einsog Gestaboð Babette , East of Eden , Meistarinn og Margaríta og staka tilvitnun í Siri Hustvedt, sem hefur bergmálað í hausnum á mér í einhver misseri, um að það að skrifa skáldsögu sé áþekkt því að „rifja upp eitthvað sem hafi aldrei átt sér stað“ (sem rímar við tilvitnun sem ég hafði lengi eftir Hemingway, en hefur aldrei tekist að slá upp, um að í skáldskap lýsi maður ekki atburðum einsog þeir „gerðust“ heldur einsog þeir „voru“). Þá benti Vera, ritstjórinn minn, mér líka á ákveðin líkindi við Glataða snillinga , sem er bók sem mér hefur alltaf þótt vænt um. Það hefur sjálfsagt ekki heldur farið framhjá neinum sem ratar hingað inn að ég er búinn að vera að velta fyrir mér Ísfirskum bókmenntum um dálitla hríð – þ.e.a.s. bókum sem gerast hér eða á næstu grösum – og sú bæjarsýn sem má finna hjá Rúnari Helga, Bennýju Sif, Nirði P. Njarðvík, Huldari Breiðfjörð, Arnrúnu á Felli o.s.frv. hefur augljóslega haft heilmikil áhrif á það hvernig ég sé minn eigin ísfirska bókmenntaheim. Og svo ég nefni annan sænskan höfund, þá spegla ég stundum Vestfirðina í íslenskum bókmenntum í Norrlandi í sænskum bókmenntum, og féll kylliflatur fyrir Norrlandssögum Torgnys Lindgren, ekki síst Lokasuðunni ( Pölsan ) sem var að koma út í íslenskri þýðingu Heimis Pálssonar. Og auðvitað gæti ég haldið áfram endalaust að rifja upp verkin sem hafa lónað í höfðinu á mér meðan ég var að skrifa – skilin eru sannarlega ekki skýr, og allt hefur áhrif, allt litar út frá sér, og ég fagna slíku, lít á bókmenntirnar sem heildarverk okkar allra, það á að flæða á milli. En ég læt samt staðar numið í bili.