Ég fékk ekki hjartaáfall í fyrstu heimsókn minni á líkamsræktarstöð á þessu herrans ári, 2024, þrátt fyrir ótæpilega neyslu sykurs, fitu, salts – og meira að segja tóbaks og áfengis – yfir hátíðirnar. Það get ég engu þakkað öðru en góðum genum, ef ég fengi það sem ég á skilið væri ég áreiðanlega steindauður. Ég sór alls kyns eiða á áramótum og stend meira og minna við þá alla. Ég hef aldrei átt erfitt með standa við það sem ég ætla mér – það snýst ekki um annað en að kunna sér hóf og þekkja sjálfan sig. Flestir sneru eiðarnir að andlegri og líkamlegri heilsu, en næstflestir að menntun – bóklestri og tungumálanámi. Ég setti mér engin markmið í músík (önnur en að taka þátt í Fiðlaranum) – en það verður nú áreiðanlega eitthvað músíserað samt. Líkt og í upphafi árs 2021 er ég hættur að nota samfélags- og fréttamiðla. A.m.k. í bili en kannski bara fyrir fullt og allt. Við þetta sparast óhemju tími. En á móti kemur að ég var fyrst að frétta núna að Guðni Th. ætli ekki að bjóða sig fram til forseta. Degi seinna en flestir aðrir. Ég hef því einum degi færra til þess að undirbúa mitt eigið framboð, ef svo kynni að fara að ég vildi bjóða mig fram, þegar fólk er búið að koma að máli við mig og ég leggjast undir feld. Ég er degi á eftir. Og líka degi á eftir með að skora á aðra ef ég, af örlæti mínu, eftirlæt embættið einhverjum öðrum. Hvern myndi maður skora á? Kannski Hermann Stefánsson – hann skrifar svo fallega um Náttúrulögmálin á bloggið sitt í gær. „Bók ársins“ segir Hermann. Góður forseti þarf einmitt að vera góður og glöggur lesandi. Ég hugsa líka að Hermanni þætti skemmtilegt að vera forseti og ekkert er mikilvægara en að manni finnist það skemmtilegt sem maður tekur sér fyrir hendur. Maður þarf að njóta ferlisins, vinnunnar, öðruvísi verður maður aldrei góður í henni. Á móti kemur að þá myndi Hermann sennilega skrifa færri bækur á meðan – en bækur hans myndu vekja meiri athygli, líka eldri bækur hans. Annars yrði Lommi líka flottur forseti. Og Ásta Fanney. Að vera forseti er ekki svo ósvipað því að vera framúrstefnuljóðskáld. Svo gæti Davíð loksins orðið forseti og þá yrði Morgunblaðið frjálst. Það er hláka á Ísafirði. Í gærkvöldi varð skyndilega funheitt í húsinu þegar hitinn úti fór skyndilega úr 11 mínusgráðum í 5 plúsgráður. Við fjölskyldan vorum að horfa á Star Wars Episode I og vorum öll farin að hátta okkur ískyggilega mikið í sófanum áður en yfir lauk. Ég hélt fyrst þetta væri bara meltingin í mér – líkami minn er brennslumusteri fyrir hangikjöt og jólaöl. Eitt af því sem ég ætla að gera meira af á nýja árinu er að drekka instant-kaffi. Það er betra en af er látið og svo á maður bara að venja sig af snobbi (það er samt of flókið nýársheit að „venja sig af snobbi“ – gæti þýtt hvað sem er).